Landbúnaður í mótbyr

"Íslenzkur landbúnaður getur gegnt lykilhlutverki í því mikilvæga verkefni, að við sem þjóð náum árangri í loftslagsmálum.  Bændur ættu að senda stjórnvöldum tilboð strax í dag um að gera kolefnisbúskap að nýrri búgrein."

Þannig hóf Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, merka grein sína í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017,

"Tækifærið er núna".

Hann mælir þar fyrir því, sem virðist vera upplagt viðskiptatækifæri og hefur verið mælt með á þessu vefsetri. Ef vitglóra væri í hafnfirzka kratanum á stóli landbúnaðarráðherra, hefði hún tekið sauðfjárbændur á orðinu síðla vetrar, er þeir bentu henni á aðsteðjandi vanda vegna markaðsbrests, og lánað þeim ónotaðar ríkisjarðir, sem eru margar, til að rækta nytjaskóg, sem fljótlega yrði hægt að nota til kolefnisjöfnunar gegn hækkandi gjaldi.

Haraldur skrifar:

"Sauðfjárbændur hafa ályktað, að búgrein þeirra verði kolefnisjöfnuð.  Innan tíðar á að liggja fyrir fyrsta tilraun til útreiknings á bindingu og losun sauðfjárbúa."

Með vottaða kolefnisjöfnun í farteskinu við markaðssetningu lambakjöts öðlast bændur viðspyrnu á markaði, sem ríkisvaldið á að aðstoða þá við.  Ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs virðist hins vegar bara vera fúl á móti öllum þeim atvinnugreinum, sem eiga með réttu að vera skjólstæðingar hennar.  Það er alveg sama, hvort hér um ræðir sjávarútveg, laxeldi eða landbúnað, ráðherrann hlustar ekki og hreyfir hvorki legg né lið til að koma til móts við þessar greinar og aðstoða þær til að þróast til framtíðar. Menn átta sig ekki vel á, hvar stefnu þessa ráðherra í atvinnumálum er að finna.  Er hennar e.t.v. að leita í Berlaymont í Brüssel ? Þessum ráðherra virðist aldrei detta neitt í hug sjálfri, heldur reiðir sig á aðra með því að skipa nefndir.  Það er allur vindur úr þessum hafnfirzka krata, sem pólitískt má líkja við undna tusku.  

Af hverju bregzt hún ekki kampakát við herhvöt Haraldar í niðurlagi greinar hans ?:

"Gerum árið 2017 að tímamótaári, þar sem við leggjum grunn að nýrri og öflugri búgrein, kolefnisbúskap, sem getur fært okkur sem þjóð mikil tækifæri til að takast á við skuldbindingar okkar og ekki sízt að skapa með því grunn að styrkari byggð í sveitum.  Það er óþarfi að gefast upp fyrir þessu verkefni með því að senda mikla fjármuni til annarra landa [ESB-innsk. BJo] í því skyni að kaupa losunarheimildir, þegar vel má kaupa slíka þjónustu af landbúnaði og íslenzkum bændum."

Þetta er hverju orði sannara, og blekbóndi hefur bent á það á þessu vefsetri, að nú stefnir í milljarða ISK yfirfærslur til ESB út af því, að embættismenn og ráðherrar hafa skrifað undir óraunhæfar skuldbindingar fyrir hönd Íslands um minnkun á losun koltvíildis.  Þessi lömun ráðherranna umhverfis og landbúnaðar er orðin landsmönnum öllum dýrkeypt, en sá fyrrnefndi virðist aðeins rumska, ef mál á hennar könnu komast í fréttirnar.  Annars er hún gjörsamlega utan gátta, nema ef halda á tízkusýningu innan gáttar.  Þá er hún til í tuskið, enda vill hún sýna, hvernig "sterk kona" hagar sér.  Því miður er Stjórnarráð Íslands hér til umfjöllunar, en ekki Sirkus Íslands.  Sá síðar nefndi er þó áhugaverðari, enda er þar hæft fólk á sínu sviði.  

Haraldur Benediktsson fræddi okkur á því í téðri grein, að "[sem] dæmi má nefna, að mælingar hérlendis hafa sýnt, að losun vegna tiltekinnar landnotkunar, t.d. framræslu á mýrartúni, er um 80 % minni en þau viðmið, sem alþjóðlegar leiðbeiningar styðjast við."

Þetta eru allnokkur tíðindi. Lengi hefur verið hnjóðað í landbúnaðinn fyrir ótæpilegan skurðgröft, sem hafi orðið valdur að losun á 11,6 Mt/ár af koltvíildisjafngildum, sem er svipað og öll losun vegna orkunotkunar á Íslandi á láði, í lofti og á legi, að teknu tilliti til þrefaldra gróðurhúsaáhrifa af losun þotna í háloftunum m.v. brennslu á jörðu niðri.  Þessi áhrif hafa þá lækkað niður í 2,3 Mt/ár, sem er svipað og af völdum iðnaðarins á Íslandi.  Þessi mikla losun, 11,6 Mt/ár CO2eq, frá uppþornuðum mýrum átti að vera vegna niðurbrots gerla (baktería) á lífrænum efnum, en fljótt hægist á slíku niðurbroti, og hitt vill gleymast, að frá mýrum losnar metan, CH4, sem er meir en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.

Sauðfjárbændur hafa orðið fyrir barðinu á þeirri stjórnvaldsákvörðun að taka þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum Vesturveldanna gegn Rússum.  Enn muna menn eftir Gunnari Braga, þáverandi utanríkisráðherra, er hann óð gleiðgosalegur um lendur Kænugarðs og hafði í hótunum við gerzka stórveldið.  Rússar svöruðu ári seinna með því að setja innflutningsbann á ýmis matvæli frá Íslandi. 

Var lambakjöt á bannlista Rússanna ?  Það hefur ekki verið staðfest.  Það, sem meira er; Jón Kristinn Snæhólm hafði það eftir sendiherra Rússa á Íslandi í þætti á ÍNN 1. september 2017, að hjá Matvælastofnun (MAST) lægi nú rússneskur spurningalisti.  Ef MAST svarar honum á fullnægjandi hátt fyrir Rússa, þá er ekkert í veginum fyrir því að flytja íslenzkt lambakjöt út til Rússlands, var haft eftir sendiherranum.  Það er ástæða fyrir núverandi utanríkisráðherra Íslands að komast til botns í þessu máli og gefa yfirlýsingu út um málefnið.  Ennfremur ætti hann að beita utanríkisráðuneytinu til að semja við Rússa um kaup á t.d. 10 kt af lambakjöti á þriggja ára skeiði að uppfylltum gæðakröfum gerzkra.  

 

 

 


Orkuskipti útheimta nýjar virkjanir

Vestfirðingar standa nú frammi fyrir byltingu í atvinnuháttum sínum.  Það mun verða gríðarleg vítamínsprauta í samfélag þeirra og í þjóðfélagið allt, þegar laxeldi nær tugþúsundum tonna á hverju ári eða á bilinu 50-80 kt/ár, sumt hugsanlega í landkerum. Þarna er að koma til skjalanna ný meiri háttar útflutningsatvinnugrein með öllum þeim jákvæðu hliðaráhrifum, sem slíkum fylgja.  

Ný framleiðsla mun útheimta nýtt fólk.  Af þeim orsökum mun verða mikil fólksfjölgun á Vestfjörðum á næstu tveimur áratugum.  Hagvöxtur verður e.t.v. hvergi á landinu meiri en þar, þar sem Vestfirðingum gæti fjölgað úr 7 k (k=þúsund) í 12 k eða um 70 % á tveimur áratugum.  Þetta verður þó ekki hægt án þess að hleypa nýju lífi í innviðauppbygginguna, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, vegakerfi og raforkukerfi, svo að eitthvað sé nefnt.  Fyrstu hreyfingarnar í þessa veru má merkja með Dýrafjarðargöngum á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem einnig mun hýsa háspennustrengi, og niður fara á móti loftlínur í 600 m hæð. Þá er einnig gleðiefni margra, að búið er að auglýsa deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun.

Þörf fyrir raforku og rafafl mun aukast gríðarlega á Vestfjörðum samhliða vexti atvinnulífsins og fólksfjölgun.  Það dregur ekki úr aukningunni, að megnið af húsnæðinu er rafhitað, ýmist með þilofnum eða heitu vatni frá rafskautakötlum.  Ætla má, að starfsemi laxeldisfyrirtækjanna og íbúafjölgunin henni samfara ásamt óbeinu störfunum, sem af henni leiða, muni á tímabilinu 2017-2040 leiða til aukningar á raforkunotkun Vestfjarða um tæplega 300 GWh/ár og aukinni aflþörf 56 MW.  Við þessa aukningu bætist þáttur orkuskiptanna, sem fólgin verða í styrkingu á rafkerfum allra hafnanna og rafvæðingu e.t.v. 70 % af fartækjaflotanum. 

Nýlega kom fram í fréttum, hversu brýnt mengunarvarnamál landtenging skipa er.  Þýzkur sérfræðingur staðhæfði, að mengun frá einu farþegaskipi á sólarhring væri á við mengun alls bílaflota landsmanna í 3 sólarhringa.  Yfir 100 farþegaskip venja nú komur sínar til Íslands.  Þau koma gjarna við í fleiri en einni höfn.  Ef viðvera þeirra hér er að meðaltali 3 sólarhringar, liggja þau hér við landfestar í meira en 300 sólarhringa.  Þetta þýðir, að árlega menga þessi farþegaskip 2,5 sinnum meira en allur fartækjafloti landsmanna á landi.  Þetta hefur ekki verið tekið með í reikninginn, þegar mengun af völdum ferðamanna hérlendis er til umræðu.  Gróðurhúsaáhrif millilandaflugs eru 7,6 sinnum meiri en landumferðarinnar.  Þetta fer lágt í umræðunni, af því að millilandaflugið er ekki inni í koltvíildisbókhaldi Íslands.  Er ekki kominn tími til, að menn hætti að vísa til ferðaþjónustu sem umhverfisvæns valkosts í atvinnumálum ?  

Staðreyndirnar tala sínu máli, en aftur að aukinni raforkuþörf Vestfjarða.  Orkuskiptin munu útheimta tæplega 100 GWh/ár og 24 MW.  Alls mun aukin raforkuþörf árið 2040 m.v. 2016 nema tæplega 400 GWh/ár og 80 MW. Þetta er 58 % aukning raforkuþarfar og 92 % aukning aflþarfar.  Að stinga hausnum í sandinn út af þessu og bregðast ekki við á annan hátt mundi jafngilda því að láta gullið tækifæri úr greipum sér ganga.  

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, hefur samt skorið upp herör gegn virkjun Hvalár á Ströndum.  Hann hefur hlaupið út um víðan völl og þeyst á kústskapti á milli Suðurnesja og Stranda í nýlegum blaðagreinum.  Læknir, þessi, berst gegn lífshagsmunamáli Vestfirðinga með úreltum rökum um, að ný raforka, sem verður til á Vestfjörðum, muni fara til stóriðjuverkefna á  "SV-horninu".  Þetta eru heldur kaldar kveðjur frá lækninum til Vestfirðinga, og hrein bábilja.  Þróun atvinnulífs og orkuskipta á Vestfjörðum er algerlega háð styrkingu rafkerfis Vestfjarða með nýjum virkjunum til að auka þar skammhlaupsafl og spennustöðugleika, sem gera mun kleift að stytta straumleysistíma hjá notendum og færa loftlínur í jörðu.  Tvöföldun Vesturlínu kemur engan veginn að sama gagni.   

Skurðlæknirinn skrifaði grein í Morgunblaðið, 1. september 2017,

"Fyrst Suðurnes - síðan Strandir:

"Virkjunin er kennd við stærsta vatnsfall Vestfjarða, Hvalá, og er sögð "lítil og snyrtileg".  Samt er hún 55 MW, sem er langt umfram þarfir Vestfjarða.  Enda er orkunni ætlað annað - einkum til stóriðju á SV-horninu."

Hér er skurðlæknirinn á hálum ísi, og hann ætti að láta af ósæmilegri áráttu sinni að vega ódrengilega að hagsmunum fólks með fjarstæðukenndum aðdróttunum.  Honum virðist vera annt um vatn, sem fellur fram af klettum í tiltölulega vatnslitlum ám á Ströndum, en hann rekur ekki upp ramakvein sem stunginn grís væri, þótt Landsvirkjun dragi mikið úr vatnsrennsli yfir sumartímann í Þjófafossi og Tröllkonuhlaupi í árfarvegi stórfljótsins Þjórsár og þurrki þessa fossa  upp frá september og fram um miðjan maí með Búrfellsvirkjun II.  Hvers vegna er ekki "system i galskapet" ? 

Mismikið vatnsmagn í þessu sambandi er þó aukaatriði máls.  Aðalatriðið er, að það er fyrir neðan allar hellur, að nokkur skuli, með rangfærslum og tilfinningaþrungnu tali um rennandi vatn, gera tilraun til að knésetja ferli Alþingis um virkjanaundirbúning, sem hefst með Rammaáætlun, þar sem valið er á milli nýtingar og verndunar, og heldur svo áfram með umhverfismati, verkhönnun, upptöku í deiliskipulag og framkvæmdaleyfi.  Þessi sjálflægni og rörsýn er vart boðleg á opinberum vettvangi.   


Verður aukin skattbyrði umflúin ?

"Skattbyrði launafólks að teknu tilliti til tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hefur þyngzt í öllum tekjuhópum frá árinu 1998 t.o.m. árinu 2016, en þó mest frá árinu 2010."

Þetta er niðurstaða úr rannsókn Hagdeildar ASÍ, sem birt var 28. ágúst 2017.  Í þessu eru engar fréttir, og sama niðurstaða gildir um allan hinn vestræna heim.  Flest önnur vestræn ríki glíma við hagvaxtartregðu, sem kann að halda innreið sína hér fyrr en margan grunar, því að mjög sígur nú á ógæfuhlið með s.k. framfærsluhlutfall, sem er fjöldi fólks utan vinnumarkaðar sem hlutfall af fjölda á vinnumarkaði.

Höfuðmáli skiptir fyrir tekjuöflun hins opinbera, að hagkerfið hiksti ekki og sýni helzt hagvöxt yfir 3 %/ár að raunvirði.  Þá þarf skattgrunnurinn að vera sem breiðastur, svo að skattheimtan (skatthlutfallið) geti orðið sem lægst.  Nú mun ríða á að sigla á milli skers og báru varðandi skattheimtuna, svo að hún hafi sem minnzt lamandi áhrif á hagkerfið, en afli hinu opinbera þó nægra tekna til að standa straum af óumflýjanlega vaxandi útgjöldum af völdum öldrunar.  Það vitlausasta, sem yfirvöld geta gert í þessari stöðu, er að drepa mjólkurkúna.  Það er miðstéttin og hátekjufólk, sem stendur undir rekstri opinbera kerfisins að meginhluta, og gegndarlausar skattahækkanir á þetta fólk eru ígildi þess að drepa mjólkurkúna, því að þar með er verið að letja fólk til tekjuöflunar, sem gefin er upp til skatts, og á endanum verður landflótti sérfræðinga, sem er eitt það versta, sem fyrir landið getur komið.  Til þess er blindinginn Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hins vegar albúin, ef hún kemst til valda.  Í anda Hugo Chavez og Nicholas Maduros, geggjuðu sósíalistaforingjanna í Venezúela, mun téð Katrín ekki hika við að saga í sundur greinina, sem við öll þó sitjum á.

Í téðri skýrslu kvartar ASÍ undan því, að skattbyrði lágtekjufólks hafi hækkað mest.  Skattkerfið og bótakerfið mynda eina flækju, sem fáir hafa fullan skilning á.  Til einföldunar ætti að hækka skattleysismörkin upp í 250-300 kISK/mán (k=þúsund) og fella bætur niður á móti, t.d. vaxtabætur og barnabætur.  Allir njóta góðs af hækkuðum skattleysismörkum, en lágtekjufólk þó lang mest.  

Fasteignagjöld sveitarfélaganna ná ekki lengur neinni átt og eru orðin refsing fyrir að eiga húsnæði. Fyrir skuldugt ungt fólk og tekjulitla gamlingja eru fasteignagjöldin þungbær. Húseigendur borga sveitarfélögum margfaldan þann kostnað, sem þau bera af þjónustu vegna húsnæðisins.  Fasteignagjöld á höfuðborgarsvæðinu eru nú 0,20 %-0,31 %.  Með lögum ætti að lækka hámarksfasteignagjöld í 0,2 %, fjarlægja gólfið og fella þau niður af eldri borgurum til að auðvelda þeim að dvelja áfram í eigin húsnæði, öllum til hagsbóta.  Sömu sveitarfélög leggja 1,18 %-1,65 % á atvinnuhúsnæði. Þetta jaðrar við eignaupptöku og er orðið mjög íþyngjandi fyrir atvinnuvegina og ætti með lögum að lækka í hámark 1,0 %. Lágmarkið ætti að afnema. 

Útflutningsfyrirtækin berjast mörg í bökkum, þótt ISK láti nú undan síga.  Til að bæta samkeppnishæfni fyrirtækjanna væri ráð að lækka tekjuskatt þeirra niður í 12 % - 15 %.  Þetta mundi örva fjárfestingar hérlendis, auka nýsköpunarkraft fyrirtækjanna og gera þeim kleift að leggja meira fé í rannsóknir.  Óðinn skrifar um þetta í Viðskiptablaðið, 13. júlí 2017, og vitnar í nafngreinda fræðimenn:

"Í einföldu máli komast þau að þeirri niðurstöðu, að nýsköpun innan fyrirtækjanna minnkar í kjölfar hækkunar tekjuskatts á fyrirtæki í þeirra heimaríki.  Hækkun tekjuskatts um 1,5 % (frá miðgildinu 7 %) leiðir til þess, að um 37 % fyrirtækja sækja um einu færra einkaleyfi á næstu tveimur árum.  Miðgildi einkaleyfaumsókna fyrirtækja er 9,1 umsókn á ári.  Þegar hafður er í huga sá gríðarlegi fjöldi fyrirtækja, sem í Bandaríkjunum eru, þá er um verulega mikil áhrif að ræða."

Breyttar þjóðfélagsaðstæður gera enn meiri kröfur til yfirvalda en áður um gæði skattheimtu.  Frá 2007 hefur tekjuskattur einstaklinga hækkað um 34 %, útsvarið hækkað um 11 %, fjármagnstekjuskattur og erfðafjárskattur um 100 % og tekjuskattur fyrirtækja um 33 % (úr 15 % í 20 %).Fjármagnstekjuskattur er skaðlegur fyrir sparnað. Hann ætti að helminga og ekki að skattleggja verðbætur.  Erfðafjárskattur ætti að fara (aftur) í 5 %.  

Katrín Jakobsdóttir og fylgifiskar virðast aldrei leiða hugann að afleiðingum skattheimtubreytinga á hegðun skattborgarans.   Slíka greiningu er nauðsynlegt að gera til að leggja mat á afleiðingarnar fyrir hagkerfið.  Gösslaragangur og einsýni vinstri manna í umgengni við skattkerfið gerir þá óhæfa til setu í ríkisstjórn á tímum aukinnar fjárþarfar og minnkandi tekjustofna. Slík hegðun verður enn skaðlegri fyrir hagkerfið, þegar rekstur ríkissjóðs verður í járnum, eins og fyrirsjáanlegt er með minnkandi tekjuaukningu og síðan tekjusamdrætti og hratt vaxandi útgjaldaþörf.   

 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband