Tvær stefnur, gagnólíkar

Nú fjarar undan verklausri vinstri stjórn og skyldi engan undra.  Hún er ófær um að leiða nokkurt mál til lykta.  Eitt nýjasta dæmið er Istanbúl-för fjármálaráðherra.  Hann skóp væntingar við brottför þangað varðandi lánasamninga, t.d. við Rússa, og afgreiðslu AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) á lánum til Íslands.  Þrátt fyrir um 20 lyftufundi ráðherrans, sem engan sköðuðu þó, kom hann tómhentur heim.  Í þessari 42. viku ársins 2009 hefur á hverjum degi komið fullyrðing frá einhverjum ráðherranum um, að lyktir mundu fást innan sólarhrings.  Ekkert slíkt hefur gengið eftir.  Þetta sýnir, að ráðherrarnir eru ráðvilltir og vita ekki sitt rjúkandi ráð.  Dómgreindin er ekki meiri en guð gaf.  

Hugmyndaauðgi er gulls ígildiSamfylkingin og Vinstri hreyfingin-grænt framboð hafa nú setið við stjórnvöl þjóðarskútunnar í tæplega 9 mánuði.  Jafnhraksmánarlegur ferill ríkisstjórna finnst ekki frá því að embætti ráðherra var flutt til Íslands árið 1904 og jafnvel, þó að farið sé aftur til danska tímans á Íslandi.    Þess vegna er það ómetanlegt fyrir kjósendur, að hin borgaralegu öfl á Alþingi hafa nú bæði kynnt stefnur sínar, sem mynda skýran valkost við innantómt orðagjálfur ríkisstjórnarinnar og fjárlagafrumvarp hennar, sem er versta hrákasmíð í líki slíks frumvarps, sem sézt hefur frá því að Alþingi fékk fjárveitingarvald í hendur frá Dönum.  Það er áreiðanlega einnig hið skaðlegasta sinnar tegundar fyrir atvinnulíf landsins frá endurreisn Alþingis 1845.  Aldrei aftur vinstri stjórn.

Framsóknarflokkurinn hefur leitað til Noregs um lánafyrirgreiðslu til handa íslenzka ríkinu við lítilmótlegar undirtektir forsætisráðherra Íslands.   Höfundi þessarar vefgreinar er kunnugt um áhuga norskra iðnjöfra á fjárfestingum á Íslandi.  Almenningur í Noregi horfir nú upp á hrikalegt tap norska olíusjóðsins á alls kyns undarlegum fjárfestingum um allan heim.  Norðmenn telja  fjárfestingarfé norska olíusjóðsins hvergi vera betur varið en á Íslandi.  Norðmenn telja enga erlenda þjóð vera traustari skuldunauta en Íslendinga.  Reyndar vita Íslendingar, sem búið hafa í Noregi, að óljóst er, hvort Norðmenn líti alfarið á Íslendinga sem útlendinga.  Norðmenn leiddu Íslendinga inn í nútímann á 19. öld með miklum fjárfestingum hérlendis þá.  Við eigum hiklaust að taka höndum saman að nýju við bræður okkar og systur í Noregi um viðreisn efnahags Íslands. 

Dominique Strauss-KahnÁ borgaralega þenkjandi fólk á Íslandi eru teknar að falla tvær grímur varðandi samstarfið við AGS.  Bretar og Hollendingar eru tiltölulega valdamiklir innan hans og hafa beizlað ESB fyrir sinn vagn.  Gegn þessu stendur stjórn AGS lömuð, af því að samband Íslands við Bandaríki Norður-Ameríku, BNA, hefur ekki verið ræktað eftir brottför varnarliðsins.  Ríkisstjórn Íslands flaðrar upp um Brüssel valdið og rekur undirmáls utanríkisstefnu, sem setur ekki íslenzka hagsmuni í öndvegi, nema þeir samræmist hagsmunum ESB.  Nú er komið að ögurstundu í þessu máli, og hin verklausa vinstri stjórn er að lyppast niður.  Núverandi þrátefli í samskiptum Íslands og AGS hefur staðið of lengi.  Noregsferð Framsóknarmanna var tilraun til að rjúfa þennan vítahring, sem ýmislegt bendir til, að unnt sé að gera.  Borgaraleg öfl munu leggja á það áherzlu, þegar þau komast til valda, ásamt eftirfarandi:

  • að beita öllu afli ríkisvaldsins til að koma öllum vinnufúsum höndum og heilum á Íslandi til arðsamra verka
  • að endurvinna traust erlendra fjárfesta og liðka fyrir samningum um fjárfestingar í iðnaði og þar með að liðka fyrir lánveitingum til virkjana og línulagna
  • að afturkalla alla viðbótar skattheimtu vinstri stjórna Jóhönnu S.
  • að heimta skatt af inngreiðslum í lífeyrissjóði og breyta lögum um skipan í stjórnir lífeyrissjóðanna, en ávöxtun þeirra flestra er óviðunandi lítil
  • að þjóðin greiði atkvæði um það, t.d. í næstu kosningum, hvort sem það verða þingkosningar eða sveitarstjórnarkosningar, hvort hún vill henda milljörðum kr og miklum tíma embættismanna í umsóknarferli ESB nú, fresta því eða hætta við
  • að breyta lögum um Seðlabanka þannig, að markmið hans verði hámörkun hagvaxtar
  • að afnema gjaldeyrishöft hið fyrsta  
  • niðurskurður ríkisstjórnarinnar á of háum útgjöldum ríkissjóðs er í mörgum tilvikum hálfkák eitt og aðeins tilflutningur útgjalda hjá ríkissjóði.  Miklu nær er að endurskipuleggja rekstrarformið á starfsemi, sem hentar til útboðs, og leyfa einkaframtakinu að spreyta sig með hlutafélagarekstri eða starfsemi sjálfseignarstofnana, eins og við á
  • hleypa lífi í vegagerð og hafnargerð að nýju með einkafjármögnun, sem ýmist yrði greidd úr ríkissjóði á umsömdu árabili eða með notkunargjaldi
  • að afnema verðtryggingu, þó ekki afturvirkt, og veita kost á skuldbreytingu gengistryggðra lána yfir í óverðtryggð lán
  • með ofangreindu og öðru að leggja drögin að styrkingu krónunnar og móta langtímastefnu í gjaldmiðilsmálum, sem auki stöðugleika efnahagslífsins   

Það eru litlar líkur á því, að þing og þjóð muni samþykkja væntanlegan samning við ESB, komist hann einhvern tíma á koppinn.  Ein af skýringunum á því er sjávarútvegsstefna sambandsins, en einnig breytt stjórnkerfi þess með Lissabon-sáttmálanum, sem gerir hlut smáþjóða rýrari en áður.  Í apríl 2009 viðurkenndi framkvæmdastjórn ESB, að CFP (Common Fishery Policy)-Sameiginlega fiskveiðistefna ESB, hefði mistekizt.  Það er vegna þess, að nytjastofnar ESB eru að hruni komnir, og eru 88 % þeirra ofnýttir.  Samkvæmt CFP er úthaldstími og kvóti hvers skips ákvarðaður.  Mikill meðafli veiðist, og er jafngildi 45 % kvótaþorsks kastað fyrir borð utan kvóta. 

Veiðifloti ESB-landanna er allt of stór, þó að skipum hafi fækkað um 2 % á ári undanfarin ár.  Afkastagetan hefur samt aukizt með nýjum og stærri skipum.  Þennan flota vantar verkefni, og það er alveg áreiðanlegt, að málsvarar hans munu þrýsta fast á framkvæmdastjórnina og samninganefnd hennar að fá aðgang til veiða innan auðlindalögsögu Íslands.  Sjávarútvegur ESB er stórlega niðurgreiddur, og velta hans er innan við 1 % af VLF flestra sjávarútvegslanda ESB.  Hann gegnir hlutverki varðveizlu byggða, þar sem einhæfni atvinnulífs er vandamál innan ESB.  Íslenzkum sjávarútvegi mundi ganga illa að keppa við þess háttar starfsemi, ef henni yrði hleypt inn í landhelgina. 

Grundarfjarðar höfnÞað er afar ólíklegt, að þing og þjóð muni samþykkja samning af þessu tagi við ESB.  Þess vegna er þetta ESB brambolt ríkisstjórnarinnar unnið fyrir gýg og rétt eitt dæmið um fjármuna-og tímasóun, sem hlýzt af dómgreindarleysi hennar. 

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Góð grein hjá þér Bjarni og er hjartanlega samála því sem þú setur fram hér þetta er leiðin.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 18.10.2009 kl. 00:23

2 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Samkvæmt greiningu Lofts einfaldlega höfum við ekki efni á því að fara í ESB því þeir eru algjörir bullukollar. Nýjasta tilskipunin sem þeir eru að setja á til að tryggja að aðildarlönd hafi alltaf ríkisábyrgð á bankakerfinu yrði til þess að Ísland þyrfti að hafa 6000 milljarða í innistæðutryggingasjóð. Ég leyfi mér að benda á grein Lofts: http://altice.blog.is/blog/altice/entry/966413/

Ennfremur útilokar þetta einkarekstur í fjármálakerfinu. Við getum ekki farið þarna inn. Horfum frekar til Nafta.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 18.10.2009 kl. 09:48

3 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Það sem þessi reglugerðarsamsetning segir okkur ennfremur er að þeir eru að stoppa í gatið vegna þess sem kom fyrir á Íslandi og í raun staðfestir þetta að Ísland ber ekki að borga Icesave og þeir vita það.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 18.10.2009 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband