21.10.2008 | 20:53
Strútseðli Samfylkingar
Aðvörunarbjöllur glumdu og rauð ljós blikkuðu allt í kring um bankamálaráðherra Samfylkingarinnar, frá því að hann settist í ríkisstjórn um mitt ár 2007. Formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur lýst því í sjónvarpsviðtali, að hann hafi margoft gert sér ferð á fund ráðherra til að vara við hættunni. Viðbrögð ráðherra virðast hafa verið að hætti strútsins. Ætla má ábyrgum ráðherra að gera umsvifalaust ráðstafanir til að grafast fyrir um forsendur, sem að baki lágu mjög alvarlegri gagnrýni og viðvörunum innanlands og utan og lutu að stærð, skuldsetningu og eignarhaldi íslenzka fjármálakerfisins, sem nú er hrunið með voveiflegum afleiðingum fyrir almenning í þessu landi. Hefði bankamálaráðherra sinnt embættislegri rannsóknarskyldu sinni, er næsta víst, að lausnir hefðu fundizt, sem fallnar hefðu verið til að draga úr hinu ofboðslega tjóni, t.d. með því að aðgreina erlenda og innlenda starfsemi bankanna. Bankamálaráðherra virðist hins vegar ekki hafa haft uppi neina tilburði til að kryfja málið til mergjar, heldur hafa treyst fagurgala bankanna og reitt sig á handónýtt álagspróf Fjármálaeftirlitsins, FME. Í ljósi afleiðinga aðgerðarleysins verður að telja, að ráðherra bankamála hafi gerzt sekur um vanrækslu í starfi, sem sé svo stórfelld, að varðað geti Landsdómi.
Eftir höfðinu dansa limirnir. Formaður Samfylkingar lýsti eftirfarandi yfir í Kaupmannahöfn í marz 2008: "Sumir halda því fram, að bankarnir séu orðnir of stórir fyrir landið og núverandi órói muni hafa í för með sér alvarlega efnahagskreppu í íslenzku samfélagi. Að minni hyggju er enginn fótur fyrir þessum ótta." Hér ber allt að sama brunni. Formaður Samfylkingar setur upp hundshaus, þegar hún er vöruð við. Sýndi hún algera léttúð gagnvart alvarlegu máli, eða var yfirlýsing hennar reist á einhverri athugun ? Líklegast er, að formaður Samfylkingarinnar hafi einfaldlega stungið hausnum í sandinn.
Grafið hér að ofan sýnir fjárveitingar til einnar af opinberu stofnununum, sem vernda áttu íslenzka skattborgara, á árunum 2006-2009. Á árinu 2008 átti að verja tæpum einum milljarði króna (1 Mkr) til FME, en sú upphæð verður vafalaust miklu hærri. Meðalhækkun nemur 260 Mkr/ári eða 87 % af fjárveitingu 2006. Hversu mikla aukningu skyldi hafa þurft til þessarar eftirlitsstofnunar til þess að hún mundi hafa gagnazt við að vernda borgarana gegn hruninu mikla ? Skoðun höfundar er, að stofnunin hefði verið jafngagnslítil í þessu verndarstarfi, þótt fjárveitingar hefðu vaxið tífalt hraðar en raun ber vitni um. Eftirlitsstofnanir hins opinbera hafa hvergi komið að gagni í þessu fári við að verja Litlu-Gunnu og Litla-Jón.
Íslenzku bankarnir störfuðu eftir reglum evrópska efnahagssvæðisins, EES, um fjármálastofnanir. Aðild Íslands að EES gerði útrásina mögulega. Reglur EES og þar með ESB (Evrópusambandsins) eru hins vegar með þeim hætti, að hvert land sér um fjármálaeftirlit hjá sér. Eðlilegt er hins vegar, að nú verði stofnað til sameiginlegs fjármálaeftirlits EES, og hafi það eftirlit með alþjóðlegum fjármálastofnunum, sem starfa innan EES. Staðbundnar peningastofnanir, t.d. sparisjóðirnir, lúti hins vegar eftirliti hvers lands. Með þessu mætti sennilega færa kostnaðinn af FME niður í það, sem hann var árið 2006 að nafnvirði.
Spurningar um skipulag og stjórnun íslenzku utanríkisþjónustunnar vöknuðu, þegar framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna galt afhroð. Ísland hlaut aðeins 87 atkvæði eða 24 % af heildarfjölda atkvæða. Samt létu starfsmenn utanríkisráðuneytisins jafnan í veðri vaka, að möguleikar Íslands væru miklir til að ná kjöri. Þess vegna var sóað dýrmætum tíma ríkisstjórnar og ráðuneytisins, og hundruðum milljóna króna af fé skattborgaranna kastað á glæ. Kanski munar ekki um einn kepp í sláturstíðinni, en hér virðist hausnum einnig hafa verið stungið í sandinn.
Árangursleysi utanríkisþjónustunnar í þessu máli og jafnframt í því að halda uppi vörnum fyrir íslenzkan málstað á erlendri grundu í bankahruninu, vekur spurningar um það, hvort hún eigi rétt á sér í sinni núverandi mynd, þegar Alþingi stendur frammi fyrir óheyrilegum fjárlagavanda. Hvað um það. Við vitum þó núna af góðum vinum í Moskvu og í Tokyo og ættum ekki að loka sendiráðunum þar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.