24.3.2009 | 21:02
Framleiðsluþjóðfélagið
Um allan heim fitnaði fjármálageirinn fram úr hófi á ódýru fé um sjö ára skeið fram til ársins 2008, eins og púkinn á fjósbitanum nærðist á skömmunum í Odda forðum. Hin miklu mistök stjórnvalda um allan heim voru fólgin í að veita frelsi án ábyrgðar, þannig að einkarekin fjármálafyrirtæki störfuðu í skjóli ríkisábyrgðar. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, enda var hagnaðurinn einkavæddur, en tapið þjóðnýtt. Þetta var ekki frjálshyggja, hvað þá nýfrjálshyggja, heldur blandað hagkerfi. Grundvöllur frjálshyggju er, að frelsi fylgi ábyrgð. Fyrr nefndu rotnu kerfi "pilsfaldakapítalismans" þarf að bylta á heimsvísu.
Íslendingar hafa tímabundið glatað trausti í viðskiptaheiminum. Það er grafalvarlegt mál, ef útlendingar treysta okkur ekki lengur til að fara vel með peninga, sem þeir lána okkur eða fela okkur umsýslu yfir. Á meðan svo er, verður girt fyrir framfarir og atvinnusókn með miklum fjárfestingum hérlendis. Þennan vítahring verður að rjúfa hið fyrsta. Það verður aldrei með rauðliða við stjórnvölinn, grámyglur, sem koma nú smám saman út úr skúmaskotunum og bíða eftir tækifæri til að varpa af sér grímunni að afloknum kosningum, þar sem þeir ætla að fljóta á öldufaldi réttlátrar reiði vonsvikinnar og raunamæddrar þjóðar.
Ekkert getur hamlað gegn afdankaðri, gaddfreðinni og þjóðhættulegri hugmyndafræði sameignarsinna, nema Sjálfstæðisflokkur, sem gengur í endurnýjun lífdaganna á Landsfundi sínum og velur sér þar stýrimann, sem nær eyrum hins vinnandi manns og konu hvarvetna um landið.
Nú liggur beint við fyrir landsmenn að snúa sér að handfastari viðfangsefnum en að sýsla með verðbréf, enda er starfsemi fjármálastofnana reist á sandi, eins og kunnugt er. Nú ber að leggja áherzlu á að framleiða vörur fyrir okkur sjálf og til gjaldeyrisöflunar.
Landið býður upp á framleiðslu heilnæmustu matvara, sem völ er á. Það eru samt ekki allir sammála um að nýta þessi gæði innanlands og til útflutnings. Samfylkingin hefur t.d. á stefnuskrá sinni að lama íslenzkan landbúnað með því að kaffæra markaðinn með innflutningi. Furðu gegnir þess vegna, að nokkur landsbyggðarmaður skuli kjósa Samfylkinguna. Þungvæg öryggisleg, heilsufarsleg, menningarleg og þjóðræknisleg rök hníga að því að veita íslenzka landbúnaðinum vissa vernd, þó að matarverð verði hærra fyrir vikið. Fórna verður minni hagsmunum fyrir meiri.
Sjávarútvegurinn íslenzki er einn sá öflugasti og bezt rekni í heimi, enda stendur einkaframtakið að honum, en erlendis eru fiskveiðar víða ríkisstyrktar. Mikill ágreiningur ríkir á hinn bóginn hérlendis um stjórnun fiskveiða. Vinstri flokkarnir reka áfram sína sameignarstefnu um þjóðnýtingu auðlinda hafsins, sem reka mun frjálsar útgerðir beint í gapastokkinn og endurreisa hér bæjarútgerðir, sem soga munu til sín skattpeninga, eins og í gamla daga.
Sjálfstæðisflokkurinn vill nýta kosti einkaframtaksins í útgerð með einkaeignarrétti á kvótanum til að hámarka framleiðnina öllum landsmönnum til hagsbóta. Þetta kerfi nýtur virðingar erlendis, þar sem það hefur gefizt betur en annað fyrirkomulag í þessum efnum. Hins vegar kemur til greina að reisa skorður við veðsetningu óveidds afla í sjó og að veita útgerðum ívilnun veiðileyfagjalds fyrir að landa afla til vinnslu á Íslandi.
Samfylkingin gengur lengst allra stjórnmálaflokka við að ógna tilverugrundvelli sjávarútvegsins íslenzka til framtíðar, því að hún vill flytja ákvörðunarvald veiðistjórnunar til Brüssel. Ennfremur vill þessi "jafnaðarflokkur" hætta á, að síðar meir verði tekin ákvörðun um það í Brüssel, að Íslandsmið verði sameiginlegur vettvangur fiskveiðiskipa ESB. Er unnt að treysta hugsanlegu samkomulagi við hrokagikkina í Brüssel um óskoraðan ráðstöfunarrétt Alþingis á auðlindum íslenzku efnahagslögsögunnar ? Um þetta ritaði Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri, stutta áminningu í eitt dagblaðanna í marz 2009:
"Efnahagslögsaga á hafinu kringum Ísland nær 200 sjómílur út frá annesjum og telst vera 758 þúsund ferkílómetrar. Af áætluðum 323 þúsundum íbúa árið 2009 koma því 2,347 ferkílómetrar handa hverjum þeirra. Efnahagslögsaga Evrópusambandsins er sjö sinnum stærri, 5,3 milljónir ferkílómetra. Þar búa um 380 milljónir manna sem svarar til 0,014 ferkílómetra á hvern íbúa. Þetta má ráða af Almanaki fyrir Ísland og grein á netinu, EEZ in Europe eftir Juan Luis Suárez de Vivero, prófessor í háskólanum í Seville. Ef Evrópusambandið næði undir sig íslensku efnahagslögsögunni, þýddi það 14 % stækkun hennar fyrir hvern íbúa. Íslendingar fengju hins vegar smækkun síns hlutar um 99,3 % á hvern íbúa. Er nema von að einhverjir hjá ESB hyggist nota efnahagshrunið á Íslandi til að ná því undir vængi sína ?"
Þessi greinarstúfur Páls Bergþórssonar eru orð í tíma töluð, og vangaveltur af þessu tagi eru megin ástæða þess, að Norðmenn hafa í tvígang hafnað aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og að íslenzka þjóðin er ekki ginnkeypt fyrir aðild nú um stundir, þó að lofað sé gulli og grænum skógum, ef hún aðeins fellur fram og tilbiður gullkálfana í Brüssel.
Iðnaður er sá atvinnuvegur, sem veitt getur flestum starfsmönnum á Íslandi atvinnu. Eina raunhæfa ráðið til að vinna á atvinnuleysinu og samtímis að afla gjaldeyris er að reisa hér nýja iðnaðarstarfsemi til útflutnings. Eiga þar við nákvæmlega sömu rök og Einar Benediktsson, skáldjöfur, beitti fyrir tæpri öld. Við núverandi aðstæður, eins og þá, er það einvörðungu unnt með því að laða hingað erlent fjárfestingarfé.
Fólk þarf að gera sér grein fyrir því, að öll slík tækifæri munu renna úr greipum núverandi ríkisstjórnarflokka. Annar þeirra er hálfvolgur í afstöðunni til stóriðju, en hinn er andsnúinn erlendum fjárfestingum á Íslandi og mun berjast með kjafti og klóm gegn fjárfestingum í virkjunum til stóriðnaðar og gegn byggingu álvera, svo að dæmi sé tekið, hér eftir sem hingað til, því að engin stefnubreyting hefur orðið á þeim bæ síðan árið 1966, þegar ein harðasta rimma sögunnar geisaði á Alþingi um frumvarp til laga um Íslenzka Álfélagið hf. Með stofnun þess félags voru með vissum hætti raungerðar hugsjónir skáldmæringsins.
Á tímum fjárþurrðar íslenzka ríkisins er hinn ofstækisfulli umhverfisráðherra VG aftur á móti að leita leiða til að styrkja aðgerðasinna í baráttunni við erlenda fjárfesta með fé úr opinberum sjóðum. "Er þetta hægt, Matthías ?" Fólk þarf að átta sig á því, að til valda hafa verið leiddar afætur, sem eiga e.t.v. eftir að verða hrikalegur baggi á almenningi vegna þess, að þær munu leiða hér til öndvegis hugmyndafræði Karls Marx, sem leiðir alls staðar til örgustu fátæktargildru sögunnar, fái þær til þess styrk í næstu kosningum til Alþingis.
Ríkisstjórnarflokkarnir gera sem sagt mjög upp á milli atvinnustarfsemi. Þeir fordæma stóriðnað, m.a. á grundvelli mengunar. Þegar um álverin á Íslandi er að ræða, er slík gagnrýni reist á úreltum upplýsingum og illvígum fordómum í garð alþjóðlegra fyrirtækja, því að óhætt er að fullyrða, með vísun til opinberra rannsóknarskýrslna um láð, lög og loft, að t.d. álverið í Straumsvík, sem næst er mesta þéttbýli landsins álveranna þriggja, hefur engin varanleg skaðleg áhrif á umhverfi sitt. Ríkisstjórnin er þess vegna engan veginn að vernda íslenzka náttúru, heldur er hún með afstöðu sinni í garð orkukræfs iðnaðar að fórna þúsundum starfa á altari einangrunarstefnu í atvinnumálum.
Algengasta tugga þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, þegar umræðan berst að sköpun nýrrar atvinnu með því að stofna til stóriðju, er, að til að standast kröfur þess alþjóðlega samnings, sem e.t.v. mun taka við af Kyoto sáttmálanum eftir 2012, verði Ísland að draga úr losun koltvíildis.
Slíkir stjórnmálamenn vaða elginn og skeyta þá hvorki um skömm né heiður í vaðlinum. Þeir hafa í raun gefið "íslenzka ákvæðið" í Kyoto sáttmálanum upp á bátinn, og þeir vita ekki, að ESB (Evrópusambandið) undanskilur koltvíildislosun álvera í bókhaldi sínu um gróðurhúsalofttegundir. Hvers vegna halda menn, að ESB geri það ? Það er til að viðhalda hvata bílaframleiðenda til að auka hlutdeild áls í hverju farartæki.
Um þetta skrifaði Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri og prófessor í rafmagnsverkfræði við HÍ, í greininni "Áliðnaðurinn á Íslandi eftir Kyoto", sem birtist í Morgunblaðinu 18. marz 2009:
"Framleiðslu á hverju kg áls í álverum sem nota nýjustu vinnslutækni fylgir losun á um 1,7 kg að CO2 - ígildi af gróðurhúsalofttegundum. Hvert kg af áli sem notað er í bíla í stað þyngri málma sparar á hinn bóginn losun á 20 kg af CO2 yfir endingartíma bílsins, sem er stuttur í samanburði við meðaldvalartíma koltvísýrings í andrúmsloftinu. Þetta þýðir að ef 8,5 % eða meira af hráálinu er notað í bílasmíði nægir það til að vega upp losunina frá framleiðslu alls álsins. Í reynd fer nú þegar mun stærra hlutfall hráálsins í bílasmíði og það hlutfall fer vaxandi vegna þrýstings á bílaframleiðendur um að draga sem mest úr eldsneytisnotkun á ekinn kílómetra.".
Í lok greinar sinnar segir Jakob:
"Starfsemi sem sjálfkrafa leiðir til minni heimslosunar á CO2 á eðli máls samkvæmt ekkert erindi í alþjóðasamþykktir sem miða að því að vinna gegn gróðurhúsaáhrifunum. Sú starfsemi stuðlar nefnilega að sama markmiði og þær samþykktir.".
Hér eru færð málefnaleg rök fyrir því, að Ísland eigi að taka þveröfuga stefnu við það, sem ríkisstjórnin lætur á sér skilja, að stefnt sé að á Kaupmannahafnar ráðstefnu um þessi mál haustið 2009. Þar ætlar þessi lánlausa ríkisstjórn, fái hún endurnýjað umboð í Alþingiskosningum í apríl 2009, að vinna blygðunarlaust gegn hagsmunum Íslands og að bjóða landslýð í staðinn upp á "eitthvað annað".
Við sáum nú í marz 2009, hvað þetta "eitthvað annað" ríkisstjórnarinnar er, þegar hún boðaði aðgerðir sínar í atvinnumálum. Þær voru hvorki fugl né fiskur. Hið furðulega var þó, að þriðjungur áforma ríkisstjórnarinnar voru stóriðjuframkvæmdir, sem voru langt komnar í undirbúningi áður en "Jóka" komst á koppinn. Hvernig heldur fólk, að ráðherrum núverandi stjórnarflokka gangi að ávinna sér traust erlendra fjárfesta, sem þeir hafa áður lagt í einelti með svigurmælum, óhróðri og dylgjum ?
Margt er enn ónefnt af gjaldeyrisskapandi starfsemi. Ein er samt undirstaðan þeirra allra. Það er íslenzka krónan. Engin ástæða er til að halda, að Evrópubankinn í Frankfurt hefði komið til skjalanna og bjargað íslenzku bönkunum frá hruni. Hann gegnir einfaldlega ekki hlutverki þrautavarabanka. Það gera hins vegar seðlabankar hvers lands. Við stæðum þess vegna uppi með hrunið bankakerfi, enda grautfúið innan frá, þó að gjaldmiðill okkar væri evra. Þá stæðum við nú á barmi gjaldþrots, eins og þjóðir með mikla eignabólu og evru eða fasttengda mynt við evru. Þessar þjóðir hafa glatað samkeppnihæfni sinni við útlönd, en krónan drífur hins vegar áfram íslenzka útflutningsatvinnuvegi, svo langt sem það nær vegna eymdarástands á mörkuðum ytra. Á sökkvandi skipi gamla efnahagskerfisins, bréfahagkerfisins, reyndist krónan verða okkar bjarghringur.
Flokkur forsætisráðherra vill hoppa til Brüssel með allt á hælunum og semja þar um innlimun íslenzkrar efnahagslögsögu í ESB, þó að enginn viti á þessari stundu á hvaða vegferð ESB er.
ESB virðist vera á leið til upplausnar og mun ekki taka við okkur á næstunni, nema við látum undan þeirra ýtrustu kröfum. Full yfirráð ESB yfir íslenzkri efnahagslögsögu verður vafalítið eitt af samningsmarkmiðum þeirra. Þeir telja sig nú eiga í fullu té við okkur og hafa þar töluvert til síns máls. Þetta mun ekki standa í Samfylkingunni, "bóluflokkinum" samkvæmt lýsingu formanns Framsóknarflokksins, enda vantar hryggjarstykki og heilabú í fyrr nefndan stjórnmálaflokk. Það er kvíðvænlegt, ef Samfylkingunni verður falin forsjá íslenzka utanríkisráðuneytisins eftir næstu kosningar.
Spyrja má, hvers konar stjórnarfarsleg umgjörð henti framleiðsluþjóðfélaginu bezt ? Eftir hrun Þriðja ríkisins stóð þýzka þjóðin frammi fyrir spurningu af svipuðu tagi. V-Þjóðverjar nutu þá leiðsagnar stjórnskörungsins Dr Konrad Adenauers og hagspekingsins Dr Ludwig Erhards. Þeir duttu niður á farsæla lausn fyrir Þjóðverja, sem þeir nefndu "Sozial Marktwirtschaft", sem nefna mætti "Félagslegt markaðshagkerfi" og seinna þróaðist í "das Wirtschaftswunder" eða efnahagsundrið. Þetta þýðir í raun, að með áherzlu á markaðsbúskap er markmiðið að hámarka stærð kökunnar, sem til skiptanna er fyrir þegnana og hið opinbera, sem tryggi jöfnun tækifæra þegnunum til handa, t.d. til mennta, og reki öflugt almannatryggingakerfi.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn mundi fara að fordæmi Kristilega lýðræðisflokksins í V-Þýzkalandi fyrir tveimur mannsöldrum með því að sveigja inn á miðjuna, mundi slík stefnumörkun vera í samræmi við greiningu Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, í leiðara blaðsins 21. marz 2009, þar sem hann ályktar, að ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og VG muni færa þá flokka nær hvor öðrum og þar með færa Samfylkinguna lengra til vinstri. Þar með gæti Sjálfstæðisflokkurinn náð undirtökunum á miðjunni, svo að dregið sé dám af hugtaki í fótbolta.
Á það ber að leggja áherzlu, að sókn inn á miðjuna undir merkjum "félagslegrar markaðshyggju" fæli ekki í sér neina breytingu á grundvallar viðhorfum sjálfstæðismanna, sem eru að standa vörð um og efla eftir mætti frelsi einstaklinganna til athafna og tjáningar innan marka laga og Stjórnarskráar, og að viðlagðri ábyrgð á eigin gjörðum, og að efla samtakamátt og samheldni landsmanna undir kjörorðinu "Stétt með stétt".
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.