Tímasóun

Ríkisstjórnin sóar tímanum til einskis.  Hún er eins og fjörulús á tjöruspæni og kemst hvorki lönd né strönd.  Ríkisstjórnin er forystulaus, og hún veit ekki, hvað hún vill.  Hið fáa, sem hún kemur í verk, er misheppnað.  Allt gengur á hraða dýrsins, sem myndin er af hér að neðan.

SnigillEkki vantaði grobbið í fyrrverandi iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, sem kallaði sig fyrsta olíumálaráðherra Íslands um þær mundir, er tilraunaboranir voru boðnar út á Drekasvæðinu.  Útboð hans var samt andvana fætt, eins og nú er komið í ljós, vegna þess að skattagríð hans tók út yfir öll þjófamörk.  Í stað þess að velgja norsku ríkisstjórninni undir uggum með sanngjörnum skattaskilmálum, sem drægju að sér alvöru fyrirtæki til að takast á við erfitt verkefni, þá yfirtrompaði hann skattaáþján norsku ríkisstjórnarinnar, svo að nú fæst enginn til að taka að sér verkefnið.  Ríkisstjórnin er skipuð amlóðum og klaufum. 

Flestar ríkisstjórnir hafa beitt mótvægisaðgerðum gegn kreppunni og lækkað skatta til að örva hagvöxt.  Íslenzka ríkisstjórnin gerir allt með öfugum klónum og hækkar skattana.  Hún er með allt niður um sig, enda eru skattahækkanir hið eina, sem hún kemur sér saman um að framkvæma.  Þessar aðgerðir og hið yfirgengilega aðgerðaleysi á öllum öðrum sviðum hefur leitt til þess, að Íslendingar ná sér seinna upp úr efnahagskreppunni en aðrar þjóðir í stað þess að verða enn sneggri en aðrir til að ná sér á strik.  Ráðleysi Stjórnarráðsins linnir ekki fyrr en þessari ríkisstjórn verður varpað á öskuhauga sögunnar, og það verður að eiga sér stað sem fyrst.  Þjóðin verður að hrista óværuna af sér.

Dráttarklárinn þarf sprautu Það, sem gera þarf, er að liðka fyrir samningum við alla, sem hingað vilja koma með beinar fjárfestingar í fyrirtækjum.  Það þarf líka að ganga endanlega frá samningum um eignarhald lánadrottna föllnu bankanna, án ríkisstofnunar undir fjármálaráðuneyti, svo að þeir fari að smyrja hjól atvinnulífsins.  Það á að afnema heimild til vísitölutenginga frá næstu áramótum til að létta byrðar skuldugra og afnema gjaldeyrishöftin frá sama tíma, sem gera meira ógagn en gagn.  Frá þeim tíma ætti að breyta lögum um Seðlabanka þannig, að markmið hans verði hámörkun hagvaxtar, en ekki 2,5 % verðbólga í föllnu hagkerfi. 

Miklar erlendar fjárfestingar og mikil útflutningsverðmæti munu reisa íslenzku krónuna úr öskustó, þrátt fyrir ofangreint og vaxtalækkanir í kjölfarið.   Yfir þrettán þúsund launþegar munu þá fljótlega tínast af atvinnuleysisskrá og taka að greiða til samfélagsins.  Það á að lækka á þeim skattana, svo að þeir stækki þjóðfélagskökuna enn meira og tekjur hins opinbera vaxi að sama skapi. 

Davíð Oddsson, ritstjóriÞrátt fyrir fullkomna óstjórn vinstri flokkanna í Stjórnarráði Íslands, steinþegja fjölmiðlarnir um hneykslið.  Þeir eru þý óhæfrar ríkisstjórnar.  Það var ekki fyrr en ritstjóraskipti urðu á Morgunblaðinu, að þeir vöknuðu af Þyrnirósar svefni sinnar makráðugu vinstri slagsíðu.  Sefasýkisleg viðbrögð "auðjöfra", blaðamanna og ýmissa annarra púkablístra eru með ólíkindum og fyrir neðan allar hellur.  Árvakur berst í bökkum og meirihluti stjórnar hans söðlar um.  Óánægðir áskrifendur geta sagt upp áskrift, en það geta hvorki áheyrendur RÚV né móttakendur Fréttablaðsins. 

Það, sem í húfi er hér, er lýðræðisleg umræða á Íslandi, hvorki meira né minna.  Nú mun fást betra jafnvægi í flóru ritstjórna fjölmiðlanna, sem var orðin leiðinlega dauf og einsleit.  Nú verður brugðið bröndum, og sá vígfimasti mun sigra. 

Það er ástæða til að árna hinum nýju ritstjórum Morgunblaðsins allra heilla og að óska Morgunblaðinu góðs gengis.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband