Skattlagning og sjávarútvegur

Það má furðu gegna, hversu rakalaus og jafnvel fjarstæðukenndur málflutningur er hafður uppi af uppivöðslusömu liði, sem oftar en ekki stendur vinstra megin í tilverunni og virðist vart líta glaðan dag vegna kvótakerfis í sjávarútvegi, sem það jafnvel kennir útgerðarmönnum um að hafa komið á koppinn til að "einoka" mið, sem séu í eigu þjóðarinnar. 

Það hefur grafið um sig andúð á einni atvinnustarfsemi, eða öllu heldur atvinnurekendum í tiltekinni atvinnustarfsemi, útgerðarmönnum, að því er virðist vegna furðuhugmynda um eignarhald á óveiddum afla.  Það er nauðsynlegt að reyna að halda uppi vitrænni umræðu um fiskveiðistjórnunarmál, því að lýðskrumarar fylla ella út í tómarúmið, og óprúttnir stjórnmálamenn o.fl. boða stórhættulegar kenningar, sem í raun fjalla um eignaupptöku fyrirtækja og þjóðnýtingu á atvinnugrein. 

Rétturinn til veiða:

Laugardaginn 7. apríl 2012 birtist í Morgunblaðinu gagnmerk grein eftir Birgi Tjörva Pétursson, hdl., "Til varnar eignarrétti í sjávarútvegi", sem áður hefur verið gerð að umtalsefni á þessu vefsetri, en nú verður vitnað til:

"Þegar takmarkanir voru gerðar á sókn á fiskimiðin á síðari hluta 20. aldar, höfðu veiðar verið mönnum meira eða minna frjálsar.  Alþingi setti þá reglur til að koma í veg fyrir algjört hrun fiskistofnanna.  Upphaflegir handhafar réttinda samkvæmt reglunum voru þeir, sem höfðu veiðireynslu yfir afmarkað tímabil.  Þeir höfðu löghelgað sér atvinnuréttindi, sem ekki urðu af þeim tekin, bótalaust.  Ýmsir hafa svo eignast réttindi síðar, annaðhvort á grundvelli veiðireynslu (svo sem í sóknarkerfum, sem rekin voru samhliða) eða fyrir kaup.  Hæstiréttur hefur staðfest í dómum sínum, að málefnalega hafi verið að því staðið að takmarka veiðar og að kerfi framseljanlegra réttinda fái staðist stjórnarskrá.  

Kerfið hefur fest sig smám saman í sessi á undanförnum 30 árum.  Viðskipti með veiðiheimildir hafa farið fram á þessum raunverulega grundvelli um árabil í góðri trú.  Sumir hafa selt veiðiréttindi sín varanlega út úr greininni.  Aðrir hafa keypt þau í trausti þess, að fjárfesting þeirra verði ekki að engu gerð.  Lánastofnanir hafa veitt lán gegn veði í réttindunum á sömu forsendum.  Í lögum og framkvæmd hefur almennt verið farið með réttindin sem eignir væru, s.s. í skattamálum.  Kerfið hefur reynst stuðla að meiri hagkvæmni í sjávarútvegi en víðast hvar annars staðar.  Þótt kerfið sé ekki gallalaust, verður vart séð, að málefnaleg rök hnígi að því að raska grundvelli þess.  Þvert á móti mæla veigamikil rök með því, að vernd réttindanna í kerfinu sé betur tryggð."

Það þarf engu við þetta að bæta um fullkomið lögmæti aflahlutdeildarkerfisins, s.k. kvótakerfis, við stjórnun fiskveiða á Íslandi.  Jafnframt sýnir ofangreindur texti lögmannsins, að gjafakvótaþvælan og meint spilling á sínum tíma í kringum upphaflegu úthlutun aflahlutdeildanna er gjörsamlega úr lausu lofti gripin.  Sú staðreynd, að flestir, er upphaflegu úthlutunina fengu, eru búnir að selja sinn kvóta, skiptir engu máli fyrir framtíðina og lögvarinn eignarrétt núverandi kvótahafa.  

Þjóðareignin: 

Það er landlægur misskilningur og/eða rangtúlkun á lögum frá Alþingi, að ríkið eigi óveiddan fisk í sjónum.  Miðin eru almenningur í lagalegum skilningi, þ.e. enginn eignarréttur er þar fyrir hendi, en lög nr 116/2006 veita ríkisvaldinu hins vegar óskoraðan rétt til að hlutast til um nýtingu sjávarauðlindarinnar innan lögsögu Íslands, eins og var til forna, þar sem héraðsþingin og í sumum tilvikum Alþingi ákváðu ítölu bænda til nýtingar á afrétti, sem var kallaður almenningur.  

Á grundvelli þessara laga ákvarðar ráðherra, hvaða tegundir skulu vera háðar aflatakmörkunum í magni, stað eða tíma.  Þetta er ágætt kerfi, svo lengi sem ráðherra fer eftir vísindalegri ráðgjöf til að tryggja hámarks afrakstur miðanna til langs tíma.  Gallinn er sá, að ráðherrar hafa með heimild frá Alþingi búið til undirkerfi fyrir tilteknar bátastærðir, veiðarfæri og staðsetningar og þá hafa þeir auðvitað orðið að klípa af veiðiheimildum aðalkerfisins, aflahlutdeildarkerfisins, að sama skapi.  Það eru mikil áhöld um þjóðhagslega hagkvæmni þessara undirkerfa, þar sem kostnaður á sóknareiningu undirkerfanna er miklu hærri en jaðarkostnaður, þ.e. kostnaður á viðbótar sóknareiningu, í aðalkerfinu, og gæðin og þar með einingarverðin eru oft, en ekki alltaf, lakari.  Nú verður aftur vitnað í téða grein Birgis Tjörva Péturssonar til að sýna fram á, að útgerðarmönnum ber engin lagaskylda til að greiða ríkinu einhvers konar leigugjald eða auðlindarentu fyrir afnotaréttinn af miðunum í krafti meints sameignarréttar þjóðarinnar af sömu miðum, sem er alls ekki fyrir hendi að mati flestra fræðimanna á sviði lögfræði.  Ef ríkið setur lög um slíkt leigugjald, eða tekur upp á því að bjóða út veiðiheimildir, jafngildir slíkt eignarnámi (afnotaréttur er eitt form eignarréttar) og þá bakar ríkið sér tvímælalaust himinháa skaðabótaskyldu vegna 72. greinar Stjórnarskráarinnar um eignarrétt:

"Fiskstofnarnir á Íslandsmiðum hafa aldrei verið í eigu neins frá því land byggðist.  Þeir hafa farið um miðin, sem teljast enn almenningur í lagalegum skilningi, eigendalausir á meðan óveiddir.  Viðurkennt hefur verið að þjóðarétti og landsrétti, m.a. í dómum Hæstaréttar, að Alþingi hafi í skjóli fullveldisréttar síns heimild til að setja reglur um nýtingu þessarar auðlindar.  Fullveldisréttur þessi, sem Alþingi fer með í umboði kjósenda, er ekki eignarréttur.  Hann felur ekki í sér sameignarrétt þjóðarinnar.  

Yfirlýsing 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr 116/2006, um að nytjastofnar sjávar séu sameign þjóðarinnar, hefur enga eignarréttarlega merkingu.  Það hefur verið næsta óumdeilt meðal fræðimanna á sviði lögfræði."

Tilvitnuð lagagrein um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar hefur orðið lýðskrumurum innan og utan Alþingis tilefni til að þyrla upp gríðarlegu moldviðri um það, að útgerðarmenn hafi ekki lagalegan rétt á að nýta þann afnotarétt, sem þeim hefur verið úthlutaður, a.m.k. ekki án endurgjalds.  Bábiljan gengur jafnvel svo langt, að því er haldið fram, að þeir hafi slegið eign sinni á þjóðareign, sem þá hafi eignarréttarlega merkingu, og einoki hana.  Með þessu er auðvitað verið að þjófkenna útgerðarmenn, og er þessi rangtúlkun laganna fyrir neðan allar hellur og alger öfugsnúningur á viðtekinni lagatúlkun og uppkvaðningu dóma um afnotarétt útgerðarmanna og veiðiheimildir sem andlag veðréttar.  Um þessa kýrskýru og mikilvægu lagatúlkun fyrir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi skrifar Birgir Tjörvi í sömu grein:

Það fær ekki staðist nokkra lögfræðilega skoðun, að þjóðin eigi rétt á leigugjaldi fyrir fiskveiðirétt, eins og t.d. fasteignareigandi fyrir leigu fasteignar sinnar, enda er hún hvorki eigandi nytjastofnanna né réttindanna til að veiða þá.  Að sjálfsögðu getur Alþingi eigi að síður, standi vilji til þess, lagt skatt eða aðrar kvaðir á þá, sem eiga fiskveiðiréttindin, að virtum ákvæðum stjórnarskrár.  En það er ekki á grundvelli eignarréttar þjóðarinnar, svo mikið er víst."

Þetta er ljómandi skýr lagagrundvöllur, sem reisa verður fiskveiðistjórnunarkerfið á ásamt skattheimtu af veiðiréttarhöfum.  Þeir, sem óánægðir eru með þennan grundvöll, skyldu hafa í huga, að Stjórnarskráartillögur s.k. Stjórnlaganefndar eru reistar á þessum sama grunni, sbr t.d. grein Skúla Magnússonar, dósents, í Fréttablaðinu 28. marz 2012, þar sem stóð:

"Í ákvæði stjórnlaganefndar felst, að "þjóðareign" vísar ekki til eignarréttar í lagalegum skilningi - hvorki ríkiseignar né sérstaks (nýs) eignarforms."

Af þessu sést, hversu gróft lýðskrum átti sér stað að hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og vinstri flokkanna t.d. við hina dæmalaust illa útfærðu þjóðaratkvæðagreiðslu um drög að nýrri Stjórnarskrá, þar sem ein spurninganna fjallaði um eignarhald á auðlindunum.  Lýðskrumarar hafa afvegaleitt fjölda manns á grundvelli "þjóðareignar" og gefið í skyn, að fólk ætti rétt á ávísun í pósti fyrir leigu á eign sinni.  Slíkt er fjarri öllu lagi, enda áreiðanlega miklu hagkvæmara að beita hefðbundnu skattkerfi á handhafa afnotaréttarins. 

Skattlagningin:

Við skattlagningu lögaðila (fyrirtækja) og einstaklinga ber stjórnvöldum, sem með skattlagningarvaldið fara, að gæta meðalhófs og jafnræðis á meðal þegnanna.  Fullyrða má, að þessar grundvallarreglur skattlagningar hafa verið þverbrotnar á sjávarútveginum við álagningu svokallaðra veiðigjalda.  Meðalhófið er þverbrotið með þeim falsrökum, að sjávarútvegurinn hafi aðgang að "ókeypis" hráefni, sem þjóðin "eigi".  Hið síðar nefnda hefur verið hrakið á grundvelli lögskýringa og söguskýringa hér að ofan, og hið fyrr nefnda stenzt heldur alls ekki, því að það er afar kostnaðarsamt að gera út með nútímakröfum og nýta alla yfir 700 000 km2 lögsöguna og sækja jafnvel fjarlægari mið utan hennar.

Því fer víðs fjarri, að jafnræðis við skattlagninguna sé gætt, því að það er farið inn á alveg nýjar brautir, sem aðrir lögaðilar þurfa ekki að sæta.  Hér er átt við þá fráleitu aðferð að skattleggja framlegð sjávarútvegsfyrirtækja í stað hagnaðar.  Framlegðin er mismunur tekna og breytilegs kostnaðar fyrirtækja, þ.e. sá hluti teknanna, sem þau hafa upp í fastan kostnað og hagnað.  Þess háttar skattlagning jafngildir aðför að tilvist fyrirtækjanna, eins og dæmin sanna, því að þau munu þá mörg hver lenda í vandræðum með að standa í skilum með skuldir sínar, og lánshæfni þeirra rýrnar, svo að tæknivæðingu, vexti og viðgangi þeirra verður mjög þröngur stakkur sniðinn.  Samkeppnihæfni þeirra um starfsfólk og á mörkuðum erlendis er þar með augljóslega ógnað af þeim, sem sízt skyldi.   

Það er ekki nóg með þetta, heldur hefur fjármálaráðuneytið valið þá óheyrðu aðferð við ákvörðun skattstofns að reikna út heildar framlegð greinarinnar að úrvinnslunni meðtalinni og deila henni hlutfallslega niður á fyrirtækin án tillits til raunverulegrar afkomu þeirra.  Þetta er ómálefnaleg aðferð við skattheimtu, sem ríða mun fjárhagslega veikari útgerðunum að fullu, enda eru fyrirtæki þegar tekin að leggja upp laupana og önnur boða, að þau muni ekki geta staðið undir þessum ómálefnalegu byrðum í 3 ár, enda áttu þessar byrðar að fara vaxandi á næstu árum samkvæmt lögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þar er um að ræða ólög og svo óvönduð, að skattayfirvöld geta ekki unnið eftir þeim.  Fyrir árið 2013 átti að leggja hagtölur ársins 2011 frá Hagstofunni til grundvallar, en þær eru enn óvissu undirorpnar og endurspegla ekki greiðslugetu ársins 2013.  Áreiðanlegar hagtölur eru ekki útbærar til Skattstjóra samkvæmt lögum.  Þessi ólög ber Alþingi að afnema með öllu hið fyrsta, enda eru þau lögfræðilegur óskapnaður og vitna um stjórnmálalegt ofstæki, sem á engan rétt á sér í siðuðu samfélagi.

Við skattlagningu sjávarútvegsfyrirtækja ber að gæta jafnræðis og meðalhófs og leggja þess vegna hagnað hvers fyrirtækis til grundvallar.  Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, hefur manna mest rannsakað og ritað um sjávarútvegshagfræði.  Hann telur veiðigjöldin vera "óðs manns æði".  Samkvæmt fréttaskýringu Baldurs Arnarsonar skrifar Ragnar eftirfarandi í umsögn sinni um veiðigjaldafrumvarpið:

"Það er óðs manns æði að skattleggja atvinnuvegi umfram það, sem gengur og gerist erlendis.  Það verður aðeins til að veikja þá atvinnuvegi og þar með efnahag þjóðarinnar og skatttekjur hins opinbera.  Þetta á við um sjávarútveg ekki síður en aðra atvinnuvegi.  Fullyrðingar um, að skattlagning á sjávarútveg hafi engin áhrif á starfsemi hans eða rekstur eru byggðar á sandi og eiga sér ekki stuðning í hagfræði." 

Ragnar hefur eftirfarandi að segja um hina alræmdu auðlindarentu, sem margir japla á án þess að sýna skilning á hugtakinu, enda hefur téð auðlindarenta í raun enn ekki fundizt með óyggjandi hætti:

"Því er haldið fram í greinargerð (athugasemdum) og í fylgiskjali, að með þessum gjöldum sé verið að skattleggja svokallaða auðlindarentu í sjávarútvegi.  Það er hins vegar fjarri lagi.  Bæði er, að höfundar frumvarpsins (og fylgiskjals) virðast hafa afskplega takmarkaðan skilning á því, hvað auðlindarenta er, og raunar renta yfirleitt, og mistúlka þau fræði í grundvallaratriðum og hitt, að skattur sá, sem gerð er tillaga um, er alls ekki til þess fallinn að leggjast á auðlindarentu sérstaklega.  Skatturinn er í rauninni einfaldlega framleiðslugjald (eða veltuskattur)." 

Opið bréf sveitarstjórnarmanna í Vestmannaeyjum og í Fjarðabyggð til þingmanna Suðurkjördæmis og Norðausturkjördæmis í Morgunblaðinu 29. júní 2013 er ákall til þingmanna um að þyrma landsbyggðinni við þeirri yfirþyrmandi blóðtöku, sem téð skattlagning á sjávarútveginn og þar með óbeint á sjávarbyggðirnar er.  Þar kemur fram, að fjáraustur frá sjávarútvegsfyrirtækjunum frá Vestmannaeyjum í ríkishizlurnar (veiðigjöld, kolefnisgjöld, tekjuskattur) og í "potta" á næsta fiskveiðiári verði 5,7 milljarðar kr og frá Fjarðabyggð að sama skapi 4,5 milljarðar kr.  Alls eru þetta 10,2 milljarðar kr frá tveimur sveitarfélögum.  Hér á sér stað blóðtaka úr hinum dreifðu byggðum landsins, sem nær engri átt.  Þetta er 2,3 sinnum hærri upphæð en nemur einvörðungu tekjuskatti og kolefnisgjöldum.  Tekjuskattur af þessum fyrirtækjum og skattur af auknum umsvifum mundi hækka, ef hin ósanngjörnu og illa ígrunduðu veiðigjöld yrðu afnumin, og þar með væri sjávarútvegsbyggðum ekki lengur mismunað jafnherfilega og nú er raunin. 

Makrílmið

 

  

        

 

 

 

 

        

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Þarna er ég mjög sammála.Hélt reyndar fram að þessu að ég væri sá eini þessarar skoðunar þar sem allir eru að tala um lækkun veiðigjalds en ekki að leggja það af.

Jósef Smári Ásmundsson, 29.6.2013 kl. 20:04

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Þetta er fínn lestur og ætti að dreifa sem blöðungi um þingheim og í öll hús.

Annað sem þarf að koma fram í þessar umræðu er að auðlindagjöld eru innbyggð og hugsuð sem afgjald með kvótakerfinu. Þeirri staðreynd verður ekki hnekkt að virkni kvótakerfisins verður eingöngu hámörkuð með því að láta þá sem nýta auðlindina borga fyrir það gjald.

En það verða allir sem nýta auðlindina að borga það gjald, ekki bara sumir. Þetta gjald er hugsað sem sía fyrir skussana, þeir sem ekki geta greitt eiga engan rétt á því að nýta auðlindina, þeir eru að gera það óhagkvæmt og kerfið sem slíkt, býður ekki upp á aumingjavæðingu.

Það aftur á móti gera pólitíkusar og uppgjafa skattheimtumenn.

Hvert afgjaldið á síðan að renna er hin vitleysan en það á örugglega ekki að renna inn í ríkissjóð bitlingum þingmanna til handa.

Sindri Karl Sigurðsson, 30.6.2013 kl. 09:30

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jósef Smári;

Ég hef líka undrað mig á þeim "rétttrúnaði", sem er við lýði um veiðigjöldin.  Núverandi álagningaraðferð verður að afnema, því að þau eru svo illa ígrunduð og grundvöllur þeirra feyskinn, eins og ég bendi á í greininni hér að ofan.  Er hægt að finna einhvern réttlætisgrundvöll og fjárhagsgrundvöll til að skattleggja eina atvinnugrein umfram aðrar, og er unnt að sýna fram á, að það sé þjóðhagslega hagkvæmt ?  Ég tel, að sú skattlagning verði þá að vera af hagnaði hvers fyrirtækis.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 30.6.2013 kl. 16:37

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sindri Karl;

Það verður að fara mjög varlega í "afgjöld" til að gera ekki nýliðum enn erfiðara fyrir en nú er með kaupum eða leigu á kvóta.  Þeir, sem leigja kvóta, tel ég reyndar, að ættu mjög fljótt að öðlast eignarrétt á sama kvóta, og þeir, sem leigja hann út, að tapa eignarhaldinu að sama skapi hratt, t.d. eftir leigu í tvö ár samfleytt.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 30.6.2013 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband