Ísland og Noregur

Dagana 13.-14. september 2009 kusu Norðmenn til nýs Stórþings.  Borgaralegu flokkarnir hlutu fleiri atkvæði, og mjög litlu munaði, að þeim tækist að velta stækri vinstri stjórn, sem að vísu hefur Framsóknarflokk Norðmanna innanborðs (Senterpartiet).  Fylgi við Hægri flokkinn jókst, en vinstri grænir í Noregi töpuðu. Það er óvenjulegt, eftir að samsteypustjórnir tóku við af tímabili eins flokks stjórna Verkamannaflokksins, að ríkisstjórn haldi velli eftir kosningar. Var þetta hundaheppni Stoltenbergs.

Stoltenberg 

Spyrja má, hvers vegna Norðmenn losuðu sig ekki við daufa vinstri stjórn ?  Svarið kann að felast í því, að eftir að umsókn Íslands um aðildarviðræður við ESB var afhent utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, í sumar, hófust umræður á þá lund í Noregi, að kæmist Hægri flokkurinn til valda, mundi Noregur líklega ekki bíða boðanna, heldur senda sams konar umsókn fyrir Noregs hönd og þá í þriðja skiptið. 

Norska þjóðin hefur engan gáning á aðild að ESB, og þessi umræða gæti þess vegna hæglega hafa lengt líf rauðgrænnar ríkisstjórnar Stoltenbergs um 4 ár, því að kjörtímabilið í Noregi er fasti, þ.e. ekki er leyfilegt að leysa Stórþingið upp, nema kjörtímabilinu sé lokið.  

Auðlindir Norðmanna eru miklar og að nokkru leyti sams konar og okkar Íslendinga.  Þær eru t.d. sjávarfang og vatnsafl, en einnig miklar olíulindir í Norðursjó og norður með strönd Noregs, Jan Mayen, Svalbarða og allt norður í Hvítahaf.  Þar á meðal er Drekasvæðið, sem Íslendingar og Norðmenn skipta á milli sín. 

Talið er, að sitt hvorum megin markalínu ríkjanna á Drekasvæðinu leynist 10 milljarðar tunna af olíujafngildi.  Miðað við núverandi eldsneytisnotkun í heiminum nægir forði hvorrar þjóðar til að anna brennslu mannkyns á olíu í 4 mánuði, og birgðir Drekasvæðisins alls nema 0,8 % af þekktum olíuforða heimsins um þessar mundir, en hann dugir í 40 ár m.v. núverandi notkun.   

Fróðlegt er að velta fyrir sér, hversu mikil áhrif vinnsla olíu og gass úr hafsbotni Drekasvæðisins mundi hafa á hag Íslendinga.  Strax á skeiði tilraunaborana mundi hagur íbúa á NA-verðu landinu vænkast mjög, því að koma þarf upp þjónustu við tilraunaborpallana, sem gerð yrði út frá höfnum og flugvöllum NA-lands.  Veltan á svæðinu mundi aukast um tugi milljarða króna.  Mælt í þorskígildum gæti hér verið um jafngildi tvöföldunar á kvóta svæðisins að ræða. 

Miklu meira mun samt muna um skatttekjur af olíuvinnslunni, ef og þegar hún kemst á, en hún yrði sjálf öll á höndum öflugra, alþjóðlegra olíufélaga, því að þarna norður frá þarf að beita beztu tækni á þessu sviði, tilraunavinnslan verður dýr og talið er, að vinnslukostnaður muni nema 80 USD/tu, sem er hið hæsta, sem þekkist á þessu sviði í raun.   Hóflega skattheimtu þarf að boða þegar í upphafi til að fæla fjárfesta ekki frá áhættusömum rekstri á mjög erfiðu vinnslusvæði.  Ef reiknað er með hagnaði 20 USD/tu af olíu, sem líklega er vægt áætlað, og 35 % skatti af hagnaði, þá mundu skatttekjur ríkisins nema ISK 450 mia/ár í 20 ár, sem mundi leiða til tvöföldunar núverandi skatttekna.

Svarta gullið er takmörkuð auðlindÞað er ljóst, að til að greiða niður skuldir ríkissjóðs þarf stórvirki af þessu tagi, þegar að Icesave gjalddaga kemur 2016, og þess vegna er mikilvægt að flýta rannsóknum á Drekasvæðinu, eins og kostur er. 

Systurflokkur VG í Noregi leggst alfarið gegn rannsóknum á Drekasvæði Noregs, sem miði að vinnslu olíu og gass þarna.  Líklegt er, að VG á Íslandi api þessa fyrirtekt eftir þeim, þó að efnahagsaðstæður Noregs og Íslands séu gjörólíkar.  Efnahagsstefna VG, vinstri grænna, er reist á sandi, því að hún endurspeglar ekki meiri skilning á efnahagslögmálum en býr í höfði strútsins, sem þekktur er af að stinga hausnum í sandinn, þegar hann mætir vandamáli.  Stjórnmálamönnum VG virðist vera fyrirmunað að skilja, hvað þeir þurfa að gera til að endurvekja hér hagvöxt.  Þeir tortryggja erlenda fjárfesta, sem hætta vilja fé sínu til uppbyggingar íslenzks atvinnulífs, sýna þeim kaldranalegt viðmót og jafnvel fjandskap og þvælast af þráhyggju sinni endalaust fyrir framkvæmdum.  

Allar aðgerðir rauðgrænu ríkisstjórnarinnar á Íslandi hingað til hafa dregið úr hagvexti og þar með aukið atvinnuleysið.  Að samþykkja í fljótræði stórgallaðan Icesave samning, sem gerður var undir handarjaðri formanns vinstri-grænna, var glapræði.  Stefna og gjörðir VG leiða þannig ekki til annars en fátæktar á fleiri heimilum landsmanna, skuldasöfnunar einstaklinga og hins opinbera, viðvarandi fjöldaatvinnuleysis og yfirþyrmandi ríkisrekstrar.  

Ríkisstjórnin fellur á hverju prófinu á fætur öðru.  Hún stendur sig ver en dæmi eru um í þessari alþjóðlegu efnahagslægð gagnvart AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum), eins og tossum er tamt.   Því fer fjarri, að Rauðka (ríkisstjórn vinstri flokkanna) ráði við viðfangsefni sín, hún hefur enga gjaldgenga framtíðarsýn og verður af þessum sökum öllum að víkja.  

Kostnaður ríkissjóðs vegna höktandi efnahagskerfis og tekjutap þjóðfélagsins í beinhörðum gjaldeyri vegna óhæfrar ríkisstjórnar, sem lætur öll tækifæri úr greipum sér ganga og "situr eftir með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða um svipuð fyrirbrigði, gæti numið ISK 20 milljörðum á mánuði eða tæpum 200 þúsund kr á mánuði á hverja fjölskyldu í landinu að meðaltali.    

Noregur kann að hafa efni á vinstri stjórn, en þegar er fullreynt, að Ísland hefur ekki efni á vinstri stjórn.  Norðmenn vita gizka vel, að þeir geta ekki hagnazt á inngöngu í ESB.  Það er vegna þess, hversu þjóðartekjur á mann eru háar í Noregi.  Þeir munu þurfa að greiða þangað miklu meira en þeir fá til baka.  Þeir vilja heldur ekki hætta á að missa forræði yfir sínum gríðarlegu auðlindum.  Í Noregi rista hugsjónir sameinaðrar Evrópu afar grunnt.  Reynt var að sameina Evrópu fyrir 7 áratugum, og Norðmenn liðu fyrir þá tilraun.  Þeir eru enn tortryggnir í garð stórveldabrölts í Evrópu, sem kann að brydda á, ef Lissabon samningurinn verður samþykktur, því að þá verður leiðin vörðuð að sambandsríki Evrópu, sem beitt gæti sameiginlegum herstyrk um heim allan.  

EvranUm miðjan september 2009 var birt niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi Íslendinga til inngöngu í ESB.  Í ljós kom, að mikil fjölgun hefur orðið í röðum andstæðinga aðildar frá því, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, afhenti snubbótta umsókn Íslands í utanríkisráðuneyti Svía.  Nú eru um 60 % landsmanna andvígir aðild.  Einhver atburður hlýtur að hafa ráðið sinnaskiptum svo margra.  Tilgáta höfundar er, að sá atburður sé undirskrift "Icesave" hörmungarinnar.  Með réttu tengir fólk  skyndilega og algerlega ótímabæra undirskrift þeirrar nauðungar við flausturslegan og þjösnalegan málatilbúnað ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi til að hægt yrði að senda vanburða umsókn um aðildarviðræður um miðjan júlí 2009. 

Í þessu máli sveik flokksforysta vinstri-grænna kjósendur sína herfilega og gerði þingflokk sinn að hópi ómerkinga með fáeinum undantekningum þó. Vinstri-grænir héldu með þjóð sína inn á braut, sem er ósamrýmanleg þeim hugsjónum þjóðfrelsis, sem þeim er svo tamt að hafa á vörunum af minna tilefni en að óska samninga um afsal fullveldis landsins til verðandi stórveldis.  

Öll þau axarsköpt, sem forysta og þingflokkur vinstri-grænna hefur framið frá því, að flokkurinn skipaði í ráðherraembætti snemma árs 2009, hljóta að hafa alvarleg áhrif á tilvist Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, og hún mun ekki bera sitt barr eftir þessa stjórnarsetu.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband