Skilaboð frá Nürnberg

Strax eru tekin að birtast raunveruleg viðbrögð frá Evrópu og reyndar víðar að við 44 orða umsókninni um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) frá 16. júlí 2009 fyrir utan kurteisishjal Barroso og Bildt. 

Á sama tíma og téð umsókn var afhent í utanríkisráðuneyti hans hátignar, Svíakonungs, í Stokkhólmi, hélt sá stjórnmálaflokkur, sem haldið hefur um stjórnartaumana í Bæjaralandi frá stofnun Sambandslýðveldisins Þýzkalands 1949, flokksþing sitt í Nürnberg til undirbúnings kosningum til neðri deildar þýzka þingsins, Bundestag, haustið 2009.  Þar er um að ræða CSU, systurflokk CDU, flokks Bundeskanzlerin Angela Merkel, sem var viðstödd flokksþingið í Nürnberg til að stilla saman strengi flokkanna í átaki við að ýta SPD, Jafnaðarmannaflokki Þýzkalands, úr ráðherrastólum í Berlín. 

Á þessu flokksþingi var áréttuð sú stefna CDU/CSU að gera hlé á fjölgun ríkja í ESB þar til Lissabon sáttmálinn hefur verið staðfestur af öllum ríkjunum, 27 talsins.  Þjóðverjar hafa sjálfir enn ekki staðfest þennan samning, af því að stjórnarskráardómstóll Þýzkalands hefur haft til meðferðar kæru, er lýtur að lögmæti framsals þjóðlegs valds til hins yfirþjóðlega valds í Brüssel.  Þessar vangaveltur Þjóðverja koma Íslendingum kunnuglega fyrir sjónir. 

CDU/CSU styðja inngöngu Króatíu strax og Lissabon samningurinn hefur hlotið staðfestingu í öllum ríkjunum, enda var Króatía hluti af Habsborgaraveldinu á sinni tíð og þess vegna á þýzk-austurrísku áhrifa-og menningarsvæði.  Að inntöku Króatíu sem 28. aðildarlands ESB lokinni, telja CSU/CDU nauðsynlegt að staldra við og endurskipuleggja stjórnkerfi ESB. 

Angela Merkel (CDU) og Horst Seehofer (CSU)

"EU nicht Retter für Islands Wirtschaftskrise" hljómaði frá Nürnberg og mun væntanlega enduróma frá kanzlaranum í Berlín og næstu ríkisstjórn Þýzkalands.  Þetta má þýða: "ESB ekki hjálparhella gagnvart efnahagskreppu Íslands".  Þetta er í samræmi við málflutning gagnrýnenda óðagots Samfylkingarinnar við að sækja um aðild Íslands að ESB og í ósamræmi við málflutning Samfylkingarinnar, sem taldi umsókn vera hluta af lausn efnahagsvandans á Íslandi.   Umsóknin er að steyta á skeri, af því að hún var lögð fram á fráleitasta tíma, sem hugsazt gat, m.t.t. stöðu mála innan ESB og á Íslandi og m.t.t. vandræða í samskiptum Íslands og ESB undanfarið. 

Rök Samfylkingarinnar fyrir óðagotinu bera vott um hræðilega vanþekkingu og dómgreindarskort.  Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og þingmenn Samfylkingarinnar aðrir hafa haldið því fram, að óðagotið væri nauðsynlegt til að Svíum gæfist tækifæri til að greiða umsókninni leið og tala fyrir henni.  Vafalaust hafa Svíar með Carl Bildt, utanríkisráðherra, í fararbroddi hvatt ríkisstjórnina til að flýta sér, en gengur þeim góðvildin ein til í garð Íslands ? 

Svo er auðvitað ekki.  Svíþjóð er gamalt evrópskt stórveldi, sem tók þátt í að lama Þýzkaland í 30 ára stríðinu 1618-1648 og öðlaðist þá ítök á meginlandinu, aðallega við Eystrasaltið.  Áhrif og ítök Svía í Eystrasaltslöndunum eru enn mikil. 

Stefna Svía er að efla hina "norrænu vídd" (den nordiska dimension) undir sinni leiðsögn innan ESB og öðlast þannig völd innan ESB langt umfram það, sem búast má við af 9 milljón manna þjóð.  Lykilatriði til að ná þessu fram er, að Ísland gangi í ESB.  Með því móti telja Svíar, að hreyfing muni koma á aðildarumræður í Noregi, og þar er nú þegar farið að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu um að senda inn umsókn í 3. skiptið.  Því má bæta við, að Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur talað um að "selja" hinum ESB-ríkjunum 26 hugmyndina um að samþykkja umsókn Íslands með því, að þá öðlist ESB aðgang að Norður-Íshafinu. 

Hvað sem áhrifum Svía innan ESB líður, á meðan þeir gegna formennsku í ráðherraráðinu, er hitt áreiðanlegt, að umsókn verður ekki samþykkt þar í blóra við Berlín.  Óðagot Samfylkingar er að breytast í feigðarflan, þar sem verstu hrakspár stjórnarandstöðu rætast.  Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, sem Samfylkingin hefur efazt um, að samið gæti um aðild, sem hann er algerlega andsnúinn, fyrir hönd sinna málaflokka, getur nú andað léttar, því að minni líkur en meiri eru nú á því, að ráðherraráð ESB samþykki einróma, sem er skilyrði, að taka við umsókn Íslands og fela hana framkvæmdastjórninni til afgreiðslu.  

Það yrði töluverður álitshnekkir fyrir Ísland eftir það, sem á undan er gengið.  Sannast þar hið fornkveðna, að flas gerir engan flýti.   

Dem deutschen Volke 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Guðmundsson

FALLEG BORG, NURNBERTG

Arnar Guðmundsson, 20.7.2009 kl. 23:38

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Heidelberg jafnvel fegurri.

En um umsókn okkar er það helst að segja, að ég vona að henni verði hent út hið fyrsta og ekki verið ausið fé í bónfarir suður til Brussel, (sem er þokkalega falleg, ef vel er skoðuð).   Íslendingar hafa ekki góða reynslu af bænaskjölum fyrir Evrópskt vald.

Þegar fjarlægðin frá raunverulegri stjórn verður meiri minnkar hratt, þekkingin á aðstæðunum og tilfinningin fyrir raunveruleika þeirra sem búa við stjórnunina.  Það þekkja þeir sem undir stjórn stórra fiskveiðirisa starfa og hafa samanburð við heimastjórn, þar sem útgerðamaðurinn mætti í fermingu, skírnir og hjónavígslur þorpsbúa.

Þetta er alþekkt í BNA þegar stóru risarnir gleyptu bæði framleiðslufyrirtækin og námurnar. 

Svipað verður hér ef ESB aðild verður.  Við missum auðlindir okkar hverja af annarri.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 21.7.2009 kl. 09:21

3 Smámynd: Arnar Guðmundsson

FJARSKA FALLAEG

Arnar Guðmundsson, 21.7.2009 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband