25.6.2009 | 22:18
Ræfildómur
Vinstri menn, með seinna ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar, hafa reist sér ævarandi bautastein með samningsuppkastinu við Breta og Hollendinga um uppgjör þrotabús Landsbankans við innlánseigendur bankans í löndum þeirra. Þessi verðugi bautasteinn um stjórnarhætti vinstri manna mun reyndar breytast í myllustein um háls þeirra Alþingismanna, sem samninginn samþykkja og staðfesta við atkvæðagreiðslu á Alþingi.
Flestir Íslendingar munu upplifa samninginn við Breta og Hollendinga sem fjárkúgun, og þess vegna ber höfuðnauðsyn til að fá úr því skorið með lagalegum aðferðum, þ.e. fyrir dómstóli, hvort landsmönnum beri lagaleg skylda til að greiða þessa skuld eður ei. Ef það verður ekki gert áður en Alþingi fellir um þetta úrskurð, er verið að efna til mikils ófriðar hér í þjóðfélaginu, og slíkt er jafnan verra böl en snerrur við útlönd. Tjón af slíkum snerrum getur aldrei komizt í hálfkvisti við tjónið, sem fjárkúgun á heilli þjóð hefur strax á efnahagskerfið (lánshæfismat, gengi, vexti o.s.frv.), en ekki síður mundi samþykki Alþingis verða niðurdrepandi fyrir þjóðlífið í heild sinni.
Við upphaflega kynningu samningsins lék það á tveimur tungum, hvort birta mætti samninginn í held sinni. Héldu ráðherrar því fram, að viðsemjendur íslenzku samninganefndarinnar hefðu tekið af þeim loforð um að birta ekki samninginn. Virtist um hríð, þar til honum var lekið til RÚV, að ráðherrarnir ætluðu hvorki að sýna hann þingi né þjóð. Er siðleysi fólgið í því, ef ætlunin hefur verið að biðja um samþykki Alþingis á versta gjörningi, sem lagður hefur verið fyrir Alþingi um aldaraðir, án þess að leggja spilin á borðið. Þingmaður vitnar til fulltrúa, sem starfaði fyrir Hollendinga að þessum samningi um, að þeir hafi ekki óskað eftir trúnaði um þennan samning, enda væri fráleitt að fara fram á slíkt og fyrir neðan allar hellur að samþykkja. Allt ber þetta vitni um fádæma siðleysi og hreinræktaðan ræfildóm þeirra vinstri manna, sem nú, illu heilli, véla um stjórn landsins án þess að geta það.
Ríkisstjórnin fellur nú á hverju prófinu á fætur öðru. Til sannindamerkis um það er hrap á lánshæfismati ríkissjóðs, þar sem erlend matsfyrirtæki leggja mat á verk ríkisstjórnarinnar. Allt var undir, og kolféll ríkisstjórnin. Hún rembist hins vegar við að gefa sjálfri sér dágóða einkunn. Þetta sýnir, að ríkisstjórnin er gjörsamlega utan gátta. Hætta er á, að þegar Steingrímur hefur verið fjármálaráðherra í hálft ár, þá verði lánshæfismat ríkisins komið í sama flokk og lánshæfismat ríkissjóðs Mugabes.
Þær greinar, sem ríkisstjórnin hefur fallið í, eru m.a.:
- peningamálin; gengið hefur fallið eftir að fyrra ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur gerði aðför að Seðlabanka Íslands að forgangsmáli.
- ríkisfjármálin; engin uppstokkun, allt of miklar álögur á almenning og fyrirtæki, sparnaður sáralítill og of seint á ferðinni
- bankarnir; hvorki gengur né rekur með endurfjármögnun bankanna, en komin er stofnun yfir alla ríkisbankana samkvæmt Parkinsonslögmálinu
- samkomulagið við AGS er stirt; ráðherrar lýsa andstöðu við AGS-samninginn út og suður, og heilbrigðisráðherra nefnir landstjóra snyk af fastafulltrúanum
- samningsuppkastið við Holland og Bretland um ríkisábyrgð vegna innistæðna í útibúum gjaldþrota banka erlendis virkar þveröfugt á lánshæfismatið m.v. það, sem ráðherrarnir héldu, enda var það fyrirsjáanlegt, að skuldbindingar, sem geta hleypt erlendum skuldum ríkissjóðs upp í tvöfalda árlega landsframleiðslu, eyðileggja lánshæfnina og möguleikana á að styrkja gengi krónunnar. Væru skuldirnar í íslenzkum krónum, mundi málið horfa öðru vísu við. Samningsuppkastið býr til vítahring í gjaldmiðilsmálum, því að það gerir okkur ókleift að standast nokkurt próf, sem Evrópubankinn (ECB) leggur fyrir þjóðir, sem óska eftir aðild að evru-samstarfinu.
Rök ráðherranna um, að ESB (Evrópusambandið) hafi ekki viljað leggja ágreininginn um "Icesave" í dóm, eru í raun alveg út í bláinn. Slík yfirlýsing kann að vera nothæf í samskiptum götustráka, en er það ekki í samskiptum siðaðra ríkja. Um þetta ritaði hæstaréttardómarinn, Jón Steinar Gunnlaugsson, einkar skilmerkilega grein, eins og honum er lagið, í Morgunblaðið 22. júní 2009:
"Auðvitað ber íslensku þjóðinni að standa við allar skuldbindingar sem á henni hvíla að réttum lögum. Engum ábyrgum manni ætti að detta neitt annað í hug. Við rekum líka réttarkerfi sem ætti að tryggja rétt þeirra sem eiga lögvarðar kröfur á hendur íslenska ríkinu ef það neitar að greiða.
Málið snýst ekki um þetta. Hinn raunverulegi ágreiningur er um hvort íslenska þjóðin eigi að njóta réttar til að fá úrlausn hlutlausra dómstóla um hvort hún að réttum lögum skuldar þetta fé."
Alþingismenn þurfa að hugleiða þessi orð vandlega áður en þeir greiða atkvæði til staðfestingar eða höfnunar á téðu uppkasti. Svo mun fara, að skömm þeirra, sem ljá þessu samþykki sitt, verður lengi uppi, enda er hér verið að binda tveimur kynslóðum stórfelldar klyfjar og draga úr hagvexti í landinu, sem bitnar á þremur kynslóðum. Þingmenn, sem gera sig seka um jafnalvarleg afglöp og þau að neita þjóðinni um að fara lagalegu leiðina, eins og hæstaréttardómarinn og fleiri virtir lögfræðingar hafa varðað leiðina fyrir, munu ekki eiga upp á pallborðið hjá kjósendum og verða getið í sögunni með einkunnum, sem óþarfi er að tíunda hér.
Í niðurlagi greinar sinnar, "Helgur réttur", skrifaði Jón Steinar:
"Það er að mínum dómi skylda íslenskra ráðamanna að tryggja þjóðinni réttinn til að láta hlutlausan dómstól dæma um þessa þungbæru skyldu sem nú stendur til að samþykkja. Ef menn vilja gera samning um skylduna verður skuldbindingin að vera bundin fyrirvara um að til þess bær dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að við skuldum þetta. Annars falli samningsskuldbindingin niður. Nógur er tíminn því ekki á hvort sem er að byrja að greiða fyrr en eftir sjö ár."
Maður er nefndur Steingrímur Jóhann og gegnir stöðu fjármálaráðherra Íslands um þessar mundir. Honum hefur tekizt að slá út Íslandsmanninn Ragnar Reykás, sem frægastur er fyrir sínar kúvendingar "á punktinum". Í tilviki téðs Steingríms er punktur þessi, þar sem ríkisstjórn Íslands er. Stærsta málið í þessu viðfangi er hið alræmda "Icesave" bankainnistæðumál, sem Alþingismaðurinn Steingrímur var alfarið andvígur að semja um fyrir 1. febrúar 2009. Nú er spurningin, hvort téður fjármálaráðherra hefur fengið nýjar upplýsingar síðan; upplýsingar, sem e.t.v. er að finna í óbirtum viðhengjum uppkastsins, sem sjálft var ekki birt þingi og þjóð fyrr en því hafði verið lekið. Það er gjörsamlega ótæk leyndarhyggja og lýsir ólýðræðislegum stjórnarháttum að hálfu ráðherrans að upplýsa ekki formenn stjórnarandstöðunnar og viðkomandi þingnefnd og síðan þjóðina alla um allt, er þetta stærsta mál Íslandssögunnar í aldaraðir varðar.
Þetta er sami maðurinn og fjálglega talaði í stjórnarandstöðu um nauðsyn siðvæðingar stjórnarherranna, óhefta upplýsingagjöf og "gegnsæja stjórnsýslu". "Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann." Af þessu tilefni reit ritstjóri http://www.amx.is , Óli Björn Kárason, "Opið bréf til fjármálaráðherra", í Morgunblaðið 23. júní 2009. Þar varpar hann fram 7 spurningum til ráðherrans, sem spennandi verður að sjá, hvort hann hefur manndóm til að svara.
Annar fugl, eigi félegri hinum fyrri, reit í Morgunblaðið 22. júní 2009. Það var ráðherra heilbrigðis, sem þar fór, og stangaðist sú grein illilega á við heilbrigða skynsemi. Hvernig ráðherrann hallmælir þar AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) á allar lundir verður ekki gert að umræðuefni hér, en skýrir að nokkru leyti stirt samband ríkisstjórnarinnar og AGS og hægagang við framfylgd samkomulagsins við hann. Þetta háttarlag ríkisstjórnarinnar er landinu stórskaðlegt, og það er höfuðatriði fyrir viðreisn íslenzks efnahagskerfis að vinna sköruglega og í nánu samstarfi við AGS. Hann er okkar haldreipi nú um stundir, og það er skemmdarverk að setja þarna skít í tannhjólin.
"Í mínum huga öðlast Ísland ekki fullveldi á ný fyrr en við losnum úr banvænu faðmlaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég skal játa að sjálfur þarf ég að taka mér tak til að samþykkja umsóknarbeiðni að Evrópusambandinu. Það ætla ég hins vegar að gera lýðræðisins vegna. Ég vil að þjóðin sjálf taki ákvörðun milliliðalaust og til þess að geta tekið ákvörðun telur drjúgur hluti hennar sig þurfa að fá í hendur samningsdrög. Við þeim óskum tel ég að eigi að verða."
Margoft hefur komið fram hjá Ögmundi Jónassyni, að hann er andvígur inngöngu Íslands í ESB, og það staðfesti hann annars staðar í tilvitnaðri grein. Hann leggur hins vegar til við Alþingi, að það samþykki umsókn um aðild að ESB. Sennilega hefur það ekki gerzt í öðrum Evrópulöndum, að ráðherra hvetji til umsóknar að ESB, en sé á móti aðild að því. Þetta er met í tvískinnungi og hræsni. Ríkisstjórnir, sem sótt hafa um aðild, hafa allar verið staðráðnar í að fara inn. Það gengur enginn gruflandi að lokaniðurstöðu aðildarviðræðna. Hún er full aðlögun að stofnsáttmálum ESB með einhver ár í umþóttunartíma. Að halda öðru fram er annaðhvort barnaskapur eða blekkingarleikur.
Þess vegna er stefna Sjálfstæðisflokksins sú, að ekki skuli senda inn umsókn til Brüssel, nema sú umsókn hafi hlotið samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Umsókn er yfirlýsing þings og ríkisstjórnar um, að vilji stjórnvalda standi eindregið til aðildar. Þarna eru engar léttvægar könnunarviðræður stundaðar. Vegna þess, hversu viðurhlutamikil og stefnumarkandi ákvörðun um umsókn er, er þjóðaratkvæðagreiðsla nauðsynleg fyrir heilbrigt framhald. Ef slíkt samþykki er veitt, er Alþingi hins vegar ekki til setunnar boðið með vinnu við stjórnarskráar breytingar til að heimila fullveldisframsal til erlends valds.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Rétt að hafa það sem sannara reynist. Bjarni:
Umræðan um efnisatriði svokallaðra Icesave samninga er farin einkennast af þeim ljóta leik að spila á ótta fólks og óöryggi með rangtúlkunum og villandi upplýsingum. Andstæðingar aðildarumsóknar til Evrópusambandins beita sér líka hart í því að blanda þessum samningi við umræðu um aðild þótt þessi mál séu með öllu ótengd og óskyld. Sjálfskipaðir sérfræðingar í alþjóðasamningum afhjúpa hver á fætur öðrum að þeir hafa aldrei séð lánasamning milli ríkja fyrr og skilja ekki efni þeirra. Vegna þessa er afar brýnt að sem flestir haldi á lofti réttum efnisatriðum málsins hvar sem því verður við komið. Þessi póstur er nokkuð ítarlegur enda margt sem fara þarf yfir:
Um afsal friðhelgi fullveldisréttar og íslenskar eigur að veði
Mikið veður hefur verið gert út af ákvæði um að Ísland afsali sér friðhelgi vegna fullveldisréttar og fullyrt að þar með geti bresk stjórnvöld gengið að hvaða eigum sem er. Staðreyndin er sú að svona ákvæði um "waiver of sovereign immunity" er regla í lánasamningum milli ríkja og tíðkast m.a. í öðrum lánasamningum sem Ísland hefur gert eða er að vinna að. Ástæðan er sú að þetta er eina leiðin sem lánveitandi hefur til að koma ágreiningi vegna endurgreiðslu fyrir dómstóla. Án þessa ákvæðis er lántökuríkið ónæmt og varið á bak við fullveldisrétt sinn og sá sem afhent hefur fjármuni á engin úrræði því eitt ríki dregur ekki annað ríki fyrir dóm nema með samþykki beggja aðila.
Sú fullyrðing að með þessu séu allar íslenskar eigur undir án takmarkana er sömuleiðis röng. Jafnvel þótt ákvæðið sjálft innihaldi ekki takmarkanir þá leiða þær bæði af alþjóðasáttmálum og íslenskum lögum og stjórnarskrá auk þess sem enginn dómstóll myndi gefa lánveitanda sjálfdæmi um eignir upp í skuld. Þá fylgja samningum gjarnan ítarlegra bréf eða fylgiskjal um friðhelgi.
Um lögsögu breskra dómstóla í málinu
Venjan í alþjóðlegum lánasamningum hefur verið sú að miða við lögsögu lánveitanda eða þriðja ríkis og þá helst Bandaríkjanna eða Bretlands. Sem dæmi má taka að samkvæmt fréttum er gert ráð fyrir því að mál vegna lána hinna Norðurlandaþjóðanna verði rekin fyrir dómstólum hvers og eins þeirra.
Um einhliða íþyngjandi ákvæði í samningnum
Þessi túlkun er afar sérkennileg í ljósi þess að um lánasamning er að ræða þar sem skyldur annars aðilans eru afar einfaldar og felast í því að lána tiltekna upphæð. Samningurinn sem slíkur fjallar því óhjákvæmilega ítarlega um tvennt: Skyldur lántakanda við að endurgreiða og leiðir til að lánveitandi hafi úrræði til að fá endurgreitt. Þegar um er að ræða tvær fullvalda þjóðir er staðan í upphafi sú að lánveitandi sem hefur afhent öðru fullvalda ríki fjármuni er í mjög veikri stöðu til að sækja nokkurn rétt og getur t.d. ekki dregið ríki fyrir dómstóla. Vegna hins sterka fullveldisréttar eru ákvæði í lánasamningum milli ríkja yfirleitt afar ítarleg og lúta að því að skapa lánveitanda einhverja réttarstöðu. Skiljanlegt er að fólk sem ekki hefur almennt lesið alþjóðlega lánasamninga eða þekkir hefðbundið efni þeirra bregði við að sjá í fyrst sinn dæmigerðan samningstexta. Sérfræðingar í alþjóðarétti og alþjóðlegum lánsfjármörkuðum segja aftur á móti að ekkert í efni þessa samnings komi á óvart eða sé frábrugðið því sem almennt tíðkast.
Um óhjákvæmileg áhrif á lánshæfismat Íslands
Matsfyrirtækin byggja ekki einkunnagjöf sína á einum samningi heldur mörgum þáttum svo ekkert er hægt að gefa sér um niðurstöðuna. Skuldbindingin vegna Icesave hefur einnig verið þekkt frá því bankarnir hrundu sl. haust og var m.a. inni í Viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Matsfyrirtækin hafa því þekkt þessa skuldbindingu.
Þau áföll sem íslenska ríkið hefur orðið fyrir hafa óhjákvæmilega haft slæm áhrif á lánshæfismat ríkisins. IceSave er þó einungis einn af nokkrum þáttum þar og raunar ekki sá sem vegur þyngst. Skuldasöfnun ríkisins vegna fyrirsjáanlegs fjárlagahalla áranna 2009-2012 hefur meiri áhrif. Einnig vegur tap ríkisins vegna lána Seðlabanka Íslands til íslenskra fjármálafyrirtækja þungt. En samningurinn við Breta og Hollendinga tryggir að íslenska ríkið þarf ekki að greiða neitt vegna IceSave á næstu sjö árum og að það sem þá stendur út af verður greitt á næstu átta árum þar á eftir. Þetta þýðir bæði að ekki reynir á lausafjárstöðu eða greiðsluhæfi ríkisins vegna IceSave á meðan mestu erfiðleikarnir í efnahagsmálum ganga yfir og að árleg greiðslubyrði verður fyrirsjáanlega vel innan þeirra marka sem ríkið ræður við.
Miklu skiptir að verið er að eyða óvissu sem hefur neikvæð áhrif á lánshæfismat. Samningarnir um IceSave eyða mikilli óvissu. Margt annað mun skýrast á næstu vikum, m.a. fæst niðurstaða í samninga við hin Norðurlöndin um lán, gengið verður frá skilunum á milli gamla og nýja bankakerfins, línur lagðar í fjármálum ríkisins til næstu ára og tekin ákvörðun um það hvort sótt verður um aðild að ESB. Langtímahorfur fyrir Ísland munu því skýrast mjög á næstunni. Það ætti að styrkja trú manna, bæði hér innanlands og utan, á íslensku efnahagslífi og m.a. skila sér í betra lánshæfismati þegar fram í sækir.
Um yfirvofandi gjaldþrot íslenska ríkisins vegna samningsins
Ekkert gefur ástæðu til að ætla að íslenska ríkið komist í greiðsluþrot á næstu árum. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lánin sem verið er að ganga frá í tengslum við þá áætlun tryggja íslenska ríkinu verulega sjóði á næstu árum, á meðan mestu erfiðleikarnir ganga yfir.
Skuldir íslenska ríkisins munu einungis í tiltölulega stuttan tíma fara yfir 100% af landsframleiðslu en verða þegar til lengdar lætur vel innan við landsframleiðslu eins árs. Skuldir íslenska ríkisins verða þá í lægri kantinum í samanburði við önnur Vesturlönd en skuldir flestra þeirra hafa vaxið talsvert undanfarið vegna aðgerða til að bjarga fjármálafyrirtækjum og munu fyrirsjáanlega halda áfram að vaxa á næstu árum vegna mikils fjárlagahalla.
Langtímahorfur í ríkisfjármálum eru ágætar, þótt óneitanlega þurfi að grípa til afar erfiðra aðgerða á næstu árum. Hér skiptir m.a. miklu að allar líkur eru á því að skattstofnar landsmanna jafni sig smám saman þegar mesti samdrátturinn gengur til baka. Þá er einnig mikilvægt að Íslendingar búa við nánast fullfjármagnað lífeyriskerfi, ólíkt flestum öðrum löndum. Það og hagstæð aldursskipting þjóðarinnar þýðir að ekki er útlit fyrir að íslenska ríkið verði fyrir verulegum útgjöldum vegna öldrunar þjóðarinnar, ólíkt flestum Vesturlöndum. Raunar er íslenska ríkið í þeirri öfundsverðu stöðu að eiga von á verulegum skatttekjum þegar greiðslur úr lífeyrissjóðum aukast á næstu áratugum. Það er allt önnur staða en uppi er í flestum nágrannaríkja okkar.
Um viðurkenningu ábyrgðar vegna Icesave reikninganna
Sú fullyrðing að Íslendingar séu með þessum samningi að viðurkenna skuldbindingu sína vegna Icesave reikninganna er röng því samkomulagið við Breta og Hollendinga snýst aðeins um uppgjör ábyrgðar íslenska ríkisins vegna lágmarkstryggingar innstæðna á ESS svæðinu. Þrátt fyrir að önnur sjónarmið hafi heyrst í umræðunni hér innanlands í kjölfar hruns bankanna hefur í reynd verið gengið út frá þessari ábyrgð frá upphafi í öllum áætlunum og yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda:
Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins frá því í nóvember 2008 er gert ráð fyrir að áætluð fjármögnunarþörf íslenska ríkisins vegna lágmarksinnstæðutrygginga sé hluti af þeim lánum sem taka þarf. Þetta kemur m.a. fram í lið 12 í áætluninni og skýringum með honum. Á upplýsingavef forsætisráðuneytisins um áætlunina er þessi skilningur á fjármögnunarþörfinni ítrekaður í liðnum „spurt og svarað“ en þar segir m.a.: „Í lið 12 er því einnig gert ráð fyrir að inni í áætlaðri lánsfjárþörf ríkisins vegna bankakreppunnar séu lán til að mæta erlendum kostnaði við innstæðutryggingar í samræmi við ákvæði EES samningsins.“
Þessi liður í efnahagsáætluninni er í samræmi við þann ítrekaða skilning íslenskra stjórnvalda að ábyrgðir á sparifé á reikningum í útibúum íslensku bankanna takmarkist ekki við þá fjármuni sem til voru í Tryggingarsjóði innstæðueigenda heldur muni ríkissjóður þvert á móti styðja sjóðinn.
Í yfirlýsingu forsætisráðherra frá 8. október 2008 segir orðrétt: „Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“
Í bréfi frá íslenska viðskiptaráðuneytinu til Clive Maxwell HM Treasury, dagsettu 20. ágúst 2008, segir orðrétt: „In the, in our view unlikely, event that the Board of Directors of the Depositors' and Investors' Guarantee Fund could not raise necessary funds on the financial markets, we would assure you that the Icelandic Government would do everything that any responsible government would do in such a situation, including assisting the Fund in raising the necessary funds, so that the Fund would be able to meet the minimum compensation limits.“
Þessi afstaða íslenskra stjórnvalda gagnvart Innstæðutryggingasjóði var svo enn ítrekuð í bréf viðskiptaráðuneytis til breska fjármálaráðuneytisins 5. október 2008. Þar segir m.a. orðrétt: „If needed the Icelandic Government will support the Depositors' and Investors' Guarantee Fund in raising the necessary funds, so that the Fund would be able to meet the minimum compensation limits in the event of a failure of Landsbanki and its UK branch.“
Í símtali fjármálaráðherra Íslands og Bretlands þann 7. október er þessi sami skilningur enn á ný staðfestur af Íslands hálfu og vísað í stuðning stjórnvalda við Innstæðutryggingasjóðinn, sbr. útskrift á samtalinu. Þar sagði fjármálaráðherra Íslands: „We have the [deposit] insurance fund according to the directive and how that works is explained in this letter [from Iceland's Trade Ministry to Britain's Treasury] and the pledge of support from the [Icelandic] Government to the fund.“
Þann 11. október 2008 gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við Hollendinga. Í tilkynningu forsætisráðuneytisins um samkomulagið segir m.a.: „Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur“.
Um niðurstöðu núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins
Í ljósi alls þessa er ekki að undra þótt Bjarni Benediktsson, þáverandi fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi komist að afdráttarlausri niðurstöðu við umræður um samkomulag um Icesave á Alþingi 29. nóvember 2008:
"Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. [...]
Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli."
Efni samningsins og skýringar á www.island.is
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 22:46
Takk fyrir pistilinn Bjarni og takk fyrir þitt langa svar þitt Gísli, þú ert mikill flokkshestur, það er ágætt svo langt sem það nær.
Þegar sjálfstæði þjóðarinnar og velferð komandi kynslóða er í húfi mættu menn samt hugleiða þjóðarhag ekki síður en flokkshagsnmuni.
Sigurður Þórðarson, 26.6.2009 kl. 09:15
Þegar menn eru komnir svona djúpt í ásökunargírinn eins og greinarhöfundur er, verða þeir að benda í rétta átt.
Trúlegast er mikilvægasta heimildin til þess að ná áttum fréttasíða forsætisráðuneytisins. (Einnig bókin Hrunið afar góð heimild)
Frá tíð Geirs H Haarde tala fréttir á fréttasíðu forsætisráðuneytisins, af samningum um Icesave, frá 11. okt 2008 og 16. nóv. 2008, skýrustu máli en einnig allar aðrar fréttir Geirs af þeim málum.
Sjá:
11. okt. 2008 undir fyrirsögninni: Samkomulag milli Hollands og Íslands um IceSave
og
16. nóv. 2008 undir fyrirsögninni: Samkomulag næst við Evrópusambandið fyrir hönd Hollendinga og Breta - Greiðir fyrir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF)
en einnig frétt fyrr eða þann
8. okt 2008 undir fyrirsögninni: Yfirlýsing forsætisráðherra og fleiri.
Þar segir strax þann 8. okt 2008 „Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“
Við skulum heldur ekki gleyma að þegar Landsbankinn var seldur skoruðu Björgólfar þau stig sem dugðu til að fá að kaupa með áformum um útrás og vöxt, í formlegri stigagjöf sem byggði á markmiðum ríkisstjórnar Davíðs Oddsonar með sölunni. Þau áform þeirra gáfu stig sem dugðu til að bæta upp lægsta kaupverðið. Þetta gaf svo auðvitað tóninn fyrir söluna á Búnaðarbankanaum. Davíð Oddsson og ríkisstjórnir hans gerðu því þá kröfu til kaupenda bankanna að þeir stefndu í harða útrás og hraðan vöxt.
- Icesave og hrunið er afrakstur þeirrar stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.
Helgi Jóhann Hauksson, 26.6.2009 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.