Okurstefna

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun er að móta sér stefnu um að verða mjólkurkýr ríkissjóðs í framtíðinni í ríkari mæli en nú stefnir í, þó að hagur fyrirtækisins sé í raun með ágætum og óvíst, að hagur landsmanna mundi batna fyrir vikið.  Kunna menn að vera að sjá fyrstu anga þessarar nýju stefnumörkunar með uppsögn fyrirtækisins á gildandi samningum um ótryggða orku. 

Það ber að gjalda varhug við þessari stefnumörkun ríkisfyrirtækis með ráðandi markaðsstöðu.  Hvers vegna ætti Landsvirkjun, sem er framleiðandi og heildsali að um 80 % raforku í landinu, sem fer til allra fyrirtækja og heimila landsins, að vera með álagningu á sína vöru, sem skilar fyrirtækinu meiri hagnaði en almennt gerist um önnur fyrirtæki í landinu ?  Slíkt er með öllu óeðlilegt og óviðunandi fyrir almenning, enda mundi slíkt virka sem hver önnur skattlagning á notendur, þ.e. heimili og fyrirtæki.  Skattlagningin á að vera í höndum Alþingis. 

Arðsemi nýframkvæmda upp á 10 %-15 % er fullnægjandi fyrir fyrirtæki á borð við Landsvirkjun, sem er lítt háð markaðssveiflum, því að 80 % orkusölunnar er í erlendri mynt, sem og lánin, og þessi orkusala til stóriðjufyrirtækjanna er að langmestu leyti tryggð nokkra áratugi fram í tímann.  Þetta þýðir, að stóriðjan verður að greiða fyrir orkuna hvort sem hún notar hana eður ei. Með fjölgun þjóðarinnar og hagvexti er einnig borðleggjandi traustur og vaxandi almennur raforkumarkaður á Íslandi, því að andstæðingar hagvaxtar verða ekki eilífir augnakarlar hér við völd.

Ótryggða orkan, sem var í fréttum fyrir skömmu, er raforka, sem Landsvirkjun treystir sér ekki til að selja sem forgangsorku, þ.e. með ströngum afhendingarskyldum, af því að hún er umframorka í góðum vatnsárum, en í lakari vatnsárum og þegar skortur er á uppsettu véla-eða spennaafli, er hún ekki fyrir hendi. 

Hvað þýðir þetta ?  Það merkir, að enginn fjárfestingarkostnaður er bókfærður á þessa ótryggðu orku, heldur aðeins rekstrarkostnaður og aðeins sá hluti hans, sem tengdur er orkuflutningum og dreifingu, en ekki aflflutningi.

Kostnaðarverð ótryggðu orkunnar er þess vegna aðeins brot af kostnaðarverði forgangsorkunnar, e.t.v. um 10 %, en hún er hins vegar seld við mun hærra verði.  Nú segja talsmenn Landsvirkjunar, að verð ótryggðu orkunnar sé lágt, en það er ekki lágt m.v. kostnaðarverð hennar annars vegar og forgangsorkunnar hins vegar.  Þeir segja líka, að sölufyrirkomulag hennar samræmist ekki markaðshagkerfinu.  Hvað eiga þeir við með því ?  Ætla þeir að nýta markaðsráðandi stöðu sína til að skapa skort á markaðinum og bjóða síðan orkuna upp ?

lv-kapall-kynning-april-2011Landsvirkjun er á rangri braut.  Hún á að þjóna fyrirtækjum og heimilum í þessu landi með því að selja þeim raforku á hagkvæmustu kjörum, sem samrýmast eðlilegum ávöxtunarkröfum til fyrirtækja á borð við hana og sem tryggja henni lán á hagkvæmum kjörum.  Fari hún að okra á viðskiptavinum sínum, er hún að fækka störfum í landinu, því að minni hagnaður orkunotenda dregur úr fjárfestingum þeirra og sköpun nýrra starfa.  Það er þess vegna þjóðhagslega hagkvæmara að láta arðsemi af orkuvinnslunni koma fram í öllu athafnalífinu og á öllum heimilum landsins en hjá einu fyrirtæki. 

Það er afar sérkennilegt, að ríkisfyrirtæki setji fram hugmyndir um að okra á eigendum sínum.  Það mun sjást undir iljar erlendra fjárfesta, þegar þeir komast á snoðir um jafnbarnalegar hugmyndir og hækkun raforkuverðs í takti við hækkanir raforkuverðs í Evrópu, þar sem orkuskortur og koltvíildisskattur hefur hækkað orkuverðið.  Nóg er fyrir Landsvirkjun að fá jaðarkostnað sinn (kostnað nýrra virkjana) greiddan með venjulegri arðsemi (10 %-15 %).  Slíkt mun skila fyrirtækinu mjög háum hreinum tekjum, því að eldri virkjanir mala henni gull og lán vegna sumra eru þegar upp greidd. 

Áhrifarík leið til að færa orkuverð á Íslandi upp og nær Evrópuverði er að leggja sæstreng til Bretlands og/eða meginlandsins, eins og myndin að ofan sýnir.  Ástæðan er sú sama og í Noregi, að orkufyrirtækin hillast til að selja meiri orku utan en miðlunarlónin þola, og verða síðan að flytja inn orku vegna orkuskorts í landinu.  Orkufyrirtækin á Íslandi mundu verða að greiða gríðarlegan flutningskostnað vegna mikils fjárfestingar-og rekstrarkostnaðar af sæstreng.  Almenningur og fyrirtæki í landinu yrðu hins vegar að búa við hækkað raforkuverð.  

Vegna vaxandi hlutdeildar vindmylla í orkumarkaði Evrópu er algerlega undir hælinn lagt, hversu góð nýting fengist á strengnum.  Þegar vindur blæs, lækkar raforkuverðið í Evrópu jafnvel undir kostnaðarverð raforku frá Íslandi, sem flutt er til Evrópu um sæstreng.  Þessi ráðstöfun mundi rýra þjóðhagslega hagkvæmni innlendra orkulinda, þ.e. lífskjörin í landinu mundu batna hægar en ella, og samkeppnihæfni fyrirtækjanna yrði lakari en annars.

Það á þess vegna að kistuleggja hugmyndir af þessu tagi en snúa sér þess í stað að nærtækari verkefnum, sem er að semja við fjárfesta um uppbyggingu hér innanlands og að selja þeim raforku á sanngjörnu verði fyrir alla aðila. Nýting orkulinda Íslands á að snúast um innflutning tækniþekkingar og fjármagns til að veita fjölbreytilegum hópi fólks atvinnu hérlendis með öllum þeim margfeldisáhrifum fyrir hagkerfið, sem útflutningsiðnaður skapar.  Ekkert bætir innviði samfélagsins betur en slík uppbygging. 

Nýtingin á einnig að beinast að gjaldeyrissparandi þróun, t.d. með aukinni notkun rafmagnsbíla á þessum áratugi og eldsneytisvinnslu, eins og reyndar þegar er hafin.  

Vegir orku til neytanda         

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband