16.5.2009 | 14:32
Verkstjórnin
Um áramótin 2008/2009 tóku að heyrast umvandanir um verkstjórn þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins á ríkisstjórnarheimilinu frá forystu Samfylkingar. Þetta kom flatt upp á suma, því að ekki var þá vitað til, að sú sama forysta hefði úr háum söðli að detta í stjórnunarlegum efnum. Þegar þetta var svo kannað nánar, kom í ljós, að margur heldur mig sig. Þingflokkur Samfylkingar hélt þingmálum í gíslingu, og seinagangur var við ákvarðanatöku að hálfu Samfylkingar m.a. vegna veikindafjarveru formannsins.
Nú hefur þjóðin fengið smjörþefinn af verkstjórn Samfylkingar. Er skemmst frá því að segja, að hún er öll í skötulíki. Forgangsröðun verkefna, sem er mikilsvert stjórnunaratriði, þjónar engan veginn hagsmunum heildarinnar, heldur virðist vera reist á kreddum og fordómum "nomenklatúru" ráðstjórnarinnar. Á meðan reka mikilvægustu málin á reiðanum. Nefna má tafir á endurskipulagningu fjármálakerfisins og hnökra á samstarfinu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (AGS). Afleiðingin af þessu er fjármagnsskortur, áframhaldandi gjaldþrot og vaxandi atvinnuleysi.
Ráðherra sendir AGS tóninn fyrir að mæla gegn lækkun stýrivaxta. Engin peningaleg rök hamla stýrivaxtalækkun. Af þessum sökum er augljóst, hvað AGS gengur til. AGS treystir ekki ríkisstjórninni og meirihluta hennar á Alþingi til að fást við ríkisfjármálin. Ríkisstjórnin er að heykjast á samningnum við AGS um ríkisfjármálin, sem áttu að verða meginviðfangsefni nýkjörins Alþingis og ríkisstjórnar. Allir viti bornir menn átta sig á, að hinn feiknarlegi halli á ríkissjóði Íslands, sem er með því hæsta, sem þekkist, mun sliga peningakerfið og allt efnahagslíf landsins, ef ekki verður þegar í stað ráðizt að honum.
Þess í stað er verkstjórnin nú með þeim hætti, að athyglinni og kröftunum er beint að umsókn um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Stafar ljóma af þessari nýjustu flóttaleið ráðstjórnarinnar ? Nei, öðru nær. Drög þau að þingsályktun um umsókn að ESB, sem kynnt voru til sögunnar skömmu eftir að forsætisráðherra batt þingmenn trúnaði um skjalið, eru örverpi, sem benda til, að ríkisstjórnin viti ekki, hvað hún vill. Svo ólánlega er lagt upp í þessa ferð til Brüssel, að ríkisstjórnin virðist ætla þangað á annarri löppinni og styðjast við hækju "búsáhaldabyltingarinnar" á leið sinni. Ófélegri málatilbúnaður í örlagaþrungnu máli hefur aldrei sézt síðan landið hlaut heimastjórn árið 1904. Svo er að sjá sem haltur leiði blindan, og engin heil brú sé í málatilbúnaði vinstri flokkanna, sem nú fara með landstjórnina.
Viðræður um inngöngu í ESB munu ekki snúast um annað en það, hvernig landið lagar sig að sáttmálum, lögum og tilskipunum ESB. Það virðist engin stefnumörkun hafa átt sér stað um neinn hinna 35 (eða svo) málaflokka, sem samningamenn ESB munu leggja á borðið og krefjast samþykktar á. Það er engrar miskunnar að vænta frá samningamönnum ESB. Vingulsháttur ríkisstjórnar Íslands í þessu stórmáli er með þeim hætti, að Alþingi verður að taka í taumana og kæfa málið í fæðingu áður en ríkisstjórnin verður landinu til stórskammar í Brüssel.
Nú þegar er ljóst, það sem margir töldu sig vita, að vinstri stjórn ræður engan veginn við þann vanda, sem við er að etja í íslenzku samfélagi árið 2009. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar er þegar farið að valda hærra vaxtastigi í landinu en nokkur þörf væri á, ef hún tæki snarborulega á ríkisfjármulunum og setti ekki samstarfið við AGS í uppnám með ráðleysi sínu. Jafnvel forseti lýðveldisins er tekinn að óttast barnalegar hugmyndir Samfylkingarinnar um inngöngu landsins í ESB, eins og fram kom við setningu Alþingis nú í vikunni, þar sem hann í raun gagnrýndi verkstjórnina, sem kann ekki að forgangsraða, en hleypur út undan sér frá einu máli til annars.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ég vildi að nú væru kosningar og fólk væri búið að sjá að þessi starfandi stjórn er gjörsamlega vanhæf,Steingrímur búinn að svíkja sína kjósendur varðandi ESB og Jóhanna hugsar númer 1,2 og 3 eingöngu um ESB.Ef þetta á að verða svona og AGS á að ráða hér náum við okkur aldrei upp aftur,það er vitað að AGS og ESB eru í miklum tengslum og númer 1 hjá þeim er að auðmenn haldi sínum peningum sama hvað það kostar fyrir þjóðina.Er ekki komin tími á aðra byltingu um vanahæfa ríkisstjórn áður en það verður of seint.Steingrímur vildi skila láni AGS fyrir kosningar en hvað nú? nú skiptir stóllinn meira máli en hagur þjóðarinnar.Ég vill byltingu og það strax,og ef hávaði fyrir utan alþingi dugir ekki svo þessir landráðamenn skilji okkur þá er bara að láta sverfa til stáls.
Marteinn Unnar Heiðarsson, 16.5.2009 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.