Sleifarlag

"Ég óttast það mest, að jörðin kunni að vera vitlausra spítali alheimsins".  Þannig komst að orði Francois-Marie Arouet, d. 30. maí 1778, franskur heimsspekingur og rithöfundur, sem tók sér höfundarnafnið Voltaire, og reit undir því nafni undir merkjum Upplýsingastefnunnar, en hún varð undanfari lýðveldisstofnunar í Bandaríkjum Norður Ameríku (BNA) og valdatöku borgarastéttarinnar í Evrópu af aðlinum. 

Þeim, sem eru hagvanir á Íslandi árið 2009, dettur óneitanlega í hug, að Ísland gegni ekki sízt þessu hlutverki í alheiminum, og þá alveg sérstaklega Stjórnarráðið við Lækjartorg og Arnarhól og þinghúsið við Austurvöll. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að bankakerfið íslenzka hrundi eins og spilaborg, þegar allar lánalínur til landsins lokuðust, er tortryggni fjármálastofnana náði hámarki í kjölfar falls "Lehman Brothers".  Bankakerfið hafði vaxið út yfir allan þjófabálk vegna gáleysis bankastjórnenda og bankaeigenda, sem rekja má til vanþekkingar þeirra á hefðbundinni fjármálastarfsemi og almenns agaleysis hérlendis í fjármálum. 

Enn, um 8 mánuðum síðar, hefur valdhöfum ríkisins og embættismönnum þeirra ekki tekizt að endurreisa bankakerfið.  Það er þeim mikill áfellisdómur vegna þess, að atvinnulíf landsins er lítt starfhæft án bankakerfis.  Þess vegna tærast fyrirtækin upp og atvinnulausum fjölgar.  Fyrstu sjánlegu viðbrögð ríkisstjórnarinnar, sem til valda kom 10. maí 2009, eru að leggja á "Öreigaskatt", sem svo hefur verið nefndur, á nautnalyf og eldsneyti.  Þessi gjörningur er vanhugsaður að hálfu ríkisstjórnarinnar, sem minnir helzt á stefnulaust rekald.  

Lagt hefur verið til, að færa vísitöluna aftur til þess, sem hún var í ársbyrjun 2008.  Slíkar aðgerðir aftur í tímann orka tvímælis, en ríkisstjórn og Alþingi hafa hins vegar í hendi sér að afnema vísitölutengingu inn-og útlána frá ákveðnum tíma í framtíðinni.  Það er róttæk aðgerð, en bæði möguleg og nauðsynleg við núverandi efnahagsaðstæður. 

Síðan þarf að stokka upp rekstur hins opinbera og spara fé, sem svarar til raunaukningar á mann síðan um aldamótin síðustu.  Þegar krónan tekur að hækka í kjölfar endurreisnar bankakerfis og uppstokkunar ríkiskerfis, og þar með verðlag að lækka, er hægt að huga að skattahækkunum, ef þær eru taldar bæta úr skák.  Skattabreytingar eiga hins vegar að verða almenns eðlis, hvort sem um er að ræða beina eða óbeina skatta.  Skattahækkun sú, sem landsmenn urðu vitni að nú í aðfararviku hvítasunnu, er hins vegar eins og snýtt út úr nös vinstri manna, hún er tekin beint úr vopnabúri sameignarsinna, sem boða forræðishyggju, t.d. á formi skefjalausrar neyzlustýringar.  Stuðningsmenn vinstri aflanna og aðrir sjá nú skelfilega birtingarmynd vinstri stefnunnar.

Endurreisn íslenzks efnahagslífs hefur dregizt úr hömlu.  Ástæðan er forystuleysi ríkisstjórnar og agaleysi embættismanna.  Hrunið var svo alvarlegt, að ljóst mátti vera í upphafi, að stjórn ríkisins gæti ekki orðið með hefðbundnum hætti ("business as usual").  Það átti að endurskipuleggja forystuna, eins og landið ætti í stríði.  Beint undir forsætisráðherra átti að búa til "endurreisnarráð", þar sem í forystu væri erlendur eða innlendur maður með bein í nefinu úr atvinnulífinu og með skýrt valdsvið, sem sagt gæti m.a. ráðuneytisstjórum, bankaráðum og bankastjórum fyrir verkum.  Þetta ráð þurfti að vera tvíþætt, með varnarvæng og sóknarvæng.  Varnarvængurinn hefði þá það hlutverk að koma bankakerfinu á legg á ný og að skera niður ríkisútgjöld, en sóknarvængurinn hefði það hlutverk að laða að erlent fjárfestingarfé til uppbyggingar íslenzks atvinnulífs, að hleypa nýju lífi í efnahagskerfið til að stækka kökuna, færa fólki uppbyggjandi viðfangsefni, sem reist yrðu á framleiðslu handfastra verðmæta, helzt til að afla erlends gjaldeyris.   

Sú vinstri stjórn, sem nú er við völd að nafninu til, er á algerum villigötum.  Hún hefur enga burði til frumkvæðis, er veigur sé í.  Dæmi um þetta er framlagning tillögu á Alþingi um umsókn að ESB (Evrópusambandinu).  Frumkvæðið var umsvifalaust hrifsað úr höndum ríkisstjórnarinnar.  Hún hefur nú þegar gefizt upp á sinni vanhugsuðu tillögu um hraðferð inn í ESB, og líklega verður betur ígrunduð tillaga stjórnarandstöðunnar í þessum efnum samþykkt.  Hitt er svo annað mál, að það er kolrangt af ríkisstjórninni að dreifa kröftunum á þessari stundu með undirbúningi að aðildarviðræðum.  Stjórnmálamenn og embættiskerfið hafa ekki bolmagn til endurreisnar og umsóknar á sama tíma.  Fyrst á að reisa efnahagslífið úr rústunum, og síðan að taka slaginn við ESB, því að í aðildarviðræðum munum við þurfa á öllum okkar kröftum að halda.  Betur fallið til árangurs er og að semja við ESB með endurreist efnahagskerfi en allt enn í rjúkandi rúst.

Vinstri stjórnin er of andlaus og getulaus til að veita landinu þá forystu, sem er því lífsnauðsyn nú.  Borin von er, að andinn komi yfir hana nú um hvítasunnuna, eins og yfir lærisveinana forðum.  Líklega er þjóðstjórn skársti kosturinn í stöðunni, en Samfylkingin hefur enn ekki léð máls á slíku, af því að þá yrði aðalmál hennar, aðild að ESB, sett aftarlega í röðina, þar sem það á heima.  

Hér að ofan hefur höfundi orðið nokkuð tíðrætt um agaleysi Íslendinga.  Nýlega var hann á ferð í Sviss.  Mættu landsmenn taka sér Alpaþjóðirnar til fyrirmyndar að þessu leyti í mörgum efnum.  Hér að neðan getur að líta höfund á sviði í Luzern iðka blástur í hið fræga Alpahorn.  Svisslendingar halda það, ásamt fornum hefðum sínum og búningum, í miklum heiðri.  Með sama hætti eigum við Íslendingar að rækta okkar menningararf eða eins og sagði í Birtingi: "Un fault cultiver son Jardin" (maður á að rækta garðinn sinn).  

Isländischer Einsatz            

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð færsla. Ekki síst að heyra orðið "sleifarlag" Ólst upp við þetta orðatiltæki í merkingunni illa unnið verk.

Góð hugmynd um agaleysi. Garðurinn í  næsta húsi er auðvita fallegri vegna þess að hann er vel hirtur. Ekki flóknara. Takk.

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband