Að vera eða ekki að vera

Að vera eða ekki að vera, það er vandinn.  Þessi orð voru lögð í munn frægs sveimhuga á sinni tíð.  Nú virðist orku-og iðnaðarráðherra Íslands standa í sporum danska prinsins.  Tilefnið var þó aðeins undirritun framlengingar á viljayfirlýsingu með fulltrúa bandarísks álframleiðanda. 

Samt leikur á tveimur tungum, hvort hugur fylgdi máli hjá ráðherranum.  Hann hafði í hendi sér að stöðva iðnþróun Þingeyinga, lét það vera, en er þá vændur um, ekki sízt af samflokksmönnum sínum, að ganga í berhögg við stefnu Samfylkingar varðandi nýtingu íslenzkra orkulinda.

Ekki liggja vinstri-grænir á liði sínu við að gagnrýna ráðherrann.  Í pistli við hlið leiðara Morgunblaðsins í dag, 28. júní 2008, líkir varaþingmaður vinstri grænna Samfylkingunni í heild sinni við Ragnar Reykás.  Hvernig halda menn, að ríkisstjórn þessara flokka, t.d. undir forsæti Samfylkingar, yrði ? 

Sporin hræða frá Reykjavík R-listans, þar sem doði var aðaleinkennið, lóðaskortur og lóðaokur, samgöngumannvirki sátu á hakanum, enda einkabíllinn bannfærður.  Á sama tíma var útsvar höfuðborgarbúa keyrt úr lágmarki í hámark og ýmsir nýir skattar lagðir á. 

Það hefur ekki legið í augum uppi, hvers vegna stjórnmálaflokkar hafa lagt fæð á orkukræfan iðnað á Íslandi.  Nú er samt að sannast mikilvægi fjölbreytninnar fyrir þjóðarbúskapinn.  Sjávarútvegurinn býr við mikinn aflasamdrátt.  Fjármálageirinn er í alþjóðlegri lægð, svo að ekki sé fastara að orði kveðið.  Í ferðamannaiðnaðinum er boðaður mikill samdráttur og hrikalegar uppsagnir.  Hvernig halda menn, að staðan væri í þessum geirum með stífan gjaldmiðil hér ?  

Hins vegar er metverð á raforku til álvera vegna spurnar eftir áli, sem er meiri en framleiðslugetan nú um stundir.  Fullyrða má, að orkusala frá íslenzkum virkjunum og framleiðsla stóriðjunnar, sem knúin er þessari endurnýjanlegu orku, minnkar til muna þann efnahagslega öldudal, sem þjóðin er að lenda í.  

Í Morgunblaðinu í dag birtist viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við frægan poppara.  Poppari: "Ég vil undirstrika það sem ég hef oft sagt: ég er ekki á móti virkjunum.  Ég er á móti samstarfi við Alcoa og flest svipuð erlend stórfyrirtæki."  Þarna lá hundurinn grafinn, og þráðurinn er greinilega órofinn frá hinni hatrömmu baráttu Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins gegn erlendum fjárfestingum í iðjuverum á Íslandi. 

Nú er það þekkt, að téð fyrirtæki hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir öryggi, hollustuhætti á vinnustöðum sínum og umhverfisvernd.  Það er þess vegna aðeins hægt að draga eina ályktun af framgöngu virkjana-og stóriðjuandstæðinga á Íslandi.  Á tímum alþjóðavæðingar hefur þá dagað uppi í kreddum sínum og fordómum gegn starfsemi fyrirtækja í erlendri eigu á Íslandi. 

Iðnaðarráðherra, sem verið hefur ötull málsvari íslenzkrar útrásar, sem reist er á sömu alþjóðavæðingunni, þarf þess vegna ekki að bera kinnroða fyrir undirskrift sinni.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband