Er lengur þörf á EES ?

Spurning um það, hvort þörf sé lengur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) væri óþörf, ef ekki fylgdi böggull skammrifi með þessu viðhengi Evrópusambandsins (ESB).  Þessi böggull er ekkert léttmeti, sem almenningur og forráðamenn þjóðarinnar geta látið sér í léttu rúmi liggja, því að þar er að finna æ fleiri alvarlegar vísbendingar um, að aðildin að EES feli í sér fullveldisframsal til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins, sem sé langt umfram aðild að viðskiptasamningum eða öðrum alþjóðasamtökum, sem Ísland á aðild að.

Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn á sínum tíma, sýndist sitt hverjum um þetta, og það var lögfræðilegt ágreiningsefni, hvort Stjórnarskrá landsins væri brotin með þessu.  Nú hefur 23 ára vera Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu og nýjustu tíðindi af æ nánari samruna ESB-ríkjanna ("an ever closer union"), sem oftar en ekki virðist að hálfu ESB vera látinn falla undir EES-samninginn, hins vegar taka af öll tvímæli um það, að framkvæmd EES-samningsins sé á þann veg, að samþykkt hans hafi í raun falið í sér stjórnarskrárbrot að hálfu Alþingis og forseta lýðveldisins, sem samninginn undirritaði.

Dæmin, sem hér verða tekin, eru tvö. Er annað nýlegt og hitt væntanlegt:  

Fyrra dæmið nær aftur til 2009, þegar Alþingi samþykkti að fella matvælastefnu ESB í íslenzk lög með þeirri undantekningu, að ekki yrð leyfður innflutningur á hráu og ófrystu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  Var þetta ekki gert af meintri meinfýsi þeirra, sem sagðir eru vilja vernda íslenzkan landbúnað gegn óheftri samkeppni niðurgreiddra landbúnaðarafurða frá ESB, heldur af illri nauðsyn fjarlægrar eyþjóðar að verjast heilsufarsfári fjölónæmra sýkla, sem landlægir eru í ESB-löndunum, og að verja innlenda búfjárstofna gegn bráðdrepandi sýkla- og veirusýkingum.  Íslenzkir búfjárstofnar eru varnarlausir gegn erlendu fári, sem herjar á búfjárstofna erlendis og þeir hafa mótefni gegn.  Þetta var ekki ímyndun þingmanna, heldur sjálfsögð varúðarráðstöfun, ráðlögð af fjölda hámenntaðra og reyndra vísindamanna á sviðum sýkla- og veirufræða.

Íslenzkir matvælainnflytjendur kærðu þetta innflutningsbann fyrir ESA, sem úrskurðaði, að það bryti í bága við EES-samninginn og þar með skuldbindingar, sem Alþingi samþykkti með inngöngu Íslands í EES árið 1994.  Ágreiningurinn fór fyrir EFTA-dómstólinn, sem staðfesti úrskurð ESA í nóvember 2017. 

Hvað sem öðru líður, er ljóst af þessum málalyktum, að samþykkt Alþingis, gerð í góðri trú um réttarstöðu landsins og til að vernda mikilvæga hagsmuni landsmanna, verður samt að láta í minni pokann fyrir vilja og úrskurði yfirþjóðlegrar stofnunar.  Þar með er orðið eins ljóst og verða má, að stórfellt framsal fullveldis hefur átt sér stað til ESB, sem öllu ræður innan EES.  Við þetta verður ekki unað, þótt "Fullveldisríkisstjórnin" hafi ákveðið að kyssa á vöndinn og taka þegjandi og hljóðalaust, því sem að höndum ber.  

Rétt hefði í þessari stöðu verið að fara fram á samningaviðræður við ESB um þessi mál og fresta þar með gildistöku úrskurðarins um hríð til að vinna tíma til stefnumörkunar innanlands.  Hvernig sem þær samningaviðræður hefðu farið, er hitt ljóst, að nú blása vindar gagnkvæmra viðskiptasamninga á milli ríkja, svo að tímabært er að leggja EES niður.  Ástæðan er auðvitað úrsögn Bretlands úr ESB, sem taka mun gildi í marz 2019.  Bretar stefna á viðskiptasamning við ESB og aðrar þjóðir, þ.á.m. við Íslendinga og Norðmenn, og líklegt má telja, að EES ríkjunum þremur, utan ESB, muni standa svipaður viðskiptasamningur til boða við ESB og Bretlandi.  Þar með verður hægt að leggja viðrinið EES fyrir róða, öllum til léttis.

ESB áformar að koma á 5. frelsinu á Innri markaði EES.  Það fjallar um frjálst flæði hvers konar orku á milli EES-landanna, t.d. eldsneytisgass, olíu og raforku.  Norðmenn hafa af þessu miklar áhyggjur, af því að ESB hefur falið nýrri stofnun, "ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators", mikil völd.  E.t.v. má kalla þessa stofnun "Orkusamvinnustofnun EES".  Hún á að hafa síðasta orðið í hverju landi um öll orkutengd málefni, sem henni þóknast að skilgreina sem "EES-málefni" og ESA verður úrskurðaraðilinn.  Takmarkið með þessu er, að öll orka flæði frjálst og hindrunarlaust yfir landamæri þangað, sem hæstbjóðanda þóknast, að hún verði send innan EES.

Margir Norðmenn hafa af þessu gríðarlegar áhyggjur, enda óttast þeir að missa tökin á raforkumálum sínum vegna mikillar sjálfbærrar fallvatnsorku þar í landi, sem tiltölulega ódýrt er að breyta í raforku.  Óttast Norðmenn tæmingu miðlunarlóna og a.m.k. 30 % hækkun rafmagnsreiknings heimila og fyrirtækja af þessum völdum.  

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en hérlendis fljóta yfirvöldin að feigðarósi, hafa annaðhvort ekki af málinu frétt eða sjá ekki hættuna, sem hérlendis stafar af þessu samrunaferli ESB.  ACER gegnir nefnilega því hlutverki að auka orkuflutninga á milli landa.  Raforkuflutningar á milli landa nema nú 10 % og stefnt er á tvöföldun þessa hlutfalls 2030.  Á Íslandi er mesta raforkuvinnsla á mann í heiminum, og talsvert óvirkjað enn.  Fólki hjá ACER er kunnugt um þetta og um áhuga Landsvirkjunar o.fl. á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands.  Það er vel hægt að hugsa sér þá stöðu, að á vegum ACER verði fé látið af hendi rakna til að koma sæstrengsverkefninu á koppinn.  Útibú ACER á Íslandi hefði völd (samkvæmt ákvörðun ESB) til að skikka Landsnet til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt, og síðan mundi útibúið setja hér á laggirnar tilboðsmarkað fyrir raforku - bingo.  Mörg hundruð, jafnvel 1000 MW (megawött) mundu streyma úr landi, orkuverðið innanlands snarhækka og Íslendingar "sitja með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn orða það, þegar einhver fær ekki rönd við reist og/eða er tekinn í bólinu.  

Það er full ástæða til að vara alvarlega við því, sem hér er að eiga sér stað með æ nánari samruna á EES-svæðinu.  Þessi þróun hentar engan veginn Íslendingum og Norðmönnum, sem geta hæglega misst "erfðasilfur" sitt í hendur hrægamma með andvaraleysi.

Gleðilegt aldarafmælisár fullveldis !

 

 

  

 

 


Stjórnarsáttmálinn og samgöngumálin

Eina verkefnið, sem nefnt er á nafn í þessum kafla sáttmála ríkisstjórnarinnar og kannski í sáttmálanum öllum, er Borgarlínan, sem tengja á saman miðlæga hluta sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.  Þetta illa ígrundaða verkefni, sem borgarstjórn og skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa haft forgöngu um, er einfaldlega allt of dýrt m.v. notagildið fyrir íbúana. Það er dæmigert um mistök stjórnmálamanna, sem láta hugmyndafræðina hlaupa með sig í gönur.  

Það er þó eðlilegt að taka nú þegar frá land fyrir slíka samgönguæð í aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins, en það væri fljótfærnislegt af ríkinu að leggja fram fé á þessu kjörtímabili, 2017-2021, í framkvæmd, sem engin fyrirsjánleg þörf verður fyrir fram undir 2040, ef nú verður farið í aðrar nærtækari og hagkvæmari framkvæmdir.  Það er miklu nær, að Reykjavíkurborg láti af þvergirðingshætti sínum gegn mislægum gatnamótum og leyfi Vegagerðinni að höggva með skilvirkasta mögulega hætti á hættulega og dýra umferðarhnúta með því að hanna og reisa mislæg gatnamót á "stofnbrautum í þéttbýli", sem hún er ábyrg fyrir innan borgarmarkanna.  Er þar fyrst til að taka gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, og núverandi tengingar Miklubrautarinnar eru öryggislega og afkastalega stórlega ámælisverðar.  Þrengingar gatna og stöðvunarljós umferðar við gangbrautir á fjölförnum brautum á borð við Kringlumýrarbraut og Suðurlandsbraut eru aðferðir til að minnka afköst samgönguæða, sem þegar eru of lítil.  Undirgöng ættu fyrir löngu að vera komin á þessa staði.    

Nýr samgönguráðherra hefur gefið þá þröngsýnislegu yfirlýsingu, að gjaldtaka á nýjum leiðum út frá höfuðborgarsvæðinu sé ekki á stefnuskrá hans.  Verði þetta ofnan á, er það til þess eins fallið að seinka fyrir öðrum samgönguframkvæmdum á vegum ríkissjóðs.  Yfirlýsingin gengur þvert á stefnumörkun í samgönguáætlunum til 4 ára og til 12 ára, þar sem segir um Sundabraut:

"Leitað verði leiða til að fjármagna Sundabraut í samstarfi við einkaaðila".

Þá er yfirlýsing ráðherrans undarleg í ljósi þess, að á kjörtímabilinu þarf að taka ákvörðun um ný Hvalfjarðargöng.  Á ekki að leyfa erlendum ferðamönnum að taka þátt í fjármögnun þessa þarfa verkefnis, eins og þeir hafa lagt sitt að mörkun til að flýta uppgreiðslu lána vegna fyrri Hvalfjarðarganga ?  Hvað segja Framsóknarmenn á landsbyggðinni við því, ef taka á framkvæmdakraft úr ríkissjóði frá bráðnauðsynlegum umbótum á landbyggðinni með fordild um, að ríkissjóður verði að standa að fjármögnun allra samgönguumbóta á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel þótt vegfarendur hafi þar í sumum tilvikum valmöguleika um gamla eða nýja leið ?

Fréttaskýring Sigtryggs Sigtryggssonar í Morgunblaðinu 7. nóvember 2017,

"Sundabrautin "föst í forminu"", hófst svona:

"Nú eru liðnir rúmlega 7 mánuðir [frá 21. marz 2017] síðan Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að að taka upp viðræður við ríkið um Sundabraut.

Til upprifjunar er um að ræða braut, sem liggja mun frá Sundahöfn, yfir eyjar og sund og upp á Kjalarnes.  Þetta yrði mesta og dýrasta samgöngumannvirki landsins.  Að verkinu koma Vegagerðin sem framkvæmdaaðili, ríkissjóður sem greiðandi og Reykjavíkurborg sem landeigandi og skipulagsaðili.  

Morgunblaðið kannaði stöðu málsins, og er skemmst frá því að segja, að ekkert hefur gerzt, frá því að borgarstjórn gerði sína samþykkt í marz.  Ekki er hægt að skilja annað á svörum við fyrirspurnum Morgunblaðsins en þeir embættismenn, sem um málið fjalla, séu "fastir í forminu"."

Þessi samþykkt borgarstjórnar frá marz 2017 er hreint yfirvarp að hálfu meirihluta hennar fyrir algeru aðgerðarleysi í málefnum Sundabrautar, sem stafar af áhugaleysi eða beinni andstöðu við verkefnið.  Málsmeðferð meirihluta borgarstjórnar á þessu framfaramáli er hneyksli, sem sýnir, hversu forstokkað afturhald hefur hreiðrað um sig í borgarkerfinu.  Borgarstjórinn fer undan í flæmingi í stað þess að eiga ærlega fundi með Vegagerðinni um þessa mikilvægu samgöngubót. 

Borgarstjórinn hefur klúðrað nægu framboði húsnæðis í Reykjavík með ofuráherzlu á þéttingu byggðar, og nú klúðrar hann samgöngumálum borgarinnar með ofuráherzlu á Borgarlínu í stað mislægra gatnamóta og Sundabrautar.  Lóðaklúðrið hefur sprengt upp húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu algerlega að óþörfu, og samgönguklúðrið veldur óþarflega mörgum umferðarslysum og lengir ferðatíma vegfarenda óþægilega og óþarflega mikið til kostnaðarauka fyrir samfélagið, svo að ekki sé nú minnzt á óþarfa mengun, sem umferðartafir valda.  

Umferðin gegnum Hafnarfjörð er gríðarlega þung, og nemur fjöldinn um torgið á mótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu nærri 50´000 bílum á sólarhring, sem þýðir, að tvöfalda verður hið fyrsta Reykjanesbraut frá mislægum gatnamótum við Kaldárselsveg að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Að gera öll gatnamót Reykjanesbrautar í Hafnarfirði mislæg á næstu 8 árum er mun meira aðkallandi viðfangsefni en að hefjast handa við ótímabæra Borgarlínu, sem virðist vera hugsuð í tengslum við járnbrautarlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og umferðarmiðstöðvar í Reykjavík (Vatnsmýri).

  "Fluglestin" er einnig algerlega ótímabært verkefni, enda hugarórar einir, að nokkrum fjárfesti detti í hug í alvöru að setja miaISK 100-200 í verkefni, sem mun eiga fjárhagslega erfitt uppdráttar á næstu áratugum. Frumkvöðlar "fluglestarinnar" fóru verulega fram úr sér, enda heyrist ekki frá þeim, nema um háfleyg áform, en einkafjármagn í þetta verkefni lætur á sér standa (í svipaðan tíma eða lengur en nemur þörfinni fyrir Borgarlínu).  

Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur, MBA, reit merka grein um umferðarmál á höfuðborgarsvæðinu í Morgunblaðið, 26. október 2017,

"Samgöngubætur á Reykjanesbraut",

þar sem sagði m.a.:

"Um síðustu aldamót gerði verkfræðistofan VST (nú Verkís) frumdrög að vegstokki við Lækjargötu og Kaplakrika.  Kostnaður var áætlaður miaISK 2,4-2,7.  Uppfærð kostnaðaráætlun til verðlags í dag er í kringum miaISK 8.  Þetta er dýr framkvæmd og ekki fjárveiting í hana í gildandi samgönguáætlun.  Kostnaður við vegstokk við Lækjargötu og Kaplakrika er þó aðeins 12 % - 14 % af áætluðum kostnaði við borgarlínuna.  Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hljóta því að geta sammælzt um, að þessi framkvæmd verði sett framarlega í forgangsröðina.  

Þá væri raunhæft að reikna með því, að Reykjanesbraut gæti orðið tvöföld með mislægum gatnamótum milli Keflavíkur og Miklubrautar innan 10 ára."

Það verður að mótmæla því harðlega, að ofangreindar umbætur á Reykjanesbraut verði látnar sitja á hakanum vegna óðagots við að hefjast handa við Borgarlínu.  Borgarlína kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við Reykjanesbrautarumbætur, hvað fækkun slysa og tímasparnað vegfarenda varðar, og er þar að auki miklu dýrari.  Alþingismenn verða að kynna sér þessa hlið málsins gaumgæfilega hjá Vegagerðinni við næstu endurskoðun 4-ára og 12-ára vegaáætlunar. Það er kominn tími til að heimskuleg hugmyndafræði víki fyrir faglegu mati á staðreyndum og forgangsröðun reistri á slíku mati. 

Í lok tilvitnaðrar greinar sinnar horfði Þórarinn Hjaltason fram í tímann til 2040:

"Ef horft er til lengri framtíðar, t.d. til ársins 2040, þá tel ég raunhæft að gera ráð fyrir samfelldum tvöföldum vegi frá Keflavíkurflugvelli að Borgarnesi um Vesturlandsveg og austur fyrir Selfoss um Suðurlandsveg.  

Sundabraut er eðlilegur hluti af leiðinni um Vesturlandsveg.  Fyrir höfuðborgarsvæðið myndu Reykjanesbraut og Sundabraut hafa mikla þýðingu sem meginstofnvegur frá norðri til suðurs í gegnum svæðið."

Þetta þykir blekbónda vera eðlileg og raunhæf framtíðarsýn fyrir samgönguæðar um það stóra, samfellda atvinnusvæði, sem hér um ræðir.  Verði hún að veruleika ásamt því að greiða fyrir umferð með mislægum gatnamótum eða veggöngum á öllum helztu gatnamótum á Miklubraut og fjölgun akreina samkvæmt viðmiðunum Vegagerðarinnar um ökutækjafjölda á sólarhring, þá verður leyst úr umferðarhnútum höfuðborgarsvæðisins með viðunandi hætti fram til 2040.  Þetta er góður valkostur við Borgarlínuna, sem reist er á fölskum forsendum, mun engan vanda leysa, en skapa alvarlegan fjárhagsvanda og umferðarvanda með þrengingu gatna.  Þar er dæmi um verkefni, sem ótímabært er að setja á 12 ára Vegaáætlun Alþingis.  

 

 

 

 

 

 


Sjávarútvegur og nýja ríkisstjórnin

Sú var tíðin, að landsstjórnin varð að miða helztu efnahagsráðstafanir sínar við það, að sjávarútvegurinn skrimti.  Sú tíð er sem betur fer liðin, og nú er rekstur sjávarútvegsins sem heildar sjálfbær, þótt einstök fyrirtæki hjari varla og sumir útgerðarmenn lepji dauðann úr skel.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar ber keim af þessu sjálfstæði sjávarútvegsins, því að þar eru engin stórtíðindi, hvað þá bjargráð.  Það er samt ekki þannig, að stefna ríkisstjórnarinnar hafi engin áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Öðru nær. Eitt mesta hagsmunamál hans er að efla Hafrannsóknarstofnun, því að veiðiráðgjöfin, sem afkoman hvílir á að miklu leyti, er reist á vísindalegri þekkingaröflun hennar.  Ef þar eru brotalamir eða meinbugir, þá er afkoma landsins alls í vondum málum.  Það er samt ekki minnst á þessa lykilstofnun í sjávarútvegskaflanum, og það er miður, því að þessi rannsóknarstofnun er undirfjármögnuð.  Það þarf að eyrnamerkja hluta af auðlindargjaldi sjávarútvegsins fjárfestingum og nýsköpun Hafrannsóknarstofnunar, t.d. 25 %/ár. Það er varla hægt að verja þessu fé með eðlilegri hætti.  Væri það gert, gæti stofnunin þegar í stað lokið verkhönnun nýs rannsóknarskips í stað Bjarna Sæmundssonar og Ríkiskaup síðan boðið smíðina út.  Nú eru hagstæðir tímar til að kaupa skip.  Á örfáum árum mundi fjórðungur þessa auðlindargjalds á ári greiða nýtt rannsóknarskip upp.  Eðlilegt er, að annar fjórðungur renni til fjárfestinga og þróunar hjá Landhelgisgæzlu Íslands. 

Í sáttmálanum stendur:

"Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum, og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna":

Hvernig á ríkisstjórn að standa að þessu ? Hún þarf þá einna helzt með álögum sínum á greinina að gæta að því, að sjávarútvegur annarra landa, þ.á.m. Noregs, sem íslenzkur sjávarútvegur á í samkeppni við á erlendum mörkuðum, er stórlega niðurgreiddur úr ríkissjóðum viðkomandi landa. Hvorki norskur sjávarútvegur né sjávarútvegur í strandríkjum meginlandsins greiðir auðlindagjald.  Færeyingar og Grænlendingar eru hins vegar varlega að feta sig inn á þá braut. Í ljósi þessa og tilvitnaðra orða stjórnarsáttmálans hér að ofan er rökrétt afstaða stjórnvalda við núverandi aðstæður á Íslandi að stíga varlega til jarðar varðandi gjaldtöku af sjávarútvegi umfram skattlagningu, sem önnur fyrirtæki í landinu sæta.  Núverandi auðlindargjald er illa hannað og tekur of lítið tillit til afkomu greinarinnar.  Það skaðar beinlínis samkeppnihæfni greinarinnar, bæði við önnur fyrirtæki og fjármagnseigendur hér innanlands og á alþjóðlegum fiskmörkuðum.  

Blekbóndi hefur ritað nokkuð um þetta hér á vefsetrinu, t.d. í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206667

, þar sem verð viðkomandi óslægðs fiskjar upp úr sjó er lagt til grundvallar.  Gjaldinu er skipt í tvennt, grunngjald, sem má líta á sem greiðslu fyrir aðgang að takmarkaðri náttúruauðlind, veiðileyfisgjald, eins og nefnt er í sáttmálanum, og veiðigjald, og saman mynda þessir 2 þættir auðlindargjaldið. 

Í sáttmálanum segir, að við álagningu auðlindargjalds skuli taka tillit til afkomu fyrirtækjanna í greininni.  Það er t.d. hægt að gera með því að líta til framlegðar fyrirtækjanna og leyfa þeim að draga frá skattstofni tekjuskatts helming greidds auðlindargjalds síðasta árs, hafi framlegð þá verið á bilinu 15 %- 20 %, og að draga frá allt auðlindargjaldið, ef framlegðin á skattlagningarárinu var undir 15 %.  

Sjávarútvegurinn hefur náð svo góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að hann virðist vera eina greinin, sem á raunhæfa möguleika á að standast skuldbindingar ríkisstjórnarinnar í París í desember 2015 um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda um 40 % árið 2030 m.v. árið 1990, og þarf hann þess vegna ekki að kaupa sér losunarheimildir.  Þetta hefur greinin gert upp á eigin spýtur með því að fjárfesta í nýjum, afkastameiri og sparneytnari búnaði. Veiðiskipum hefur fækkað og nýtnin, mæld í olíutonnum/aflatonn upp úr sjó, hefur tekið stórstígum framförum. 

Það, sem í stjórnarsáttmálanum stendur um þetta efni, horfir til enn lengri framtíðar en 2030, þ.e. til fullrar kolefnisjöfnunar greinarinnar.  Nýja ríkisstjórnin hefur sett sér það dýra og erfiða markmið, að Ísland verði að fullu kolefnisjafnað eigi síðar en árið 2040, þótt hún muni áreiðanlega ekki lifa svo lengi. Engin áfangaskipting né greining er til, sem stutt gæti þetta metnaðarfulla markmið.  Á meðan svo er, eru þetta bara draumórar skrifaranna. Í sáttmálanum segir:

"Einnig þarf að stuðla að kolefnisjöfnun greinarinnar, t.d. með auknum rannsóknum á endurnýjanlegri orku fyrir flotann".

Endurnýjanleg orka fyrir flotann getur falið í sér framleiðslu á metanóli eða öðru kolefniseldsneyti.  Það getur falið í sér framleiðslu á vetni til að knýja rafala og rafhreyfil um borð eða að brenna vetni í sprengihreyfli.  Endurnýjanleg orka fyrir flotann getur líka falið í sér að geyma raforku í rafgeymum fyrir rafhreyfla um borð.  Að 5 árum liðnum verða sennilega komnir á markaðinn rafgeymar, sem duga munu dagróðrarbátum.  Affarasælast er, að stjórnvöld setji upp hvata fyrir einkaframtakið til orkuskipta, en láti allar þvingunaraðgerðir lönd og leið.

Það er einkennilegt í þessu sambandi að leggja upp með þróun á tækni, sem fyrir utan metanól o.þ.h. er svo dýr, að hún er ekki á okkar færi, en sleppa algerlega að minnast á það, sem hendi er næst, en það er rafvæðing hafnanna með háspenntu dreifikerfi, sem þjónað getur allri þörf á landtengingu og þar með hleðslu á framtíðar rafgeymum um borð.  Hér þarf Orkusjóður að koma að fjármögnun, og það er eðlilegt, að hann fái markað fé af arðgreiðslum orkufyrirtækjanna, t.d. 25 %/ár, á meðan orkuskiptin standa yfir.  Án slíkrar stuðningsfjármögnunar og fjárhagslegra hvata er tómt mál að tala um algera kolefnisjöfnun Íslands fyrir árið 2040.

Það er drepið á fiskeldið í sjávarútvegskafla stjórnarsáttmálans:

"Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg, þarf að ræða framtíðar fyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga".

Það er ekki eftir neinu að bíða með þetta, enda nauðsynlegt fyrir fiskeldisfyrirtækin að fá greinargóðar upplýsingar um, hvað stjórnvöld ætlast fyrir í þessum efnum áður en þau ráðast í stórfelldar fjárfestingar.  Aðferðarfræðin, sem þróuð verður fyrir leyfis- og auðlindargjaldtöku af sjávarútveginum, þarf að vera svo almenn og einföld, að henni verði unnt að beita einnig á fiskeldisfyrirtækin.  Þannig er hugmyndafræðin, sem blekbóndi setti fram hér að ofan fyrir útreikninga aðgangsgjalds og veiðileyfagjalds yfirfæranleg á starfsleyfis- og rekstrarleyfisgjald.  

Eitt mesta gagn, sem stjórnvöld geta unnið öllum útflutningsgreinunum, er að tryggja þeim gjaldfrjálsan og hindrunarlausan aðgang að mörkuðum þeirra.  Alþjóðleg viðskiptamál eru nú mjög í deiglunni.  Verndarhyggju gætir nú í höfuðvígi auðvaldsins, Bandaríkjunum.  Þau eru okkur þó mikilvægur markaður fyrir fiskafurðir, svo að utanríkisráðuneytið hefur verk að vinna við gerð tvíhliða viðskiptasamnings við BNA, Breta o.fl.

 Vegna Brexit verður Íslendingum nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi við Breta.  Í Fiskifréttum 30. nóvember 2017 birti Guðsteinn Bjarnason frétt undir fyrirsögninni:

"Vonir um greiðari aðgang en EES veitir".

Hún hófst þannig:

"Íslenzk stjórnvöld gera sér vonir um, að við brotthvarf Breta úr ESB verði markaðsaðgangur Íslendinga að Bretlandi enn betri en samningurinn um EES tryggir okkur.

"Jafnvel þótt EES-samningurinn feli í sér góð viðskiptakjör fyrir útflutning til Bretlands og að stærstur hluti íslenzks útflutnings til Bretlands njóti annaðhvort tollfrelsis eða tollaívilnana, þá tryggir EES-samningurinn ekki fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir", segir í nýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins um hagsmuni Íslands vegna Brexit.  

"Á viðskiptasviðinu er því ljóst, að með úrsögn Breta úr ESB skapast nýtt tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helztu afurðir inn til Bretlands og ESB með lægri tollum.""

Þarna virðist hugmyndin sú, að íslenzkar afurðir verði fluttar frá Bretlandi til ESB-landa, t.d. Frakklands, á kjörum samkvæmt væntanlegum fríverzlunarsamningi Bretlands og ESB, sem verði hagstæðari en núverandi EES-kjör Íslands inn á Innri markað ESB.  Það er engu að síður feiknalega mikilvægt fyrir Ísland að halda nokkurn veginn óbreyttu vöru- og þjónustuaðgengi að Innri markaðinum, fari svo, að EES-samninginum verði sagt upp, sem getur orðið raunin í ljósi æ nánari samruna ESB-landanna, sem er kominn langt út fyrir þau mörk, sem gert var ráð fyrir, þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn, sem gekk í gildi 1994.  

Utanríkisráðuneytið virðist vera rígbundið við núverandi EES-samning Íslands og ESB.  Ef vel á að vera, verða menn þar á bæ hins vegar að semja áætlun um, hvað gera skal í aðdraganda uppsagnar þessa samnings og í kjölfar uppsagnar.  Nú eru ýmis teikn á lofti um, að á þessu kjörtímabili gæti þurft að grípa til slíkrar áætlunar.  

Í tilvitnaðri skýrslu utanríkisráðuneytisins stendur:

""Slíkur samningur [við Breta] gæti jafnvel skapað tækifæri fyrir enn greiðari aðgang en nú er [að brezka markaðinum], ef tollar féllu einnig niður af afurðum, sem nú bera toll inn til ESB." [Af þessu sést, að Innri markaðurinn er ekki tollfrjáls - innsk. BJo.]  

Tollar eru almennt hærri á mikið unnum sjávarafurðum en þeim, sem minna eru unnar.  Greiðari markaðsaðgangur ætti því ekki sízt við um ýmsar framleiðsluvörur úr fiskafurðum; einkum þær, sem njóta ríkrar tollverndar við innflutning til ESB í dag.  Þar á meðal má nefna makríl, síld, lax og túnfisk, ásamt karfa, steinbít og skarkola.

Með niðurfellingu tolla af unnum afurðum gætu skapazt tækifæri til meiri vinnslu afurðanna hér á landi og útflutnings þeirra til Bretlands sem fullunninnar vöru.""

Þetta síðast nefnda hefur geisilega þýðingu fyrir verðmætasköpun á Íslandi, og þannig gæti endurskoðun eða uppsögn EES-samningsins leitt til betri viðskiptakjara en nú tíðkast fyrir fullunnar matvörur frá Íslandi.  

Í þessu samhengi er vert að benda á, að magnhlutdeild fersks þorsks af þorskútflutningi hefur þrefaldazt frá síðustu aldamótum og nemur þriðjungi í ár, en verðmætin nema hins vegar tæplega 40 %.  Í Fiskifréttum var 23. nóvember 2017 vitnað í erindi Jóns Þrándar Stefánssonar, yfirmanns greininga hjá Markó Partner, á Sjávaútvegsráðstefnu í Reykjavík í nóvember 2017 um þetta efni:

"Jón Þrándur vék einnig að því, að mikil fjárfesting hefði orðið í nýrri tækniþróun hjá landvinnslunni og fyrirtækin væru farin að bjóða upp á vörur, sem ekki hefðu verið til áður.  "Það er farið að skera flökin með öðrum hætti og hnakka, og það er ýmiss konar vöruþróun að eiga sér stað, sem er bein afleiðing af tækniþróuninni.  Þetta hefur áhrif út á markaðina", segir Jón Þrándur.  

Hann benti á, að árið 2000 var um 70 % af öllum ferskum þorski flutt út til Bretlands.  Árið 2005 er þetta komið niður í 60 %, og 2010 er það komið niður í 44 %.  Á þessu ári stefnir í, að hlutfall ferskra þorskafurða inn á Bretlandsmarkað verði innan við 15 % af heildinni."

Það ætti að vera grundvöllur til sóknar á Bretlandsmarkað í krafti hagstæðs fríverzlunarsamnings á milli Íslands og Bretlands.  Verði svipaður samningur gerður á milli Bretlands og ESB, sem gefi betri kjör en Ísland hefur nú við ESB, kann að verða hagstætt að fljúga og sigla hluta af ESB-útflutninginum til Bretlands og áframsenda hann þaðan, e.t.v. með járnbrautarlest.   

 

 

 

 

 


Orkusamband EES-landa ?

Frá ríkisstjórn Íslands berast þau tíðindi, að hún hyggist hlíta dómi EFTA-dómstólsins frá í nóvember 2017, sem var á þá lund, að Alþingi hafi við innleiðingu matvælalöggjafar ESB verið óheimilt að banna innflutning á hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk.

Alþingismenn töldu sig vafalaust vera að verja lífshagsmuni þjóðarinnar með þessari gjörð árið 2009, enda hafa viðurkenndir vísindamenn á sviði sýkla- og veirufræði varað við því, að með slíku hrámeti að utan geti hæglega borizt fjölónæmir sýklar, sem ráðast á mannfólkið, og dýrasjúkdómar, sem mótefni vantar fyrir í íslenzka dýrastofna.

Sýkingar af völdum fjölónæmra sýkla eru alvarleg lýðheilsuógn.  Framandi dýrasjúkdómar hafa orðið landsmönnum mjög þungir í skauti og t.d. næstum útrýmt íslenzka sauðfjárstofninum.  

Ríkisstjórnin ætlar sér vafalaust í ýmsar mótvægisaðgerðir, t.d. aukið kerfisbundið eftirlit, og skilmerkilegar upprunamerkingar, sem blasa verða við neytendum.  Það er þó ómótmælanlegt, að téður innflutningur mun auka líkur á hættulegum sjúkdómum hérlendis.  Hver áhættuaukningin er, hefur enn ekki komizt á hreint. Hin hlið þessa máls, er að Alþingi er gert afturreka með ákvörðun sína.  Þar með blasir við fullveldisframsal með EES-samninginum.  

Það verður að lýsa nokkurri furðu á því, að ríkisstjórnin leggi að óreyndu niður skottið gagnvart Brüssel-valdinu og geri ekki tilraun til samningaumleitana við framkvæmdastjórn ESB um innflutning á þessum vörum, sem sumir vísindamenn telja íslenzkri fánu stórhættulega.  Ferst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þar öðru vísi en ríkisstjórn Davids Cameron, sem samdi um ýmsar tilslakanir við ESB fyrir Bretlands hönd og lagði þann samning síðan fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar með því fororði, að synjun mundi þýða úrsögn Bretlands úr ESB. Úr því varð BREXIT.   

Eðlilegt hefði verið af íslenzku ríkisstjórninni að fara sömu leið og leggja samningsniðurstöðuna fyrir þjóðina undir því fororði, að höfnun þýddi úrsögn Íslands úr EES.  Er ekki kominn tími til, að þjóðin taki sjálf afstöðu til veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, með öllum þess kostum og göllum ?    

Sú staðreynd, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA getur gert Alþingi afturreka með samþykktir sínar í máli, sem getur varðað lífshagsmuni, sýnir, að Alþingi framseldi fullveldi sitt til ESA og ESB með því að samþykkja  samning um aðild Íslands að EES, sem gekk í gildi 1994.  M.v. það, sem í húfi er, var þetta ótvírætt stjórnarskrárbrot, og öndvert mat lögspekinga á sínum tíma hefur nú fallið um sjálft sig.   

Nú er í deiglunni enn eitt málið á ferli ESB til æ meiri sameiningar ("an ever closer union").  ESB hefur jafnframt ákveðið, að þetta mál heyri í öllum aðalatriðum undir EES-samning Íslands, Noregs og Liechtenstein.  Hér ræðir um orkusamband EES ("EEA Energy Union").  Það er skemmst frá því að segja, að orkusamband þetta mun svipta aðildarþjóðirnar forræði á orkumálum sínum.  Það verður ekki gert með eignaupptöku, heldur með því að setja á laggirnar Orkustofnun Evrópu-"European Agency for the Cooperation of Energy Regulators", skammstafað ACER, sem staðsett er í Slóveníu.  

Framkvæmdastjórn, leiðtogaráð og þing ESB hafa framselt valdheimildir til ACER til að taka stefnumótandi ákvarðanir um orkukerfi aðildarlandanna á sviðum, sem varða "sameiginlega hagsmuni" aðildarlandanna.  Það er ESA, sem úrskurðar í hverju tilviki, hvort ákvörðun varðar "sameiginlega hagsmuni" eða ekki.  Í hverju landi verður undirorkustofnun, UOS, sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for Energi", skammstafað RME, sem sér um framkvæmd stefnu ACER í hverju landi.  M.a. mun UOS (RME) koma á fót kauphallarviðskiptum með raforku, þar sem hver sem er innan EES, getur boðið í raforku, sem á boðstólum er, og ESB vill, að öll framleiðanleg raforka sé á boðstólum.  Þetta þýðir, að dagar langtíma raforkusamninga eru taldir.  

Þetta hefur í för með sér gjörbreytingu til hins verra fyrir land eins og Noreg, þar sem langtímasamningar eru undirstaða rekstrar iðnfyrirtækja vítt og breytt um landið, og tengingar norska rafkerfisins við Svíþjóð, Finnland, Danmörku, Holland og senn við Bretland veita mikla flutningsmöguleika á afli til útlanda.  Félagar í samtökunum "Nei til EU" í Noregi óttast, að aðild Noregs að "Orkustofnun Evrópu" (ACER) geti rústað norskum iðnaði og valdið a.m.k. 30 % hækkun á raforkuverði í Noregi.  

Hvaða áhrif gæti ACER haft á Íslandi ? 

ACER á t.d. að fá vald til að ákveða uppbyggingu innviða, sem þvera landamæri, og varðandi "verkefni um sameiginlega hagsmuni".  Ef þátttakendur í slíkum samstarfsverkefnum eru ósammála um kostnaðarskiptinguna, þá sker ACER úr um það.  

Fyrir Ísland er t.d. hægt að hugsa sér, að ACER komist að þeirri niðurstöðu, að ófært sé, að land með mestu raforkunotkun á mann í heiminum sé eitt og ótengt úti í Ballarhafi.  Í landinu sé enn talsvert af ónýttum endurnýjanlegum orkulindum, og að nú sé kominn tími til að landið verði tengt við raforkukerfi meginlandsins, svo að fleiri geti notið góðs af ódýrri og endurnýjanlegri orku.  Þannig mundi sæstrengur frá Íslandi til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi þjóna markmiðum ESB um aukningu á orkuflutningum á milli landa frá núverandi 10 % í 15 % árið 2025 og 20 % árið 2030.   ACER mundi vafalaust niðurgreiða stofnkostnað af slíkum streng, sem yrði þá í einkaframkvæmd, og Landsnet yrði skikkað til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt og búast má við, að Landsnet  þyrfti að taka þátt í að greiða kostnaðinn við flutning raforkunnar frá virkjunum á Íslandi og til kaupandans.  Síðan hæfist samkeppni um íslenzka raforku á milli orkukaupenda hérlendis og erlendis. Afleiðingin fyrir alla raforkunotendur á Íslandi yrði jafnvel hærra raforkuverð en á raforkumarkaði á meginlandinu vegna hás flutningskostnaðar. Aðeins raforkukaupendur með langtímasamninga í gildi fengju að halda gildandi orkuverði samkvæmt samningi, en ACER leggst alfarið gegn endurnýjun slíkra samninga og m.v. völd sín er ekki að efa, að ACER mundi fá því framgengt, að áður en lyki yrði öll raforka á íslenzka stofnkerfinu á evrópskum markaði.  

Undirorkustofnun ACER á Íslandi, UOS,  verður verkfæri ACER og óháð íslenzkum yfirvöldum.  Ákvörðunarvald um það, hversu miklum vatnsforða úr lónunum má miðla í því augnamiði að selja orku frá Íslandi, verður hjá UOS.  Þannig er nær öruggt, að staðan í íslenzkum miðlunarlónum yrði iðulega orðin svo lág í upphafi árs, að kaupa yrði raforku að utan á því verði, sem hún fengist fyrir.  

Fyrir Ísland og Noreg, sem bæði eru rík af hagkvæmri, endurnýjanlegri orku, sem nú knýr hagkerfi beggja landa, er ofangreind sviðsmynd alger hrollvekja.  Um það er einfaldlega að ræða að afhenda yfirþjóðlegu valdi, ACER, ráðstöfunarrétt á erfðasilfri hvorrar þjóðar um sig.  Fyrir meirihluta Norðmanna er það algerlega óaðgengilegt fyrirkomulag samkvæmt skoðanakönnunum þar í landi, og sama verður örugglega uppi á teninginum hérlendis, ef ríkisstjórnin, Fullveldisstjórnin, ætlar að leggja fram frumvarp þess efnis á aldarafmælisári íslenzka fullveldisins, eins og norska ríkisstjórnin hyggst gera á fyrsta fjórðungi 2018, að Alþingi samþykki þriðju orkutilskipun ESB til innleiðingar í íslenzkan rétt.  Í báðum ríkjunum mun rísa upp hatrömm mótmælabylgja gegn slíku glapræði.  Samþykki Stórþingið og Alþingi ekki þessa innleiðingu, mun ESA úrskurða um brot á EES-skuldbindingum landanna, og EFTA-dómstóllinn mun líklega dæma ESA í hag.  Þá verður Noregi og Íslandi ekki lengur vært innan EES.  

lv-kapall-kynning-april-2011

 

 

 

 

 

 


Ný ríkisstjórn: umhverfis- og auðlindamál

Orkumál landsins eru fléttuð inn í kafla sáttmála "Fullveldisríkisstjórnarinnar", sem ber heitið "Umhverfis og auðlindamál".  Þessi kafli hefst svona:

"Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.  Skoðaðir verða möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum."

Að setja þetta sem markmið á kjörtímabilinu 2017-2021 orkar mjög tvímælis.  Þetta er stórmál, sem þarf lengri meðgöngutíma, enda hagsmunaaðilarnir mjög margir, t.d. sveitarfélög með skipulagsvald á hluta af miðhálendinu, virkjunarfyrirtæki, Landsnet, hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu og útivistarsamtök.  Hætt er við, að afar torvelt, jafnvel ógjörningur, verði að nýta náttúruauðlindir í þjóðgarði með öðrum hætti en að upplifa þær með leyfi.  

Brýnt er fyrir ferðaþjónustufyrirtækin og flesta ferðalanga, að vegagerð verði komið í nútímalegt horf með upphækkuðum og klæddum vegi um Kaldadal, Kjalveg (allan) og Sprengisand.  Mun fást leyfi til þess í þjóðgarði ? Þetta er ekki einvörðungu hagsmunamál ferðaþjónustunnar, heldur allra vegfarenda og flutningafyrirtækja á milli landshluta.  Álag á hringveg 1 mundi minnka, umferðaröryggi aukast og leiðir styttast. Ekki sízt er slíkt hagsmunamál Norður- og Austurlands.    

Þjóðgarður er dýr í rekstri með fjölda starfsfólks.  Verður miðhálendisþjóðgarður byrði á ríkissjóði eða verður selt inn ?  Það verður alls ekki séð, að nauðsyn beri til að gera þetta að forgangsmáli nú, en öfgafullir umhverfisverndarsinnar bera þetta mjög fyrir brjósti nú um stundir.  Kannski verður með víðsýnni löggjöf hægt að finna á þessu sáttaflöt, sem flestir geta sætt sig við, en fyrst þarf að sýna fram á gagnsemi aðgerðarinnar. 

Vatnajökulsþjóðgarður mun nú þegar vera stærsti þjóðgarður í Evrópu.  Norðmenn og Svíar eiga víðfeðm óbyggð víðerni innan sinna landamæra.  Hvers vegna hafa þeir ekki stofnað þjóðarða þar, sem spanna mest allar óbyggðirnar ?

Næsta grein í þessum kafla stjórnarsáttmálans fjallar um orkumál.  Stefnumörkun þar er þó tiltölulega rýr í roðinu, en í grein síðar vísað til, að "langtímaorkustefna [verði] sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka.  Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda [fyrir] orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf.  Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni."

Þetta er gott og blessað, og með síðustu málsgreininni er gælum Landsvirkjunar við sæstreng til Bretlands kastað á ruslahauga sögunnar, því að í ljós mun koma, að orkuskiptin og almenn aukning raforkuþarfar fólks og fyrirtækja þarfnast alls þess afls, sem leyfilegt verður að virkja samkvæmt Rammaáætlun.

Nú háttar hins vegar þannig til, að á döfinni er að innleiða þriðju tilskipun ESB í orkumálum á öllu EES-svæðinu.  Téð tilskipun færir forræði orkumála frá rétt kjörnum valdhöfum ríkjanna til orkumiðstöðvar ESB, ACER, sem getur ákveðið að styrkja einkafyrirtæki til að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands og skikkað Landsnet til að tengja hann við stofnkerfi landsins.  Tilskipunin kveður á um stofnun raforkukauphallar í hverju landi, og með þessu móti verður hægt að bjóða í raforku frá Íslandi, hvaðan sem er innan EES.  Skylt verður að taka hæsta tilboði.  Ef Alþingi samþykkir þessa tilskipun sem lög, mun það framvísa fullveldi landsins yfir raforkumálum sínum til Brüssel og ACER.  Þar með verður tómt mál að tala um íslenzka orkustefnu, og eigendastefna Landsvirkjunar verður lítils virði.  Hvers vegna er ekki minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum ?  Vefst það fyrir stjórnarflokkunum að taka einarða afstöðu gegn innleiðingu þriðju orkutilskipunar ESB á Íslandi ?  

Með því, sem skrifað er um flutnings- og dreifikerfi raforku má líta svo á, að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að standa við bakið á Landsneti við aukningu á flutningsgetu meginflutningskerfisins í þeim mæli, sem dugar til að leysa úr bráðum, staðbundnum orkuskorti á landinu og til að "tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt".  

Þetta má túlka þannig, að ríkisstjórnin muni styðja, að reist verði 220 kV lína frá Blöndu austur um Skagafjörð og til Eyjafjarðar og þaðan um Kröflu til Fljótsdalsvirkjunar og austur að Hryggstekk í Skriðdal með 220 kV jarðstreng um "viðkvæmustu" svæðin í þeim mæli, sem tæknin leyfir.  

"Ekki verður ráðizt í línulagnir yfir hálendið", segir þar.  Ef hér er átt við loftlínu yfir Sprengisand, er þessi stefnumörkun í samræmi við það, sem blekbóndi hefur haldið fram á þessu vefsetri, þ.e. að skynsamlegt sé að leggja jafnstraumsjarðstreng frá virkjanasvæði Þjórsár/Tungnaár yfir Sprengisand til tengingar við meginflutningskerfi Norð-Austurlands.  Samkvæmt núverandi kostnaðaráætlunum Landsnets verður þetta aðeins lítils háttar dýrara en hinn valkosturinn, sem er að leggja 220 kV loftlínu frá t.d. Sigöldu um Suð-Austurland og að Hryggstekk í Skriðdal og loka 220 kV hringnum að vestan með 220 kV línu frá Brennimel við Grundartanga um Vatnshamra, Glerárskóga, Hrútatungu, Laxárvatn og til Blöndu.  Allir valkostir gera ráð fyrir 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun að Kröflu og þaðan til Eyjafjarðar og annarri 220 kV línu frá Blöndu um Skagafjörð til Eyjafjarðar til að tryggja Mið-Norðurlandi næga raforku.  

Umhverfislega hefur DC-strengurinn kosti umfram loftlínuna, aflstýringarlega gefur hann möguleika á meiri stöðugleika raforkukerfisins við álagsbreytingar og bilanir en loftlínan, og í stöðugum rekstri gefur hann möguleika á að bezta aflflutningana m.t.t. lágmörkunar afltapa í stofnkerfinu. Að öllu virtu er DC-jarðstrengur yfir Sprengisand ákjósanlegri en langar 220 kV loftlínur, sumpart um áhrifasvæði eldgosa og um ferðaleiðir náttúruunnenda.      

Vestfirðir hafa setið á hakanum varðandi afhendingaröryggi raforku, svo að ekki er vanzalaust.   Hluti af lausninni á þessu viðfangsefni er, að Landsnet færi 66/33 kV flutningskerfi sitt á Vestfjörðum í jörðu, eins og tæknilega er fært. Þessi aðgerð styðst við stjórnarsáttmálann, og Landsnet ætti þess vegna að setja þessa aðgerð á framkvæmdaáætlun næstu ára hjá sér, enda skapa Dýrafjarðargöngin mikilvæga leið fyrir tengingu á milli suður- og norðurfjarðanna um jarðstreng.    

Þetta mun þó ekki duga, heldur er hringtenging raforkuflutningskerfis Vestfjarða nauðsynleg forsenda fyrir viðunandi afhendingaröryggi raforku þar.  Til að slík hringtenging komi að gagni, þegar truflun verður á Vesturlínu, sem er oft á ári, þarf að reisa nýja aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, t.d. á Nauteyri, og tengja virkjanir inn á hana, sem gera Vestfirðinga sjálfum sér nóga um raforku.  Frá Nauteyri þarf síðan tengingu norður til Ísafjarðar, m.a. um sæstreng, og inn á Vesturlínu eða alla leið að Mjólká.

Höskuldur Daði Magnússon skrifar baksviðsgrein í Morgunblaðið 2. desember 2017:

"Pólitískur ráðherra, ekki fagráðherra":

"Ráðherra [Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra] hefur þegar velt því upp, hvort skynsamlegt sé að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi.  Nefndi hann í viðtali á Rás 2, að skynsamlegt væri að bera saman kosti þess að reisa umrædda virkjun og að stofna þjóðgarð.  Hann sagði jafnframt, að sú skýring, að virkjunin myndi auka raforkuöryggi á Vestfjörðum væri langsótt.  "Það, sem þarf að laga varðandi raforkumál á Vestfjörðum, er að tryggja betur afhendingaröryggi orku.  Þar myndi ég vilja sjá, að horft yrði til, hvaða möguleikar eru til staðar [d. til stede] til að setja raflínur í jörð á þessu svæði.""

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar kemur greinilega með böggum hildar inn í ríkisstjórnina, og það á ekki að láta hann komast upp með það múður (bolaskít), sem hann ber hér á borð. Vestfirðingar hljóta að taka á honum, eins og þeirra hefur löngum verið von og vísa. Það er orðinn kækur hjá afturhaldssinnum, sem ekki bera skynbragð á mikilvægi nýrrar raforkuvinnslu fyrir vaxandi samfélag, að stilla stofnun þjóðgarðs á virkjanasvæði upp sem valkosti við virkjanir.  Verðmætasköpun í þjóðgarði er fátækleg í samanburði við verðmæti, sem sköpuð eru með starfsemi á borð við laxeldi, sem auðvitað þarf stöðugan aðgang að raforku á hagstæðu verði.  

Guðmundur Ingi, nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, vill troða þjóðgarði upp á Vestfirðinga, en þeir hafa ekki beðið um hann, svo að hátt fari.  Hér kennir óþolandi forræðishyggju, yfirgangs og frekju gagnvart dreifbýlisfólki, sem nú sér mikil tækifæri í fiskeldi.  Er Lilja Rafney, Alþingismaður í NV, að biðja um þjóðgarð á Vestfjörðum í stað virkjunar ?  Ekki gerði hún það í kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017, svo að áberandi væri.

Sú staðreynd, að vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum, t.d. Hvalárvirkjun, auka afhendingaröryggi raforku þar, er ekki langsótt, eins og ráðherrann heldur fram, heldur auðskilin þeim, sem ekki stinga hausnum í sandinn.  Þegar 132 kV línan Hrútatunga-Glerárskógar-Mjólká bilar, sem gerist oft í illviðrum, þá fá Vestfirðir enga raforku frá stofnkerfi Landsnets, heldur verður þá að keyra olíukyntar neyðarrafstöðvar, t.d. nýlega neyðarrafstöð Landsnets í Bolungarvík, og  hrekkur ekki til.  Það er auðvitað lágreist framtíðarsýn fyrir ört vaxandi atvinnulíf Vestfjarða að verða að reiða sig á olíukyntar neyðarrafstöðvar oft á ári, sem ekki anna álaginu.  

Þá er í sáttmálanum boðað, að sett verði lög um vindorkuver og að samdar verði leiðbeiningar um skipulag og leyfisveitingar fyrir sveitarfélög, þar sem áform eru uppi um uppsetningu vindorkuvera.  Hér þarf að taka tillit til séríslenzkra aðstæðna fyrir burðarþol og styrk vindmyllumannvirkja, þar sem vindhviður geta orðið sterkar.  Þá þarf að huga að fuglavernd, hávaða, landslagsáhrifum og tæknilegum og viðskiptalegum tengiskilmálum við raforkukerfið í þessu sambandi. Á íslenzkan mælikvarða geta  umhverfisáhrif af vindmyllugörðum verið veruleg, og vinnslukostnaður raforku og tengikostnaður við raforkuflutningskerfið sömuleiðis.  Hins vegar má oftast hafa af þeim full not, þegar vindur blæs, því að þá má spara vatn í miðlunarlónum vatnsaflsvirkjana.

Í þessum kafla er síðan grein um fráveitur:

"Gera þarf átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, en veruleg þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki."  

Þetta er mjög tímabært.  Það er ekki fullnægjandi að grófsía og dæla svo soranum út fyrir stórstraumsfjöru.  Það þarf fínsíun niður í 5 míkron, t.d. til að fanga megnið af plastögnum  áður en þær fara í sjóinn.  Þá þarf að gera kröfu um þriggja þrepa hreinsun frá starfsemi, þar sem meðaltal skolps á einhverju 3 mánaða tímabili ársins, sem endurtekur sig á ársfresti, fer yfir s.k. 50 persónueiningar.

Lokagreinin í umhverfis- og auðlindakaflanum er merkileg fyrir ýmsar sakir:

"Dýralíf á Íslandi er hluti af íslenzkri náttúru, sem ber að vernda.  Náttúran er auk þess stærsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn.  Endurskoða þarf löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum."

Hér er boðuð aukin friðun villtra dýra á Íslandi, en þörf á því virðist vera sett í samband við vinsældir Íslands á meðal erlendra ferðamanna.  Þetta er ósiðlegt viðhorf.  Íslenzku fánuna ber ekki að vernda til að viðhalda straumi erlendra ferðamanna, heldur fyrir hana sjálfa og íbúa landsins af spendýrstegundinni "homo sapiens".  Þar að auki er þetta vandmeðfarið, eins og margt annað, sem snertir náttúruvernd, og nægir að nefna offjölgun álfta og gæsa í landinu, sem valdið hefur bændum búsifjum. Þá þykir staðbundin friðun refs orka tvímælis fyrir jafnvægi í náttúrunni. Friðun rjúpu kann að vera tímabær vegna gríðarlegs skotkrafts, sem fylgir nútímalegum vopnabúnaði.  Allt er bezt í hófi.  

 

 

 


Utanríkisstefna nýrrar ríkisstjórnar

Lokakafli "sáttmála" Fullveldisríkisstjórnarinnar ber fyrirsögnina "Alþjóðamál".  Sá veldur nokkrum vonbrigðum.  Undirkaflinn, "Evrópa og viðskiptakjör" svarar varla kalli tímans.  Fáeinum vikum áður en ritunin fór fram, féll dómur EFTA-dómstólsins á þá lund, að með aðgerðum íslenzkra stjórnvalda til að verja lýðheilsu og búfjárheilsu gegn ógn frá hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk, að mati innlendra fræðimanna, hafi þau gerzt brotleg við skuldbindingar EES-samningsins um matvælalöggjöf ESB.  Með þessum úrskurði er ljóst, að aðild Íslands að EES felur í sér stórfellt fullveldisframsal og ekki bara lítilsháttar, eins og haldið hefur verið fram.  Þar með hefur sannazt mat margra hérlendis, að samþykkt Íslands árið 1994 á EES-samninginum fól í sér Stjórnarskrárbrot, og við svo búið má ekki standa. 

Að sjá eftirfarandi texta frá skrifurum "sáttmálans" vekur furðu í þessu ljósi:

"Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel, og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði."

Það er hægt að túlka þennan texta sem hreina uppgjöf gagnvart ESB/EES á sviði sjúkdómavarna, en því verður ekki trúað að óreyndu, og þar með stæði þessi ríkisstjórn alls ekki undir nafni.  Framvinda mála hefur þvert á móti varpað ljósi á það, hversu varasamt það er fyrir Íslendinga að innleiða færibanda gjörðir ESB gagnrýnislítið.  Sama sjónarmið er uppi í Noregi.

Þetta mál og útganga Breta úr ESB kallar á endurskoðun EES-samningsins, og í Noregi, einu af þremur EFTA-löndum í EES, gætir einnig vaxandi efasemda um EES-aðild Noregs.  Téður dómur tekur af öll tvímæli um það, að fullveldisframsalið til EES/ESB er algerlega óviðunandi og virðist vera Stjórnarskrárbrot.  Það er ólíklegt, að ESB verði til viðtals um nokkrar undanþágur frá lagasetningu sinni og sáttmálum Íslandi og Noregi til handa.  Þar með er komið að stærsta utanríkispólitíska viðfangsefni kjörtímabilsins, sem er uppsögn EES-samningsins og tvíhliða viðskiptasamningi við ESB, hugsanlega í samfloti með Noregi og/eða Bretlandi.  Það er ekkert ýjað að þessum möguleika í "sáttmálanum". Það þýðir samt ekki að reyna að skjóta sér undan þessu erfiða viðfangsefni.

Talsmenn landbúnaðarins halda enn í vonina um, að semja megi við ESB um undanþágur frá matvælastefnu þess.  Það er í ætt við óraunhæfa bjartsýni Össurar Skarphéðinssonar framan af tímabilinu 2009-2013, þegar hann sem utanríkisráðherra landsins gerði ítrekaðar tilraunir til að semja Ísland inn í ESB, en það strandaði á landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu ESB, og Össur gafst að lokum upp á þvergirðingshætti ESB, enda kaus hann að hylja vandamálið í þokuskýi í kosningabaráttunni 2013.  Litlar líkur eru á, að einhverju verði um þokað nú, en þó er sjálfsagt af núverandi utanríkisráðherra að reyna það.  Hann verður hins vegar einnig að hafa Plan B, og það hlýtur að felast í þjóðaratkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins, þegar hann hefur kynnt Alþingi, hvað í boði er að hálfu ESB. Það væri keimlík nálgun viðfangsefnisins og hjá Bretum.   

Haraldur Benediktsson, Alþingismaður og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, hefur eftirfarandi að segja við Helga Bjarnason, blaðamann, eins og birtist í baksviðsgrein hans í Morgunblaðinu, 28. nóvember 2017:

"Hvað er til bragðs að taka vegna dómsins ?":

"Við eigum að taka samtalið við Brüssel.  Við sömdum um Evrópska efnahagssvæðið á ákveðnum forsendum, og það var af ákveðinni ástæðu, sem við tókum landbúnaðarkafla ESB ekki inn í samninginn.  Mér finnst, að við eigum að fá sérstöðu okkar viðurkennda."

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, hafði eftirfarandi fram að færa, "baksviðs":

"Þessi ákvæði eru í samningum, sem hafa verið gerðir.  Við hljótum að velta því fyrir okkur, hvort við ætlum að sætta okkur við niðurstöðuna eða fara til Evrópusambandsins til að skýra stöðuna hér fyrir því og óska eftir breytingum."

"Segja má, að þetta [matvælalöggjöf ESB] hafi verið tekið upp til að tryggja frjálst flæði á sjávarafurðum til Evrópu.  Það breytir því ekki, að við erum með raunverulega og verðmæta sérstöðu og hljótum að þurfa að hugsa um, hvernig bezt er að vernda hana." 

Enn er í gildi afmarkað viðskiptabann ESB og BNA á Rússland og refsiaðgerð Rússa, sem fólst aðallega í banni á innflutningi matvæla til Rússlands frá viðskiptabannsþjóðunum.  Það hefur frá fyrstu stundu orkað tvímælis, að Ísland tæki þátt í þessu banni, því að landið flytur ekkert út af þeim vörum og þjónustu, sem eru á bannlistanum.  Refsiaðgerðir Rússa hafa mest skaðað Íslendinga og Norðmenn, en Norðmenn voru mögulegir útflytjendur á hluta bannvaranna, t.d. frá Kongsberg våpenfabrikk.  

Íslendingar eiga alls ekki að berjast nú samtímis á tveimur vígstöðvum.  Þess vegna á að gera framkvæmdastjórn ESB grein fyrir því, að fallist hún ekki á umbeðnar lágmarkstilslakanir gagnvart Íslandi, þá verði Ísland dregið út úr viðskiptabanninu.  Verði sú raunin má reikna með, að Rússar aflétti refsiaðgerðum gegn Íslandi, en ESB hefur varla nægan innri styrk til að refsa Íslendingum með viðskiptaþvingunum.  Við þær aðstæður þurfum við að reiða okkur á gott viðskiptasamband við Rússland, Bretland og önnur lönd utan ESB um tíma.  Stefnumiðið á kjörtímabilinu ætti hins vegar að vera úrsögn úr EES og gerð viðskiptasamnings við ESB á svipuðum nótum og Kanada hefur gert eða Bretar munu gera, ef hann verður okkur hagstæðari.  

 

 


Ólíkar blikur á lofti norðan og sunnan Alpafjalla

Í vor kom út efnahagsskýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.  Almennt er árangur Íslendinga í efnahagsmálum frá Hruni þar talinn til hins bezta í heiminum um þessar mundir, sem sýnir dugnað þjóðarinnar framar öðru, en það eru þó  hættumerki við sjónarrönd, sem ríkisvald, fjármálakerfi og samningsaðilar atvinnulífsins þurfa að bregðast við  af eindrægni, eigi síðar en á fullveldisárinu, 2018.  Launadeila flugvirkja hjá Icelandair er reyndar til vitnis um, að einn neisti í púðurtunnuna getur sprengt lífskjarabót undanfarinna ára út í hafsauga.  

Það yrði hræðilegt, ef ógæfu þjóðarinnar yrði allt að vopni á aldarafmælisári fullveldisins.  Þótt brokkgeng hafi verið, hefur þjóðin einmitt sýnt á einni öld, að hún verðskuldar fullveldi, hún þrífst miklu betur með fullveldi en án þess og hún hefur burði til að axla fullveldið.  

Andrés Magnússon gerði téða OECD - skýrslu að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 29. júní 2017 undir fyrirsögninni:

"Öflugur hagvöxtur, en blikur á lofti":

Hættumerkin eru greinilegust á vinnumarkaðinum.  Sem stendur glitrar hann þó sem gull af eiri varðandi kaupmátt og atvinnutækifæri í samanburði við vinnumarkað annars staðar, en glæsileg staðan er sennilega ósjálfbær.  Ástæða þess er sú, að launakostnaður fyrirtækja hefur yfirleitt hækkað meira en nemur framleiðniaukningu þeirra.  Þá er gengið á varaforða eða safnað skuldum. Ef vísitala þessara stærða er sett á 100 árið 1995, þá eru raunlaun 2017 170 og VLF/vinnustund = 158 og VLF/launþega = 153.  M.ö.o. hefur raunlaunakostnaður aukizt yfir 11 % meira en verðmætasköpun á launþega.  Þetta er aðvörun um það, að nú sé ekki borð fyrir báru og svigrúm til launahækkana að jafnaði lítið sem ekkert. Þetta á við um flugvirkja sem aðra, nema þeir hafi verið hlunnfarnir um lífskjarabætur miðað við ofangreint.  Það er mjög ólíklegt, og þess vegna er ábyrgðarhlutur þeirra, sem neita að aðlaga sig raunverulegum aðstæðum á markaði, mikill.  Þeir saga í sundur greinina, sem þeir sjálfir sitja á.  

Ríkisstjórnin þarf augljóslega að koma með útspil til að eyða téðri ósjálfbærni, því að hún verður ella senn fóður fyrir verðbólgu, sem er versti óvinur launþega og atvinnurekenda.  Þar má tína til lækkun tryggingagjalds og lækkun tekjuskatts á launþega og fyrirtæki.  

Stýrivextir Seðlabankans eru samt enn óþarflega háir að mati margra utan Peningastefnunefndar bankans, sem sá ekki ástæðu til að lækka vaxtabyrði fyrirtækja og einstaklinga á vaxtaákvörðunardegi 13. desember 2017.    Raunvextir hans eru um 2,6 %, sem skapa almennt raunvaxtastig í landinu um 5 %.  Þetta sligar atvinnulífið og dregur úr langtíma fjárfestingum þess og eykur að óþörfu greiðslubyrði ungs fólks, sem lagt hefur í mestu fjárfestingu ævinnar, kaup á fyrsta húsnæðinu. 

Tregða Seðlabankans til vaxtalækkana er misráðin.  Hann horfir um of á atvinnustigið og sér þá, að framleiðsluþættirnir eru fullnýttir, en hann horfir framhjá þeirri staðreynd, að í landinu eru yfir 6000 erlendir starfsmenn, 1/3 á vegum starfsmannaleiga og 2/3 ráðnir beint að utan af fyrirtækjunum.  Þar að auki eru 30 þúsund útlendingar búsettir í landinu.  Þetta erlenda fólk heldur uppi hagkerfi Íslands.  Gríðarlegur skortur væri á vinnuafli, ef þess nyti ekki við.  Hér er ekki einvörðungu um að ræða íbúa á EES-svæðinu, heldur líka t.d. Georgíumenn, sem eru kristnir og duglegir Kákasusmenn, komnir til að vinna, en ekki til að valda vandræðum, segja þeir sjálfir.  Þessa ótta við ofhitnun hagkerfisins gætir einnig hjá OECD, en kælingaráhrif ISK eru vanmetin:

"OECD segir þó, að þrátt fyrir, að horfur séu góðar, sé töluverð hætta á ofhitnun.  Bent er á, að kjarasamningar hafi verið gerðir af nokkru örlæti undanfarin ár, en þrátt fyrir það vilji ýmis verkalýðsfélög sækja enn frekari kjarabætur.  Stofnunin telur mikilvægt að auka aðhald í opinberum fjármálum og að peningastefnan þurfi að miðast við, að bregðast megi við auknum verðbólguvæntingum."

Skyldi nýja ríkisstjórnin vera sammála því að auka við rekstrarafgang ríkissjóðs ?  Eru auknar verðbólguvæntingar ?  Þess sér ekki stað í s.k. verðbólguálagi til langs tíma.  OECD hefur hér fengið gleraugu Seðlabankans lánuð.  

Í Businessweek 23. október 2017 var vikið að efnahagsástandinu á Ítalíu í greininni,

"La dolce procrastinazione".

Sem dæmi um slæmt ástand innviða er nefnt, að vatnsskortur hafi leitt til hættu á daglegri 8 klst vatnsskömmtun í Róm, af því að hið sögufræga vatnsveitukerfi borgarinnar leki 40 % af aðveitunni.  Þá safnist rusl upp í görðum og gras sé óslegið, á meðan borgaryfirvöld berjist við spillingarhneyksli hjá þjónustustofnunum borgarinnar.

Í október 2017 upplýsti stærsti vogunarsjóður heims, "Ray Dalio´s Bridgewater Associates", að hann hefði veðjað miaUSD 1,1 um, að hlutabréf nokkurra stærstu fyrirtækja Ítalíu mundu lækka, þ.á.m. tveggja stærstu bankanna og Enel Spa, hinnar ítölsku Landsvirkjunar.

Ítalir láta sér fátt um finnast og halda áfram að "sparka dósinni á undan sér", eins og þeirra hefur löngum verið háttur.  Á 11 ára aldri læra ítalskir skólanemendur söguna af Quintus Fabius Maximus Verrucosus, rómverska hershöfðingjanum, sem yfirbugaði með hægðinni Hannibal, hershöfðingja Karþagómanna, með því að forðast bardaga.  Hann hlaut viðurnefnið "Cunctator"-"frestarinn", og það er nú sem fyrr höfuðeinkenni ítalskra stjórnmálamanna, en ekki eftirbreytnivert.  

Tökum dæmi af flóttamönnum, sem koma sjóleiðina til Ítalíu.  Opinberlega skal taka fingrafar af öllum flóttamönnum, þegar þeir koma til Evrópu, og setja í sameiginlegan gagnagrunn ESB.  Í raun hafa Ítalir oft hunzað þessa reglu, og flóttamenn hafa haldið óskráðir til annarra landa frá Ítalíu.  Þetta er slæmt, því að landvistaróskir skal fjalla um í fyrsta komulandi umsækjanda á faraldsfæti.  Þegar slíkur flækingur birtist, t.d. á Íslandi eða í Svíþjóð, er það kerfislega eins og hann hafi borizt beint frá Mogadishu til Keflavíkurflugvallar eða Málmeyjar.  Sómalinn verður íslenzkt eða sænskt vandamál.  Ítölum hefur þannig tekizt að "sparka dósinni" norður eftir Evrópu. 

Þetta sýnir það, sem Færeyingar hafa lengi vitað, að það er ekki í lagi fyrir norðrið að deila landamærum sínum með suðrinu.  Rökrétt svar Íslands við þessu ástandi er að taka upp eigin landamæragæzlu.

Að smygla Ítalíu inn á evru-svæðið hefur verið nefnt "stærstu viðskipti sögunnar" ("the greatest trade ever"-af The Economist).  Uppgjörið fór aldrei fram, heldur lenti Ítalía í tvöfaldri kreppu í fjármálakreppunni 2007-2009, þegar iðnaðarframleiðslan dróst saman um fjórðung.  Atvinnuleysið náði 12,8 % í ársbyrjun 2014.  Ríkisskuldir Ítalíu náðu árið 2017 yfir miaEUR 2000 eða 132 % af VLF, samanborið við 96 % í Frakklandi og 62 % á Íslandi.  Viðmið Maastricht-samnings til upptöku evru er 60 %.  

Auðvitað liggur félagsleg eymd að baki þessum ítölsku tölum.  Fjöldi Ítala, sem býr við raunverulega fátækt (ekki aðeins tiltölulega fátækt), næstum þrefaldaðist á síðustu 10 árum; 4,7 M Ítala eða 7,9 % mannfjöldans, eiga ekki fyrir daglegu lífsframfæri sínu, þ.e. þeir eru vannærðir og hýrast í hreysum (Laugardalur ?!).  

Fjöldaatvinnuleysi æskulýðsins upp á 35,4 % hefur eyðilagt starfsmöguleika heillar kynslóðar Ítala og möguleika hennar til eðlilegrar fjölskyldumyndunar.  Aðeins 52,1 % ítalskra kvenna á aldrinum 20-64 ára voru í launaðri vinnu í ársbyrjun 2017.  Þetta er minnsta atvinnuþátttaka kvenna í Evrópu utan Grikklands.  

Að norrænu mati jafngilda þessar tölur dauðadómi yfir ítalska samfélaginu.  Þetta ömurlega ástand er aðallega vegna þess, að Ítölum var smyglað inn á evrusvæðið.  Samfylkingin ætlaði að smygla Íslendingum inn í þetta sama mynthelsi, þegar hún var hér í ríkisstjórn 2007-2013.  Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir það 2007-2008 og Alþingi með skilmálum sínum, þegar Össur Skarphéðinsson var hér utanríkisráðherra á vegum Samfylkingarinnar 2009-2013.

Nú hafa þau þröngsýnu og óþjóðhollu öfl, sem reru að því öllum árum að koma Íslandi í banvænan náðarfaðm ESB, verið hreinsuð út úr Stjórnarráði Íslands.  Það gerðist á Fullveldisdaginn, 1. desember 2017, þegar "Fullveldisríkisstjórnin" tók hér við völdum. Verður að vona, að hún standi undir nafni, en á það mun t.d. reyna við úrlausn hennar á úrskurði EFTA-dómstólsins um, að Alþingi hafi ekki haft heimild árið 2009 til að kveða á um undantekningar við innleiðingu matvælalöggjafar ESB.  Skýrara dæmi um fullveldisafsal verður varla fengið.  Slíkt brýtur í bága við Stjórnarskrá landsins og krefst viðbragða að hálfu stjórnvalda.  Verður Íslandi vært innan EES ? 

 

 

 


Áform ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum

Heilbrigðismálin hafa orðið bitbein í stjórnmálabaráttunni.  Loddarar hafa reynt að nýta sér sárar tilfinningar margra, sem orðið hafa fyrir heilsubresti eða orðið vitni að slíku. Lítið hefur verið gert úr þjónustu heilbrigðiskerfisins, þótt hlutlægir mælikvarðar bendi til, að það veiti býsna góða þjónustu í samanburði við heilbrigðiskerfi annarra landa. Það er hins vegar alveg sama, hversu miklu fé er sturtað í þennan málaflokk; glötuð góð heilsa verður í fæstum tilvikum að fullu endurheimt, og í sumum tilvikum verður hinum óumflýjanlegu endalokum aðeins frestað um skamma hríð með miklum harmkvælum sjúklingsins.

Talsverður hluti kostnaðar heilbrigðiskerfisins fer í að fást við afleiðingar slysa, og þar hefur læknum og hjúkrunarfólki tekizt frábærlega upp við að tjasla saman fólki á öllum aldri. Risavaxinn ferðamannageiri hefur valdið mikilli álagsaukningu á heilbrigðiskerfið, og gjald fyrir þessa þjónustu á auðvitað að endurspegla kostnaðaraukann og má ekki draga úr öðrum framlögum til geirans.

Íþróttirnar taka sinn toll og er ljóst, að of mikið álag er lagt á s.k. afreksfólk í íþróttum, sem slitnar langt um aldur fram.  Afreksfólkið er þannig að sumu leyti eins og þrælar nútímans, þótt sumir í þessum hópi auðgist vel. Ástundun íþrótta er engu að síður ein af þeim forvörnum, sem hægt er að beita gegn vesældómi, heilsuleysi og glapstigum í nútíma þjóðfélagi, þótt íþróttameiðsli séu of algeng og kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið.  Það er auðvitað svo, að betra er heilt en vel gróið, og þess vegna er því fé og tíma vel varið, sem til hvers konar slysavarna fer. Þar hafa fyrirtæki í erlendri eigu á Íslandi, t.d. álverin, farið á undan með fögru fordæmi, og stórgóður árangur hefur náðst til sjós, þótt gallaður sleppibúnaður björgunarbáta hafi kastað skugga á öryggismálin þar.  

Nú eru tæplega 300 þúsund landfarartæki skráð í notkun í landinu, og þau taka allt of háan mannlegan toll.  Fé, sem varið er til umbóta á umferðarmannvirkjum, ætti allt að miða að því að auka öryggi í umferðinni, og það er leiðarstef Vegagerðarinnar, þótt henni beri lögum samkvæmt að velja lausnir m.t.t. stofnkostnaðar og viðhaldskostnaðar, eins og eðlilegt má telja.  Tafir, sem orðið hafa á gerð nútímalegs vegar á sunnanverðum Vestfjörðum á milli Þorskafjarðar og Patreksfjarðar, stinga algerlega í stúf við þá stefnu í slysavörnum, sem hinu opinbera ber að hafa, því að þar er yfir fjallvegi að fara, sem eru varasamir að sumarlagi og stórhættulegir að vetrarlagi.  Ábyrgðarhluti þeirra, sem tafið hafa þær framkvæmdir, er mikill. Ferli umhverfismats, leyfisveitinga og kæra er hringavitleysa, sem yfirvöld verða að straumlínulaga eftir að hafa leitt téðan vegarundirbúning til lykta.   

Hugmyndafræðilegur dilkadráttur hefur afvegaleitt umræðuna um heilbrigðisþjónustuna hérlendis.  Í stað þess að snúast um gæði og skilvirkni í ráðstöfun opinbers fjár til þessa kostnaðarsama málaflokks þá hafa sumir stjórnmálamenn dregið umræðuna niður á hugmyndafræðilegt plan um það, hvort þjónustuaðilinn er opinber stofnun eða einkarekið fyrirtæki, þótt hvort tveggja sé fjármagnað úr opinberum sjóðum. Þetta er nálgun viðfangsefnisins úr öfugri átt, þar sem sjúklingurinn verður hornreka. Með því að láta umræðuna hverfast um þetta, hafa öfgasinnaðir stjórnmálamenn tekið heilbrigða skynsemi í gíslingu, og sjúklingar og skattborgarar eru hin raunverulegu fórnarlömb.  Hugmyndafræðileg öfgahyggja á ekki heima í heilbrigðisgeiranum né við stjórnun hans. Það ber nauðsyn til að styrkja faglega stjórnun þess bákns, sem hann er á íslenzkan mælikvarða. 

Þannig er það óviðunandi stjórnsýsla á þessu sviði, að í meira en eitt ár nú skuli enginn sérfræðilæknir hafa fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands.  Þetta hamlar því, að hámenntaðir og reynsluríkir læknar komi heim, setjist hér að og fái tækifæri til að beita þekkingu sinni til farsældar fyrir sjúklinga hér á landi, innlenda sem erlenda, og til góðs fyrir íslenzka ríkiskassann, því að ekkert er jafndýrt í heilbrigðisgeiranum og biðlistar hins opinbera kerfis, svo að ekki sé nú minnzt á fáránleikann, sem felst í því að senda sjúkling í aðgerð utan, þótt hérlendis sé aðstaða og mannskapur, en samning við Sjúkratryggingar Íslands vantar.  Fáránleikinn felst í því, að hugmyndafræði á röngum stað leiðir til þess, að Sjúkratryggingar Íslands greiða margfaldan innlendan kostnað til einkarekinnar stofu í Svíþjóð eða annars staðar ásamt ferða- og dvalarkostnaði sjúklings og fylgdarliðs.  Hugmyndafræði á röngum stað leiðir með öðrum orðum til bruðls með skattfé vegna tilskipunar ESB, sem gildi tók á EES-svæðinu 1. júní 2016. 

Landsspítalinn hefur ekki aðstöðu til að ráða íslenzka, fullnuma lækna sumpart vegna þess, að aðstaða hans er ófullnægjandi, þar sem ákvörðun um úrbætur í málefnum hans dróst úr hömlu á árunum eftir Hrun, en nú hefur ákvörðun verið tekin um að fullnýta Landsspítalalóðina við Hringbraut undir nýbyggingar. Framkvæmdir við s.k. meðferðakjarna, sem er hin eiginlega nýja sjúkrahúsbygging, hefst á næsta ári, 2018, en það eru a.m.k. 4 ár, þar til starfsemi getur hafizt þar, og þangað til verður að brúa bilið með einkarekinni þjónustu, ef vel á að vera, enda sé hún ekki dýrari fyrir stærsta greiðandann, ríkissjóð, en aðgerðir á Landsspítalanum. 

Hvaða máli skiptir það skattborgarana, hvort fjárfestar fá smáumbun fyrir að festa fé sitt í þessum geira, ef hvorki ríkissjóður né sjúklingarnir bera skarðan hlut frá borði ?  Hér er hræðileg fordild á ferð, sem fráfarandi Landlæknir og núverandi forstjóri Landsspítalans eru ekki saklausir af að hafa alið á.  Með slíku framferði liggja hagsmunir sjúklinganna óbættir utan garðs.

Til að styrkja stjórnun Landsspítalans, sem er stærsti vinnustaður á Íslandi, þarf að setja yfir hann stjórn, sem tali máli hans út á við og hafi samskipti við fjárveitingarvaldið og fjölmiðla eftir þörfum og sinni stefnumörkun fyrir spítalann til skamms og langs tíma í samráði við heilbrigðisráðherra, en framkvæmdastjórn hans sinni daglegum rekstri og faglegri þróun háskólasjúkrahússins.  

 

Kaflinn í stjórnarsáttmálanum, núverandi, um heilbrigðismál hefst þannig:

"Íslenzka heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það, sem bezt gerist í heiminum.  Allir landsmenn eiga að fá notið [sic!] góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu."

Það er ómögulegt að henda reiður á fyrri málsgreininni.  Hvað á að leggja til grundvallar fyrir bezt í heimi ?  Barnadauða ?  Hann er nú þegar minnstur á Íslandi, enda er aðbúnaður og mannskapur allur hinn bezti á sængurkvennadeild Landsspítalans og eftirfylgnin heima fyrir til fyrirmyndar.  Bjóða þyrfti upp á gistiaðstöðu fyrir barnshafandi konur utan af landi, sem búa ekki við þá þjónustu í heimahéraði, sem þær þurfa á að halda. Þessi þjónusta kæmi þeim bezt, sem ekki eiga frændgarð á höfuðborgarsvæðinu, t.d. konum af erlendu bergi brotnu.   

Lífslengd ?  Langlífi á Íslandi er á meðal þess hæsta, sem þekkist á jörðunni, eða 82,5 ár, og verða konur 2,6 árum eldri en karlar, sennilega af því að þær lifa heilnæmara lífi. Japanir verða allra þjóða elztir, 1,4 árum eldri en Íslendingar, enda róa Japanir ekki í spikinu, heldur éta hollmeti á borð við hrísgrjón og sjávarafurðir sem undirstöðufæði.

Það á ekki að vera stefnumið heilbrigðiskerfisins að lengja ævina sem mest, heldur að bæta líðanina.  Það er æskilegt, að boðuð "heilbrigðisstefna" fyrir Ísland marki stefnu um líknardauða fyrir frumvarp til laga um þetta viðkvæma efni, sem taki mið af því, sem hnökraminnst virkar erlendis.  Það nær í raun og veru engri átt að nota tækni læknisfræðinnar til að treina líf, sem er líf bara að nafninu til og varla það.  Slíkt er áþján fyrir alla viðkomandi og felur í sér kostnaðarlega byrði fyrir opinberar stofnanir, sem engum ávinningi skilar.  Þróunin hefur gert öfgakennda framfylgd Hippokratesareiðsins ósiðlegan við vissar aðstæður, svo að kenna má við misnotkun tæknivæddrar læknisfræði og opinbers fjár.   

Sennilega er eitt skilvirkasta úrræðið til að viðhalda góðri heilsu og að bæta hana að stunda heilbrigt líferni.  Hvað í því felst er útlistað með s.k. forvörnum og leiðbeiningum til eflingar lýðheilsu.  Þessi grein þarf að koma inn í námsefni grunnskóla um 12 ára aldur, svo að æskan skilji, mitt í hömlulítilli neyzlu, að líkaminn er ekki sorptunna, sem tekur við rusli og eitri án alvarlegra afleiðinga. 

Af ráðleggingum má nefna að halda sig frá fíkniefnum, stunda einhvers konar líkamsrækt og gæta að matarræðinu, halda sig frá sætindum og borða mikið af  grænmeti og ávöxtum.  Íslendingar eru of þungir, bæði líkamlega og andlega.  Á Íslandi eru 58 % fullorðinna íbúa yfir kjörþyngd, sem er allt of hátt hlutfall og hærra en að jafnaði í OECD, og það stefnir í óefni með ungviðið, þar sem 18 % 15 ára unglinga eru of þungir.  Þetta bendir til kolrangs mataræðis og hreyfingarleysis.  Í Japan eru aðeins 24 % fullorðinna yfir kjörþyngd.

Ekki er vafa undirorpið, að með virkri aðstoð við fólk við að breyta um lífsstíl er unnt að lækka útgjöld til lyfjakaupa og sjúkrahúsvistar.  Með starfsemi á borð við þá, sem fram fer á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands-HNLFÍ, er hægt að forða fólki frá örorku eða a.m.k. að draga úr örorkunni, sem að óbreyttu væri óhjákvæmileg.  Fjöldi "útbrunninna" einstaklinga og fólks með áfallastreituröskun eða ofvirkni hefur fengið bót meina sinna á HNLFÍ í Hveragerði.  Það er ekki vanzalaust, að heilbrigðisyfirvöld skuli ekki hafa kynnt sér starfsemi HNLFÍ nægilega til að öðlast skilning á þeim sparnaði, sem í því felst fyrir ríkissjóð, að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaði við vist og meðhöndlun skjólstæðinga HNLFÍ í þeim mæli, að almenningi verði áfram fjárhagslega kleift að dvelja þar í 3-6 vikur í senn, eftir þörfum, eins og verið hefur undanfarin ár.  Nú er svo komið, að HNLFÍ telur sig vart eiga annarra kosta völ en að krefjast hækkunar á eigin framlagi umsækjanda eða að draga stórlega úr þjónustunni, sem veitt er og flestir telja vera til mikillar fyrirmyndar.  Hefur nýr heilbrigðisráðherra nægan skilning á framtaki frjálsra félagasamtaka til að bæta þjónustu við skjólstæðinga heilbrigðisgeirans og til að lækka heildarkostnað samfélagsins af slæmu heilsufari ?  Það mun bráðlega koma í ljós, hvort þekking og víðsýni ráðherrans er nægileg fyrir hið háa embætti.   

Það hefur verið rætt um sem allsherjar lausn á heilbrigðisvanda þjóðarinnar, sem að miklu leyti er sjálfskaparvíti, að hækka framlög úr ríkissjóði til heilbrigðisgeirans.  Þetta stendst ekki skoðun sem gott úrræði.  Árið 2016 námu útgjöld til heilbrigðismála í Bandaríkjunum (BNA) 10 kUSD/íb og á Íslandi 4,4 kUSD/íb, en íslenzka heilbrigðiskerfið skorar hærra á ýmsa mælikvarða en hið bandaríska, t.d. þá, sem nefndir eru hér að ofan.  Að meðaltali nema þessi útgjöld 4,0 kUSD/íb í OECD.  Íslendingar eru líklega að fá meira fyrir jafnvirði hvers USD, sem í heilbrigðiskerfið fer, en að meðaltali á við um þjóðir innan OECD og vafalaust mun meira en Bandaríkjamenn.

Til að sýna, hversu villandi er að bera saman útgjöld þjóða til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu), þá var íslenzka hlutfallið 2016 8,6 % VLF, en 9,0 % VLF að meðaltali í OECD.  Samt voru útgjöldin á Íslandi 10 % hærri á íbúa á Íslandi en að meðaltali í OECD.  Eitt það vitlausasta, sem hægt væri að setja í heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar, væri, að framlag ríkissjóðs til þessa málaflokks skuli vera hærra en hámarkið á Norðurlöndunum, sem árið 2016 var 11,0 % x VLF (í Svíþjóð).  

Það, sem skiptir sköpum hér, er, hvernig kerfið er skipulagt, og hvernig því er stjórnað.  Það fer vafalítið bezt á því hérlendis að hafa blandað kerfi ólíkra rekstrarforma, sem standa fjárhagslega jafnfætis gagnvart aðilanum, sem kaupir megnið af þjónustunni, okkar ríkisrekna tryggingakerfi.  

 

 

 

 


Einangrunarhyggja er ekki í boði

Brexit-sinnar, þ.e. fylgjendur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ESB, boða margir hverjir, að þeir vilji sízt loka Bretland af í menningarlegu og viðskiptalegu tilliti, þegar Bretar munu hafa sagt skilið við ESB í marz 2019, heldur vilji þeir þvert á móti opna Bretland fyrir hvers konar löglegum viðskiptum um allan heim.  Þeir hafa talað um, að Bretland ætti að gegna forystuhlutverki í þágu frelsis, þegar þeir losna úr viðjum og út fyrir múra meginlandsins, "Festung Europa", sem er þýzkt hugtak úr seinni heimsstyrjöldinni og Bretland vann þá með þrautseigju bug á. 

Fyrir íslenzka hagsmuni ættu þetta að vera ágætis tíðindi.  Bretar munu ekki að óbreyttu verða hluti af EES eftir marz 2019, nema þá sem einhvers konar bráðabirgða ráðstöfun.  Ísland þarf þess vegna fyrr en seinna að ná fríverzlunarsamningi við Bretland um þær vörur og þjónustu, sem báðum ríkjum hentar.  Í fljótu bragði er það allt, nema matvæli, sem talin eru í viðtökulandinu geta valdið heilsufarsskaða að mati tilkvaddra vísindamanna á sviði manna- og dýrasjúkdóma.  Bretar sjálfir þekkja þetta vel, því að þeir hafa orðið fyrir miklu tjóni af völdum dýrasjúkdóma. Það verða varla alvarlegar hindranir á vegi Bretlands og Íslands að ná samkomulagi um þetta og helzt niðurfellingu allra opinberra innflutningsgjalda á hættulausum vörum og þjónustu.  Fyrir Ísland mundi það þýða enn betri viðskiptakjör fyrir fiskafurðir en nú tíðkast innan EES.

  Erfiðari viðgangs verður "Festung Europa", þ.e. Evrópska efnahgssvæðið-EES.  E.t.v. verður að sprengja það upp, þar sem í ljós er komið varnarleysi íslenzkra stjórnvalda gagnvart lagasetningu ESB, sem varðar lífshagsmuni hérlendis.  Með öðrum orðum er nú komið skýrar í ljós en áður, að fullveldisframsal Íslands með samþykkt EES-samningsins, sem aldrei fór í þjóðaratkvæðagreiðslu, var stórfelldara en samræmanlegt er Stjórnarskrá Íslands.  Fyrir því að yfirgefa EES er einnig vaxandi vilji í Noregi, en blekbónda er ekki kunnugt um afstöðu Liechtenstein til framtíðar EES.  Við Brexit verða vatnaskil, sem gefa kost á að endurskoða viðskiptasambönd Íslands við umheiminn með róttækum hætti.  

Tvö hagspök lögðu saman í Morgunblaðsgrein, 20. júlí 2017, og varð útkoman,

"Niður með múrana",

sem er afar fróðleg og góð röksemd fyrir haftalausum viðskiptum, svo lengi sem öðrum og mikilvægari hagsmunum er ekki ógnað.  Sennilega verður tvíhliða samningur Íslands og ESB ofan á sem endanlegt fyrirkomulag á samskiptum Íslands og ESB, því að ESB mun ekki að óbreyttu samþykkja undanþágur á frelsunum 4 eða 5 (raforkuflutningar gætu orðið 5. frelsið) og matvælalöggjöf sinni.  Ísland getur ekki undirgengizt þessar kvaðir án þess að fórna fullveldisrétti sínum, eins og nánar verður vikið að í þessari vefgrein. Grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA (Samtaka atvinnulífsins) og Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns Efnahagssviðs SA, hófst þannig:  

"Það er segin saga, að frjáls viðskipti bæta lífskjör landsmanna.  Efnahagsleg velsæld Íslendinga byggist að grunni til á alþjóða viðskiptum.  Hér sannast hið fornkveðna, að verðmætasköpunin er mest, þegar ríki sérhæfa sig í því, sem þau gera bezt og verzla það, sem þau vanhagar um, erlendis.  [Stundum er styrkur ríkja fólginn í að nýta sérstakar náttúruauðlindir, t.d. endurnýjanlega orku, hreint haf og land, eins og hérlendis, - innsk. BJo.]  

Milliríkjaviðskipti með fjármagn lúta sömu lögmálum og eru eftirsóknarverð frá sjónarhóli lánveitenda og lántaka, fjárfesta og frumkvöðla. Opnir fjármagnsmarkaðir stuðla að lægra raunvaxtastigi, auka framleiðslugetu og skjóta styrkari stoðum undir innlenda verðmætasköpun.  Bætt aðgengi að fjármagni á betri kjörum leiðir til þess, að verkefni, sem áður borguðu sig ekki, verða arðbær, sem skapar forsendur fyrir bættri auðlindanýtingu. Fámenn ríki eiga sérstaklega mikið undir í samstarfi við erlenda aðila við að nýta þau tækifæri, sem fyrir eru í landinu, og skapa önnur, sem eru heimamönnum hulin.  

Það er hagur lands og þjóðar að tryggja betra aðgengi að erlendu fjármagni.   

Beinar erlendar fjárfestingar hafa gefizt vel hérlendis, enda eru þær áhættulausar fyrir innlenda fjárfesta.  Slíkir erlendir fjárfestar færa landsmönnum, auk áhættufjármagns, nýja þekkingu á verkferlum og stjórnun á fólki og verkefnum, t.d. áhættustjórnun.  Þannig hafa öll stóriðjuverkefnin markað framfaraspor að sínu leyti í sínu héraði, nema "United Silicon" í Helguvík, þar sem erlendir fjárfestar voru lítt eða ekki viðriðnir, og þekkingarleysi virðist hafa ráðið för.  Það er afleitt vegarnesti.  

Það eru hins vegar skuggahliðar á aðild landsins að Innri markaði ESB með frjálsa flutninga fjármagns.  Ef Ísland hefði ekki haft þetta aðgengi að Innri markaðinum með fjármagn, er ólíklegt, að Hrun fjármálakerfisins íslenzka haustið 2008 hefði orðið jafnalgert og raun bar vitni um.  Hið sama má segja, ef bönkunum hefði verið stjórnað af festu og ábyrgð, þótt landið væri á Innri markaðinum.  Aðild að Innri markaðinum felur óneitanlega í sér fullveldisframsal, sem reyndist stórhættulegt á ögurstundu haustið 2008.  Af því ber að draga lærdóm. Sú áhættutaka felur í sér skammtíma ávinning og langtíma hættu.  Hvorki var að finna skjól né stuðning á EES-svæðinu né reyndar annars staðar, þegar á herti.  Sú dapurlega sögulega staðreynd sýnir, að ríkisstjórnir huga aðeins að hag eigin lands, þegar á herðir, og að það er enginn vinur lands í raun. Eina úrræðið er að standa á eigin fótum í hvaða stórsjó, sem er. Eina vörn einnar þjóðar er óskorað fullveldi hennar til að ráða sínum málum sjálf í blíðu og stríðu, sbr Neyðarlögin haustið 2008, sem björguðu landinu frá langvarandi allsherjar áfalli.    

 Allt frá miðbiki 20. aldar hefur verið rekinn harðvítugur áróður gegn beinum erlendum fjárfestingum á Íslandi og svo er enn.  Ástæðan tengdist hagsmunatogstreitu stórveldanna í Kalda stríðinu í upphafi, og hún hefur alla tíð verið af stjórnmálalegum einangrunartoga fremur en á viðskiptagrundvelli. Þessi neikvæða síbylja hefur haft áhrif á afstöðu landsmanna, sem reynslan ætti þó að hafa kennt annað.  Um þetta skrifa hagspekingarnir:

"Þrátt fyrir kosti þess að búa í opnu hagkerfi þá er áhyggjuefni, hversu neikvæðir Íslendingar eru almennt gagnvart alþjóðavæðingu.  Fyrr í vetur var gerð könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu um viðhorf landsmanna gagnvart erlendri fjárfestingu.  Sláandi var, hversu ríkjandi neikvæðar hugsanir eru í huga fólks, þegar það heyrir orðið erlend fjárfesting.  Þessari öfugþróun verður að hrinda með aukinni fræðslu og bættri málafylgju atvinnulífsins."

Þegar Bjarni Benediktsson var fjármála-og efnahagsráðherra 2013-2016, hafði hann forgöngu um að fella niður alla tolla og vörugjöld, nema af bifreiðum, eldsneyti og vissum matvælum.  Þetta var einstæður gjörningur, sem skipaði Íslendingum einhliða í hóp þjóða með minnstar innflutningshömlur á vörum.  Þessi gjörningur gerði viðskiptaumhverfið hérlendis heilbrigðara, lækkaði vöruverð í landinu, sem afnáminu nam, öllum til hagsbóta, og ruddi brautina fyrir beinar fjárfestingar erlendra verzlunarfyrirtækja á Íslandi, sem eflt hafa samkeppni, svo að verðhjöðnun er hér enn og hefur verið mánuðum saman, ef húsnæðislið neyzluverðsvísitölunnar er sleppt. 

Hrá matvæli eru ásteytingarsteinn.  Matvælalöggjöf ESB var illu heilli samþykkt á Alþingi í árslok 2009. Ísland lenti þar með á Innri markaði EES fyrir matvæli, og þar er engar undanþágur að finna. Alþingi þóttist þó reka varnagla gagnvart sjúkdómahættu með því að banna innflutning á fersku kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  Þessi varnagli var illa ryðgaður og er dottinn í sundur með nýlegum dómi EFTA-dómstólsins.  Við því verður ný ríkisstjórn að bregðast snöfurmannlega. Þar mun mæða á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, sem fara með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og utanríkismál.    

Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu kærðu varnagla Alþingis til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem taldi lagasetningu Alþingis brjóta í bága við EES-skuldbindingar Íslands, þótt landbúnaðarstefna ESB væri þar ekki meðtalin á sínum tíma, árið 1994, og hafnaði málið fyrir EFTA-dómstólinum.  Hann hefur nú úrskurðað ESA í vil og gegn Alþingi um, að varnagli þingsins brjóti í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart EES. 

Þar með er engum blöðum um það að fletta lengur, að framsal á fullveldi landsins til að verjast sjúkdómum hefur farið fram til EES.  Þetta fullveldisframsal er óviðunandi með öllu og útheimtir endurskoðun á EES- samningi Íslands og uppsögn hans, ef téð fullveldi til sjúkdómavarna fæst ekki endurheimt úr klóm Berlaymont í Brüssel.  Þessi afstöðubreyting markar þáttaskil í utanríkismálum Íslands og kemur á sama tíma og tengsl helztu viðskiptaþjóðar Íslands við EES eru að taka stakkaskiptum.  Hér er óhjákvæmilega komið helzta utanríkispólitíska viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar.  

 

 


Sámur, fóstri, og raforkumál á Vestfjörðum

Í nóvember 2017 kom út geysimyndarlegt fríblað, 2. tölublað, 3. árgangs, í 44´000 eintökum, dreift um allt land, nema höfuðborgarsvæðið og Vesturland.  Blaðið er afar fróðlegt og hefur að geyma aðsendar greinar um fjölbreytileg málefni, s.s. orkumál og atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum,  aflaukningu í vatnsaflsvirkjunum, hækkun sjávaryfirborðs, nokkur þjóðareinkenni landsmanna, loftslagsmál, sorporkustöð á Vestfjörðum og fiskeldi. Hefur blaðið hlotið verðskuldaða athygli og að því gerður góður rómur.

Blekbóndi þessa vefseturs á þarna eina grein, sem hann nefnir "Fjötra eða framfarir" og finna má sem fylgiskjal með þessum pistli. Þar er sett upp sviðsmynd fyrir Vestfirði árið 2040, ef snurðulaus  uppbygging atvinnulífs fær að eiga sér stað þar, þ.e. raforkuskortur og samgönguskortur eða léleg gæði á rafmagni og vegasambandi og tregða við leyfisveitingar hamla ekki fullri nýtingu á fiskeldisburðarþoli Vestfjarða. 

Að teknu tilliti til títtræddra orkuskipta mun atvinnuuppbygging og íbúafjölgun á Vestfjörðum útheimta á tímabilinu 2016-2040 aflaukningu um 80 MW og orkuaukningu um 400 GWh/ár, ef sú sviðsmynd höfundar, sem þar er sett fram, gengur eftir.  

Það verður þess vegna nægur markaður fyrir Hvalárvirkjun, 55 MW, á Vestfjörðum og er þörf á  Austurgilsvirkjun, 35 MW, líka, svo að Vestfirðir verði sjálfum sér nægir með raforku.  Öðru vísi verður raforkuöryggi Vestfjarða ekki tryggt, því að bilanatíðni Vesturlínu er há, og varla þykir fjárhagslega hagkvæmara og umhverfisvænna að leggja aðra Vesturlínu til viðbótar þeirri, sem fyrir er.

Þegar nýjar virkjanir á Vestfjörðum eru vegnar og metnar, er nauðsynlegt að hafa í huga, að þar stafar þeim ekki sú hætta af náttúruvá, sem virkjunum og línum víða annars staðar á landinu er búin.  Elías Elíasson, verkfræðingur og fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, skrifaði um aðsteðjandi hættu að raforkuafhendingu á landinu í Morgunblaðsgrein, 5. desember 2017,

"Rétt stefna í orkumálum":

"Í orkulögum eru ákvæði um það, hve vel skuli tryggja notendur raforku gegn truflunum í flutningskerfi.  [Þar eru lög núna brotin á Vestfirðingum - innsk. BJo.]  Hins vegar eru engin ákvæði um, hve vel skuli tryggja gegn því, að stærstu miðlunarlón tæmist.  Þar hefur Landsvirkjun sín viðmið, en hið opinbera ekki.  Ljóst er, að ef annaðhvort Hálslón eða Þórisvatn tæmist alveg, þá kemur upp neyðarástand.  Þetta getur gerzt, ef rennsli fallvatna verður miklu minna en það viðmið, sem Landsvirkjun notar í áætlanagerð sinni.  Þessu geta valdið atburðir, tengdir landinu sjálfu og gerð þess, sem ekki fara framhjá neinum, og má þar nefna:

  • Hamfaraflóð tengt eldgosi undir jökli ógna flutningsvirkjum og orkumannvirkjum.
  • Eldvirkni skemmir virkjun eða breytir farvegi vatnsfalla.
  • Öflugt eldgos, eitt eða fleiri í einu, veldur kólnun á lofthjúpi jarðar. Umskipti í veðurfari þarf hins vegar að staðfesta með mælingum í nokkurn tíma. 
  • Breytingar á streymi hlýsjávar kringum landið færa kalda sjóinn nær og kæla landið.  
  • Golfstraumurinn hægir á sér vegna aðstæðna í hafinu.  

Á Vestfjörðum stafar virkjunum og línum einna minnst ógn af náttúrunni af öllum stöðum á landinu.  Þannig þarf þar ekki að óttast tjón af völdum hamfaraflóða, öskufalls, hraunrennslis eða jarðskjálfta.  Af þessum sökum ætti í nafni þjóðaröryggis að leggja áherzlu á virkjanir á Vestfjörðum.  Samkvæmt áætlun frá 2016 nemur virkjanlegt, hagkvæmt vatnsafl á Vestfjörðum, að núverandi virkjunum meðtöldum, tæplega 200 MW, sem er um 8 % af núverandi virkjuðu afli til raforkuvinnslu á landinu.  Vestfirzkar virkjanir munu aldrei anna stóriðjuálagi, en þær mundu nýtast almenningi vel í neyð, og í venjulegum rekstri er nægur markaður fyrir þær á Vestfjörðum og um landið allt með flutningi um Vesturlínu inn á stofnkerfið.  

Í lok greinar sinnar skrifaði Elías:

"Hér er um að ræða áhættuþætti, sem að nokkru leyti eru sérstakir fyrir Ísland, en að nokkru sameiginlegir með Evrópu og Grænlandi.  Íslenzka orkukerfið er sérstaklega viðkvæmt vegna víðáttu jöklanna hér, og hve miklu munar á rennsli og þar með orkugetu, ef þeir fara að vaxa í stað þess að minnka.

Hér þarf því að fara fram viðamikil og heildstæð athugun og áhættumat til að ákveða, hvort við eigum að:

  • leggja áherzlu á að halda orkuverði lágu, eins og almenningi var á sínum tíma lofað.  [Til þess þarf að halda áfram að virkja fyrir stóriðju, sem þá kostar stækkun raforkukerfisins og greiðir í raun  orkuverð niður til almennings, eins og verið hefur.  Samkvæmt Rammaáætlun og áætlaðri orkuþörf orkuskipta og vaxandi þjóðar virðist orkulindir skorta fyrir þennan valkost - innsk. BJo.]
  • Hægja á uppbyggingu til að ná upp arðgreiðslum. [Þessum valkosti má líkja við að éta útsæðið, og hann samrýmist ekki núverandi stefnu stjórnvalda um að ljúka orkuskiptum fyrir árið 2040 - innsk. BJo.]
  • Taka frá það, sem eftir er af auðlindinni, til okkar eigin þarfa, eins og orkuskipta. [Þetta er nærtækasti kosturinn, eins og málin horfa nú við, og spannar m.a. aukningu á núverandi stóriðju í þeim mæli, sem rekstrarleyfi fást og orkusamningar takast um - innsk. BJo.]
  • Koma upp meiri stóriðju.  [Þetta verður ekki raunhæfur kostur að óbreyttu - innsk. BJo.]

Það er sameiginlegt þessum valkostum, að þeir útiloka afar umdeilt verkefni, sem er að virkja og leggja línur að endamannvirki sæstrengs, sem Landsvirkjun o.fl. hafa haft hugmyndir um að selja raforku inn á og kaupa raforku frá, þegar hér verður skortur.  Er þá ekki átt við tiltölulega viðráðanlegt verkefni tæknilega séð, sem er sæstrengur til Færeyja, heldur á milli Skotlands og Íslands, um 1200 km leið á allt að 1200 m dýpi.  Sá strengur mundi hafa jafna flutningsgetu í sitt hvora átt og mundi umturna núverandi raforkukerfi og verðmyndun raforku í landinu vegna stærðar sinnar, um 1200 MW, sem væri næstum 50 % viðbót við núverandi kerfi.  

Sláið á tengilinn hér að neðan til að lesa umrædda grein í Sámi, fóstra.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband