Í leikhúsi fáránleikans

Með fyrsta og vonandi síðasta fjárlagafrumvarpi sínu hefur ríkisstjórn vinstri flokkanna opinberað eðli sitt, sem betur verður þó lýst sem óeðli.  Kólfunum var kastað, þegar "servéttuhugmynd" Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, um nýja, mjög íþyngjandi og stórhættulega skattlagningu á raforku, var lögð fram.  Téður Indriði kom og við sögu, þegar Samfylkingin fór í sumar í hrossakaup við  fjármálaráðherra og formann vinstri grænna um að fara á hundavaði yfir ágreiningsatriði við Breta og Hollendinga, kokgleypa allt frá þeim og skrifa síðan undir ósómann að óathuguðu máli að næturþeli. 

Fara átti með ófögnuðinn sem mannsmorð og Alþingi að samþykkja blindandi samkvæmt þessum hrossakaupum til að friðþægja fyrir syndir fallins útblásins íslenzks bankakerfis.   Tengsl voru á milli þessara tveggja gjörninga, þ.e. stórskaðlegs fjárlagafrumvarps, landráðagjörnings um "Icesave" og hins þriðja, umsóknar um viðræður um fullveldisafsal til Evrópisambandsins, ESB, og eru þessi hrossakaup stjórnarflokkanna með því ómerkilegasta, sem sézt hefur í íslenzkum stjórnmálum, enda ómenguð vinstri afurð. 

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks gerðu bandalag við andófsmenn í þingliði VG og forðuðu landsmönnum frá Móðuharðindum af mannavöldum að 7 árum liðnum, þ.e. af völdum hinnar "tæru vinstri stjórnar".  Nú hafa viðsemjendur í Lundúnum og den Haag hafnað skilmálum Alþingis, og þar með er ríkisábyrgðin fallin úr gildi.  Hvers vegna er þessum viðsemjendum ekki gerð opinberlega grein fyrir því ?  Það er vegna ákafrar löngunar Samfylkingar til að drösla Íslendingum inn í ESB.  Það mun hins vegar verða henni erfiðari róður en forkólfa þar rennir grun í eða hún ræður við. 

Undirlægjur ríkisstjórnarinnar tóku þá upp á því í algeru heimildarleysi frá Alþingi að taka upp samninga að nýju.  Fyrrverandi heilbrigðisráðherra felldi sig ekki við þessi vinnubrögð og var rekinn úr ríkisstjórn.  Rökrétt svar Alþingis við lögleysu af þessu tagi er að setja ríkisstjórnina af með vantrausti. 

Ríkisstjórn þessi gerir sig seka um hvert asnasparkið á fætur öðru, stórskaðar orðstír Íslendinga í augum erlendra fjárfesta í iðnaðinum, bakar þjóðinni þar með óumræðilegt fjárhagslegt tjón og hörmungar með því að keyra þjóðfélagið allt niður á fátæktarstig alþýðulýðveldis í anda lærifeðrannna við Potzdamer Platz forðum. 

Annar hluti téðs hildarleiks í þremur þáttum var sem sagt að troða umsókn um samningaviðræður við ESB ofan í kokið á vinstri grænum, þar sem hún stendur föst þar til samningur kemur frá Brüssel til Alþingis.  Þá ætlar VG að berjast gegn eiginn samningi.  Nú hafa Íslendingar hins vegar stigið um borð í lestina til Brüssel (Evrópuhraðlestina), og hana verður æ erfiðara að stöðva á leiðinni.  Þetta hljóta vinstri grænir að skilja, þó að skyni skroppnir séu, og þess vegna hljóta þeir að hafa verið ginntir til hrossakaupa með einhverju ómótstæðilegu fyrir þeirra stjórnmálalega smekk. 

 

Á uppleiðHvað fékk VG þá út úr hrossakaupum þessum ?  Fullskapað verður þríhrossið með fjárlagafrumvarpinu, þar sem sameignarsinnar VG fengu leyfi Samfylkingar til að setja upp tilraunastofu í leikhúsi fáránleikans.  Þar ætla sameignarsinnarnir í fyrsta lagi að finna út, hversu miklar skattbyrðar borgarastéttin íslenzka  þolir áður en hún hrynur. 

Í öðru lagi ætla þeir að komast að, hversu há "auðlindarenta" leynist í stóriðjufyrirtækjunum.  Fyrr nefnda uppátækinu má snúa við, þegar ríkisstjórnin hefur verið felld eða hún verður sjálfdauð, en hið síðar nefnda er grafalvarleg atlaga að framtíð iðnvæðingar á Íslandi og þar með að sjálfstæði landsins, því að nýjar og stórar erlendar fjárfestingar á Íslandi eru hið eina, sem bjargað getur fjárhag landsins úr núverandi öngþveiti.  Það ræðst af framvindunni, hvort afleiðingar þessa frumhlaups sameignarsinna verða afturkræfar eður ei. 

Allar samsteypurnar þrjár, sem starfrækja álver á Íslandi, eru svo gott sem nýbúnar að gera raforkusamninga áratugi fram í tímann við íslenzk orkuvinnslufyrirtæki, þar af eitt, sem að öllu leyti er í eigu ríkisins.  Hvers konar undirmáls siðferði býr eiginlega að baki slíkri hegðun fulltrúa hins sama ríkisvalds að boða að leggja nokkrum mánuðum seinna þungar álögur ofan á umsamið orkuverð ?  Það eitt að kynna slíkar hugmyndir í frumvarpi að fjárlögum stórskaðar trúverðugleika Íslendinga sem viðsemjanda og veldur orkufyrirtækjunum stórtjóni, því að hér eftir kann að verða að hafa gott borð fyrir báru sem áhættuálag við ákvörðun orkuverðs til að geta mætt hugsanlegum geðþóttaákvörðunum íslenzkra stjórnvalda í framtíðinni.  Fjármálaráðuneytið hefur með þessu stórskaðað hagsmuni Íslands.  

Ísland undir ráðstjórnÍslendingar sjá nú, hverju það jafngildir, að kjósa yfir sig stjórnmálaflokka, sem eiga rætur að rekja til fræðikenninga Friedrich Engels, iðnrekanda, og Karls Marx, hagfræðings og ómaga á téðum iðnrekanda.  Þjóðin er stegld upp á krepputré vinstri stjórnarinnar og má sig þaðan hvergi hræra, því að bjargirnar, sem hún þó hafði á formi hagkvæmrar og sjálfbærrar orkunýtingar, eru henni nú bannaðar. 

Girt var fyrir þróun orkunýtingar með ruddalegri frávísun á Norðurlandi og þvælzt fyrir með eyðileggjandi tafaleikjum á Suð-Vesturlandi.  Alvarlegast er, að grundvellinum er kippt undan núverandi rekstri með hótun um fjárhagslega tortímingu í frumvarpi til fjárlaga.  Tortímingargríðin er svo yfirþyrmandi, að iðnaðarráðherra er með frumvarpinu gerð ómerk orða sinna með einu pennastriki. 

Af sjálfu leiðir, að fella verður tjöldin strax í þessu leikhúsi fáránleikans og setja handónýta, rándýra og þjóðhættulega ríkisstjórn af hið snarasta og Alþingi að lýsa yfir með þingsályktun, að Ísland muni ekki ganga harðar fram við skattlagningu á fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni en kveðið verði á um með samþykktum á hinu evrópska efnahagssvæði, EES.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband