Yfir hverju vokir hún ?

Jón Bjarnason, nýlega afsettur sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra frunta- og yfirgangsstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, eða var það niðurgangsstjórnar Evrópusambandsins, ESB, lýsti á dögunum svo kölluðum forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem friðarspilli.  Hún leitaði eftir átökum í stað samvinnu.  Lýsing hans og Atla Gíslasonar í greininni "Rangfærslur forsætisráðherra" í Morgunblaðinu, 31. marz 2012, leiða í ljós, að svo kallaður forsætisráðherra stendur að grautargerðinni, sem nú hefur birzt sem frumvarp til laga um sjávarútveginn, þó að hún hafi ekki meira vit á málefnum sjávarútvegsins en kötturinn hér á heimilinu. 

Sannleikurinn er sá, að ríkisstjórn hennar kann ekki réttri hendi í rass að taka, en fer fram með offorsi og ofstopa, sem í smærra samhengi væri kallað einelti, á hendur grundvallaratvinnugrein landsmanna, sjávarútveginum.  Hvers á þessi atvinnugrein að gjalda að mega búa við sífelldar hótanir um lagasetningu um aðför á hendur útgerðarfyrirtækjunum, sem mun brenna burt eigið fé þeirra og lama alla þróunar-og fjárfestingargetu ?  Nú er afsökun stjórnvalda sú, að þau kunni ekki að reikna, hafi með öðrum orðum reiknað vitlaust, þegar þau voru að ákvarða alræmt auðlindagjald.  Er hægt að búa við svona sljó stjórnvöld.  Auðvitað ekki.  Æ fleiri átta sig á, að núverandi stjórnvöld eru þjóðarhneisa og að nánast öruggt er, að lélegri verða stjórnvöld ekki en þessi; sama hvernig á þau er litið.    

Það blasir við, að hér er um aðför að eignarréttinum að ræða, sem fyrirtækin hafa öðlazt með löglegum hætti, og skattheimtan er svo yfirgengileg, að jafnast aðeins á við eignaupptöku.  Þetta er auðvitað nákvæmlega eftir uppskrift sameignarsinna.  Frumvarp allsherjarráðherra, Steingríms, Þistilfirðings, sem nú sleikir vinstri skósóla Brüsselvaldsins á meðan Skarphedinsson sleikir þann hægri, fer svo fjarri meðalhófi, að það er greinilega afsprengi siðblindingja, sem sjást ekki fyrir í ósvífninni.  Verði þetta frumvarp að lögum, sem vonandi aldrei verður, svo skaðlegt þjóðarhag, sem það er, mun ríkið verða að blæða fyrir afglöp hans í ekki minni mæli en stefndi í vegna afglapa hans og skósveins hans í Icesave-málinu.  Þessi maður ætlar að verða Íslendingum dýr áður en lýkur, og sjá menn hér, hversu hrikalegar afleiðingar verða af því að fela þröngsýnum ofstækismönnum mikil völd, eins og sagan sannar. 

Af málflutningi þessa manns og ráðherrans í forsætisráðuneytinu að dæma ber hvorugt þeirra snefil af virðingu fyrir atvinnuréttindum.  Þessi réttur til atvinnurekstrar er þó tryggður í Stjórnarskránni, sem reyndar er skjalið, sem bæði vilja leysa af hólmi með miklu orðagjálfri um allt og ekkert, samhengislausu og lögfræðilega óboðlegu plaggi sömdu af viðvaningum á þessu sviði að miklu leyti.  Fúskið er hið sama á öllum sviðum stjórnsýslunnar, þar sem vesæl vinstri stjórn beitir sér. Þetta fólk var þó stöðugt með nauðsyn faglegra vinnubragða stjórnvalda á vörunum, en reynist svo, þegar til á að taka, ekki kunna réttri hönd í rass að taka.  Fúskið er yfirþyrmandi. 

Auðlindarentunni er hampað af glamurskjóðum stjórnarflokkanna, sem virðist vera um megn að kafa til botns í nokkru máli.  Þær hafa aldrei borið við að skilgreina þessa auðlindarentu, heldur slá þær um sig með innihaldslausum frösum og svamla á yfirborðinu.  Nú vill svo til, að síðast, er fréttist, hafði auðlindarentan ekki enn fundizt í sjávarútveginum, enda ekki vitað til að arðgreiðslur væru hærri þar en í öðrum fyrirtækjum.  Auðlindarenta er sá arður, umfram arð af annarri starfsemi, eftir skatt, sem talinn er stafa af sérstöku aðgengi að auðlindum.  Þessar auðlindir geta verið verðlagðar eða ekki, náttúruauðlindir eða mannauður, og margt fleira.

Reikningslega er hægt að nálgast þessa auðlindarentu, en það er algerlega glórulaust að leggja á auðlindagjald sem hlutfall af meðaltalsauðlindarentu starfsgreinar.  Það verður að finna auðlindarentuna í hverju fyrirtæki og leggja á samkvæmt henni, ef á að reyna að notast við þetta haldlausa fyrirbæri.  Ríkisstjórnin, hins vegar, er ekkert að leita að auðlindarentu.  Aðferðir hennar taka út yfir allan þjófabálk.  Hún heldur því fram, að ekki sé um skattheimtu að ræða.  Þetta eru hláleg viðbrögð Steingríms, Þistilfirðings.  Á rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna virkar þessi gjaldtaka eins og ofurskattlagning.  Allur hvati eigendanna til að hætta fé sínu í atvinnurekstur hverfur þá eins og dögg fyrir sólu, ráðstjórnarslen leggst yfir atvinnugreinina, og allt drabbast niður.  Fyrir þessi reginmistök mun þjóðinni blæða, ef þau verða ekki stöðvuð í tæka tíð.  Stjórnvöld hafa nú þegar valdið fyrirtækjunum og þjóðarhag miklu tjóni með sameignarsérvizku sinni.

Viðfangsefnið hér er að hámarka hreinar tekjur, þ.e. brúttótekjur að frádregnum tilkostnaði, af mjög takmarkaðri auðlind sjávar: 

  1. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt rammalöggjöf utan um markaðslausn á þessu viðfangsefni.  Vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, sem miðar að hámarksafrakstri miða í þjóðareign til langs tíma litið, er beitt við ríkisákvörðun á heildarafla í hverri tegund.  Þjóðareign merkir hér, að útlendingar mega ekki stunda þessar veiðar í ábataskyni og stjórnvöld mega ekki hygla einstökum hópum eða byggðarlögum umfram aðra.  Því fer hins vegar víðs fjarri, að þjóðareign merki ríkiseign að lögum.  Aflahlutdeildir á skip eru á markaði, en hámark, 12 %, er á aflahlutdeild hverrar útgerðar í hverri tegund.  Þetta kerfi leiddi til tilætlaðrar fækkunar fiskiskipa, hagræðingar, gæðaaukningar, framleiðniaukningar og öflugasta sjávarútvegs í Evrópu.  Hvers konar árátta er þetta eiginlega að upphefja fáránlega og fyrirsjáanlega stórskaðlega tilraunastarfsemi, með þjóðfélagið allt undir, á því, sem svo vel hefur tekizt, að æ fleiri eru að taka upp þetta markaðsknúna fiskveiðistjórnunarkerfi. 
  2. Samfylkingin lítur á þetta kerfi sem lokað forréttindakerfi að námu.  Úrræði hennar er að ríkisvæða námuna með eignaupptöku kvótans án endurgjalds og síðan leigu afnotaréttar til svo skamms tíma, 20 ára, að öll langtímaskipulagning fyrirtækja fer fyrir róða.  Óvissa um framtíðina og skammtímasjónarmið halda þá innreið sína, fé mun flýja greinina og umgengni um miðin versna.  Í raun gengur Samfylkingin hér erinda sérhagsmunahóps, sem seldi kvóta sinn, og vill komast inn aftur, endurgjaldslaust.  Lýðskrum Samfylkingarinnar er hér fólgið í að auka réttlætið með því að fjölga í greininni, en við það fjölgar ekki fiskunum í sjónum, svo að tekjur á hvert skip og sjómann lækka og fyrirtækin veikjast.  Þjóðarhagur rýrnar.
  3. Lausn vinstri grænna er að afnema frjálst framsal og binda aflaheimildir við byggðarlögin.  Þetta þarf ekki endilega að þýða bæjarútgerðir, en það eyðileggur samkeppnisþáttinn í kerfinu, sem er þannig, að kvótinn leitar til bezt reknu fyrirtækjanna.  Af þessu leiðir minni hagkvæmni og veikari útgerðarfyrirtæki.
  4. Sjálfstæðisflokkurinn féllst að lokum á sínum tíma á að leggja umdeilanlegan viðbótarskatt á útgerðarfyrirtækin, s.k. auðlindargjald.  Þetta átti að skila auðlindarentunni til þjóðarinnar, þ.e. hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja umfram önnur fyrirtæki í landinu.  Þessi auðlindarenta er vandfundin og hæpið að leggja sérskatt á einn atvinnuveg.  Hvers vegna er ekki látið duga, að fyrirtæki með góðan hagnað leggi meira til samfélagsins á formi hærri tekna ríkisins af tekjuskattinum ?  Nú hafa vinstri flokkarnir að sjálfsögðu misnotað þessa skattlagningaraðferð með mikilli hækkun auðlindagjaldsins og hóta margföldun þess.  Skattlagningu þessa hefur þá tekið út yfir allan þjófabálk, og er einboðið að afnema hana við fyrsta tækifæri.  Nær væri að fá útgerðarfélögin til að fjárfesta í þróunarfélagi um eldsneytisframleiðslu úr jarðvarma, repju og öðru, sem losað gæti þjóðfélagið úr viðjum ofurskattlagningar á sífellt hækkandi eldneyti á formi kolefnisgjalds og koltvíildisskatts og sparað um 50 milljarða kr í gjaldeyri á ári.  Slíkt væri hagkvæm fjárfesting, sem mundi leiða til umtalsverðs sparnaður útgerðanna, er frá líður, og skapa þeim samkeppniforskot, sem þeim veitir ekki af. 

Hverjar eru þjóðhagslegar afleiðingar þess að veikja sjávarútvegsfyrirtækin, eins og báðir stjórnarflokkarnir ætla sér ?:

  • krónan mun óhjákvæmilega veikjast, ef sjávarútvegsfyrirtækin lenda í rekstrarerfiðleikum.  Þá hefst nefnilega sama hringekjan og kvótakerfið forðaði okkur frá, þ.e. útvegur á heljarþröm - gengisfelling - hækkun erlendra aðfanga - verðbólga - frysting gengis - gengisfelling - óðaverðbólga.
  • auðlindaskatturinn mun soga fé frá sjávarbyggðum til höfuðborgarsvæðis, og Alþingi mun reyna að klóra í bakkann með yfirfærslum úr ríkissjóði til illa staddra sveitarfélaga.  Þetta er gamla sagan, og hefur alltaf verið stefna afturhaldsins í landinu.  Stjórnmálamennirnir skulu aftur verða upphaf og endir afkomu almennings.  Stefna vinstri flokkanna jafngildir afturhvarfi til fortíðar með allt um lykjandi ríkisforsjá.
  •  þetta er nú réttlætið, sem lýðskrumarar Samfylkingar og vinstri grænna berjast við að koma á á Íslandi.  Afleiðingin verður aukin fátækt á Íslandi, lækkandi meðaltekjur og landið mun tapa þeirri samkeppnisviðspyrnu við aðrar þjóðir, sem það hefur nú og dragast niður á eymdarstig allra ríkja, sem þola hafa mátt eyðingu einkaframtaks og mikla ríkisforsjá. 

Ríkisstjórnin er lömuð, og frumvarp Steingríms er örvæntingarfull tilraun hennar til að blása í kulnaðar glæður.  Þau skötuhjú voru af algeru þekkingar-og ábyrgðarleysi búin að lofa einhverjum lagabreytingum um starfsumgjörð sjávarútvegsins, sem þau höfðu ekki hugmynd um, hvaða afleiðingar hefðu í för með sér fyrir atvinnugreinina og fyrir þjóðarhag.  Það er allt á sömu bókina lært.  Gösslast hugsunarlaust áfram án nokkurrar greiningar á viðfangsefninu eða afleiðingum breytinganna fyrir þjóðlífið.    

   Eigandi gengur betur um eign sínaRáðherrar ræða saman   

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Eins og er hefur ríkisstjórnin ekki meirihluta fyrir frumvarpinu, eftir að Jón Bjarna gaf út að hann styddi það ekki.

Hverjir muni hlaupa undir bagga með Jóhönnu er erfitt að segja, ekki getur hún treyst á að Lilja eða Atli komi til bjargar. Þá gefa yfirlýsingar þingmanna Hreyfingar ekki mikla von fyrir hana, þó erfitt sé að átta sig á því fólki og hvað það gerir þegar það horfir fram á að missa þingsæti sín fyrr en þau gerðu ráð fyrir. Guðmundur Steingrímsson er auðvitað traustur stuðningsmaður Jóhönnu svo líklega treystir hún á atkvæði hans. Þá má ekki gleyma þeirri þeirri staðreynd að stundum hafa þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokka hlaupið út undan sér og engu að treysta þar. Þó trúir maður því ekki fyrr en tekið er á því!

Gunnar Heiðarsson, 6.4.2012 kl. 10:26

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Rafmagnsverkfræðingi hæfir að rita langa grein um pólitíkst málefni sem hann hvorki þekkir né kann að nálgast nema eftir flokkspólitískum sleggjudómum.

Af hverju skrifarðu ekki um eitthvað sem þú kannt eða hefur vit á?

Það er margt sem hægt er að gagnrýna í þessu frumvarpi. Það eiga þeir að gera sem hafa annað til málanna að leggja en uppsuðu úr ályktunum hagsmunasamtaka þeirra sem standa frammi fyrir því að þurfa að borga fyrir aðgang að auðlind sem þeir hafa fénýtt sér án endurgjalds til eigendanna.

Árni Gunnarsson, 6.4.2012 kl. 12:46

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú vænti ég þess að sjá jafnlanga ritgerð þessum pistli þínum í athugasemdadálki Jóns Kristjánssonar fiskifræðings. Það verður ekki ónýtt fyrir hann að fá athugasemdir frá svona pottþéttum pólitískum álitsgjafa frá hollvinadeild LÍÚ.

Árni Gunnarsson, 6.4.2012 kl. 12:54

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Árni Gunnarsson er samur við sig.  Hann telur vart við hæfi, að rafmagnsverkfræðingur tjái sig um málefni líðandi stundar og gerir því skóna, að vesalingur minn sé skósveinn hagsmunasamtaka og málpípa annarra, en geti ekki myndað sér sjálfstæða skoðun um málefni utan fræðigreinar minnar.  Handhöfum svo sjúklegra sjónarmiða er aðeins unnt að vorkenna, og um þá er hægt að segja, að margur heldur mig sig.  Að láta höfunda svo lágreistra sjónarmiða múlbinda sig væri auðvitað til háborinnar skammar og reyndar stéttarskömm.  Skoðanir höfundar þessa vefseturs eiga sér sem betur fer samhljóm víða og verða ekki þaggaðar niður með holtaþokuvæli þeirra, sem telja sig handhafa sannleikans í smáu og stóru og eiga erfitt með að líða andstæðar skoðanir. 

Gleðilega páska /  

Bjarni Jónsson, 9.4.2012 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband