Myntbandalag

Fjármálakreppa með hruni 85 % bankakerfis Íslands er nú að breytast í efnahagskreppu með fjöldaatvinnuleysi, þar sem 20 þúsund manns gætu misst vinnu sína.  Boðað er, að ríkissjóður verði rekinn með halla, sem nemur yfir 10 % af VLF (heildar landsframleiðsla) árið 2009.  Ekki hefur verið skýrt út, hvar á að taka lán fyrir þessum halla á tímum algerrar lánsfjárþurrðar innanlands og vantrausts erlendis.  Skattahækkun er óráð við geigvænlegum lausafjárskorti fyrirtækja og heimila.  Þingmenn verða að hætta þusi og masi um aukaatriði og bretta upp ermarnar til að skera niður halla ríkissjóðs.  Þar verður settur mælikvarði á þingið.

Halli ríkissjóðaLáni frá IMF (Alþjóða gjaldeyrissjóður) er í megindráttum ætlað að styrkja peningamálastefnuna og fer í gjaldeyrisvarasjóðinn.  Því er ætlað hlutverk við að reisa krónuna við, en hún féll auðvitað um koll við hrun bankanna.  Takist þetta, mun verða verðhjöðnun í landinu. Taldar eru líkur á, að skuldir íslenzka ríkissjóðsins muni nema u.þ.b. 100 % af VLF á árinu 2009.  Eins og sést á myndinni hér til hliðar, skuldar ríkissjóður Japans um 170 % af VLF og ríkissjóðir Ítalíu og Grikklands um 100 % af VLF.  Skuldir íslenzka ríkisins yrðu ekki einsdæmi, en afar þungbærar og hagvaxtarhamlandi. Ríkissjóðir evru landanna skulda um 60 % af VLF að jafnaði, en eitt af Mastricht skilyrðunum fyrir upptöku evru er, að skuldir ríkissjóðs séu undir 60 % af VLF.  Það mun taka Ísland u.þ.b. einn áratug að ná þessu marki.  Þó að við kæmumst inn í ESB (Evrópusamband) á næsta ári, yrðum við engu bættari í peningamálum.  Að fara í samningaviðræður um inngöngu í ESB með allt á hælunum væri algert óráð, og fylgjendur þess sjónarmiðs gera sig seka um fullkomið óraunsæi, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið.

Orðstýr okkar Íslendinga í fjármálaheiminum hefur í Hrunadansinum beðið alvarlegan hnekki.  Þegar varaformaður Samfylkingar heldur því fram, að Íslendingum verði hleypt á sérskilmálum inn í myntbandalag Evrópu, komi þeir skríðandi á hnjánum inn í ESB, eins og Samfylking boðar, fer hann með fleipur eitt.  Lítil eru geð guma og furðulegt, að Samfylkingin skuli kosta öllu til að gera Ísland að hjáleigu í stórríki Evrópu, sem forkólfar ESB stefna að með Lissabon sáttmálanum (ný stjórnarskrá).  Með þessari glæfralegu stefnu sinni, sem minnir á læmingja, sem hlaupa fyrir björg, mun þessi undarlegi stjórnmálaflokkur á endanum mála sig út í horn í íslenzkum stjórnmálum.

Segja má, að vel hæfi skel kjafti, þar sem fara formaður og varaformaður Samfylkingar.  Formaðurinn, sem jafnframt gegnir embætti utanríkisráðherra landsins og fékk sem slík nýlega einkunnina 2,4 í frammistöðumati, er fram fór undir heitinu "Framboð til Öryggisráðs SÞ", hefur nú farið í ham Gróu á Leiti, og er tekin til við að lepja upp gróusögur og lágkúrulegan óhróður um formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, eins og getur á að líta í viðtali við "Gróu" í Morgunblaðinu laugardaginn 1. nóvember 2008.  Nú vill svo til á ögurstundu í sögu íslenzka lýðveldisins, að téðu starfi í seðlabankanum gegnir maður, sem er karl í krapinu. Má því fullyrða, að Íslands óhamingju verði ekki allt að vopni.  Samfylkingin stefnir hins vegar augljóslega að því að koma þar að væskli eða lufsu, strengjabrúðu undir slikju "fagmennsku", sem ráðherrarnir geta fjarstýrt.  

Þessi framganga Samfylkingar er alger dónaskapur, því að Seðlabanki lýtur forræði forsætisráðherra.  Til þess eru refirnir skornir hjá þessum skrýtna flokki með þráhyggjuna, að beina athyglinni frá bankamálaráðherra, sem í undangengnum mánuði tók próf og hlaut 1,5, er 15 % bankakerfisins, sem lýtur forsjá hans, stóð eftir.  Hægt er að halda þessari einkunnagjöf áfram til handa ráðherrum undirmálsflokksins.  Garmurinn  í Iðnaðarráðuneytinu fær 0,0, því að engu framfaramáli hefur hann komið í höfn, enda fóru allir kraftar í gandreið um heiminn á vegum útrásar, þegar hann átti að búa í haginn á Íslandi.

Norskir Stórþingsmenn, m.a. fulltrúar í fjárlaganefnd, hafa gefið til kynna, að þeir séu fúsir að ræða við stjórnvöld á Íslandi um náið samstarf.  Slíkt gæti gagnazt Íslendingum mjög við að flýta viðreisn efnahagslífsins, sem nú er ein rjúkandi rúst eftir peningafursta og útrásarberserki.  Slík flýting skiptir öllu máli fyrir þúsundir fjölskyldna.  Við bankahrunið rýrnaði traustið á gjaldmiðli okkar, og hefur þurft minna áfall í öðrum löndum til að veikja gjaldmiðla.  Þess vegna yrði það viðreisninni mikill styrkur, ef samstarf við Noreg yrði unnt að þróa yfir í myntbandalag, þar sem íslenzka krónan yrði tengd hinni traustu norsku krónu.  Noregur mundi bregða yfir okkur huliðshjálmi trausts á meðan við værum að ávinna okkur það með dugnaði, heiðarleika og ráðdeild, sem ættu að verða aðalsmerki siðbætts markaðshagkerfis á Íslandi, enda okkur flestum í blóð borin.  

Óhætt er að mæla með lestri greinar Edmunds S. Phelps, prófessors í hagfræði við Columbia háskóla í New York, sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 29. október 2008, bls. 21, undir fyrirsögninni "Hvers konar hagkerfi ?".  Nú standa Íslendingar á tímamótum, eins og sigruð þjóð eftir styrjöld, og þurfa að móta sér ný stefnumið.  Þá er gott að leita í smiðju til manna á borð við prófessor Phelps: "Þegar þjóð velur sér hagkerfi, hlýtur hún fyrst og fremst að velta því fyrir sér, hvernig lífi hún vilji lifa." Enn skrifar Phelps: "Ég hef oft haldið því fram, að kjarni þess lífs, sem gefur okkur hvað mesta hamingju, felist í tækifærum til þess að ná árangri; takast á við ögranir og sigrast á þeim; að læra af reynslunni og þroskast sem manneskjur í lífi og starfi."  Og þá kemur Phelps að vali hagkerfis. "Ef gott líf gefur tækifæri til þess að læra, þroskast og uppgötva hæfileika sína, láta frjálsan vilja stjórna athöfnum sínum og takast á við ögranir, þá er ljóst, að gott hagkerfi er það hagkerfi, sem gefur einstaklingunum tækifæri til slíks."  Prófessor Phelps, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, mælir með markaðshagkerfi og færir sterk rök fyrir þeim meðmælum í tilvitnaðri grein sinni. 

Veitum aðhald, krefjumst siðbótar fremur en siðskipta, stöndum vörð um áunnin landsréttindi.  Byltingin étur börnin sín.

 

 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband