Komin að fótum fram

Óveðursský hrannast upp á Evrópuhimninum.  Vandamálin steðja alls staðar að.  Rússneski björninn öskrar í austri, og margir glúpna þá í vestri, því að orkumál Evrópumanna, flestra, eru í ólestri, á sama tíma og björninn gerir sig líklegan til að draga úr gasflæði til Evrópu á kaldasta tímanum í vetur.  Viðskiptahindranir Evrópusambandsins, ESB, á Rússland, hafa dregið máttinn úr útflutningseimreið Evrópu, Þýzkalandi, með þeim afleiðingum, að samdráttarskeið er að hefjast þar í hagkerfinu og ginnungagap verðhjöðnunar blasir við Þjóðverjum undir stjórn Bæjarans aðhaldssama, Wolfgang Schäuble. 

Samskipti Rússlands og Vesturveldanna kólna stöðugt, og Gorbachev, gamli, er farinn að tala um nýtt "kalt stríð" þarna á milli.  Mikil tíðindi urðu á G-20 fundi í Brisbane í Ástralíu 15. nóvember 2014, er Vladimir Pútín, útþenslukeisarinn í Kreml, flúði af fundinum eftir hörð átök við David Cameron, forsætisráðherra Breta, vegna framferðis Rússa í Úkraínu, og almennrar gagnrýni á Pútín á þessum vettvangi í Ástralíu.  Eru þessi tíðindi til vitnis um, að Vesturveldin ætla að láta Pútín heldur betur finna til tevatnsins, og má hann þá fara að biðja fyrir sér að hætti grísk katólskra, því að ríki hans stendur á brauðfótum þrátt fyrir gorgeirinn í Kremlverjum.   

Ofan á efnahagsvandamál Vesturlanda bætast reyndar vandamál varnarbandalagsins, NATO. Það blasir við, að NATO-ríkin verða að auka framlög sín til hermála, því að rússneski björninn hefur verið að vígbúast grimmilega og varið til þess um 10 % af landsframleiðslu.  Það mundi styrkja varnir Evrópu, ef Svíar og Finnar gengju í NATO, en þeir gáfu í reynd hlutleysi sitt upp á bátinn fyrir löngu.  Um inngöngu eru umræður í löndunum tveimur, en jafnaðarmennirnir þar setja sig upp á móti því og vilja ekki stugga við Rússum frekar en fyrri daginn.  Jafnaðarmenn skilja ekki sinn vitjunartíma, heldur ríghalda í fortíðina.  Friðþæging gagnvart áreitni hefur alltaf jafnast á við að míga í skóinn sinn í frosti.  Sannast jafnan, hversu litlir bógar jafnaðarmenn eru, þó að orðháka vanti ei í þeirra raðir. Að bíta í skjaldarrendur er hið eina, sem dugar, eins og Cameron gerði í Brisbane.  Þar urðu vatnskil, og er nú birninum nær að skríða í hýði sitt.

Það, sem nú veldur því, að Evrópa er helzti dragbíturinn á hagvöxt í heiminum, sem allir, nema jafnaðarmenn viðurkenna, að er grundvöllur þess að minnka fátækt í heiminum, er verðhjöðnun.  Í jaðarríkjum evru-svæðisins er nú þegar verðhjöðnun, og hin ríki evrunnar ramba á barmi verðhjöðnunar. Jafnvel Grikkir eru sagðir hættir að mestu að drekka, og er þá stutt í, að frjósi í helvíti. Hafði engan órað fyrir því í upphafi, að evran gæti haft svo gagnger áhrif á líf fólks.

Allur kostnaður lækkar í verðhjöðnun, nema afborganir skulda.  Það verður erfiðara að borga vexti og greiða afborganir af lánum í verðhjöðnun, af því að þetta tvennt lækkar ekki, en tekjurnar lækka.  Skuldir evru-ríkjanna flestra hafa vaxið undanfarin ár. 

Skuldir Þjóðverja hafa þó lækkað aðeins, og nema ríkisskuldir þó um 80 % af VLF, sem er langt yfir Maastricht-mörkunum, 60 %.  Skuldir heimila og fyrirtækja utan fjármálageirans nema 120 % af VLF, svo að heildarskuldir Þjóðverja nema um 200 % af VLF.  Þetta dugar þeim til að standa bezt að vígi og njóta beztu vaxtakjara á skuldabréfum eða aðeins um 2-3 %.  Hér að neðan eru upplýsingar um grafalvarlega skuldastöðu, sem hlýtur að framkalla greiðsluþrot í verðhjöðnun.  Nú þegar berast fregnir af óeirðum á Ítalíu, sem beinast að Þjóðverjum og sýna, hvert stefnir með evruna.  Þó að hún hafi gefið eftir á þessu ári, er hún einfaldlega of sterkur gjaldmiðill fyrir þjóðir með morkna innviði:

  

    

  1. Írar skulda mest evruríkjanna eða alls 430 % af VLF og vaxandi, þar af ríkið 120 %.
  2. Portúgalir skulda næstmest eða alls 390 % og minnkandi, þar af ríkið 130 %.
  3. Grikkir eru í heildina í 3. sæti með 300 % af VLF, en þar eru ríkisskuldir mestar eða 175 % af VLF.  Þeir geta ekki staðið undir þessu skuldafargi hjálparlaust, og vextir af grískum ríkisskuldabréfum eru nú 9 %, sem er óbærilegt.  Þar styttist nú í uppgjörið.
  4. Spánverjar skulda í heildina 300 % af VLF, eins og Grikkir, en ríkið er hins vegar betur statt með "aðeins" 100 % skuldabagga. 
  5. Á Ítalíu skulda heimilin tiltölulega lítið, en ríkið mikið, þ.e.a.s. heildarskuldir nema um 270 %, en skuldir ríkisins nema 130 % og eru vaxandi. 

Ef einhverju þessara 5 ríkja mistekst að endurfjármagna skuldir sínar, þá verður fjandinn laus.  Ítalir þurfa á hverju ári að endurfjármagna mestan hluta ríkisskuldanna, og þurfa þeir árið 2015 að útvega um 470 milljarða evra eða um þriðjung landsframleiðslu sinnar.  Það má ganga kraftaverki næst, ef þetta gengur snurðulaust.  Ef eitt ríki á evru-svæðinu lendir í vanskilum, mun það hafa keðjuverkandi áhrif.  Þjóðverjar hvorki geta né vilja setja fé skattborgaranna til svo stórfelldrar björgunarstarfsemi sem hér um ræðir, og þess vegna eru meira en 50 % líkindi á nokkrum ríkisgjaldþrotum á evru-svæðinu á næsta ári, sem munu þá ganga af evrunni dauðri. Hvað verður um einsmálsflokkinn á Íslandi, Samfylkinguna, þegar þetta verður um garð gengið ?

Í Þýzkalandi vex nú stjórnmálaflokki ásmegin, sem er á öndverðum meiði við núverandi stjórnarflokka hinnar stóru samsteypu í Berlín.  Alternative für Deutschland, AfD, hamrar á því við kjósendur, að evrustefna stjórnarflokkanna sé nauðhyggja og að við Þjóðverjum blasi sá kostur að afleggja evruna og taka upp sitt dáða DEM - Deutsche Mark.  AfD heldur því fram, að Þjóðverjum með Bundesbank í stafni mundi vegna betur með DEM en evru, og það er margt, sem bendir til þess.  Þeir væru þá lausir við eilíf vandamál með veik hagkerfi í EMU-myntbandalaginu, og óvinsældir evrunnar mundu þá ekki bitna á þeim.  Skörin er tekin að færast upp í bekkinn, þegar æstur Rómarlýður ræðst á þýzka sendiráðið í Róm og atar það út í rauðri málningu. Menningarmunurinn í Evrópu lætur ekki að sér hæða.

Evran án Þýzkalands væri auðvitað allt önnur Ella en nú, þó að vafi leiki á, að hún stæðist tímans tönn.  Líklegast er, að tími sameiginlegrar myntar sé liðinn í bili í Evrópu.  Þar af leiðandi mun eðli Evrópusambandsins gjörbreytast, og það verða, eins og Bretar hafa barizt fyrir, meira tolla- og viðskiptabandalag en ríkjasamband.

Er viturlegt að láta umsókn Íslands um aðild að ESB hvíla öllu lengur í skúffu í Brüssel ? Það er erfitt að koma auga á röksemdirnar fyrir því miðað við þróun mála síðan umsóknin var send inn.  Með því að láta umsóknina rykfalla í skúffunni gefa íslenzk stjórnvöld til kynna, að þau vilji taka upp þráðinn, þegar ESB gefur merki um, að ríkjasambandið sé tilbúið til að stækka á ný.  Þetta atferli er afar ólýðræðislegt gagnvart Íslendingum, sem aldrei voru spurðir um, hvort þeir vildu sækja um þessa aðild, og allar skoðanakannanir benda til, að meirihluti þjóðarinnar kæri sig ekki um að ganga í þetta ógæfulega ríkjasamband.  

Hitt er annað mál, að Ísland er hluti af Innri markaði ESB, og þar sem landið er í EES, ber okkur að taka upp margar tilskipanir EES, þó að ýmislegt bendi til, að Alþingi hafi þar verið full auðsveipt.  Þá væri ekki úr vegi, að nýr ráðuneytisstjóri Utanríkisráðuneytisins, sem er gagnkunnugur embættismannakerfi ESB, beitti sér fyrir því, að íslenzkum hagsmunum verði haldið á lofti við undirbúning tilskipana og reglugerða frá Berlaymont.     

   Tifandi tímasprengja

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband