Snigillinn hefur stöðvazt

Í byrjun september 2015 voru birtar skoðanakannanir um fylgi við stjórnmálaflokka á Íslandi, sem sýna tveimur krataflokkum skriftina á veggnum. Því fer fjarri, að þessi þróun mála sé einsdæmi fyrir Ísland, heldur er um að ræða sömu tilhneigingu um alla Evrópu. Þessi þróun hefur valdið heilabrotum, og þess vegna verður gripið niður í hugleiðingar The Economist um málefnið í þessari vefgrein og blandað við eigin. 

Píratar á Íslandi eru angi af alþjóðlegri hreyfingu, sem þó nýtur hvergi viðlíka fylgis og í skoðanakönnunum á Íslandi, þar sem stuðningurinn var í byrjun september 2015 36 %.  Þetta er óánægjufylgi og mótmæli gegn ríkjandi valdastétt í öllum stjórnmálaflokkum. Rætur óánægjunnar standa þó mun dýpra en hjá persónum og leikendum, þannig að mannaskipti mundu engu breyta. 

Óánægjufylgi af þessu tagi hefur í Evrópu safnazt á þjóðernissinnaða flokka til hægri og  vinstri á hinu pólitíska litrófi, sem allir eru þó á móti skrifræðisbákninu í Brussel og vilja taka upp hefðbundið landamæraeftirlit og vísa flóttamönnum til baka, enda gætir mikillar tortryggni í þessum hópum gagnvart Múhameðstrúarmönnum.

Athyglivert er í öllu þessu umróti, að síðasta skoðanakönnun í Þýzkalandi gaf CDU, flokki Angelu Merkel, 43 % atkvæða, yfir landið allt.  Þetta er merkilegur árangur kanzlarans og stefnu flokks hennar, sem hefur í öndvegi Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi.  Þessi stefna beið ekki skipbrot í hruni fjármálakerfis heimsins 2008.  Þvert á móti sigldu Þjóðverjar þá tiltölulega lygnan sjó undir forystu CDU/Merkel. Merkel hefur nú tekið forystu um að opna Þýzkaland fyrir sýrlenzkum flóttamönnum, og á eftir að koma í ljós, hversu farsæl sú stefna er. Það er skoðun blekbónda, að Sjálfstæðisflokkinum á Íslandi væri hollt að leita fyrirmynda hjá CDU.  Til þess þarf ekki miklar breytingar; aðeins að skerpa á nokkrum atriðum. 

Um fall jafnaðarstefnunnar var grein í The Economist þann 1. ágúst 2015 eftir "Karlamagnús", og verður nú gripið niður í henni.

Gunter Grass, sem var áhugasamur um miðju-vinstri hugmyndir Willys Brandts, fyrrum borgarstjóra Vestur-Berlínar og kanzlara V-Þýzkalands, skrifaði grein um hinn hæga stíganda jafnaðarstefnunnar eftir seinni heimsstyrjöld, "Úr dagbók snigils". 

Nú hefur þessi snigill stöðvazt alveg.  Mið-hægriflokkar hafa knésett jafnaðarmenn í kosningum um alla Evrópu undanfarin ár og tekið við valdataumunum.  Undantekning eru Færeyjar, en þar varð tilviljun til þess, að jafnaðarmenn sigruðu í nýlegum kosningum til Lögþingsins, þar sem Lögmaðurinn var fundinn sekur um ósannsögli gagnvart Lögþinginu. 

Má lánleysi jafnaðarmanna furðu gegna í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008, sem mið-vinstriflokkum tókst engan veginn að notfæra sér til að knýja á um aukin ríkisafskipti, reglugerðasmíði, aukinn eftirlitsiðnað og minni áherzlu á frjálsan markað. Öll þessi áhugamál jafnaðarmanna eru til þess fallin að draga úr samkeppnihæfni fyrirtækja, og það hefur runnið upp fyrir kjósendum, að slíkt er ekki launþegum í hag.

Í forysturíki Evrópu, Þýzkalandi, hefur Angela Merkel, formaður kristilegra demókrata, CDU, ríkt síðan 2005.  Á Bretlandi hefur íhaldsstjórn verið við völd síðan 2010, og Jafnaðarmannaflokkurinn þar, sem koltapaði nýlegum þingkosningum, er uppteknastur við innri baráttu, naflaskoðun, um framtíðarstefnu og nýjan formann, sem gæti hæglega orðið svo langt til vinstri, að almennir kjósendur útskúfi flokkinum. Á Íslandi urðu næstum slík formannsskipti í vor hjá Samfylkingunni, en hún virðist reyndar vera á tortímingarbraut með sitjandi formanni, sem hangir í embætti á eigin atkvæði. Aumari frammistöðu formanns eru vart dæmi um.

Í Frakklandi er við völd í forsetahöllinni jafnaðarmaður með minna fylgi í skoðanakönnunum en nokkur fyrirrennara hans, og er endurkjör hans næsta vonlaust.  Meira spennandi er, hvernig formanni Þjóðarframvarðanna reiðir af, en hún er andsnúin ESB og innflytjendastefnu þess og stefnir á að taka við sem húsbóndi og húsfreyja í Elysée-höllinni eftir næstu forsetakosningar.

Jafnvel í Skandinavíu, sem var löngum þekkt fyrir hófsama vinstri stefnu við stjórnvölinn, hefur verið skipt um stefnu.  Að vísu sneru Svíar aftur til jafnaðarmannastjórnar árið 2014 eftir 8 ára mið-hægri stjórn, en nýja ríkisstjórnin fylgir fjárlagaáætlun fyrri ríkisstjórnar og er upp á náð og miskunn stjórnarandstöðu í Riksdagen komin. 

Hægri menn í Noregi bundu enda á 12 ára vinstri sinnaða samsteypustjórn árið 2013, og Helle Thorning Schmidt, danskur jafnaðarmaður, sem fór fyrir vinstri samsteypustjórn, missti völdin í Kristjánsborgarhöll í júní 2015. 

Í fyrrverandi Austantjaldslöndum eru dæmi um ríkisstjórnir, sem náð hafa nokkrum árangri, en eru samt hallar undir ríkisrekstur, t.d. í Tékklandi, en annars staðar hafa þjóðernissinnar og hægri menn hagnazt pólitískt á óvissunni, sem einkennt hefur eftirhruns tímann í Evrópu.

Auðvitað skipta persónuleikar máli, og einmitt núna eru fáir beinskeyttir persónuleikar í forystusveit jafnaðarmanna í Evrópu.  Eftirminnilegir persónuleikar í hópi leiðtoga jafnaðarmanna á borð við Willy Brandt, Helmut Schmidt og Gerhard Schröder í Þýzkalandi, Bruno Kreisky í Austurríki, Einar Gerhardsen og Gro Harlem Bruntland í Noregi og jafnvel Tony Bair á Bretlandi,

höfðu sjálfstraust og sóttust ekki bara eftir einróma ákvörðunum.  Í fremur litlausum hópi núverandi jafnaðarmannaleiðtoga stendur Sigmar Gabriel, leiðtogi SPD, þýzkra jafnaðarmanna og varakanzlari, upp úr, en það virðist ekki duga þýzkum jafnaðarmönnum til að ná forystu í Þýzkalandi, en þeir hafa þó 25 % fylgi nú í skoðanakönnunum. 

Mótlæti jafnaðarmanna í Evrópu á sér dýpri rætur en persónutengdar.  Ein er óþreyja almennings í garð valdhafa.  Miðju-vinstri flokkar voru víða við völd, þegar fjármálakreppan reið yfir; á Bretlandi,  í Grikklandi, Portúgal og á Spáni.  Kjósendur náðu sér niðri á valdhöfunum og voru í engu skapi til að taka við afsökunum. Í Grikklandi var PASOK, jafnaðarmannaflokkur, lengst af aðalvaldaflokkurinn eftir herforingjastjórnina 1974, en nú er hann með 4 % fylgi í skoðanakönnunum.  Það er sama og Björt framtíð hér um þessar mundir, sem nú fær væntanlega bráðlega nábjargirnar. 

Þessi óþreyja kjósenda getur skýrt nokkrar undantekningar frá reglunni.  Ítalir, sem umborið höfðu hæpið háttarlag Silvios Berlusconis, sem illa samræmdist katólskri háttprýði, snerust  til vinstri, þegar Demókrataflokkurinn eignaðist frambærilegan leiðtoga, Matteo Renzi.  Hann virðist nú einn á báti á evrópska sviðinu, þar sem endir örlagaþrungins efnahagsdrama er skrifaður af Þjóðverjum á mið-hægri væng. 

Frú Merkel, sem sat að völdum, þegar fjármálakreppan reið yfir, hélt völdunum, af því að kreppan í Þýzkalandi varð skammvinn, og hún festi sig í sessi sem fremsti leiðtogi Evrópuríkis með hörku gagnvart skuldugum þjóðum og hélt þó Evrópusamstarfinu gangandi. Þetta blessaða Evrópusamstarf er þó alfarið smurt af evrum, sem verða til við verðmætasköpun í Þýzkalandi.  Hvað verður um það, ef/þegar Bretar segja skilið við ESB 2017 ?

Þrátt fyrir allar deilurnar um aðhaldssemi (austerity) í Evrópu þá hefur boðun hennar hljómað skynsamlegri í eyrum kjósenda en töfrabrögð í anda Keynes.  Kjósendur hafa hugsanlega ályktað sem svo, að yrði á annað borð að skera niður opinberan kostnað, þá færi flokkum minni ríkisafskipta það betur úr hendi en flokkum, sem hallir eru undir mikil og vaxandi ríkisafskipti. Þetta sannaðist á síðasta kjörtímabili á Íslandi, þar sem niðurskurðurinn var algerlega misheppnaður, og þetta sannast núna í Reykjavík undir jafnaðarmanni í borgarstjórastóli, sem stingur hausnum í sandinn gagnvart geigvænlegri skuldasöfnun borgarinnar.

Ær og kýr jafnaðarmanna eru mikil opinber útgjöld til að koma á þjóðfélagsumbreytingum, og þessa hugmyndafræði skorti allan trúverðugleika, þegar markaðirnir vantreystu og hækkuðu vexti mjög á skuldabréfum skuldugra þjóða.  Meira aðlaðandi hefur verið sú tilhneiging sumra mið-hægri ríkisstjórna "að stela" nokkrum stefnumálum vinstrisins, t.d. að hækka lágmarkslaun í Þýzkalandi og á Bretlandi, eða að taka hjónaband samkynhneigðra upp á arma sér, eins og Íhaldsflokkurinn, brezki. 

Frá falli Ráðstjórnarríkjanna hafa hefðbundnir stórflokkar haft tilhneigingu til klofnings, en miðju-vinstrið hefur orðið fyrir meiri skakkaföllum af völdum fækkunar iðnverkamanna og fækkunar félaga í verkalýðsfélögum. Stéttasamsetning vestrænna þjóðfélaga er að breytast, svo að ekki sé nú minnzt á aldurssamsetninguna, sem þvinga mun fram minnkandi útgjöld til velferðarmála á hvern íbúa yfir sextugu vegna fækkunar á vinnumarkaði. Það eru líklega lýðfræðilegar ástæður meðvirkandi í falli jafnaðarmanna Evrópu. 

Nýtt vandamál, sem fjármálakreppan jók, er vaxandi gengi lýðskrumara, sem ógna ríkjandi öflum.  Jafnaðarmannaflokki Grikklands, PASOK, var nærri útrýmt af öfgakenndum Syriza flokkinum.  Jafnaðarmenn Spánar hafa misst fylgi til andaðhaldsflokksins Podemos.

Jafnvel UKIP, andstöðuflokkur við aðild Breta að ESB, sem aðallega hýsti óánægða íhaldsmenn, hefur dregið til sín fylgi frá jafnaðarmönnum.  Matthew Taylor, fyrrverandi aðstoðarmaður síðasta sigursæla brezka jafnaðarmannaleiðtogans, Blairs, segir, að nýjar hreyfingar geti státað af því að vera á svipaðri bylgjulengd og almenningur og þröngva stóru flokkunum þannig til hliðar.  Nýgræðingarnir, segir Taylor, hafa frumlegra og breytilegra skipulag, en hefðbundnir vinstri flokkar séu bundnir við flokksþing og goggunarröð innan flokkanna.

Efasemdir kjósenda varðandi innflytjendastefnu stjórnvalda stafa m.a. af ótta verkalýðs við aukið atvinnuleysi og samkeppni á vinnumarkaði.  Ímynd jafnaðarmanna sem rausnarlegur flokkur fyrir hönd skattgreiðenda, sem ekkert aumt megi sjá án þess að snara út fúlgum fjár, er að snúast upp í stjórnmálalega byrði fyrir jafnaðarmannaflokkana í heimi alþjóðavæðingar og flóttamannastraums. 

Franz Walter, stjórnmálasagnfræðingur við háskólann í Göttingen, hefur bent á, að þýzki jafnaðarmannaflokkurinn, SPD, hafi verið áhrifaríkt stjórnmálaafl í yfir 150 ár, en aðeins verið við völd í 30 ár.  Með hægfara nálgun sinni á fjarlægum markmiðum eru þeir e.t.v. ánægðari með að undirbúa valdatöku sína en að hafa völdin, segir Walter.  Ennfremur segir hann, að þeir séu alsælir með að dreyma um betri framtíð, og í mörgum tilvikum eru aðrir að skapa þessa framtíð núna. Sem sagt, jafnaðarmenn eru draumóramenn, en litlir sem engir stjórnendur.  Á þessi lýsing ekki býsna vel við jafnaðarmanninn í borgarstjórastóli Reykjavíkur ?  Ákvarðanafælni lýsir honum vel. 

Birtingarmynd stjórnmálalegrar óþreyju kjósenda á Íslandi er Sjóræningjaflokkurinn.  Sá flokkur hefur sogað til sín fylgi jafnaðarmanna á Íslandi og Sjálfstæðisflokksins.  Þetta hefur ekki verið útskýrt almennilega, en tvennt getur t.d. valdið þessu:

1) Kjósendur fundu fyrir afli sínu í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave.  Þáverandi stjórnarflokkar, jafnaðarmenn (Samfylking) og róttækir félagshyggjumenn (vinstri grænir), börðust hatrammlega gegn þessum þjóðaratkvæðagreiðslum, sem þó gáfu mjög góða raun, þegar upp var staðið.  Jafnaðarmenn við stjórnvöl borgarinnar með borgarstjórann, Dag B. Eggertsson, í broddi fylkingar, hafa staðið gegn því að höggva á Gordíons-hnútinn, sem myndazt hefur um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að vísa málinu til kjósenda.  Borgaralegu flokkarnir, sem nú sitja í Stjórnarráðinu, vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram með þremur flugbrautum.  Þeir styðja báðir þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöllinn, því að framtíð hans varðar auðvitað landsmenn alla.  Hið mótsagnakennda er, að sjóræningi stendur að meirihlutanum með Degi í borgarstjórn, en hann hefur ekki látið steyta á þessu mikla lýðræðismáli sjóræningjaflokksins, pírata. Sá flokkur reynist þess vegna vera nákvæmlega jafnlaus í rásinni og hann virðist vera, og kjósendur geta þess vegna síður en svo reitt sig á, að hann standi við stóru orðin.  Stjórnarflokkarnir eru með stjórnarskrárbreytingu í bígerð, sem m.a. á að breyta ákvæðinu um synjunarheimild forseta lýðveldisins í heimildarákvæði þings og þjóðar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, ráðgefandi eða bindandi, eftir atvikum. 

Þess má geta, að margir kjósendur hérlendis virtust vilja fá að kjósa um framhald aðildarviðræðna að ESB, sem stjórnarflokkarnir lögðust gegn, af því að hún hefði verið fullkomlega órökrétt af tveimur ástæðum.  Í fyrsta lagi var það ESB, sem stöðvaði viðræðurnar, af því að lágmarksskilyrði Alþingis og landbúnaðar- og sjávarútvegssáttmáli ESB voru ósamrýmanleg.

Hitt var, að stjórnarflokkarnir, sem umboð hafa til að stjórna landinu út þetta kjörtímabil, eru báðir andvígir inngöngu Íslands í ESB. Það var þess vegna fjarstæðukennt að fela þeim að semja við ESB um inngöngu, og ESB hefði ekki tekið í mál að taka þátt í slíkum pólitískum farsa, enda hafa menn þar á bæ öðrum hnöppum að hneppa um þessar mundir. 

Hvor röksemdin um sig dugði til að fella tillöguna um þjóðaratkvæði um framhald samkomulagsgerðar um aðild Íslands að ESB, enda hefði þjóðin þannig verið dregin á asnaeyrunum á kjörstað, þar sem niðurstaða atkvæðagreiðslunnar gat engu breytt um núverandi stöðu.  

2) Hitt atriðið, sem tína má til skýringar á miklu óánægjufylgi, er mikill húsnæðiskostnaður hérlendis. Hann er ekki vegna hærri byggingarkostnaðar en í nágrannalöndunum, þó að hérlendis geti hann lækkað, heldur vegna miklu hærri fjármagnskostnaðar. Um þetta ritar Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf, beinskeytta grein í Morgunblaðið 5. september 2015 undir fyrirsögninni:

"Á að horfa á eftir ungu fólki úr landi eða bjóða því framtíð hér ?"  Greinin hefst þannig:

"Við erum nú að upplifa hér á landi eina mestu eignatilfærslu, sem núlifandi Íslendingar hafa upplifað.  Eignatilfærslan er frá þeim, sem skulda, yfir til þeirra, sem lána. Fyrir utan þá, sem standa í rekstri, er það unga fólkið okkar, sem skuldar, þ.e. það sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið.  Einnig skulda þeir, sem byggja leiguhúsnæði fyrir það fólk, sem ekki hefur sjálft fjárráð til að festa sér fasteign. 

Eignatilfærslan er það stórkostleg í íslenzku þjóðfélagi, að hún kemur í veg fyrir, að venjulegt fólk geti eignazt þak yfir höfuðið og heldur uppi leiguverði, þannig að hvorug leiðin er valkostur fyrir það unga fólk, sem er að reyna að hefja sitt sjálfstæða líf.

Þeir, sem eru kallaðir til sem álitsgjafar til að fjalla um vandamálið, eru þeir sömu og hagnast mest á eignatilfærslunni, enda forðast þeir að ræða hana."

Sigurður Ingólfsson kemst síðan að því, að árlegur mismunur á fjármagnskostnaði (án afborgana) á Íslandi og í nágrannalöndunum nemi MISK 1,5-2,5 af MISK 30 láni til húsnæðiskaupa, og síðan skrifar hann:

"Það þarf ekki mikinn speking til að draga þá ályktun, að þetta sé aðalástæðan fyrir því, að allt of fáar íbúðir eru byggðar nú þrátt fyrir uppsveiflu í þjóðfélaginu."

Í lokakafla greinarinnar stendur:

"Þeim fækkar, sem geta tekið lán með þessum aðferðum, en hvað gerir það til; fjármagnseigendurnir (vogunarsjóðirnir) eru búnir að ná því, sem þeir geta, út úr viðskiptunum og verða fljótlega farnir með það fé, sem þeir hafa sogað til sín á þennan hátt, og þurfa ekki á þeim að halda eftir það."

Það er áreiðanlegt, að hér eru miklir hagsmunir í húfi, sem snerta nægilega marga til að valda stjórnmálalegri ólgu og flótta til stjórnleysingjanna frá núverandi stjórnarflokkum og frá jafnaðarmönnum, en hinir síðar nefndu eru sekir um að hafa fært vogunarsjóðunum tvo banka á silfurfati. Í þessu sambandi breytir engu, þó að sjóræningjar hafi engar lausnir á takteinum á þessu mikla þjóðfélagslega viðfangsefni frekar en öðrum aðsteðjandi vanda, enda er þar fátt um fína drætti. 

Grein Sigurðar lýkur með eftirfarandi spurningu:

"Er ekki kominn tími til fyrir stjórnvöld, að þau taki að sér að stjórna fjármálum þjóðarinnar sjálf ?"

Undir allt þetta er unnt að taka. Kannski bera menn þá von í brjósti, að Pírataflokkurinn muni hrista upp í peningamálastjórnuninni og taka ráðin af Seðlabankanum varðandi vaxtaákvarðanir.  Hefðu þeir bolmagn til þess, og hafa þeir bein í nefinu til þess ?  Kannski þeir láti kjósa um vextina ?

Aðgerðir núverandi félagsmálaráðherra eru hálfkák eitt.  Miðað við greiningu Sigurðar Ingólfssonar hér að ofan skilur Eygló Harðardóttir ekki vandamálið, og þess vegna munu tillögur hennar einvörðungu gera viðfangsefnið erfiðara viðfangs, komist þær til framkvæmda. 

Vonir standa til, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi hins vegar áttað sig á kjarna vandans og að ríkisstjórnin muni á kjörtímabilinu hefja vegferð í rétta átt til lausnar, þ.e. til lækkunar á fjármagnskostnaði við húsbyggingar.  Í Noregi eru nú íslenzkir byggingarverkamenn, iðnaðarmenn, verkfræðingar og aðrir, sem teknir eru að horfa heim eftir verðugum verkefnum, þar sem hallar undan fæti í norsku hagkerfi. Lækkun fjármagnskostnaðar mun strax leiða til fjölgunar nýbygginga hér, og það mun að öllum líkindum duga til að laga fylgistölur stjórnarflokkanna.   

Hvað sem þessum vangaveltum líður, ættu núverandi stjórnvöld að íhuga vandlega stefnumótun, sem leitt getur til raunhæfra úrræða til lækkunar fjármagnskostnaðar húsbyggjenda.       

  

 

 

    

  

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Verulega flott og góð grein frá þér, Bjarni, eins og hún er þó mikil í umfangi sínu og "metnaði", ef við megum svo kalla, og þar á meðal í fróðlegum evrópskum samanburði. Hér er margt athyglisvert fyrir bæði ráðamenn og almenning að íhuga, draga lærdóma af og leggja á ráðin um nýjar og betri ákvarðanir en þær sem gengið hefur verið út frá um hríð, oft nánast af hugsunarleysi vanans.

Ég sé hér klausu frá þér og Sigurði Ingólfssyni:

Grein Sigurðar lýkur með eftirfarandi spurningu:

"Er ekki kominn tími til fyrir stjórnvöld, að þau taki að sér að stjórna fjármálum þjóðarinnar sjálf ?"

Þetta er alveg í mínum anda, sem var að kvarta yfir arðráni bankanna á alþýðu á Eyju-síðu* í gær (og gaf skýrt dæmi um, hve gegndarlaust það er**). Þar kom þá DTU-maðurinn Garðar Garðarsson með þessa aths.: "Af hverju grípa ekki ráðamenn þjóðarinnar inn i þetta arðrán bankanna sem þú talar um, því þeir hafa völdin?" --Og ég svaraði: "já, góð spurning! Af hverju breyta þeir ekki lögum um Seðlabankann svo að ríkisstjórn eða öllu heldur Alþingi hafi vald til að setja ÞAK á vexti verðtryggðra lána (t.d. 2-3%). Ég er að krepera undir 5% vöxtum Íbúðalánasjóðs (langtum fremur en undir verðtryggingunni og verðbótunum), og sumir borga hærri vexti og verðtryggingu í ofanálag. ---Ekki eru bankarnir að tapa, svo mikið er víst !! Og ráðamenn ívilnuðu þar erlendum hrægömmum! Þarf kannski að athuga, hvort brot af bankagróðanum fer svo til einhverra flokkanna? Og af hverju segir Már ekki af sér?!"

Meðal glöggra atriða í grein þinni, sem ég hef ekkert vikið að enn, eru ábendingar þínar um fjármála-óstjórnina í Reykjavík. Það liggur við, að hún stefni að gjaldþroti á kjörtímabilinu!

PS. Þessa grein þína hefurðu, Bjarni, ekki birt í tímaharki, eins og vill koma fyrir okkur, m.a. þig nýlega; hún er nánast alveg villu-laus, en hér sá ég þó tvær í feitletraðri klausu:

"... miðju-vinstrið hefur orðið fyrir meiri skakkaföllum af völdum fækkun [---> fækkunar) iðnverkamanna og fækkun [---> fækkunar) félaga í verkalýðsfélögum."

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/09/06/arni-pall-hef-laert-af-reynslunni-ad-gera-mer-ekki-miklar-vonir-um-skynsemi-rikisstjornarinnar/

** Sagði m.a.: "... yfir arði Samherja sl. 4 ár býsnaðist DV í nýlegri opnugrein, hann hafi verið 8,2 milljarðar þau fjögur ár! Það gerir 2050 milljónir á hverju hálfu ári að meðaltali (2,05 milljarðar)! En á fyrri hluta þessa árs hafði ARION banki 47000 milljónir króna í hagnað! (47 milljarða!), og Dagur B., Árni Páll og biðprinzessan Sigríður Ingibjörg Ingadóttir steinhalda kjafti um það, og þekkist þó vart annað eins arðrán á einni þjóð!" ---Þolendur eru ekki sízt ungir íbúðakaupendur, eins og þú bendir á, Bjarni.

Jón Valur Jensson, 7.9.2015 kl. 02:23

2 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Hvaða hörmungar hellast yfir okkur í landbúnaði og sjávarútvegi ef gengið yrði til samninga við ESB? 

Tryggvi L. Skjaldarson, 7.9.2015 kl. 08:35

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ef gengið yrði inn í Evrópusambandið, yrði löggjöf þess æðst og ráðandi hér í þessum málaflokkum, okkur og einkarétti okkar til fiskveiðiögsögunnar utan 12 mílna til stórskaða, sömuleiðis framkvæmdavald þeirra í Brussel og æðsta dómsvald (ESB-dómstólsins í Lúxembog) til að skera úr um lagalegan ágreining.

Jón Valur Jensson, 7.9.2015 kl. 13:19

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur, og beztu þakkir fyrir innlitið og einkar góðar athugasemdir.

Sem dæmi um opinbert vaxtaokur get ég nefnt, að sonur minn er með lán hjá Íbúðalánasjóði frá árinu 2000, sem þá var upp á MISK 1,050.  Lánsfjárhæðin var tengd vísitölu neyzluverðs, og lánið ber 8,80 % fasta vexti á ári.  Þetta er ríkisrekið vaxtaokur og nær náttúrulega engri átt.  Það er engin furða, þó að fólk leiti á náðir stjórnleysingja, þegar svona er í pottinn búið.

Þakka þér sérstaklega vel fyrir ábendingarnar um ritvillurnar.  Það er skelfilega algengt, að fólk sleppi því að nota eignarfallið, og nú hef ég sem sagt fallið í þann forarpytt líka.  Þú mættir gjarna segja: "Et tu, Brute".  Annars reyni ég eftir megni að leggja rækt við móðurmálið og tel, hreint út sagt, að það beri öllum að gera, a.m.k. þeim, sem taka þátt í opinberri umræðu. 

Ég hef einmitt hugsað mér að rita um hættulega þróun í fjármálum höfuðborgarinnar.  Skuldasöfnunin er geigvænleg, og borgin endar í greiðsluþroti með þessu áframhaldi. 

Hafðu enn og aftur þökk fyrir þína skeleggu, málefnalegu og vönduðu umræðu.

Bjarni Jónsson, 7.9.2015 kl. 13:48

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi Skjaldarson, og þakka þér fyrir innlitið. 

Vona, að skautsmiðju- og skautskálareksturinn gangi sem bezt, þó að mér sé reyndar kunnugt um, að á ýmsu hefur gengið. 

CAP - Common Agricultural Policy spannar sáttmála ESB um fiskveiði- og landbúnaðarstefnu ESB.  Lögsaga ESB er sameiginleg með öllum löndunum og nýtingu hennar er stjórnað af framkvæmdastjórninni.  Hún á síðasta orðið um úthlutun fiskveiðiheimilda.  Við erum margir, sem eigum þó engan kvóta, sem ekki vilja eiga nýtingu lögsögunnar undir "búrókrötum í Brussel".  Ísland mundi missa samningsrétt sinn sem fullvalda strandríki um flökkustofnana.  Við mundum einfaldlega þurfa að hlíta úthlutun ESB. 

Íslenzki landbúnaðurinn sækir nú í sig veðrið og leitar á erlenda markaði.  Ég vil gagnkvæmar tollaívilnanir, en jafnframt þarf að gæta þess, að íslenzki landbúnaðurinn lendi ekki í ósanngjarnri samkeppni á innanlandsmarkaði, þar sem dembt yrði inn vörum, sem framleiddar eru með alls kyns óhollustu, t.d. skordýraeitri og sýklalyfjum, sem við höfum verið laus við að mestu á markaðinum hér.

Þú sem "gamall" bóndi hefur örugglega sitthvað vitrænt til málanna að leggja.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 7.9.2015 kl. 14:06

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heilar þakkir, Bjarni, fyrir vinsamleg orð í minn garð.

Ég hef ekki síðra álit á þínum vönduðu skrifum og vel rökstuddu.

Jón Valur Jensson, 8.9.2015 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband