6.7.2009 | 10:56
Hálft hænufet
Á ögurstundu, er Alþingi stendur andspænis ákvörðunartöku, er leiða mun til gjaldþrots landsins annars vegar eða skuldabarnings með góðum sigurlíkum hins vegar, birtist Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, á sviðinu og velur til þess viðtal, sem birtist í Morgunblaðinu 5. júlí 2009. Þar skýrir hann m.a. frá tilvist skjala, sem reynzt gætu málstað Íslands hjálpleg, væru þau birt, kveður sterk lagaleg rök standa gegn greiðsluskyldu íslenzka ríkisins og greinargerð á vegum Englandsbanka styðja þessa afstöðu.
Á stjórnmála-og samningasviðinu kveður hann skötuhjúin Jóhönnu og Steingrím hafa stórskaðað málstað Íslands með tali sínu um greiðsluskyldu íslenzka ríkisins á skuldum óreiðumanna og undirskrift að undirlagi ráðherranna á ríkisábyrgð vegna falls Landsbankans, og bæta má hér við hlut dósentsins í stóli viðskiptaráðherra, sem fullyrðir, þvert gegn heilbrigðri skynsemi og alþjóðlegum mælikvörðum , að landsmenn ráði við að greiða "Icesave" skuldbindingarnar ofan á allt annað.
Nýjar fréttir um heildar skuldastöðu landsins og reytur Landsbankans, sem ganga munu upp í skuldir tryggingarsjóðsins íslenzka, benda þó til, að landið muni ramba á barmi gjaldþrots samkvæmt mælikvörðum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) og Alþjóðabankans (AB), ef það tekst á hendur skuldbindingar þessar. Þessir mælikvarðar eru eftirfarandi (bráðabirgða rauntölur samkvæmt grein Lilju Mósesdóttur, Alþingismanns, "Icesave: Þrautalending eða brotlending", Mbl. 06.07.2009, í svigum):
- greiðslubyrði þjóðarbúsins (afborganir og vextir til erlendra lánadrottna) sem hlutfall af útflutningstekjum: 150 % (Ísland: 150 %)
- heildarskuldir þjóðarbúsins við erlenda lánadrottna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF): 250 % (Ísland: 240 %)
Lágmarksskylda jarðfræðingsins í fjármálaráðuneytinu er að birta Alþingi og þjóðinni greiðsluflæðisáætlun með næmnigreiningu. Að láta þetta ógert, en heimta um leið af þingmönnum að viðlögðu hans pólitíska lífi, að þeir kokgleypi þjóðhættulegan samning, er fullkomið ábyrgðarleysi af ráðherranum og ríkisstjórninni og sýnir, að vinstri stjórnin er komin í rússneska rúllettu með fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þessi málafylgja sviptir vinstri stjórnina á augabragði öllu trausti og tiltrú þeirra, sem ekki eru tilbúnir til að segja sig til sveitar og ganga með skottið á milli lappanna í "Parísarklúbbinn"
Af þessu leiðir, að stjórnmála-og efnahagsástandið á Íslandi getur ekki orðið verra við höfnun Alþingis á "Icesave" samninginum í sinni núverandi mynd en með því, að Alþingi leggi þessar óverðskuldugu og fáránlega háu byrðar á herðar afkomenda okkar.
Við lestur viðtalsins við Davíð í Morgunblaðinu 5. júlí 2009 rennur upp fyrir lesanda samsæri Samfylkingar. Kerlingin náði með klókindum og þrautseigju að kasta pokaskjattanum með sál Jóns inn fyrir Gullna hliðið hjá Sankta-Pétri, og Samfylkingin ætlar með svikráðum að kasta poka með "sál Íslands" inn um hlið Evrópusambandsins, ESB. Davíð Oddsson stóð gegn því og þess vegna varð að ryðja honum úr vegi. Meint plan var svona:
- Fjarlægja DO úr Seðlabankanum, svo að hann verði ekki Þrándur í Götu ríkisstjórnarinnar á vegferð hennar með landið inn í ESB.
- Semja um og fá Alþingi til að staðfesta skilyrðislausa ríkisábyrgð á "Icesave" skuldbindingunum undir kjörorði franska kóngsins, Lúðvíks 15. :"Après moi, le Douche" eða "syndafallið kemur eftir minn dag".
- Henda inn umsókn um aðild að ESB og fara á hraðferð um samningaferlið í Brüssel með aðstoð Svía.
- Fá þing og þjóð til að staðfesta auðlindaafsal og fullveldisflutning til Brüssel gegn loðnum loforðum um fyrirgreiðslu frá Evrópubankanum og eftirgjöf Hollendinga og Breta á hluta skuldbindinga ríkisstjórnar og Alþingis á "Icesave".
Davíð Oddsson sagðist í téðu viðtali ekki vilja kalla gjörninga ríkisstjórnarinnar landráð, en fyrrverandi forseti Hæstaréttar hefur hiklaust sagt þá vera hænufet frá landráðum. Eftir því sem myndin af atburðarásinni verður skýrari í huga almennings, minnkar bilið á milli "Icesave" samnings Jóhönnu og Steingríms og landráða og er minna en eitt hænufet um þessar mundir.
Eftirfarandi sviðsetning af Alþingi í byrjun júlí 2009 skýtur stoðum undir þær grunsemdir, að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við gerð og samþykkt svo kallaðs "Icesave-samnings" séu gjörsamlega ábyrgðarlaus og að hún telji "tilganginn helga meðalið", þ.e. að samningurinn sé ekki annað en einhvers konar stökkbretti landsins inn í ESB:
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði stjórnarþingmenn, hvort þeir hefðu yfirleitt lesið "Icesave" samninginn áður en þeir gáfu ríkisstjórninni heimild til að undirrita hann. Þá efaðist hann sérstaklega um, að Jóhanna Sigurðardóttir hefði lesið hann:
"Ég hef meira að segja grun um það, að hæstvirtur forsætisráðherra hafi ekki verið búin að lesa samninginn, þegar hún veitti fjármálaráðherra, hæstvirtum, heimild til að skrifa undir hann.", sagði Pétur í umræðum um ríkisábyrgð á samninginum í þinginu, 3. júlí 2009.
"Hann er á ensku. Og ég veit ekki til þess, að hann hafi verið þýddur á þeim tíma; það var skrifað undir hann um morgun. Þetta var mjög stuttur tími."
Þetta er sama fólkið og býsnaðist yfir "ófaglegum vinnubrögðum" ráðherra Sjálfstæðisflokksins í fyrri ríkisstjórnum. Þegar öll kurl verða komin til grafar um verklag ráðuneytis Jóhönnu Sigurðardóttur, mun verða ljóst, að vart verður dýpra sokkið í ábyrgðarleysi og vondum vinnubrögðum stjórnvalds. Mun allur ferill vinstri stjórnarinnar verða kjósendum víti til varnaðar, svo að þeir munu taka undir slagorðið frá 1960: "Aldrei aftur vinstri stjórn".
Hvað er til ráða ? Eftir höfnun Alþingis á ríkisábyrgð á samningi um uppgjör "Icesave" innlánsreikninga í sinni núverandi mynd, á t.d. að snúa sér að því að flýta rannsóknum og tilraunaborunum á Drekasvæðinu í samvinnu við Norðmenn, sem eiga um helming eldsneytislindanna, sem þar eru taldar munu finnast. Bæði Hollendingar og Bretar vinna gas og olíu úr hafsbotni Norðursjávar, en lindir þeirra eru farnar að reskjast, og vinnslan fer dvínandi. Það er næsta víst, að báðar þessar þjóðir renna hýru auga til Drekasvæðisins í norðri til að bæta upp lindir sínar í Norðursjó. Þess verður ekki langt að bíða, ef við leikum fleiri afleiki í þessari skák, að þeir munu taka að bera víurnar í Drekasvæðið.
Frumrannsóknir Norðmanna á Drekasvæðinu benda til, að undir hafsbotni þar séu orkuígildi 20 milljarða tunna, 20 mia tu, af olíu og gasi, sem skiptist til helminga á milli Íslands og Noregs. Sé þetta rétt, er um að ræða einhverjar mestu eldsneytislindir, sem þekkjast. Nú eru þekktar 1258 mia/tu á heimsvísu, svo að íslenzka hlutdeildin nemur 0,8 %. Sé nú gert ráð fyrir vinnslu 0,3 Mtu/d (=milljón tunna á sólarhring) eða 0,4 % af heimsframleiðslunni (83 mtu/d), verðinu 100 USD/tu, kostnaðinum 70 USD/tu og 40 % skattlagningu hagnaðar, fást árlegar skatttekjur íslenzka ríkisins MUSD 1314. Með varfærnum hætti má þannig áætla 40 % aukningu á núverandi tekjum ríkissjóðs, en gætu hæglega orðið meiri. Þær mundu duga til að greiða einar sér allar skuldir ríkissjóðs á 18 +/- 9 árum (óvissan um skuldir ríkissjóðs er enn mikil).
Þó að Íslendingar detti í lukkupottinn og geti í samstarfi við Norðmenn farið að flytja út olíu og gas að áratug liðnum, mun þó taka allmörg ár að greiða niður skuldasúpuna. Sennilegast er, að gengi krónunnar taki að hjarna við strax og eldsneytislindir verða staðfestar, e.t.v. árið 2012. Þá er líklegast, að landið verði orðið skuldlaust við útlönd árið 2030. Hagvöxtur getur þá hæglega orðið 5 % á ári að meðaltali á næsta áratug, sem mun skapa hér næga atvinnu og gera landið samkeppnihæft við útlönd á ný.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er alveg rétt hjá þér að skuldabyrðin vegna Icesave er illviðráðanleg og færi best á að þingið felldi samninginn eða krefðist verulegra breytinga á honum.
Það er hins vegar rangt að núverandi ríkisstjórn beri ábyrgð á þessari stöðu og DO sé þar sárasaklaus. Það var hann sem kom bönkunum til vina sinna og stóð vörðinn meðan þeir rændu ekki aðeins íslenska hlutafjáreigendur heldur erlenda sparifjáreigendur líka.
Að lokum: Vonandi finnst olía á Drekasvæðinu. Það mál er hins vegar í ferli og ég ætla rétt að vona að ekki verði farið að láta skattgreiðendur eða lífeyriseigendur taka áhættuna af því að "flýta" þeirri vinnslu umfram það sem sérfræðingar þeir sem nú hafa fengið rannsóknarleyfi telja ráðlegt.
Þorsteinn Siglaugsson, 7.7.2009 kl. 10:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.