11.10.2008 | 10:10
Brezka ljónið í vígahug
Undanfarnar tvær vikur hefur fjárhagur Íslendinga orðið fyrir meira tjóni en nokkurn gat órað fyrir á svo skömmum tíma. Hér hafa gengið yfir móðuharðindi af manna völdum. Engan gat heldur órað fyrir því, ríkisstjórn Stóra-Bretlands mundi ráðast á Íslendinga, þegar þeir áttu í vök að verjast, og greiða stærsta banka þeirra náðarhöggið, einmitt þegar Seðlabanki Íslands hafði varið stórfé í tilraun sinni til að halda eina eftirlifandi alþjóðlega banka landsins á floti. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Stóra-Bretlands beittu lúalegum brögðum og spörkuðu í Íslendinga, þegar þeir komu engum vörnum við. Hér er um að ræða ráðherra Verkamannaflokksins brezka, sem Samfylkingin á Íslandi telur til systurflokka sinna. Fjármálakerfi Bretlands er hið stærsta í Evrópu, og það er rótgróið. Ráðherrum Samfylkingarinnar brezku mátti vera ljóst, að með innistæðulausu og óábyrgu tali sínu á opinberum vettvangi mundu þeir vekja ugg í brjósti innistæðueigenda, sem leiða mundi til stórfellds fjárflótta frá Kaupþingi í Lundúnum. Níðangursleg árás brezka fjármálaeftirlitsins á bankann kórónaði verknaðinn. Þessir tveir ráðherrar brezku Samfylkingarinnar hafa með dólgslegu framferði sínu bakað brezkum skattborgurum stórfellda skaðabótaábyrgð. Þegar Íslendingar hafa sleikt sár sín, er ekki um neitt annað að ræða fyrir þá en herja á England að hætti þeirra bræðra, Þórólfs og Egils Skallagrímssona.
Þetta er þeim mun leiðinlegra sem Bretum og Íslendingum verður yfirleitt vel til vina. Bretar eru þægilegir í viðkynningu, og það er margt líkt í fari Íslendinga og Breta. Samt er það svo, að sögulega séð hefur oft kastazt í kekki með Bretum og Íslendingum. Hefur þá jafnan verið um hagsmunaárekstra að ræða. Í þetta sinn urðum við hins vegar fórnarlömb stjórnmálaátaka á Bretlandi. Brezka Samfylkingin er rúin trausti, enda stöðvaðist hagvöxtur á Bretlandi á 2. ársfjórðungi, og brezkt efnahagslíf hefur síðan verið á samdráttarskeiði. IMF (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) telur lakasta efnahagsárangurinn verða á Bretlandi af öllum þróuðum ríkjum á 12 mánaða tímabilinu fram að 4. ársfjórðungi 2008. Forkólfar brezku Samfylkingarinnar sáu sér við þessar aðstæður leik á borði að búa til blóraböggul handa þjáðum Bretum. Með þessu fórnuðu þeir með köldu blóði feiknar verðmætum Íslendinga.
Hér til hliðar er mynd, sem sýnir þróun landsframleiðslu frá 2000 - 2008 og spá fyrir árið 2009. IMF spáir 0,5 % hagvexti í ríku löndunum árið 2009. Nú eru jafnvel talin vera ýmis teikn á lofti um, að þá muni verðhjöðnun halda innreið sína sums staðar. Þegar vörur verða ódýrari á morgun en í gær, hefur mikilvægur hvati viðskipta verið fjarlægður, og er þetta hið versta ástand.
Ekki verður skilizt við söguvettvang á Íslandi án þess að færa tveimur mönnum þakkir fyrir stórkostlegt framlag þeirra til að bjarga Íslandi úr bráðum voða skuldasúpunnar, sem "óreiðumenn" höfðu hlaðið með von um að fá að njóta starfskrafta þeirra áfram. Forsætisráðherra lyftir Grettistaki undir óhemju vinnuálagi. Á formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands hvílir einnig gríðarlegt álag og ábyrgð, sem hann rís undir með miklum sóma. Báðir gefa þeir sér tíma til að tala til þjóðar sinnar á örlagastund.
Sérstaklega er vert að þakka seðlabankastjóra fyrir afar skilmerkilega og skýra greiningu á flókinni stöðu, sem kom á hárréttum tíma í Kastljóss viðtali í liðinni viku. Á grundvelli skarplegrar greiningar lýsti hann stefnu, sem bankastjórnin hafði mótað til að bjarga þjóðinni frá örbirgð og klafa, sem hefði komizt í samjöfnuð við helsi Versalasamninganna á Þjóðverjum árið 1919. Hið mikilvægasta af öllu: hann gaf Litlu-Gunnu og Litla-Jóni von.
Hvernig yfirborðslegir "álitsgjafar" og óáheyrilegir þingmenn Samfylkingarinnar á Íslandi hafa sokkið ofan í lágkúrulega og frámunalega illa grundaða gagnrýni á seðlabankastjóra hefur ekki aukið hróður þeirra við núverandi aðstæður, þegar sjálfstæðismenn berjast á öllum vígstöðvum. Við þessar aðstæður stndar Samfylkingin á Íslandi það helzt að mála skrattann á vegginn. Slíkt framferði er háskaleikur, og púðurkerlingin getur hæglega sprungið fram í þá, sem slíkan leik stunda.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.