17.10.2008 | 23:18
Váfugl
Íslendingar hafa illilega orðið fyrir barðinu á djúpstæðri tortryggni og fjandsamlegri hegðun yfirvalda vestrænna ríkja undanfarnar vikur. Viljum við á grundvelli þessarar reynslu afsala okkur stjórnmálalegu sjálfstæði og fullveldi landsins í hendur afla af því sauðahúsi, sem leikið hefur okkur svo grátt, að jafna má við uppgjafarskilmála gagnvart sigraðri þjóð ? Svarið er, að við viljum eiga friðsamleg, menningarleg og viðskiptaleg samskipti við allar þjóðir Evrópusambandsins, en auðlindir lands og sjávar og fullveldi Alþingis ætlum við að ríghalda í fram í rauðan dauðann.
Í núverandi stöðu kann yfirlýsing af þessu tagi að hljóma, eins og andi Jóns Hreggviðssonar sé tekinn að svífa yfir vötnunum. Nú er hins vegar þannig komið þjóðinni, að grípa þurfi næsta hreintarf og ríða á honum yfir firnindin í leit að rollum búsins. Þannig er sjálfsagt að láta reyna á það til hlítar, hvort Rússar eru tilkippilegir. Það fjarar að vísu hratt undan þeim á efnahagssviðinu um þessar mundir, vegna þess að þjóðartekjur þeirra eru reistar á útflutningi eldsneytis, sem hríðlækkar í verði í kreppunni.
Við þessar aðstæður er nöturlegt að frétta, að bandarískur sjóður hefur boðizt til að taka Landsvirkjun á leigu og greiða fyrirfram einhvern áætlaðan hagnað hennar í 10-20 ár. Þessi viðskiptahugmynd minnir á tillögu eins Samfylkingar þingmannsins í blaðagrein fyrir fáeinum vikum um svipað efni. Hugmyndin er fráleit m.a. af því, að 80 % af orkusölu Landsvirkjunar er bundin í langtímasamningum. Hagnaður þessa vesturheimska sjóðs yrði þá fólginn í því að okra á Litlu-Gunnu og Litla-Jóni; nýta sér það, að raforkuverð til almennings er lægra á Íslandi en víðast hvar annars staðar.
Í aðdraganda heimskreppunnar hriktir í Evrópusambandinu (ESB). Samstaðan hefur ekki verið upp á marga fiska, og ástandið þar á bæ mun versna. Fyrsta fórnarlamb þrenginganna er svo nefnt 3 x 20 markmið ESB, sem fjallar um 20 % minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda m.v. 1990 og 20 % sjálfbæra orkunotkun af heildar orkunotkun árið 2020. Miðað við bágborna stöðu ESB í umhverfisverndarmálum erum við Íslendingar í öfundsverðri stöðu.
Næsta fórnarlamb kreppunnar kann að verða evran sjálf. Hún var tekin að sýna veikleikamerki áður en ósköpin dundu yfir. Hugmyndafræðingar innri markaðarins reiknuðu ekki með, að núverandi staða gæti komið upp. ESB skortir þess vegna stjórntæki til sameiginlegra viðbragða. "Stjórnarskránni" eða Lissabon samninginum var ætlað að færa hinni ólýðræðislegu framkvæmdastjórn þetta vald. Þess vegna er það nú rætt á göngum ESB-skrifstofanna í Brussel að þvinga Íra að kjörborðinu í október 2009. Þetta jafngildir því að færa forsætisráðherra Íra viskýflösku og skammbyssu og segja honum að gera það, sem gera þarf.
Hvaða áhrif mun kreppan hafa á stjórnmálin ? Því er spáð, að þau muni pólast, þ.e.a.s. að öfgaflokkum til hægri og vinstri muni vaxa ásmegin. Þetta kann að birtast með einkar skýrum hætti í næstu kosningum til Evrópuþingsins, sem munu verða árið 2009. Ein stjórnkerfisbreytinga Lissabon sáttmálans átti að vera að auka völd þingsins vegna þess lýðræðishalla, sem flestum er ljóst, að er á núverandi stjórnkerfi. Gangi hann í gegn, og öfgamenn ná tökum á þinginu, verður ESB óstarfhæft og splundrast.
Þann 16. október 2008 kom út skáldsagan Váfugl eftir Hall Hallsson. Bókin fjallar um framtíðina á Íslandi eftir miðja 21. öldina. Hugsjónamenn berjast þá fyrir sjálfstæði landsins með því að reyna að losa það úr ríkjasambandi Evrópu. Hér er um mjög áhugaverðar vangaveltur hugmyndaríks rithöfundar með mikla sagnfræðilega þekkingu í farteskinu að ræða. Eins og nú standa sakir blæs ekki byrlega fyrir ESB. Miklir kraftar togast á um stefnumörkun ESB. Frá því á 20. öld hafa verið uppi miklir draumar um sameinaða Evrópu. Gerðar voru tvær misheppnaðar tilraunir með járni og blóði, en á 21. öldinni hefur evran verið tækið. Hvort hún stenzt væntanlega áraun kreppunnar skal efast um. Í öllum ESB löndunum eru uppi efasemdir um réttmæti og nytsemi hins yfirþjóðlega valds, og hér skal hafa uppi þá kenningu, að slík sjónarmið muni magnast og setja mark sitt á þróun Evrópu samstarfsins. Þjóðirnar eru allar andsnúnar einu Evrópuríki. Innri markaðurinn mun standa, en evruna skortir hryggjarstykkið, eitt ríkisvald, til að þrífast á erfiðleikatímum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.