Atgervi

Merki SjálfstæðisflokksinsMaður dagsins fæddist 17. júní 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Jón Sigurðsson, forseti Alþingis, var fræðimaður og stjórnmálamaður í fremstu röð.  Hann greindi stöðu Íslands á sinni tíð í samfélagi þjóðanna með skarplegri hætti en aðrir menn fyrr og síðar.  Ísland var þá fátækt jaðarsvæði Danaveldis, og glöggskyggni og framsýni Jóns einstæð.  

Niðurstaða greiningar Jóns, forseta, var í stuttu máli sú, að Íslandi mundi þá bezt vegna, byggju landsmenn við frelsi í hvívetna, þ.e. atvinnufrelsi, þ.m.t. verzlunarfrelsi, og sjálfstæði frá öðrum ríkjum.  Jón taldi Íslendingum, með öðrum orðum, mundi þá bezt farnast, ef þeir stjórnuðu sínum málum sjálfir, þ.e. valdstjórnin yrði færð frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. 

Sagan hefur rækilega sannað þessa kenningu.  Þegar Íslendingar fengu Heimastjórn árið 1904, voru þeir ein fátækasta þjóð Evrópu.  Öld síðar voru þeir á meðal ríkustu þjóða heims reiknað í VLF/íb (vergri landsframleiðslu á íbúa).  Það eru óvéfengjanleg orsakatengsl þarna á milli. 

Hagvöxtur í Danaveldi og í ESBNú bregður hins vegar svo við, að upp er risinn allstór hópur í landinu, sem heldur því blákalt fram, að Íslendingum muni vegna betur, ef þeir "deili fullveldi sínu með öðrum  Evrópuþjóðum", þ.e. flytji valdstjórnina að hluta til frá Reykjavík til Brüssel.  Telja sumir þetta jafnvel mundu verða allra meina bót, enda hefur ríkisstjórnin nú lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um aðildarviðræður við ESB, að vísu í skötulíki. Ljóst er, að aðeins þeir, sem telja fullveldinu að einhverju leyti betur fyrir komið í Brüssel, kæra sig um að leggja nú í erfiðar aðildarviðræður við ESB.  Hinir hafa auðvitað á því engan gáning og telja tíma og kröftum stjórnvalda vera betur varið á öðrum vettvangi.  Það er nokkurn veginn vitað til hvers aðildarviðræður munu leiða.  Þær munu leiða til aðildarsamnings á forsendum ESB, eins og niðurstaðan hefur verið í aðildarviðræðum annarra landa áður. 

Ásókn hvaðanæva að hefur verið í aðild fram að þessu, fyrst af sögulegum ástæðum til að slíðra blóðrefil stórvelda Evrópu, en einkum seinni árin frá þjóðum, sem annaðhvort hafa viljað komast í hernaðarlegt skjól gagnvart rússneska birninum, eða efnahagslegt skjól í ölduróti heimsviðskiptanna.  Átti hið síðar nefnda áður við um Suður-Evrópu, en þar er nú megn óánægja með aðildina og þá spennitreyju, sem evran er þessum þjóðum.  Vitað er, að Þjóðverjar keyptu sameiningu lands síns við því verði af Frökkum 1989 að leggja niður þýzka markið.  Það varð upphaf evrunnar.

Bæði öryggisleg og efnahagsleg rök hafa ýtt fyrrum austantjalds þjóðum í fang ESB. 

Í flestum aðildarlöndunum er megn óánægja með aðildina, m.a. vegna ólýðræðislegra stjórnarhátta (lýðræðishalla), skrifræðis-og embættismannabákns, mikils kostnaðar og spillingar við meðferð fjármuna.  Því má bæta við, að báknið í Brüssel og annars staðar á vegum ESB, sem telur yfir eitt hundrað þúsund manns,  mun verða sífellt þyngra á fóðrum, því að Evrópa eldist nú hratt og stefnir í, að þriðjungur íbúanna verði yfir sextugu á tímabilinu 2030-2050. 

Olíuleitar pallurÞessu er öðru vísi háttað á Íslandi.  Þjóðin er ung (meðalaldur lágur) og töluverð viðkoma undanfarið.  Nú hefur mannfjöldaþróunin hins vegar skipazt þannig á Íslandi í fyrsta skipti síðan 1880-1890, að fækkun hefur orðið á landinu.  Í fyrri kreppum dró úr fjölgun.  Er þetta afleiðing efnahagskreppunnar í kjölfar hruns fjármálakerfisins í október 2008, en segja má í þeim efnum, að vinstri stjórnin hafi bætt gráu ofan á svart.  Má líkja aðgerðum og aðgerðarleysi núverandi ríkisstjórnar við skemmdarverkastarfsemi á atvinnulífinu, sem magnað hefur atgervisflótta úr landinu.  Dæmi um þetta verða nú upp talin:

Afarkostir þeir, sem ríkisstjórnin hefur gengið að í "Icesave" málinu, virka á efnahagskerfið eins og fallöxi þjóðargjaldþrots, sem dregin hefur verið upp.  Samkomulaginu hefur verið líkt við Versalasamningana, sem girtu fyrir endurreisn þýzka hagkerfisins eftir fyrri heimsstyrjöld.  Krónan mun ekki ná sér á strik með þessa þjóðarskuld yfirvofandi, sem leiðir til mikils aukakostnaðar heimila og fyrirtækja.  Með þessu verður girt fyrir möguleika landsins á að uppfylla skilyrðin um upptöku evru næstu 10-20 ár.  Málflutningur ríkisstjórnar og samninganefndar um, að bezta mögulega samningi hafi verið landað, er ótrúverðugur, enda í samninganefndinni ekki mesta atgervisfólkið á sviði lögfræði og fjármála, sem Íslendingar eiga á að skipa. 

Furðutiltektir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálunum, en þó aðallega aðgerðarleysi hennar á því sviði, hefur sett samstarfið við AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinn) í uppnám og gert Seðlabankanum ókleift að lækka vexti niður að 0 % raunvöxtum, sem atvinnulífinu ríður á núna, og þó fyrr hefði verið.  Bið er þess vegna eftir lánum frá AGS til endurfjármögnunar bankanna og styrkingar krónunnar með eflingu gjaldeyrisvarasjóðs.  Í stað skattaáþjánar, sem enn mun hægja á hjólum hagkerfisins, væri ríkisstjórninni nær að reyna að krækja í eitthvað af þeim 50 milljörðum króna, sem áætlað er, að skotið sé undan skatti árlega.  Skattahækkanir gera illt verra.  Þær dýpka kreppuna, því að viðskiptin í þjóðfélaginu dragst saman.  Þetta fjölgar gjaldþrotum og eykur atvinnuleysið.  Atgervisfólk erlendis frestar heimkomu, og atgervisfólk hérlendis flýr land m.a.  vegna skattaáþjánar. 

Seinlæti ríkisstjórnarinnar við endurreisn fjármálakerfisins hefur hneykslað erlenda ráðgjafa og aukið kvalræði atvinnulífsins með miklu meira atvinnuleysi í landinu en ella sem afleiðingu. 

Stefna ríkisstjórnarinnar um "innköllun aflaheimilda" er hótun um þjóðnýtingu nýtingarréttar á auðlindum hafsins, sem flestir handhafarnir hafa fest kaup á.  Sýnt hefur verið fram á það, m.a. í grein Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar, Drápsklyfjum sjávarútvegsins, sumarútgáfu Þjóðmála 2009, að "fyrningarleiðin" rekur sjávarútvegsfyrirtækin beint í gjaldþrot.  Þetta hefur þegar dregið úr fjárfestingum þeirra og fjárveitingum til viðhalds.  Hið sama gerist alls staðar, þar sem hótanir um þjóðnýtingu vofa yfir, sbr í Venezúela undir sameignarsinnanum Hugo Chávez. 

Úr því að olíuríki bar á góma má nefna, að iðnaðarráðuneytið, undir stjórn Samfylkingar, hefur samið reglur um svo þrælslegar skattaálögur á olíuvinnslu á Drekasvæðinu, að það hefur drepið niður áhuga olíufélaga á olíuleit þar.  Dæmigert fyrir vinstri menn er að slátra gullhænunni áður en hún fer að verpa. Er þó brýnt að efla áhuga olíufélaganna á vinnslu þarna, svo að olían létti undir efnahag landsmanna og hækki lánshæfismat ríkisins þegar á næsta áratugi, ef hún finnst þarna í miklu magni (norska fyrirtækið Sagex gizkar á 10 milljarða tunna olíujafngildis af gasi og olíu).   

Fjárfestingar í virkjunum og í nýrri stóriðju eru lífsnauðsynlegar núna til að koma hjólum atvinnulífsins strax í gang.  Við þær aðstæður birtir ríkisstjórnin skjal, Lofslagsstefnu Íslands, þar sem íslenzka ákvæðinu, svo nefnda, úr Kyoto samkomulaginu, um 1600 t koltvíildis til viðbótar frá nýrri stóriðju, sem notar raforku frá sjálfbærum og afturkræfum orkuverum, er kastað fyrir róða, þó að það sé enn vannýtt.  Þetta getur haft þær afleiðingar í för í með sér, að Ísland verði ekki jafnsamkeppnihæft um nýjar fjárfestingar og áður eða að gefa verði afslátt á orkuverði sem svarar til kostnaði við kaup á koltvíildiskvóta, nema allar þjóðir sitji við sama borð að þessu leyti.  Einkennilegt er að kasta frá sér umsömdum réttindum til handa nýrri stóriðju.  Það var alger óþarfi í núverandi efnahagsástandi, enda mun Ísland geta sýnt fram á mjög góðan árangur í loftslagsmálum árið 2020 með endurheimt votlendis, landgræðslu, skógrækt og rafvæðingu bílaflotans á næsta áratugi.

Þó að hér hafi verið rakin sláandi dæmi, sem líkja má við skemmdarverkastarfsemi á atvinnulífinu, er e.t.v. aðeins um að ræða birtingarmynd mikils atgervisleysis á vinstri væng stjórnmálanna.  Vinstri mennskan er knúin áfram af öfund í garð þeirra, sem velgengni njóta.  Gildir þá einu, hvort um er að ræða afrakstur mikillar vinnu langskólagengins fólks, góðs viðskiptaárangurs á grundvelli nýrra hugmynda eða annað.  Dæmin í þessa veru hrannast nú upp.  Boðaður er jaðarskattur á tekjur sérfræðinga, sem mikil spurn er eftir um allan heim, sem slagar upp í helming af hverri krónu, sem þeir vinna sér inn.  Séu þeir svo óheppnir að vinna fyrir ríkið, er þeim nú hótað launalækkun niður fyrir laun forsætisráðherra.  Það er furðulegt og órökstutt með öllu, að enginn ríkisstarfsmaður megi hafa hærri laun en forsætisráðherra.

Ef músarholusjónarmið vinstri mennskunnar halda áfram að tröllríða húsum í þessu landi, mun bresta hér á slíkur atgervisflótti, að allar "aðgerðir" stjórnvalda, sama hvaða nafni þær nefnast, verða unnar fyrir gýg. Þannig lenda landsmenn í vítahring atgervisleysis vinstri stefnunnar. 

Í stað eymdar og volæðis vinstri stjórnarinnar þarf að taka stefnuna á hagvöxt.  Fyrst þarf ríkisvaldið þó að greiða úr mörgum flækjum til að skapa hagvextinum nauðsynlegar forsendur.  Til þess þarf mikið atgervi, og hagvöxtur verður einvörðungu knúinn áfram af einkaframtakinu.  Ríkisrekstur er til þess ófær. Það verður þess vegna að einkavæða atvinnulífið, og til að það verði með sómasamlegum hætti þarf atgervi.    

Atgervisflótti


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Jón Sigurðsson var samviskusamur skrifari hjá biskup og hafði aðgang að góðu bókasafn biskupsins. En þetta ströggl hans í Köben er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Spurning hvort hann trúði lygunum sjálfur. Þessum sem hann kallaði rökstuðning. Sennilega var gamli sáttmáli bara tilbúið plagg gert til að fá betri samningsstöðu við danakonung. En Jón notaði þann sáttmála eins og sannleikur væri.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 18.6.2009 kl. 06:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband