Loddarar

Viðtal StöðvarStaða bankanna 2 við formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem sýnt var að kvöldi fimmtudagsins 18. september 2008, var hressandi sem tær fjallalind þyrstum manni, enda reis gengi íslenzku krónunnar strax morguninn eftir.  Er jafnlíklegt orsakasamband þar á milli og á milli orða forseta lýðveldisins um styrkleika efnahagskerfa Asíu á núverandi erfiðleikaskeiði Vesturheims og þess, að daginn eftir birtingu þess viðtals kolféllu verðbréf í Asíu. 

Það var rétt tímasetning hjá seðlabankstjóra að tjá þjóðinni hug sinn um þá, í mörgum tilvikum meira eða minna málhalta talsmenn bankanna, sem tala af lítilsvirðingu eins og óvitar um gjaldmiðil íslenzku þjóðarinnar.  Þetta er framferði þeirra, sem taka skortstöðu gegn íslenzku krónunni, og er lítt til virðingar fallið.  Það hafa verið leidd að því rök, m.a. af hagfræðingum, að dýfur krónunnar, þegar líður að ársfjórðungs uppgjöri bankanna, stafi af mikilli sölu á krónum til að kaupa gjaldeyri, svo að ársfjórðungs uppgjörið líti betur út. Í morgunþætti á útvarpsstöð föstudaginn 19. september 2008 heyrðist þekktur hagfræðingur áætla, að gjaldeyrisvarasjóður bankanna næmi alls um 1000 milljörðum króna, sem er tvöfaldur gjaldeyrisvarasjóður Seðlabanka Íslands.  Er ljóst, að eitthvað verður undan að láta við aðfarir sem þessar.  Bankarnir svífast einskis í baráttu fyrir lífi sínu á viðsjárverðum tímum, og þeim virðist takast betur upp en mörgum öðrum bönkum, eins og dæmin sanna frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku. 

Skammtíma hagsmunir bankanna og Litlu-Gunnu og Litla-Jóns, sem þó halda þeim nú á floti með innlánum sínum, virðast ekki fara saman, en langtíma hagsmunirnir eru þó sameiginlegir.  Þeir snúast um að hámarka hagvöxtinn á Íslandi.  Starfsemi bankanna gegnir þar lykilhlutverki, en á undanförnum árum fóru þeir offari á sviði ráðninga, launa og erlendrar skuldsetningar.  Það væri þó hræðileg afturför, ef kæmi til þjóðnýtingar á þeim.  Eigendur þeirra verða einfaldlega að súpa seyðið af gjörðum sínum, og ríkissjóður að einskorða sig við að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda. 

Nýleg rannsókn leiddi í ljós, að fjármagnskreppur fortíðarinnar hafa að meðaltali kostað viðkomandi ríkissjóði 16 % af VLF/a (verg landsframleiðsla á ári).  Á íslenzkan mælikvarða losar þetta 200 milljarða króna.  Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin hafa á skömmum tíma áttfaldað gjaldeyrisvarasjóðinn, sem nú nemur um 500 milljörðum króna.  Þetta er þó engan veginn tapað fé, enda ávaxtar það sig að megninu til á erlendum reikningum.  Enn er ekkert, sem bendir til, að íslenzkir skattgreiðendur muni verða fyrir skakkaföllum vegna björgunaraðgerða ríkisins á fjármálamarkaðinum.  Væri það enda algert kjaftshögg á auðvaldsskipulagið svo skömmu eftir einkavæðingu bankanna (2001). 

Það er ekki tilviljun, að bankarnir virðast standa ótrúlega traustum fótum í því gjörningaveðri, sem nú ríður yfir.  Það er vegna þess, að Litla-Gunna og Litli-Jón hafa fulla vinnu, og mörg viðfangsefni þeirra skapa gjaldeyri.  Litla-Gunna og Litli-Jón voru líka fljót að herða sultarólina, þegar krónan þeirra gaf þeim til kynna, að veizlunni yrði að ljúka.  

Loddarar reyna að telja Litlu-Gunnu og Litla-Jóni trú um, að krónan sé gerandi og orsakavaldur í lífi þeirra.  Fræðin og staðreyndirnar tala allt öðru máli.  Gengið ákvarðast af inn-og útstreymi gjaldeyris.  Til lengdar skiptir verðmætasköpun útflutningsatvinnuveganna höfuðmáli í þessu sambandi.  Hér skal spá því, og sú spá er reist á tölfræði, að nái Íslendingar að jafna metin í viðskiptunum við útlönd, svo að nemi 5 % - 10 % af VLF og að styrkja gjaldeyisvarasjóðinn hægt og bítandi upp í 50 % af VLF, þá verði ISK traustur gjaldmiðill, sem um leið tryggi hér sveigjanleika efnahagslífsins, sem okkur er nauðsynlegur vegna þess, að okkar kerfi, eins og Bretanna, sveiflast ekki í takti við meðaltalið á meginlandi Evrópu. 

Hvers vegna eiga Litla-Gunna og Litli-Jón að færa þessar fórnir ?  Það er vegna þess, að þessi viðbótar sveigjanleiki miðaður við "fastgengi" mun veita þeim til muna meira atvinnuöryggi og gefa þeim a.m.k. 1 % meiri hagvöxt að jafnaði á ári, sem þýðir, að börnin þeirra munu hafa úr minnst 22 % meiru að spila en ella að 20 árum liðnum. 

Lýðskrumarar reyna að ganga í augun á Litlu-Gunnu og Litla-Jóni núna, þegar þau eiga andstreymt og eru viðkvæmari en ella gagnvart klisjum óvandaðra stjórnmálamanna.  Þær munu hitta þá sjálfa fyrir, þegar dómur sögunnar hefur verið kveðinn upp.  Þá mun ekki verða hátt á þeim risið.  Litla-Gunna og Litli Jón munu áreiðanlega ná áttum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Bjarni og kærar þakkir fyrir góða grein

Nú logar fjármálaheimurinn erlendis og brennið á bálköstunum er skraufaþurrt. Peningabrennur bólugrafinna markaða eru hafnar. Svo koma galdrabrennurnar og vísifingurs puttar munu hefja sig til flugs eins og gaddavírar.

Það er athyglisverð grein um bólur í þýsku útgáfunni af Financial Times. Þar segir að bólur séu að mestu skapaðar af ungum mönnum í fjármálageiranum. Mönnum sem því miður eru of ungir til að hafa náð að upplifa fyrri bólur. Í stað þess að dengja reglugerðarfargani í hausinn á öllum (sem auðvelt er að brjóta og sem munu verða brotnar hvort sem er því það er ekki hægt að koma í veg fyrir allt með reglum) væri kanski hægt að koma í veg fyrir bólur með því að setja aldurslágmark við ráðningar í þessum geira. Til dæmis 40 ára lágmark.

En það er bara einn (stór?) hængur á þessu. Ef engar bólur koma þá mun í endanum enginn hafa neina reynslu af bólum sem gætu fyrirbyggt bólur (glottið endar hér), svo hvað gera snillingar þá?

Bestu kveðjur

----------------------------

An interesting suggestion, and an interesting statistic

Thomas Fricke, writing in FT Deutschland, cites recent research showing that bubbles are mainly created by young financiers without experience of previous bubbles. A long-term solution to financial market instability is therefore not better regulation, but a minimum age for brokers or traders, say 40. He also has an interesting statistic. The total, gross, bailout of the US financial institutions is so large that it would German welfare benefit (known there as Hartz IV after the reforms) would last some 500m months. (There might be a reform of a system before then).

 

Frá - Euro Intelligence: The mother of all bailouts 

Gunnar Rögnvaldsson, 20.9.2008 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband