8.8.2009 | 14:36
Afturgöngur
Sú var tíðin, að þjónustugreinum, s.s. margvíslegu fjármálasýsli, var hampað ákaflega hérlendis og boðað, að draumaland fjármálageirans tæki við af framleiðslugreinunum, t.d. iðnaði, ekki sízt orkukræfum. Svo skall á heimskreppa haustið 2008 með ársaðdraganda, og reið hún hinu íslenzka draumalandi spákaupmanna bréfahagkerfisins að fullu, enda voru innviðir þess grautfúnir.
Þar sem bankablaðran var orðin svo hræðilega útþanin, þegar hún sprakk, lamaði Hrun fjármálakerfisins efnahagskerfið í kjölfarið. Rann þá upp fyrir mörgum, að draumalandið eru draumórar einir og að viðreist Ísland verður reist á framleiðsluatvinnuvegunum, þ.á.m. á stórfelldri raforkuvinnslu fyrir orkukræfan iðnað á Íslandi (ekki fyrir flutning um sæstreng, nema e.t.v. til velgjörðarmanna okkar í Færeyjum) ásamt móttöku erlendra ferðamanna. Varðandi síðasta þáttinn er þó mikið verk óunnið í mengunarvörnum og náttúruvernd, ef ekki á að stórsjá á landinu eftir 0,5-1,0 milljón erlenda ferðamenn á hverju ári.
Af fyrrgreindum sökum kom fréttatilkynning Fjármálaráðuneytisins nr 53/2009 um "Mat á arðsemi orkusölu til stóriðju: Fyrsta áfangaskýrsla" eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Alkunnug eru viðhorf Steingríms J. Sigfússonar, áður en hann gekk í björg ráðherradóms 1. febrúar 2009 með Samfylkingu, til erlendra fjárfestinga í aflfrekum iðjuverum og til virkjana þeim tengdum. Svipuð virðast vera viðhorf hagfræðinganna fjögurra, sem í nafni viss einkahlutafélags setja fram sjónarmið sín í téðri skýrslu.
Höfundur þessarar vefgreinar fann sig knúinn til að gagnrýna skýrslu þessa, og mun umsögnin birtast í hausthefti 2009 af Þjóðmálum - tímariti um stjórnmál og menningu, sem bókafélagið Ugla ehf. gefur út ársfjórðungslega. Þar er glímt við þessa drauga fortíðarinnar, draumalandsins, sem ganga ljósum logum aftur í téðri skýrslu. Hér verður spjótunum meir beint að hinum galvaska fjármálaráðherra og stefnu hans.
Það er ótrúlegt, að í apríl 2009 skyldi Steingrímur J. Sigfússon telja brýnt að verja fé skattborgaranna úr ríkissjóði, sem rekinn var með yfir 200 milljarða kr halla í fyrra og litlu minni í ár, til að kosta skýrslugerð til að skjóta stoðum undir skoðanir sínar um, að raforkusala til stóriðju og stóriðjan sjálf séu þjóðhagslega óhagkvæm.
Þá eins og nú var lánsfé til atvinnuuppbyggingar ófáanlegt og tæp 10 % vinnuaflans í landinu á atvinnuleysisskrá. Það var þess vegna í apríl, eins og nú, deginum ljósara, að fengjust nýjar erlendar fjárfestingar til landsins og þar með lánstraust til að hefja nýjar virkjanir, þá mundi sú starfsemi ekki ryðja neinu öðru úr vegi, en ein af rökleysum draumalandsins eru s.k. "ruðningsáhrif" stóriðju, sem talin eru veikja atvinnulífið. Séu þau fyrir hendi, gefur auga leið, að þau styrkja efnahagskerfið með því að bjóða betur.
Síðan fjármálaráðherra pantaði téða skýrslu fyrir hönd skattborgara landsins, hefur álverð risið hraðar en nokkur átti von á og er í ágústbyrjun 2009 um 2000 USD/t. Þetta þýðir, að eftirspurnin er meiri en framboðið. A.m.k. fjórðungur framleiðslugetu álvera heimsins var stöðvaður við Hrunið, og verðið hrapaði niður undir 1200 USD/t. Það tekur lengri tíma að endurræsa þessi álver en nemur eftirspurnaraukningunni, og þess vegna hækkar verðið, þó að 16 vikna birgðir af áli séu á markaðinum. Við þessar aðstæður mun vakna áhugi fjárfesta að binda mikið fé í álverum, og mun Ísland koma þar við sögu. Spáð er jafnaðarvexti álnotkunar í heiminum sem nemur 4 % á ári af framleiðslunni eða um 1,6 milljónum tonna um þessar mundir. Framleiðslugeta íslenzku álveranna er nú helmingur af þessu.
Það veltur á viðhorfum stjórnvaldanna við Lækjartorg, hvort áhugi fjárfesta í þessari grein verður að atvinnutækifærum á Íslandi eða annars staðar. Ný álver munu verða reist og önnur stækkuð; svo mikið er víst.
Nú er áhugaverð spurning, hvers vegna ekki var dregið neitt úr framleiðslu álveranna þriggja á Íslandi í vetur ? Svarið við henni varpar ljósi á það, hvers vegna sala raforku til álvera á Íslandi er þjóðhagslega hagkvæm sem og álverin sjálf.
Þannig er búið um hnúta í raforkusamningum íslenzkra orkuvinnslufyrirtækja við stórnotendur (iðjuverin), að kaupskylda hvílir á mjög háu hlutfalli af heild umsaminnar orku. Þetta leiðir m.a. tvennt af sér:
- Orkusalinn getur lagt fyrir lánveitendur samning um tryggar lágmarkstekjur yfir tímabil, sem er lengra en nemur uppgreiðslutíma lánanna. Eftir þann tíma munu virkjanirnar enn halda áfram að mala eigendum sínum gull áratugum saman, enda er tæknilegur afskriftartími virkjananna, a.m.k. vatnsaflsvirkjana, miklu lengri en fjárhagslegur afskriftartími þeirra og tímalengd samninganna við stóriðjufyrirtækin. Meðalending virkjana á Íslandi er mun lengri en kolakyntra, gaskyntra og kjarnorkuknúinna orkuvera, og þar af leiðandi unnt að gera samsvarandi lægri arðsemikröfu á hverju ári. Af þessu leiða hagstæðari lánakjör, lægri vextir að öðru jöfnu, þar sem áhætta lánveitanda er í lágmarki. Þetta er ein af ástæðum þess, að raforkuverð til almennings er einna lægst, sennilega lægst nú orðið, á Íslandi, enda kemur vinnslukostnaður virkjana að sjálfsögðu fram í verði almenningsveitna. Málið er, að hlutfall stóriðjuorku af heildarraforkuvinnslu á Íslandi er hærra en annars staðar þekkist eða um 70 %. Álag stóriðjunnar er mjög jafnt yfir hvern sólarhring og yfir árið, og þar af leiðandi fæst betri nýting á raforkukerfið og fjárveitingar þess en annars staðar þekkist. Þetta þýðir, að raforkuverð getur verið lægra til allra notenda með stóriðjuálagi og veitt þó sömu eða meiri arðsemi virkjana og flutningsmannvirkja en ella væri án stóriðju.
- Hinn þjóðhagslegi kosturinn við háa kaupskyldu stóriðjuveranna er sá, að álverðið þarf að lækka mjög mikið, svo að borgi sig fyrir eigendur að stöðva framleiðslu álveranna. Verðið lækkaði í vetur niður undir 1200 USD/t Al, sem er mjög lágt, en augljóslega ekki svo lágt, að eigendur álveranna á Íslandi teldu borga sig að draga þar úr framleiðslu. Þetta veitir miklum stöðugleika inn í atvinnu-og efnahagslífið á Íslandi, sem meira þarf af.
Afturgöngur fjármálaráðherra rembast í skýrslu sinni við að sýna fram á, að orkuverð til álveranna á Íslandi sé lægra en í Evrópu og í Bandaríkjum Norður Ameríku og arðsemi orkufyrirtækjanna íslenzku lægri en þar og lægri en íslenzkra fyrirtækja almennt. Í þeirri viðleitni sinni seilast þeir langt og fara út fyrir velsæmismörk fræðilegrar umræðu, þar sem þeir bera saman epli og appelsínur og draga af niðurstöðunni þá kolröngu ályktun, að virkjanir til stóriðju, og stóriðjan sjálf, séu þjóðhagslega óhagkvæmar.
Hér hefur verið bent á eitt atriði, sem mælir á móti niðurstöðu fjórmenninganna, sem fjármálaráðherra keypti skýrslur af, en í téðri umsögn í Þjóðmálum mun gefa að líta margar aðrar röksemdir, sem kveða ættu niður þennan draugagang.
Fjármálaráðherra hefur ritað greinar og haldið ræður um þjóðhagslega óhagkvæmni stóriðju og er nú, í krafti síns embættis og mitt í kreppunni, augljóslega að reyna að skipuleggja vörn fyrir það, að hann, umhverfisráðherra og ríkisstjórnin, dragi lappirnar við ákvarðanatöku um ný stóriðjuver og virkjanir fyrir þau.
Eitt af því, sem fjármálaráðherra tíndi til í greinum sínum og ræðum, var, að stóriðjan útheimti miklar fjárfestingar fyrir hvert starf, sem af þeim fjárfestingum leiddi. Í ljósi þess, að um erlendar fjárfestingar er að ræða í iðjuverunum, að stórum hluta úr sjóðflæði móðurfyrirtækjanna, eru miklar fjárfestingar á bak við hvert starf einvörðungu þjóðhagslegur kostur hér, því að hluti þessara miklu fjárfestinga flæðir um íslenzka efnahagskerfið og veitir ekki af nú um stundir. Þá gefur auga leið, að dýr vinnustaður er líklegri til að verða starfræktur, haldið við og þróaður, til langframa en ódýr, sem er þjóðhagslegur kostur. Þessi röksemd fjármálaráðherra, sem ýmsir hafa tuggið síðan, snýst þess vegna upp í að verða röksemd fyrir því að ýta undir slíkar fjárfestingar hérlendis.
Til að brjótast út úr núverandi kreppu eru viðhorf fjármálaráðherrans vonlaus. Lánsfé er ekki á lausu, og eitt af fáum úrræðum, sem eitthvað munar um, er að laða hingað að fjárfesta, sem sjá tækifæri í uppsveiflunni, sem koma mun eftir þessa harðsvíruðu heimskreppu. Þannig mætti rjúfa þann vítahring vantrausts, sem enn girðir fyrir lánveitingar til landsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Breytt 9.8.2009 kl. 09:37 | Facebook
Athugasemdir
Sæll. Þakka góða grein Bjarni.
Kv. Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 8.8.2009 kl. 19:47
Takk fyrir mjög góða grein Bjarni. Ég er þér hjartanlega sammála.
Ágúst H Bjarnason, 9.8.2009 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.