Á galeiðu vinstri stjórnar

Nú hefur endurskoðuð þjóðhagsspá verið birt.  Hún er miklu dekkri en væri, ef hér sætu stjórnarherrar með skynsamlegu viti.  Núverandi stjórnvöld gera ekkert af skynsamlegu viti, heldur er anað áfram út á foraðið og sokkið dýpra og dýpra í nafni félagshyggju, sem í reynd er óskynsamleg, ófélagsleg, ólýðræðisleg og óþjóðleg.

Með forsendum og gjörðum vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er í téðri spá gert ráð fyrir áframhaldandi samdrætti landsframleiðslu og auknu atvinnuleysi árið 2010.  Hvort tveggja er óviðunandi, en bein afleiðing stjórnarstefnunnar, sem er að hækka skattheimtu á fyrirtæki og einstaklinga í stað þess að auka tekjur hins opinbera með því að örva fyrirtæki til fjárfestinga með vaxtalækkunum og með því að hvetja til beinna fjárfestinga erlendra fyrirtækja í atvinnulífi landsmanna, sem skipti hundruðum milljarða króna á ári næstu árin, því að á slíku er völ.   Ríkisstjórn vinstri manna er fjandsamleg athafnalífinu og fjandsamleg þeim, sem spjara sig og eru tilbúnir til að leggja harðar að sér og greiða guði, það sem guðs er, og keisaranum, það sem keisarans er.

Sértrúarsöfnuður sótsvarts afturhalds í atvinnumálum og í ríkisfjármálum hangir við stjórnvöl landsins án þess að hafa nokkra burði til að stjórna.  Ríkisstjórnin klúðraði gjörsamlega málstað Íslands gagnvart ríkisstjórnum Stóra-Bretlands og Hollands varðandi meðferð innistæðna í útibúum Landsbankans í þessum löndum.  Undir handarjaðri vinstri-græningjans á stóli fjármálaráðherra var haldið verr á málstað Íslands gagnvart erlendu ríkisvaldi en nokkur dæmi eru til um í Íslandssögunni.  Alþingi neitaði að veita ómyndinni blessun sína, og nú virðast fulltrúar ríkisvalds ofangreindra þjóða hafa hafnað skilmálum Alþingis.  Þar með er vinstri stjórnin komin á byrjunarreit öðru sinni með hið alræmda "Icesave" vandamál.  Lausn þess hefur reynzt vera henni gjörsamlega um megn, og nú hefur einn ráðherra vinstri grænna, heilbrigðisráðherrann, Ögmundur Jónasson, hrokkið úr skaptinu.  Hann neitar að láta beita sér lengur fyrir Samfylkingar vagninn, sem er á leið til Brüssel.  Samfylkingardrógin ætlar inn í ESB, hvað sem tautar og raular.  Allt verður undan að láta. 

Þetta mál verður vafalítið banabiti ríkisstjórnarinnar.  Væntanlega spyr nú margur búsáhalda byltingarseggur og -drós, hvað þau hafi í raun haft upp úr krafsinu.  Svarið er sviðið land undan vinstri stjórn, sem hefur lagt hverja fátæktargildruna á fætur annarri fyrir landslýð.  Ekki hefur komið ein einasta tillaga frá ríkisstjórn, sem örvar fólk til að auka við löglegar tekjur sínar.  Allt stefnir í öfuga átt, og efnahagskerfið norður og niður.  

 

Afstaða til IcesaveKostnaður hvers skattgreiðanda landsins vegna þessa endemis samnings fjármálaráðherra hleypur á bilinu 1,5-4,5 milljónir kr.  Það er ljóst, að niðurlæging ríkisvaldsins vegna þessa Icesave máls er svo svakaleg, að orðið hefði venjulegri ríkisstjórn að aldurtila strax í sumar.  Þessi ríkisstjórn kann hins vegar ekki að skammast sín, og það er fyrst nú eftir ritstjóraskipti á Morgunblaðinu 24. september 2009, að einn fjölmiðill í landinu tekur til varna fyrir skattgreiðendur í þessu landi að nokkrum ágætum vefmiðlum undanskildum.  

Ráðherra VG og skattgreiðendurÁ sama tíma og vinstri grænir kosta þjóðina hundruði milljarða króna með fljótfærni, úthaldsleysi og þekkingarleysi á lögfræði og sálfræði alþjóðlegra samninga, þá hlunnfara þeir þjóðina um aðra hundruði milljarða króna með því að þvælast fyrir og tefja ákvörðunartökur, sem leitt gætu til stærstu erlendu fjárfestinganna, sem atvinnulíf landsmanna á völ á um þessar mundir.  Hér er um örlítinn hóp ofstækisfullra sérvitringa að ræða, sem standa í vegi sóknar til bættra lífskjara, sem langflestir landsmenn styðja og munu ljá atkvæði sitt í næstu kosningum.  Hér er um að ræða sama ofstopaliðið og kveikti elda framan Alþingis í vetur.  Þetta lið stundar nú hernað sinn gegn þjóðinni úr Stjórnarráðinu. Nú þarf hinn þögli meirihluti að grípa til sinna ráða við fyrsta lýðræðislega tækifæri, sem gefst. 

Á Alþingi þarf að leggja fram vantraust á umhverfismálaráðherra.  Hún hefur brotið stjórnsýslulög með ákvarðanafælni sinni, sem leiddi til dráttar á úrskurði um kæru Landverndar um hálft ár.  Þá sneri hún við niðurstöðu Skipulagsstofnunar ríkisins og lýsti þar með vantrausti á fagleg vinnubrögð þar á bæ.  Þingeyingar telja, að úrskurður Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þáverandi umhverfisráðherra, hafi tafið undirbúning virkjana og álvers við Húsavík um a.m.k. eitt ár.  Þessi geðþóttaákvörðun vinstri græningjans mun ekki hafa minni tafir í för með sér fyrir iðnþróun Suðurnesja, fái hún að standa.  Alþingi getur tekið í taumana og komið í veg fyrir hundraða milljarða króna tjón í atvinnumálum landsmanna, eins og Alþingi bjargaði skattborgurum framtíðarinnar undan miklum byrðum vegna Icesave ánauðar í erfiðu árferði. 

Þessi hernaður vinstri grænna gegn afkomu almennings er ekkert grín.  Hann er þjóðhættulegur.  Vinstri stjórnir í landinu hafa aldrei getað neitt annað en aukið skattheimtu og skuldir landsins.  Þegar kemur að sparnaði og/eða uppbyggingu atvinnulífs, m.ö.o. viðreisn efnahagskerfisins, gera þær illt verra.  Ríkisstjórnin er ekki á vetur setjandi, enda mundi slíkt leiða til þjóðargjaldþrots og fullkominnar ringulreiðar strax á næsta ári. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband