Dósent drepur niður penna

Landsmenn hafa mátt búa við það frá Hruni, að gelli í dósenti nokkrum, Jóni Steinssyni, frá Columbia háskóla í Nýju Jórvík á öldum ljósvakans í hvert sinn, sem RÚVurum hefur þótt þörf á að bæta í vinstri slagsíðu hins íslenzka Tass-útvarps nútímans.  Fræðimannahroki hins vesturheimska dósents leynir sér hvergi, en meir er hann grunaður um stjórnmálalega slagsíðu en fræðilega. 

Téður dósent drap niður penna í Fréttablaðinu 15. júní 2013.  Grein þessi er engum dósent fræðilega sæmandi að mati höfundar þessa pistils.  Þar eru frasar á borð við: "Veiðigjaldið á að tryggja, að þjóðin njóti sanngjarns hluta þess auðlindaarðs, sem sjávarauðlindin skilar".  Hvað í ósköpunum er "sanngjarnt" í þessu sambandi ?  Hvers vegna fæ ég, sem ekki hef hætt einni krónu til útgerðarstarfsemi, ekki heimsenda ávísun frá útgerðinni fyrir hver jól ?  Það, sem einum þykir sanngjarnt í þessu sambandi, þykir öðrum ósanngjarnt.  Mér þykir ósanngjarnt, að fé sé rifið af framlegð útgerðarinnar, ekki reiknað af hagnaði hennar, og því hent í ríkiskassann.  Miklu sanngjarnara hefði verið að losa útgerðina algerlega undan þessari rányrkju skattmanns, svo að hún geti endurnýjað hjá sér skipastól, sem er orðinn of gamall og stendur núorðið þeim norska og færeyska að baki.  Tekjur ríkissjóðs kæmu þá af virðisaukaskatti umsvifanna og tekjuskatti fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra.   

Þessi dósent vill bjóða afnotaréttinn að sjávarauðlindinni upp.  Hvar annars staðar er það gert ?  Þetta er óhemju heimskuleg hugmynd.  Með þessu yrði girt fyrir langtímahugsun í sjávarútvegi með rányrkju og brottkasti sem afleiðingu.  Sjávarútvegurinn mundi drabbast niður, því að hvaða heilvita maður mundi fjárfesta í grein, sem hann vissi ekki, hvort hann getur stundað lengur en í eitt ár ?  Málflutningur af þessu tagi gerir dósentinn að ómerkingi. 

Þessi maður, sem titlar sig dósent í hagfræði við vesturheimskan háskóla, gerir sig síðar í téðri grein sekan um að þekkja ekki muninn á framlegð og arði.  Hann skilgreinir "auðlindaarðinn" sem mismuninn á tekjum útgerðarinnar, launagreiðslum, viðhaldskostnaði, "öðru þess háttar" og "eðlilegum arði af því fé, sem útgerðin hefur lagt í reksturinn".  Þannig fær hann 56 mia kr árið 2011 "á verðlagi ársins 2012".  Þetta er tóm vitleysa hjá dósentinum eða "alger steypa", eins og sumir taka til orða nú á dögum.

Það, sem vesalings dósentinn er að burðast við að reikna, er framlegð útgerðarinnar, en með framlegðinni verður hún að standa straum af afborgunum og vöxtum af lánum sínum, afskrifa, fjárfesta og greiða venjulega skatta og síðan arð.  Þegar auðlindagjaldið er reiknað af framlegðinni, eins og dósentinn gerir og Steingrímur, jarðfræðingur, einnig, þá verður einmitt minna eftir til endurnýjunar og tækniþróunar, sem leiða mun óhjákvæmilega til hrörnunar flotans, lakari samkeppnistöðu íslenzku útgerðarinnar á erlendum mörkuðum og þar af leiðandi versnandi lífskjara íslenzku þjóðarinnar.  Þetta samhengi er vinstri mönnum fyrirmunað að skilja.  Þeir lemja hausnum við steininn, enda er hér um að ræða eignaupptöku, sem hefur þegar gengið frá litlum og veikum útgerðum  og mun tortíma öllum einkafyrirtækjum í útgerð á einum áratugi.  Með misnotkun skattheimtuvalds á hendur útgerðinni er söguð í sundur greinin, sem íslenzka samfélagið situr á.

Einhverjir starfsmenn Háskóla Íslands munu hafa hleypt af stað undirskriftasöfnun við áskorun til þingsins um að hætta við að breyta Steingrímslögunum um ofurgjaldtöku á útgerðina, sem eru þó óframkvæmanleg, af því að skattayfirvöld hafa ekki aðgang að nauðsynlegum gögnum til að leggja svíðingsgjaldið á.  Stjórnarandstaðan fékk móðursýkiskast yfir því, að forsprökkunum var boðið til Alþingis til að ræða málið og yfirmenn þeirra fengu afrit fundarboðsins.  Það er óskiljanlegt, hvers vegna yfirmenn þeirra máttu ekki frétta af þessu fundarboði.  Maður skyldi þó halda, að betra væri, að þeir vissu, hvers vegna starfsmenn hlypu úr vinnunni.  Hafði stjórnarandstaðan e.t.v. grun um, að þessir tvímenningar hefðu verið að svíkjast um í vinnunni með því að gaufa við vitlausustu undirskriftasöfnun, sem um getur ? 

Því hefur verið haldið fram, að þessi undirskriftasöfnun eigi engan rétt á sér, af því að hún hvetji til þjóðaratkvæðagreiðslu um skattamál.  Það eru einfeldningsleg rök.  Eru ekki flestir þeirrar skoðunar, að Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslurnar hafi verið býsna vel heppnaðar, og fjölluðu þær þó um skattamál, þegar öllu er á botninn hvolft ?  Það, sem gerir þessa undirskriftasöfnun hins vegar algerlega ótæka, er, að með henni er almenningur hvattur til að greiða atkvæði um, að einhver annar greiði skattana fyrir hann, í þessu tilviki tiltekinn atvinnurekstur, þ.e. sjávarútvegurinn.  Þetta er ósiðlegt og ber keim af einelti, þar sem meirihlutinn mundi kúga lítinn minnihluta til mikilla fjárútláta í þeirri von að þurfa að greiða minna sjálfur í framtíðinni, sem að vísu er algerlega borin von.  Það er alveg öfugt.  Öflugur sjávarútvegur mun vafalaust létta meira undir með skattborgurunum í framtíðinni en veiklaður sjávarútvegur.   Að leggja upp með svona lágkúru í undirskriftasöfnun er algerlega óboðlegt.      

Borgaralega þenkjandi öfl eru þeirrar skoðunar, og ráðherrar Laugarvatnsstjórnarinnar hafa sumir lýst sams konar viðhorfum, að fjárfestingar í sjávarútvegi séu mjög arðsamar og muni þess vegna skapa góðan hagvöxt tiltölulega fljótt.  Hagvöxtur er undirstaða raunkjarabóta, sem mun að u.þ.b. 40 % skila sér í opinbera sjóði.  Þess vegna ber að afnema grimmileg rangindi, sem sjávarútvegurinn, og þar með aðallega landsbyggðin, er beittur með ofsköttun miðað við aðra atvinnuvegi, og hvetja hann þess í stað til fjárfestinga.  Allir munu græða á því, ekki sízt ríkissjóður, en Jón Steinsson, dósent, mun þó sitja eftir "með skeggið í póstkassanum" sem og þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem liggja nú á því lúasagi að veifa hugsanlegum blóðpeningum frá útgerðinni framan í væntanlega peningaþega.  Slæm var nú frammistaða þeirra með stjórnartaumana í sínum höndum, en þetta er algerlega síðasta sort og sýnir fíflagang vinstri flokkanna í hnotskurn.

Téður dósent fullyrðir, að veiðigjaldið sé langhagkvæmasta tekjulind ríkissjóðs.  Þetta er afar ófræðimannsleg fullyrðing, enda fer réttmæti hennar algerlega eftir því, hvernig gjaldið er lagt á.  Greinargerðir umsagnaraðila um frumvarpið, þ.á.m. úr fræðimanna samfélaginu, báru með sér mjög miklar efasemdir um, að rétt væri að álagningunni staðið, svo að Jón Steinsson er staddur úti á berangri með fullyrðingu sína.  Hér skal vitna orðrétt í dósentinn, þó að málflutningur hans nái ekki máli:

"Það er vegna þess, að veiðigjaldið er einungis lagt á umframhagnað-þ.e. hagnað umfram þann hagnað, sem útgerðin þyrfti til þess að fá eðlilegan arð af því fé, sem lagt hefur verið í reksturinn.  Þar sem gjaldheimtunni er hagað með þessum hætti, hefur hún ekki áhrif á hegðun fyrirtækjanna (nema hvað þau greiða vitaskuld lægri arðgreiðslur til eigenda sinna).  Með öðrum orðum, jafnmargir fiskar verða dregnir úr sjó og jafnmikil verðmæti búin til úr þeim, hvort sem veiðigjaldið er tíu mia kr eða þrjátíu mia kr.  Hagnaður útgerðarinnar er ævintýralegur í báðum tilvikum."

Það er með ólíkindum, að kennari við bandarískan háskóla skuli gera sig sekan um annað eins skilningsleysi og rangfærslur staðreynda og þarna koma fram.  Er hann virkilega að kenna bandarískum stúdentum hagfræði af þessu tagi ?  Málflutningurinn mundi sóma sér úr penna kennara við Havana háskóla á Kúbu, þó ekki í hagfræði, heldur í marxískum fræðum um það, hvernig koma á auðvaldinu á kné og svæla atvinnustarfsemi undir ríkið.  Téður dósent gerir þarna engan greinarmun á framlegð upp í fastan kostnað annars vegar og hins vegar hagnaði.  Slíkt rugl er dauðasök fyrir umræðu um atvinnumál. 

Ef sjónarmið Jóns Steinssonar, dósents, hefðu verið ríkjandi á 19. öld, þá mundu sjómenn enn róa til fiskjar á árabátum, þilskipaútgerð hefði aldrei hafizt hvað þá vélbátaútgerð og togaravæðing.  Fiskar væru að sönnu dregnir enn úr sjó, en vegna skattlagningar, sem hirðir lungann úr framlegðinni, þá hefði engin fjárfestingargeta myndazt, og þess vegna hefði enginn lánað til fjárfestinga, og engin þróun orðið.  Ísland væri þá enn fátækt land, og fiskimið Íslands væru þá örugglega nýtt af útgerðum annarra landa, sem væru miklu tæknivæddari en sú íslenzka.  

Íslenzkur sjávarútvegur á í harðvítugri samkeppni við erlendan sjávarútveg, sem jafnvel er stórlega niðurgreiddur af hinu opinbera.  Íslendingar saga þess vegna í sundur greinina, sem þeir sitja á, með því að beita sjávarútveginn skattlagningu, sem gerir honum erfitt fyrir í samkeppninni, ekki sízt með vanhugsaðri og/eða hatursfullri eignaupptöku, sem á sér enga hliðstæðu í nágrannalöndunum og alls ekki í Bandaríkjunum, þó að þaðan berist nú gjallandi boðskapur, sem á sér engan hljómgrunn þar.  

  Þórshöfn í Færeyjum  

 

   Eigandi gengur betur um eign sína

   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Flott grein Bjarni.
Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 23.6.2013 kl. 14:32

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurjón;

Þegar mönnum blöskrar ofstækið, innantómur áróðurinn og rétttrúnaðarhugarfarið, verður að stinga niður fæti.  Hvorki einstaklinga né fyrirtæki, hvað þá atvinnugreinar, á að vera hægt að fara með eins og féþúfu hins opinbera.  Sé það gert, lognast lögleg starfsemi út af, en svarti markaðurinn blómstrar.  Ég gat ekki betur heyrt en skattstjóri héldi því fram í viðtali nýlega, að svarti markaðurinn hefði aldrei verið jafnstór og núna.  Er einhver hissa á því, þegar skattahækkunarferill vinstri stjórnarinnar er hafður í huga.  Nú umturnast vinstri menn, þegar skattalækkanir ber á góma og bera við tekjulækkun ríkissjóðs.  Lægri skattheimta mun draga úr skattsvikum, sem er gríðarlegt samfélagslegt réttlætismál.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 23.6.2013 kl. 14:56

3 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þarf ekki nema eitt orð til að gera þessi furðulegu og einfeldniglegu grein marklausa með öllu Bjarni.

EINOKUN

EINOKUN á ekkert erindi inní neina atvinnustarfsemi eins og niðurlægingin sem á sér stað innan útgerðarinnar sannar svo sannarleg.

Ólafur Örn Jónsson, 23.6.2013 kl. 17:19

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég kannast ekki við að útgerðarmenn hafi tekið mikla áhættu. Þeir hafa greitt sjálfum sér mikinn arð og fengið svo skuldirnar afskrifaðar. Ef þeir eiga svona bágt þá geta þeir alveg snúið sér að annarri atvinnugrein þar sem þeir geta fengið hlutina ókeypis (þeir vita kannski af einhverju slíku).

Hvað varðar hugtakið "sanngirni" þá hefur það ákveðna merkingu. Útgerðarmenn hafa ekkert gert til þess að byggja upp sjávarauðlindina og það er ekkert sem mælir með því að einn hafi forréttindi fram yfir annan til þess að nýta þessa auðlind. Ef útgerðarmenn vilja ekki veiðigjald þá eiga þeir að afsala sér einkaréttinum. Það er sanngjarnt. Fyrir því liggja sterk rök og Því er það ekki misjöfn tilfinning manna sem þarna ræður.

Hafa ekki úttektir sýnt að sjávarútvegurinn er búin að skuldstetja sig margfalt það sem fer í að endurnýja flotann. Það er arðrán útgerðarmanna en ekki ónóg arðsemi sem skýrir það ef flotinn er ekki nægilega endurnýjaður. 

Umræðan hefur ekki snúist um að yfirmaðurinn mætti ekki fá fundarboðið heldur að það þykir óeðlilegt að ráðherra tók að sér að uppfræða yfirmanninn. 

Útgerðarmenn hafa sjálfir rukkað fyrir afnot af kvóta og það er það kallað kvótaleiga eða framsal. Nú á allt í einu að kalla þetta skatt af því að hentar rökfærslum LÍÚ. Er þá löglegt að útgerðirnar hafa verið að rukka aðrar útgerðir um skatt og kallað þennan skatt leigu. 

Bullið í þessari færslu er til skammar fyrir höfundin og speglar afleita hæfni til rökhugsunar. Kannski eru dósendar einfaldlega gáfaðri en taglhnýtingar sægreifanna. 

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 18:42

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hvað er einokun Ólafur,? Fréttastofa þjóðarinnar RÚV.einhliða ruddaleg og til skammar.

Helga Kristjánsdóttir, 23.6.2013 kl. 18:46

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég vil spyrja höfund einnar spurningar:

 Fyrir þann sem er fylgjandi einstaklingsfrelsi til orðs og æðis, þjóðfrelsi og markaðsbúskap, með lágmörkun opinberra umsvifa, hvernig getur sá verið fylgjandi einokun á sjávarauðlindinni?

Sá sem er einstaklingsfrelsi til orðs og æðis, þjóðfrelsi og markaðsbúskap, með lágmörkun opinberra umsvifa hlýtur að vera þeirrar skoðunar að öllum sér frjálst að stunda veiðar og menn keppist bara um aflan þangað til búið er að veiða upp í heildarkvóta. 

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 18:46

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Helga Kristín ef fréttastofa RUV er "einhliða ruddaleg og til skammar" þá er það ekki kallað einokun heldur eitthvað annað. Ég bendi þér á að nota orðabók fyrst þú átt erfitt með að skilja hugtakið.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 18:49

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ólafur;

Þig skortir ekki orðaleppana frekar en fyrri daginn, en meir góð rök.  Einokun í þessu sambandi er náttúrulega eins og út úr kú, þar sem útgerðarmenn fylgja aðeins leikreglum hins opinbera, veiðiheimildir ganga kaupum og sölum og líklega hafa yfir 90 % núverandi veiðiheimilda verið keyptar.  Þetta einokunartal er álíka gáfulegt og að kalla bændur landsins einokara, af því að aðrir en landeigendur mega ekki nýta viðkomandi land án leyfis eða samninga. 

Bjarni Jónsson, 23.6.2013 kl. 20:41

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Jakobína Ingunn Ólafsdóttir;

Þú skrifar eins og útgerðarmenn séu burgeisar, sem hafi keypt peningatré, sem aðeins þarf að vökva og tína síðan af þeim seðlana.  Þetta er fullkomið vanmat á starfseminni.  Það er meiri áhætta fólgin í útgerð en í margri annarri atvinnustarfsemi.  Það er vegna þess, að það er ekki á vísan að róa, aflabrögð eru duttlungafull, stjórnvöld eru duttlungafull, eins og dæmin sanna, og markaðirnir eru sveiflukenndir.  Hvernig dettur þér í hug að skrifa, að útgerðarmenn hafi ekkert gert til að byggja upp sjávarauðlindina ?  Þegar kvótakerfið var sett á, voru helztu veiðistofnar á Íslandsmiðum að hruni komnir.  Stjórnvöld skáru niður veiðiheimildirnar, og útgerðarmenn unnu með vísindamönnum og stjórnvöldum að því að reisa veiðistofnana við.  Gleðilegur árangur hefur komið í ljós á síðustu árum.  Grillur um "forréttindi fram yfir annan til þess að nýta þessa auðlind" bera ekki vott um mikinn skilning á því, að um takmarkaða auðlind er að ræða, sem útgerðarmönnum var úthlutaður aðgangur að á grundvelli veiðireynslu, en veiðiheimildirnar hafa síðan gengið kaupum og sölum og lenda þá, samkvæmt lögmálum hins frjálsa markaðar, hjá bezt reknu fyrirtækjunum.  Sóknarmark eða "ólympískar veiðar" eru alls ekki jafn þjóðhagslega hagkvæmar og aflahlutdeildarkerfið, því að kostnaður á sóknareiningu verður hærri, meðferð aflans verður mun lakari og verð fyrir aflann þar með lægra.  Það er alþjóðlega viðurkennt, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið er bezt fallið til að tryggja sjálfbæra nýtingu miðanna, og þessi áróður á hendur íslenzkum útgerðarmönnum, sem þú og þínir líkar viðhafa, er til háborinnar skammar.

Bjarni Jónsson, 23.6.2013 kl. 21:09

10 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll, Bjarni ég hef spurt fólk um veiðigjaldið ekki fengið en svör svo haldgóð séu eins og þetta hvert eiga peningarnir að fara ekkert svar ekki heldu hve gjaldið leggst á útgerðirnar á landsbyggðinni sem gæti gengið að henni dauðri en hagnaður af henni var einungis 344 milljónir smábátana.
Síðan skrifa ein þetta annarstaðar.

Þessi peningur fer í gæluverkefni sem nokkrir stjórnmálamenn með of mikil völ vilja.
Ekkert fer í heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða velferðarkerfi.
Peningurinn sem er tekinn af útgerðinni fer misgáfuð verkefni sem misvitrir stjórnmálamenn vilja. Dæmi:
600 milljónir í "netríkið Ísland"
150 milljónir í grænar fjárfestingar (nákvæmleg útfærsla vantar)
1000 milljónir í grænn fjárfestingasjóður (bíddu er það ekki það sama og grænar fjárfestingar?)
1500 milljónir í "grænkun fyrirtækja" .... þetta er gríðarlegur peningur. Og það er ekki útlistað nánar um hvað þetta þýðir.

Það eru fleiri gæluverkefni Samfylkingar og VG þara. Blautur draumur þeirra.
En er þetta virkilega sem við viljum. Er þetta forgangsverkefni?
Ekkert af þessu fer í hluti sem tengjast velferðarkerfinu eða heilbrigðiskerfinu.
Umræðan er á villigötum.

http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/7175

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 23.6.2013 kl. 21:11

11 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sæll Bjarni

Þú segir:  Hvernig dettur þér í hug að skrifa, að útgerðarmenn hafi ekkert gert til að byggja upp sjávarauðlindina ?  Þegar kvótakerfið var sett á, voru helztu veiðistofnar á Íslandsmiðum að hruni komnir.  Stjórnvöld skáru niður veiðiheimildirnar, og útgerðarmenn unnu með vísindamönnum og stjórnvöldum að því að reisa veiðistofnana við.

Þeir sem fengu gjafakvóta voru ekki þeir sem fórnuðu heldur voru það hinir sem ekki fengu gjafakvóta sem færðu fórnirnar. 

 Þú ferð að tala um hagkvæmni þegar ég spyr þig um hugsjónir þínar sem þú segir að séu: instaklingsfrelsi til orðs og æðis, þjóðfrelsi og markaðsbúskap, með lágmörkun opinberra umsvifa. 

Augljóslega ert þú kommúnisti af hagkvæmnisástæðum þótt þú viljir titla þig annað við hátíðleg tækifæri.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 21:25

12 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hvað er að "vera alþjóðlega viðurkennt". Er það eitthvað sem er viðurkennt í alþjóðasamfélaginu sem hefur hvorki heimilisfang, netfang né heldur svarar í síma*

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 21:29

13 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jakobína Ingunn;

Þú skrifar, eins og þú sért nýdottin ofan úr tunglinu.  Þetta gamla gjafakvótatuð er lýðskrum.  Alþingi ákvað árið 1983 að viðhafa þá aðferð að úthluta takmarkaðri auðlind til þeirra, sem höfðu þeiggja ára veiðireynslu í viðkomandi tegund.  Ég veit ekki betur en svipuð aðferð hafi verið viðhöfð annars staðar, þar sem aflahlutdeildarkerfið hefur verið tekið upp, en þróunin víða í heiminum virðist vera í átt til aflahlutdeildarkerfis.  Til að þú getir glöggvað þig örlítið á fiskveiðistjórnunarmálum í heiminum, sem ekki veitir nú af, bendi ég þér á grein í "The Economist", 25.02.2012, "How to stop fishermen fishing". 

Ég hlýt að vera eini maðurinn í Íslandssögunni, sem er "kommúnisti af hagkvæmniástæðum".  Slíkt hélt ég, að hefði aðeins tíðkazt í kommúnistaríkjunum.  Annað, sem ég er þá að líkindum einn um, er að vera kommúnisti og stuðningsmaður aflahlutdeildarkerfisins.

Er ekki heil brú í þér ?

Bjarni Jónsson, 23.6.2013 kl. 22:14

14 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það er útaf fyrir sig stalíniskt að banna nýliðun í atvinnugrein. En jú af hagkvæmnisástæðum. En stalínískt engu að síður.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 22:40

15 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Auðvitað getur frelsið verið byrði en þá eiga menn að játa að þeir eru ekki hlynntir frelsinu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 22:41

16 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Nú svo geta menn auðvitað játað að þeir séu aðeins hlynntir frelsi hinna útvöldu. Það er nefnilega ekki hægt að færa rök fyrir því frá hugmyndalegu sjónarmiði að það sé frjálshyggja að banna yfir 90% þjóðarinnar aðgang að atvinnugrein.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 22:45

17 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

edit: hugmyndafræðilegu sjónarmiði

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2013 kl. 22:46

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

90% þjóðarinnar er EKKI bannaður aðgangur að þeirri atvinnugrein sem hér um ræðir. Það hefur alltaf þurft startkapítal til að hefja atvinnurekstur á nánast hvaða sviði sem er. Margir hafa selt íbúð sína og leigt sér húsnæði til að geta keypt sér atvinnufyrirtæki, og þetta á líka við um trillubáta og stærri báta.

En það er út í bláinn að tala um, að allir Íslendingar geti farið að gera út. Það eru ekki allir reiðubúnir til þeirra fórna, sem það krefst, að ógleymdri kunnáttunni til verka!

Og verði afnotarétturinn að sjávarauðlindinni boðinn upp, munu ríkustu útgerðir geta keypt sér mestar aflaheimildir og ennfremur þær, sem eiga mestan aðgang að lánsfé frá bönkum og ýmsum sjóðum. Þess myndi Jón Jónsson á götunni ekki njóta.

Jón þessi Steinsson spilar á öfundina og hefur einungis upp á gervilausnir að bjóða.

Gott hjá þér, Bjarni, að rita um þetta mál -- ég á þó eftir að lesa framhaldið af upphafinu (kominn inn í umræðuna um J.St.) og segi því ekki álit mitt hér á allri síðunni.

Jón Valur Jensson, 24.6.2013 kl. 00:07

19 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Jón Valur ég er ekki að segja að allir Íslendingar eigi að fara að gera út heldur að allir Íslendingar eigi að hafa rétt til þess að gera út.

Það er fáránlegt að yfir 90% Íslendinga þurfi að greða fjárkúgunarfé til útvaldra til þess að fá að stunda atvinnugrein. 

Svona orðaskak eins og að menn séu öfundsjúkir, reiðir, bitrir eða eitthvað þaðan af verra er ekki sæmandi í viti borinni umræðu. Notkun á svona orðum hefur þann tilgang að drepa niður dómgreindina og er forheimskandi og elur ekkert af sér annað en lágkúru.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.6.2013 kl. 00:26

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vitaskuld eru ýmsir öfundsjúkir, reiðir, bitrir í þessu máli, eins og oft kemur í ljós í umræðunni, og það er að einhverju leyti skiljanlegt, en almennt er það ekki sæmandi.

Ályktun þín í lokasetningunni hefur ekkert sönnunarvægi, Jakobína.

Og þú hefur ekki afsannað þá staðreynd, að hver sem er getur keypt sig inn í þessa atvinnugrein, hafi hann til þess peninga. Hafi hann þá ekki, getur hann heldur ekki keypt sig inn í annan atvinnurekstur með hliðstæðu umfangi.

Jón Valur Jensson, 24.6.2013 kl. 00:34

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Fyrirgefðu Jón Valur en fólk þarf ekki að kaupa réttinn til þess að stunda aðrar atvinnugreinar. Ef það þarf að kaupa eignir kaupir það þær af réttmætum eigendum eignanna en ekki eihverjum sem telja sig þess umkomna að sela þjóðareignina.

Lokasetningu minni er ekki ætlað hafa sönnunarvægi. En ef þú ert ekki sálfræðingur þá hefur þú lítinn grundvöll til þess að sálgreina fólk og gerir bara sjálfan þig að fífli þegar þú reynir það.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.6.2013 kl. 02:14

22 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gáðu fyrst hvernig dósent er skrifað fullkomnunnarsinni. Einokun er án þess ég þurfi að líta í fræðbækur,stofnun sem tekur sér rétt til að nota mipil í eigu þjóðarinnar í eigin áróður og hafðu það.

Helga Kristjánsdóttir, 24.6.2013 kl. 03:09

23 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Leiðrétt miðil,ekki mipil.

Helga Kristjánsdóttir, 24.6.2013 kl. 03:10

24 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Nei Helga það er ekki einokun en ef rétt er þá mætti tala um misnotkun. Hugtak sem flestir forystumenn sjálfstæðisflokksins hafa ekki skilning á.

Dæmi: Þegar Illugi Gunnarsson lánar vini sínum og skoðanabróður Bjarna Benediktssyni starfandi stjórnarformanni N1 1.8 milljarða úr sjóði 9 sem þó mátti ekki nota í áhættufjárfestingar en sjóðurinn fékk þessa fjármuni aldrei endurgreidda þá er það kallað MISNOTKUN ekki einokun. (orðið glæpur er líka nothæft).

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.6.2013 kl. 10:38

25 Smámynd: Skeggi Skaftason

Af hverju segirðu að Jón Steinson sé vinstrisinni??

Í fyrsta lagi er það bara alrangt. Veit ekki betur en ða Jón Steinsson standi nálægt mörgum mönnum í Sjálfstæðisflokknum.

Í öðru lagi, hvaða andskotans máli skiptir það?

Mér finnst það veikja þinn málflutning verulega að eyða löngu máli í að reyna að gera lítið úr manninum og reyna að klína á hann einhverjum pólitískum stimpli.

Skeggi Skaftason, 24.6.2013 kl. 11:31

26 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, aftur, Jakobína Ingunn;

Það sem mér þykir mest áberandi í gagnrýni þinni á kvótakerfi fiskveiða, er takmarkað aðgengi að auðlindinni.  Kvótakerfið var einmitt sett á vegna þess, að auðlindin var takmörkuð og of mörg skip og of mikill mannskapur við veiðarnar til að sjávarútvegurinn bæri sig.  Kvótakerfið leysti þetta vandamál bærilega, því að veiðiskipum fækkaði og sjómönnum fækkaði, svo að framleiðnin stórjókst, þó að veiðheimildir hafi dregizt saman á kvótatímabilinu.  Ef aðgengi verður gefið frjálst, þá munum við fljótlega standa í sömu sporum og 1983, og sjávarútvegurinn verður þá ekki sú efnahagslega burðarstoð samfélagsins, sem hann er núna, heldur baggi.  Alþingi bjó til þennan ramma fyrir útgerðarmenn og sjómenn að keppa innan.  Þú vilt kalla þessa stjórnun á nýtingu takmarkaðrar auðlindar Stalínisma.  Þú getur notað þær nafngiftir, sem þér sýnist, en á meðan þú færir ekki rök fyrir kerfi með minni tilkostnaði per sóknareiningu, þá falla nafngiftir þínar og órökstuddu fullyrðingar dauðar niður. 

Bjarni Jónsson, 24.6.2013 kl. 18:36

27 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Skeggi;

"Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá."  Umfjöllunarefni mitt í ofangreindum vefpistli var grein Jóns Steinssonar, dósents, í Fréttablaðinu hinn 15. júní 2013, "Veiðigjaldið er langhagkvæmasta tekjulindin".  Að mínum dómi lýsir grein þessi vinstri sinnuðum viðhorfum fremur en hægri sinnuðum.  Eitt af því, sem skilur að hægri menn og vinstri menn er afstaðan til skattlagningar fyrirtækja.  Grein dósentsins er einn samfelldur mærðarsöngur um ofurskattlagningu á sjávarútveginn.  Þessi boðskapur er margar sjómílur frá stefnu Sjálfstæðisflokksins, hvort sem téður Jón stendur "nærri mörgum mönnum í sjálfstæðisflokkinum" eður ei.  Undrunarefni mitt er, ef "fræði" af þessu tagi eru kennd við Columbia háskóla í Nýju Jórvík.  Í pistlinum hér að ofan er orðrétt tilvitnun í greinina, sem ætti að varpa ljósi á þetta undrunarefni.  

Bjarni Jónsson, 24.6.2013 kl. 21:01

28 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Bjarni ég hef hvergi sagt og mun aldrei segja að mér finnist eitthvað að því að það sé takmarkaður aðgangur að auðlindinni. Það er einfaldlega ekki mín skoðun og þess vegna segi ég það ekki.

Það er til marks um lélegan málstað þinn þegar þú ferð að gera fólki upp skoðanir. 

Smábátaveiði er mun hagkvæmari, umhverfisvænni og býður upp á betri gæði en frystitogararnir. Á þá ekki bara að banna frystitogara samkvæmt þínum rökum?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.6.2013 kl. 21:03

29 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Jakobína Ingunn;

Þú verður að útskýra fyrir oss tornæmum, hvað þú átt við í 1. málsgrein í athugasemd nr 19 hér að ofan, ef þú ert hlynnt takmörkun á aðgengi að sjávarauðlindinni.

Þú ert afar fullyrðingasöm, og nú óska ég eftir, að þú segir frá, hvaðan þú hefur það, að smábátaveiði sé mun hagkvæmari og bjóði upp á meiri gæði en frystitogararnir.  Við skulum reyndar bara taka dæmi af togaranum Páli Pálssyni, ÍS-102.  Jaðarkostnaður hans við að bæta einu tonni við 70 t afla sinn er miklu lægri en kostnaður smábátsins við að fiska 1 t.  Hvert tonn, sem Páll Pálsson landar fer til vinnslu í Hnífsdal, en stór hluti strandveiðiaflans er seldur á markaði og fluttur burt óunninn.

Bjarni Jónsson, 24.6.2013 kl. 22:10

30 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég er að segja að allir Íslendingar eigi að haf sama rétt þar til veitt hefur verið upp í hvóta. Að það hljóti að vera sannfæring þess sem vill kalla sig frjálshyggjumann og þess sem aðhyllst frelsi og markaðsbúskað.

Þú græðir ekkert á því að veifa framan í mig hugtökum eins og jaðarkostnaði og þá trúlega samkvæmt útreikningum LÍÚ.  Jaðarkostnaður er afstætt hugtaka og er breytilegur eftir magni og ýmsum stærðum sem liggja til grundvallar. Kjánaskapur. 

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.6.2013 kl. 23:45

31 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hugtakið jaðarkostnaður er notað um útreikninga þar sem verið er að meta áhrif vaxtar (framleiðslu talið í einingum)  í starfsemi. Hugtakið er ónothæft til samanburðar á tveimur eða fleiri fyrirtæjum.

Þetta er dálítið íslenskt að veifa í kringum sig hugtökum án þess að skilja innihald þeirra. 

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.6.2013 kl. 15:12

32 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Jaðarkostnaður (marginal costs) tekur eingöngu á breytilegum kostnaði en ekki föstum kostnaði eins og t.d. fjármagnskostnaði, viðhaldi og fleiri þáttum sem framleiðslan hefur ekki áhrif á.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.6.2013 kl. 15:17

33 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég endurtek það er kjánalegt að nota hugtök sem viðkomandi skilur ekki og nota þau í arfavitlausu samhengi en mjög LÍÚlegt.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.6.2013 kl. 15:18

34 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jakobína Ingunn;

Það er ekki gott að henda reiður á flaumnum frá þér, sem ber allur vott um yfirgripsmikla vanþekkingu á málefninu, sem hér er til umræðu, sjávarútveginum, ásamt hugtökum, sem notuð eru til að bera saman hagkvæmni mismunandi aðferða.  Þá ertu óvenjulega dómhörð um þann, sem þú átt í samskiptum við, en ég get vel skilið, að þar eigi minnimáttarkenndin sinn þátt í ljósi framangreinds þekkingarleysis þíns.  Ég skil ekki, hvað þú færð út úr því að fimbulfamba um það, sem þú hefur takmarkað vit á.  Þú hefur ekki nefnt það sjálf, en ég ræð það af rausinu úr þér, að þú sér hlynnt s.k. sóknarkerfi.  Þegar verið var að ræða 1983-1984, hvaða fiskveiðistjórnunarkerfi mundi leiða til mestrar hagkvæmni sjávarútvegsins, var sóknarkerfið vegið og metið og léttvægt fundið.  Flestir sérfræðingar og aðrir aðilar innan sjávarútvegsins telja núna, að kvótakerfið leiði til hagkvæmari og umhverfisvænni veiða en sóknarkerfið auk þess, sem vinnuumhverfi sjómannanna verður betra (jafnara vinnuálag) og öruggara. 

Bjarni Jónsson, 25.6.2013 kl. 20:44

35 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Þakka þér kærlega fyrir innlegg þitt hér í athugasemd nr 20.  Það gæti hvarflað að manni, að hlutskipti vort sé á tíðum hið sama og Þórs í goðheimum, þ.e. að berja á þursum.  Ég mun sýna fram á það í næstu vefgrein, að ríkið skortir heimildir til að bjóða upp veiðiheimildir og mundi með slíku athæfi baka sér gríðarlega skaðabótaskyldu á grundvelli Stjórnarskráar Lýðveldisins.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.6.2013 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband