Hýjalín

Seinna ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur minnir nú æ meira á keisarann klæðlausa.  Nýjustu klæðskerar þessa hýjalíns nefna sig aðila vinnumarkaðarins, og fatið nefna þeir "Stöðugleikasáttmála".  Ekki verður séð, að sáttmáli þessi verði í askana látinn, sé ávísun á ný störf eða breyti nokkru, sem máli skiptir í núverandi stöðu. Réttast væri að kalla þetta hýjalín Jóhönnu Sigurðardóttur stöðnunarsáttmála, því að í honum eru engin nýmæli, og launþegar og fólk án vinnu er nokkurn veginn jafnnær.

Þann 30. júní 2009 voru birtar fréttir af nýju lánshæfismati "Standard & Poors" á Landsvirkjun.  Fyrirtækið hefur hrapað niður í svo kallaðan ruslflokk, sem mun torvelda því mjög lánsfjármögnun og gera allar stórfjárfestingar þess dýrar á meðan þetta mat varir. Þetta eru þess vegna mikil ótíðindi, sem munu draga dilk á eftir sér.  Verður nú brýnt að leita nýrra leiða til fjármögnunar verkefna og ekki að undanskilja eignarhlut í fyrirtækinu í því sambandi.  Komu þessi tíðindi sama dag og ríkisstjórnin lagði fram sitt "Icesave" mál.  Ljóst er, að ekkert hald verður í ríkissjóði sem bakhjarli fyrir stórfyrirtæki á borð við Landsvirkjun næsta áratuginn, ef þrælasamningur þessi verður staðfestur af Alþingi.  Brottfall ríkisábyrgðar í raun hefur sennilega haft sín áhrif til að rýra tiltrú Standard & Poor, en þeir þykjast jafnframt hafa breytt áherzlum í matsaðferðum sínum.  Tekjugrunnur Landsvirkjunar er traustur og m.a. álverð á uppleið.  Hér eru ekki öll kurl komin til grafar.

Athafnaleysi ríkisstjórnarinnar er að verða himinhrópandi.  Nú er komið mitt ár 2009, og nánast ekkert farið að taka til hendinni.  Flotið er sofandi að feigðarósi. Ef allt væri með felldu og starfsöm ríkisstjórn væri í landinu, væru stórfelldar sparnaðaraðgerðir hafnar, og ný atvinnutækifæri hefðu þegar séð dagsins ljós.  Þess í stað lullar allt í sama farinu, og engin teikn eru á lofti um, að dragi úr geigvænlegu atvinnuleysi.  Er óbjörgulegt fyrir launþega að horfa til næsta vetrar.  Er ríkisstjórnin á vetur setjandi ?

Boðaðar aðgerðir vinstri stjórnarinnar bæta ekki stöðuna; þvert á móti, þær gera illt verra.  Með því að þyngja álögur á fyrirtækin, fækkar ríkisstjórnin störfunum.  Með skattahækkunum á almenning fjölgar þeim fjölskyldum, sem lenda í greiðsluþroti, peningamagn í umferð minnkar og kreppan dýpkar.  Að fresta og skera arðsamar framkvæmdir niður við trog í núverandi árferði nær ekki nokkurri átt, enda er leitun að slíkum stjórnvaldsaðgerðum í löndum í efnahagskreppu.  Þetta á t.d. við um samgöngumálin, en Vegagerðin hefur m.a. verið að stytta vegalengdir, klæða vegina bundnu slitlagi og fækka einbreiðum brúm.  Með aðgerðum sínum eykur ríkisstjórnin atvinnuleysið og magnar kreppuna. 

Þjóð í hafti

Ef hér væri nú ríkisstjórn, sem vissi, hvað hún vildi, kynni að forgangsraða og kynni til verka, þá væri öðru vísi umhorfs hér.  Í stað hækkunar beinna og óbeinna skatta, væri búið að setja lög um innskatt á lífeyrissjóðina í stað útskatts í samræmi við efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins.  Hún færir ríkissjóði mun hærri tekjur en kropp ríkisstjórnarinnar í það, sem ekkert er.  Með góðri samvinnu við AGS væri endurfjármögnun bankakerfisins lokið, og bankarnir farnir að veita atvinnulífi og almenningi "súrefni". E.t.v. hefði tekizt með aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins AGS (IMF) eða jafnvel Alþjóða bankans, sem lánar til nýtingar endurnýjanlegrar orku, aðallega í þróunarlöndunum, að koma á samningum um stórframkvæmdir í landinu til nýtingar á náttúruauðlindum þess.  Hér hefur aðeins fátt eitt verið talið af því, sem gæti  hafa slegið umtalsvert á hrikalegt atvinnuleysisbölið.

Ríkisstjórnin á í sparnaðarskyni að færa þjónustustig ríkisins aftur um 7-10 ár reiknað í fjárframlögum til málaflokka í raunkrónum á mann.  Ef einkaframtakið vill taka að sér þá þjónustu, sem ríkið ekki getur sinnt um sinn, þá er greinilega markaður fyrir hendi og á að semja fordómalaust um slíkt fyrirkomulag, svo að hver hafi fyrir sinn snúð nokkuð, neytendur, skattgreiðendur og verktakar.  Að skera niður arðbærar fjárfestingar, t.d. í samgöngumálum, er skammsýnt og lýsir uppgjöf gagnvart ofvöxnum ríkisrekstri. 

Ríkisstjórnin þykist hafa leyst svo kallað "Icesave" mál með þeim endemis samningi, sem Svavar Gestsson, sendiherra, kom heim með.  Fyrrverandi hæstaréttardómari, Magnús Thoroddsen, kveður hann þó vera "hænufet frá landráðum".  Hér er djúpt tekið í árinni, en slíkur maður, sem Magnús er, gerir slíkt vart, nema að vandlega athuguðum samningi, landslögum og Stjórnarskrá.  

Hann telur ennfremur brjóta í bága við Stjórnarskrá, að Alþingi skuldbindi ríkissjóð til að greiða upphæðir, sem enginn veit, hversu háar verða.  Magnús Thoroddsen telur, að breyta verði stjórnarskrá áður en Alþingi geti samþykkt ríkisábyrgð á skuldum Tryggingarsjóðs innistæðna skilmálalaust.  Ef Alþingi samþykkir íþyngjandi gjörning, sem lögfróðir menn telja ganga á svig við Stjórnarskrá, kann ríkið þar með að eiga yfir höfði sér lögsóknir í kjölfarið. 

Frá stjórnmálalegu sjónarmiði má ætla, m.v. skoðanir landsmanna á téðum samningi, að Alþingismenn fremji stjórnmálalega kviðristu á sjálfum sér ("harakiri") með því að samþykkja ríkisábyrgð skilmálalaust. 

Jón Daníelsson, prófessor við "London School of Economics", birtir í Morgunblaðinu 30. júní 2009 greinina: "Þennan samning verður að fella".  Birtir hann þar haldgóð hagfræðileg rök máli sínu til stuðnings.  Hann telur forsendur í Evrópu hafa breytzt okkur Íslendingum í hag.  Nú blási ekki jafnnaprir vindar til Reykjavíkur frá höfuðborgum Evrópu, af því að hættan á bankahruni þar sé liðin hjá.  Af þessum ástæðum sé ekki áhorfsmál að freista nýrrar samningsgerðar með einvala liði okkar megin samningaborðs í þetta skiptið ekki síður en andspænis okkur.  Er ekki að efa, að sjálfstæðir þingmenn í öllum flokkum munu íhuga þessa grein Jóns vandlega: 

"Þegar íslensku bankarnir hrundu í október, var mikil óvissa um fjármálastöðugleika í Evrópu.  Stórir bankar riðuðu til falls og annað var óhugsandi fyrir Evrópuþjóðir en láta Íslendinga gangast við tryggingaskuldbindingum sínum.  Ella hefði almenn vantrú getað skapast á tryggleika evrópskra bankainnistæðna og bankaáhlaup siglt í kjölfarið.  Af biturri reynslu þekkja menn hvernig allir bankar, góðir sem lélegir, geta hrunið líkt og spilaborg í einu vetfangi við slíkar aðstæður."

Hótanir landstjórnarinnar í nafni erlends valds í garð þings og þjóðar eru ósmekklegar, lítilsigldar og að engu hafandi, enda hafa þessar tvær erlendu ríkisstjórnir, sú brezka og hollenzka, ekki öll ráð Íslendinga í hendi sér, eins og t.d. Danakóngur hafði 1662, er hann var samþykktur einvaldur og honum voru svarnir trúnaðareiðar af tárfellandi höfðingjum Íslands í Kaupavogi undir fallbyssukjöftum Dana. Sýnir þessi hræðsluáróður vinstri stjórnarinnar svart á hvítu, hversu lágt er á henni risið, og að þar fer fólk lítilla sanda og lítilla sæva.

Samningurinn um greiðslutryggingu þessara erlendu innlánsreikninga (ólánsreikninga), sem ríkið skuldbatt sig aldrei til að standa skil á, leysir ekki úr vanda okkar Íslendinga í þessu máli, heldur ýtir honum 7 ár fram í tímann og magnar vandann um leið vegna hárra vaxta (5,55 %) á höfuðstólnum allan samningstímann (15 ár frá 1.1.2009). 

Alþingi verður þess vegna að bregðast við með öðrum hætti en að láta stilla sér upp við vegg.  Alþingi á að setja þrjá skilmála fyrir því að samþykkja ríkisábyrgð á skuldum Trygginarsjóðsins: 

Niðurstaða viðræðnanna varð sú að setja skuldabréf að veði fyrir greiðslum Tryggingarsjóðs, sem byrjar að bera 5,55 % vexti þann 1.1.2009, en á ekki að greiða af fyrr en árið 2016.  Lán núna vegna skuldbindingar, sem þarf að hefja greiðslur á að 7 árum liðnum,  mun þá hafa hækkað um 45,5 %, þegar greiðslur eiga að hefjast.  Vextir á ríkisskuldabréfum til 10 ára ("10 years´ governmental bond yields") á evru-svæðinu eru núna 3,69 %, 3,49 % í Svíþjóð, í Danmörku 4,10 % og í Bretlandi 4,11 %.  5,55 % er lægri tala en nemur meðaltali í Evrópu utan evru-lands, sem er 6,36 %.  Þessar vaxtaprósentur endurspegla auðvitað lánshæfismat á viðkomandi ríkissjóðum og lítið við því að segja. 

Hins vegar eiga fyrstu skilmálar Alþingis að vera þeir að neita um ríkisábyrgð á vaxtakostnaðinum.   

Annað skilyrðið, sem Alþingi ætti að setja fyrir ríkisábyrgð, er þak á árlegar greiðslur úr ríkissjóði, reyni á ríkisábyrgðina. 

Að öðrum kosti er hætta á greiðslufalli ríkissjóðs og lánshæfismati sambærilegu lánshæfismatinu á Landsvirkjun, þó að þar hafi aldrei orðið greiðslufall.  Nefnt hefur verið hlutfallið 1,0 % af VLF, sem eru um ISK 14 mia um þessar mundir eða um 3,5 % af núverandi tekjum ríkissjóðs.  Þetta mun verða mjög hátt hlutfall af greiðsluafgangi ríkissjóðs og mun verða svo íþyngjandi, að hér kann að þurfa að setja á innflutnings-og gjaldeyrishöft til að afla ríkissjóði gjaldeyris.  Ábyrgð ríkissjóðs og vaxtaskeiðið standi aðeins yfir í umsamin 15 ár til 2024, en eftir það standi Tryggingarsjóðurinn óstuddur að greiðslum eftirstöðvanna. 

Þriðja skilyrðið er, að dómur falli í málinu um það, hvort íslenzka ríkinu beri að ábyrgjast greiðslur Tryggingarsjóðs á "Icesave"-reikningunum.

Virtir lögspekingar hafa látið í ljós rökstuddar efasemdir um lögmæti þess að krefjast þessarar ríkisábyrgðar.  Starfandi hæstaréttardómari telur, að stjórnvöldum á Íslandi beri skylda til þess gagnvart íslenzku þjóðinni að fá óvilhallan dómsúrskurð um þetta mikils verða deiluefni.  Fyrrverandi hæstaréttardómari telur dómstólaleiðina færa, þó að gagnaðilarnir þráist við.  Þeir munu hafa hafnað því að leggja ágreininginn fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag.  Að skipa alþjóðlegan gerðardóm með t.d. Bandaríkjamann í forsæti kæmi til greina.  EFTA-dómstóllinn hefur verið nefndur og einnig Mannréttindadómstóll Evrópu.  Þá má minna á, að varnarþing íslenzka ríkisins er í Reykjavík, ef einhver vill sækja mál á hendur íslenzka ríkinu.  Á því er ekki mikil hætta í þessu máli, því að íslenzka ríkið hefur ekkert af sér brotið í þessu máli að beztu manna yfirsýn.

Eftir höfnun Alþingis á beiðni ríkisstjórnarinnar um skilmálalausa ríkisábyrgð á samningi sínum mun vafalítið verða setzt að nýju við samningaborðið, og þá verðum við að tjalda því, sem til er.  Okkar megin borðsins á þá að velja toppfólk af sviðum lögfræði, hagfræði og sálfræði.  Prófessor Jón Daníelsson hefur líkt fyrri viðureigninni við kappleik Gróttu og Manchester United, en það er alger óþarfi af íslenzkum yfirvöldum að fara í hlutverk músarinnar á móti kettinum við samningaborðið.  Trippin hafa verið afspyrnu illa rekin í þessu máli og tími til kominn að snúa taflinu við. 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband