Hagkerfi sækir í sig veðrið

Líklega verður hagvöxtur ársins 2015 hvergi meiri í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, en á Íslandi, þar sem honum er spáð yfir 5 %.

Hvergi í heiminum hrundi fjármálakerfið nánast til grunna fyrir 7 árum, eins og það gerði á Íslandi, eftir fall Lehmans-bræðra vegna eitraðra afleiða og vafninga með uppruna í undirmálslánum til húsnæðiskaupa í Bandaríkjunum, BNA. Skrifaðir hafa verið þykkir doðrantar til að útskýra það.

Nú, 7 árum síðar (7 mögur ár, 7 feit ár ?) hefur hagkerfið rétt úr kútnum, eignastaða flestra heimila hefur batnað mikið, svo og hins opinbera, ráðstöfunartekjur flestra heimila hafa vaxið á undanförnum 12 mánuðum meira en dæmi eru um í nýlegri sögu, og skatttekjur ríkisins hafa vaxið, þó að skattheimtan hafi lækkað, sem á "máli vinstrimanna" heitir, að ríkið afsali sér tekjum. Þetta er hinn versti orðhengilsháttur, reistur á vinstra viðhorfinu um, að ríkið eigi meiri rétt á að nýta tekjur fyrirtækja og einstaklinga en sá, sem teknanna aflaði.  Það þarf ekki að orðlengja, að "hagfræði vinstri manna" nær ekki máli, leiðir til fátæktargildru miðstéttarinnar, enda er markmiðið "alræði öreiganna", en þá eru valdhafarnir búnir þurrka út miðstéttina og gera alla að öreigum. Er það enn draumastaðan ?

Eftirfarandi gaf að líta í frétt Baldurs Arnarsonar, "Fjöldi fólks vill starfa á Íslandi",

sem birtist í Morgunblaðinu 30. september 2015:

"Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar hefur launavísitalan hækkað um 7,7 % á Íslandi síðastliðna 12 mánuði.  Samhliða því hefur raungengi krónu styrkst.  Er því ekki ósennilegt, að laun á Íslandi, umreiknuð í evrur, séu nú orðin þau fjórðu hæstu í Evrópu.  Það, ásamt stórauknu vinnuframboði, gerir Ísland eftirsóknarvert vinnuland." 

Fyrir einu ári var Ísland í 8. launasæti af ríkjum OECD, svo að þessi misserin skýzt Ísland fram úr Danmörku, Hollandi, Bretlandi og Svíþjóð varðandi laun.  Tíu efstu jafnaðarárslaun (miðlaun) 2014 voru sem hér segir í MISK:

  1. Sviss        8,8
  2. Noregur      6,6
  3. Lúxemborg    5,5
  4. Svíþjóð      4,9
  5. Bretland     4,8
  6. Holland      4,8
  7. Danmörk      4,7
  8. Ísland       4,5
  9. Finnland     4,3
  10. Bandaríkin   4,1

Tiltölulega gott gengi íslenzka hagkerfisins núna á sér ýmsar skýringar.  Eftir Alþingiskosningarnar 2013 hafa stjórnvöld beitt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum við að losa hagkerfið úr dróma í stað ólystugs og viðbrunnins hrærigrautar löngu afdankaðrar og vonlausrar jafnaðarstefnu fyrri stjórnvalda, þar sem viðkvæðið var í stuttu máli að refsa einstaklingum og fyrirtækjum fyrir frumkvæði, dugnað og góðan árangur með endurútdeilingu verðmæta úr vösum aflafólks samkvæmt duttlungum forræðishyggjunnar.

Með því að leggja grunn að stjórnarfarslegum og hagrænum stöðugleika tókst núverandi stjórnvöldum að örva mjög fjárfestingar einkaaðila, innlendra og erlendra, á Íslandi, sem eru undirstaða hagvaxtar í bráð og lengd.  Fiskveiðistjórnunarkerfið er tekið að skila þjóðarbúinu miklum tekjum með ótrúlegri vinnsluþróun og markaðssókn, en veiðistofnarnir eru líka teknir mjög að braggast.  Sjávarútvegurinn varð þó fyrir um ISK 10 milljarða höggi á makrílmarkaðinum, og hætt við, að annað og mun þyngra högg bíði handan við hornið samkvæmt fréttum af loðnunni. 

Eyjafjallagosið, lágt gengi krónu, lokun vinsælla ferðamannastaða og óöryggi annars staðar, t.d. fyrir Gyðinga, ásamt auknum almennum áhuga á norðurslóðum, hefur orðið ferðaþjónustunni á Íslandi gríðarleg lyftistöng, en því miður er skipulagning móttöku 1,5-2,0 milljóna ferðamanna á ári að hálfu yfirvalda í molum með slæmum afleiðingum fyrir orðstýr þjóðarinnar, náttúru landsins og öryggi gestanna. Spyrja má í hverju Ferðamálastofa sé að vasast, því að nú hefur nýtt stjórnkerfisapparat verið sett á koppinn.  Allt lyktar þetta af flótta frá viðfangsefnunum.

Sök á framkvæmdaleysinu eiga ríkisvaldið (vantar varanlega fjáröflun), sveitarfélög (vantar skipulag) og ferðaþjónustufyrirtæki, sem ekki hafa lagt nægilega rækt við að dreifa ferðamönnum um landið. 

Til þess m.a. að anna þjónustuþörf hins gríðarlega fjölda hefur orðið að grípa til gististarfsfólks ("Gastarbeiter").  Árið 2014 voru starfsmenn á Íslandi af erlendu bergi brotnir orðnir 16´155 talsins, en fjöldi innlendra ríkisborgara á vinnumarkaði var þá 170´018, þ.e. fjöldi erlendra af heildarfjölda á vinnumarkaði, 186´173, var 8,7 %. Enn liggur í landi, að ferðaþjónustufyrirtæki "svíni" á starfsmönnum og hinu opinbera.  Tekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, þykja enn óeðlilega lágt hlutfall af umsetningunni. 

Fjöldi erlendra starfsmanna gæti á 4. ársfjórðungi 2015 verið farinn að nálgast 20´000. Svo gríðarlegur fjöldi hefur aldrei verið hér á vinnumarkaðinum, og ljóst er, að hann hefur margvísleg áhrif á samfélagið.  Hann heldur t.d. launaþrýstingi í skefjum, þ.e. dregur úr launaskriði, og hann eykur þrýsting á húsnæðismarkaði alveg gríðarlega, sem leiðir til verðhækkunar á fasteignamarkaði og leigumarkaði, einkum minna húsnæðis.  Þetta veldur ungum Íslendingum, sem vilja fara að kaupa sína fyrstu íbúð, vandræðum við að kljúfa kostnaðinn þrátt fyrir drjúga kaupmáttaraukningu þessi misserin.  Þess vegna þarf að söðla um í húsnæðismálum og vinstri úrræði félagsmálaráðherra eru vonlaus.

Það er allt of lítið byggt af litlum íbúðum á bilinu 40-80 m2.  Sveitarfélögin eiga að nokkru leyti sök á þessu, þar sem þau hafa ekki skilyrt byggingarleyfi við þetta, og sum þeirra, t.d. Reykjavík, okra á lóðaverði, svo að byggingarfyrirtæki hillast til að byggja frekar húsnæði yfir 100 m2 að stærð, enda hagnast þau meira á því.  Kópavogsbær er þó til mikillar fyrirmyndar að þessu leyti með frumkvæði sínu í húsnæðismálum, sem m.a. snýst um að auka framboð lítilla íbúða og losa leigjendur í félagslegu húsnæði bæjarins úr fátæktargildru.

Ríkisvaldið setti á síðasta kjörtímabili nýja löggjöf um húsbyggingar, sem hafði í för með sér um 15 % kostnaðarhækkun á litlum íbúðum.  Með samstilltu átaki á að vera hægt að setja á markað litlar íbúðir, stúdíoíbúðir, fyrir MISK 10.  Þær mundu leysa vanda flestra, sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, hvort sem eru íslenzkir ríkisborgarar eða starfsfólk á Íslandi af erlendu bergi brotið, sem hefur atvinnuleyfi hér og kýs að ílendast, a.m.k. í 7 feit ár.

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, ritaði merka grein um húsnæðismál í Morgunblaðið 22. september 2015, "Rúmgóð ný stúdíoíbúð fyrir níu milljónir".  Þar skrifaði hann m.a.:

"Skortur á minnstu íbúðum hækkar síðan markaðsvirði þeirra enn frekar, þannig að meðal-Jóninn þarf dæmigert að taka um tíu milljónum króna hærra lán fyrir sinni fyrstu íbúð, en ef þessum óþarfa lúxusþörfum hefði ekki verið þröngvað inn á hann.  Þessi offjárfesting hækkar vaxta- og rekstrarkostnað íbúðarinnar um sex til átta hundruð þúsund á ári, sem er árlegur kostnaður, sem leggst á fólk megnið af lífsleiðinni og hægir verulega á, að hægt sé að leggja fyrir einhvern sparnað.  Þeir einu, sem til skamms tíma  græða á þessu, eru bankarnir.  Til langs tíma græðir þó enginn, því of mikil skuldsetning rýfur tengsl fólks við raunveruleikann og býr til bólu, sem endist bara fram að næsta hruni."

Það er ámælisvert, að ríki og sveitarfélög skuli ekki sameinast um að auka varanlega framboð stúdíóíbúða verulega til að leysa brýnan húsnæðisvanda í þjóðfélaginu og til að slá á froðukennda þenslu í geiranum, sem ýtir undir verðbólgu. Þessir aðilar ættu að fara í smiðju til Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogs.  Þar á bæ hafa menn greint vandann og eru að hefja lausnarvegferð á grundvelli skýrslu, sem bæjarstjórnin hefur sameinazt um. Vandamálið og lausnin eru því þekkt, en félagsmálaráðherra, sem bæði fer m.a. með húsnæðismál, sveitarfélagamál og flóttamannamál, væflast samt um með afdankaða og vonlausa vinstri slagsíðu sína og er með alls konar ranghugmyndir um að spreða út fé skattborgaranna, sem aðeins mun þó magna vandamálið. Hugmyndasnauðir ráðherrar eru ekki upp á marga fiska. Um þetta skrifaði téður Jóhannes í lok greinar sinnar:

"Boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum með fjölgun félagslegra íbúða og hækkun tekjutengdra húsaleigubóta eru engin lausn.  Þótt þær geti tímabundið bætt hag sumra, eru þessar aðgerðir afar hættuleg fátæktargildra, sem refsar fólki, sem reynir að afla sér meiri tekna með því að lækka bæturnar og svipta það búseturétti. 

Ef sama fólki stæðu til boða ódýrar öríbúðir, gætu flestir án nokkurrar aðstoðar náð á örfáum árum að byggja upp eigið fé, sem síðan mætti nota til næstu íbúðarkaupa.  Þessi aðgerð kostar ekki krónu, en skapar sjálfbjarga einstaklinga.  Það eina, sem stjórnvöld þurfa að gera, er að hætta að þvælast fyrir." 

Kópavogsbær ætlar að styrkja fólkið, sem Jóhannes gerir þarna að umræðuefni, með vaxtalausu láni í 5 ár fyrir 15 % af andvirði íbúðarinnar, og reiknar þá með 5 % stofnframlagi tilvonandi eiganda hins félagslega húsnæðis.  Þetta er ný og róttæk hugsun hjá forráðamönnum bæjarfélags, enda er vandamálið alvarlegt.  Hún er til þess fallin að fjölga húseigendum aftur, og það er velferðarmál og grundvallarmál fyrir fjárhagslegt öryggi viðkomandi á efri árum.  Vel að merkja: hvað er að frétta af kosningaloforði Dags B. Eggertssonar frá í fyrra um að stórauka framboð húsnæðis ?  Hefur hann gefið framvinduskýrslu nýlega, eða er hann heltekinn af því utanríkispólitíska hugðarefni sínu að klekkja á Gyðingum fyrir botni Miðjarhafs ?    

 

 

      

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Því miður er ég ekki á því að þessi aðgerð Kópovogs komi til með að virka. Það eina sem þýðir er að leyfa fólki að koma sér sjálfu þaki yfir sig og kúpla verktökum/byggingarfyrirtækjum út úr vomi lóða og framkvæmda.

Það skiptir engu máli hvort ríkið niðurgreiði lán eða hvaða nafni húsnæðisbætur kunna að heita, allt slíkt fer beint í "byggingarkostnað", ef sá sem fær niðugreiðsluna getur ekki nýtt hana sjálfur í nákvæmlega það sem hann ætlar sér að gera.

Til að breyta þessu þarf að líta sér um öxl og velta fyrir sér í leiðinni af hverju eldri hús eru betur byggð en ný.

Sindri Karl Sigurðsson, 17.10.2015 kl. 00:21

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sindri Karl;

Húsnæðismál eru eitt mesta hagsmunamál almennings.  Það er til marks um, að þau hafa undanfarin ár stefnt í ógæfulega átt, að hlutfall húsnæðis í eigu íbúanna sjálfra hefur farið lækkandi.  Lóðaverð í ýmsum sveitarfélögum og aðrar aðgerðir stjórnvalda hafa ekki létt fólki róðurinn, sem vill leggja töluvert á sig til að "eignast þak yfir höfuðið" og auka þar með afkomuöryggi sitt í bráð og lengd.  Kópavogsbær er að fara inn á alveg nýja braut, og það eru einmitt nýjar aðferðir, sem eru líklegastar til að bæta úr skák.  Kópavogsbær tekur áhættu, en hún er "calculated risk". Bæjarstjóri Kópavogs og bæjarstjórnin, sem styður hann við þetta, á hrós skilið fyrir að brjóta blað og gera þessa tilraun.

Bjarni Jónsson, 17.10.2015 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband