Auðlindaumræðan

Áhugaverð umfjöllun hefur farið fram nú í maí 2008 á vettvangi ritstjórnar Morgunblaðsins um auðlindir Íslands til lands og sjávar. Afstaða ritstjórnarinnar til afnotagjalds sjávarútvegs til ríkissjóðs á grundvelli auðlindarentu, sem er hugarfóstur eitt, er jafnþekkt og hún er óraunhæf.

Af málflutninginum upp á síðkastið mætti ætla, að ritstjórn Morgunblaðsins sjái í hillingum einhvers konar sölusamlag íslenzkrar orku, því að blaðið hefur áhyggjur af því, að samkeppni orkuvinnslufyrirtækjanna leiði til undirboða til stórnotenda.  Þó að vissulega mætti almennt búast við, að einkafyrirtæki í þessum geira næðu betri viðskiptalegum árangri en opinber, eins og alls staðar annars staðar, eiga Þessar vangaveltur blaðsins sér ekki stoð í raunverulegum markaðsaðstæðum á Íslandi. Þær eru í fáum dráttum þannig, að mikil umframeftirspurn er eftir sjálfbærri raforku á Íslandi, eins og komið hefur fram á opinberum vettvangi.  Það er fólgið í því órökstutt vanmat á íslenzkum orkuvinnslufyrirtækjum, þó að þau stærstu séu í opinberri eigu, að þau semji af sér og nái ekki "heimsmarkaðsverði" fyrir sína vöru.

 

Sannleikurinn er sá, að í samningum við erlenda orkukaupendur eru íslenzkir orkuseljendur aðeins í litlum mæli að keppa hver við annan; aðalkeppinautarnir eru erlendis.  Íslendingar keppa við jarðgas, sem er aukaafurð olíuvinnslu við Persaflóann, og þeir keppa við önnur vatnsorkulönd og síðast, en ekki sízt, við síbætt kolakynt raforkuver, jafnvel með fjarvarmaveitum. 

 

Þó að íslenzkar virkjanir hafi hingað til fallið í hóp sjálfbærra virkjana og afturkræfra mannvirkja, er ekki þar með sagt, að gæði raforkunnar séu hin beztu í heimi.  Stofnkerfið er tiltölulega veikt, og lítið má út af bera til að ekki verði afl-eða orkuskortur í kerfinu.  Þá eru aðdráttarleiðir hráefna og afurða langar, og óvissa er um afdrif mannvirkja og orkuafhendingar vegna jarðskjálfta og eldgosa.  Á móti þessu tefla orkuseljendur hérlendis  hreinni orku, samkeppnihæfu starfsfólki og stöðugu stjórnmálaástandi.  Af þessu er ljóst, að íslenzkir orkuseljendur eru í harðri samkeppni við orkuseljendur í útlöndum. 

Öll vötn falla nú til Dýrafjarðar, þegar þróun "heimsmarkaðsverðs" til stórnotenda er annars vegar.  Meðalorkuverð til slíkra notenda fer hækkandi bæði hérlendis og erlendis.  Þetta á ekki sízt við um álverin vegna mikillar spurnar eftir áli, sem helzt í hendur við hækkandi orkuverð, af því að álnotkun í stað þyngri melma hefur í för með sér orkusparnað.

 

Nýbirt mat Skipulagsstofnunar ríkisins á tillögu Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að virkjunartilhögun á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu er vafalaust reist á vönduðum vinnubrögðum.  Þó hefur aldrei verið sýnt fram á með vísun til staðreynda, að virkjanir fæli ferðamenn frá.  Miðað við áætlaðar mótvægisaðgerðir OR má þvert á móti búast við meiri ferðamennsku um svæðið eftir virkjun en áður.  Þeir, sem ekki vilja sjá nein mannanna verk, þegar þeir ganga á vit náttúrunnar, hafa eftir sem áður megnið af Íslandi til að ferðast um og njóta.  Virkjanir munu aldrei spanna nema fáeina hundraðshluta af landinu.

Ýmsir hafa haft uppi efasemdir um sjálfbærni hraðfara aukningar á nýtingu téðs jarðhitasvæðis til raforkuvinnslu.  Í þeim hópi eru bæði eldri og yngri kunnáttumenn á þessu sviði.  Áhættugreining Skipulagsstofnunar á þessu virðist hafa leitt til þeirrar niðurstöðu, að of mikil áhætta fyrir sjálfbærni jarðvarmanýtingar þarna mundi fylgja frekari virkjunum.  Ástæðan er sú, að um er að ræða framtíðar hitaveitusvæði höfuðborgarsvæðisins.  Það verður komandi kynslóðum miklu dýrara að sækja heitt vatn til húshitunar annað en það er núverandi kynslóðum að fresta frekari virkjunum á þessu svæði þangað til hægt er framleiða rafmagn úr sömu gufunni og notuð er fyrir heitavatnsvinnsluna.  Með þeim hætti allt að sexfaldast nýtni orkuvinnslunnar miðað við einvörðungu raforkuvinnslu úr gufunni. 

Veitandi rannsóknarleyfa á hugsanlegum virkjanasvæðum á Íslandi hefur á stuttum ferli sínum í iðnaðarráðuneytinu farið gandreið um heiminn til að kynna getu Íslendinga til jarðhitarannsókna og virkjana.  Á sama tíma hefur hann þverskallazt við að samþykkja nokkra umsókn um rannsóknarleyfi á áður ókönnuðum svæðum á Íslandi.  Kominn er tími til, að Þjóðviljaritstjórarnir fyrrverandi í iðnaðarráðuneytinu reki af sér slyðruorðið og veiti nokkur rannsóknarleyfi.  Spyrja má, hvar má virkja, ef það má hvorki í nálægt byggð né fjær. 

Naumhyggja ræður hér för, en ekki sá framfarahugur, sem þjóðinni er nauðsynlegur til að viðhalda lífskjörum sínum á viðsjárverðum tímum. Setja á markið á að beita beztu tækni til gjaldeyrisöflunar með sjálfbærri nýtingu vatnsorku og jarðgufu landsmönnum öllum til hagsbóta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband