10.10.2009 | 13:21
Af áhættum og ávinningum
Ágætur höfundur að nafni Sigfried Hugemann ritaði athygliverða grein í Morgunblaðið mánudaginn 5. október 2009, "Ísland og ESB - áhætta og ávinningur". Téður höfundur, Herr Hugemann, kann skil á örlagaþáttum Íslandssögunnar og tengir þá við nútímasöguna. Áhugavert er sjónarhorn hans um, að öll mikilvæg viðskiptamál þurfi að setja á vogarskálar áhættu annars vegar og ávinnings hins vegar. Betra væri, að slík aðferðafræði væri ríkari í fari Íslendinga en raun ber vitni um allt frá viðskiptajöfrum útrásar til hinnar aumkvunarverðu ríkisstjórnar, sem enn hangir við völd.
Þessi ábending höfundarins Hugemanns er þess vegna tímabær, og téðri aðferðafræði er unnt að beita á flestum sviðum mannlífsins. Herr Hugemann notar þessa reislu á spurninguna um það, hvort Íslendingar eigi að ganga ESB (Evrópusambandinu) á hönd. Niðurstaða hans er, að innganga þar mundi jafngilda tvöföldu tapi þjóðarinnar, þ.e.a.s. áhættan er fólgin í lækkun þjóðartekna, eins og hann útskýrir skilmerkilega með minna auðlindaaðgengi Íslendinga vegna ágangs ESB, og ávinningurinn er neikvæður, þ.e. tap blasir við, því að yfirlýst markmið ESB er flutningur fjármagns frá ríkari þjóðum til þeirra fátækari, frá vestri til austurs og frá norðri til suðurs. Til lengdar litið eru góðar horfur á, þjóðartekjur á mann verði jafnan hærri hérlendis en meðaltalinu nemur í ESB, þó að óbjörgulega horfi nú um stundir um stjórn þjóðmálanna, enda óvenjulegar mannvitsbrekkur við völd.
Það eru ýmsar ástæður fyrir því, að Ísland muni þurfa að greiða meira til ESB en landið fær þaðan. Ein er, að meðalaldur er mun hærri í ESB og hann hækkar örar en á Íslandi. Lífeyrissjóðakerfi flestra ESB-landanna er ósjálfbært, halli á ríkisbúskapi og ríkisskuldir víða miklar, þó yfirleitt minni en hér. Við höfum á hinn bóginn yfir að ráða öflugri útflutningsvél, sem með aukinni auðlindanýtingu getur malað þjóðinni svo mikið gull, að dugi út úr kreppu og skuldasúpu og í lífskjaraforystu á ný.
Ef litið er til evrulanda, þar sem verðbólga er yfir meðallagi evrusvæðis, má draga þá ályktun, að útflutningsatvinnuvegir væru hér í lamasessi með evru. Þá væri e.t.v. enn stórfelldur halli á viðskiptum við útlönd og atvinnuleysi enn geigvænlegra en raunin er á um nú og hefði varað lengur. Það þarf þess vegna vandaða áhættugreiningu til að reisa á ígrundaða stefnumörkun í gjaldeyrismálum. Sú áhættugreining hefur ekki farið fram, heldur er böðlazt áfram til Brüssel í von um evru, sem er borin von.
Rauðka (vinstri stjórnin) ber ábyrgð á því, að einhver alóheppilegasti tími, sem hugsazt gat, var valinn fyrir umsókn um aðildarviðræður. Hollenzka og brezka ríkisstjórnin nota umsóknina til aukins þrýstings á landsmenn. Af þessum sökum mun umsóknarferlið dragast á langinn, sem er slæmt fyrir stjórnmálaástandið á Íslandi og þungbært íslenzka ríkissjóðinum. Það er óverjandi á tímum alvarlegs samdráttar að verja þá milljörðum króna í umsóknarferli, sem gefur ekkert í aðra hönd. Aðildarsamningurinn verður vafalítið felldur og má þakka það framkomu ESB í hinu illræmda "Icesave" máli.
Embættismannakerfið hafði fangið fullt af verkefnum vegna kreppunnar. Þá lagði ríkisstjórnin fyrir það að fara í einhliða spurningaleik með þúsundum spurninga frá ESB. Íslendingar eru vanbúnir að berjast á mörgum vígstöðvum í einu. Slíkt hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra.
Segja má, að ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna geri ekkert af viti. Eitt versta einkenni hennar er atvinnufjandsemi. Hún virðist hafa ímigust á öllu, sem leitt getur til atvinnusköpunar. Aðgerðir hennar tortíma atvinnu, hún er atvinnutortímandi. Þannig magnar ríkisstjórnin kreppuna. Atvinnulausir eru nú rúmlega 13 þúsund talsins. Skattahækkanir, önnur asnaspörk og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar munu því miður kippa fótunum undan mörgum enn, ungum sem öldnum.
Dæmi um þetta er fyrirhuguð skattlagning á orku. Fjármálaráðherra breimar um, að stóriðjan eigi að leggja sitt að mörkum. Enginn þrætir fyrir það. Spurningin er, hvernig hún geti lagt sem mest að mörkum til lengdar ? Engum vafa er undirorpið, að það gera stóriðjufyrirtækin með stórvirkustum hætti með nýjum fjárfestingum. Ef tilkostnaður fyrirtækjanna verður aukinn með skattlagningu á orku og losun gróðurhúsalofttegunda, þá minnkar að sama skapi tekjuskatturinn af þessum fyrirtækjum. Þessi skattlagning mun eyðileggja allan áhuga á frekari fjárfestingum á Íslandi. Álfyrirtækin vildu öll fjárfesta nú í kjölfar Hrunsins, og hefðu þessar fjárfestingar numið hundruðum milljarða, þegar virkjanafjárfestingar álverum tengdar og studdar eru með taldar. Vægt áætlað mundu þessar fjárfestingar fækka um 4000 manns á atvinnuleysisskrá. Slíkt mundi veita ríkissjóði um 8 milljarða króna í nýjar skatttekjur og spara ríkissjóði aðra 8 milljarða kr í útgjöld vegna atvinnuleysistryggingasjóðs.
Alls nema þessir 16 milljarðar sömu upphæð og fjármálaráðuneytið hefur boðað, að það hyggist innheimta með nýjum orku-og umhverfissköttum. Mannvitsbrekkurnar í fjármálaráðuneytinu sjá auðvitað strax, að mun viturlegra er að hætta við þessa óheillavænlegu og óvæntu skattheimtu, en liðka þess í stað fyrir nýjum, erlendum fjárfestingum. Eftir stendur, að orðstír Íslendinga sem traustir viðsemjendur, sem standa við gerða samninga undanbragðalaust, er rokinn út í veður vind. Var það markmið félaganna Indriða, aðstoðarmanns, og Steingríms, fjármálaráðherra ? Sé svo, verður að telja gjörninginn vera minna en hænufet frá landráðum.
Rauðka er atvinnufjandsamlegasta ríkisstjórn, sem nokkurn tíma hefur setið í landinu. Hún sveik "Stöðugleikasáttmálann", og hún svíkst aftan að viðsemjendum sínum. Hún er með öðrum orðum siðlaus. Allar hennar gjörðir hafa aukið við vanda landsins og/eða leitt til fjölgunar á atvinnuleysisskrá. Rauðka virðist stefna að því að setja 20 þúsund manns á atvinnuleysisskrá til langframa, því að ekkert bólar á viðreisn athafnalífsins. Vinstri flokkar hvarvetna vilja hafa sem flesta á bótum og telja sitt fylgi koma þaðan. Með það getur brugðið til beggja vona á Íslandi. Í hvert sinn, sem fótur er settur fyrir nýjar framkvæmdir, er verið að fjölga á atvinnuleysisskránni.
Umhverfisráðherra gerir það ekki endasleppt. Hún ætlar að fara stefnulaus og tómhent til Kaupmannahafnar án þess að gera nokkrar kröfur um undanþágur til handa Íslandi. Þetta er í anda vinstri grænna, sem er sú að vinna atvinnulífinu það mein, sem þeir mega og að eyðileggja alla atvinnusköpun, sem í augsýn er. Þessu mátti búast við af umhverfisráðherranum, því að í Fréttablaðinu 10. október 2009 veitir hún innsýn í hugarheim sinn: "Ég er ekki í umhverfisráðuneytinu til að draga taum einstakra fyrirtækja, sjónarmiða eða hagsmunaaðila. Ég er í umhverfisráðuneytinu til að tala máli komandi kynslóða og umhverfisins - heildarhagsmunanna."
Þessi orð vitna um fáheyrt yfirlæti. Næst má búast við frá umhverfisráðherranum, að hennar ríki sé ekki af þessum heimi. Enginn veit, hvaða hagsmuni komandi kynslóðir munu setja í öndvegi. Hins vegar er áreiðanlegt, að þær munu njóta þess, að forfeðrum þeirra formæðrum vegni vel, en að sama skapi gjalda þess, ef þeim vegnar illa. Þá eru allar virkjana-og stóriðjuframkvæmdir afturkræfar samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum, svo að tómt mál er af ráðherranum að fimbulfamba um umhverfistjón þeirra vegna.
Allt tal og gerðir þessa græningja vitnar um fullkomna firringu. Hún telur sig ekki vera í umhverfisráðuneytinu til að gæta hagsmuna núlifandi kynslóða á Íslandi, heldur hagsmuna, sem hún hefur ákveðið, að komandi kynslóðir skuli setja á oddinn. Er hægt að ganga lengra í vitleysunni ?
Málið er, að viðmiðunarár Kyoto og væntanlega Kaupmannahafnar, 1990, er okkur Íslendingum óhagfellt í þessu tilliti, því að þá var hitaveituvæðingunni að mestu lokið. Ennfremur hefur mikil iðnvæðing átt sér stað síðan og bílaflotinn stækkað gríðarlega. Ráðherrann er þess vegna að segja, að hún ætli ekki að lyfta litla fingri til að bjarga störfum á Íslandi. Aðgerðarleysi ráðherrans mun þýða lakari samkeppnistöðu íslenzkra fyrirtækja en ella og lífskjörin munu þá enn versna hérlendis.
Aldrei nokkurn tíma hafa Íslendingar augum litið jafndáðlaus stjórnvöld og nú. Segja má, að ráðsmennskan gæti vart orðið lakari, þótt hún flyttist til Brüssel. Dýpra verður ekki sokkið. Valdhafarnir eru í vinnu hjá okkur skattgreiðendum, og þessir valdhafar vinna allt með öfugum klónum. Þeim eru reyndar svo mislagðar hendur, að engu er líkara en þeir séu í vinnu hjá samkeppniaðilum okkar og andstæðingum í milliríkjadeilum. Það voru söguleg mistök að ráða þetta fólk, sem ekki ber við að vinna fyrir kaupinu sínu. Hefja verður borgaraleg öfl til vegs að nýju, sem vinna í þágu íslenzkra skattborgara nútímans og með atvinnulífinu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.