21.5.2009 | 12:36
Janusarhöfuð
Þeir, sem nenntu að fylgjast að einhverju leyti með sjónvörpuðum ræðuhöldum af Alþingi Íslendinga mánudagskvöldið 18. maí 2009, hafa e.t.v. sumir hverjir orðið slegnir yfir því, að allt virðist reka á reiðanum hjá ráðherrunum; engin stefna birtist í "stefnuræðu forsætisráðherra", nema ein: að senda umsókn til Brüssel um inngöngu í ESB með þeim skilmálum, sem Alþingi kann að setja.
Það er ekki einleikið, að á þessum tímum gjaldþrota og atvinnuleysis, þegar efnahagskerfið stefnir norður og niður, sitji hér ríkisstjórn án framtíðarsýnar, en með þá tálsýn, að við það eitt að senda inn umsókn til Brüssel muni hér allt breytast til batnaðar. Þessi málefnafátækt og firring er þyngri en tárum taki á tímum, þegar þjóðin þarf raunhæfa og sameinandi framtíðarsýn og landsforystu, sem blæs almenningi von í brjóst á þrautastund. Það þarf hugsjónaeld aldamótakynslóðarinnar í upphafi heimastjórnar til að rífa landið upp úr þeirri eymd og volæði, sem það er að sökkva í undir ráðalausri ráðstjórn.
Samfylkingin situr í klofinni ríkisstjórn með VG og ætlar nú að kljúfa þjóðina með því að setja ESB á oddinn. Við því er aðeins eitt svar á Alþingi; að láta sverfa þar til stáls um þetta umsóknarmál. Hvað sem öðru líður, er klofin ríkisstjórn afar óheillavænleg til að leiða samningaviðræður um aðild að ESB, enda eru drög ríkisstjórnarinnar að þingsályktun um umsókn feigðarflan, sem ekki er unnt að reisa erfiðar og viðurhlutamiklar samningaviðræður á. Vegna innbyrðis sundurþykkju er ríkisstjórn vinstri flokkanna ófær um að leiða það í ljós, hvað Íslandi kann að bjóðast. Tvíhöfða ríkisstjórn (Janusarhöfuð) getur engum árangri náð í erfiðum málum. Þess vegna er ver farið en heima setið.
Athyglivert var, nú í uppstigningarvikunni, að hlýða á Norðmennina tvo frá "Nei til EU" samtökunum norsku. Þeir sögðu, að Norðmenn hefðu engar varanlegar ívilnanir fengið frá sjávarútvegsstefnu ESB, þegar þeir sömdu árið 1994, og sömu sögu hefði verið að segja um aðrar fiskveiðiþjóðir, sem sömdu um aðild einum áratugi síðar. Allt tal um, að Íslendingar geti í samningaviðræðum við framkvæmdastjórn ESB fengið varanlegar undanþágur, er óráðshjal. Tálsýnin er kórónuð með blaðri um, að Íslendingar muni að líkindum móta stefnu ESB sér í hag á hagsmunasviðum sínum. Fólk, sem þannig talar, er annaðhvort allsendis fáfrótt um innviði og sögu ESB, eða það telur tilganginn helga meðalið í óprúttnum áróðrinum fyrir því að flytja völdin frá Reykjavík til Brüssel.
Það ætti að fylgja ráðleggingum Norðmannanna frá "Nei til EU" um að bíða með aðildarumsókn þar til búið verður að komast að því, hvort til auðlinda Íslands megi telja um 10 milljarða tunna af olíu og gasi undir hafsbotni Drekasvæðisins, hverra verðmæti má ætla, að jafnist á við 100-falda núverandi árlega landsframleiðslu (VLF) Íslands hið minnsta m.v. meðalverð á myndinni hér að neðan. Téð magnáætlun er frá norska olíuleitar fyrirtækinu Sagex Petroleum - Terje Hagevang, á grundvelli fyrstu hljóðbylgjumælinga og botnrannsókna á Drekasvæðinu. Norðmennirnir kváðu skýrt að orði um, að Íslendingum væri vissast að halda sig utan ESB, ef þeir vildu halda í auðlindir sínar. Þeir hafa í tvígang staðið í samningaviðræðum í Brüssel um inngöngu Noregs.
Það, sem landsfeður og-mæður þurfa nú að gera, er, að afleggja draumóra um ESB, sem annars gætu hæglega breytzt í martröð, og einhenda sér í að framfylgja samkomulaginu við AGS (IMF), en vinstri stjórnin virðist vera að klúðra því samstarfi. AGS hefur svo mikla vantrú á getu ríkisstjórnarinnar til að fást við fjárlagahallann, að hann telur nauðsynlegt að halda uppi svimandi háum vöxtum til að halda aftur af verðbólgu og gengissigi. Úr þessu verður að bæta og skapa strax forsendur fyrir vaxtalækkun. Í nánu samstarfi við AGS þarf einnig að gera allt, sem nauðsynlegt er til að laða erlendar fjárfestingar til landsins. Á því veltur algerlega, hvort tekst að vinnna bug á kreppunni árið 2011 eða ekki. Olíupeningarnir, sem enn eru vonarpeningur, munu ekki taka að streyma inn fyrr en um 2020.
Margir hafa horn í síðu AGS, en okkur er hollt að minnast þess, að haustið 2008 neituðu allar þjóðir, nema e.t.v. Rússar og Kínverjar, að okkar góðu frændum Færeyingum undanskildum, að hlaupa undir bagga og opna hingað lánalínur, nema slíkt færi fram undir handarjaðri AGS. Nýta þarf AGS til að skapa hér aðlaðandi umhverfi erlendra fjárfestinga. Ef ríkisstjórnin klúðrar algerlega samstarfinu við AGS, mun það hafa í för með sér hrikalegar afleiðingar fyrir traust útlendinga á Íslandi sem landi til fjárfestinga og sömuleiðis fyrir lánstraust okkar og í reynd skipa Íslandi á bekk með Norður-Kóreu um sinn.
Sá er galli á gjöf Njarðar, með hliðsjón af þröngsýni og fordómum vinstri flokkanna í garð atvinnulífsins, að hætt er við, að ríkisstjórnin glutri niður stærstu fjárfestingartækifærunum af eftirfarandi tveimur ástæðum:
- Innan beggja ríkisstjórnarflokkanna er hatrömm andstaða gegn erlendum fjárfestingum, sérstaklega í virkjunum og í orkukræfum iðnaði. Ríkisstjórnin mun þess vegna þvælast fyrir sköpun atvinnutækifæra í stórum stíl, sem hljótast mundu af innstreymi erlends fjár vegna fjárfestinga í orkuverum og iðnfyrirtækjum upp á t.d. um þrjá milljarða bandaríkjadala eða um 30 % af VLF á þremur árum. Ríkisstjórnin er því miður ekki upptekin af því að stækka kökuna, heldur að jafna út fátæktinni.
- Stefna ríkisstjórnarinnar er að bíða með ákvarðanir um nýjar virkjanir eftir lúkningu á gerð svo nefndrar Rammaáætlunar, þar sem m.a. er reynt að leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmda. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir neyðarástand í atvinnumálum landsmanna og þrátt fyrir það, að hvergi mun hlutfallslega jafnstór hluti lands hafa verið friðlýstur sem hérlendis. Varðandi rask á hálendinu og umhverfisáhrif virkjana er rétt að benda á fróðlega grein Jakobs Björnssonar, fyrrverandi orkumálastjóra, í Morgunblaðinu 20. maí 2009, - Martraðarland - draumaland - veruleikaland. Þá er og nauðsynlegt að hafa í huga við mat á þessari biðstefnu ríkisstjórnarinnar, að samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum eru allar núverandi virkjanir á Íslandi afturkræfar. Niðurstaðan er þess vegna sú, að í ljósi aðstæðna sé biðin eftir Rammaáætlun skálkaskjól eitt, ótæk og óferjandi.
Af ofansögðu er ljóst, að ríkisstjórnin gengur með böggum hildar í atvinnumálum og virðast allar bjargir bannaðar vegna sundurþykkju stjórnarflokkanna í meginmálum. Ekkert blasir þess vegna annað við en yfir 10 % samdráttur landsframleiðslu á þessu ári án viðsnúnings á árinu 2010 með um eða yfir 20 þúsund manns atvinnulausa. Til samanburðar er samdráttur Eystrasaltsríkjanna 13 % - 18 % af VLF þar, og gengið fasttengt evru. Ríkisstjórnin ætti að leita fyrirmynda til Eistlands hjá Andrus Ansip, forsætisráðherra, um það, hvernig 12 % halla á fjárlögum er eytt á 1-2 árum.
Í einu máli virðist þó ríkja samhljómur stjórnarflokkanna, þ.e. um að þjóðnýta sjávarútveginn með því að hrifsa aflaheimildir frá einkaframtakinu og í hendur stjórnmálamanna. Hér er um aðför að undirstöðu atvinnulífsins að ræða, sem eyðileggja mun framlegð fyrirtækja, sem lagt hafa í miklar fjárfestingar og gera þeim ókleift að þjóna erlendum mörkuðum með nútímalegum hætti. Fræðilega ristir þessi þjóðnýting ekki dýpra en hver önnur töfluæfing í Háskóla Íslands, sem lýsir vel ábyrgðarleysi vinstri flokkanna gagnvart atvinnulífinu. Óvissan, sem ríkisstjórnin hefur nú þegar skapað á þessu sviði, er tekin að hamla starfseminni og draga úr fjárfestingum. Hvernig ætla stjórnmálamenn að endurúthluta feiknar verðmætum án spillingarásakana og logandi illdeilna um allt land ? Um þetta ritaði Þorsteinn Pálsson, ritstjóri, í leiðara Fréttablaðsins, 20. maí 2009, "Holur hljómur":
"Sjávarútvegsmálin eru gott dæmi um þessa óskýru hugsun. Fiskveiðistjórnunarkerfið er skotið í kaf með einni ákvörðun. Rekstur smábáta og annarra sjávarútvegsfyrirtækja er settur í uppnám með veiðileyfasviptingum. Frá þessu má ekki víkja. Það er flokkslína. Ríkisstjórnin hefur hins vegar enga hugmynd um hvað við eigi að taka. Það ráðleysi er fært í þann búning að kalla eigi eftir þjóðarsamstöðu um lausnir. Það er heldur holur hljómur í ákalli eftir þjóðarsamstöðu á þessum forsendum."
Allt er á sömu bókina lært hjá vinstri flokkunum. Fár og fum einkenna orð og gerðir. Fræðilega undirstöðu og traustan röksemdagrundvöll vantar fyrir allar hugmyndir og gerðir ráðstjórnarinnar. Þetta kallast vond stjórnsýsla. Ef svo fer fram sem horfir, mun ríkisstjórnin sigla hverju málinu í strand á fætur öðru. Hver verður dómur sögunnar yfir óvönduðum vinnubrögðum af því tagi, sem hér hefur orðið að umfjöllunarefni ? Ruslahaugar sögunnar voru nefndir af minna tilefni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál, Evrópumál | Breytt 23.5.2009 kl. 14:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.