3.4.2009 | 18:54
Skattahækkanir ofan í eymdina
Eins er víst og nótt fylgir degi, að fái vinstri flokkarnir brautargengi í kosningunum 25. apríl 2009, þá skella þeir þungbærum skattahækkunum á launþega, sparifjáreigendur og jafnvel alla neytendur, sem þó munu enga skila fyrir ríkissjóð, þegar upp verður staðið. Almenningur mun þá enn gjalda hrapallegra hagstjórnarmistaka, enda skilja rauðliðar ekki samhengi skattálagningar og skatttekna.
Slík aðgerð yrði í fullkomnu samræmi við hugmyndafræði sameignarsinna, sem reist er á öfund og forræðishyggju og mörkuð skilningsleysi á gangverki hagkerfisins. Það hefur alltaf verið reginmunur á afstöðu hægri og vinstri manna til skattkerfisins. Hægri menn telja meginhlutverk skattkerfis vera að afla hinu opinbera nauðsynlegra tekna til að standa undir útgjöldum, sem löggjafinn ákvarðar ásamt sveitarstjórnum. Vinstri menn, aftur á móti, eru upp fullir af öfugsnúnum hugmyndum um annars konar hlutverk stjórnmálamanna en löggjafar og stjórnunar á málefnum ríkisins. Grillur þeirra snúast yfirleitt um kreddur og í þessu tilviki um að breyta tekjuskiptingunni, sem þegar hefur ráðizt á vinnumarkaðinum á milli launþega og vinnuveitenda, annaðhvort í beinum samningum þeirra á milli eða félagasamtaka þeirra. Skattkerfið er þá tækið, sem purkunarlaust er beitt í þessu augnamiði.
Verður ekki séð, að stjórnmálamenn hafi heimild, með stoð í stjórnarskrá, til að hlutast þannig gagngert til um að breyta niðurstöðum frjálsra samninga og mismuna fólki beinlínis eftir tekjustigi á grundvelli umdeildra hugmynda um jöfnun ráðstöfunartekna. Mishátt álagningarhlutfall er siðlaus mismunun þegnanna, sem engu skilar, þegar upp er staðið, nema sameiginlegu tjóni þjóðfélagsins á formi aukins samdráttar hagkerfisins og aukins atgervisflótta úr landi við núverandi þjóðfélagsaðstæður eða minni hagvexti en ella í venjulegu árferði.
Í þessum efnum er þó unnt að fallast á réttmæti persónuafsláttar, þó að hann sé ekki sjálfsagður, en það er engan veginn hægt að fallast á réttmæti fjölþrepa skattkerfis, þar sem jaðarskattprósentan er hækkuð í þrepum með hækkandi tekjum. Persónuafsláttur hefur raunar í för með sér stighækkandi jaðarskatt frá skattleysismörkunum, eins og gefur að skilja.
Í þessu sambandi er hægt að upplýsa, að Verkamannaflokkur Bretlands setur á 45 % jaðarskatt, en hann gerir það með 3 ára fyrirvara, þ.e. álagning á ekki að taka gildi fyrr en 2011, og þá aðeins fyrir árstekjur yfir GBP 150´000 eða MISK 26. Íslenzku rauðliðarnir ætla að skattpína launafólk með árstekjur MISK 6 og hærri.
Það liggur í landi, að skattar séu lágir á Íslandi. Þessu er þó þveröfugt farið. Þegar tekin eru saman útgjöld ríkis og sveitarfélaga, sjá grafið hér að ofan, kemur í ljós, að þau voru um 45 % af landsframleiðslu á Íslandi fyrir Hrunið, en um 40 % að meðaltali innan OECD. Það snaraðist á merinni á Íslandi árið 2006, eins og tilvitnað graf ber með sér. Þetta, ásamt gríðarlegu tekjufalli hins opinbera og nýjum útgjaldaliðum í kreppunni, er meginástæða þess, að hallinn á ríkissjóði nemur nú um 12 % af VLF. Þetta mun vera svipað hlutfall og í BNA (Bandaríkjunum).
Í BNA voru skattar samt nýlega lækkaðir, þó að þeir séu miklu lægri en hérlendis. Hvers vegna halda menn, að mikill meirihluti hafi verið fyrir þeirri aðgerð í báðum deildum Bandaríkjaþings ? Fyrir skattalækkun voru færð sömu rök í BNA og í fjölmörgum öðrum löndum, þar sem þjóðþing hafa undanfarið samþykkt skattalækkun þegnunum til handa. Það er til þess að létta undir með almenningi í þrengingum kreppunnar. Ef almenningur fær þannig meir á milli handanna, fækkar gjaldþrotum, greiðsluskil skána og viðskipti glæðast. Þetta er þó ofvaxið skilningi margs vinstri sinnans.
Hvers vegna dettur engum í hug hérlendis að lækka skatta í stað alls kyns sjónhverfinga, sem spunnar eru upp um meðferð skulda, þar sem kostnaður mun leggjast á sameiginlega sjóði landsmanna að miklu leyti ? Grundvallar atriði er, að þegnarnir njóti jafnræðis, þegar hið opinbera leggur á byrðar eða léttir af byrðum.
Hækkun skattaprósentu, af hvaða tagi sem er, mun dýpka kreppuna og lengja í henni. Þessa tröllheimskulegu aðgerð hafa ríkisstjórnarflokkarnir samt boðað bæði leynt og ljóst, að koma muni til framkvæmda eftir kosningar nú í apríl 2009. Sjálfstæðisflokkurinn telur nóg komið af skattahækkunum og telur mestu varða fyrir heildina, að einstaklingarnir fái svigrúm til að bjarga sér, en séu ekki spenntir fyrir hlass hins opinbera meirihluta ársins sem hverjir aðrir dráttarklárar. Þetta má heita nútíma þrælahald sameignarstefnunnar.
Sameignarsinnum hefur t.d. ætíð sviðið, að fjármagnstekjuskattur skuli ekki vera hærri en 10 %. Þessi hóflega skattheimta ásamt jákvæðri raunávöxtun sparnaðar er þó forsenda þess, að einhver umtalsverður sparnaður verði til í landinu. Hvernig eigum við að koma hjólunum í gang án sparnaðar ? Án sparnaðar verða engar fjárfestingar. Ef peningamagn í umferð eykst meir en sparnaðurinn til lengdar, verður til verðbólga. Mikill sparnaður er forsenda mikilla útlána, t.d. til fjárfestinga í atvinnulífinu. Hækkun fjármagnstekjuskatts mun draga úr sparnaði ásamt peningalegum stöðugleika og leiða til aukins fjármagnsflótta úr landinu og þar með lakari lífskjara.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Írar standa frammi fyrir afleiðingum ofhitnunar efnahagskerfis síns, sem birtist t.d. sem gríðarleg eignaverðsbóla. Þensla og síðan mikill samdráttur varð þrátt fyrir evru þar í landi, en það er önnur saga. Nú ræða þeir, hvernig þeir eigi að ná jafnvægi í ríkisbúskap, sem er eitt af Maastricht skilyrðum evrulands. Þeir eru með einna lægstan tekjuskatt á fyrirtæki eða 12,5 %. Þetta dró miklar fjárfestingar til Írlands frá aldamótum fram að 2008. Írar ætla ekki núna að hækka þennan skatt. Þó að ESB hafi horn í síðu Íra fyrir þennan lága skatt, láta Keltarnir ekki undan, því að þeir vita, að slíkt mundi draga kreppuna á langinn hjá þeim. Þegar lánsfé er af skornum skammti, hvað þá illfáanlegt, eins og núna, er gulls í gildi að hafa aðdráttarafl fyrir fjárfesta, ekki sízt erlenda.
Nú er spurningin, hvaða áhrif hefur breyting á álagningarprósentu skatta á tekjur hins opinbera ? Fjármálaráðherrann, sem ekki heitir Ragnar Reykás, þó að því hafi verið haldið fram, hefur svarað þessari spurningu varðandi tekjuskattinn. Hann boðar tvö ný þrep í álagningu tekjuskatts launþega og áætlar, að þessi nýja hækkun jaðarskatts muni leiða til tekjuaukningar ríkissjóðs um 3,5 milljarða króna. Ef reiknað er með, að tekjuskattshækkunin nái til 50 þúsund skattborgara, þá nemur skattahækkunin 70 þúsund krónum að jafnaði á hvern, sem verður fyrir þessu svipuhöggi fjármálaráðherrans.
VG hefur ályktað um að taka upp eignarskatt að nýju á Íslandi, og hafa þeir nefnt svo hátt álagningarhlutfall, að jafna má til eignaupptöku. Þetta er einstaklega óréttlátur skattur af eftirfarandi ástæðum:
- eignarskattur felur í sér margsköttun á sömu tekjur, sem varið hefur verið til öflunar eigin húsnæðis
- þessi skattstofn er nú nýttur grimmilega af sveitarfélögunum á formi fasteignagjalda og ríkið væri þess vegna að höggva í sama knérunn
- eignarskattur kemur þyngst niður á tveimur hópum, sem nú eiga mjög undir högg að sækja, þ.e. ungu fólki, sem er að stofna til heimilis, og hefur rýrða tekjumöguleika í kreppunni, og öldruðu fólki, sem enn býr í eigin húsnæði og hefur tapað stórfé, þó að ekki væri annað tínt til en tap lífeyrissjóða
- álagning eignarskatts mun vafalaust hækka leiguverð, sem harðast kemur niður á þeim, sem sízt skyldi.
- hækkun eignarskatts mun enn tefja endurreisn húsnæðismarkaðar
Skattahækkanir munu við núverandi aðstæður valda stórtjóni á hagkerfinu og ríða mörgum fjölskyldum að fullu, fjárhagslega. Með öðrum orðum munu skattahækkanir enn hægja á hjólum efnahagslífsins og fjölga gjaldþrotum heimila og fyrirtækja. Hið sorglega er jafnframt, að þessar fórnir munu verða algerlega unnar fyrir gýg, því að þær munu ekkert hækka tekjur ríkissjóðs til lengdar af þeirri einföldu ástæðu, að þær munu leiða til samdráttar skattstofna ríkisins.
Lauslega áætlað munu boðaðar (undir rauðri rós) skattahækkanir leiða til þess, að um 250 þúsund krónum á ári verður kippt út úr ráðstöfunartekjum miðstéttarfjölskyldunnar íslenzku, sem stendur undir öllu velferðarkerfinu. Eins og áður segir mun þetta leiða til þess, nú þegar endar ná vart saman hjá tugþúsundum fjölskyldna, að fjöldi manns verður að segja sig til sveitar. Þetta verður mögnun móðuharðinda af mannavöldum og gjaldið, sem greitt verður fyrir "Búsáhaldabyltinguna", sem leiddi til valdatöku rauðliðanna, svartasta afturhalds landsins, sem sækir efnahags-og stjórnmálakenningar sínar í löngu gjaldþrota góss Karls Marx og Friedrich Engels. Að hagnýta kenningar þessara herramanna kemur hverri þjóð á vonarvöl.
Hér blasir í hnotskurn við meginmunurinn á sameignarstefnu ríkisstjórnar flokkanna og félagslegu markaðshagkerfi. Hið fyrr nefnda lítur miskunnarlaust á tekjur og eignir þegnanna sem skattstofna, sem hinu opinbera beri að skítnýta "til að jafna lífskjörin", en í félagslegu markaðshagkerfi er stefnan sú að skapa einstaklingum og félögum nægt svigrúm til fjárfestinga og/eða sparnaðar, þannig að samfélagskakan, sem til skiptanna er, stækki sem örast, og að sem flestir einstaklingar búi við efnahagslegt og félagslegt öryggi.
Það er gefið mál, að skattahækkanir munu leiða til aukinna undanskota og stækkunar svarts vinnumarkaðar. Í stað þess að auka álögur á þrautpíndan almenning væri yfirvöldum nær að einhenda sér í að hafa uppi á lausafé og eignum, sem skotið hefur verið undan skatti. Nefnd á vegum hins opinbera hefur áætlað, að skattsvik nemi á bilinu 40-60 milljörðum kr árlega, þar sem ríki og sveitarfélög eru svikin. "Skattmanni" væri nær að einhenda sér í að hafa uppi á þrjótum, sem brotið hafa skattalögin en að níðast á löghlýðnum borgurum, sem gjalda guði, það sem guðs er og keisaranum, það sem keisarans er. "Skattmanni" á ekki að verða skotaskuld úr, ef nokkur mannsbragur er að honum, að bæta innheimtuna um eina 40 milljarða árlega í stað þess að auka hvatann til undanskota með skattahækkunum.
Skattaparadísir í Karíbahafinu hafa verið nefndar, en þær hafa einnig verið í Evrópu og ekki síður í Bandaríkjunum. Nú hafa Svisslendingar, eftir þrýsting frá ESB, létt á bankaleynd, og eftir G20 fundinn í Lundúnum í aprílbyrjun 2009 mun hún vafalaust víða rakna upp, enda bankaleynd stórlega misnotuð af andfélagslegum öflum, svo að orðalag bolsévíka sé viðhaft. Með því að einbeita sér að þessum fjáruppsprettum, geta yfirvöld á Íslandi, í stað þess að ganga í skrokk á þrautpíndum almenningi með engum árangri, heimt að líkindum hundruði milljarða króna í fjárhirzlur ríkisins áður en yfir lýkur. Er myndarlegt átak dómsmálaráðherra með samningi við fyrrverandi yfirrannsóknardómara í Frakklandi og eflingu embættis sérstaks saksóknara lofsvert.
Hér má sjá mynd frá Klettafjöllunum bandarísku. Þar eru víða taldar leynast skattaparadísir, svo að víðar er hægt að fara til að leita fanga en til smáeyja, þó að þangað geti slóðin einnig legið. Undarlegt er, ef Europol og Interpol gagnast ekkert í þessari leit, en samstarf við erlenda sérfræðinga um peningaþvætti er þó að komast á laggirnar. Eva Joly og fleiri slíkir hafa haldið og munu jafnvel í enn ríkari mæli halda fyrir mörgu þrælbeini vöku.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Viðskipti og fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hér er langur pistill - en algerlega ómarktækur vegna þess að sú staðreynd blasir við að undir stjórn Sjálfstæðisflokks voru öll höft afnumin og pólitíkusar sátu meira að segja í stjórnum þeirra fyrirtækja sem hvað verst skuldsettu þjóðina.
Ef ekki á að greiða þótt væri nema brot af þessum skuldum - með skattaálögum - hvernig á þá að fara að. Það hefur staðreynd í þessum heimi að takir þú lán - þá ber þér að greiða af þeim. Hægt að koma fram með alls kyns hagfræðilegar útskýringar - viturlegar og óviturlegar - en það þarf að greiða skuldirnar ég og þú og við öll.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 4.4.2009 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.