7.6.2008 | 14:39
Vinstri váin
Símhleranir kaldastríðsáranna hefur borið á góma að undanförnu. Skinhelgin hefur þar klæðzt heilagri vandlætingu vegna skerðingar á friðhelgi einkalífsins. Staðreynd er, hvað sem kattarþvotti vinstri manna líður, að hópur fólks sá fyrir sér Sovét-Ísland í bleikum bjarma austursins.
Átrúnaðargoðin hétu Karl Marx, Vladimir Lenin og Josef D. Stalín. Dæmigerð lýsing á afstöðu þeirra, sem tóku trú á boðskap þeirra, er þessi, sem birtist í Morgunblaðinu 7. júní 2008.:
"Sem ung kona gekk amma til fylgis við alþjóðlega hugsjón sósíalismans, hugsjón sem fól í sér að hin vinnandi alþýða fengi fulla hlutdeild í að stjórna vinnuskilyrðum sínum og aðstæðum og gæti því gengið stolt til móts við nýja og betri tíma."
Hér er með roðum gylltri lýsingu lýst mestu hörmungar-og fátæktarstefnu og fjötrum, sem mannkynið hefur nokkru sinni verið hneppt í, þ.e.a.s. þjóðnýtingu atvinnutækjanna og samyrkjubúskap, ógnarstjórn, fjöldafangelsunum, brottflutningi úr heimahéruðum og fjöldaaftökum. Hver getur fullyrt, að framkvæmd "jafnaðarhugsjónarinnar" hefði orðið með öðrum hætti á "Sovét-Íslandi" ?
Svo slæmar sem símahleranir eru, sjá þó allir, að þær eru barnaleikur í samanburði við þau meðul, sem handhafar "jafnaðarhugsjónarinnar" beittu þá, sem stóðu uppi í hárinu á þeim eða þeir töldu "jafnaðarhugsjóninni" stafa ógn af.
Fyrir fólk á okkar dögum er þó eftirfarandi afstaða vinstri manna hrollvekjandi.:
"Hins vegar er engan veginn útséð um endanlegan dóm sögunnar yfir jafnaðarhugsjóninni. Hún er ung og engin ástæða til annars en að ætla að hún eigi framtíðina fyrir sér."
Það er deginum ljósara, að vinstri váin er handan við hornið á vegferð Íslendinga. Það er ekki lengur hætta á líkamlegu ofbeldi vinstri sinnaðra yfirvalda hérlendis, frelsissviptingu eða aftökum, en það er mikil hætta á eyðileggingu efnahagskerfisins með sóun á fé ríkisins, ofsköttun, skuldasöfnun, atvinnuleysi og mjög versnandi kjörum alls almennings. Allt þetta mun gerast, ef vinstri flokkarnir ná undirtökunum á Alþingi. Þá verður mynduð hér ríkisstjórn um "jafnaðarhugsjónina", sem eldri Íslendingar þekkja af biturri reynslu, að leiða mun mikinn ófarnað yfir þjóðina.
Ástæðan er sú, að vinstri menn berja enn hausnum við steininn, ríghalda í "jafnaðarhugsjónina" og neita að viðurkenna þau lögmál mannlegs samfélags, sem ein skila manninum einhverjum árangri, sem mæla má í hagsæld. Eina aðferðin til að sem flestir njóti sín er að reisa athafnalífið á einkaeign og einkaframtaki með hvata til arðsamra fjárfestinga og hárra tekna með lágum sköttum og fáum skorðum að hálfu hins opinbera til athafna, ef þær ganga ekki á rétt annarra, hvorki núlifandi né komandi kynslóða.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.