Dýr misskilningur íslenzkra embættismanna

Þegar Evrópusambandið (ESB) setur í reglugerðir sínar og tilskipanir, að þær skuli ekki gilda eða gilda í vægari mæli um fyrirtæki undir ákveðinni stærð, t.d. m.v. veltu í EUR/ár eða ársverkum, þá halda íslenzkir embættismenn, sem véla um innleiðingu þess, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel kemur til viðkomandi ráðuneytis, að þeir eigi að staðfæra fyrirtækjastærðina með einhverju ótilgreindu hlutfalli af íbúafjölda Íslands og meðalíbúafjölda í aðildarlöndum ESB.  Hér er grundvallar misskilningur á inntaki gerðanna á ferðinni.  Stærð fyrirtækja er ekki afstæð eftir löndum.  Hún er algild, því að alls staðar gilda sömu lögmál um hagkvæmni stærðarinnar.  Búrókratar í Brüssel hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir, að það er hægt að leggja meiri skriffinnsku byrðar á stór fyrirtæki en smá án þess að skekkja samkeppnisstöðuna verulega við lönd utan við "Festung Europa".  

Íslenzkir embættismenn lifa margir hverjir í tómarúmi við sitt skrifborð og bera ekki skynbragð á það, sem að atvinnurekstri í samkeppni snýr, enda er samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja sú lakasta á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað.  Brýnt er að snúa þessu við m.a. með endurhæfingu embættismannageirans hjá ríki og sveitarfélögum í þá veru að styrkja fremur samkeppnisstöðu fyrirtækjanna en hitt.  Auðvitað þyrftu verkalýðsforkólfar og stjórnmálamenn á slíkri endurhæfingu að halda líka.  

Dóra Ósk Halldórsdóttir birti Sviðsljóssgrein í Morgunblaðinu 19. júní 2024 um efnið undir fyrirsögninni:

"Gullhúðun beitt án eðlilegs rökstuðnings".

Hún hófst þannig:

""Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, að það sé ekki verið að gullhúða EES-gerðir, nema til þess beri brýna nauðsyn", segir Brynjar Níelsson, lögmaður og formaður starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, en skýrsla á vegum hópsins var birt í gær á vef utanríkisráðuneytisins.  Auk Brynjars voru í starfshópnum dr Margrét Einarsdóttir, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.  

Ástæða þess, að starfshópurinn var stofnaður, var langvarandi umræða og gagnrýni á s.k. gullhúðun, þegar EES-gerðir voru staðfestar í landsrétt og gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerðu ráð fyrir.  

"Það þurfti að fara yfir þetta, því [að] í mörgum tilvikum virtust hvorki hagsmunaaðilar né þingmenn hafa nægar upplýsingar um það, þegar verið var að gera löggjöfina meira íþyngjandi en hún þyrfti að vera", segir Brynjar."

Það er algerlega forkastanlegt, að einhverjir embættismenn smygli sérskoðunum sínum og túlkunum inn í lagatexta. Þetta er svo ólýðræðislegt atferli, að það getur varla verið löglegt.  Þetta sýnir í hnotskurn, hvers konar vinnubrögð viðgangast í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins.  Er þar smákóngaveldið ríkjandi ? Það eru víða vargarnir, sem gera sér leik að því að leggja stein í götu atvinnurekstrar, hvenær sem þeir fá tækifæri til. 

Til að komast að rótum vandans, þarf að grafast fyrir um, hverjir hafa gert þetta og taka þessi verkefni af þeim.  Annars er hætt við, að ósóminn haldi áfram, því að hvorki þingmenn né ráðuneytisstjórnendur virðast gera nokkra gangskör að því að bera saman frumtextann og þann, sem hér er leiddur í lög. 

""Þetta er umfangsmeira en menn átta sig á, og rökstuðningur ásamt mati á áhrifum gullhúðunar er mjög takmarkaður og stundum enginn", segir Brynjar og bætir við, að það sé lágmarkskrafa, að fyrir liggi góður rökstuðningur, ef EES-gerðir eigi að vera meira íþyngjandi en þær þurfi að vera. 

"Ef við ætlum að gullhúða á annað borð, þarf að vera tilgangur með því, sem er til góðs, en ekki að setja íþyngjandi reglur og tilheyrandi kostnað á fyrirtæki, sem hefur íþyngjandi áhrif á markaðsstöðu þeirra í samkeppni við fyrirtæki í Evrópu." 

Í því sambandi segir Brynjar, að sumar innleiðingarnar vísi til mjög stórra fyrirtækja, en í mörgum tilvikum hafi þær verið færðar á smærri fyrirtæki hérlendis.  "Við getum ekki verið að gera strangari kröfur til okkar fyrirtækja en þörf krefur.  Það veikir samkeppnisstöðu okkar að láta lítil og meðalstór fyrirtæki sæta reglum, sem sambærileg fyrirtæki í Evrópu búa ekki við.  En það er eins og okkur þyki eitthvað göfugt við að gera enn strangari kröfur til okkar fyrirtækja og okkar atvinnulífs." 

Hann bætir við, að til samanburðar hafi Bretar haft það sem meginreglu, þegar þeir voru í ESB, að það sé ekki heimilt að gullhúða, nema alveg sérstakar aðstæður krefjist þess."

Það er fullkominn barnaskapur, ef ekki heimska, af íslenzkum embættismönnum og/eða stjórnmálamönnum að láta sér detta í hug að breyta inntaki gerða ESB til að leggja ósanngjarnar sérkröfur á íslenzkt atvinnulíf og þar með á íslenzkan almenning.  Auðvitað hefst vitleysan hjá íslenzku fulltrúunum í Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel.  Ef þeir hefðu staðið í stykkinu, hefðu þeir bókað, að viðkomandi gerð ætti ekki við að svo stöddu á Íslandi, eða ætti aðeins við tiltekinn lítinn fjölda fyrirtækja.  Þar með hefðu illa áttaðir ráðuneytismenn hér síður dottið í þá gryfju að breyta inntakinu til að aðlaga gerðina að íslenzkum aðstæðum.  Hvernig háttar þessu til í öðrum fámennum löndum EES ?  Hefur nokkrum embættismanni/stjórnmálamanni þar dottið í hug að fara "íslenzku leiðina" í þessu máli ?  Þegar mál af þessum toga koma upp, renna á mann 2 grímur um það, hvort íslenzka stjórnkerfið sé nægum hæfileikum búið til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi.  Í þeim efnum reynir jafnan mest á utanríkisráðuneytið. 

 "Starfshópurinn leggur til, að allur ramminn í kringum innleiðingu EES-skipana verði gerður skýrari og að krafizt sé rökstuðnings og mats á áhrifum [breyttrar] innleiðingar á samkeppnisumhverfi landsins, þannig að gullhúðun gerist ekki án þess, að fjallað hafi verið sérstaklega um hana á öllum stigum og upplýst ákvörðun hafi verið tekin í hverju tilviki, byggð á því, að gullhúðunin sé til bóta, en ekki íþyngjandi.

Brynjar segir, að í ljósi þess, að gullhúðun fer frekar vaxandi en hitt, sé mikilvægt, að það sé öllum ljóst, hvers vegna henni sé beitt, og þess vegna þurfi öll umgjörð að vera mjög skýr og einföld.  "Við höfum skilað af okkur þessari skýrslu með tillögum um, hvernig hægt sé að gera þetta ferli skýrara, en núna er boltinn hjá Alþingi.""

Það er svo mikið í húfi hér fyrir lífskjör þjóðarinnar, að réttast væri að setja refsiákvæði í væntanleg lög um innleiðingar gagnvart því, að einhverjir pótintátar smygli gullhúðun inn umræðulaust.  Í raun er það sálfræðilegt viðfangsefni að komast að því, hvers vegna menn finna hjá sér þörf til að leika landa sína grátt.  Það er síðan með eindæmum og falleinkunn fyrir viðkomandi ráðuneytisstarfsmenn, að gullhúðun skuli fara vaxandi.  Starfsmenn, sem að þessu vinna, þarfnast endurhæfingar. Það hefur komið fram opinberlega sjónarmið um, að málið sé stórt og knýjandi og réttast væri, að forsætisráðherra gerði að því gangskör, að þegar á haustþingi 2024 verði gerðar stjórnsýslulegar endurbætur til leiðrétta mistök fortíðar og girða fyrir frekari mistök á þessu sviði. Undir það skal taka.

 


Loftslagsstefnan er kjánaleg óskyggja

Það hefur sáralítill árangur orðið af þeirri stefnu á heimsvísu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda eykst hún enn, þrátt fyrir allt blaðrið og heimsendaspádóma stjórnmálamanna og loftslagspostula.

Fáir hafa verið ötulli við að benda á fánýti þeirrar stefnu, sem rekin er á Vesturlöndum og víðar, en Björn Lomborg.  Hann hefur þó ekki látið þar við sitja, heldur hefur hann bent á leiðir til að aðlaga mannkynið að afleiðingunum til að draga úr tjóninu, og hann hefur líka bent á leið til að stöðva hlýnunina og jafnvel að snúa þróuninni við.  Það gerði hann í góðri grein í Morgunblaðinu 10. júní 2024 undir fyrirsögninni:

"Þetta eru ekki vísindi, heldur kredda".

Hún hófst þannig:

"Loftslagsrannsóknir eru í auknum mæli orðnar pólitískar.  Harvard-háskóli lagði nýlega niður lykilrannsóknarverkefni í jarðverkfræði vegna mikilla neikvæðra viðbragða, þrátt fyrir drauma háskólans um að verða "alþjóðlegt leiðarljós loftslagsbreytinga".

Jarðverkfræði er ein leið mannkyns til að takast á við raunveruleg vandamál loftslagsbreytinga.  Staðalnálgunin, sem flestir í ríka heiminum einbeita sér að, er að reyna að draga úr kolefnislosun og beina fjárfestingum að sólar- og vindorku. 

 Hins vegar er þessi aðferð ótrólega erfið og dýr, vegna þess að jarðefnaeldsneyti knýr enn í raun mestan hluta heimsins.  Þrátt fyrir áratuga pólitískan stuðning við að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eykst útblástur enn, og síðasta ár var hann hinn mesti frá upphafi.  

Aftur á móti snýst jarðverkfræði um að draga beint úr hitastigi jarðar.  Ein leiðin er að losa brennisteinsdíoxíð [SO2] út í heiðhvolfið, sem mundi kæla plánetuna.  Það eru nægar vísbendingar um, að þetta virki.  Gjósandi eldfjöll dæla venjulega ögnum inn í heiðhvolfið, þar sem hver ögn endurkastar smásólarljósi aftur út í geiminn.  Árið 1991 kældi eldgosið í Pinatubo-fjalli jörðina um 0,6°C í 18 mánuði."

Loftslagstrúboðið leggst gegn tilraunum með að losa SO2 í heiðhvolfið; ekki vegna umhverfislegrar áhættu, sem tilraunin e.t.v. felur í sér, heldur vegna þess, að þessi lausn felur í sér að hverfa frá kreddum loftslagstrúboðsins um að draga úr losun CO2 og setja upp vindorkuver og sólarorkuver, hvað sem það kostar.  Sýnir þetta, að loftslagstrúboðið hagar sér eins og staðnað trúarsamfélag, þar sem óvísindalega þenkjandi ofstækisfólk ræður ferðinni.  Þess vegna er árangur erfiðisins sorglega lítill, en kostnaðurinn er samt orðinn gríðarlega mikill. 

"Rannsakendurnir í Harvard voru ekki að reyna neitt svo stórfenglegt.  Þeir vildu einfaldlega skjóta upp einum belg, sem mundi losa örlítið magn af svifryki hátt yfir jörðinni.  Tilraun þeirra hefði safnað gögnum um, hvernig agnir dreifast, og hversu miklu sólarljósi þær endurkasti. 

Vegna þess að heiminum hefur hingað til að mestu mistekizt að takast á við loftslagsbreytingar með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, virðist skynsamlegt að rannsaka einnig aðrar aðgerðir, sem gætu tekið á hluta vandans.  Jafnvel Sameinuði þjóðirnar viðurkenndu árið 2019, að "engin raunveruleg breyting hefði orðið á losun á síðasta áratugi".  Þrátt fyrir Parísarsamkomulagið frá 2015.  Síðan þá hefur losun gróðurhúsalofttegunda haldið áfram að ná nýjum metum og "enginn endir í sjónmáli á vaxandi þróun", samkvæmt nýrri skýrslu frá Alþjóða veðurfræðistofnuninni."  

Aðgerðasinnar á loftslagssviði mótmæltu fyrirhugaðri tilraun Harvard, og pólitíkusar tóku undir vitleysuna, svo að Harvard sá sitt óvænna og hætti við.  Auðvitað kom Greta Thunberg þar við sögu.  Fátt er svo þröngsýnt á jörðu hér, að slái við þröngsýni loftslagstrúboðsins.  Allt er þetta með endemum sorglegt.  Meira vit verður að víkja fyrir minna viti í þessu tilviki. Er jörðinni þá ekki við bjargandi ?

"Þetta eru ekki vísindi, heldur kredda eða trúarbrögð.  Hugmyndin um, að það sé aðeins ein rétt stefna: að minnka kolefnislosun í 0 á stuttum tíma, er fáránleg.  Sérstaklega þegar þessi eina aðferð hefur hvergi virkað.  Sannleikurinn er sá, að jarðverkfræði gæti verið ótrúlega gagnleg nýjung, jafnvel þó að hún feli í sér áhættu. 

Jarðverkfræði er eina mögulega leiðin, sem mannkynið hefur til þessa fundið til að lækka hitastig hratt.  Ef við mundum sjá íshelluna á vesturhluta Suðurskautsins byrja að renna út í hafið, sem væri hörmung á heimsvísu, gæti engin stöðluð jarðefnaeldsneytisstefna hamlað því með nokkrum hætti.  Jafnvel þótt það ómögulega yrði að veruleika, og allar þjóðir minnkuðu losun sína niður í 0 á nokkrum mánuðum, myndi hitastig ekkert lækka, heldur bara hætta að hækka."

Það er til vanza fyrir Sameinuðu þjóðirnar, enda virðist allt vera á sömu bókina lært á þeim bænum, að IPCC, Loftslagsráð SÞ, skyldi ekki taka upp hanzkann fyrir tilraun Harvard og mæla með tilrauninni, sem fyrirhuguð var.  Það eru margir, sem hanga á spenanum og virðast hafa hagsmuni af, að allt hjakki í sama farinu, skýrslur séu samdar og ráðstefnur haldnar um eilífðarmálefni.  Þetta er auðvitað algerlega óábyrg og óvísindaleg afstaða. Hvers vegna ekki að reyna að brjótast út úr sjálfheldunni og gera tilraun í litlum mæli með vænlega tilgátu ? 

 

 

 

 


Sjókvíaeldið batnar og eykst

Fjárfestar láta ekki móðursjúka gapuxa hræða sig frá að fjárfesta í laxeldi í sjó við strendur Íslands, og þeir veðja að öllum líkindum á réttan hest þar. Annars konar fjárfestar stunda hér glórulausa niðurrifsstarfsemi á efnilegri sprotagrein, sem er í þróun hér við land í samstarfi við rannsóknarstofnanir, og hefur þegar skipað sér á fremsta bekk framleiðenda próteinríkrar fæðu, hvað lítið kolefnisspor áhrærir.  Þetta eru auðjöfrar, sem stunda hér landakaup og ná þar með eignarhaldi á laxveiðiám, og aðrir landeigendur og frístundaveiðimenn.  Þessi veiðimennska fylgir ekki vísindalegri ráðgjöf um veiðiálag á hverjum stað, heldur ræður græðgi veiðiréttarhafa för. 

Siðfræðingar og fleiri beturvitar hafa gert athugasemdir við dauðastríð hvala, sem veiddir (voru) hér við land, en þeim hefur láðst að veita athygli dauðastríði laxfiska, sem hér á sér stað í ám landsins frístundaveiðimönnum til skemmtunar, og síðan er særðum fiskum jafnvel sleppt. 

 

 Staðreynd er, að laxastofnar Norður-Atlantshafs eiga í vök að verjast, og hafa of litlar rannsóknir farið fram á þessu, enda eru orsakirnar í þoku.  Það gæti t.d. verið afrán í hafinu, fæðuskortur eða ofveiði í ánum.  Veiðiálagið í íslenzkum laxveiðiám virðist vera allt of mikið m.v. alþjóðlega viðurkennda ráðgjöf Hafró á nytjastofnum hafsins.  Borið er í bætifláka fyrir þetta með því að telja bara fiska, sem drepnir eru á staðnum, en ekki hina, sem sleppt er mismikið særðum.  Er einhver rannsókn til á afdrifum þessara slepptu fiska ?  Sennilega ekki sérlega ítarlegar, enda er þetta eitt af uppátækjum veiðiréttarhafa til að auka við sölu veiðileyfa.  Hér gæti þó verið um að ræða hreinræktað dýraníð, sem þátt á í lélegum viðgangi laxastofna Norður-Atlantshafsins.  Væri veiðiréttarhöfum sæmst að afleggja þennan ósóma, þar til haldbærar rannsóknarniðurstöður eru fyrir hendi um þessa aðferð, og óska veiðiráðgjafar Hafró.  

Hérlendir áróðursaðilar gegn sjókvíaeldi halda mjög á lofti erfðablöndun erlendis og yfirfæra hana síðan til Íslands.  Þessi samanburður getur bara gefið vitlausa niðurstöðu, af því að þegar í upphafi þessarar aldar mæltu yfirvöld þessara mála fyrir mikilli takmörkun á athafnasvæði sjókvíaeldis fyrir lax til að halda því sem fjærst frá helztu laxveiðiám landsins.  Það var hvorki gert í Noregi né Skotlandi og vart tök á því í Færeyjum.  Þegar af þessum ástæðum hafa sleppingar hér valdið minni erfðabreytingum en í þessum löndum.  Það verður líka að árétta, að slepping jafngildir ekki erfðablöndun og erfðablöndun af þessu tagi þarf ekki að jafngilda erfðabreytingu til langframa.  

Þann 7. júní 2024 birtist "baksviðsfrétt" í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Skapi samkeppnishæf störf".

Hún hófst þannig:

"Á markaðsdegi laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur á Eskifirði í síðustu viku [v. 22/2024] kom fram í máli Asles Rönnings, forstjóra Austur holding, sem á 55,3 % í Kaldvík, en Rönning er jafnframt stjórnarformaður Kaldvíkur, að 3 meginástæður væru fyrir því, að hann væri stoltur af því að vera í laxeldi [í sjó]. 

Í fyrsta lagi væri hann stoltur af því að taka þátt í að fæða heiminn með sjálfbærum matvælum.  Hann sagði, að 10 mrd manna myndu búa á jörðinni árið 2050, sem er 25 % aukning frá því, sem nú er.  Þá muni hagvöxtur aukast um 50 % á tímabilinu.  Það auki eftirspurn eftir fæðu um 50 %-60 %.

"Matvælaframleiðsla er loftslagsáskorun nr 2 á eftir [raf]orkuframleiðslu og stendur fyrir um 30 % alls kolefnisútblásturs.  Núna kemur mest af dýrapróteini frá fiskveiðum og landbúnaði, en þar er lítið hægt að auka við.  Framleiðsla á laxi er mjög samkeppnishæf og mun umhverfisvænni er t.d. svínarækt, sem losar 100 % meira kolefni en laxeldi [væntanlega per kg afurða - innsk. BJo]."

Það er ljóst, að full þörf er á vaxandi matvælaframleiðslu í heiminum, og svigrúm er til að auka laxeldið umtalsvert með sjálfbærum hætti og með lágmarks kolefnisspori.  Það er í bígerð hérlendis bæði í sjókvíum úti fyrir ströndum Vestfjarða og Austfjarða og í landeldiskerum.  Þeir, sem nú heimta, að sjókvíaeldi við Ísland verði lagt af taka fullkomlega óábyrga afstöðu til fæðuþarfar mannkynsins í framtíðinni. Þeir stilla málinu þannig upp, að það verði að velja á milli leikaraskapar frístundaveiðimennskunnar í ám landsins og próteinframleiðslu fyrir sveltandi heim. Hvað Ísland áhrærir, styðst þetta ekki við nein vísindaleg gögn, enda er sjókvíaeldið stundað samkvæmt vísindalegum ráðleggingum Hafrannsóknarstofnunar, en frístundaveiðar eru algerlega út í loftið og fela sennilega í sér grimmilega ofveiði, þar sem barátta laxfiska fyrir lífi sínu hefur verið gerð að skemmtiatriði.

"Í öðru lagi sagði Rönning, að verið væri að skapa samkeppnishæf störf á Íslandi, á landsbyggðinni og utan Íslands.  "Í Noregi, þar sem við búum að 50 ára reynslu af laxeldi, verður eitt starf í stoðiðnaði til fyrir hvert starf í laxeldinu.  Ég geri ráð fyrir, að það sama gerist hér."

Hann lagði áherzlu á, að enn þyrfti talsverða fjárfestingu til að efla og þróa iðnaðinn, og hann vonaðist til, að stjórnmálamenn væru meðvitaðir um það.  Aðstæður greinarinnar þyrftu að vera réttar og samkeppnishæfar."

Samkeppnishæfni starfa ræðst af tvennu.  Er framleiðsla starfsmannanna umhverfislega sjálfbær og samkeppnishæf á markaði ?  Svo er í tilviki sjókvíaeldis á laxi við Ísland, enda undir ströngu vísindalegu eftirliti, bæði innra eftirliti og ytra eftirliti.  Hins vegar af launagreiðslum starfseminnar í samanburði við aðra atvinnustarfsemi í landinu.  Komið hefur fram, að launin í sjókvíaeldi eru yfir meðaltali í landinu, svo að telja má rétt hermt, að þessi starfsemi sé samkeppnishæf. 

"Þriðja atriðið, sem hann kvaðst [vera] stoltur af, var, að fiskneyzla hjálpar til við að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma [betra er: dregur úr líkum á hjartasjúkdómum að öðru jöfnu-innsk.]. Hann sagði, að Kaldvík myndi búa til u.þ.b. 2 M/viku heilsusamlegra máltíða um allan heim á árinu 2024."

Fjárfestingar fyrirtækja, sem stunda sjókvíaeldi á laxi við Ísland, munu á næstunni beinast að auknu rekstraröryggi og bættri fóðurnýtni.  Sjálfvirkni við fóðurgjöf og eftirlit með fiskum og kvíum mun aukast og heilnæmar sjúkdómavarnir einnig.  Kvíarnar sjálfar verða styrktar til að auka veðurþol, ölduþol og áverkaþol.  Gangi allt að óskum, er með núverandi atvinnu- og rekstrarleyfum unnt að tvöfalda framleiðsluna upp í um 100 kt/ár og nefnd hefur verið draumsýn um yfir 200 kt/ár með auknum leyfisveitingum.  Líklega þarf að leggja út í miklar fjárfestingar í úthafskvíum til að komast yfir 200 kt/ár við Ísland. Þegar landeldi laxa verður komið á góðan rekspöl, munu útflutningstekjur af laxeldi alls verða meiri en af nýtingu hefðbundinna nytjastofna við Ísland.    

  


Bólusetningahneyksli aldarinnar

Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi með vinstri græningjann Svandísi Svavarsdóttur trónandi á toppinum leyfðu stórhættulega tilraun á þjóðinni með genatengd efni án viðunandi reynslu af þeim í tvöföldum blindprófum og án þess að huga að langtímavirkninni.  Þetta var óvenju mikil áhætta vegna nýrrar lyfjatækni, en samt var ekki hikað við að sprauta þessum óreyndu efnum í alla aldurshópa, þótt áhættan af sýkingu SARS-CoV-2 veirunnar legðist mjög misjafnlega á aldurshópana.  Hér er maðkur í mysunni og skortur á vísindalegum vinnubrögðum og virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins, eins og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, hefur bent á.  Þetta mál þarf að rýna gaumgæfilega til að stika út varfærnari og ábyrgari leiðir, þegar næsti heimsfaraldur ber að dyrum.  

Helgi Örn Viggósson, hugbúnaðarsérfræðingur, og Þorgeir Eyjólfsson, eftirlaunaþegi, hafa lagt mikið að mörkum í þessa veru með skrifum sínum í Morgunblaðið.  Ein slík grein birtist 3. júní 2024 undir fyrirsögninni:

"Kóvíid-bóluefnin krabbameinsvaldandi".

Þar voru sláandi upplýsingar frá Japan, sem vegna lýðheilsu á Íslandi er ekki hægt að skella skollaeyrum við:

"Japanskir vísindamenn hafa staðfest tengsl á milli bólusetninga og 6 tegunda krabbameins í stærstu rannsókn til þessa á skaða af völdum kóvid-mRNA-bóluefnanna.  Gagnagrunnur með öllum 123 milljónum Japana lá undir í rannsókninni, en Japanir eru ein bólusettasta þjóð heimsins.  Krabbameinin eru í eggjastokkum, munnholi (vörum, munnholi og barka), blöðruhálskirtli, brisi og brjóstum auk hvítblæðis.  Þessar tegundir krabbameins eru allar þekktar sem estrógenviðtaka alfa(ERa)-næm krabbamein."  

Þetta er stórmerkilegar upplýsingar, sem þarna berast af japanskri vísindarannsókn, sem sannar stórfelld heilsuskaðleg áhrif mRNA-efnanna, sem sprautað var í fólk á vegum heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og víðast hvar í heiminum.  Hvers vegna kemst frétt af þessu tagi ekki í hámæli ?  Afleiðingarnar eru of alvarlegar fyrir þá, sem létu glepjast af yfirvöldunum.  Þarna er skúrkabandalag lyfjamafíunnar, embættismanna og þeirra stjórnmálamanna, sem mesta ábyrgð báru. Á Íslandi voru það tveir vinstri græningjar, forsætisráðherrann, sem hoppaði frá borði í erindisleysu, Katrín Jakobsdóttir, og heilbrigðisráðherrann, mistakasmiðurinn Svandís Svavarsdóttir.  Það hefði verið svakalegt að sitja uppi með Katrínu sem forseta lýðveldisins.  Það hlýtur að verða gert veður út af þessu hrikalega máli hérlendis sem erlendis og ekki ólíklegt, að málssóknir fylgi, því að hér var farið offari og mannslát urðu afleiðingarnar. 

"Í ritrýndri rannsókninni, sem birtist í apríl [2024], var aldursleiðrétt dánartíðni af völdum 20 mismunandi tegunda krabbameins í Japan könnuð með því að nota opinberar tölur um dauðsföll, smits af völdum SARS-CoV-2 og bólusetningartíðni.  Niðurstöður rannsóknarinnar, sem markar tímamót, sýna, að dauðsföllum af völdum krabbameins fjölgaði ekki í Japan fyrr en með tilkomu fjöldabólusetninganna.  Rannsóknin tekur af allan vafa um, að umframdauðsföllin í Japan megi rekja beint til skaða af völdum bóluefnanna, en ekki veirunnar."

Athyglisvert er, að afleiðingar þess að sprauta téðum genetískum efnum inn í líkamann koma mjög fljótt fram.  Ef yfirvöldin hefðu leyft rannsóknum á virkni og aukaverkunum efnanna að ganga sinn gang, hefðu alvarlegar afleiðingar komið í ljós áður en leyfi til notkunar efnanna hefðu verið gefin.  Komið var í ljós, að ending efnanna til að hamla smiti var allsendis ófullnægjandi, en samt var bráðabirgða leyfi gefið, enda átti að leysa málið með því að búa til gullmyllu fyrir lyfjaiðnaðinn.  Fyrir þetta ógeðfellda ráðabrugg guldu margir með lífi sínu.

"Áður höfðu komið út nokkur hundruð vísindagreinar, sem sýna okkur, hvernig efnin skaða ónæmiskerfið á margvíslegan hátt, sem gerir fólk útsettara [næmara] fyrir krabbameinum, en á s.l. ári hafa komið út, samkvæmt vitneskju höfunda, a.m.k. vel á 3. tug ritrýndra vísindagreina, sem einblína á, hversu krabbameinsvaldandi þau eru.  

Íslendingum ættu ekki niðurstöður vísindamannanna á óvart, því [að] hérlendis staðfesti embætti landlæknis hliðstæðar niðurstöður og Japanir hafa nú fundið með útgáfu dánarmeinaskrár fyrir fyrir árið 2022.  Dauðsföllum af völdum illkynja æxla á Íslandi fjölgaði um 9 %  á árinu 2022.  Illkynja æxli í blöðruhálskirtli dró 21 % fleiri til dauða en á fyrra ári, eitilæxli 17 %, mergæxli 40 %, æxli í brisi 23 %, og dauðsföllum af völdum hvítblæðis fjölgaði um 33 % frá fyrra ári." 

Eru hrikalegar afleiðingar þess að sprauta óreyndum genafræðilegum efnum í þjóðina mörgum sinnum holt og bolt of stórtækar og alvarlegar til að íslenzka stjórnkerfið ráði við afbrotahlið málsins.  Íslenzka stjórnkerfið er ábyrgt fyrir léttúðugri umgengni við tilraunalyf, sem fyrirskipað var að sprauta í alla þjóðina oft, þótt áhætta aldurshópanna væri afar misjöfn gagnvart vágestinum, SARS-CoV-2-veirunni, stökkbreyttri.  Þau, sem blasir við að verða að axla ábyrgð á aðför að lýðheilsunni eru þáverandi heilbrigðisráðherra, landlæknir og þáverandi sóttvarnarlæknir. 

"Þrátt fyrir ritrýndar og vandaðar japanskar rannsóknarniðurstöður, sem sýna fram á alvarlegar aukaverkanir og krabbameinsvaldandi áhrif kóvíd-mRNA-efnanna, og þrátt fyrir upplýsingar úr dánarmeinaskrá landlæknis um dauðsföll af völdum krabbameins á árinu 2022, finnast enn á Íslandi læknar, sem átta sig ekki á skaðsemi kóvíd-tilraunabóluefnanna.  Umframdauðsföllin  

 

 

 

    


Rotið ráðhús í boði Samfylkingar

Nýr formaður Samfylkingar fer mikinn í því skyni að búa til ímynd jafnaðarflokks með kjörþokka, en Samfylkingin féll ekki af himnum ofan.  Hún er með hugmyndafræðileg og persónuleg lík í lestinni, sem nýr formaður hefur ekki losað sig við.  Því fer fjarri, að æðstu fulltrúar flokksins vinni af einlægni að bættum hag almennings.  Flokkurinn hefur tekið ábyrgð á borgarstjóranum fyrrverandi, Degi B. Eggertssyni, og ekki fett út í ámælisverð vinnubrögð hans, en það hefur aftur á móti fyrrverandi borgarstjóri séð ástæðu til að gera í fjölmiðli, sem hann ritstýrir.  

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 10.05.2024 bar fyrirsögnina:

"Ráðhúsinu breytt í spillingarbæli ?"

Þar var fáheyrður gjafagjörningur borgarinnar til handa olíufélögum, sem láta af sölu jarðefnaeldsneytis á tilteknum lóðum í borginni, gerður að umfjöllunarefni, og birtist þar í hnotskurn spillingareðli jafnaðarmannaflokksins, sem af hræsni reynir að breiða yfir sitt rétta eðli með orðskrúði:

"En samningarnir við þessi félög [olíufélögin] byggðust allir á því, að myndu olíufélögin láta af þeim rekstri, gengju lóðirnar til borgarinnar á ný og hún gæti skipulagt þær að sínum hentugleikum og úthlutað eftir eðlilega samkeppni.  Í Morgunblaðinu hefur margoft verið á það bent, að þessi mál hafi þróazt illa og bragðarefir beggja vegna borðs ákveðið að koma málinu í farveg, sem algjörlega væri sniðinn að persónulegum hagsmunum þeirra félaga, sem bar að skila lóðunum til borgarinnar á ný, þegar eldsneytisstarfsemi þeirra væri úr sögunni.  Stórundarleg væri sú framganga Dags B. Eggertssonar að koma þessu vonda máli "í gegn" og troða því niður kok borgarbúa í fullkomnu heimildarleysi." 

Það er grafalvarlegt spillingareinkenni á fyrrverandi borgarstjóra og samverkamanna hans og í raun á Samfylkingunni, hverrar formaður lætur þessa ósvinnu viðgangast í höfuðborginni, að færa gróðapungum eign borgarbúa á silfurfati gjörsamlega að þarflausu viðskiptalega og lagalega séð. Þetta verður bautasteinninn yfir ráðsmennsku Samfylkingarinnar í Reykjavík.  Flokkurinn ætti ekki að eiga sér viðreisnar von í borginni eftir þetta baktjaldamakk við peningapúka á kostnað borgarbúa.  Þetta er jafnaðarstefnan í reynd.  Þess vegna flæðir alls staðar í heiminum undan henni. 

"Kerfið, sem þáverandi borgarstjóri lét klambra saman í kringum tilbúning þessa máls, er algerlega óþekkt í borgarkerfinu, þótt einstök dæmi séu til um slíka aðgerð í þinginu [á dögum vinstri stjórnar Samfylkingar og VG - innsk. BJo], en þau lúta öðrum lögmálum.  Hér var allt byggt á því, að koma þyrfti tugum milljarða [ISK] frá borgarbúum til gæðinga og með hinni skrítnu aðferð.  Sett var upp lokað herbergi, sem borgarfulltrúar gátu farið inn í einir (!) og án þess, að neinar upplýsingar væru veittar, eða þeir fengju að bera sig saman við sína samstarfsmenn.  Minnihlutinn átti þannig ekki nokkur tök á því að ræða þetta mikla mál í sínum ranni.  Og engin rök lágu til þessara undarlegheita."

 Þessi ólýðræðislegu vinnubrögð eru kennimörk jafnaðarmanna og annarra sameignarsinna, sem hvorki skilja né virða grundvallaratriði lýðræðisins, og við slíkar aðstæður skýtur alltaf óhugnanlegum krumlum Leníns og Stalíns upp á yfirborðið.  Jafnaðarmenn játast lýðræðinu aðeins af illri nauðsyn á yfirborðinu.  Annars gildir bara hið sama og hjá löglausum einræðisherrum: "Tilgangurinn helgar meðalið".  (Der Erfolg berechtigt das Mittel.) 

Það er óskiljanlegt, að minnihluti borgarstjórnar skyldi láta beita sig þessum fantatökum.  Þetta mál hefði átt að fara til sveitarstjórnaráðuneytisins og til dómstóla.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins dregur reyndar ekkert undan og af uppljóstruninni má álykta, að víðar þurfi að hreinsa til og lofta út.  Sérhagsmunagæzla af þessu tagi er dauðasök í pólitík:

 "Það sárgrætilega var svo til viðbótar, að leiðtogi stærsta minnihlutaflokksins í borgarstjórn tók þátt í því að leiða málið hjá sér, en greiða atkvæði sitt með því á lokapunkti.  Ekki verður séð, að nein önnur skýring sé á svo óábyrgri hegðun en eiginmaður leiðtogans sé sérstakur sendiboði og hlaupastrákur Jóns Ásgeirs Jóhnnessonar, eins af stóru þiggjendunum í þessu sóðalega svindli.  Öllum öðrum borgarfulltrúum var vorkunn, þótt þeim fipaðist, enda refirnir til þess skornir, að hver og einn þeirra gæti ekki rætt þetta mikla mál í sínum hópi, nema eftir minni úr stuttu stoppi í "leyniherberginu". 

 Sjálfstæðisflokkurinn glataði þarna gullnu tækifæri til að sýna kjósendum, að hann hefði burði til að leiða nauðsynlega siðbót í borgarstjórn eftir áralangt sukk Samfylkingar við kjötkatlana.  

Leiðtogi borgaralegs flokks, sem vill sýna, að í honum sé einhver veigur, en tekur þátt í "sóðalegu svindli" á kostnað skattborgaranna, fremur þar með pólitíska kviðristu og glatar siðferðislegum grundvelli til að leiða sjálfstæðismenn til sigurs í borginni.  Sá hjalli er nógu erfiður samt. 

""Í viðtengdri frétt segir af lítilsvirtri fréttakonu á RÚV.  María Sigrún, fréttamaður, fékk þá umsögn frá  yfirmanni, að hún væri skjáfríð, en kynni ekki "rannsóknarfréttamennsku", eins og það heitir í Efstaleiti.  Hugtakið nær einnig til byrlunar og stuldar, samkvæmt viðurkenndu verklagi ríkisfjölmiðilsins.  Fréttir án rannsóknar eru trúlega réttum megin við lögin.  En þær má ekki segja.

María Sigrún vann frétt, sem kom við kaunin á Degi, fyrrum borgarstjóra, og vinstri meirihlutanum í ráðhúsinu við Tjörnina. Stefán, útvarpsstjóri, hefur ekki tjáð sig um meferðina, sem María Sigrún sætir.  Áður en Stefán varð útvarpsstjóri fyrir 4 árum var hann staðgengill Dags, borgarstjóra, og bar titilinn borgarritari.""

Í téðu Reykjavíkurbréfi er ofangreind tilvitnun í Pál Vihjálmsson, bloggara og kennara.  Höfundur þessa pistils hér sá umræddan þátt Maríu Sigrúnar og getur vitnað um, að honum þótti vera um afbragðs fréttamennsku að ræða, og þess vegna er úthúðun einhverra montinna "Kveikjara" út í hött og næg ástæða til, að taka ætti í hnakkadrambið á ófaglegum monthananum.  Ummæli af þessu tagi um samstarfsmann eru með eindæmum ruddaleg og í þessu tilviki út í hött.  Þau ættu því að öðru jöfnu að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fyrir þann, sem lét sér þau um munn fara, en í ormagryfju fréttastofu RÚV gerist það ekki.  Þetta opinbera hlutafélag er ekki hafið yfir siðræn viðmið.  Það er löngu tímabært að draga verulega úr umsvifum þarna, kostnaði skattborgaranna og vandræðum einkarekinna fjölmiðla vegna risans, sem gín yfir markaðinum.  

  

  


Orkuskortur, hagvöxtur og úrræði

Tap þjóðarbúsins vegna skerðinga á ótryggðri raforku í vetur olli svo mikilli tekjuskerðingu, að áhrif hefur á niðurstöðu útreikninga á hagvexti.  Kemur þetta ofan í tekjutap af loðnubresti, sem gæti hafa numið mrdISK 40, og makríllinn er hættur að birtast.  Starfandi rekstur iðnaðarins varð fyrir alls tæplega mrdISK 20 tekjutapi, og starfsemi, sem ekkert varð af vegna orkuleysis, hefði getað skilað svipaðri upphæð.  Þarna er um að ræða um 1 % af vergri landsframleiðslu.  Nú er komið fram frumvarp á Alþingi, sem Teitur Björn Einarsson, þingmaður sjálfstæðismanna, mælir fyrir og mun stytta málsmeðferðartíma leyfisveitenda umtalsvert.  

Frétt birtist í Morgunblaðinu 17. maí 2024 undir fyrirsögninni:

"Mikið tap vegna skerðinga á raforku".

Hún hófst þannig:

"Talið er, að á fyrstu mánuðum þessa árs [2024] hafi tapazt mrdISK 14-17 útflutningstekjur vegna skerðingar Landsvirkjunar á raforku [að söluandvirði um mrdISK 2,0 innsk. BJo].  Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins, sem byggð er á mati stjórnenda fyrirtækja í orkusæknum iðnaði.  Þeir telja, að á bilinu mrdISK 14-17 útflutningstekjur þjóðarbúsins hafi tapazt á þessum tíma vegna raforkuskerðinganna, en slakur vatnsbúskapur leiddi til þess, að Landsvirkjun gat ekki framleitt nægilega raforku, eins og fram hefur komið."

 

"Í ljós kemur, að tapið er mest hjá álverunum.  Er það metið á bilinu mrdISK 9-10, en það er um 2,8 % - 3,2 % af útflutningstekjum áliðnaðarins á seinasta ári.

Bent er á, að skerðingarnar hafa bein áhrif til lækkunar tekna, en einnig óbein vegna [neikvæðra] áhrifa þeirra á viðskiptasamninga.  Þessu til viðbótar fylgi skerðingunum aukinn kostnaður m.a. vegna þess, að skerðingarnar stytta líftíma fjárfestinga í kerum."

Þjóðarbúið verður á árinu 2024 fyrir tilfinnanlegum efnahagslegum höggum, sem numið geta alls mrdISK 160 eða um 4,6 % af VLF, þegar taldir eru saman loðnubrestur, orkubrestur og ferðamannabrestur.  Þetta mun valda samdrætti hagkerfisins m.v. 2023, sem hlýtur að keyra niður verðbólguna og valda auknu atvinnuleysi.    

 

 

"Þögn verði sama og samþykki":

"Komið er fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum til þess að koma í veg fyrir óhóflegar tafir á framkvæmdum vegna seinagangs í kerfinu. 

Þar er sú nýlunda helzt, að umsagnaraðilar verði að virða tímafresti laga, sem ekki verði meiri en 8 vikur.  Berist ekki umsögn áður en frestur rennur út, skuli líta svo á, að viðkomandi stofnun samþykki efnislega umsóknina, sem til hennar var beint, eða telji ekki ástæðu til að bregðast við með umsögn; að þögn sé sama og samþykki."

 Þetta er þarfasta frumvarpið, sem sézt hefur á Alþingi um háa herrans tíð, enda hefur ekkert til þess spurzt.  Er þess að vænta, að flutningsmaðurinn, hinn ötuli þingmaður Sjálfstæðisflokksins Teitur Björn Einarsson, láti ekki deigan síga, þótt afturhaldið hafi vafalaust prjónað, þegar það leit raunverulegt framfaramál augum.   

 

  

  

 

 


Sérstaða Vestfirðinga í orkumálum

Vestfirðingar njóta ekki teljandi jarðhita og eru þess vegna nánast alfarið háðir raforku á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkulinda landsins.  Þetta er svipuð staða og Austfirðingar búa við, en mismunurinn er sá, að hinir síðarnefndu búa við öfluga vatnsaflsvirkjun, 690 MW, og hringtengingu við stofnkerfi landsins. 

Núverandi aflþörf Vestfirðinga er a.m.k. 44 MW og vex hratt. Vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum gefa nú 21 MW afl, þegar bezt lætur.  Þá vantar 23 MW um vetrartímann, þegar veður mæða mest á Vesturlínu, og hún lætur oft undan.  Það er gjörsamlega óviðunandi, hversu oft á ári íbúar og gestir Vestfjarða þurfa að sitja í myrkrinu.  Alþingismenn vita þetta.  Sumir kæra sig kollótta, og hinir láta orðin tóm duga.  Þetta er óskiljanlegt ábyrgðarleysi. 

Þann 4. maí 2024 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Orkuskortur hrjáir Vestfirðinga".

  "Jarðhitaleit á Vestfjörðum hefur litlu skilað enn sem komið er, ef frá er talinn jarðhiti, sem fannst á Drangsnesi, sem ætlað er, að geti þrefaldað afköst hitaveitunnar á staðnum.  Orkusjóður greiddi tæpar MISK 20 í styrk til jarðhitaátaksins þar, þess fyrsta á öldinni."

Doði í jarðhitaleitinni er dæmi um það algera fyrirhyggjuleysi, sem ríkir í orkumálunum.  Orkustofnun ætti auðvitað að vera í fararbroddi við að leggja drögin að orkuöflun með rannsóknum, þótt orkufyrirtækin sjái um virkjunarstig og rekstur.  Orkustofnun virðist ekki vera þannig mönnuð, að hún sé í stakk búin til að sýna merkilegt tæknilegt frumkvæði.  Æðsti koppur þar hefur ekki meiri áhuga á starfinu en svo, að hún flúði í forsetaframboð, þar sem hún dreifði um sig frösum og froðusnakki. Henni virðast vera mislagðar stjórnunarhendur, því að framboði hennar hafa orðið á 2 fingurbrjótar. Það er allt á sömu bókina lært. Almennilegar hugsjónir og verklega þekkingu vantar.  Samt þenur Orkusetur, sem er á snærum Orkustofnunar, sig yfir því, að orkuskiptin skuli hafa staðnað. Það er ekki hægt í raunheimum að geyma kökuna og éta hana.  

"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í nýtingarflokki rammaáætlunar eiga talsvert í land, en þar er einkum horft til Hvalárvirkjunar, sem samþykkt var í öðrum áfanga rammaáætlunar árið 2013, og Austurgilsvirkjunar, sem samþykkt var í 3. áfanga 2022. Þó eru horfur á, að úr rætist með Hvalárvirkjun á næstu árum, en HS Orka vinnur að undirbúningi virkjunarinnar og stefnir að því að sinna skipulagsmálum og verkfræðivinnu á þessu ári [2024].  "Vonandi getum við hafið framkvæmdir í lok næsta árs", segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins í samtali við Morgunblaðið.  Gangi það eftir, gæti orkuframleiðsla hafizt árið 2029."

Vonandi ganga þessi áform eftir, því að hvorki Vestfirðingar né aðrir landsmenn mega við frekari töfum á verkefnum, sem uppræta munu þá ósvinnu að þurfa að brenna olíu á Íslandi til að framleiða rafmagn eða heitt vatn.  Kostnaðurinn af þessu er þó aðeins brot af tekjutapinu, sem hlotizt hefur af glötuðum tækifærum til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar.  Þá eru 2030 - markmiðin um losun gróðurhúsalofttegunda gjörsamlega komin í vaskinn, og mun það ástand skapa þjóðinni gríðarlegan kostnað, sem skrifa verður á kostnað hégómagirni forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur.

"Á meðan þannig háttar til, að Orkubú Vestfjarða sætir skerðingum frá Landsvirkjun, er fyrirtækið nauðbeygt til að framleiða rafmagn með með dísilolíu með tilheyrandi taprekstri."

Þetta er mótsögn aldarinnar.  Silkihúfur státa af "hreinni" orku Íslands, en það má helzt ekki virkja hana til að efla velsæld í landinu og draga úr losun koltvíildis.  Hvers konar sálarháski og meinlokur eru hér eiginlega á ferðinni ?  Hér hefur angi sjálfseyðingarhvatar náð undirtökunum með mjög alvarlegum fjárhagslegum, umhverfislegum og félagslegum afleiðingum.  Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur það ekki einvörðungu á sínum svarta lista að hafa saltað umsókn Hvals hf um veiðileyfi á tilgreindum hvölum ofan í skúffu í matvælaráðuneytinu, þegar hún var þar í vetur, heldur beitti hún sér þannig sem forsætisráðherra, að hún hefur kallað stórfelldan orkuskort yfir þjóðina með viðeigandi hörmungum.  Að verðlauna hana síðan sem yfirsilkihúfu Íslands á Bessastöðum væri eftir annarri dauðans dellu og er ekki einu sinni fyndið.

"Á vegum Landsnets er unnið að undirbúningi tengipunkts í Ísafjarðardjúpi um hvern raforku frá Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun verður miðlað, þegar þar að kemur, og áformar Landsnet, að tengingar verði tilbúnar, þegar þeirra verður þörf, en sú dagsetning er eðlilega óviss, enda framkvæmdir við hvoruga virkjunina hafnar."

Þetta eru góð tíðindi af Landsneti og rós í hnappagat þeirra, sem nú stjórna þar áætlanagerð.  Hvernig áformað er að flytja orkuna til álagspunktsins Ísafjarðar, verður spennandi að sjá.

"Þá hefur Orkubú Vestfjarða farið þess á leit við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að aflétt verði friðlýsingarskilmálum á afmörkuðu svæði innan friðlandsins í Vatnsfirði, svo [að] unnt verði að undirbúa þar umhverfismat á 20-30 MW virkjun.  Erindið er til skoðunar í ráðuneytinu.  "Þetta er gott dæmi um, hvernig ástandið er á Íslandi.  Þegar verkefni eru vanrækt í 15-20 ár, er engin töfralausn til", segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

"Það er í forgangi hjá okkur að leysa úr þessum málum, og við munum halda áfram að vinna að lausn þeirra með Vestfirðingum, því [að] ástandið er mjög alvarlegt.  Það er hægt að leysa það, en þá þurfa allir að leggjast á eitt, sveitarfélög, orkufyrirtæki og stjórnvöld", segir Guðlaugur Þór."

  Það er kominn tími til, að þessi ráðherra láti hendur standa fram úr ermum í stað þess að draga lappirnar gagnvart Vestfirðingum og bulla um, að ekkert hafi verið gert í 15-20 ár eða síðan 2004.  Nær væri að segja, að engum stórum orkuframkvæmdum hafi verið hleypt af stokkunum í tíð hans sem orkuráðherra.  Hins vegar komu 3 umtalsverðar virkjanir í gagnið á öðrum áratuginum, og nægir að nefna þar Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfell 2.  

Það er skrýtið, að ekkert skuli heyrast af beiðni Orkubúsins til ráðherrans um Vatnsfjörðinn.  Það er lítilmannlegt, ef ráðherra ætlar að skýla sér á bak við neikvæða umsögn eins sveitarfélags, sem tæplega á mestra hagsmuna að gæta í þessu máli.  

 

  

 

 

 

 


Gnægð raforku er undirstaða velferðarþjóðfélagsins

Það eru margar stoðir undir íslenzka velferðarsamfélaginu.  Ein sú mikilvægasta og allt um grípandi í samfélaginu er, að nægt afl og orka sé jafnan fyrir hendi um allt land til að anna þörfum almenningsrafveitna, hitaveitna og iðnaðar hvers konar, nema í landshlutabundinni mikilli þurrkatíð, sem búast má við á 3 árum af 30.  Skerðingarástand síðasta vetrar í öllum landshlutum var fullkomlega óeðlilegt og langt umfram það, sem skortur á innrennsli í lónin gaf tilefni til.  Það dró hratt niður í miðlunarlónum vegna mikils álags á kerfið, sem ekki hefur verið komið til móts við með nýjum virkjunum í allt of langan tíma vegna doða á Alþingi. Alþingi hefur sett vænlega virkjunarkosti í bið, öndvert við tillögur Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun.  Það segir mikla sögu um afturhaldstilhneiginguna á þeim bænum.  Ólíklegt er þó, eins og nú er komið, að stjórnmálaflokkar geti lengur slegið pólitískar keilur með því að sýna framkvæmdadoða. 

Þann 27.04.2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg grein efir 2 framámenn Landsvirkjunar, Einar Mathiesen, framkvæmdastjóra Vinds og jarðvarma, og Gunnar Guðna Tómasson, framkvæmdastjóra Vatnsafls, undir dramatískri fyrirsögn:

 "Tryggjum súrefni samfélagsins".

Það er ekki ofsögum sagt, að samfélagið sé að kafna af orkuskorti.  Kjósendur verða að gera sér grein fyrir, hvers vegna svo er komið. Það er vegna þess, að vinstra liðið, í og utan ríkisstjórnar, hefur bitið í sig, að óþarfi sé að virkja meira.  Einhver afturhaldspúkinn, líklega nálægt Landvernd, hefur komið þessari flugu í koll þingmanna.  Það er mikill áfellisdómur yfir "upplýsingasamfélagi" nútímans, sem líkist æ meir forheimskunarsamfélagi mismunandi bergmálshella.  Greinin hófst þannig:

"Íslenzkt samfélag og atvinnulíf vex hratt, og um leið er það að umbreytast með grænum lausnum. Við vitum, að orka er undirstaða bæði vaxtarins og framtíðar lausna í loftslagsmálum.  Án nýs framboðs raforku getum við ekki haldið áfram með orkuskipti bæði á landi og hafi og síðar lofti.  Það er hlutverk okkar hjá Landsvirkjun að mæta þörfum íbúa samfélagsins, sem hér hefur verið byggt upp af miklu harðfylgi - þau [íbúarnir] eru eigendur orkufyrirtækja þjóðarinnar og mega gera ríkar kröfur til þess.  Við hyggjumst leggja okkar af mörkum til að standa undir þeim kröfum, en þá verðum við líka að geta treyst á stuðning stjórnvalda.  Raforkan er súrefni samfélagsins, og það súrefni verður að tryggja öllum til heilla."

 

"Hver, sem heimsækir aflstöð í eigu Landsvirkjunar, sér strax, að þar er vel hugsað um mannvirki og búnað.  Skiptir þá engu, hvar er borið niður, á Þjórsársvæði, í Soginu, í Blöndu, Kröflu, Laxá, á Þeistareykjum eða í Fljótsdalsstöð. Fyrir utan reglubundið viðhald og eftirlit hefur tæpum mrdISK 25 verið varið í endurbætur á orkumannvirkjum Landsvirkjunar síðasta áratuginn.  Þrátt fyrir misjafnt gengi í rekstrinum höfum við aldrei gefið neinn afslátt af viðhaldi og endurbótum. 

Við höfum líka unnið samfellt að undirbúningi næstu virkjanakosta, bæði í vatnsafli og jarðvarma, en einnig í vindi.  Undirbúningskostnaðurinn er þegar orðinn rúmir mrdISK 30 og löngu tímabært að hrinda einhverjum af þeim framkvæmdum í framkvæmd.  Það er nauðsynlegt til að geta mætt framtíðareftirspurn á raforkumarkaði." 

Það er laukrétt hjá höfundunum, að viðhald og snyrtimennska er til fyrirmyndar hjá Landsvirkjun.  Ef svo má taka til orða, hefur náttúran batnað við inngrip Landsvirkjunar til að breyta orku hennar í beinhörð verðmæti í héraði og á landsvísu.  Það stafar af því, að kappkostað er hvarvetna að fella mannvirkin vel að umhverfinu og áherzla hefur verið lögð á uppgræðslu og gróðursetningu. Grunnvatnsstaðan hækkar í grennd við miðlunarlónin, sem ýtir undir gróður þar.  Nöldur og úrtölur um nýtingu orkuauðlinda Íslands eru hvorki reist á efnislegum dæmum né á heilbrigðri skynsemi á sviði atvinnulífs og velmegunar landsmanna.  

Hins vegar sýnist of litlu vera varið til endurbóta, aðeins 2,5 mrdISK/ár að jafnaði.  Það er óeðlilega lítið af andvirði eignasafnsins í ljósi þess, að vel hannaðar endurbætur á búnaði skila sér strax í aukinni nýtni og auknu rekstraröryggi.  

Að sitja uppi með mrdISK 30 fjárfestingu í virkjanaundirbúningi í jafnvel meira en áratug án nokkurrar tekjuaukningar er hins vegar þungbært, og þar hafa stjórnmálamenn brugðizt fyrirtækinu og þjóðinni með allt of torsóttum leyfisveitingaferlum.  Það er þyngra en tárum taki, að stjórnmálastéttin skuli unnvörpum þvælast endalaust fyrir sjálfsögðum framförum í landinu.  

 "Á næstu árum stefnir Landsvirkjun að mikilli uppbyggingu.  4 verkefni eru vonandi við það að komast af stað: fyrsta stóra vindorkuver landsins, Búrfellslundur, Hvammsvirkjun í Þjórsá, stækkun jarðvarmastöðvarinnar að Þeistareykjum og loks stækkun Sigöldu, samtals 335 MW aukning. Þessi verkefni munu skila um 1750 GWh/ár af nýrri raforku, sem er um 12 % aukning á raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Okkur er ekki kunnugt um, að önnur orkuvinnslufyrirtæki hyggist bæta við framboð sitt á næstu 5 árum fyrir utan 20 MW áætlaða stækkun HS Orku í Svartsengi, sem gerir framgang þessara verkefna enn brýnni.

Landsvirkjun vinnur jafnframt að rannsóknum og undirbúningi nýrra virkjana, sem munu koma í næsta fasa orkuuppbyggingar, þegar framangreindum verkefnum er lokið."   

Fram hefur komið, að Orkubú Vestfjarða hefur mikinn hug á að auka framboð sitt á raforku, enda er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga, sem verða þó að glíma við ýmsa bergþursa á leiðinni, þótt útrúlegt megi virðast á tímum brennslu jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu fyrir vestfirzka notendur rafmagns.  Það verða líklega einvörðungu smávirkjanir, sem komast munu í gagnið á Vestfjörðum á tímabilinu 2025-2030.  Það segir alla söguna um ráðaleysi ráðamanna, að öðrum fyrirtækjum en Landsvirkjun skuli ekki hafa tekizt að koma með raunhæfar áætlanir um aukningu raforkuframboðs á næstu 5 árum, nema HS Orku í Svartsengi, sem er í uppnámi vegna kvikusöfnunar undir athafnasvæðinu, sem enginn veit, hvar á eftir að brjótast upp á yfirborðið.

"Á meðan önnur Evrópulönd vinna að því hörðum höndum að einfalda regluverk til að hraða aukinni raforkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, tekur mörg ár að fara í gegnum ferlið hérlendis [mest 2 ár í ESB - innsk. BJo].  Sömu stofnanir fá t.a.m. sömu umsókn til umfjöllunar margoft, og lögbundnir tímafrestir eru ekki alltaf virtir.  Fullkomin óvissa og skortur á fyrirsjáanleika hefur gert þetta ferli að því sem næst ókleifum múr.  Við viljum þó ítreka, að krafan um bætt leyfisveitingaferli snýst ekki um að draga úr kröfum eða gefa orkufyrirtækjum afslátt af þeim skilyrðum, sem þarf að uppfylla til að ráðast í virkjunarframkvæmdir.  Aukin skilvirkni þýðir ekki minni kröfur."

Í því leyfisveitingakerfi, sem þarna er lýst, felst gríðarleg sóun, sem kostar samfélagið tugi mrdISK/ár.  Samt aðhefst orku-, loftslags- og umhverfisráðherrann ekkert af viti, eða ræður hann ekkert við vinstri sinnaða afturhaldsklíku opinberra embættismanna ?  Hvað sem því líður er núverandi doði alger falleinkunn yfir stjórnkerfi landsins.     


Er kolefnisbinding í bergi fýsileg ?

Carbfix hefur stundað niðurdælingu á uppleystum gastegundum í vatni við Hellisheiðarvirkjun.  Tekizt hefur að draga úr mengun af völdum hinnar ætandi gastegundar H2S, sem er þarfur gjörningur.  Meiri áhöld eru um að festa stórfelldar fjárhæðir í bindingu CO2, koltvíildis, í jarðlögum í Straumsvík á vegum Carbfix, og fyrirtækið undirbýr nú móttöku- og geymslustöð fyrir CO2 þar, s.k. Coda Terminal. Viðskiptahugmyndin er, að útlendingar sendi gasflutningaskip frá sér til Straumsvíkur.  Þar verði því dælt í geymslurými, gasið leyst upp í vatni og síðan dælt niður í bergið.

  Ef tekið er mið af Morgunblaðsviðtali við fjölfræðinginn David Friedman, sem lagt var út af í síðasta pistli á þessum vef, "Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar", er engin glóra í þessari hugmynd, hún er "futile" eða gagnslaus, af því að afleiðingar hlýnunar verða ekki sérlega alvarlegar og kostnaður við mótvægisaðgerðir viðráðanlegar.  Það er hins vegar ein lykilbreyta á markaði, sem öllu máli skiptir fyrir arðsemi þessa verkefnis, og hún er verðið á markaði fyrir koltvíildisheimildir í EUR/t CO2.  Ef kostnaður við að einangra CO2, flytja það til Coda Terminal og kostnaðurinn við bundið fé í Coda Terminal ásamt upplausn gassins og niðurdælingu, er hærri en þessi markaðsbreyta, þá verður tap á þessari starfsemi og betur heima setið en af stað farið.  Fjárfestingar eru miklar, orkuþörf mikil og vatnsþörf mikil og það er dýrt að ná CO2 út úr efnaferli verksmiðja.  Þess vegna er augljós fjárhagsleg áhætta á ferðum, sem minnkar þó eitthvað, ef styrkveitingar úr vösum skattborgara fást, en hversu siðlegt er það ?

Þann 2. maí 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir 2 höfunda, sem ætla má, að viti mest um þessi mál, en þar var þó ekkert minnzt á auðlindaþörfina (vatn, rafmagn) á hvert t koltvíildis, sem sent hefur verið niður í iður jarðar, né áætlaðan kostnað við það.  Þetta er galli á annars góðri grein höfundanna Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix, og Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur, yfirvísindakonu Carbfix.  Greinin bar yfirskriftina: 

"Raunverulegar loftslagsaðgerðir í hlýnandi heimi".

Þar stóð þetta m.a.:

"Jafnvel þótt hraði hlýnunar haldist óbreyttur, er aðeins tímaspursmál, hvenær við þurfum að takast á við afleiðingarnar af fullum þunga.  [Afleiðingarnar eru óvissar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en virðast verða tiltölulega auðveldar viðfangs á Íslandi, sbr David Friedman - innsk. BJo.]

Hlýnun jarðar heldur áfram.  Viðbrögðin við þessari stærstu ógn samtímans [!?] eru hins vegar ekki í neinum takti við alvarleikann.  [Coda Terminal á að taka til starfa á fullum afköstum árið 2032, sem eru áætluð allt að 3 Mt/ár CO2.  Um þessa niðurdælingu munar ekkert, þ.e. engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar - innsk. BJo.] 

Á meðan hitametin falla, er losun Íslands á koldíoxíði  (CO2) enn að aukast, þvert á öll markmið, og losun á hvern íbúa með því mesta, sem gerist í heiminum."  

Þetta er villandi framsetning, sem setur Ísland í verra ljós en efni standa til.  Ísland er strjálbýl eyja með háa landsframleiðslu á mann, og miklar fiskveiðar eru stundaðar við landið.  Af þessu leiðir tiltölulega mikla jarðefnaeldsneytisnotkun, en hún er þó með tiltölulega hárri nýtni í alþjóðlegum samanburði.  Stóriðjan (málmframleiðslan) í landinu sparar losun á meira en 12 Mt/ár af koltvíildi út í andrúmsloftið, sem eru ferföld áætluð hámarksafköst hjá stöllunum í Straumsvík.  Til hvers eru þær með þennan málflutning ?

"Lausnin við [svo ?] loftslagsvánni er til: Hún felst m.a. í því að beita fjölmörgum lausnum, sem allar miða að því að koma í veg fyrir losun milljarða tonna af gróðurhúsalofttegundum, aðallega CO2, út í lofthjúpinn.  Til að sporna við þessari hamfarahlýnun þurfum við að breyta okkar neyzlumynztri. [David Friedmann segir tal um hamfarahlýnun af mannavöldum vera "þvætting".  Það er skrýtið af stöllunum að skipa sér í slíkan hóp - innsk. BJo.]
Orkuskipti vega þar þyngst, auk bættrar orkunýtni, enda er stærsti orsakavaldur loftslagsbreytinga gríðarlegur bruni jarðefnaeldsneytis, en auk þess þarf að fanga, binda og hagnýta CO2 og bæta landnýtingu.  Loftslagsmarkmiðum verður ekki náð, nema með umfangsmiklum aðgerðum og samstarfi þvert á landamæri."
Mikilvægasta framlag Íslands núna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda væri að virkja fleiri vatnsföll og meira í sömu á, þar sem þess er kostur, og meiri jarðgufu, en alger doði ríkir á þessu framfarasviði um þessar mundir.  Ástæðan fyrir aukningu losunar undanfarið er raforkuskortur í landinu, en afturhaldið lemur hausnum við steininn og viðurkennir engan raforkuskort.  Það sýnir við hvílíka hrímþursa er að eiga.  Þegar þursaflokkurinn missti forsætisráðherrann yfir í forsetaframboð, var mynduð ný ríkisstjórn, sem setti 3 mál á oddinn, þ.á.m. orkumálin.  Ef enn fæðist bara lítil mús, verða margir vonsviknir.  

 

 


Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar

Á baksviði Morgunblaðsins birtist 4. maí 2024 athyglivert viðtal Baldurs Arnarsonar við fjölfræðinginn David Friedman, sem er sonur hins góðkunna hagspekings Miltons Friedman.  Karlinn er fræðasjór, eins og titillinn gefur til kynna, og hann fer ekki með neitt fleipur.  Hann bendir á, að hlýnun jarðar hefur bæði kosti og galla í för með sér fyrir lífið á jörðunni, og hann telur kenningar um hamfarahlýnun hreina bábilju. Viðtalið birtist undir fyrirsögninni:

"Himinn og jörð eru ekki að farast".

Um hlýnun jarðar hafði D. Friedman þetta að segja:

"Það er líklegt, að meginskýringin sé umsvif mannsins, þótt kerfið sé afar flókið, og því er erfitt að vera fullviss.  Það er skoðun rétttrúnaðarins um áhrifin.  Raunar eru 2 rétttrúnaðarskoðanir.  Önnur er helber þvættingur, og sú, sem ég tel, að sé sennilega röng.  Það er hugmyndin um hamfarahlýnun.  Séu alvöru rannsóknir hjá IPCC [milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar] eða [hagfræðinginum William] Nordhaus skoðaðar, virðast hin spáðu áhrif ekki ýkja mikil."

Því er yfirleitt ekki mótmælt, að maðurinn eigi hlut að máli, en áhöld eru bæði um raunverulega hitastigshækkun í lofthjúpi jarðar og hversu stór hluti hennar stafar af umsvifum manna.

"Nordhaus áætlar í bók sinni, að verði ekkert að gert, muni heimsframleiðslan í lok þessarar aldar verða nokkrum % minni en ella vegna loftslagsbreytinga.  Og séu áætlanir IPCC skoðaðar, þá kemur í ljós, að þær benda til, að sjávarmál muni hafa hækkað um 0,5 m í lok þessarar aldar.  Og sé málið hugleitt, er það töluvert mikið minna en munurinn á flóði og fjöru [að meðaltali - innsk. BJo].  Svo að það hefur vissulega áhrif, en þau eru lítil.

Því tel ég, að hugmyndin um yfirvofandi hamfarir, sem muni þurrka út siðmenninguna, sé hreinlega þvættingur.  Sú hugmynd, að þeim fylgi veruleg útgjöld, sem ættu að vera okkur áhyggjuefni, er ekki þvættingur, en ég er ekki viss um, að hún sé rétt.  Sé málið skoðað vandlega, er engin ástæða til að gefa sér, að hlýnun sé slæm ...  .  Og maðurinn býr við mismunandi hitastig, svo að munað getur 20°C.  Sé hitakort af jörðinni skoðað og kort, sem sýnir íbúaþéttleikann, þá virðist ósennilegt, að það muni hafa ógnvænleg áhrif, ef meðalhitinn hækkar um 2°C.  Síðan, ef raunáhrifin eru skoðuð, þá mun hækkun sjávarmáls hafa neikvæð áhrif, en mjög lítil.  Lækkandi pH-gildi hafanna [eða súrnun hafanna] kann að hafa neikvæð áhrif og það veruleg, en við vitum ekki, hversu mikil.  Margar lífverur í höfunum eru viðkvæmar fyrir breytingum á sýrustigi hafsins."

Niðurstaða þessa virta fræðimanns stangast alveg á við gasprið í formanni Loftslagsráðs Íslands af grafalvarlegum afleiðingum losunar Íslendinga og annarra á koltvíildi út í andrúmsloftið.  Viðráðanlegt verður að verjast hækkun sjávarborðs.  Ísland verður gróðursælla með hækkandi hitastigi, landbúnaður braggast og kornræktun ætti að verða auðveldari og geta sparað innflutning fóðurvara.  Mesta óvissan er um lífríki sjávar, og þar geta orðið afdrifaríkar breytingar til hins verra fyrir Íslendinga, sem gerir fiskeldi á landi og úti fyrir ströndu enn mikilvægari útflutningsstoð en ella.  Líklegt er, að rennsli í ám fari vaxandi og þar með geti raforkuvinnslan vaxið með bættri nýtingu vatnsaflsvirkjana. 

"Það teljast líka vera neikvæð áhrif, að fellibyljir séu að verða öflugri.  Fækkun fellibylja, sem veikari teljast, eru jákvæð áhrif.  Eitt af því, sem fór í taugarnar á mér í samantekt fyrir stefnusmiði í síðustu skýrslu IPCC, er, að þar segir, að öflugri fellibyljir verði hlutfallslega tíðari en veikari.  Þ.e.a.s. fellibyljir í flokkum 4 og 5 í samanburði við flokka 1-3.  Draga á þá ályktun, að öflugri fellibyljir verði tíðari.  Það þarf að lesa skýrsluna til að komast að því, að ástæða þess, að hlutfallið er að hækka er, að veikari fellibyljir eru að verða sjaldgæfari.  Ég tel einnig, að öflugri fellibyljir séu að verða dálítið öflugri, og það eru neikvæð áhrif.  Á hinn bóginn eru nokkur jákvæð áhrif [af hlýnun].  Koldíoxíð kemur við sögu í ljóstillífun.  Sýnt hefur verið fram á áhrifin á uppskeru með mörgum tilraunum.  Þannig að í grundvallar atriðum gera spár ráð fyrir, að áhrifun [af hlýnun] á framboð matvæla verði mjög jákvæð."

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband