27.9.2008 | 13:15
Í afvötnun
Efnahagskerfi heimsins eru á barmi glötunar. Svarthol upp á 3 trilljónir bandaríkjadala hefur myndazt í efnahagskerfi heimsins. Innan við þriðjungur þess hefur verið hreinsaður út. Þetta tengist ofboðslegri þenslu fjármálageirans víðast hvar í heiminum á tímum ódýrs fjármagns, sofandaháttar yfirvalda, sem ábyrgð bera á peningamálum og ríkisfjármálum heimsins og sífellt meiri tilhneigingar fjármálamanna til fjárglæfra. Bandaríska ríkisstjórnin og Seðlabanki Bandaríkjanna reyna að klóra í bakkann og biðja þingið um USD 700 mia í björgunarsjóð, sem er innan við helmingur þess, sem á eftir að fara í súginn. Við þessar aðstæður er mikið álitamál, hvort fórna á skattpeningum á altari fjármagnsins. Við þessar aðstæður stígur formaður Samfylkingar á sviðið og virðist ofarlega í huga að hefja ofsóknir, einhvers konar nornaveiðar, gegn íslenzkum fjárfestum og bankamönnum. Hún varpar fram ósmekklegustu yfirlýsingu stjórnmálamanns, til lausnar vandans væntanlega, sem lengi hefur heyrzt, að fjárfestar í landinu hafi hagað sér eins og áhættufíklar og þá þurfi nú að senda í afvötnun og endurhæfingu. Þetta er afar grunnfærin greining á vandamálinu, sem einskis manns vanda leysir. Allt þetta fólk, sem er í skotlínu utanríkisráðherra, ber ábyrgð gagnvart öðrum en stjórnmálamönnum, guði sé lof. "Lausnir" sem þessar á þjóðfélagsvanda hafa ekki verið boðaðar síðan á dögum Mao, formanns, og Kremlarbóndans, alræmda, Georgíumannsins Jósefs Stalíns.
Þó að hlutur sumra fjárfesta sé ófagur, verðskulda þeir þó varla Gúlag af nokkru tagi eða valdboðna endurhæfingu. Fjárplógsmenn keyptu sig inn í fyrirtæki til að sundra þeim eða mergsjúga. Það er löglegt, en siðlaust athæfi að gera vinnustaði að leiksoppi ævintýramennsku fámennrar klíku. Gott fyrirtæki sameinar tvennt. Það býr vel að starfsfólki sínu í aðbúnaði og gerir vel við það í launum um leið og starfsemi þess er nægilega arðsöm til að unnt sé að greiða eigendum þess, hluthöfunum, arð í samræmi við áhættu og vexti á markaðinum. Mjög hæpið er hins vegar, að stjórnvöldum, embættismönnum, stjórnmálamönnum og eftirlitsstofnunum þeirra, sem eru mun seinlátari og í alla staði daufari en einkarekið athafnalífið, sé treystandi til bragarbótar á þessum athöfnum.
Þegar athafnalífinu er líkt við mannslíkama, er fjármálakerfið stundum sagt vera heilinn. Það er vegna þess, að lögmál fjármálanna stjórna fjárfestingunum og annarri ráðstöfun fjármagns. Hillist embættis-og stjórnmálamenn núna til þess að fjötra fjármálakerfið, mun það leiða til lakari ráðstöfunar fjármagns og þar með lægri ávöxtunar. Þetta athæfi væri glapræði, enda mundi það leiða til minni hagvaxtar og minni atvinnu, og þar með yrði minni kaka til skiptanna fyrir Litlu-Gunnu og Litla-Jón.
Fjármálafyrirtæki, eins og önnur fyrirtæki á markaði, stunduðu viðstöðulausa vöruþróun til að auka markaðshlutdeild sína. Það var gert með stærðfræðinga og aðra raunvísindamenn innan borðs, sem beita áttu beztu þekktu aðferðum til að draga úr áhættu vinnuveitenda sinna. Þegar nóg framboð er á ódýru fjármagni er skiljanlegt, að þróunin á þessu sviði leiði samt til þess, að tekin sé stöðugt meiri áhætta. Afleiðingar eignabólunnar má sjá á grafinu hér til hliðar um hrun hlutabréfamarkaðar og flótta fjármagnsins í gullið.
Það er sammerkt öllum kreppum, að undanfarinn er mikil efnahagsbóla, sem lýsir sér í hækkun fasteigna langt umfram eðlilegar markaðsaðstæður og gríðarlegri hækkun hlutabréfa. Öll þessi bóla er knúin áfram af ódýru fjármagni. Á tímum heimsvæddra viðskipta leitar mikið fjármagn eirðarlaust heimshornanna á milli í leit að meiri ávöxtun. Umfang vandans er þess vegna sumpart afsprengi tækniþróunar í höndum misviturra manna.
Ef þessi greining er rétt, þá hefur vaxtastig seðlabanka almennt verið of lágt á undanförnu þensluskeiði. Það á augljóslega við um "Federal Reserve" eða Seðlabanka BNA, enda hefur sá seðlabanki þrígreint markmið, þ.e. að hámarka hagvöxt, að vinna gegn atvinnuleysi og að viðhalda stöðugleika.
Ef einhvern aðila á að senda í endurhæfingu, þá eru það stjórnvöld um allan heim. Hvergi stóðu þau á bremsunum, þegar eignirnar bólgnuðu út, heldur helltu sums staðar olíu á eldinn. Stjórnvöld um heim allan eru nú, eins og allir aðrir, að læra sína lexíu. Stjórnvöld bera ábyrgð á stjórn efnahagsmála. Þáttur í að viðhalda stöðugleika er að grípa í taumana, ef efnahagskerfið er að síga niður í verðhjöðnun, sem er verri en verðbólga, eða að tútna óeðlilega út. Ef stjórnvöld telja sig ekki hafa tæki og tól í þetta, verður löggjafinn að útvega þeim þau. Þetta er sá lærdómur, sem t.d. Vesturlönd munu draga af því ófremdarástandi, sem nú hrjáir efnahagskerfi þeirra.
Ógæfuleg Þórðargleði sameignarsinna gagnast engum, en veitir þeim sjálfum stundarfró. Dæmi um þetta gat að líta í Morgunblaðinu 18. september 2008 í greininni, "Ragnarök nýfrjálshyggjunnar". Þar brennur eftirfarandi spurning heitast í muna formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Alþingi: "Hvað erum við að upplifa þessa dagana ? Eru það ekki ragnarök nýfrjálshyggjunnar, hins óhefta græðgiskapítalisma, sem á endanum er að kollsigla sjálfan sig ?" Vonarneisti hefur kviknað í hjarta sameignarsinnans um, að auðvaldskerfið sé að líða undir lok. Þegar þessi sameignarpostuli hefur um nokkra hríð gælt við afhroð auðvaldsins, kemur rúsínan í pylsuendanum, byltingin með þjóðnýtingu athafnalífsins og alræði öreiganna:"Nú, þegar þessi ragnarök nýfrjálshyggjukapítalismans ganga yfir, er stóra spurningin, hvort ekki sé lag. Svo notað sé gamalt, en gott orðalag: að manngildið verði á nýjan leik sett ofar auðgildinu og samfélag mannsins sjálfs í öndvegi, en ekki einir saman gróðahagsmunir fjármagnseigenda og þeirra, sem braskað hafa með annarra fé eða myndað froðugróða í sýndarheimi afleiðu-, vafninga-og lánsviðskipta."
Hér er umbúðalaust talað um að reisa ríki sameignarsinna á rústum auðvaldsskipulagsins. Þetta gæti e.t.v. þessi formaður gert, þegar hinn formaður jafnaðarmannanna er búinn að reka "áhættufíklana" út á gaddinn til "endurhæfingar".
Þetta lið hefur engar alennilegar tillögur að lausn aðsteðjandi vanda, enda hefur það hvorki áhuga fyrir né skilning á eðli auðvaldsskipulagsins. Þetta er forræðishyggjulið, sem vill vera með nefið ofan í hvers manns koppi.
Efnahagsstjórn stjórnvalda brást. Það er ekki bankanna eða annarra fjármálastofnana að stjórna peningamagni í umferð. Það gera seðlabankar og ríkisstjórnir. Það verður spennandi að sjá, hvað rísa mun úr rústunum, en það verður að öllum líkindum auðvaldið áfram og bætt hagstjórn stjórnvalda á grundvelli nýrrar þekkingar með dýrkeyptum mistökum. Reynslan af fátæktarviðjum sameignarstefnunnar var svo hrikaleg, að hún fælir enn þá frá.
Í Silfri Egils 21.09.2008 var afar áhugavert viðtal við Lárus Welding, bankastjóra Glitnis. Lárus hafði greinilega íhugað ádrepu formanns bankstjórnar Seðlabanka Íslands vel og dregið skynsamlegar ályktanir af. Lárus kann greinilega að greina hismið frá kjarnanum og lét ekki hafa sig út í neitt froðusnakk. Hann kvað möguleika Íslendinga mikla og þeir ættu að einhenda sér í aukna nýtingu auðlinda sinna til lands og sjávar í stað þess að sóa kröftunum í fánýta umræðu um gjaldmiðilssskipti, sem hvort eð er koma ekki til greina fyrr en jafnvægi í þjóðarbúskapinum hefur verið náð. Íslenzka krónan er samnefnari krafta, sem virka á efnahagskerfi Íslands utan frá og innan frá. Að gera hana að blóraböggli jafngildir flótta frá aðsteðjandi viðfangsefni og skapar vítahring.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.