Valfrelsið

Við lifum á sögulegum tímum.  Peningakerfi landsins er hrunið, og efnahagskerfið á leið í djúpa og þungbæra kreppu.  Ekki má láta hjá líða að draga lærdóma af óförunum.  Til þess þarf greiningarvinnu, og ætlunin er stofna til sérstaks saksóknaraembættis til að fullnægja réttlætinu.  Ísland verður væntanlega ekki að alþjóðlegri fjármálamiðstöð á vorum dögum, og þykir sumum það reyndar bættur skaðinn, því að Íslendingum henti bezt að stunda framleiðslu á vörum.  Ættum við líklega að einbeita okkur að því í framtíðinni.

Allar fjölskyldur í landinu hafa orðið fyrir tilfinningalegu og fjárhagslegu áfalli.  Þjóðarstoltið hefur verið sært; þjóðin hefur upplifað vantraust á sig erlendis frá í kjölfar lausafjárþrots og þjóðnýtingar bankanna.  Þetta er heiðvirðum og grandvörum Litlu-Gunnu og Litla-Jóni þungbært tilhugsunar. 

Íslenzka þjóðin hefur orðið fyrir margs konar alvarlegum áföllum í sögu sinni.  Nægir að nefna fall Þjóðveldis 1262, Svarta dauða 1402, aftöku Jóns biskups Arasonar og tveggja sona hans í Skálholti við siðskiptin 1550 og klaustur-og kirkjurán í kjölfarið, einveldissamþykkt á Kópavogsfundi undir vopnavaldi nýlenduherranna 1662, móðuharðindin og bóluna 1783-1786 og fall Skálholtsstóls eftir Suðurlandsskjálfta um 1786.  Eftir öll þessi áföll réttu forfeður okkar og formæður úr kútnum.  Var þó hver og einn þessara atburða alvarlegri og þungbærari en síðustu atburðir, þó að slæmir séu. 

Þegar eitthvað hrynur til grunna, myndast tækifæri til nýsköpunar og uppbyggingar.  Styrkur okkar nú er sá, að við höfum fullt valfrelsi til að fara þær leiðir til endursköpunar, sem okkur þóknast.  Ákveðið var að leita á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Sum evrópusambandsríki sýna okkur nú sitt rétta andlit, sem hlýtur að fæla okkur frá að ganga í eina sæng með slíkum á stjórnlagasviðinu.  

Sagt hefur verið, að við stæðum nú betur að vígi innan ESB (Evrópusambandið) en utan.  Hvað er til í því ?  Þýzkaland hafnaði sameiginlegum björgunar aðgerðum gagnvart bönkum innan ESB.  Af þessum sökum er evran í uppnámi og hefur fallið mikið gagnvart USD.   Þjóðverjar tóku lítinn þátt í ævintýramennsku þensluskeiðsins 2003-2007.  Í Þýzkalandi bólgnaði húsnæðismarkaðurinn ekki út, og Þjóðverjar héldu aftur af launahækkunum á þessu tímabili.  Verðbólgan hjá þeim varð þess vegna minni en að jafnaði á evrusvæðinu.  Fyrir vikið dafnaði þýzkur útflutningsiðnaður, sumpart á kostnað hinna evrulandanna.  Þjóðverjar komu ekki til veizlunnar og neituðu þess vegna eðlilega að taka fjárhagslega ábyrgð á afleiðingum veizluhaldanna.  Það er barnaskapur að ímynda sér, að öðru máli hefði nokkurn tíma gegnt um Íslendinga en aðra, sem gerðu sig seka um vítavert gáleysi. Tómt mál er að tala um evru í þessu sambandi, því að skilyrðum um upptöku hennar höfum við aldrei fullnægt nægilega lengi.

Nú getum við valið um að stefna inn í ESB með það að markmiði að taka upp evruna, ef hún lifir núverandi kreppu af, í fjarlægri framtíð, þegar við höfum uppfyllt öll Maastricht skilyrðin, að efla EES samstarfið með nánara peningalegu samstarfi við Noreg, eða að yfirgefa EES, tengjast bandaríkjadal og reiða okkur meira á markaði utan Evrópu. 

Það er afspyrnu þröngsýnt sjónarhorn að sjá ekkert, nema inngöngu í ESB sem lausn á núverandi vandamálum.  Það er í raun og veru núna orðið úrelt stefnumið. Með afstöðu af því tagi minnir Samfylkingin meir á sértrúarsöfnuð en stjórnmálaflokk.  Fyrir vikið er hún vart gjaldgeng á stjórnmálavettvangi og tekin að minna á Fimmtu herdeild ESB hérlendis.

Hvað heldur kerfinu uppi ?Nú leggjum við upp í nýja vegferð.  Hvert ætlum við ?  Lísa í Undralandi spurði köttinn: "Hvaða leið á ég að fara" ?  Kötturinn svaraði: "Hvert ætlarðu" ?  Lísa hafði mjög óljósar hugmyndir um það.  Þá sagði kötturinn:"Ef þú veizt ekki, hvert þú ætlar, þá skiptir engu máli, hvaða leið þú velur". 

Við ætlum væntanlega að komast út úr þessari kreppu, eins fljótt og hægt er.  Þá ætlum við endilega að búa í þjóðfélagi stöðugleika og jafnra tækifæra.  Ennfremur viljum við, að allar vinnufúsar hendur fái hér störf við hæfi.  Það er einnig markmið í sjálfu sér, að ríkið verði skuldlaust innan aldarfjórðungs.  Þannig nýtast skattpeningar bezt og lánskjör verða bezt, þegar á erlendum lánum þarf að halda. 

Hagþróun þróunarríkja og þróaðra ríkjaESB fullnægir ekki öllum skilyrðum, sem hér eru sett.  Það mundi rýra mjög valfrelsi okkar okkar að lenda innan múra ólýðræðislegs fyrirbrigðis, sem stefnir að myndun sambandsríkis.  Hagvöxtur á Íslandi þarf að verða meir í líkingu við efri ferilinn (þróunarríkin) á hægra grafinu en þann lægri, sem sýnir hagvöxt þróaðra ríkja.  Við þurfum á öllum okkar auðlindum að halda til að knýja efnahagskerfið út úr kreppunni og til uppgreiðslu skuldanna.  Við getum ekki fórnað meiru af fullveldi okkar en þegar er raunin vegna hættu á, að ESB ríkin, með sitt hugarfar nýlendukúgara, læsi klónum í fiskimiðin eða orkulindirnar.  Hver er sjálfum sér næstur.

Leiðin að ofangreindu marki er að auka orkunýtingu, er jafngilda mundi tvöföldun núverandi raforkunotkunar, þannig að hún næmi allt að 30 TWh (T=Tera) árið 2025.  Þessi viðbótar orka, 15 TWh/a, yrði nýtt til þess að knýja samgöngutækin, sem væri gjaldeyrissparandi, og til alls konar iðnaðarframleiðslu.  Heimurinn mun kalla á þessar vörur, lönd ESB, BNA, Japan og þróunarlöndin. 

Það á eftir að koma í ljós, hvernig íslenzka krónan mun henta þessu hagkerfi, sem drifið verður áfram af útflutningsiðnaði.  Næstu 20 árin þarf gengisskráning að vera letjandi fyrir innflutning og hvetjandi fyrir útflutning.  Helzt þurfa Íslendingar sjálfir að stjórna genginu með þessa hagsmuni að leiðarljósi.  Það gerir enginn á þessari jörð annar en Seðlabanki Íslands.  Hann gerir það t.d. með tiltölulega lágum vöxtum og takmörkunum peningamagns í umferð til að draga úr verðbólgu. 

Hið nýja íslenzka hagkerfi þrífst ekki innan múra ESB.  Vettvangurinn er allur heimurinn.  Evran er ekki á dagskrá.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta er góð grein hjá þér Bjarni.

Ágúst H Bjarnason, 8.11.2008 kl. 11:54

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Mér ber að þakka góða grein og spakviturlega.

Æsingalausa og þó skorinorða.

Hinnsvegar vil ég, svona af því, að ég er argasta íhald, biðja þig skoða hug þinn um, hvað fór á slig í eftirliti og hvað af því er að rót FJÓRFRELSIÐ.

Svo er einnig, að í okkar Íhaldsmanna ritum er klásúla mjög digur, að FRELSI EINS MÁ EKKI VERÐA HELSI ANNARS.

Það finnst mér vera grundvöllur siðaðs samfélags.

Svo var einnig um áa mína Vestra.

Enn og aftur

Þökk.

MiðbæjarÍHALDIÐ

Bjarni Kjartansson, 8.11.2008 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband