Taglhnýtingar

Vinstri hreyfingin grænt framboð á eftir að hljóta makleg málagjöld í næstu kosningum fyrir að láta Jóhönnu & Co. handjárna sig á Alþingi.  Þingflokkur VG gerði svo víðtæka fyrirvara við stuðning við þingsályktun um umsókn um aðild að ESB (Evrópusambandinu) við gerð stjórnarsáttmálans, að ætla mátti, að þingmenn VG  hefðu til þess frelsi að starfa að þessu máli á Alþingi að eiginn geðþótta. 

Virðingarleysi vinstri stjórnarinnar, seinna ráðuneytis Jóhönnu Sigurðardóttur, gagnvart Alþingi er svo yfirþyrmandi, að hún hótar stjórnarslitum, ef þingmenn VG vinna á Alþingi með þeim hætti, sem ekki þóknast Jóhönnu.  Þetta er mikil ósvífni af aldurhniginni Jóhönnu gagnvart yngsta þingmanninum.  Að vinstri grænir skyldu hins vegar láta Samfylkinguna svínbeygja sig með þessum hætti vitnar um, að þeir eru taglhnýtingar í þessu stjórnarsamstarfi. 

Hótun Samfylkingarinnar var algerlega innantóm.  Að rjúfa þetta vonlausa stjórnarsamstarf af þeirri ástæðu, að þingmaður VG ynni að breytingartillögu við tillögu ríkisstjórnarinnar, hefði skapað Samfylkingunni gjörtapaða vígstöðu.  Þó að dómgreindarlítil sé, hefur henni ekki verið alvara með þessari hótun. 

Vart hefur nokkur kjósandi VG léð henni atkvæði sitt til að verða taglhnýtingur Samfylkingarinnar.  Þessi málsmeðferð í aðdraganda umsóknar ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB ber með sér feigðarboða fyrir báða stjórnmálaflokkana, sem að ráðstjórninni standa. 

Ef svo fer fram sem horfir, að ráðstjórnin ætli að synja þjóðinni þess að tjá sig um það, hvort sækja eigi um ESB með kostnaði, sem er margfaldur (sennilega tífaldur) kostnaði við slíka atkvæðagreiðslu, mun koma harkalega niður á Samfylkingu og Vinstri-grænum í næstu sveitarstjórnarkosningum og þingkosningum.  Kjósendur munu gjalda ráðstjórninni gráan belg fyrir svartan. 

'OeirðirRöksemdir Samfylkingar fyrir brýnni nauðsyn umsóknar nú í júlí 2009 eru ósannfærandi, svo að ekki sé fastara að orði kveðið.  Þau boð hafa komið frá Berlín, að ESB verði ekki stækkað fyrr en Lissabon-sáttmálinn hefur verið samþykktur af öllum núverandi aðildarríkjum.  Hvort svo verður 2009 er óvíst.  Ef Íhaldsflokkurinn brezki flæmir hina vonlausu jafnaðarmenn frá völdum í Lundúnum áður en ESB nær að lögtaka þennan sáttmála, þá mun Íhaldsflokkurinn í ríkisstjórn halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hann á Stóra-Bretlandi.  Næsta víst er talið, að Bretar muni þá fella hann.  Þar með verður "allt upp í loft" í BrüsselSvíar hafa engin tök á að fara með Ísland á hraðferð inn í ESB, þó að ekki skuli gera lítið úr hinni borgaralegu ríkisstjórn Svíþjóðar og forystu Reinfeldts fyrir ráðherraráðinu í Brüssel. Dómgreindarleysi Samfylkingarinnar virðist tröllríða öllum málum, sem hún kemur nálægt. 

Samfylkingin heldur því fram, að umsókn skipti sköpum fyrir þróun efnahagsmála á Íslandi.  Umsókn muni t.d. styrkja gengi krónunnar.  Þetta eru hugarórar einberir.  Vitað er, að þjóðartekjur á mann eru miklu hærri á Íslandi en að meðaltali í ESB og svo mun ætíð verða.  Þar af leiðandi mun Ísland, eins og önnur lönd yfir þessu meðaltali, þurfa að greiða meira til ESB en það fær.  Mismunurinn gæti numið um 10 milljörðum kr á ári að lágmarki.  

Evrópubankinn (ECB) í Frankfurt er sjálfstæður gagnvart ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB, og hann ver evruna með kjafti og klóm.  Það hefur komið í ljós gagnvart nýjum ESB-ríkjum við Eystrasalt og í Mið-og Austur-Evrópu, að ECB gefur ekki þumlung eftir í kröfum sínum um uppfyllingu allra Maastricht-skilyrðanna fyrir upptöku evru.  ECB veitir ekkert fordæmi, sem herma má upp á hann í þessum efnum.  Þar gildir einu, þó að undanþága til Íslands mundi engu breyta um peningalegan styrk evrunnar.  Evran á í vök að verjast vegna þess, að evru-lönd Suður-Evrópu hafa fallið á Maastricht-prófunum að undanförnu.  Þetta kemur þannig út fyrir þau, að vextir á ríkisskuldabréfum þessara landa eru um tvöfalt hærri en vextir á skuldabréfum þýzka ríkisins.  Íslenzka efnahagskerfið er nú og verður næstu misserin fjarri því að ná nokkru prófi Evrópubankans.  Umsókn og innganga í ESB breytir engu þar um.  Þetta vita matsfyrirtæki lánshæfis og aðilar á gjaldeyrismarkaði.  Samfylkingin er gjörsamlega "úti á túni" í öllu, er lýtur að ESB, og utanríkisráðherra hennar er engan veginn treystandi til að fara með stjórn umsóknarferlisins fyrir Ísland.  Sporin frá "Icesave" hræða.  

Segja má, að nú sé fráleitasti tíminn til að senda umsókn til Brüssel.  Ástæðurnar má rekja til ástandsins í ESB og á Íslandi, eins og rakið hefur verið hér að ofan.  Alþingi á hiklaust að veita þjóðinni kost á að staðfesta eða að hafna þessu mati.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Á bls. 16 í samstarfssamningi þessarar stjórnar segir:

Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi.

Var þetta allt í plati hjá VG ??

Þetta er eitt af lykilatriðum í samstarfssamingi þessar flokka og nú vilja nokkrir hlaupast frá þeirri skuldbindingu.

Jón Ingi Cæsarsson, 12.7.2009 kl. 11:15

2 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Voru menn ekki sammála um að vera ósammála en síðan ef einhver er ósammála þá fara kratarnir í fýlu og hóta því að hætta að leika. Það á að veita þjóðinni rétt til að greiða atkvæði um það hvort rétt sá að eyða að minnsta kosti helminginum að þeim tekjum sem að inn koma á þessu ári vegna hækkunar á neysluvörum sek að kostuðu lántakendur 8000 000 000 í hækkun á lánum. Hvort að það á að eyða helmingnum að innkomunni í að halda uppi samninganefnd í Brussel til að gera samning sem jafnvel yrði felldur. Er ekki nær að fólkið fái að ráða því hvort að það vill eyða peningunum í þetta eða styrkja atvinnuleysisjóðinn eða koma hjólum atvinnulífsins á stað aftur til dæmis með því að hvetja Bjarna og félaga til að stækka nú til að skapa vinnu. Gott og þarft blogg hjá þér Bjarni.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 12.7.2009 kl. 11:27

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þegar flokkar mynda ríkisstjórn með ólíka grundvallarafstöðu til einstakra mála (eins og alltaf er),  er ekki um nema tvennt að ræða að annarhvor gefi algerlga eftir eða fundin sé málamiðlun. Eina málamiðlunin hér var í boði er sú sem farin var að gengið yrði til samninga en slagurinn svo tekinn um samninginn þegar hann lægi fyrir og flokkarnir virtu mismunandi afstöðu hvors annars og þingmanna til hans. Þar með yrði tekist á um þekta stærð en ekki óræðar staðhæfingar.

- Nú treyna menn hinsvegar að stöðva það ferli sem gæti eitt upplýst okkur um hver niðurstaðan yrði - það er meira en lítið undarlegt og ólýðræðislegt.

Helgi Jóhann Hauksson, 12.7.2009 kl. 13:45

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

PS. Skoðanakannanir sýndu að meirihluti kjósenda VG vildi ganga til aðildarviðræðna þó ekki nema þriðjungur teldi að þær myndu leiða til ásættanlegs samnings. - En samt sem áður þá vildi þriðjungur kjósenda VG gerast aðili að ESB án þess að hafa séð samninginn og meirihluti þeirra vildi aðildarviðræður.

Helgi Jóhann Hauksson, 12.7.2009 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband