Farsi

Nýjasti skrípaleikur vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur nefnist Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, ESB.  Meirihluti hennar í utanríkismálanefnd Alþingis hefur samþykkt heimild henni til handa um gjörninginn að viðlögðum svo nefndum vegvísi, þar sem kveðið er á um áframhaldandi óskoruð stjórnunarleg yfirráð íslenzkra stjórnvalda á nýtingu auðlinda í efnahagslögsögu Íslands til lands og sjávar. 

Meirihluti vinstri flokkanna í utanríkismálanefnd þorði ekki að semja umsóknarskjal með ófrávíkjanlegum skilyrðum varðandi óskoraðan fullveldisrétt Íslands yfir auðlindum, sem nú eru alfarið háðar ákvörðun Alþingis um nýtingu.  Það er vegna þess, að ráðherraráð ESB hefði líklega talið slíkt skjal vera móðgun við sig og lítt svaravert.  Svo ósamrýmanlegar eru þessar kröfur sáttmálunum, sem ESB er reist á, en Samfylkingin virðist gefa lítið fyrir. 

Þessi tvískinnungur vinstri flokkanna á Alþingi bíður hættunni á afsali eignarréttinda heim og er ein af ástæðum þess að vísa á þessu umsóknarmáli beint til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar, enda er það vanreifað.

Ef málið væri þannig vaxið, að líklegt þætti, að stækkunarstjóri ESB og samninganefnd hans mundi ganga að kröfum Íslendinga um nokkurn veginn óbreytt stjórnunarfyrirkomulag á sjávarútvegs-og landbúnaðarmálum hérlendis frá því sem verið hefur og það væri ótímasett fyrirkomulag, þá hlyti ESB jafnframt að hafa fallizt á sams konar kröfur Norðmanna í samningaviðræðum 1972 og 1994, og Norðmenn væru fyrir löngu komnir með fulla aðild að ESB. 

Svo er hins vegar ekki, og þess vegna mun Össur, endist honum embættisferill í utanríkisráðuneytinu svo lengi, koma heim með skottið á milli fótanna og leggja fyrir þingið samning, sem verður ekki frekar í samræmi við téðan vegvísi en Icesave-samningurinn er í samræmi við grunnviðmið Alþingis í þeim efnum frá 5. desember 2008.  Þetta viðmið var þó reist á sáttatillögu Frakka, sem þá fóru með formennsku í ráðherraráði ESB, svo að óskiljanlegt er, hvernig íslenzka samninganefndin lét leiða sig á algerar villigötur, eins og fjölmargir, leikir jafnt sem lærðir, hafa sýnt fram á með haldgóðum rökum. 

Nú síðast gaf yfirlögfræðingur Seðlabankans þingnefnd skýrslu, sem sýndi fram á hættulega veikleika í samninginum, sem auðveldar gagnaðila aðför að eigum íslenzka ríkisins.  Þetta álit hentaði hins vegar ekki rétttrúnaðarboðun ríkisstjórnarinnar í þessu máli, sem í anda valdhafanna í Austur-Evrópu, undir járnhæl sameignarstefnunnar ógurlegu þar forðum tíð, kúgaði Seðlabankann til að afneita eigin faglega mati. 

Hvaða heilvita manni dettur í hug, að Seðlabankinn geri fulltrúa sinn út af örkinni til Alþingis með persónulega skoðun sína á samninginum um ríkisábyrgð Tryggingarsjóðs ?  Skoðanakúgun ráðstjórnarinnar leynir sér ekki, heldur færist nú öll í aukana með vaxandi örvæntingu hennar.

AlþingishúsiðÞað eru fleiri ástæður til þess að leggja spurninguna um aðildarumsókn til ESB fyrir þjóðina. 

Ríkisstjórnin þarf ríkari heimildir til að semja um og skrifa undir samning um fullveldisafsal en þær heimildir, sem Alþingi getur veitt.  Úr því að Stjórnarskráin í sinni núverandi mynd leyfir þetta ekki, þarf ríkisstjórnin að taka af allan vafa um umboð sitt í málinu með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Orðhengilsháttur sumra þingmanna Samfylkingar um, að þetta sé atkvæðagreiðsla um atkvæðagreiðslu, ber vott um virðingarleysi þeirra fyrir Stjórnarskránni og lýðræðislegum stjórnarháttum. Kostnaðurinn verður aðeins tíundi hluti umsóknarkostnaðar, og vonandi sparast þá 9/10.   

Þriðja ástæðan fyrir  þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn eða ekki umsókn er, að kostnaður ríkisins af umsókn er tilfinnanlegur á tímum nauðsynlegs sparnaðar á öllum sviðum ríkisrekstrarins. 

Kostnaðurinn er þar að auki stórlega vanáætlaður að mati sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, en á hans ráðuneyti mun álagið stóraukast vegna umsóknarinnar.  Eins og rakið er hér að ofan, er líklegast, að hér verði um sóun á fé skattborgaranna og tíma ráðuneytanna að ræða, því að aðildarsamningur verður ekki síður óaðgengilegur Íslendingum árið 2011 en hann reyndist Norðmönnum árið 1994, sem felldu samninginn í trássi við Stortinget í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Öflugt ESB-trúboð er rekið á Íslandi.  Eins er víst og tvisvar tveir eru fjórir, að þetta trúboð mun ganga hart fram um, að Íslendingar samþykki samninginn, hvert svo sem innihald hans verður, enda sé búið að eyða miklu fé og orku í gerð hans að beggja hálfu. 

Evrópu-trúboðið mun líta á það sem hneisu fyrir ESB, ef Íslendingar hafna inngöngusamningi, enda fáheyrt, þar sem fordæmi er aðeins frá Noregi um slíkt.  Það getur orðið mjótt á mununum í þjóðaratkvæðugreiðslu þá, og þá er illt að þurfa að treysta á túlkun vinstri flokkanna á Alþingi á lýðræðinu.  Það er með öðrum orðum óviðunandi, að þjóðaratkvæðagreiðslan verði í lokin aðeins ráðgefandi, en ekki bindandi fyrir Alþingi. 

Það er þess vegna þörf á stjórnarskráarbreytingu, sem tryggir með einum eða öðrum hætti, að fram kominn þjóðarvilji sé virtur.  Þetta sé einhlítt, ef hreinn meirihluti atkvæðisbærra manna er annars vegar, en aukinn meirihluti á Alþingi, t.d. 2/3, geti snúið ákvörðun minnihluta atkvæðisbærra manna við í máli, sem þó hafi hlotið flest atkvæði.

Dæmi um ofangreint trúboð er að finna í grein Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, "ESB eykur efnahagslegt öryggi", í Fréttablaðinu 7. júlí 2009.  Baldur gefur í skyn, að hag Íslands væri nú betur komið, ef Ísland hefði verið fullgildur aðili að ESB, þegar Hrunið varð.  Hér er um makalausan áróður að ræða.  Þvert á móti má fullyrða, að þátttaka Íslands í innri markaði ESB, sem tryggir frjálst flæði fjármagns, fólks, vöru og þjónustu innan EES, hafi gert bönkunum íslenzku kleift að hasla sér völl í Evrópu.  Án innri markaðarins hefði útþensla bankakerfisins íslenzka, með gegndarlausum lántökum og innlánsreikningum erlendis, tæpst leitt til hruns fjármálakerfisins á Íslandi við fall "Lehman Brothers".  Gallinn við innri markaðinn var m.a. sá, að ekkert sameiginlegt fjármálaeftirlit var til fyrir hann, og tilskipun eða forsögn ESB um tryggingarkerfi innistæðueigenda var vanhugsuð. 

Óþarft er að taka fram hér, að við lögleiðingu tilskipunar um Tryggingarsjóð innistæðna á Íslandi 1999 var sérstaklega tekið fram á Alþingi, að engin ríkisábyrgð fylgdi þessum sjóði að hálfu Íslands.   Hvað ráðherrar sögðu eða skrifuðu í andnauð í kjölfar Hrunsins, þegar bankakerfi Evrópu nötraði, breytir engu um þennan grundvöll löggjafarinnar, því að enginn getur skuldbundið íslenzka skattgreiðendur, nema Alþingi.  Klúður vinstri stjórnarinnar, að taka á sig ábyrgð á greiðslum allt að kEUR 20 per innistæðu með alræmdri undirskrift afarkosta í anda Versala 1919, eru mestu stjórnvaldsmistök á lýðveldistímanum.   

Evrópubankinn, ECB, gegnir ekki hlutverki til þrautavara fyrir bankana á evru-svæðinu, hvað þá annars staðar í ESB.  Það er hlutverk seðlabanka hvers ríkis.  Frakkar höfðu hug á því haustið 2008, er þeir höfðu 6 mánaða forystu fyrir ráðherraráði ESB, að ESB hlypi undir bagga með bönkum innan ESB í sameiginlegu átaki.  Þýzki seðlabankinn, Die Bundesbank, taldi óeðlilegt, að þýzkt sparifé yrði notað til að bjarga eyðsluseggjum Evrópu, og þýzka ríkisstjórnin, með kristilega demókratann Angelu Merkel í broddi fylkingar, stöðvaði þessi áform, enda hafði þýzka þjóðin lagt hart að sér við að endurheimta yfirburðastöðu á útflutningsmörkuðum, sem hún hafði með sínu D-marki.  Að hjálpa þeim, sem makað höfðu krókinn á tímum eignabólunnar, sem að mestu fór framhjá Þýzkalandi, hefði fallið í grýttan jarðveg á meðal þýzkra kjósenda, sem velja nýjan Bundestag, neðri deild þýzka þingsins, nú í haust, 2009.

Af öllum þessum ástæðum verður ekki séð, að orðagjálfur eins og "ESB veitir margs háttar efnahagslegt öryggi" (hortitturinn er téðs prófessors í stjórnmálafræði) sé meira en innantóm orð.  Í þessum efnum er hver þjóð sjálfri sér næst og sinnar eigin gæfu smiður.

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þetta er langt mál og ítarlegt og ekkert að því að vera efins um ESB en það virkar samt einsog þræta. Látum nú einhvern tíman slag standa og gerum eitthvað sem rokkar þessu staðnaða drullupollsandrúmi sem alþingi veltir sér uppúr þessa dagana. Alþingi sem er kosið af þjóðinni til að fara með öll sín málefni á að taka afstöðu fyrst og fremst um aðildarviðræðurnar. Þingkosningar eru þjóðaratkvæðagreiðsla og ef þeir flokkar sem höfðu ESB aðildarviðræður á sinni dagskrá hefðu náð saman væri umsóknin löngu komin af stað. Þegar samningurinn liggur fyrir þá geta menn kosið um hann í þjóðaratkvæðagreiðslu einsog til stendur. Stundum held ég að ESB andstæðingar séu með heilaskemmdir.

Gísli Ingvarsson, 15.7.2009 kl. 16:14

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Gísli, kjósendur flykktust í kjörklefana í apríl síðast liðnum til þess að greiða VG atkvæði vegna eindreginnar andstöðu flokksins við ESB aðild.  Að því leytinu til má segja að þingkosningarnar væru þjóðaratkvæðagreiðsla.

En nú hefur VG svikið kjósendur og kúvent í ESB málinu og þingkosningin sú því sjálfdauð frá sjónarhóli kjósenda.   Það er alveg ljóst hverjir þjást af Alzheimer og/eða heilaskemmdum. 

Kolbrún Hilmars, 15.7.2009 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband