4.10.2008 | 15:02
Þrumulostin þjóð
Hrun íslenzka fjármálakerfisins mun leiða til lífskjararýrnunar þjóðarinnar, sem jafnast á við afturhvarf til fortíðar um áratugi. Við sogumst ofan í kreppuástand, sem á sér nokkrar rætur. Í fyrsta lagi er um að ræða illvígari alþjóðlega lánsfjárkreppu en dæmi eru um áður. Hún á upptök sín í ríkistryggðum íbúðalánasjóðum Bandaríkjanna, Freddy Mac og Fanny Mae. Ríkisstjórn Bill Clintons beitti þeim til að fjölga húsnæðiseigendum í BNA. Hún hvatti fjármálastofnanir til að slaka á eðlilegum viðskiptakröfum og draga úr kröfum sínum um tryggingar. Þannig komu undirmálslánin ("Sub Prime") undir að tilstuðlan ríkisins. Lánavöndlar, þar sem undirmálslánum var pakkað í fagrar umbúðir, voru seldir um allan heim. Það er hald manna, að upphæð þessara undirmálslána nemi a.m.k. 3 trilljónum Bandaríkjadala. Því miður mun síðasta samþykkt Bandaríkjaþings um USD 0,7 trilljónir til að hreinsa ófögnuðinn út úr kerfinu engan veginn hrökkva til þess, og efnahagskerfi heimsins mun sökkva enn dýpra ofan í hrikalegan öldudal.
Önnur ástæða þessa alvarlega ástands er ódýrt lánsfé síðast liðinn áratug, sem leitt hefur til mikils framboðs og eftirpurnar. Ráðstöfun þessa fjár hefur í mörgum tilvikum verið fullkomlega glórulaus, og vel hefur sannazt, að margur verður af aurum api. Gömul búhyggindi um að safna fyrningum til mögru áranna hafa verið látin lönd og leið. Grænjaxlar hófu ótrúlegar sjónhverfingar, en nú er tjaldið fallið, og sýningunni er lokið. Út gengur hnípin þjóð í vanda og telur sig með réttu hafa verið svikna.
Þriðja ástæðan fyrir því, að hjól efnahagslífsins í heiminum eru að stöðvast, er hin gríðarlega orkuverðshækkun á tímabilinu 2006-2008, sem ekkert efnahagskerfi ræður við.
Þessar 3 ástæður leggjast leggjast allar á eitt. Þær munu valda heimskreppu á þessu og næsta ári, og þjóðir heims munu verða lengi að ná sér eftir þetta. Til merkis um niðursveifluna er grafið myndinni hér til hliðar, sem sýnir þróun á flutningsverði með stórskipum. Verðið hefur hrunið, og í kjölfarið mun fylgja hrun hráefnisverðs, eldsneytis, málma og matvöru.
Hvað gerir ríkisstjórn Íslands við þessar aðstæður ? Hún leggur fram fjárlagafrumvarp með 60 milljarða króna halla fyrir árið 2009. Þetta jafngildir um 5 % af VLF, sem er mjög hátt hlutfall. Engu er líkara en ríkisstjórnin lifi í öðrum heimi. Hefur hún ekki heyrt af alþjóðlegri lánsfjárkreppu ? Hvernig ætlar hún að fjármagna þennan gegndarlausa halla, sem m.v. hefðbundin lausatök á ríkisfjármálunum getur endað í 100 milljörðum króna ? Ríkisstjórnin er með þessu að boða baráttu við fyrirtæki og einstaklinga um molana, því að lánsfjárþurrð verður ríkjandi allt næsta ár. Alþingi verður að horfast í augu við vandann og reyna að koma saman hallalausum fjárlögum. Þessi gríðarhalli magnar vandann, og það er algert ábyrgðarleysi.
Ef farið verður að vilja Samfylgingar og leitað á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, eða menn fara tötrum klæddir með betlistaf í hendi til Brussel til að kasta sér í faðm Evrópusambandsins, verðum fyrsta krafan frá báðum hvort eð er að ná jafnvægi í ríkisbúskapinum.
Það lak út af ríkisstjórnarfundi, að formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hefði þar látið í ljós, að væri einhvern tíma þörf á þjóðstjórn, væri það nú. Gallinn við þessa tillögu er, að hún kemur þremur mánuðum of seint. Nú er enginn tími til að fara í stjórnarmyndunar viðræður. Sá tími kann hins vegar að koma, þegar um hægist, og það er ekki auðvelt að sætta sig við, að varaformaður Sjálfstæðislokksins setji ofan í við seðlabankastjóra vegna hugmyndar, sem trúnaður átti að ríkja um. Gjamm Samfylkingar í garð formanns bankastjórnar seðlabankans er illþolandi. Það gildir um hann, eins og forsætisráðherra, að þjóðin má þrátt fyrir allt hrósa happi í ógöngum sínum að njóta leiðsagnar þessara manna.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.