17.7.2009 | 08:20
Viðundur
Þann 16. júlí 2009 unnu vinstri flokkarnir, sem að ríkisstjórn Íslands standa, Phyrrosarsigur. Þetta heiti er ættað úr fyrsta púnverska stríðinu, þar sem Karthago-menn unnu sigur á rómverska hernum í orrustu við Phyrros á Suður-Ítalíu. Sigur þessi varð Karthago mun dýrkeyptari en ávinningurinn, og Rómverjar náðu undirtökunum síðar og jöfnuðu Karthago við jörðu.
Þessi sigur vinstri stjórnarinnar á Alþingi mun verða banabiti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem stjórnmálaafls, sem máli skiptir í íslenzkum stjórnmálum. Málefnalegur tvískinnungur og hrottafengin svik við stefnu flokksins og við kjósendur hans eru meira en íslenzkir kjósendur kunna að meta.
Samfylkingin mun ekki bera sitt barr, þegar í ljós kemur, að vegferðin til Brüssel var reist á hillingum og innantómum gyllingum um gull og græna skóga Íslendingum til handa, ef þeir aðeins féllu fram og tilbæðu goðin í Brüssel. Þessi vegferð verður þungur baggi á ríkissjóði og mun lama stjórnun ríkisins, því að ofan á mikið álag vegna afleiðinga Hruns bætast feikna annir tengdar umsóknarferlinu, ef það verður þá ekki í skötulíki.
Það versta við þessar málalyktir er þó það, að málatilbúnaður vinstri stjórnarinnar mun gera Íslendinga að viðundrum í augum forkólfa ESB. Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, veit vel, að allir þingmenn annars stjórnarflokksins, sem að umsókninni stendur, hafa heitið því að berjast gegn samþykkt samnings Íslands við ESB, sama hvað í honum verður. Hann veit líka, að ráðherra sjávarútvegs-og landbúnaðarmála, erfiðasta málaflokks samningaferlisins, greiddi atkvæði gegn umsókn og sýndi þar með meiri heilindi en félagar hans í ríkisstjórn, en mun fyrir vikið lenda á milli steins og sleggju.
Eftir kurteisishjal og skálaglamur verður þess vegna fyrsta spurning stækkunarstjórans og samninganefndar hans til íslenzku samninganefndarinnar, hver verði örlög samningsins á Íslandi, þegar þar að kemur. Össuri & Co. mun vefjast tunga um tönn, því að ríkisstjórnin, sem biður ESB um aðildarviðræður, mun hvorki mæla með samþykkt eiginn samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu né á Alþingi. Slík staða er einsdæmi hjá ESB og mun hleypa illu blóði í ESB-samningamennina frá fyrsta degi, þar sem um tímasóun er augljóslega að ræða. Með þessum hætti mun vinstri stjórninni takast, illu heilli, að gera Íslendinga að viðundrum í augum ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar ESB.
En sagan er ekki öll sögð. Vinstri-grænir munu ekki þora í Alþingiskosningar án þess gera tilraun til að klóra yfir skítinn úr sér. Þeir munu þess vegna stöðva samningaferlið áður en það verður leitt til lykta. Þetta hefur aldrei gerzt í sögu ESB og mun verða litið svo alvarlegum augum þar á bæ, að það mun líða langur tími þar til ráðherraráðið samþykkir að taka upp þráðinn að nýju. Kjósendur á Íslandi munu þannig ekki fá að tjá sig í beinum kosningum um þetta mál í þessari lotu, og er það miður.
Vinstri stjórnin mun með þessum hætti gera út af við orðstýr Íslands hjá ESB um alllanga hríð og gera öll samskipti við Brüssel mjög stirð, og var þó ekki á það bætandi. Þessi óláns málatilbúnaður og rót vinstri flokkanna, sem aldrei hefur verið treystandi fyrir horn í utanríkismálum, getur gengið af EES (Evrópska efnahagssvæðinu) dauðu, þannig að Ísland verði að leita sérsamninga við ESB, eins og Svissland hefur.
Það er alveg áreiðanlegt, að 16. júlí 2009 mun verða talinn sögulegur dagur, en það er spá höfundar, að atburðir dagsins marki ekki upphafið að inngöngu Íslands í ESB, heldur upphafið að miklum vandræðum í samskiptum landsins við ESB, sem leiða muni til þess, að við munum kappkosta að efla vinfengi og viðskipti við aðra.
Samfylkingin hefur gengið fram af dæmalausu offorsi á þessu dýrðarinnar íslenzka sumri. Hún hefur með framferði sínu rekið nagla í líkkistu vinstra samstarfs í stjórnarráði Íslands. Nú er komið að henni að taka út innistæður sínar í Brüssel, sem margir efast um, að nokkrar séu, og sýna þær landsmönnum. Ef hún getur það ekki, er betra fyrir stjórnmálamenn þar á bæ að fara strax að biðja bænirnar sínar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Þetta er svo furðulegt, að éeg efast um heilastarfsemi manna á hinu háa Alþingi.
Hafa þessir menn ekkert heyrt á ferðum sínum um sali ytra?
Ef marka má yfirlysingar ráðamanna í þingum fyrrum Nýlendukúgara, er ekki mikil von um, að við sækjum Gull í greipar þeirra.
Frekar mun það öfugt, að við verðum keyrð í ánauð og landið verði útkjálki í Evrópu líkt og Gjögur er frá Rvíkurvaldinu.
ÞAð er alkunna og þarf ekkert að velta vöngum yfir því að EFTIR ÞVÍ SEM LENGRA ER FRÁ HÖFUÐSTÖÐVUNUM TIL STARFSTÖÐVAR minnkar skilningur og eykst Arðrán.
ÞEtta var á Eyjunni
- Prenta
- Senda
- Þín skoðun
- RSS
Innlent - fimmtudagur, 16. júlí, 2009 - 10:29Financial Times: Bretar og Hollendingar koma í veg fyrir ESB-aðild Íslands verði Icesave fellt
Sérfræðingar sem breska stórblaðið Financial Times hefur rætt við spá því að Bretar og Hollendingar muni koma í veg fyrir að Ísland fái aðild að Evrópusambandinu ef Alþingi fellir ríkisábyrgð á Icesave-samkomulaginu.
Þetta kemur fram í blaðinu í dag.
Financial Times fjallar um umræðurnar á Alþingi og í þjóðfélaginu um ESB og Icesave. Það vitnar í Svein Harald Oygard seðlabankastjóra sem segir að þjóðin geti staðið undir skuldabyrði Icesave, en segir að efasemdir séu um það meðal almennings.
Fleiri erlendir fjölmiðlar og fréttastofur fjalla um stöðu mála á Íslandi í dag, svo sem Wall Street Journal, BBC, Deutsche Welle og Reuters.
mbk
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 17.7.2009 kl. 08:49
Það einkennir ykkur ESB-andstæðinga að þið vitið alla hluti öðrum mönnum betur og fátt þekkið þið þó eins vel og framtíðina. Allt hvað mun gerast, getur gerst og getur ekki gerst er ykkur sem opin bók hreinna óbreytanlegra og óumdeildanlegra staðreynda. - Það er því ekki rétt af mér að segja „við skulum sjá til hvað verður“ - þú veist þetta allt.
Helgi Jóhann Hauksson, 17.7.2009 kl. 20:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.