Leikrit við frumskipun Landsréttar

Það er vandaverk að búa til kerfi fyrir skipun lögfræðinga í dómaraembætti, sem tryggi kjörsamsetningu dómarahóps, hvort sem dómararnir eiga að starfa í Héraðsdómi, Landsrétti eða Hæstarétti, og það þarf að vanda mjög val á einstaklingum í öll dómaraembætti.  Þar þarf að vera valinn maður í hverju rúmi. Líklega er bezt, að sama fyrirkomulag ríki á valinu fyrir öll 3 dómsstigin. Núverandi fyrirkomulag þarfnast endurskoðunar að mati dómsmálaráðherra og margra annarra.   

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, ritaði fróðlega grein í Morgunblaðið sunnudaginn 4. júní 2017, "Hlutverk Alþingis": 

 "Fyrirkomulag við skipan dómara hefur verið með ýmsum hætti fram til þessa og mismunandi eftir því, hvort við á Hæstarétt eða héraðsdómstól. Dómsmálaráðherra skipaði áður fyrr hæstaréttardómara eftir umsögn Hæstaréttar, en 3 manna dómnefnd fjallaði um umsækjendur héraðsdóma áður en ráðherra tók ákvörðun um skipun.  

Árið 2010 var sett á laggirnar 5 manna dómnefnd, sem hefur síðan fjallað um umsækjendur um bæði stöður héraðsdómara og hæstaréttardómara.  Um leið var vægi nefndarinnar aukið þannig, að ráðherra hefur verið bundinn við niðurstöðu hennar.  Þó er það ekki fortakslaust,  því að sérstaklega er kveðið á um, að ráðherra geti vikið frá mati nefndarinnar, en þá verður hann að bera það undir Alþingi.  

Í greinargerð með frumvarpi með þessari breytingu er sérstaklega áréttað, að veitingavaldið sé hjá ráðherra.  Það sé enda eðlilegt, að valdið liggi hjá stjórnvaldi, sem ber ábyrgð á gerðum sínum gagnvart þinginu [undirstr. BJo].

Með lögum um Landsrétt var svo kveðið á um, að við skipun dómara í fyrsta sinn yrði ráðherra að bera tillögu sína upp við Alþingi, hvort sem ráðherra gerði tillögu um að skipa dómara alfarið í samræmi við niðurstöðu dómnefndar eða ekki."

Á grundvelli þessa skýtur skökku við, að nokkur skuli draga í efa vald ráðherra til að hvika frá tillögu dómnefndar um 15 fyrstu dómendur í nýstofnuðum Landsrétti,  úr hópi 37 umsækjenda, og það vitnar beinlínis um dómgreindarleysi að saka ráðherrann um valdníðslu í ljósi þess, að mikill meirihluti fulltrúa landsmanna á Alþingi staðfestu gjörning ráðherrans.  Löggjafarsamkoman hafði búið svo um hnútana, að hún hefði lokaorðið um þessa frumskipun, væntanlega til að geta tekið í taumana, ef henni þætti tillögugerð ótæk.

Á Alþingi þótti mönnum 15 manna hópur dómnefndar einmitt vera  ótækur í þessu tilviki, og þá átti ráðherra ekki annarra kosta völ en að breyta þessum 15 manna hópi.  Þetta og fleira gerir málshöfðun á hendur ráðherra út af veitingunni alveg út í hött, og hún er aðeins til vitnis um öfgafull tapsárindi, sem bera viðkomandi lögmanni, lögskýringum hans og persónueinkennum, slæmt vitni.

"Ráðherra varð strax ljóst, eftir viðræður við forystumenn flokkanna, að niðurstaða dómnefndar um skipan dómara við Landsrétt myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi.  Rökstuðningur ráðherra hefði þar engu breytt.  Sjálfum fannst ráðherra niðurstaða nefndarinnar of einstrengingsleg.  

Að virtum öllum sjónarmiðum, sem máli skipta, gerði ráðherra tillögu til Alþingis um tiltekna 15 einstaklinga úr hópi þeirra 24, sem hann hafði metið hæfasta.  Virtist mikil og góð sátt um tillögu ráðherra í upphafi.  Það breyttist, hvað stjórnarandstöðuflokkana varðaði."

Það má geta nærri, að leikritið, sem þá fór í gang á Alþingi og í fjölmiðlum, hafi verið að undirlagi einhvers tapsárs, sem ekki ber meiri virðingu fyrir Alþingi, löggjafarsamkomunni, en svo, að hann telur við hæfi að efna til æsingarkenndrar umræðu um alvarlegt og mikilvægt mál.  Ekki bætti úr skák, að skýrslu dómnefndar, eða kjarna hennar, var lekið í fjölmiðla, sem er algerlega óviðunandi fyrir alla, sem hlut eiga að máli.  Verður sá leki rannsakaður ?

Eftir þessa atburðarás er óhjákvæmilegt að taka skipun dómara til endurskoðunar. Það er engin ástæða til að hafa mismunandi fyrirkomulag fyrir dómstigin 3, heldur er kostur við að hafa samræmt vinnulag fyrir þau öll.  Sama dómnefndin getur séð um matið á dómaraefnum fyrir öll dómstigin þrjú, en það þarf að standa öðruvísi að vali dómnefndar, og hún verður að fá nákvæmari forskrift frá Alþingi en núverandi dómnefnd fékk, svo að hún hlaupi ekki út um víðan völl.  

Það má hugsa sér, að Alþingi kjósi 4 nefndarmenn, stjórnarliðar 2 og stjórnarandstaða 2, og sé einn af hvoru kyni í hvorum hópi.  Hæstiréttur tilnefni þann 5., sem verði formaður.  

Verkefni dómnefndar verði að flokka hæfa umsækjendur frá óhæfum og gefa þeim hæfu einkunn eftir hæfni á hverju sviði, t.d. á sviðum fræðimennsku, dómstólastarfa, lögmennsku, stjórnsýslu, en sleppa því að vigta saman þessi hæfnissvið.  Einkunnir séu í heilum tölum frá 0-10. Nákvæmni núverandi dómnefndar með aðaleinkunn með tveimur aukastöfum er alveg út í hött.  Matsnákvæmnin leyfir ekki slíkt, nema umsækjendur séu látnir þreyta próf.  

Það á ekki að vera hlutverk dómnefndar að vega hin ólíku hæfnissvið saman í eina einkunn, enda er óljóst, hvernig dómnefnd Landsréttarumsækjenda ákvarðaði mismunandi vægi færnisviðanna, heldur á það að vera verkefni þess, sem með veitingarvaldið fer, dómsmálaráðherrans.  Hann verður við þá vigtun að vega og meta á hvaða sviðum viðkomandi dómstóll þarf helzt styrkingar við í hvert sinn, og ákvarða vægistuðlana út frá því.   Það var einmitt það, sem Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra gerði, þegar hún vék frá þröngri og hæpinni raðaðri tillögu dómnefndarinnar með því að styrkja hópinn með þekkingu og reynslu af dómstólastörfum.  Það var fullkomlega málefnalegt sjónarmið. 

Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður, ritaði á Sjónarhóli Morgunblaðsins 1. júní 2017 greinina

"Hæfir dómarar".  Þar sagði m.a.:

"Ég hef áður gagnrýnt það á þessum vettvangi, að val á dómurum sé sett í hendurnar á hæfnisnefndum, sem ekki njóta lýðræðislegs umboðs og bera ekki stjórnskipulega ábyrgð á skipununum.  Á meðan ráðherra er í lögum falið að skipa dómara og bera ábyrgð á slíkum ákvörðunum, pólitískt og stjórnskipulega, er eðlilegt, að hann leggi sjálfstætt mat á þá, sem skipaðir eru.  Með núverandi fyrirkomulagi virðist valnefnd geta stillt ráðherra upp við vegg með því að veita ráðherra ekkert svigrúm við skipunina, líkt og gert var í þessu tilviki."

Valnefndin stillti ekki aðeins dómsmálaráðherra upp við vegg, heldur hinu háa Alþingi líka, með því að búa sér til innri vog á mikilvægi hvers frammistöðuþáttar.  Upp á þessu tók dómnefndin án nokkurrar forskriftar um það, og það er vafasamt, að hún hafi haft heimild til slíkrar ráðstöfunar.

Haukur Örn skrifar t.d., að reynsla umsækjenda af stjórnun þinghalda og samningu dóma hafi ekki fengið neitt vægi hjá dómnefndinni.  Það sýnir, að störf dómnefndarinnar eru gölluð og að nauðsynlegt er að njörva verklagsreglu dómnefndar niður með lögum eða reglugerð.  Með gagnrýniverðri einkunnagjöf batt dómnefndin hendur ráðherra og Alþingis, en ráðherra leysti greiðlega úr því, enda stóðu engin rök til þess, að einvörðungu 15 væru hæfir til embættanna.  Það voru röng skilaboð til umsækjenda og annarra, sem hug hafa á þessum málum.

"Sitt sýnist auðvitað hverjum um listann, og eðlilega eru þeir, sem duttu út af listanum, óánægðir.  Einn aðili, Ástráður Haraldsson, lögmaður, einn umsækjendanna, sem duttu út af lista ráðherra, var snöggur til og hljóp fram með nokkrum gífuryrðum strax og fréttist af tillögu ráðherra.  Sendi hann opið bréf á forseta Alþingis, þar sem fullyrt var, að ráðherra hefði gerzt lögbrjótur með athæfi sínu og að þingheimur mætti ekki leggja blessun sína við slík lögbrot.  Taldi hann það t.d. ekki standast lög, að ráðherra ætlaði sér að leggja fram 15 einstaklinga í einum "pakka", auk þess sem verulega hefði vantað upp á rökstuðning ráðherra fyrir tillögunni.

Hvað fyrra atriðið varðar, er augljóst mál, að umsækjandinn lagði ekki á sig að kynna sér tillögu ráðherrans áður en hann lýsti yfir lögbroti hennar.  Enda virðist það aldrei hafa staðið til hjá ráðherranum að óska eftir því við þingmenn, að þeir samþykktu allar 15 tilnefningarnar í einu, heldur ávallt gengið út frá því, að kosið yrði um hvern og einn umsækjanda. 

Hið sama má segja um seinna umkvörtunarefnið.  Ráðherra fylgdi tillögu sinni eftir með útskýringum og rökstuðningi, sem hann hefur nú látið þingmönnum í té.  Svo virðist sem bréf umsækjandans hafi því falið í sér frumhlaup, sett fram í þeim tilgangi að hræða þingmenn í átt að sérstakri niðurstöðu."

Það er einsdæmi hérlendis, að umsækjandi um dómarastöðu eða aðra opinbera stöðu hlaupi opinberlega svo hrapallega á sig "í ráðningarferlinu" sem Ástráður Haraldsson í þessu máli.  Það er skrýtið, að slíkur gallagripur skuli lenda í hópi 15 efstu hjá dómnefndinni.  Öll málafylgja og gífuryrði téðs Ástráðs í þessu máli sýna almenningi svart á hvítu, að hann átti ekkert erindi í Landsrétt.  

Það er stormur í vatnsglasi að ásaka ráðherra um lögbrot fyrir að leggja tillögu sína fram sem heild, en ekki í 15 liðum.  Ákvörðun um þetta var tekin af yfirstjórn þingsins, og þingið samþykkti þetta form, enda alvanalegt þar.  Allir vissu, að hver þingmaður gat gert þá grein fyrir atkvæði sínu, að undanskilja einhverja frá samþykki sínu. Þingmönnum var ennfremur í lófa lagið að fara fram á atkvæðagreiðslu um hvern og einn, og samkvæmt þingsköpum hefði slík beiðni verið samþykkt.  Hér var um hreint framkvæmdaatriði að ræða, sem fráleitt er að kalla lögbrot.  Þá væru fjölmargar atkvæðagreiðslur á þingi um nokkra liði í einu lögbrot. Þetta upphlaup Ástráðs missti þess vegna algerlega marks og ber einvörðungu vott um mjög óvönduð vinnubrögð, sem allir dómarar í landinu verða að vera hátt hafnir yfir.   

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband