Á safn eða í sókn

Á ferð í Englandi í liðinni viku (v.44/2009) las höfundur grein í virtu brezku dagblaði með vangaveltum blaðamanns um stöðu Bretlands nú, þegar ríkisstjórn Verkamannaflokksins, systurflokks Samfylkingarinnar, er með botnlausum fjáraustri sínum úr ríkishirzlum Bretaveldis að leiða langvinnustu kreppu yfir Breta frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.  Að seilast djúpt ofan í vasa skattborgaranna og að hella afrakstrinum síðan ofan í botnlausa hít opinbers rekstrar eða að deila honum út sem bótum og styrkjum af öllu mögulegu og ómögulegu tagi eru ær og kýr jafnaðarmanna um alla Evrópu.  Afstaða þeirra til atvinnurekstrar er blendin, þeir eru tvíátta og ríkjandi stefna jafnaðarmanna til atvinnurekstrar nokkuð mismunandi eftir löndum.  Með "Nýja verkamannaflokki" Blairs náðist stjórnmálalegur einhugur á þinginu um að fara leið hagvaxtar.  Nú hafa Bretar hins vegar fengið nóg af stórfelldri "þjóðnýtingu taps" einkabankanna, sem er forkastanleg stefna Verkamannaflokksins.   Bankar eiga að breyta innistæðum í fjárfestingar með vandaðri áhættustýringu og baktryggingu Tryggingasjóðs, sem fjármagnaður sé af bankakerfinu.   Þeir, sem vilja taka meiri áhættu, verða að gera það á eigin spýtur, njóta gróðans og taka skellinn sjálfir.   Þetta er skoðun bankastjóra Englandsbanka, sem hann viðraði í október 2009 og hlaut daginn eftir gagnrýni Gordons Browns og fjármálaráðherra hans að launum.   Sjónarmið bankastjórans mun þó vonandi verða ofan á við endurskipulagningu fjármálakerfis Evrópu.        

Tímamælir í BretaveldiBlaðamaðurinn brezki lýsti þeirri skoðun sinni umbúðalaust, að annaðhvort væri fyrir Breta að spyrna við fótum, hverfa af braut jafnaðarmanna og hefja skelegga endurreisn efnahagskerfisins með nauðsynlegum, tímabundnum fórnum og halda þannig stöðu sinni á meðal áhrifamestu ríkja heims, eða að sökkva í forað botnlauss ríkisrekstrar, skuldasöfnunar og viðvarandi atvinnuleysis þrátt fyrir vaxandi skattheimtu.  Afleiðing óstjórnar jafnaðarmanna og tíðra spillingarmála er vaxandi þjóðfélagsórói á Bretlandi, og nú er tekið að ræða þar um væntanlegar vinnustöðvanir, en á slíkri umræðu hefur ekki borið á Bretlandi í tvo áratugi frá því að íhaldsmenn komu á nýrri skipan atvinnulífsins.   

Allt ber hér að sama brunni; það flæðir undan jafnaðarmönnum á Bretlandi, eins og annars staðar í Evrópu.  Laugardaginn 31. október 2009 var birt skoðanakönnun, sem sýnir, að sama þróunin er hafin á Íslandi.  Skyldi engan undra miðað við þá leyndarhyggju, sem einkennir störf utanríkisráðherra Samfylkingarinnar við að troða Íslendingum inn í ESB "á mettíma", hvað sem það kostar, og vegna æ verri lífsafkomu almennings í landinu án nokkurra teikna um bætta tíð með blóm í haga. 

Þá er verkstjórn forsætisráðherra Samfylkingarinnar með þvílíkum endemum, að engu er líkara en ríkisstjórnin hafi tvær stefnur í öllum meginmálum.  Nægir að nefna yfirlýsingar ráðherranna um aðild að ESB, erlendar fjárfestingar í atvinnustarfsemi á Íslandi, nýjar virkjanir og nauðsynlegar raflínulagnir til að flytja íslenzka orku til þessarar atvinnustarfsemi.   Raflínur

 Þó að hrun Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs sé enn ekki hafið, er þó engum vafa undir orpið, að koma muni að því fyrr en síðar; svo er framgöngu fjármálaráðherrans í "Icesave" málinu fyrir að þakka.  Landráðastefnu formanns VG, sem lýsir sér í nýju frumvarpi hans um ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingasjóðs innistæðueigenda, eru gerð verðskulduð, öfgalaus og lögfræðileg skil í grein Lárusar Blöndal, hæstaréttarlögmanns, og Stefáns Más Stefánssonar, prófessors, í Morgunblaðinu þann 31. október 2009.  Er þar flett faglega ofan af óþjóðhollum vinnubrögðum Steingríms Jóhanns Sigfússonar, sem lýsa sér í því lagabroti hans að taka upp viðræður við Breta og Hollendinga í stað þess að kynna þeim lögin um ríkisábyrgð, eins og þau voru samþykkt á Alþingi sumarið 2009, og falla frá ríkisábyrgð, ef andstæðingarnir teldu þá samninginn úr gildi fallinn. 

Þó að hinn lánlausi fjármálaráðherra verði þjóðinni dýr áður en upp verður staðið, er þó annar vinstri-grænn ráðherra, sem keppir við hann um að féfletta þjóðina.  Þetta er umhverfisráðherra, sem í október 2009 fékk ærlega á baukinn frá Skipulagsstofnun, þegar sú síðar nefnda endursendi ráðherranum niðurstöðu sína án þess að breyta í henni stafkrók.  Er þetta gríðarlegur álitshnekkir fyrir ráðherrann og áfellisdómur yfir störfum hennar, sem við þetta verður ber að því að beita stjórnvaldi sínu án þess að gæta meðalhófs; allt í þágu fámennrar, háværrar sérvitringaklíku. 

Með því að þvælast fyrir eðlilegri og faglegri ákvarðanatöku um nýjar fjárfestingar í þágu atvinnusköpunar í landinu heldur þessi sérgæðingslegi ráðherra þúsundum manna og kvenna á atvinnuleysisskrá og kemur í veg fyrir endurreisn ríkissjóðs landsins.  Það er alveg útilokað, að stjórnmálaflokkur með menn og málefni, eins og að ofan er lýst, haldi fimmtungsfylgi mánuðum saman úr þessu. 

euro-coin1Þingmenn vinstri-grænna virðast ekki lyfta litla fingri í andófi gegn hraðferð Samfylkingarinnar með Ísland inn í ESB.  Í stað þess, að lýðræðislega skipuð samninganefnd, sem vinstri stjórnin lofaði að koma á laggirnar,  sæi um að svara þúsundum spurninga ESB, hefur ríkisstjórnin sett störfum hlaðið embættismannakerfi sitt til þeirra verka að semja svörin og senda þau til Brüssel löngu áður en nauðsyn bar til.  Vinstri stjórnin hefur þannig svikið enn eitt loforð sitt.  Þó að samninganefndin verði skipuð eftir dúk og disk, er augljóslega búið að gera henni óhægt um vik og binda hendur hennar með því að senda inn svör, sem hún hafði ekki tök á að móta. 

Furðu gegnir, að vinstri-grænir skuli láta bjóða sér þessa yfirtroðslu og hunzun á lýðræðislegum vinnubrögðum í nafni hraðferðar inn í ESB.  Sýnir þessi lágkúra, hversu lítilla sanda og sæva vinstri menn á Alþingi eru. 

ESB stendur nú á tímamótum.  Enginn veit, hvert næsta skrefið verður eftir staðfestingu Lissabon sáttmálans, sem nú virðist vera í höfn.  Þjóðverjar hafa aftengt öxulinn Berlín-París, andstætt væntingum Frakka.  Tákn um þetta er, að utanríkisráðherra nýju þýzku ríkisstjórnarinnar, Guido Westerwelle, kaus að leggja leið sína til Varsjár í sinni fyrstu utanlandsheimsókn sem fulltrúi Þýzkalands.  Frá stofnun Sambandslýðveldisins hafa utanríkisráðherrar Þýzkalands farið sína fyrstu ferð til Parísar.  Þýzkaland mun hér eftir fara þær leiðir, sem Berlín telur þjóna hagsmunum Þýzkalands bezt án tillits til þess, sem sagt er eða gert í París.  Um þetta vitnar "Ópel sagan", slit Siemens á samstarfi við franska risann Areva um kjarnorkuþróun, gagnrýni Angelu Merkel, kanzlara Þýzkalands, á tilburði Frakka til að koma á koppinn sambandi Miðjarðarhafslanda innan ESB, og þannig mætti lengi telja. 

Eins og vanalega munu Bretar leika lykilhlutverk í Evrópu.  Þeir, sem Bretar leggjast á sveif með, munu "stjórna skothríðinni" (call the shots).  Hin hefðbundna stefna "White Hall" hefur verið samkvæmt rómversku uppskriftinni, "divide et impera" (að deila og drottna).  Hvað munu Bretar gera nú ?  Verður Blair fyrsti forseti ESB ?  Berlín mun sennilega ekki leyfa það.  Það mun koma í hlut Íhaldsflokksins að móta afstöðu Bretlands í nýju ESB, því að David Cameroon og félagar munu vafalaust sigra í kosningum á Bretlandi fyrri hluta árs 2010.  Þar á bæ eru menn mjög gagnrýnir á "síaukinn samruna" (an ever closing union).  Eiga Íslendingar erindi í þessa ljónagryfju ?  Það verður á brattann að sækja fyrir Samfylkinguna að sannfæra almenning á Íslandi um það. 

Það er alveg áreiðanlega of hár inngangstollur að taka á sig hráar "Icesave" skuldbindingar.  Þegar höfundur var á ferð í Norðimbralandi í liðinni viku, ræddi hann við nokkra upplýsta Englendinga um þetta mál.  Þeir þekktu til þess og voru allir þeirrar skoðunar, að þeir, sem fé lögðu inn á téða hávaxtareikninga, hefðu mátt vita, að auknum væntum ávinningi þeirra fylgdi aukin áhætta.  Þeir hefðu sjálfir átt að bera þessa áhættu, en hvorki brezkir né íslenzkir skattborgarar. 

Stefna vinstri stjórnarinnar mun leiða til þess, að Íslandi verður breytt í náttúruminjasafn.  Ef Íslendingar ætla að lifa áfram í landi sínu, verða þeir að ganga uppréttir og sýna öðrum þjóðum í verki, að þeir taki sjálfstæðar ákvarðanir með eigin hagsmuni að leiðarljósi, en gangi ekki undir jarðarmen Evrópustórveldis.  Hið síðar nefnda mun hvorki þjóna hagsmunum okkar í bráð né lengd.    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband