Orð og gjörðir fara ekki saman hjá ríkisstjórninni

Ráðherrarnir skilja ekki stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, sem þeir sitja í, eða þeir eru ráðnir í að hafa hana að engu, e.t.v. af því að þeir vilja upphefja pólitískar grillur sínar og rökstyðja með fáránlegum reiknigrunni, sem framkallar viðbótar skattheimtu af útflutningsatvinnuvegum landsins. Í ósvífni sinni kalla ráðherrarnir þetta fúsk leiðréttingu. Með þessu skjóta þeir sig og raunar landsmenn alla í fótinn, þvi að boðuð skattheimta getur engan veginn framkallað betri lífskjör í landinu.  Þvert á móti mun hún rýra skattstofna og draga úr því, sem fyrirtæki og launamenn bera úr býtum. Skattheimtan á sjávarútveginn mun veikja dreifðar byggðir landsins og draga má í efa, að þessi leiðrétting standist íslenzk lög um skattheimtu. 

Fyrir þjóðhagslegri óhagkvæmni leiðréttingarinnar  færði einn færasti auðlindahagfræðingur landsins, prófessor emeritus Ragnar Árnason, gild rök  í Morgunblaðsgrein sinni 16. apríl 2025:

"Atlaga að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar".

Hún hófst þannig:

"Í stefnuskrá ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur eru fögur orð um að efla atvinnulífið og auka verðmætasköpun.  Þar er því lýst þegar í upphafi, að ríkisstjórnin muni "vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi" og í aðgerðalista því m.a. lofað, að ríkisstjórnin muni stuðla að aukinni framleiðni  (aðgerð 5) og hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrirtækja (aðgerð 10).

Þessi stefnumið eru skynsamleg, enda er aukin verðmætasköpun forsenda þess, að unnt sé að bæta hag þjóðarinnar, svo [að] ekki sé minnzt á að draga úr fátækt, efla velferðarkerfið, styrkja menntakerfið og greiða hina svo kölluðu innviðaskuld, sem einnig er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar."

Nú er komið í ljós, að ríkisstjórnina skipa frasahöfundar, sem þekkja ekkert til atvinnulífs og skilja þar af leiðandi ekki, hvaða afleiðingar aðgerðir hennar hafa á atvinnulífið, þjóðarhag og lífskjör. Ráðherrarnir hafa ekkert jarðsamband. Ríkisstjórnin er þar af leiðandi gagnslaus fyrir öll framfaramál, sem leitt geta til batnandi hags almennings, en hún er miklu verra fyrirbæri.  Hún er þjóðhagslega hættuleg, þ.e.a.s. hún slengir fram pólitískum hugðarefnum sínum að algerlega óathuguðu máli og annaðhvort skilur ekki eða kærir sig kollótta um, að fyrirhugaðar skattahækkunaraðgerðir hennar vinna þvert á frasana, sem Ragnar Árnason vitnar til hér að ofan.  Þess vegna er þetta gjörómöguleg ríkisstjórn, sem á sér engan tilverurétt.  Hún er skaðleg og mun ekki leggja grunn að nokkrum nytsamlegum málum, þótt annað hafi mátt ætla af stefnuskránni.  Ráðherrarnir hafa gert hana að umbúðum án innihalds. Það kann ekki góðri lukku að stýra að hafa ekkert úthugsað erindi, en vera samt full af grobbi.

"Minna framleiðsluverðmæti í ferðaþjónustu og sjávarútvegi þýðir að sama skapi minni þjóðartekjur. Minni þjóðartekjur þýða minna ráðstöfunarfé til neyzlu og því minni hagsæld landsmanna.  Einnig verður minna ráðstöfunarfé til fjárfestinga og því minni hagvöxtur.  Þjóðartekjur í framtíðinni dragast því enn frekar saman og þar neð hagsæld.  Því mun koma að því, að öllum líkindum innan tiltölulega fárra ára, að opinberar skatttekjur dragist saman þrátt fyrir þyngri skattbyrði á sjávarútveg og ferðaþjónustu".

 Hvaða lýsing er þetta ?  Þetta er ósköp venjuleg lýsing á afleiðingum gjörða vinstri stjórnar.  Hún kom til valda undir fölskum fána, og K.Frost. ætlaði ekki að tjalda til einnar nætur, heldur þóttist vera með plan til 8 ára.  Í skápnum reyndist ekkert haldbært, heldur aðeins beinagrind sósíalistans, sem hefur ekkert vit á rekstrarhagfræði og skattleggur allt, sem hreyfist, þar til það hreyfist ekki lengur.  Landsmenn köstuðu vinstri stjórninni 2009-2013 af sér með róttækum hætti.  Ríkisstjórn K. Frost. á ekkert erindi annað en það, sem búast má við úr vopnabúri afdankaðra vinstri manna.  Kristrún hefur ekki mótað neina nýja hugmyndafræði jafnaðarmanna, sem getur blásið lífi í þessa ríkisstjórn.  Innantómir frasar eru aðeins til að kasta ryki í augu fólks.  

"Aukin skattheimta á grunnatvinnuvegina, sama hvaða nafni hún er kölluð, dregur úr umsvifum þeirra og minnkar þjóðartekjur og hagvöxt.  Hún rýrir því lífskjör landsmanna bæði í bráð og lengd.  Vegna minni þjóðartekna munu opinberar skatttekjur jafnfram óhjákvæmilega minnka, er fram í sækir. 

Því er eðlilegt, að spurt sé, hví ríkisstjórnin hafi kosið að leggja í þessa vegferð.  Er ekki hlutverk hennar að bæta lífskjör landsmanna ?  Telji hún, að vandinn sé að brúa fjárhalla ríkissjóðs, hefði ekki verið miklu nær lagi að minnka ónauðsynlegustu ríkisútgjöldin ?  Þar er vissulega af nægum útgjaldaliðum að taka, sem lítt eða ekki nýtast fyrir íslenzka ríkisborgara."

Það kann vel að vera, að ríkisstjórnin sé í vandræðum með fjárlagahallann, því að niðurskurður útgjalda á varla breiðan samhljóm innan þingflokka stjórnarinnar, en það er algerlega siðlaust að grípa þá til sérskattlagningar á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, sem í tilviki sjávarútvegsins gengur þá svo nærri fjárhagnum að líkja má við eignaupptöku, og í tilviki ferðaþjónustunnar þýðir að gera slaka samkeppnisstöðu vonlausa, sem þýðir "hrun í stofninum".  

Hugsunin á bak við skattheimtu ríkisstjórnarinnar af grunnatvinnuvegunum er röng, vegna þess að hún veikir afkomu þeirra um of, sem koma mun niður á lífsafkomu almennings í landinu vegna samdráttar í þessum greinum af völdum ofvaxinnar skattheimtu, eins og Ragnar Árnason hefur sýnt fram á.  Ofan á þetta bætist, að grundvöllur hækkandi skattheimtu á sjávarútveginn er reistur á greiðslugetu erlendra kaupenda, sem búa við aðstæður, sem eru ósambærilegar við íslenzkar fiskvinnslur.  

 

 


Fúsk og sleifarlag gagnvart atvinnuvegum

Ríkisstjórnin er úti að aka.  Hún heldur ótrauð áfram pólitískum aðgerðum sínum gagnvart sjávarútvegi og ferðaþjónustu, sem hafa alltaf orkað tvímælis, en eru hættulegri en áður vegna gjörbreyttra efnahagsaðstæðna frá og með 2. apríl 2025, þegar Donald Trump sagði heiminum tollastríð á hendur með þeim afleiðingum, að heimshagkerfið stefndi í samdrátt og jafnvel efnahagskreppu og Bandaríkin stefndu í fjármálakreppu, og Bandaríkjadalur heldur áfram að falla, enda viðskiptastríð í gangi við Kína, sem horfir illa fyrir Bandaríkin. 

Ísland er eyja, en í fjárhagslegum efnum mjög háð heimshagkerfinu.  Á sama tíma og búið er að raska jafnvægi heimshagkerfisins og setja það í niðursveiflu með ótrúlega klunnalegum og gamaldags vinnubrögðum Hvíta hússins (hver verða viðbrögð Capitol Hill ?), þá ætlar ríkisstjórn Íslands að bæta gráu ofan á svart með því að auka álögur á sjávarútveg og ferðaþjónustu tilfinnanlega.  Með því að hella olíu á eldinn, sem brennur á útflutningsatvinnuvegunum hættir ríkisstjórnin á harðan efnahagslegan samdrátt hérlendis vegna minni fjárfestinga og minnkandi útflutningstekna.  

Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, fékk birta skelegga grein um áhrif hærri skattheimtu á sjávarútveginn og starfsumhverfi hans í Morgunblaðinu 3. apríl 2025 undir fyrirsögninni:

"Aukið veiðigjald - minni verðmætasköpun ?"

Hún hófst þannig:

"Áform stjórnvalda um stórfellda hækkun veiðigjalda eru ekki bara árás á íslenzkan sjávarútveg - þau eru árás á byggðarlög, fjölskyldur, framtíðarsýn og efnahagslegan stöðugleika um land allt.  Fyrir sjávarútvegssveitarfélög, eins og Fjarðabyggð, eru þessi áform einfaldlega ólíðandi.

Fjarðabyggð hefur um áratugaskeið verið burðarás í íslenzkum sjávarútvegi.  Hér eru rótgróin fyrirtæki, bæði stór og lítil - fjölskyldufyrirtæki og afurðastöðvar - sem veita fólki atvinnu, greiða skatta, byggja samfélagið og halda uppi lífi í fjölda byggðakjarna."

Með einu pennastriki í Reykjavík er ætlunin að draga úr umsvifum fjölda manns á landsbyggðinni og draga féð að höfuðborginni.  Þetta nær engri átt og eru hrein svik við kosningaloforð allra stjórnarflokkanna.  Annaðhvort eru forysturollurnar purkunarlausar í umgengni sinn við sannleikann, eða þær eru skyni skroppnar um þjóðhagslegar afleiðingar gerða sinna. Það er ekkert vit í því að leiða fólk af þessu tagi til valda.  Svona sértæk skattheimta á sér aðra hlið: fjárfestar, sem keypt hafa hlutabréf í sjávarútvegsfélögum, standa frammi fyrir lækkandi gengi hlutabréfanna og þess vegna meira peningalegu tapi en aðrir á hlutabréfamarkaði hérlendis á þessum tollastríðstímum Bandaríkjanna.

Grein sinni lauk Ragnar þannig:

"Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og sveitarfélög, eins og Fjarðabyggð, skora á ríkisstjórnina að staldra við.  Að hefja gagnsætt samtal við hagaðila, útbúa greiningar, sem byggja á staðreyndum, og leggja fram raunhæfa, sanngjarna og rökstudda nálgun í framhaldinu."

Skattspor sjávarútvegsins er nú um 50 mrdISK/ár og hefur líklega náð hámarki að raunvirði að óbreyttri fiskgengd á Íslandsmið.  Þetta má sannreyna með útreikningum.  Skattagríð vinstri manna er svo mikil, að þeir skjóta sig í fótinn í bægslaganginum og grafa undan sveitarfélögum, sem háð eru sjávarútvegi, og grafa undan blómlegri byggð við sjávarsíðuna. Fyrir þetta þarf að refsa forysturollunum þremur í næstu kosningum.  Hugmyndaleysið og einstrengingshátturinn við stjórn landsins mun koma landsmönnum í koll. 

 

 

 

 


Vitlaus viðmið Viðreisnar

Ekki skal efa, að samstaða sé innan ríkisstjórnar K. Frost. um breyttar forsendur við útreikninga s.k. veiðigjalda, en það eru Viðreisnarráðherrarnir í atvinnuvegaráðuneytinu, Hanna Katrín Friðriksson, og fjármála-og efnahagsráðuneytinu, Daði Már Kristófersson, sem forgönguna hafa.  Það eru engar traustar atvinnulegar, fjárhagslegar eða langframa skattalegar forsendur fyrir s.k. "leiðréttingu", heldur eru þær af pólitískum toga, sem er slæmt vegarnesti fyrir auknar álögur á undirstöðuatvinnugrein, sem fætt hefur af sér margvíslega sprota í atvinnulífinu, sem styrkt hafa allt atvinnulíf í landinu og er fagnaðarefni.

Gripnar eru á lofti gamlar lýðskrumsfullyrðingar til að "leiðrétta" gjaldskrána, en að manni læðist sá grunur, að "leiðréttingin" sé til þess ætluð að færa íslenzkan sjávarútveg niður á plan sjávarútvegs í Evrópusambandinu - ESB, sem er á þurfalingsplani, enda er ESB hið fyrirheitna land Viðreisnarfólks.  Ef þetta er ekki rétt, er hreinni fáfræði um íslenzkan sjávarútveg um að kenna, og er hvorugt beysið. Vinnubrögð Viðreisnarráðherranna eru frumstæð og benda til, að þeir séu að fullnægja djúpstæðum pólitískum hvötum sínum.  

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, þekkir hins vegar íslenzkan sjávarútveg, eins og handarbakið á sér.  Um það ber Morgunblaðsgrein hans 12. apríl 2025 glöggt vitni:

"Tvöföld verðlagning - tvöfaldir skattar".

Hún hófst þannig:

 "Meira en hálfri öld áður en kvótakerfi í fiskveiðum var innleitt hér á landi, var samtenging veiða og vinnslu orðin regla á Íslandi frekar en undantekning.  Eflaust á það rætur að rekja til legu landsins og möguleika þess tíma til verðmætasköpunar.  Í hundrað ár hefur þetta form verið hornsteinn í íslenzkum sjávarútvegi, og höfðum við það fram yfir Norðmenn, þegar kvótasetning fisktegunda varð ekki umflúin.  Þetta er ástæðan fyrir því, að stærstur hluti aflans í Noregi hefur verið fluttur óunninn úr landi, en á Íslandi er stærstur hluti aflans unninn á heimaslóð."

Vafasamir pappírar, sem eru ötulir við að sá fræjum tortryggni um kvótasettan íslenzkan sjávarútveg, hafa látið í veðri vaka, að samtvinnun veiða og vinnslu hafi verið fylgifiskur kvótasetningarinnar.  Þeim væri nær að kynna sér söguna áður en þeir fara á flot með fimbulfamb sitt um kvótakerfið og sjávarútveginn.  

Forsendubreytingar Viðreisnar á útreikningum veiðigjaldanna, s.k. "leiðrétting", er svo órökrétt og ósanngjörn, að segja má, að hún sé "út úr kú".  Hún tekur mið af uppboðsverði, sem erlendar, niðurgreiddar fiskvinnslur móta. Íslenzk stjórnvöld eru vísvitandi eða í fáfræði að skekkja stórlega eða eyðileggja samkeppnigrundvöll íslenzkra fyrirtækja með þessu uppátæki, sem ætla má, að stríði gegn íslenzkum lögum og jafnvel stjórnarskrá um atvinnufrelsi. 

"Um 20 % bolfiskaflans eru seld á íslenzkum fiskmörkuðum, og þar geta öll fyrirtæki keypt fisk, bæði þau, sem vinna aflann hér á landi og þau, sem flytja hann óunninn til útlanda.  Þarna komast erlendar fiskvinnslur í beina samkeppni við þær íslenzku um aflann.  Þær vinnslur eru niðurgreiddar, og laun, sem þar eru greidd, eru langtum lægri en gerist og gengur á Íslandi. Þar af leiðandi hafa þær í auknum mæli haft yfirhöndina í samkeppninni við Íslendinga um hráefnið, og í dag fara um 40 % af því til erlendrar fiskvinnslu, á meðan allur aflinn, sem fer í eigin vinnslur, er unninn hér á landi."

Þetta er ástæðan fyrir því, að með öllu er ótækt og felur í sér mikla skekkingu á samkeppnisstöðu íslenzkum fiskvinnslum í óhag að leggja þetta "íslenzka" uppboðsverð til grundvallar gjaldtöku af íslenzkri útgerð.  Verðið á ekki við íslenzkar aðstæður, því að það er mótað af greiðslugetu niðurgreiddra fiskvinnslufyrirtækja, þar sem er allt öðruvísi launamarkaður en hér.  Þarna er um það að ræða, að verðmyndun á 8 % bolfiskaflans er lögð til grundvallar útreikningum á veiðigjaldi, sem nær engri átt.  Ætlar atvinnuvegaráðherra að vaða út í fenið og bera ábyrgð á að rústa fyrirtækjum á landsbyggðinni ?  Kjósendur í næstu sveitarstjórnar- og Alþingiskosningum munu kunna ríkisstjórnarflokkunum litlar þakkir fyrir, enda kom þessi vitleysa, eins og skrattinn úr sauðarleggnum.  

Ekki tekur betra við, þegar velja á verðviðmiðun fyrir uppsjávarafla. Atvinnuvegavegaráðherra hefur væntanlega leitað logandi ljósi að uppboðsverði slíks afla á Íslandi án árangurs, því að hún leitaði út fyrir landsteinana eftir uppboðsverði og fann það í Noregi.  Sú aðferðarfræði að leggja til grundvallar skattlagningu á Íslandi verð, sem myndað er í útlöndum við allt aðrar aðstæður en hér ríkja, er ábyrgðarlaust og forkastanlegt fúsk og vafasamt, að standist íslenzk lög um skattheimtu. 

   "Samið er við sjómenn um tvenns konar  verðlagningu á afla upp úr skipi, og er það grunnurinn að launum sjómanna. Annars vegar er það hæsta verð, sem selt er á til þriðja aðila, gegnum fiskmarkaði eða með öðrum leiðum, og hins vegar hlutfall af afurðaverðmætinu, sem verður til, þegar unnið er úr aflanum í eigin vinnslum.  Samkvæmt lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs frá árinu 1998 funda sjómenn og útgerðarmenn mánaðarlega um fiskverð til eigin vinnslu.  Samkvæmt samningum á milli þeirra skal það vera 80 % af skilaverði uppboðsmarkaðarins, sem að jafnaði skilar útgerðinni 55 % af útflutningsverðmæti afurðanna, en fiskvinnslan heldur eftir 45 %."

 Það er svo góð sátt um þessa skiptingu á milli sjómanna og útgerðarmanna, að þeir sömdu til 10 ára við gerð síðustu kjarasamninga sinna.  Þetta sýnir, að engin þörf er á að brjóta upp samtengingarkerfi útgerðar og vinnslu sjómanna vegna, en stundum láta lýðskrumarar að því liggja, að kerfið leiði til þess, að sjómenn séu hlunnfarnir. Kvótakerfið og þetta skiptakerfi hafa þvert á móti aukið öryggi á sjó (veiðar skipulagðar á grundvelli markaðarins, en ekki í neins konar kapphlaupi), aukið atvinnuöryggi sjómanna og jafnað vinnuálagið og bætt hag þeirra. Inngrip stjórnvalda í atvinnugrein með þeim hætti, að afkoma greinarinnar sem heildar rýrnar, eins og "leiðrétting" núverandi ríkisstjórnar er dæmi um, eru skaðleg og í þessu tilviki grunnatvinnuvegar stórskaðleg.  Þróunarstarfsemi sjávarútvegsins, sem leitt hefur til sprotafyrirtækja, sem mörgum hverjum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg, veikist og verður vart nema svipur hjá sjón.  Markaðsvirði fyrirtækjanna minnkar vegna lægri arðsemi.  Þetta leiðir til hærri fjármagnskostnaðar og meiri skuldsetningar.  

"Nú ber svo við, að stjórnvöld horfa til kaupgetu erlendu fyrirtækjanna, þegar viðmið á skattstofni útgerða á Íslandi er ákveðið.  Verði sú raunin, verða skattar og gjöld á íslenzkar útgerðir grundvölluð á getu niðurgreiddrar fiskvinnslu í Evrópu, en ekki á þeim verðmætum, sem verða til á Íslandi.  Hættan við þessa nálgun stjórnvalda er þríþætt.  

Í fyrsta lagi: ef eingöngu verður um skattahækkun upp á milljarðatug að ræða, dregur það úr samkeppnishæfninni, stuðlar að samþjöppun og minnkar fjárfestingagetu fyrirtækjanna.

Í öðru lagi: ef fiskvinnslunni er gert með lögum að greiða það, sem erlendar niðurgreiddar fiskvinnslur geta borgað, fer öll afkoman yfir á útgerðina, og hvatinn til fjárfestinga í fiskvinnslu í landi hverfur.  

Í þriðja lagi: ef þetta leiðir til norsku leiðarinnar, og samtenging veiða og vinnslu verður rofin, fáum við norsku afleiðingarnar með í kaupbæti, og íslenzk fiskvinnsla, eins og við þekkjum hana, heyrir sögunni til."

Þetta mál er lýsandi dæmi um það, sem stjórnmálamenn eiga að forðast eins og heitan eldinn, þ.e. pólitísk inngrip í atvinnugrein, sem gengur vel og skilar mjög miklu til samfélagsins, án áhættugreiningar á inngripunum fyrir starfsemi greinarinnar og þróun skattspors starfseminnar. 


Vargur í véum vestanhafs

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur kúvent hefðbundinni stefnu Bandaríkjanna í mörgum mikilvægum málum, s.s. varnarmálum, utanríkismálum og viðskiptamálum.  Þetta hefur hann þó ekki gert með samþykki þingsins, hvorki Fulltrúadeildar né Öldungadeildar, eins og ætla mætti, að stjórnarskrá Bandaríkjanna áskildi í stórmálum, sem hér um ræðir, heldur með forsetatilskipunum. Það er ekki nóg með, að hann hafi sýnt hefðbundnum bandamönnum Bandaríkjanna fjandskap og lítilsvirðingu, heldur hefur hann hagað sér, eins og einræðisherra, sem hann gerir sér dælt við, Pútín, Rússlandsforseta.

Trump hefur stillt Bandaríkjunum upp sem bandamanni Rússlands gegn Evrópu og þar með Úkraínu.  Fjandskapurinn í garð Úkraínu hefur ekki farið á milli mála, eins og aðför að Úkraínuforseta í Hvíta húsinu í marzbyrjun 2025 sýndi, og í kjölfarið tímabundin lokun á aðgengi Úkraínuhers að hernaðarlegum gervihnattagögnum og lömun radarvarna F16 orustuflugvéla, sem úkraínski flugherinn hafði fengið frá Danmörku og Hollandi.  Trump hefur ásælzt auðlindir Úkraínu neðanjarðar með mjög ósvífnum hætti og reynt að skilyrða slíka auðlindaeftirgjöf við áframhaldandi hernaðarstuðning.  Hann hefur þannig rekið harðsvíraða nýlendustefnu.  

MAGA (Make America Great Again) hreyfingin í Bandaríkjunum, sem Trump fer fyrir, hefur að mörgu leyti sömu stórveldastefnu og rússneski hugmyndafræðingurinn Alexander Dughin boðar í Rússlandi, þ.e. að nágrannaríki Rússlands eigi að beygja sig í duftið gagnvart útþenslustefnu Rússlands.  Þannig er MAGA á móti sjálfstæðri og óháðri Úkraínu, Kanada og Grænlandi.  Trump hefur farið fram af dæmalausri ósvífni með landakröfum á hendur Kanada og Danmörku.  Framkoma hans gagnvart evrópskum bandamönnum hefur rýrt traust þeirra gagnvart hernaðarstuðningi Bandaríkjamanna, komi til beinna hernaðarátaka við Rússland, t.d. í Eystrasaltslöndunum, í svo miklum mæli, að þeir þora ekki lengur að reiða sig á varnarmátt Bandaríkjanna, heldur hafa hafið endurvígvæðingu.  Þótt Þýzkaland sé fyrst nú þessa dagana að fá nýja ríkisstjórn eftir Sambandsþingskosningarnar 23.02.2025, hefur þingið samt veitt gríðarlegum fjármunum (allt að trnEUR 1) til þýzka hersins að frumkvæði verðandi kanzlara, Friedrich Merz.  Í Evrópu hafa orðið vatnaskil, og ríkin þar stefna á að fylla skarð Bandaríkjamanna, hvar sem því verður við komið.

Nýjasta uppátæki Bandaríkjaforseta er að tollsetja allar vörur til Bandaríkjanna. Ætlun hans með því er að rétta af vöruskiptahalla Bandaríkjanna og laða framleiðslustarfsemi til þeirra.  Hvorugt þessara ætlunarverka mun takast með því að fara í tollastríð við umheiminn.  Ef viðskiptajöfnuðurinn er neikvæður, er það merki um of sterkan USD, og sáralítið mun verða um fjárfestingar í vöruframleiðslu í Bandaríkjunum í skjóli tolla, því að markaðirnir eru einfaldlega að glata tiltrú á Bandaríkjunum í ljósi stjórnarhátta Donalds Trumps.  Þetta kom greinilega í ljós miðvikudaginn 9. apríl 2025, þegar greinileg merki voru um, að Trump væri að steypa Bandaríkjunum í fjármálakreppu.  Það var ekki nóg með gríðarlegt fall á hlutabréfamörkuðum, um trnUSD 10 á heimsvísu, heldur tóku skuldabréf að falla líka, einnig skuldabréf ríkissjóðs Bandaríkjanna.  Ríki, sem Bandaríkjastjórn hefur beitt háum tollum, eiga mikið af þessum ríkisskuldabréfum, og þau hika ekki við að selja þau til að koma Bandaríkjunum á hnén.  Þetta gerðist einmitt ofangreindan miðvikudag, þegar Trump kastaði hvíta handklæðinu inn í hringinn og lýsti yfir 90 daga hléi á þessu tollastríði, nema við Kína.  Hann mun verða að lúta í lægra haldi fyrir Kínverjum í þessu tollastríði m.a. vegna þess, að Kínverjar eiga  mikið af þessum bréfum, geta veikt USD og valdið verðbólgu í Bandaríkjunum.

Enginn forseti í sögu Bandaríkjanna hefur framið jafnstórkarlaleg mistök í upphafi kjörtímabils og Donald Trump á þessu seinna kjörtímabili sínu.  Mistökin eru legio, en þau verstu eru tollastríð hans gegn öllum heiminum, sem hafa dregið mjög úr hagvexti í heiminum og gætu hrint honum í samdráttarskeið, og Bandaríkin stóðu frammi fyrir fjármálakreppu, þegar Donald dró í land.  Hann hefur þegar valdið gríðarlegu tjóni með uppátæki sínu, og traustið til USD sem varasjóðsmyntar og til bandarískra stjórnvalda hefur þegar beðið alvarlegan hnekki.  Þetta eru hentistefnustjórnvöld, sem reka úrelta stefnu um skiptingu heimsins á milli þriggja víðáttumikilla ríkja, Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.  Hin mikla stefnubreyting gagnvart Evrópu er, að þessi stefna virðist eftirláta Rússum Evrópu.  Af þessum sökum reykspólar Evrópa nú með þungar fúlgur fjár við vígvæðingu.  Evrópa ætlar ekki að þurfa að berjast við Rússa í Berlín, og þess vegna verður öll áherzla lögð á varnir hins gamla yfirráðasvæðis Ráðstjórnar-Rússlands í Evrópu, þ.m.t. Úkraínu.

Það kann að vera, að núverandi stjórnvöld Bandaríkjanna vilji flokka Ísland sem yfirráðasvæði sitt, sbr hegðun þeirra gagnvart Dönum og Grænlendingum.  Þetta á þó eftir að skýrast, en kæra Íslendingar sig um að vera á yfirráðasvæði stjórnvalda, sem haga sér eins og Trump-stjórnin ?  Við ákvarðanatöku hér þarf að greina stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum, þ.e. hvort líklegt sé, að flæða muni senn undan MAGA-hreyfingunni.

 


Ranghugmyndir ríkisstjórnar um skattheimtu

Sjávarútveginum er stjórnað af ríkisvaldinu með árlegri úthlutun aflaheimilda á skip, aflahlutdeild, í samræmi við ákvarðað heildaraflamark á tegund, sem er reist á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og langoftast samhljóða henni. Aðeins útgerðarmenn, sem eiga aflahlutdeild á skip, og þeir hafa yfirleitt keypt hana á frjálsum markaði, fá úthlutað veiðileyfi. Þeir hafa þannig keypt sér aðgang að þessari takmörkuðu auðlind, sem er í umsjón ríkisvaldsins. Þeir áttu ekki von á að þurfa að borga meira fyrir veiðiheimildir. Þessi ríkisafskipti eru mjög mikil af þessari tilteknu atvinnugrein , sem fyrir 1983 var opin öllum, og hún var rekin með bullandi tapi á tímum minnkandi fiskgengdar og allt of margra veiðiskipa.  Ríkisafskiptin og lokunin voru réttlætt með nauðsynlegri verndun nytjastofnanna gegn ofveiði, og að þannig væri verið að verja hagsmuni þjóðarinnar, enda hefðu miðin löngum verið almenningur, þ.e. öllum opin.  Miðin eru augljóslega ekki almenningur lengur, heldur hafa þeir einir rétt til nytja, sem kaupa sér aðgang.  Um þetta eru nokkrar undantekningar, t.d. strandveiðarnar. Engin ákvæði eru um fjölda veiðiskipa, en með fjárfestingum í nýrri tækni hefur framleiðni þeirra aukizt.  Auðvitað á fjárfestirinn að njóta góðs af því, en ekki ríkið sérstaklega. 

Útgerðarmenn báðu ekki um þetta kvótakerfi, heldur var það stjórnvaldsákvörðun, en ekkert var á sínum tíma rætt um greiðslu fyrir aðgang að miðunum á grundvelli auðlindarentu eða annars. Með frjálsu framsali aflaheimilda frá 1989 jukust mjög viðskipti með kvóta, og kaupendur voru í góðri trú um, að kvótinn væri eign þeirra og jafngilti veiðileyfi á ótilgreindu magni.  Þegar hagur strympu (útgerðanna) tók að vænkast, komu upp öfundarraddir um, að þetta lokaða kerfi byði upp á meiri hlutfallslegan hagnað en aðrar atvinnugreinar. Var þessi umframarðsemi nefnd auðlindarenta, en þarna voru menn of fljótir á sér, því að engum hefur tekizt að sýna fram á með gildum rökum auðlindarentu í sjávarútvegi á Íslandi, enda reksturinn háður duttlungum náttúrunnar, sem takmörkuð þekking er á. Samt hafa stjórnvöld hérlendis um hríð  lagt á s.k. veiðileyfagjald, sem er viðbótar tekjuskattur á útgerðirnar á grundvelli einhverrar meintrar auðlindarentu.  Þarna er vitlaust gefið. 

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifaði grein um verðmætasköpun og skattheimtu á sjávarútveginn í Morgunblaðið 1. apríl 2025 undir fyrirsögninni:

"Íslenskur sjávarútvegur er óvinurinn".

Eins og fyrirsögnin gefur til kynna, er þessi skattheimta af pólitískum toga að mati framkvæmdastjórans, og engin efnahagsleg rök hníga að henni, því að hún er dæmd til að draga úr verðmætasköpun og þar með heildarskattspori sjávarútvegsins til ríkis og sveitarfélaga. Ríkið er nú að undirbúa alvarleg mistök við tekjuöflun.  Eftirfarandi tilvitnun í Sigríði Margréti ætti að færa mönnum heim sanninn um það:

"Virkur tekjuskattur [þ.e. raun tekjuskattur - innsk. BJo] fyrirtækja er í dag tæp 38 %.  Virkur tekjuskattur þeirra fyrirtækja, sem stunda fiskveiðar, er 58 %.  Nýtt frumvarp atvinnuvegaráðherra mun hækka virkan tekjuskatt þeirra, sem stunda fiskveiðar, í 76 %."  

Af þessu er ljóst, að um skemmdarverk stjórnvalda á heilli atvinnugrein er að ræða, sem lama mun starfsemina, valda fjármagnsflótta úr greininni og fjárfestingar og eiginfjárstaða munu ekki verða svipur hjá sjón.  Þessar tölur sýna svart á hvítu, að verðmætasköpun og skattspor munu dragast saman vegna glórulausrar skattheimtu samkvæmt lögmáli Lafflers, og sveitarfélög og ríkissjóður munu tapa á þessu.  Með flumbruhætti og pólitískum einstrengingshætti er þessi vinstri stjórn að skjóta sig í fótinn. Ekki kæmi á óvart, að slík ofurskattheimta, sem gera mun út af við sum minni útgerðarfélögin og þrýsta á samþjöppun, væri brot á stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi. Það þarf mjög sterk rök til þess að réttlæta mismunandi tekjuskattsheimtu af atvinnugreinum, því að hún skekkir samkeppnisstöðu og jafngildir mismunun ríkisvalds gagnvart borgurunum.

Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, skrifaði um málefni sjávarútvegsins af reynslu sinni og þekkingu í Morgunblaðið 18.02.2025 undir fyrirsögninni:

"Hvað er raunverulegt gagnsæi í sjávarútvegi ?"

"Ein stærsta breytingin, sem ríkisstjórnin boðar í sjávarútvegsmálum, er aukin skattheimta á greinina í formi s.k. auðlindaskatta.  En hvers vegna er verið að herða skattheimtu á grein, sem hefur þegar skilað ríkinu verulegum tekjum ?  Íslenzkur sjávarútvegur greiðir bæði veiðigjöld og tekjuskatta og stendur ekki undir neinum ríkisstyrkjum, ólíkt mörgum öðrum atvinnugreinum.  Í raun er Ísland eina landið innan OECD, þar sem sjávarútvegur greiðir meira til ríkisins en hann fær í stuðning."

Auðlindagjald þetta er reist á falsrökum, enda hefur Hæstiréttur jafnan nefnt fyrirbærið skatt, þegar hann hefur fjallað um mál af þessu tagi.  Sjávarútvegurinn hefur mun meira  vægi í byggðarlögum úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu, og þess vegna má nefna þessa skattheimtu byggðaskattheimtu.  Þingmenn dreifbýlisins hljóta að beita sér gegn þessum fjármagnsflutningi. 

"Ef útgerðum verður gert að greiða enn hærri auðlindaskatta, þarf að svara þeirri spurningu, hvernig tryggja á áframhaldandi samkeppnishæfni greinarinnar.  Sjávarútvegsfyrirtæki í samkeppnislöndum okkar njóta opinbers stuðnings, en hér er greinin stöðugt skotmark pólitískra ákvarðana, sem draga úr rekstraröryggi. Í stað þess að styrkja greinina og tryggja stöðugleika er ríkisstjórnin að leggja grunn að óvissu, sem gæti grafið undan fjárfestingum og nýsköpun í greininni."  

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru handahófskennd.  Það er engin tilraun gerð til að grafast fyrir um auðlindarentuna, heldur er fyrri skattheimtuformúla notuð með uppboðsmarkaðsverðum, sem eru ómarktæk til þessara nota, því að tiltölulega mjög lítið magn fer um þá, og fyrir uppsjávarfiskinn er leitað til norskra uppboðsmarkaða, þar sem  gjörólíkar markaðsaðstæður ríkja. Þetta eru óviðunandi vinnubrögð.  Það dettur engum heilvita manni í hug, að tvöfalt arðsamara sé að gera út fiskiskip í íslenzkri lokaðri landhelgi en að meðaltali að reka annars konar fyrirtæki á Íslandi, en þetta verður hlutfall virks tekjuskatts útgerða og annars konar fyrirtækja á landinu (76 %/38 %).  Þessi fyrirhugaða skattheimta er glórulaus.  Auðvitað á aðeins eitt virkt tekjuskattshlutfall að vera á fyrirtækjum landsins.  

"Ef raunverulegt gagnsæi á að vera markmið, ætti umræðan ekki að snúast um eignatengsl, heldur um skýra stefnu í auðlindastýringu, betri greiningu og langtímaáætlun um aflaheimildir.  Það þarf að tryggja rekstrarlegan fyrirsjáanleika og koma á skilvirkum aðgerðum, sem styðja við byggðaþróun og atvinnu.  Þetta snýst ekki um aukið eftirlit og reglugerðir, sem kæfa greinina, heldur um að tryggja, að hún geti starfað áfram á sjálfbærum og arðbærum grunni."

Núverandi stjórnvöld á Íslandi fara þveröfuga leið við auðlindastýringu m.v. ofangreint.  Það er engin tilraun gerð til að greina auðlindarentuna og ákveða, hversu stór hluti hennar skuli ganga til ríkisins.  Þvert á móti er að hætti lýðskrumara ákveðið að reikna veiðigjaldið á bolfiski út frá innlendum uppboðsmarkaði, sem kippa mundi grundvellinum undan innlendri fiskvinnslu, væri hann lagður til grundvallar, og að þessari dæmalausu lýðskrumsákvörðun tekinni, eru engir tilburðir hafðir uppi um að  áhættugreina þessa ákvörðun m.t.t. samkeppnishæfni, sjálfbærni, atvinnuöryggis, og tekna ríkissjóðs og sveitarfélaga. Varðandi veiðigjöld á uppsjávarfiski datt búrókrötunum það snjallræði í hug að miða við uppboðsverð í Noregi.  Allt er þetta svo óvandað, að til stórskammar er, þegar haft er í huga, hversu mikið er í húfi. Flaustur og flumbrugangur ríkisstjórnar K. Frost. er slíkt, að halda mætti, að náungi að nafni Donald Trump hafi haft hönd í bagga.   

 

 

 

  

 


Er ríkisstjórn K. Frost. frá sólhvörfum 2024 útibú frá Berlaymont ?

Nú er tekið að sverfa til stáls á íslenzka stjórnmálasviðinu.  Ríkisstjórnin hyggst draga burst úr nös íslenzka sjávarútvegsins með tvöföldun aðstöðugjalds fyrir veiðar í íslenzkri lögsögu.  Þetta er mjög óeðlileg skattheimta fyrir ýmissa hluta sakir.  Hún mun auka skatttekjur ríkissjóðs á kostnað fjárfestingargetu sjávarútvegsins og á kostnað sveitarfélaga sjávarbyggðanna og á kostnað hagsmunaaðila í heimabyggð.  Sjávarútvegurinn veikist verulega og kann að enda sem þurfalingur á samfélaginu vegna veikrar samkeppnisstöðu líkt og tíðkast í Evrópusambandinu - ESB.  

Ríkisstjórn K. Frost. hyggst láta algerlega undan kröfum ESA um samræmt lagaumhverfi við ESB í þeim skilningi, að ESB-löggjöf hafi fortakslausan forgang á alla íslenzka lagasetningu, sem ekki kemur frá Berlaymont.  Þetta er þvert gegn niðurstöðu ríkisstjórnar og þings 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur af Alþingi, og þvert á viðvaranir lögspekinga um, að gjörningur af þessu tagi stríði gegn Stjórnarskrá Íslands.  Er ekki skynsamlegra að reyna að finna milliveg, sem stenzt Stjórnarskrá og fullnægir ESB-kröfum um einsleitni. 

Í grein Stefáns Más Stefánssonar, prófesssors emeritus, við lagadeild Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 17. febrúar 2025, er vakið máls á þessum atriðum.  Greinin nefndist: 

"Bókun 35 við EES-samninginn".

Hún hófst þannig:

"Utanríkisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp, sem bætir sérstakri forgangsreglu við lög nr 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem yrði ný 4. gr. laganna.  Ákvæðið hljóðar svo:

"Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði, sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samninginum, er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði, skal hið fyrr nefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað.  Sama á við um skuldbindingar, sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum."

Vakin er athygli á, að yrði slík regla að lögum, fælist í því talsverð breyting, þar sem EES-reglur, sem innleiddar væru í íslenzkan landsrétt, fengju svo nefnd forgangsáhrif gagnvart öðrum íslenzkum lögum, en af því gæti leitt réttaróvissu, eins og síðar verður drepið á."

Það er augljós og óviðunandi galli við lagasetningu, að hún leiði til réttaróvissu.  Þar af leiðandi þarf að breyta frumvarpinu.  Það er verkefni Alþingis og lögspekinga Stjórnarráðsins að koma fram með frumvarp, sem lágmarkar réttaróvissu og hámarkar líkur á, að EFTA-dómstóllinn telji það ásættanlegt.  

Það eru hins vegar fleiri agnúar á þessu frumvarpi, og sá neðangreindi er af stærra taginu:

"Ef veita á lögum, sem stafa frá erlendu réttarkerfi, forgang í umtalsverðum mæli, kynni slíkt að fela í sér framsal löggjafarvalds, sem væri andstætt fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar."

Hér virðist "í umtalsverum mæli" opna leið til samkomulags, ef breytingin væri skilyrt verulega. 

"Löggjafinn getur aðeins brugðizt við þessu, þ.e. að ákveða, hvort forgangsreglan eigi að gilda, með síðari aðgerðum, en á meðan ríkir réttaróvissa.  Þetta rímar ekki vel við kröfur réttarríkisins um skýra og skiljanlega löggjöf.  Því er varhugavert, að löggjafinn setji almenna og opna forgangsreglu, sem veitir öllum innleiddum EES-reglum forgang fram yfir önnur landslög, án þess að löggjafinn hafi glögga yfirsýn yfir, hvaða áhrif forgangsreglan muni hafa á þá löggjöf, sem er nú þegar í gildi." 

Undirstrikunin er pistilhöfunfdar.  Hún myndar kjarnann í varnaðarorðum Stefáns Más og e.t.v. gæti breytt frumvarp um þessa forgangsreglu miðað við, að draga úr fortaksleysi þessara heimilda, svo að verjanleg verði gagnvart íslenzku stjórnarskránni.  Það er lögspekinga á borð við Stefán Má að gera tillögu um slíkt að beiðni Alþingis eða stjórnvalda.

"Í fyrri hluta bókunar 35 kemur skýrlega fram, að löggjafarvaldið er ekki framselt til stofnana EES og að markmiðinu um einsleitni verði að ná með þeirri málsmeðferð, sem gildir í hverju ríki um sig.  Þetta fyrirkomulag er í grundvallaratriðum ólíkt því, sem Evrópusambandið byggist á.  Þar gildir meginreglan um forgangsáhrif ESB-réttar innan aðildarríkja sambandsins, sem einnig hafa með skýrum hætti framselt hluta löggjafarvalds síns til stofnana þess.  Aldrei kom til álita að veita EES-reglum forgang við gerð samningsins með líkum hætti og innan ESB, og er fyrri hluti bókunar 35 staðfesting þess.  Framsal ríkisvalds, hér löggjafarvaldsins, til stofnana EES hafði því ákveðin takmörk."

Það er ekki eðlilegt, að ESA - eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, þrýsti nú á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá þessu grundvallaratriði við gerð EES-samningsins.  Í stað þess að gefast upp og verða að öllu leyti við þessari óeðlilegu kröfu ESA, ber utanríkisráðuneytinu að leita lögfræðilegra lausna, sem takmarka forgangsáhrifin nægilega til að verða samrýmanleg stjórnarskránni.  Á það verður síðan að reyna fyrir EFTA-dómstólinum, hvort samrýmanlegt er EES-samninginum.  Fyrir dómstólinum á ekki að spyrja, hvort íslenzka lagasetningin sé samrýmanleg ESB-löggjöfinni, því að EES er ekki sama og ESB.  

Í þessum anda er lokahluti greinar Stefáns Más.  Greinin er merk og þakkarverð, og íslenzkum stjórnvöldum ber að leggja hana til grundvallar vinnu sinnar með þetta mál til að komast megi hjá réttaróvissu, sem annars stefnir í:

"Af þessum sökum má varpa fram þeirri spurningu, hvort frumvarpið gangi lengra en nauðsynlegt er til að ná fram þeirri einsleitni, sem krafizt er samkvæmt bókun 35.  Einnig má spyrja, hvort unnt sé að uppfylla skuldbindingu bókunar 35 um forgang EES-reglna með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir, t.d. með annars konar og vægari lausn en almennri forgangsreglu, sem nær þvert yfir öll almenn lög Alþingis.  

Í grein þessari er ekki vikið að enn annarri spurningu, sem kann að verða áleitin, þ.e. hvort það fái staðizt, að Alþingi geti, að óbreyttri stjórnarskrá, sett almenn lög, sem geyma ákvæði um, að þau gangi framar öllum öðrum lögum, sem ekki eru nánar tilgreind, jafnt eldri lögum sem yngri."

Frumvarp utanríkisráðherra býður augljóslega hættunni heim um árekstra við stjórnarskrá.  Það virðist vera augljós kostur í stöðunni að koma fram með nýtt frumvarp, sem býður upp á "vægari lausn en almenna forgangsreglu", og sætti ESA sig ekki við hana, verði EFTA-dómstóllinn fenginn til að úrskurða um málið.

 


Metnaðarlaust viðhorf til samræmds námsmats

Þann 23.03.2025 var Ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem hinn hvatvísi 1. þingmaður Suðurlands, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, úr Flokki fólksins, lét af embætti.  Hún hafði orðið ber að dómgreindarbresti bæði fyrr og síðar.  Viðhorf hennar til menntamála eru með þeim hætti, að segja má, að farið hafi fé betra.  Hún hefði ekki unnið þeim málaflokkum, sem hún var sett yfir, nokkurt gagn. 

Í Morgunblaðsgrein 1. marz 2025 vitnaði fyrrverandi háskólakennari og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum, Meyvant Þórólfsson, til þessa lánlausa og e.t.v. hæfileikalausa þingmanns Sunnlendinga í grein sinni:

"Samræmt námsmat við lok skyldunáms".

Greinin hófst þannig:

"Í viðtali við mbl.is 12. febrúar síðastliðinn [2025] sagðist nýskipaður ráðherra menntamála ætla að fylgja fordæmi forvera síns [framsóknarmannsins Ásmundar Einars, sem féll af þingi í síðustu Alþingiskosningum] og mæla gegn fyrirlögn samræmdra prófa, enda teldu "allir sérfræðingar" slík próf óheppileg, þau hefðu lítinn tilgang og væru flókin og dýr."

Þessi alhæfing og fimbulfamb án rökstuðnings er dæmigert fyrir þennan þingmann, sem aldrei átti neitt erindi á Alþingi.  Þessi málflutningur kennarans er óvandaður og sæmir ekki ráðherra.  Mun betra taka við hjá Flokki fólksins ?  Meyvant færir gild rök gegn staðleysum fyrrverandi ráðherra:

"Daginn eftir viðtalið var nýtt frumvarp kynnt á vef Stjórnarráðsins um svonefndan Matsferil, sem á að koma í stað "gömlu samræmdu prófanna, sem voru hætt að þjóna sínum tilgangi", eins og það var orðað þar.

Allt voru þetta kostulegar fullyrðingar ráðherra og meintra sérfræðinga hennar um eina árangursríkustu leið, sem völ er á til að meta námsstöðu og námsárangur á heiðarlegan hátt.  Gildi hennar hefur verið staðfest með fjölda rannsókna.  Athyglisverðar niðurstöður Ludger Wössmann, háskólaprófessors í München, byggðar á gögnum úr PISA og TIMSS, leiddu í ljós jákvæða fylgni á milli miðlægrar stýringar (samræmds námsmats samfara hóflegri sjálfstjórn skóla) annars vegar og markverðs námsárangurs hins vegar.  Kerfi, eins og það íslenzka, án miðlægrar stýringar og samræmds námsmats, bjuggu á hinn bóginn við slakan námsárangur samkvæmt þessum stóru samanburðarrannsóknum."

Þarf frekari vitnana við ?  Ásmundur Einar og Ásthildur Lóa eru algerlega úti að aka í þessum efnum, éta upp innantómar fullyrðingar hlaðnar skammsýnu pólitísku gildismati, sem ekki styðst við vandaðar rannsóknir.  Þegar metnaðarleysi af þessu tagi ríður húsum í menntamálaráðuneytinu, er ekki kyn, þótt keraldið leki, og botninn sé suður í Borgarfirði í íslenzla grunnskólanum, eins og PISA-prófin gefa til kynna. 

Skilningsleysið í menntamálaráðuneytinu og víða í skólakerfinu opinberast í tali um, að "Matsferill" (hugbúnaðarkerfi fyrir kennara) geti komið í stað lokaprófs.  Hér er um ósambærilega þætti að ræða, sem einhverjum pólitískum blekkingameisturum hefur tekizt að leggja að jöfnu.  Ef "Matsferill" kemst á koppinn, getur hann reynzt kennurum og nemendum gagnlegur, en hann getur aldrei orðið jafngildi lokaprófs nemenda.

"Árið 1990 skiluðu 2 starfshópar Menntamálaráðuneytisins áliti, annar um framkvæmd og tilgang "samræmdra könnunarprófa".  Könnunarprófin voru hugsuð sem stuðningur við skólastarf eða leiðsagnarmat.  Hlutverk lokaprófa var að veita áreiðanlegar upplýsingar um námsárangur við lok grunnskóla, vera viðmið við inntöku í framhaldsnám og gefa vísbendingar um, hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár hefði verið náð.  Lokapróf hafa ekki verið haldin hér á landi síðan 2007 og könnunarpróf ekki síðan 2021.  

Nú hefur Seðlabanki Íslands gert athugasemdir við, að haldfastar mælingar skorti, sem gefið geti til kynna nýtingu opinbers fjármagns í skólakerfinu, aðallega grunnskólakerfinu.  Þetta er rétt og réttmæt ábending. Fjármagn til grunnskólakerfisins hefur á síðast liðnum 15 árum aukizt langt umfram nemendafjölgun, en eini mælikvarðinn á þróun námsárangurs eru PISA-prófin, og þau benda til, að námsárangur fari greinilega versnandi. Það er makalaust, hvernig menntayfirvöldum og skólafólki dettur í hug að reka skólakerfi í blindni, hafandi engar árlegar samræmdar mælingar á árangri nemenda.  Að skilja ekki mikilvægi samræmdra lokaprófa í grunnskóla er grafalvarlegt og aumlegt að mikla fyrir sér framkvæmdina árið 2025, þótt próf eins og Landsprófið hafi gengið snurðulaust áratugum saman á 20. öldinni. 

"Í staðinn á að koma Matsferill, sem mun innihalda "fjölda tækja og tóla fyrir kennara til að nota reglulega í skólastarfi", svo [að] aftur sé vitnað í tilkynninguna á vef Stjórnarráðsins.  M.v. lýsingar mun Matsferill virka eins og svissneskur vasahnífur, gæddur óteljandi notkunarmöguleikum og ævinlega með rétta tólið, þegar á þarf að halda. Munurinn er þó sá, að svissneski hnífurinn leit dagsins ljós fyrir löngu, en Matsferill er enn hugsýn í mótun; ef maður líkir honum við fjölnota vasahnífinn, mætti segja, að tappatogarinn væri kannski rétt farinn að skjóta upp kollinum. 

 

M.v. lýsingar á Matsferill að leysa samræmd könnunarpróf af hólmi, þ.e. ef hann þá lítur einhvern tíma dagsins ljós.  En hann mun ekki koma í stað samræmdra lokaprófa sem heiðarlegt, áreiðanlegt og réttmætt mat við lok skyldunáms, sem hver og einn nemandi á heimtingu á að gangast undir til að fá vottun um námsstöðu áður en hann sækir um framhaldsskólanám. 

Orð [fyrrverandi] ráðherra og sérfræðinga hennar um slík próf eru eru varhugaverð að mati undirritaðs, þ.e. að þau séu gagnslaus fyrirbrigði úr fortíðinni, hætt að þjóna tilgangi sínum."

   Höfundur þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um þessi atriði.  Skólayfirvöld og kennaraforystan skáka í því skjólinu, að Matsferill muni koma í stað samræmdra lokaprófa.  Það er reginmisskilningur, sem sýnir, að pólitík ræður för í stað málefnalegrar hlutlægni og rökhyggju. 

Úr öllum áttum berast nú vísbendingar um, að árangur íslenzka menntakerfisins sé í engu samræmi við opinberar fjárveitingar til þess.  Nú síðast (26.03.2025) benti frumkvöðull PISA-prófanna á þá augljósu staðreynd, að ómögulegt er að vinna markvisst að endurbótum, ef engin árangursmæling er fyrir hendi.  Hann benti á margvíslega nytsemi samræmdra árangursmælinga, t.d. fyrir skóla og foreldra.  Jafnframt, að námsárangur er að jafnaði betri þar, sem samræmd lokapróf eru viðhöfð. 

 Núverandi mennta- og barnamálaráðherra segist munu einbeita sér að því verkefni að gera grunnskólanemendur læsa áður en kemur að útskrift.  Hvernig ætlar hann að vinda ofan af núverandi óframdarástandi ?  Ef hann hefur enga róttæka framkvæmdaátlun, mun honum ekkert ágengt verða.  Undanfarin ár hefur forystuleysi ráðuneytisins staðið menntun á Íslandi fyrir þrifum. Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur frá um 2010 er ónýtt og skaðlegt plagg. Mun nýi ráðherrann gera gangskör að því að gefa út mjög endurbætta aðalnámskrá ?  Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með málefni fjöreggs þjóðarinnar.  Þetta fjöregg, æskan, á á brattann að sækja um þessar mundir og rótleysi hrjáir hana með þeim afleiðingum, að margir óttast nú um afdrif móðurmálsins.  Mun nýr ráðherra leggja þung lóð á vogarskálar með æskunni eða á móti henni ?    

 

 

 

 


Yfirgangur Bandaríkjanna keyrir um þverbak

Þann 28.02.2025 varð heimsbyggðin vitni að óheyrilegum lygum og dónaskap forseta og varaforseta Bandaríkjanna í garð gests síns í forsetaskrifstofu ("Oval Office") í Hvíta húsinu.  Gesturinn að þessu sinni var Volodimir Zelensky, rétt kjörinn forseti Úkraínu og með nýlega einróma stuðningsyfirlýsingu úkraínska þingsins í farteskinu.  Framkoma bandarísku ráðamannanna var ruddaskapur og dónaskapur af verstu gerð, sem sýnir, að nú hafa Bandaríkin tekið sér stöðu með Rússlandi og fleiri einræðisríkjum um þá nýju skipan heimsmálanna, að í stað laga og réttar, sem Bandaríkin hafa stutt af kostgæfni hingað til, skuli ráða réttur hins sterka.  Þetta þýðir í raun klofning NATO, og að Evrópa stendur nú ein og verður að sjá um varnir sínar sjálf og taka að sér að standa ein með Úkraínu gegn innrás Rússa í landið, sem er þáttur í heimsvaldastefnu Kremlar. 

Það er orðin spurning, hvort varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 er Íslandi byrði eða ávinningur, því að forseti Bandaríkjanna virðist meta allt til fjár án þess að ráða við það.  Þetta eru firn mikil, og það hlýtur að ríkja hneykslan, fordæming og reiði í mörgum ranni fyrir vestan núna, einnig á Bandaríkjaþingi.  Það, sem gerzt hefur, að forseti Bandaríkjanna gerist málpípa og bandamaður stríðsglæpamannsins á æðsta valdastóli Kremlar, er svo alvarlegt, að það hlýtur að vekja marga þingmenn á Bandaríkjaþingi upp við vondan draum, svo að unnt verði að virkja reglur um brottvísun úr starfi forseta Bandaríkjanna. Hér er alls ekki allt með felldu, svo að lögsókn gegn forsetanum verður ekki útilokuð.

Þann 25.02.2025 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi sendiherra, undir lýsandi fyrirsögn:

"Nýlenduveldið Rússland"

Hún hófst þannig:

"Stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu er landvinningastríð.  Rússar hafa stundað hliðstæðan stríðsrekstur í mörg hundruð ár.  Þetta gleymist gjarnan í umræðu um stríðið í Úkraínu, þar sem athyglinni er beint að samskiptum Rússlands við vestræn ríki og sér í lagi við Bandaríkin vegna aðildarumsóknar Úkraínu að NATO.  Það, sem gleymist, er ekki sízt að huga að því, hvers konar land Rússland er."

Rússland er og hefur verið frá 17. öld heimsvaldasinnað ríki í nánast stöðugri útþenslu. Ef þessi útþensla verður ekki varanlega stöðvuð núna í Úkraínu, mun hún halda áfram að Eystrasalti og til vesturs.  Árásargjarnt ríki á ekki að fá að ráða örlögum nágrannaríkja sinna.  Þannig á ekki að hlusta á gjammið í Kreml, þegar NATO-aðild og ESB-aðild Úkraínu er til umræðu. Donald Trump hefur valdið straumhvörfum í alþjóðamálum.  Hann hefur tekið sér stöðu með Rússlandi Pútíns og þvertekið fyrir aðild Úkraínu að NATO.  Bandaríkin glata þessa dagana trúverðugleika sínum og trausti vestrænna bandamanna sinna með því að taka afstöðu með Rússlandi við atkvæðagreiðslur innan Sameinuðu þjóðanna. Evrópa virðist standa ein uppi í baráttunni gegn árásargjörnu og glæpsamlegu Rússlandi.  Með framferði stjórnvalda í Bandaríkjunum munu þau standa uppi vinalaus og verða innlendri upplausn að bráð, en Evrópa mun axla sína ábyrgð og taka forystu á meðal lýðræðisþjóða í baráttunni gegn landvinningum einræðisríkisins Rússlands. 

Hvernig mun núverandi Bandaríkjastjórn taka á Kína ?  Gort Bandaríkjaforseta um eigið ágæti og samningatækni er innantómt bull og ekkert skárra en aðrar lygar hans.  

"Mikið hefur verið rætt og ritað um ástæður þess, að Rússar beiti hervaldi gagnvart Úkraínu greinilega með það að markmiði að leggja landið undir sig.  Þegar horft er til sögunnar, má sjá, að ríki fara ekki í stríð, nema þau telji fullreynt að ná pólitískum markmiðum með öðrum hætti en vopnavaldi.  Rússar reyndu í mörg ár, en tókst ekki að ná tökum á Úkraínu með efnahagslegum og pólitískum þrýstingi. 

Það, sem hvað oftast hefur verið nefnt sem ástæða fyrir innrás Rússlands í Úkraínu, er aðildarumsókn landsins að ESB og NATO.  Efalítið eru það þættir, sem haft hafa áhrif á ákvarðanatöku Vladimirs Pútins.  En þegar litið er til sögu samskipta Rússlands og Úkraínu, verður ekki hjá því komizt að álykta, að skýringanna er ekki sízt að leita í nýlendustefnu, sem nær mörg hundruð ár aftur í tímann. Stríðið í Úkraínu sýnir, að nýlenduveldið Rússland er enn til staðar og nálgast nærliggjandi lönd og svæði á sömu nótum og það hefur alltaf gert."

Það er þyngra en tárum taki, að fyrrverandi forysturíki hins vestræna heims skuli nú hafa svikið lit og tekið sér stöðu með þessu árásargjarna og frumstæða ríki, Rússlandi, sem leynt og ljóst reynir að grafa undan lýðræðinu í heiminum. Hvað í ósköpunum kom fyrir ?  Hvers vegna gengur forseti Bandaríkjanna nú erinda Kremlverja ?  Eru það hagsmunir Bandaríkjanna ?  Það verður ekki séð.  Eru það hagsmunir Donalds Trumps ?  Það á eftir að koma í ljós, og þar eru ekki öll kurl komin til grafar. 

Nýjasta illvirki Bandaríkjastjórnar gagnvart Úkraínu er að hætta að deila upplýsingum til Úkraínumanna um eldflaugar og herflugvélar, sem hefja sig á loft frá yfirráðasvæði Rússlands ásamt upplýsingum um herflutninga Rússa á landi.  Þetta hefur valdið því, að Úkraínuher á erfiðara með að verjast árásum Rússa, einnig á borgaraleg skötmörk.  Þá hafa Bandaríkjamenn dregið úr notagildi F16 herflugvéla flughers Úkraínu með því að gera óvirkan truflanabúnað þeirra fyrir rafeindamerki.  Það mun taka Evrópu a.m.k. 2 mánuði að fylla þetta skarð, en mrdUSD 800 viðbótar fjárveiting ESB á 4 árum er skýrt merki frá ESB um, að þar á bæ er ætlunin að verða óháður Bandaríkjunum í öryggismálum, enda er augljóslega ekki hægt að treysta Bandaríkjunum.  


Á að hafa fé af ríkissjóði með kattarþvotti

Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, er á hálum ísi með því að nota 2 hæpin lögfræðiálit til að mismuna þegnum landsins stórlega varðandi endurgreiðslu á ofgreiddu fé úr ríkissjóði. Téðu hæpnu lögfræðiálitin fría Flokk fólksins þeirri skyldu að endurgreiða ríkissjóði fé, sem engin lagaheimild var til að greiða flokknum.  Þetta er hæpið, því að það gengur í berhögg við lagaákvæði og Hæstaréttardóm.  Engu breytir um stöðu Flokks fólksins gagnvart lögunum, að starfsmönnum ríkisins urðu þarna á mistök. Það bætir ekki úr sök Flokks fólksins, að honum mátti vera ljóst, að hann skorti lagaheimild til að taka við téðu fé úr ríkissjóði, enda samþykktu þingmenn hans lagasetninguna. 

Þann 12. febrúar 2025 birtist skýr grein í Morgunblaðinu frá Einari Geir Þorsteinssyni, lögfræðingi, sem varpar ljósi á lagalega hlið hins s.k. "Styrkjamáls" undir fyrirsögninni:

"Ólögmæt greiðsla til Flokks fólksins - ríkissjóður á endurkröfurétt". 

Hún hófst þannig:

"Flokkur fólksins hefur fengið samtals MISK 240 úr ríkissjóði á árunum 2022-2024, þrátt fyrir að hafa ekki verið skráður í stjórnmálasamtakaskrá, eins og lög kveða á um.  Þrátt fyrir að greiðslurnar hafi verið ólögmætar frá upphafi, virðist ekki standa til að krefja flokkinn um endurgreiðslu.  

Ef einstaklingur fær ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun eða opinber starfsmaður fær ofgreidd laun, er ætlazt til þess, að fjármunirnir verði endurgreiddir. Þegar stjórnmálaflokkur fær hins vegar ofgreitt fé úr ríkissjóði, virðist fjármálaráðherra líta svo á, að aðrar reglur eigi við.  Ríkissjóður virðist tilbúinn að afsala sér lögmætri kröfu um endurgreiðslu um MISK 240 af opinberu fé - án þess að láta reyna á endurkröfurétt sinn." 

Með þessu slær Viðreisnarmaðurinn og fjármálaráðherra afar varhugaverðan tón í íslenzkum stjórnmálum, sem gengur þvert á grundvallarregluna um jafnræði þegnanna gagnvart lögunum.  Það er í raun algerlega ótækt, þótt hann með því sé að bjarga skinni sólhvarfastjórnarinnar, sem er á hverfanda hveli út af þessu spillingarmáli. Þar að auki hefur nú komið fram, að ríkið leiðbeindi Flokki fólksins um frágang gagna til að sýna fram á hæfi til að taka við ríkisstyrk til stjórnmálaflokks.  Þetta gerði Skatturinn í janúar-febrúar 2024.  Ekki ætti að skipta máli, hvaðan gott kemur.  Haustið 2024 þvertók Inga Sæland fyrir, að flokkurinn hefði fengið slíkar leiðbeiningar.  Hvernig er eiginlega háttað umgengni þessa ráðherra við sannleikann ? 

Trúverðugleiki þessa ráðherra er enginn orðinn, og nú verður að fara fram ítarleg rannsókn á því, hvernig ólögmætu fé úr ríkissjóði, var ráðstafað.  Var þar farið að lögum, sem gilda um stjórnmálaflokka og styrkveitingar til þeirra, eða kemur hér til kasta refsilöggjafarinnar ? 

"Álitsgerð ríkislögmanns byggist á því, að bæði ríkið og Flokkur fólksins hafi verið í góðri trú.  Slík rök standast ekki.  Grandleysi ræðst ekki af því, hvort ríkið hafi gert mistök í verklagi, heldur af því, hvort Flokkur fólksins hafi mátt vita, að greiðslan væri ólögmæt.  Þar sem lagaskylda var skýr og skráningarskyldan ótvíræð, verður ekki annað séð en flokkurinn hafi borið fulla ábyrgð á því að hafa tekið á móti greiðslunum, sem voru ólögmætar frá upphafi."

Þingflokkur Flokks fólksins samþykkti lögin, sem hér um ræðir.  Það er ótrúlega ósvífið að halda því fram, að flokkinum hafi verið ókunnugt um efni þeirra og afleiðingar fyrir stjórnmálaflokkana. Að boðið sé upp á svona hundakúnstir af einum ríkisstjórnarflokkanna, er trúlega einsdæmi í fullveldissögu landsins.  Ríkisstjórnin er sködduð með lík í lestinni.  

"Í íslenzkum rétti gildir meginreglan, að þeim, sem fær ranglega greidda peninga, ber að endurgreiða þá.  Þetta er m.a. staðfest í dómi Hæstaréttar frá 13. september 2007 í máli nr 32/2007, en þar segir orðrétt í niðurstöðu Hæstaréttar.  

"Í íslenzkum rétti gildir meginregla um, að þeir, sem fá fyrir mistök greidda peninga, sem þeir eiga ekki rétt til, skuli endurgreiða þá."

Það fer vart á milli mála, hvernig málshöfðun gegn Ingu Sæland mundi lykta í réttarkerfinu.

"Fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, hefur sagt, að málið sé "ekki á hans borði", nema að því leyti, sem varðar vinnubrögð ráðuneytisins.  Sú afstaða stenzt ekki skoðun, enda á ríkissjóður lögmæta endurgreiðslukröfu á hendur Flokki fólksins."

Ómálefnalegt er, hvernig fjármálaráðherra gerir vinnubrögð fjármálaráðuneytisins, sem kannski má nefna mistök, að aðalatriði málsins.  Það er "smjörklípuaðferð" til þess gerð að reyna að bjarga skinni ríkisstjórnarinnar.  Engin ríkisstjórn getur afborið spillingarmál af þessu tagi af hálfu eins ríkisstjórnarflokksins. 

 


Staðsetning virkjana skiptir máli

Það eru margir þættir, sem gera staðsetningu virkjana mikilvæga. Þar má nefna orkutöp frá virkjun til notenda, hættu af völdum náttúruhamfara, rekstrarstöðugleika vegna náttúrufars, hvort raforkuinnflutningur eða -útflutningur er af svæði virkjunar, og kostnað íbúa á svæðinu vegna truflana á raforkuafhendingu til þeirra.  Út frá þessum atriðum má segja, að eitt landsvæði beinlínis hrópi á nýjar virkjanir inn á svæðið.  Þetta eru Vestfirðir, en einnig má benda á öra uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum sem viðbótar rök fyrir því, að landsfeður og -mæður veiti nýjum Vestfjarðavirkjunum vissan forgang á framkvæmdalista. Tala ekki málpípur nýrrar ríkisstjórnar fjálglega um að styðja við verðmætasköpun í landinu ?  Eru það bara orðin tóm ?

Elías Jónatansson, orkubússtjóri, reit dágóða grein um þetta málefni í Morgunblaðið 14.01.2025, sem hann nefndi: 

"Skipta virkjanir og staðsetning þeirra máli ?"

Þar mátti m.a. lesa:

"Orkubú Vestfjarða hefur sýnt fram á, að bæta má afhendingaröryggi á Vestfjörðum um 90 % með byggingu tveggja virkjana.  Annars vegar Kvíslatunguvirkjunar í Selárdal í Steingrímsfirði, 9,9 MW, sem vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við á þessu ári [2025] og gangsetja á árinu 2027.  Virkjunin er sérlega mikilvæg fyrir 10 % Vestfirðinga, sem búa í grennd við virkjunina. 

Þá hefur Orkubúið lagt til, að skilmálum friðlands í Vatnsfirði við Breiðafjörð, sem er í eigu ríkisins, verði breytt til að hægt verði að taka 20-30 MW virkjunarkost þar til skoðunar í rammaáætlun.  Þar er um að ræða kost, sem hefði afgerandi jákvæð áhrif á raforkukerfið hjá 90 % Vestfirðinga.  Virkjunin getur orðið hryggjarstykkið í vestfirzka raforkukerfinu, og 2 fyrr nefndar virkjanir gætu, ásamt Mjólkárvirkjun, sem er 11 MW, tryggt Vestfirðingum raforku, þótt tenging við meginflutningskerfið væri rofin, jafnvel vikum saman. Virkjanirnar 3 væru samtals 51 MW í uppsettu afli og með mjög góða miðlunargetu.  Um leið og virkjanirnar styrkja raforkukerfi svæðisins verða þær grænt varaafl fyrir Vestfirði, þegar Vesturlína er straumlaus."  

Hér er um skynsamlega tillögugerð að ræða, sem nýr loftslags-, orku- og umhverfisráðherra ætti að taka upp á arma sér og flytja lagafrumvörp um á Alþingi, eins og margir Vestfirðingar ætlast til af honum.  Þar með slægi hann forvera sínum í embætti við, en nokkur metingur hefur verið á milli þeirra undanfarið.  Verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, gagnast afhendingaröryggi í landinu öllu sem nemur framleiðslugetu þessara tveggja virkjana og dregur talsvert úr olíubrennslu. Það, sem Orkubússtjórinn kynnir þarna til sögunnar, er framfaramál fyrir Vestfirði og landið allt, og nú reynir á nýja ríkisstjórn "að láta verkin tala".   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband