25.10.2024 | 18:00
Skattheimta í refsingarskyni
Skattheimtuárátta vinstri grænna er ofstækisfull og efnahagslega fullkomlega glórulaus. Þeim dettur ekki í hug að gaumgæfa, hvaða skattheimtustig er þjóðhagslega hagkvæmast, þ.e. gefur stærstu kökuna til skiptanna. Þá virðist skorta þroska til að hugsa á slíkum rökréttum brautum, en bleyta í þess stað vinstri þumalinn og stinga honum upp í loftið til að finna út, hvers konar lýðskrum hentar þeim bezt í hvert skiptið. Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaus hegðun gagnvart launþegum, sem eiga atvinnuöryggi sitt undir fjárfestingum í fyrirtækjunum, en þegar jafna má skattheimtunni við eignaupptöku, en það eru hreðjatökin, sem VG leggur til, að sjávarútvegurinn verði tekinn, er skörin tekin að færast upp í bekkinn. Hingað og ekki lengra !
Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hefur hækkað úr hófi fram og heldur enn áfram að hækka. Þessari skattheimtu verður auðvitað að stilla í hóf á útflutningsatvinnugreinar og taka mið af því, sem lagt er á samkeppnisfyrirtækin erlendis. Það er ekki gert hérlendis og vitnar um ruddalegar aðfarir skilningslítilla embættis- og stjórnmálamanna. ESB hóf þessa skattheimtu til að beina fyrirtækjum í umhverfisvænni kosti, en á tímum raforkuskorts í boði stjórnvalda geta vinnuvélaeigendur og útgerðarmenn ekki keypt rafeldsneyti í stað jarðefnaolíu. Kerfið setur undir sig hausinn og lemur honum við steininn, enda breytir það engu um stjórnvizku hins opinbera.
Þann 19. september 2024 birtist fróðleiksgrein eftir kunnáttukonurnar Birtu Karen Tryggvadóttur, hagfræðing hjá SFS, og Hildi Hauksdóttur, sérfræðing í umhverfismálum hjá SFS, undir fyrirsögninni:
"En að létta róðurinn ?"
"Kolefnisgjald er eitt þeirra gjalda, sem stjórnvöld leggja á íslenzkan sjávarútveg. Engar undanþágur eru veittar frá gjaldinu, en þar sker Ísland sig frá öðrum Evrópuþjóðum. Kolefnisgjaldinu er ætlað að hvetja til orkusparnaðar, notkunar á vistvænni ökutækjum, samdráttar losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum, sem í dag eru af skornum skammti.
Olíukostnaður hefur að jafnaði verið annar stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launum. Allar breytingar á olíuverði hafa því mikil áhrif á rekstrarskilyrði sjávarútvegs - líka, ef þær verða til með hækkun kolefnisgjalds.
Kolefnisgjaldið stendur nú í 13,45 ISK/l ol, en það hefur hækkað um 364 %, síðan það var fyrst lagt á árið 2010. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 70 %. Kolefnisgjaldið hefur þannig hækkað langt umfram verðlagsbreytingar, og það hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á rekstrarskilyrði í sjávarútvegi. Í liðinni viku [v.37/2024] kynnti ríkisstjórn Íslands svo enn frekari hækkanir á kolefnisgjaldi.
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa greitt tæpa mrdISK 19 í kolefnisgjald á árunum 2011-2023. Heildartekjur ríkissjóðs vegna gjaldsins námu tæpum mrdISK 60 á sama tímabili. Sjávarútvegurinn hefur þannig staðið undir greiðslu á á um þriðjungi kolefnisgjaldsins á Íslandi."
Þetta er dæmi um tillitslausa og skattheimtugríð íslenzkra embættismanna og stjórnmálamanna, því að yfirleitt er sjávarútvegi hlíft við henni. Þarna er um þjóðhagslega óhagkvæma skattheimtu að ræða, því að hún skekkir samkeppnishæfnina. Þarna er verið að gera íslenzkum atvinnuvegi erfitt fyrir með svipuðum hætti og með s.k. blýhúðun ESB-reglugerða og tilskipana.
"Íslenzkur sjávarútvegur er í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu, og það stendur ekki á atvinnugreininni að ná enn frekari árangri í þeim efnum. En næstu skref í átt að markinu eru snúin. Þegar miklum samdrætti í olíunotkun hefur verið náð, verða frekari skref fram á við bæði vandasamari og kostnaðarsamari. Af þeim sökum skiptir sköpum, að stjórnvöld tryggi svigrúm til verulegra fjárfestinga í greininni næstu árin, m.a. með hóflegri gjaldtöku og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi."
Þetta skilja ekki vinstri grænir, og þess vegna er í meira lagi umdeilanlegt að fela þeim forsjá atvinnuvegaráðuneytis. Þeir skilja ekki, að í atvinnugrein, hverrar velgengni er reist á miklum fjárfestingum í framleiðniaukandi og gæðaaukandi búnaði ásamt nýsköpun til að skáka samkeppnisaðilum, þarf framlegðin frá rekstri að vera há. Núna er sérstök skattheimta á útgerðir 33 % af hagnaði og almenni tekjuskatturinn leggst ofan á þetta. Þarna er augljóslega teflt á tæpasta vað, enda einsdæmi í heiminum. Nei, vinstri græna ofstækið ætlar ekki að láta þar við sitja, heldur hækka sértæku skattheimtuna verulega. Það er ótækt, enda setur slíkt fjölda fyrirtækja í uppnám og þar með lífsafkomu fjölda fólks. Ábyrgðarleysið er algert, og sjálfstæðismenn geta ekki fallizt á þessi vinnubrögð.
"Hafa verður í huga, að kolefnisgjald úr hófi stendur í vegi fyrir því, að ná megi háleitum markmiðum um aukinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og veikir sömuleiðis samkeppnisstöðu sjávarafurða á erlendri grundu.
Ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum mætir því miður ekki þeim áskorunum, sem sjávarútvegur stendur frammi fyrir og varðar ekki leið að frekari samdrætti í olíunotkun. Áherzlan er enn á óraunhæfar og íþyngjandi aðgerðir tengdar sjávarútvegi í stað þess að treysta betur fjárhagslegt svigrúm til fjárfestinga og aukinnar verðmætasköpunar með hóflegri gjaldtöku ýmiss konar og traustari innviðum. Markmiði um 55 % samdrátt í losun frá sjávaútvegi verður ekki náð, nema stjórnvöld og atvinnulífið hafi sameiginlegan skilning á verkefninu."
Það er ekki nóg með, að stjórnmálamenn, svífandi í lausu lofti, setji landsmönnum óraunhæf markmið í loftslagsmálum, heldur hafa embættismenn svo lítið vit á að smíða aðgerðaáætlun, að hún hjálpar heilli atvinnugrein ekkert við að ná markmiðinu, heldur torveldar það fremur. Hrokinn og minnimáttarkenndin er svo ríkur í þessu slekti, sbr "vér einir vitum", að ekki er borið við að ráðfæra sig við samtök atvinnugreinarinnar um það, hvernig bezt má verða að liði við að leysa verkefnið. Niðurstaðan er fyrirsjáanleg: það eru bara lagðir steinar í götu atvinnugreinarinnar.
Fyrir hvað er þá verið að refsa þessari öflugustu atvinnugrein landsins ? Jú, það er verið að refsa útgerðarmönnum fyrir að eiga aflahlutdeildirnar, sem ríkið úthlutar þeim árlega á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar um heildarveiði úr mismunandi nytjastofnum við Ísland. Þetta einkaeignarréttarlega fyrirkomulag er grundvöllurinn að góðum árangri fiskveiðistjórnunarkerfisins íslenzka, hvort sem litið er til framleiðni og hagræðingar kerfisins, sótspors sjávarútvegsins eða ábyrgrar umgengni hans við auðlindina. Einkaeignarréttarlega fyrirkomulagið hámarkar stöðugleikann, sem greinin getur búið við, og fjárfestingargetu hans, en sameignarsinnar o.fl. hafa mikið reynt til að gera þetta fyrirkomulag tortryggilegt í augum almennings. Kerfið er uppnefnt gjafakvótakerfi. Hvílíkur uppspuni. Þeir, sem stunduðu útgerð, þegar kerfið var sett á, og gátu sýnt fram á 3 ára aflareynslu, fengu úthlutað aflahlutdeild í byrjun. Hverjir aðrir áttu meiri rétt á þessu ? Kerfið er nefnt "grandfathering" á ensku og er vel þekkt erlendis. Síðan hafa aflahlutdeildir gengið kaupum og sölum, svo að yfir 90 % þeirra hafa verið keyptar. Auðvitað fellur þetta kerfi ekki að afdankaðri og vonlausri sameignarhugmyndafræði vinstri grænna, og það hefur komið vel fram hjá ráðherrum þeirra í matvælaráðuneytinu. Þar hefur greinilega verið efst á dagskrá að bregða fæti fyrir útgerðirnar, enda stendur góður árangur þeirra undir þessu markaðsdrifna kerfi eins og fleinn í holdi vinstri manna (Samfylkingin meðtalin.). Nú ætla þessir sjálfskipuðu alþýðuleiðtogar með hugmyndafræði, sem alls staðar leiðir til ófara, þar sem hún er reynd, að jafna hlut alþýðunnar. Hvílík sjálfsblekking, fáfræði og grunnhyggni. Þetta ofstjórnar- og ríkisbákns fyrirbrigði, sem vinstri grænir eru, verður að stöðva í skemmdarverkum þess á hagkerfi landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.10.2024 | 14:56
Viðsjár stjórnmálanna
Miklar breytingar á fylgi stjórnmálaflokkanna hérlendis samkvæmt s.k. skoðanakönnunum hafa valdið titringi í stjórnmálaheiminum. Þau eindæmi urðu á fundi hjá VG 06.10.2024, að flokkurinn sleit stjórnarsamstarfinu hálft ár fram í tímann. Þetta er blaut tuska framan í andlit formanna hinna stjórnarflokkanna, sem báðir höfðu lýst áhuga sínum á að sitja út kjörtímabilið (september 2025). Nú verður ekki tekizt á með silkihönzkum, og vetrarkosningar (marz 2025) koma fyllilega til greina. VG valdi skemmt vín á gömlum belg í forystuna, ætlar í naflaskoðun, og verður sennilega skilin eftir við þá iðju norpandi í kuldanum utan Alþingis.
Það er ekki ólíklegt, að aðvörunarskot fylgismanna hinna stjórnarflokkanna framan stefnis muni fá þá til að sýna vígtennurnar og höfða til kjósenda sinna fyrrum tíð með því að draga fram sérkenni sín, sem í sögulegu samhengi eru borgaraleg viðmið með áherzlu á verðmætasköpun annars vegar með einkaframtaki, samkeppni og einkaeign með hóflegri skattheimtu - og hins vegar samvinnuhugsjónin með blönduðu hagkerfi, sem óhjákvæmilega fylgir stærra ríkisbákn og meiri skattheimtu eða skuldasöfnun ríkissjóðs.
Það er hollt fyrir kjósendur, að stjórnmálamenn takist á um hugsjónir og meginstefnur. Hinum megin víglínunnar séð frá borgaraflokkunum er hið ókræsilega lið opinbers rekstrar og eignarhalds, útþensla ríkisbáknsins og þar af leiðandi óbærilega áþján skattheimtu á bæði einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki og einnig skuldasöfnun og þar af leiðandi hærri verðbólga en hollt er. Þegar þessi ólíkindatól, sem nú eru í stjórnarandstöðu, verða krufin um fyrirætlanir sínar á næsta kjörtímabili, mun þeim vefjast tunga um tönn, og getan er ekki meiri en svo, að þau munu óhjákvæmilega skjóta sig í fótinn, og fylgistölur þar af leiðandi verða allt aðrar en nýlegar skoðanakannanir gefa til kynna.
Til marks um gerjunina, sem í gangi er víða, birtist 4. október 2024 grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, undir fyrirsögninni:
"Flokkur frelsis og ábyrgðar ?".
Hún hófst þannig:
"Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er sú, að mér hefur fundizt hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra.
Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum, sem finnast í landinu. Það er eins og fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn. Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum, ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum, sem þeir segjast hafa ?"
Þetta er auðvitað umhugsunarvert og spurning, hvaða umboð stjórnmálamenn hafa til að aðstoða við að koma annarra flokka stefnumálum fram og að gera við þá hrossakaup um stuðning við þeirra mál gegn stuðningi við eigin mál. Þetta er lýðræðisvandamál kjördæmaskipunar og kosningafyrirkomulags, sem leitt hefur til flokkafjölda á Alþingi, sem útilokar tveggja flokka ríkisstjórn. Þingflokkar gætu orðið fleiri eftir næstu kosningar, af því að vonbrigði Jóns Steinars eru ekki einsdæmi.
VG tók það upp hjá sjálfri sér að stytta kjörtímabilið um a.m.k. 4 mánuði. Þetta er líklega einsdæmi, enda helber ósvífni án samráðs við kóng eða prest.
Forsætisráðherra hugðist leggja á djúpið í nafni þess, að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um þingmálaskrá, en VG-liðar hafa lýst því yfir, að þeir muni hlaupa út undan sér í a.m.k. einu þingmáli dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, 1. þingmanns Suðurlands. Erfitt stjórnarsamstarf þriggja stjórnarflokka, þar sem VG-ráðherrar hafa að mati margra flokksmanna hinna stjórnarflokkanna orðið brotlegir við lög, hefur leitt til óvenjumikilla fylgisbreytinga, sem verkefni stjórnmálamanna í kosningabaráttunni verður að snúa við eða auka fram að kosningum háð því, hvar þeir eru staddir. Mikilvægt er að toppa á réttum tíma.
Yfirgangur og ósvífni er brennimark á þessum stjórnmálaflokki -VG, enda virðast áhangendur villta vinstrisins ætla að gefa þessum armi frí og senda félaga í Sósíalistaflokkinum á þing í staðinn.
Frumhlaup VG með að flýta kosningum varð ekki liðið. Forsætisráðherra, sem einn fer með þingrofsvaldið, tók af skarið, þegar hann sá, að Svandís var ekki í neinum samstarfshugleiðingum. Það verður bið á því, að Sjálfstæðisflokkur setjist aftur í ríkisstjórn með svartasta afturhaldi landsins, sem tekizt hefur að þvælast fyrir framfaramálum í landinu allt of lengi og valda stórtjóni og tekjutapi samfélagsins. Þetta stjórnarsamstarf var dýru verði keypt, og kjósendur voru lítt hrifnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2024 | 14:18
Varnir í skötulíki ?
Stórnotendur rafmagns hafa verið við lýði í landinu síðan 1969, en enn er raforkukerfið vanbúið að hýsa þau og búnað skortir til að bregðast sómasamlega við miklum álagssveiflum, þannig að aðrir raforkunotendur en sá, sem sveiflunni veldur, verði ekki fyrir tjóni.
Stórar spennusveiflur verða eðlilega, þegar kerskáli í álveri er rofinn frá sinni afriðlastöð. Hið skrýtnasta við fréttir af atvikinu um hádegisbil 2. október 2024 er, að Norðurál heldur því fram, að um viðhaldsaðgerð hafi verið að ræða. Sé svo, átti hún að fara fram í fullu samráði við Landsnet, sem þá gafst tækifæri til að velja tímasetningu og gera ráðstafanir til spennulækkunar í kerfinu. Það er afar ósennilegt, að Landsnet hafi valið hádegisbil á virkum degi til prófunar á kerfisviðbrögðum af þessu tagi. Það hefur ekki komið fram, hvort um annan eða báða kerskála Norðuráls var að ræða.
Vatnsorkuverin í Þjórsá/Tungnaá brugðust hratt við, en ekki hafa borizt fregnir af viðbrögðum Hellisheiðarvirkjunar og annarra gufuaflsvirkjana sunnanlands. Hins vegar virðast jarðgufuvirkjanirnar í Þingeyjarsýslu hafa brugðizt of hægt við, því að í Þingeyjarsýslum varð tjónið mest vegna yfirspennu.
Um það leyti, sem truflunin varð, hefur aflflutningur væntanlega verið til suðurs og verið rofinn á Grundartanga við spennuhækkunina. Við það verður spennuhækkun á Norðurlandi. Spyrja má, hvort sömu viðbrögð hefðu ekki orðið með 220 kV línu að norðan, en Landsnet gerir mikið úr því, að línan sé fimmtug 132 kV lína. Alls ekki skal hér gera lítið úr þörfinni á að leysa hana af hólmi með nýrri 220 kV línu, en það er vegna ófullnægjandi flutningsgetu. Allar einingar kerfisins verða að þola snöggt brottfall stærsta álagsins, og því er greinilega enn ekki að heilsa. Það er hneisa í landi með mestu orkunotkunina á mann í heiminum.
Óskar Bergsson gerði þessu atviki skil í Morgunblaðinu 4. október 2024 undir fyrirsögn, sem ekki er víst, að kasti ljósi á aðalsökudólgana:
"Veikasta svæðið þoldi ekki höggið".
Fréttin hófst þannig:
""Höggið á kerfið varð vegna þess, að álverið leysti út og því varð þessi keðjuverkun á veikasta svæðinu, sem var byggðalínusvæðið. Virkjanirnar, sem eru tengdar við sterkasta kerfið, gátu skrúfað niður framleiðsluna hjá sér til að bregðast við þessu", segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets um ástæðu þess, að stór hluti landsins varð rafmagnslaus í fyrradag. Mikið tjón varð af völdum rafmagnstruflana, í einstaka tilvikum upp á tugi milljóna ISK, en vel á annað hundrað tjónatilkynningar höfðu borizt RARIK í gær."
Eftir að aflflutningurinn suður um Byggðalínu hafði verið rofinn, hefur tíðnin væntanlega hækkað um hríð á Suðurlandi, en vatnsaflsvirkjanirnar náð að regla sig niður. Meira ójafnvægi hefur orðið á Norðurlandi með jarðgufuvirkjanir á fullu álagi (til að spara vatn), og Fljótsdalsvirkjun e.t.v. líka að keyra suður.
Guðmundur Ingi notar þetta tækifæri ekki opinberlega til að rýna í það, sem var ábótavant í sjálfvirkum kerfisviðbrögðum, heldur til að blanda að mestu óskyldu máli inn, sem er hneykslanlega langur undirbúningstími fyrir flutningslínur. Í ESB Orkupakka 4 tekur leyfisveitingaferlið mest 2 ár, en á Íslandi tífalt lengri tíma. Er kyn, þótt keraldið leki ?
""Við höfum lagt mesta áherzlu á að komast í Blöndulínu 3, en það kann að vera, að sú framkvæmdaröð breytist eftir því, hvernig gengur að klára leyfisferlið, sem er gríðarlega flókið og erfitt. Til þess að fá leyfi fyrir raflínum þarf fyrst að klára umhverfismat og skipulag, sem síðan fer í umsagnarferli. Að því loknu þarf framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögum, og samhliða því þarf að semja við landeigendur. Í þessu ferli opnast mikið af kæruleiðum, sem hafa tafið málin.""
Það er geisilega mikið í húfi að tengja Akureyri með traustum hætti báðum megin frá. Þetta s.k. leyfisveitingaferli er leikaraskapur, enda lagt upp með ósköpin í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þar er búinn til leikvöllur fyrir sérvitringa og afturhald landsins í formi félagasamtaka eins og Landvernd. Þessi fíflagangur hefur valdið gríðarlegum töfum, kostnaði og tekjutapi og verður að afnema hið fyrsta. Evrópusambandið er búið að yfirtaka þessi mál með sínum 4 orkupökkum, þannig að hámarks umþóttunartími yfirvalda hvers lands eru 2 ár. Orkupakkar ESB gilda sem lög á Íslandi, og munu væntanlega úrelda fíflaganginn, sem er við lýði á Íslandi, þegar Orkupakki 4 tekur hér gildi, en það er allt of langt að bíða eftir því, svo að orkuráðherra ætti að rumska og afgreiða svipaðar reglur og gilda í ESB sem frumvarp til Alþingis.
"Guðmundur Ingi segir nauðsynlegt að endurskoða þetta ferli og gera það skilvirkara án þess að slá af kröfum, ef markmiðið um orkuskipti eigi að nást.
"Við erum komin á skrið með þessar línur allar í góðu samstarfi við sveitarfélög og erum að koma þessum verkefnum inn á skipulag og klára umhverfismatið."
Hann segir vinnu við Blöndulínu 3 hafa staðið yfir í 20 ár, og það séu deilur af ýmsum toga, sem hafi tafið framkvæmdina."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2024 | 09:17
Átrúnaðargoðið gallað
Á Alþingi er margt fólk, sem ákallar evruna með svipuðum trúarhita og sameignarsinnar ákölluðu Ráðstjórnarríkin og blóði drifið alræðisstjórnkerfi þeirra á sinni tíð. Af máli evrusinna í Viðreisn og Samfylkingu má ráða, að þeir telji inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB) og upptöku evrunnar sem lögeyris frelsun Íslendinga undan ánauð hárra vaxta og verðbólgu. Jafnvel þetta fer þó á milli mála, þegar þróun þessara mála í löndum ESB, t.d. í Eystrasaltslöndunum, er skoðuð. Hitt er þó aðalatriðið, að það er grunnhyggið viðhorf að reisa skoðun sína á yfirborðslegri athugun í stað þess að kryfja málið til mergjar.
Það hefur lengi verið áhyggjuefni í Evrópu, hversu mjög verg landsframleiðsla og lífskjör í ESB hafa dregizt aftur úr Bandaríkjunum. Framkvæmdastjórn ESB fékk þess vegna fyrrverandi seðlabankastjóra evrunnar í Frankfurt am Main og fyrrverandi ítalskan forsætisráðherra, Mario Draghi, til að greina ástæður hagvaxtarvanda ESB-ríkjanna og gera tillögur til úrbóta. Draghi benti á, að frá upptöku evrunnar hefur framleiðni vinnuafls í ESB sem hlutfall af framleiðni vinnuafls í Bandaríkjunum minnkað. Það er freistandi að nota tölfræði til að slá fram bólgnum fullyrðingum. Þetta er vissulega sláandi samhengi, þótt fleiri skýringar megi tína til, sem þá magna afturförina í ESB.
Nú hefur komið fram gagnrýni á Draghi fyrir að minnast ekki á evruna sem eina af fleiri skýringum á afturför eða stöðnun í hagkerfum ESB-landanna. Kannski vill bankastjórinn fyrrverandi ekki kasta rýrð á evruna, því að staða hennar er viðkvæm og veikari en Bandaríkjadalsins, á meðan evru-ríkin eru ekki með sameiginlegan ríkissjóð og fjárlög, en það verður líklega eftir að frýs í helvíti. Þann 30. september 2024 birtist í Morgunblaðinu viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við dr Jón Helga Egilsson undir fyrirsögninni:
"Aukin samvinna krefst ekki evru".
"Dr Jón Helgi Egilsson, meðstofnandi og stjórnarformaður fjártæknifélagsins Monerium og fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, segir skýrsluna um margt athyglisverða, en þögn Draghi um þátt evrunnar í vandanum sé æpandi. Jón Helgi bendir á, að skýrslan sýni viðsnúning og hnignun frá upptöku evru fyrir aldarfjórðungi, en sú staðreynd sé ekkert rædd. "Ekki er að finna orð um það á þessum 397 blaðsíðum. Það vita það allir, að evran hentar mörgum aðildarríkjum ESB illa, og það hefur áhrif á framleiðni þeirra og samkeppnishæfni. Af hverju má ekki ræða það, ef markmiðið er að takast á við áratuga hlutfallslega hnignun í Evrópu."
Það er skiljanlegt, að fyrrverandi aðalbankastjóri evrubankans í Frankfurt am Main eftirláti öðrum að benda á hinn augljósa sökudólg, til að hann verði ekki sakaður um að grafa undan evrunni, en hann birtir í staðinn graf, sem sýnir, að framleiðni vinnuafls í ESB hætti að vaxa, þegar Maastricht-sáttmáli evrunnar sá dagsins ljós, og hefur lækkað síðan. Þetta eru a.m.k. ekki meðmæli með evrunni. Hagsveiflan á Íslandi er ekki í góðum takti við hagsveiflu þungamiðju evrunnar, og þess vegna mundi íslenzkt hagkerfi verða á meðal þeirra, sem líða fyrir að nota evru sem lögeyri. Pólitískum sprelligosum er ekki gefin rökhugsun, en telja sig geta flotið á tilfinningum sínum og upphrópunum. Almenningur sér í gegnum innantóman fagurgalann.
"Jón Helgi segir evruna vissulega bara einn af fleiri þáttum, sem valdi hægum vexti evrópska hagkerfisins. Í umræðunni, sem spunnizt hefur um skýrslu Draghis, hefur m.a. verið bent á, að breytingar á aldurssamsetningu evrópsks vinnuafls og afslöppuð vinnumenning í Evrópu kunni að skýra rólegri hagvöxt í álfunni, og eins geri mikill uppgangur bandaríska tæknigeirans allan samanburð óhagfelldan."
Það er þó fleira, sem hér kemur við sögu, og ber fyrst að nefna fleiri og öflugri árangurs og afkastahvata efnahagskerfis BNA en ESB, lægri skattheimtu og minni opinber umsvif, sem alls staðar eru dragbítar á hagkerfið. Orkuverð, bæði á jarðefnaeldsneyti og rafmagni, er lægra í BNA en í ESB. Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga, sem glíma við háa skattheimtu og mikil opinber umsvif. Það, sem bjargar lífskjörunum á Íslandi, er há framleiðni grunnatvinnuveganna (ekki túrismans) og lágt raforkuverð til almennings. Með ríkisstjórn undir forystu Samfylkingar og án Sjálfstæðisflokks verður skattheimtan aukin, ríkisbáknið þanið enn meira út og ríkissjóður látinn safna enn meiri skuldum. Þessi stefna jafnaðarmanna, sem hefur t.d. verið stunduð undanfarinn áratug við stjórnun Reykjavíkurborgar, mun raska jafnvæginu í hagkefinu, kynda undir verðbólgu og reka hagvöxt niður að núlli. Allt þetta lækkar ráðstöfunartekjur heimilanna.
"Að mati Jóns Helga má samt ekki hunza áhrif evrunnar. "Vissulega eru fleiri þættir en gengi gjaldmiðla, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni og famleiðni, en er þessi skýri viðsnúningur tilviljun ? Sameiginlegur gjaldmiðill er eðli málsins samkvæmt ekki fær um að endurspegla efnahagslegan veruleika einstakra aðildarríkja. Lönd, eins og Grikkland, Ítalía og Spánn, sem áður höfðu eigin gjaldmiðla, sem löguðu sig að þeirra efnahagslega raunveruleika, gátu áður endurheimt samkeppnishæfni sína í kjölfar efnahagsáfalla og breytinga. Þessi lönd misstu þennan sveigjanleika við upptöku evrunnar", segir hann. Þetta varð sérstaklega áberandi eftir fjármálakreppuna 2008, þegar þessi lönd stóðu frammi fyrir gríðarlegum efnahagsáföllum án möguleika á aðlögun, nema í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi langvarandi atvinnuleysi og þeim hörmungum, sem slíku fylgja, auk brottflutnings vel menntaðs og hreyfanlegs vinnuafls til annarra landa innan og utan Evrópu, sem enn sér ekki fyrir endann á.""
Íslendingar urðu illilega fyrir barðinu á téðri fjármálakreppu 2007-2009, en lífskjaraáfallið hefði orði enn stærra en sem nam 6 % samdrætti landsframleiðslu og varað lengur en 4 ár, ef landið hefði þá verið í ESB og með evru sem lögeyri. Þótt ISK (og seðlabanki hennar) sé ekki lamb að leika sér við, er hún þó eins konar öryggisloki fyrir hagkerfið og lífskjör almennings. Samfylking og Viðreisn eru fús til að fórna hagvexti og þar með lífskjörum almennings til að fullnægja pólitískri meinloku sinni.
"Þykir Jóni Helga löngu tímabært að skoða hlut evrunnar í mikilli hnignun efnahagslífs Evrópu og endurskoða kröfuna um, að aðildarríki verði að nota evru. "Af hverju að undanskilja heiðarlega greiningu á þætti evrunnar í hnignun framleiðni og samkeppnishæfni Evrópu, og láta sem sameiginlegur gjaldmiðill skipti ekki máli ? Hann skiptir heldur betur máli", segir Jón Helgi og bætir við, að það að forðast þessa umræðu, eins og Draghi geri í sinni skýrslu, sé að setja kíkinn fyrir blinda augað."
Þetta eru tímabærar umræður á Íslandi nú í aðdraganda kosninga, þegar sumir líta öfundaraugum til þjóða með evru sem lögeyri og benda á lægra vaxtastig en hér tíðkast. Á þeim peningi eru þó 2 hliðar. Þjóðverjar, sem eru miklir sparendur, eru óánægðir með lágt vaxtastig evrubankans, sem hefur gefið þeim afar lága raunvexti m.v. það, sem tíðkaðist á dögum DEM. Á Íslandi eru líka margir sparendur, einkum í eldri kantinum, þrátt fyrir vinstri dellu um fjármagnstekjuskatt og skattheimtu af verðbótum. Ráðstöfunartekjur launa á Íslandi eru með þeim hæstu, sem þekkjast í Evrópu, og veitir ekki af vegna hás verðlags. Allur samanburður á milli landa er flókinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2024 | 17:26
Stungið á kýlum
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, stakk á nokkrum kýlum, sem kalla má þjóðfélagsmeinsemdir, í merkri grein í Morgunblaðinu 20. september 2024. Það má velta fyrir sér, hvers vegna vitleysa og augljós fíflagangur virðast orðin svo algeng í þjóðfélaginu núna. Líklegt er, að gæði stjórnunar verkefna og stefnumótunar haldist í hendur við gæði skólakerfisins. Það einkennist nú um stundir af metnaðarleysi og einhvers konar útþynningu á raunverulegri menntun, eins og ömurlegur árangur 15 ára nemenda á samræmdum prófum OECD, s.k. PISA-prófum, gefur til kynna. Það er ekkert gamanmál eða einkamál barnamálaráðherra, að menntunarstig grunnskólans hefur hrapað á nokkrum áratugum, þótt keyrt hafi um þverbak, eftir að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, læsti klónum í ágæta námsskrá frá 1999 og gaf út aðra, sem einkennist af metnaðarleysi.
Téð gagnrýnigrein Jóhannesar bar yfirskriftina:
"Þjóð á rangri leið".
Hún hófst þannig:
"Það er eitthvað skrítið í gangi í íslenzkum stjórnmálum. Tökum umhverfisstefnuna sem dæmi. Eftir að hafa barizt sérstaklega fyrir því að bæta kolefniskvótaviðskiptakerfi ESB inn í EES-samninginn, eru íslenzk yfirvöld nú allt í einu hissa á, að Ísland sé eyja í miðju Atlantshafi og því eina þjóðin, sem borgar slíkan skatt fyrir flug yfir Atlantshafið, og sú þjóð, sem borgar mest fyrir skipaflutninga. Þetta frumkvæði hefur stórskaðað samkeppnishæfni landsins og lífskjör almennings."
Téð kerfi ESB er til að beina stórflutningum til járnbrautalesta, sem búrókratar hafa fundið út, að sé með minnst sótspor. Þetta er þó hæpið, þegar vistvæn raforka er aðeins um þriðjungur heildarraforkunotkunar og þegar allur ferill flutningatækjanna er krufinn til mergjar. Að láta þetta gilda um eyjarskeggja lengst norður í ballarhafi er óréttlátt, því að þeir eiga enga valkosti aðra en flugvélar og skip. Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn, sem um þetta véluðu, annaðhvort sváfu á verðinum eða eru liðleskjur, þegar standa þarf fast í lappirnar, til að verjast ósanngirni eða hagsmunaátroðslu.
"Í "land og líf"-stefnu yfirvalda á að breyta 13 % af ræktarlandi (156 km2) í mýrar og 12 % (150 km2) í skóga. Þó að þetta hljómi mikið, eru áhrif skógræktarinnar ekki nema rétt á pari við þá útblástursminnkun, sem ein 10 MW vatnsaflsvirkjun á Íslandi býr til með því að flytja álframleiðslu frá kolaorku-Kína til hreinorku-Íslands. En í stað þess að líta slíkt jákvæðum augum, hefur hér ríkt virkjanastopp síðustu 2 áratugi, og nú er komin orkukreppa. Stórir 100 MW virkjanakostir voru settir á bið í 2 áratugi (Hvammsvirkjun) eða friðaðir í pólitískum skollaleik (Norðlingaölduveita). Það má ekki einu sinni tengja orkuframleiðslu milli landshluta, og allt að ígildi 200 MW frá Kárahnjúkavirkjun sóað, því [að] notandinn fær ekki orkuna.
Skyndilega eiga vindmyllur að leysa allt. Þær snúast þó ekki í logni og þurfa helzt að vera staðsettar við hlið vatnsorkuvers (sem yfirvöld hata) til að forðast risafjárfestingu í dreifikerfi og varaafli. Fyrir vikið er hætt við, að rafmagnsreikningur allra rjúki upp, þegar borga þarf brúsann."
Þetta er þörf ádrepa. Það er engin glóra í því að moka ofan í skurði til að endurskapa mýrar, sem undir hælinn er lagt, hvort draga úr losun koltvíildis, eða hvort meint minnkun verði viðurkennd alþjóðlega. 13 % af ræktarlandi er tífalt það, sem verjandi er að leggja undir þessa vafasömu hugdettu.
Að taka ræktarland undir skógrækt í stórum stíl orkar líka tvímælis. Skógrækt ætti að vera þáttur í landgræðslu, að koma upp skjólbeltum og að skapa störf við hirðingu og nýtingu skóganna.
Stærsta meinlokan í þjóðfélaginu um þessar mundir er andstaðan við nýjar virkjanir, þótt þær séu umhverfisvænstu fjárfestingar, sem í boði eru á Íslandi vegna náttúru landsins. Hér er átt við hinar hefðbundnu virkjanir.
Andstæðingar nýrra vatnsafls- og jarðgufuvirkjana hafa gripið þau falsrök algerlega úr lausu lofti, að enginn orkuskortur sé í landinu. Nýlega heyrðist í Vikulokunum á Gufunni frá einum þingmanni, sem að vísu er á þingi fyrir pírata, sem eru hreinir ratar í málflutningi sínum, að ekki skipti máli fyrir þjóðarbúið, hvort lokað væri einu álveri með öllu því tekjutapi og kostnaði, sem því fylgir, því að það væri líka dýrt að virkja. Sá aumkvunarverði maður, sem þarna átti í hlut, skilur ekki muninn á fjárfestingu og rekstrarkostnaði. Þegar fólk af þessu "kalíberi" slæðist inn á Alþingi, er ekki von á góðu. Það leiðinlega er, að margt þekkingarsnautt og dómgreindarlaust fólk telur sig vel í stakkinn búið til að hafa vit fyrir öðrum og setja lýðnum lög.
Nýlega lagði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, orð í belg út af því, að honum þótti of mikið gert úr orkuskortinum. Það er furðuhjal hjá þessum forstjóra, sem hefur ekki getað orðið við neinum umtalsverðum óskum um forgangsorku í a.m.k. hálfan áratug nú. Rökstuðningur hans lýsti ekki djúpri þekkingu á sögu afgangsorkunnar ("secondary energy"), sem nú kallast ótryggð orka. Það var alls ekki reiknað með, að þyrfti að skerða hana til kaupenda á hverju ári, heldur var reiknað með vatnsskorti í lónum í u.þ.b. 3 árum af 30. Ef þarf að skerða nokkur ár í röð, minnka skerðingarheimildir Landsvirkjunar á hverju ári eftir fyrsta ár skerðingarlotu. Nú um stundir fyllist Þórislón ekki ár eftir ár vegna mikils álags, sem á kerfinu er. Sem betur fer fylltist Hálslón á þessu hausti, en lítil flutningsgeta Byggðalínu hamlar orkuflutningum á milli landshluta, eins og Jóhannes Loftsson drepur á. Forstjóri Landsvirkjunar setti sig á háan hest og ætlaði að áminna "krakkana", m.a. hjá Landsneti, en datt strax af baki.
"Hitaveitureikningurinn gæti farið sömu leið, því [að] samkvæmt fjárhagsspá OR 2024-2028 á að fjárfesta fyrir mrdISK 68 í kolefniskvótasprotaverkefni, þar sem mengun er dælt niður í jörðina. Varhugavert er, að opinber fyrirtæki standi í slíkri áhættufjárfestingu, því [að] þá er almenningur ábyrgur, og hitaveitureikningurinn mun hækka, ef tilraunin misferst og allt tapast."
Það er hægt að taka heils hugar undir þetta með Jóhannesi Loftssyni, því að verkefnið, sem um ræðir, er afar varhugaverð viðskiptahugmynd og felst í að dæla uppleystu koltvíildi, bæði erlendu og innlendu, niður í jörðina. Ferlið er orku- og vatnsfrekt, og undir hælinn verður lagt, hvaða verð þarf að greiða fyrir koltvíildið, því að einangrað er það verðmæt vara, t.d. til að hraða vexti í gróðurhúsum og sem hráefni í s.k. rafeldsneyti, sem koma á í stað jarðefnaeldsneytis og unnið er úr vetni og koltvíildi með rafmagni. Það er fífldirfska að leggja almannafé undir af þessu tilefni, og ætti stjórn OR, þar sem Samfylkingin lengi hefur ráðið miklu, að hætta við þessi áhættusömu áform. Þetta er langt fyrir utan það, sem OR er ætlað að fást við.
Forstjóri Landsvirkjunar lagði líka orð í belg um rafeldsneytið. Hann taldi, að erlendis yrði rafeldsneyti framleitt með rafmagni á verði, sem Íslendingar gætu ekki keppt við. Það er með ólíkindum og sýnir einvörðungu, að búið er að spenna raforkuverð til iðnaðarverkefna allt of hátt hér, og hann á mesta sök á því. Þá taldi hann markaðinn hér vera of lítinn fyrir þessa framleiðslu. Það er harla ólíklegt, ef vinnuvélar, skip og flugvélar eru teknar með í reikninginn. Landsnet hefur í orkuspá sinni reiknað með raforkuþörf fyrir rafeldsneytisframleiðslu hérlendis. Hörður Arnarson er ekki beint uppörvandi og genginn í björg með afturhaldinu, sem viðurkennir engan orkuskort á Íslandi.
"Það er að fjara undan frelsinu. Rétttrúnaðurinn hefur tekið yfir stjórnmálin, og sýndarmennska gervilausna er látin draga athyglina frá raunverulegu vandamálunum. Slíkur veruleikaflótti gengur þó aldrei til lengdar, og á síðustu 2 áratugum hafa vandamálin hrannazt upp og skert lífsgæði okkar til frambúðar. En vont getur lengi versnað, og hnignunin mun því halda áfram, og nýtt lífsgæðahrun blasir við. Eina leiðin út er, að þjóðin finni aftur jarðtenginguna, sem var áður en ábyrgðarlausu stjórnmálin tóku yfir."
Þetta virðist vera dómsdagsspádómur, en Jóhannes hefur greint stöðuna nú rétt. Stjórnmálin eru látbragðsleikur, þar sem hæfileikarýrt fólk án leiðtogahæfni er allt of áberandi, og metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sem kynti gömlu foringjana, er vart nema svipur hjá sjón. Menntakerfið getur ekki framleitt afburðafólk, þegar allt er steypt í mót lítillar getu og metnaðarleysis.
"Íslenzk yfirvöld eiga ekki að borga skatta til útlanda. Íslenzk yfirvöld eiga ekki að búa til orkuskort. Íslenzk yfirvöld eru ekki sprotafjárfestar, og rafbílavæðing er ekkert nema rándýr, gagnslaus dyggðaflöggun. Umferðarvandi verður ekki leystur með draumórum, og fara þarf aftur í hagkvæmar, raunhæfar lausnir, eins og t.d. mislæg gatnamót. Það leysir heldur enginn húsnæðisvanda með því að byggja bara dýrt fyrir borgarlínu, sem enginn tímir að borga fyrir.
Er ekki kominn tími á að fá aftur ábyrgð í stjórnmál á Íslandi ? Gerum Ísland ábyrgt aftur."
Það er grundvallaratriði að koma böndum á vöxt opinbera báknsins, því að innan þess eru sterkir kraftar til fjölgunar starfsfólks og nýrra viðfangsefna (lögmál Murphys). Við getum vel verið án sumra þeirra og önnur væru betur komin hjá einkageiranum, því að opinber rekstur og góð og skilvirk þjónusta fara einfaldlega ekki saman. Um það vitna mýmörg dæmi og koma mörg hver fram í fréttum hverrar viku.
Þá þarf meðferð opinbers fjár að batna stórlega, og er þar s.k. samgöngusáttmáli hrópandi dæmi. Sérvizkuhópar á vinstri vængnum hafa náð allt of miklum áhrifum m.v. fylgi í þjóðfélaginu, og má þar nefna bílaandstæðinga, sem móta afspyrnu þröngsýna, dýra og óhagkvæma stefnu Reykjavíkurborgar í umferðarmálum og virkjanaandstæðinga, sem samkvæmt nýlegri skoðanakönnun njóta stuðnings 3 % þjóðarinnar. Haldið er dauðahaldi í vonlaust og niðurdrepandi kennslufyrirkomulag skóla án aðgreiningar, sem engum nemendum hentar, og hælisleitendalöggjöfin og framkvæmd hennar hefur valdið miklu meiri kostnaði og vandræðum innanlands en þetta litla samfélag getur afborið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2024 | 16:34
Meingallaður og varasamur samgöngusáttmáli
S.k. Samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið er reistur á röngum forsendum, enda hefur hann hlotið alvarlega og málefnalega gagnrýni fagfólks. Hann er hugarfóstur og óskhyggja stjórnmálamanna, en án jarðtengingar við raunveruleikann að talsverðu leyti. Hann opnar fyrir stórhættu á bruðli með almannafé vegna kolrangrar forgangsröðunar verkefna, og bráðnauðsynleg verkefni um allt land munu fyrir vikið líða fyrir enn meiri fjárskort en ella. Amatörar í verkefnastjórn virðast síðan eiga að höndla með þennan sáttmála í stað þess að framkvæma rökrétta forgangsröðun með ströngum reglum verkefnastjórnunar, sem tryggja eins góða meðferð opinbers fjár og kostur er.
Miðjusett borgarlína leysir engan umferðarvanda. Hún magnar hann, því að hún mun þrengja að almennri bifreiðaumferð, og hún mun ekki ná að draga til sín nógu marga farþega til að fækka svo bílum í umferðinni, að auknar tafir hennar vegna verði vegnar upp. Því mun fara fjarri. Borgarlínan mun fara úr böndunum fjárhagslega m.v. hvert stefnir nú, og hún verður hræðilegur fjárhagslegur myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem hafa ekki efni á þessu bruðli. Bruðl er það, þegar offjárfest er m.v. þörfina, og þessi offjárfesting slær líklega öll slík met í landinu. Það er algert dómgreindarleysi að hleypa þessu afkvæmi Samfylkingarinnar jafnlangt og raun ber vitni um núna.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, ritaði ítarlega og rökfasta grein um þennan dæmalausa sáttmála, sem birtist í Morgunblaðinu 12. september 2024 undir fyrirsögninni:
"Alvarlegir ágallar samgöngusáttmálans".
"Ágallar samgöngusáttmálans eru m.a. þessir:
1. Fyrst ber að geta þess, að samgöngusáttmálinn er út frá fræðum verkefnastjórnunar ekki verkefni (e. project), heldur verkefnaáætlun (e. program). Í verkefnaáætluninni er listi af verkefnum, sem ná yfir a.m.k. 16 ár, þ.e. til ársins 2040. Á þessu tímabili munu fara fram fjórar sveitarstjórnarkosningar. Það skiptir öllu máli, að verkefnaáætlunin byggi á vönduðu stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu (e. project governance framework). Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á opinberum framkvæmdum hér á landi á síðari árum sýna fram á, að við Íslendingar erum langt á eftir öðrum þjóðum, þegar kemur að verkefnastjórnsýslu."
Skilningur "Betri samgangna" á verkefnastjórnsýslu virðist því miður ekkert skárri en almennt hjá hinu opinbera, og það er ávísun á fjárhagslegt fúafen. Sum einkafyrirtæki kunna góð skil á kerfisbundinni verkefnastjórnun allt frá verkefnishugmynd að afhendingu framkvæmdarinnar til eigandans eftir vel heppnaða ræsingu og frágengnar úrbætur.
Forgangsröðun verkefna í tímaröð er heldur ekki reist á almennri skynsemi, því að samkvæmt almennri skynsemi ætti að ráðast fyrst í afmarkaðar aðgerðir, sem bæta augljóslega umferðarflæðið og eru þess vegna arðsamastar. Enn ríkir í Reykjavík forkastanlegt og sérvizkulegt bann við mislægum gatnamótum, sem leiðir til klúðurslegra lausna með ljósastýringum og þar af leiðandi hættu á gatnamótum. Fordild og ofstæki Samfylkingarvitringanna um umferðarmál lætur ekki að sér hæða.
"Þannig hafa nær allar opinberar stórframkvæmdir hér á landi farið umtalsvert fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum. Nægir að nefna Hörpu, nýjan Landsspítala og Vaðlaheiðargöng. Lítil viðleitni hefur verið í opinbera stjórnkerfinu, m.a. í fjármálaráðuneytinu, til að bæta úr þessu.
Upplýsingar um vandað stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu til að stjórna verkefnaáætlun og einstökum verkefnum vantar í gögn um sáttmálann. Það virðist m.ö.o. ekki vera gert ráð fyrir faglegri verkefnastjórnsýslu í samgöngusáttmálanum."
Þeir, sem halda um taumana í apparatinu Betri samgöngum, virðast m.ö.o. ekki hafa þá verkþekkingu, hvað þá sérþekkingu á verkefnastjórnun, til að gera sér grein fyrir mikilvægi hennar við undirbúning, framkvæmd og frágang stórverkefna. Það er stórhættulegt að spyrða saman svona mörg verk í eina verkefnasyrpu án þess að hafa nokkra þekkingu á því, hvernig bezt er og hagkvæmast að standa að stjórnuninni. Hvers vegna er verið að búa til þetta pólitíska apparat, Betri samgöngur, þegar Vegagerðin er fyrir hendi og á lögum samkvæmt að sjá um stofnbrautir í þéttbýli ? Er það til þess að koma hinu pólitísk gæluverkefni Borgarlínunni á koppinn, þótt fjárhagur borgarinnar sé nú með þeim endemum, að hún hefur ekki efni á Strætó, hvað þá "strætó á sterum", og er að koma þessu vonlausa fyrirbæri yfir á ríkið. Samfylkingin og fylgihnettir hennar í borgarstjórn er ekki bara fjárhagslegt vandamál vegna báknsútþenslu og bruðls, heldur samgönguvandamál, því að hún hefur gelt aðalskipulagið með fíflagangi eins og að fjarlægja mislæg gatnamót þaðan. Í mörgum tilvikum eru þau hagkvæmasti og öruggasti kosturinn, og þess vegna fyrsti valkostur Vegagerðarinnar. Þarna er sama sagan og í orkumálunum. Rugludallar vinstrisins standa í vegi framfara. Til að höggva á hnútinn þarf þá að koma til kasta Alþingis.
"Við samanburð á upplýsingum Vegagerðarinnar frá 2023 og gögnum samgöngusáttmálans kemur í ljós, að forsendur, verk- og tímaáætlanir sáttmálans byggja á veikum grunni."
Sáttmálinn og Betri samgöngur eru pólitísk hugarfóstur, þar sem umferðartæknileg þekking og almenn verkefnastjórnunarþekking koma lítið sem ekkert við sögu. Slíkt ber eðli málsins samkvæmt feigðina í sér og ætti að spara skattgreiðendum stórfé með því að leysa hvort tveggja upp.
"Fjármögnun verkefna samgöngusáttmálans er forsenda þess, að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geti með góðri samvizku axlað fjárhagslega ábyrgð á sáttmálanum. Sveitarfélögin eru öll illa stödd fjárhagslega eftir að hafa tekið við fjölda verkefna frá ríkinu á síðustu áratugum án þess, að tilsvarandi fjármagn hafi fylgt. Rekstur sveitarfélaganna, sem bera eiga þessa fjárhagslegu skuldbindingu, er þegar í járnum, og munu þau varla ráða við þann aukakostnað, sem hlýzt af samgöngusáttmálanum, hvorki á framkvæmdatíma né síðar, þegar rekstur kerfisins tekur við."
Þetta er skýringin á draugaganginum í kringum borgarlínu, sem lýst hefur sér í furðuvendingum á borð við samgöngusáttmála og Betri samgöngur, sem hvort tveggja er óþarft, ef allt er með felldu. Hvort tveggja verður hengingaról sveitarfélaganna og Samgönguáætlunar Alþingis, sem sveltur illu heilli fyrir vikið.
"5. Í uppfærðum samgöngusáttmála er gert ráð fyrir, að Betri samgöngur ohf. fari fyrir verkefnum sáttmálans og fái heimildir til lántöku. Annars vegar verða það lán, sem sveitarfélögin ábyrgjast til framkvæmda og hins vegar lán með ríkisábyrgð til að fjármagna nauðsynleg húsnæðis- og lóðakaup og niðurrif vegna framkvæmda við stofnvegi. Þar sem fjárhagur sveitarfélaganna allra er bágur, er nokkuð ljóst, að framkvæmdir verða að mestu fjármagnaðar með lántöku. Sú ábyrgð, sem sveitarfélögin undirgangast í því efni, er gríðarlega mikil og óvissan einnig mjög mikil. Auk þess virðist ekki vera gert ráð fyrir fjármagns- og vaxtakostnaði í kostnaðaráætlunum. Sveitarfélögin eru hér sett í mjög erfiða stöðu, því [að] gríðarleg fjárhagsleg áhætta fylgir því að undirrita sáttmálann."
Þetta nær engri átt. Með allt á hælunum, hvað áætlanagerð varðar, á að þröngva sveitarfélögunum út í skuldafen, sem mun standa þeim fyrir þrifum í marga áratugi, á meðan örfáar hræður munu nota hugarfóstur Samfylkingarinnar, "strætó á sterum", sem er allt of fyrirferðamikill á samgönguásum höfuðborgarsvæðisins m.v. þær örfáu hræður, sem nota hann allt árið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2024 | 09:41
Skólar Vesturlanda víða á villigötum
Hvergi á Vesturlöndum hefur grunnskólanum hrakað meira en á Íslandi, ef marka má PISA-niðurstöður. Samt skellir kennaraforystan og menntamálayfirvöld skollaeyrum, og engin viðleitni er sjáanleg til úrbóta. Af PISA-niðurstöðum er þó ljóst, að versnandi árangur grunnskólanema er þó vandamál víðar en hér, og kann einhvers konar tízkubylgju um breytta og slakari kennsluhætti að vera um að kenna.
Í leiðara The Economist um menntamál, 13. júlí 2024, mátti m.a. lesa þetta í þýðingu ritara (ekki gervigreindar):
Það er vel þekkt, að C-19 faraldurinn truflaði skólastarfið mjög. Á tímabilinu 2018-2022 tafðist meðaltáningur í ríku löndunum um u.þ.b. 6 mánuði m.v. áætlaða framvindu í lestri og um 9 mánuði í stærðfræði samkvæmt OECD. Það, sem er á vitorði færri, er, að vandinn hófst löngu fyrir C-19. Dæmigerður nemandi í OECD-landi stóð jafnaldra sínum 15 árum fyrr ekki á sporði í lestri og reikningi, þegar C-19 hófst.
Í Bandaríkjunum sýna próf til margra ára í stærðfræði og lestri, að árangur náði hámarki snemma á 2. áratugi 21. aldarinnar. Síðan þá hefur meðalárangur þar annaðhvort staðið í stað eða honum hefur hrakað. Í Finnlandi, Frakklandi, Þýzkalandi og Hollandi o.fl. löndum sýna alþjóðleg próf, að árangri hefur lengi hrakað. Hvað hefur farið úrskeiðis ?
Ytri áföll hafa haft áhrif. Margir hafa viljað flytja til Bretlands, og þeir tala fæstir ensku. Farsímar trufla nemendur, svo að þeir lesa ekki heima. C-19 faraldurinn setti allt á annan endann. Margar héraðsstjórnir lokuðu skólum of lengi, hvattar af stéttarfélögum kennara, og börn glutruðu niður vananum að læra. Mætingar á mörgum stöðum eru lakari en fyrir C-19. Bekkjardeildir hafa orðið hávaðasamari.
Engu að síður bera menntayfirvöld mikla sök á stöðnuninni. Í Bandaríkjunum t.d. voru umbætur í skólum einu sinni sameiginlegt málefni beggja stóru stjórnmálaflokkanna. Núna er hægrið heltekið af menningarstríðs málflutningi, en margir vinstra megin stunda, það sem George W. Bush nefndi "hið mjúka ofstæki lítilla væntinga" og halda því fram, að skólastofurnar séu með slagsíðu í átt að minnihlutahópum og að það sé ómögulegt og siðlaust að gera sömu kröfur til allra nemenda. Aðrir vilja heimavinnu og próf léttari eða sleppt vegna geðheilsu nemenda.
Tízkuhugsun er andstaða festunnar. Ein kenning er um það, að gervigreind muni gera hefðbundinn lærdóm minna gagnlegan, svo að skólar ættu að leggja áherzlu á "að leysa viðfangsefni", "gagnrýna hugsun" og nemendur, sem gengur vel að vinna í teymi. Á grundvelli þessa hafa lönd tekið upp námsskrár, sem einblína á óljósa "þekkingu" og gera lítið úr staðreyndalærdómi sem gamaldags. Nokkrir, m.a. Skotar, hafa séð nemendum hraka í reikningi sem afleiðingu. Þeim, sem staðið hafa gegn þessari nýtízku, s.s. Englendingum, hefur gengið betur.
Stjórnvöld ættu að einbeita sér að grundvallar atriðunum. Þau ættu að verja ströng próf, vinna gegn einkunnabólgu og skapa svigrúm fyrir einkaskóla til að auka valfrelsi. Þau ættu að greiða kennurum samkeppnihæf laun til að geta ráðið góða kennara og reka slaka kennara, þótt það stríði gegn vilja stéttarfélaga. Þetta þarf ekki að hækka kostnað, því að fámennar bekkjardeildir eru minna mikilvægar en foreldrar ímynda sér. Færri og betri kennarar geta náð betri árangri en margir slakir kennarar. Japanskir nemendur slá bandarískum jafnöldrum sínum við á prófum, þótt meðalskólastofan í grunnskóla í Japan sé með 10 fleiri borð en sambærileg í Bandaríkjunum.
Annað verkefni er að safna saman og dreifa upplýsingum um, hvers konar kennslustundir gagnast bezt - verkefni, sem margar skólastjórnir hunza. Stéttarfélög kunna að láta sér lynda, að litið sé á góða kennslu sem of dularfulla til að mæla, en börn líða fyrir það. Skólakerfi á heimsmælikvarða, eins og í Singapúr, eru með stöðugar tilraunir í þessum efnum, misheppnast fljótt og halda áfram. Önnur halda áfram með það, sem ekki virkar.
Mikið er undir. Í ríkum löndum fækkar starfsfólki, þegar meðalaldur þjóðar hækkar. Framleiðni verður að vaxa til að viðhalda lífskjörum. Þörf verður á vel þjálfum hugum til að fást við ný erfið viðfangsefni af viti, frá ójöfnuði til loftslagsbreytinga. H.G. Wells, smásagnahöfundur og framtíðarspámaður, skrifaði, að saga mannkyns væri "kapphlaup á milli menntunar og hruns". Það er kapphlaup, sem mannkynið hefur ekki ráð á að tapa. Þetta var leiðari úr The Economist.
Að gera lítið úr vandanum, sem íslenzki grunnskólinn stendur frammi fyrir, eru grundvallar mistök yfirvalda menntamála á Íslandi og að setjast á sundurgreindar upplýsingar um PISA-prófin er uppgjöf. Með óbreyttri stefnu menntamálaráðuneytisins bregðast íslenzk yfirvöld æskunni og gera sig sek um vanrækslu, sem mun óhjákvæmilega leiða til hnignunar á flestum sviðum samfélagsins, minni framleiðniaukningar en nauðsynleg er, og lakari lífsgæða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.9.2024 | 17:41
Um próf
Í huga þessa skrifara er skóli á öllum stigum óhjákvæmilega tengdur prófum, enda þjálfa prófin nemendur í að sýna þekkingu sína á fögum heillar annar eða vetrar (tveggja anna). Þessi þjálfun kemur sér iðulega vel í starfi síðar á ævinni. Vitneskjan um, að próf yrði haldið til að skera úr um, hvort nemandanum yrði heimilað að færast upp um deild (og nær lokaprófi), virkaði alla tíð sem ágætis aðhald um að slaka ekki á. Nám er ekki leikur, heldur vinna, sem krefst sjálfsaga. Kennarar gerðu þekkingarkröfur, og nemendur lærðu að sama skapi að gera kröfur til sjálfra sín, vildu þeir á annað borð ná viðunandi árangri í skólanum.
Engu er líkara en nú sé viðkvæðið í menntamálaráðuneytinu og á meðal kennaraforystunnar o.fl., að próf séu of íþyngjandi fyrir bæði nemendur og kennara, og bezt sé að trufla skólastarfið sem minnst með þeim. Afleiðingin er sú, að nemendur þjálfast ekki í að taka próf, sem leiðir til þess, að þegar próf er loks lagt fyrir þá, þá verður niðurstaðan hörmuleg, eins og á PISA-prófunum, og kannski vantar líka þekkingargrunninn, a.m.k. í sumum skólum. Hverjum er greiði gerður með þessum ósköpum ? Alla vega ekki nemendum, sem virðast koma grænir á bak við bæði eyrun út úr grunnskóla, og enginn þykist vita, hvernig á því stendur. Enginn samanburður á milli deilda sama skóla né á milli skóla er leyfður, svo að erfitt er um vik að fá heildarsýn yfir stöðuna eða átta sig á, hvaða kennsluaðferðir eru betri en aðrar. Þetta hlýtur hins vegar að leiða til þess, að framhaldsskólarnir fái til sín nemendur, sem eiga á brattann að sækja, ef þá hreinlega er ekki slegið af kröfum. Samfélagslega er þetta slæmt, því að sleifarlag í grunnskóla setur tóninn um allt framhaldið, og atvinnulífið hefur úr minna bitastæðum einstaklingum að moða, og þeir munu fyrr eða síðar reka sig á vegg.
Meyvant Þórólfsson þekkir þessi mál gjörla, enda prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum. Af fjölmörgum greinum hans í Morgunblaðinu að undanförnu er ljóst, að hann væri vel fallinn til að leiða "grundvallarendurskoðun" á grunnskólakerfinu og til að semja nýja námsskrá, sem er bráðnauðsynlegt.
Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024 með því dýrafræðilega heiti:
"Landspróf og slíðurhyrnd jórturdýr - söguvitund".
Hún hófst þannig:
"Árið 1957 birtist svohljóðandi prófverkefni á landsprófi miðskóla í náttúrufræði:
"Nefnið 8 tegundir slíðurhyrndra jórturdýra. Takið fram um hverja tegund, hvort hún er til villt eða tamin eða er aldauða og um villtar tegundir, hvar þær lifa."
Spurningin, hvort tiltekin tegund slíðurhyrndra jórturdýra finnst villt, tamin eða sé aldauða, var vissulega vel fallin til svars, þ.e. auðvelt að gefa fyrir rétt eða rangt. Réttmætið var hins vegar lítið, af því [að] spurningin hjálpaði lítið við að meta raunverulega þekkingu og skilning nemenda á náttúruvísindum."
Því verður þó ekki neitað, að sá nemandi, sem svarað hefur þessari spurningu rétt, hefur þetta tiltekna námsefni á valdi sínu, og fyrir það á hann skilda umbun á prófi. Hann er jafnframt líklegur til að geta skrifað stutta ritgerð um, hvenær og hvar slíðurhyrnd jórturdýr komu fram, og hvers vegna hver tegund útdauðra dýra hafi liðið undir lok, ef um þetta var fjallað í námsbókinni. Til að prófa þekkingu nemenda á þessu tiltekna námsefni var spurningin ekki slæm. Er ekki lengur ætlazt til, að nemendur tileinki sér efni námsbókanna ? Gæði námsbókanna er svo allt annað mál.
"Á 3. áratugi 20. aldar náðu breytt viðhorf yfirhöndinni, og nýjar matsaðferðir festust í sessi sbr titil ritsins "Nýjar prófaðferðir" frá 1922 eftir Steingrím Arason. Í stað munnlegra yfirheyrslna voru tekin upp samræmd, skrifleg próf, sem ætlað var að fyrirbyggja "allt handahóf" og afstýra því, að matsniðurstöður yrðu komnar undir áliti og geðfelldni kennara og prófdómara, eins og ritstjórar Skólablaðsins bentu á.
Steingrímur og félagar vildu þannig forðast skekkjur, er fylgdu jafnan huglægu mati, einkum svonefnd geislabaugsáhrif (halo effect). Þau lýsa sér þannig, að fyrri vitneskja um nemanda getur skekkt matsniðurstöður, hvort sem sú vitneskja er jákvæð eða neikvæð fyrir nemandann. Í fámenni íslenzks samfélags vissu kennarar og prófdómarar töluvert um bakgrunn hvers barns eða unglings, sem metinn var, og það gat augljóslega skekkt matsniðurstöður. Slíkur vandi þekkist reyndar enn í íslenzku skólakerfi, þegar kemur að mati og einkunnagjöf við lok grunnskóla.
Steingrímur Arason taldi taldi gerð prófa, sem hann hafði kynnzt í námi við Columbia-háskóla í New York, tryggustu leiðina til að forðast slíkar skekkjur og stuðla þannig að heiðarlegu og hlutlægu mati. Hann barðist fyrir gildi prófanna, sem réttmætra matstækja og þar með jöfnuði, nýbreytni og afnámi kennsluhátta, er stuðluðu að "þululærdómi".
Það var ekki skrýtið, að viðhorfin til skólanna breyttust á 3. áratugi 20. aldar, því að þetta var fyrsti áratugurinn eftir rothöggið á lénsskipulagið, aðalskerfið, sem leið undir lok í heimsstyrjöldinni 1914-1918. Þar með leystust ný öfl úr læðingi. Á Vesturlöndum var borgaralegt lýðræðiskerfi aðalkerfið, sem við tók, en í upplausn þjóðfélagsbreytinganna náðu ofstækisöfl sums staðar undirtökunum, t.d. kommúnistar í Rússlandi og fasistar á Ítalíu, en Bjórkjallarauppreisn nazista Adolfs Hitlers í München 1923 var kæfð í fæðingu og Adolf stungið í fangelsi, þar sem hann ritaði "Mein Kampf", stefnumörkun hins þjóðernislega sósíalistaflokks þýzkra verkamanna.
Skriflegu prófin höfðu margt til síns ágætis, sem munnlegu prófin höfðu ekki, en samt var haldið áfram með munnleg próf, t.d. í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem munnlegt próf var í öllum stúdentsprófsgreinunum ásamt skriflegu prófi 1969, ef ritari man rétt.
Það er ekkert vit í að afnema skrifleg próf og taka þess í stað upp e.k. símat kennara, því að þá er búið að innleiða hættu, sem Steingrímur Arason vildi sneiða hjá og fólst í mögulegri óhlutlægni kennara gagnvart nemendum, t.d. frændhygli, (geislabaugsáhrif).
Nú er íslenzki grunnskólinn í lægð, eins og PISA-prófin bera vitni um, og á meðan svo er, er mjög bagalegt að hafa ekki samræmd skrifleg próf á þessu skólastigi, en þau gætu hjálpað til við að feta umbótabraut. Við svo búið má ekki standa.
"Þegar leið á öldina [20.], var engu líkara en allt færi úr böndum. Samkvæmt ákvæðum fræðslulaganna frá 1946 átti landspróf miðskóla að "jafna stöðu unglinga til aðgangs að æðri menntun" og því eðlilegt, að hlutfall þeirra, sem þreyttu prófið, færi sífellt vaxandi; í upphafi gengust færri en 10 % nemenda undir landspróf, á 6. áratuginum um 20 %, og fjöldinn var kominn í þriðjung árgangs um 1970.
En á sama tíma skaut óvæntur púki upp kollinum. Hann birtist sem áköf bóknámsdýrkun ásamt framsetningu prófverkefna af því tagi, sem lýst var hér á undan. Spurt var um ótal smáatriði, sem töldust vel fallin til svars, en sögðu jafnan lítið um raunverulega kunnáttu nemenda."
Ritari þessa pistils mundi telja líklegra, að nemandi, sem kynni góð skil á smáatriðum, hefði aðalatrið fagsins á valdi sínu en sá, sem flaskar á smáatriðunum. Á Landsprófi stóðu allir nemendur, sem vildu halda námi áfram, eins jafnt að vígi og frekast var kostur, því að þeir voru allir metnir á sama mælikvarða. Nú er mismikil "bólga" í einkunnagjöf kennara, og kemur það niður á nemendum, þar sem "bólgan" er minni, við val inn í framhaldsskólana. Að leggja niður "samræmd" skrifleg próf á lokaári grunnskóla er þess vegna skref aftur á bak m.v. hagsmuni nemenda.
Að lokum skrifaði Meyvant:
"Skólafólk virðist enn brennt af þessum óförum. Í handbókinni "Fjólbreyttar leiðir í námsmati" frá árinu 2019, sem má finna á leslista í kennaranámi nú á dögum, er því haldið fram, að margir hafi efasemdir um samræmd próf. Þau stýri kennslu og valdi ofuráherzlu á staðreyndanám auk þess, sem þau leiði af sér einhæfa kennsluhætti. Í skýrslu menntamálayfirvalda frá 2020 um framtíð slíkra prófa kveður við svipaðan tón: "Prófin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að stýra um of skólastarfi, að aðeins sé prófað í bóklegum greinum og þeim atriðum, sem auðvelt er að meta."
Um miðjan 8. áratuginn var landspróf aflagt og samræmd lokapróf tekin upp. En þar með hvarf ekki púkinn, nema síður væri. Alla tíð síðan hefur verið tekizt á um mat að loknu skyldunámi, eðli þess og þátt í aðgengi að framhaldsskólanámi. Engum dylst, að faglega útfærð lokapróf stuðla að gæðum náms í mikilvægum námsgreinum, eins og þeim, sem prófað er úr í PISA og TIMSS. Hvernig sem öllu er á botninn hvolft, þá á hver nemandi skilið að fá sig metinn á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt í námsgreinum, eins og stærðfræði, náttúruvísindum og móðurmáli, þegar grunnskóla lýkur. Að mati undirritaðs virðist nýtt námsmatskerfi, Matsferill, ekki uppfylla þau skilyrði."
Ritari þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um niðurstöðu hans í lokin. Hlutverk grunnskóla er að búa nemendur undir lífið og inngöngu í framhaldsskóla. Grunnskólakennarar geta þess vegna ekki leikið lausum hala og kennt eins og þeim þóknast. Það má koma til móts við þá með því að takmarka fagfjöldann, sem prófað er í samræmt, við 4 greinar, og ættu PISA-prófgreinarnar að vera þeirra á meðal.
Með menntamálaforystu og kennaraforystu af því tagi, sem Íslendingar búa við nú um stundir, er ekki kyn, þótt keraldið leki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2024 | 15:15
Ráðherrann ráðalausi
Ef Ísland tæki ekki þátt í PISA-prófum OECD, væri hörmuleg frammistaða íslenzka grunnskólans við menntun grunnskólabarna ekki á almennu vitorði. Dauðyflisháttur menntamálaforystunnar gagnvart niðurstöðum PISA er hins vegar yfirþyrmandi, því að hún hreinlega stingur hausnum í sandinn og lætur eins og Ísland geti vel við unað að vera með grunnskóla í ruslflokki, hvað þekkingarmiðlun varðar á alþjóðlegan mælikvarða. Gæðum samfélagsins mun þá hraka, og þeim er þegar tekið að hraka. Það verður dýrkeypt að láta menn komast upp með alls konar fúsk. Eitt dæmið er Samgöngusáttmálinn. Sýnt hefur verið fram á, að útreikningar hans hvíla ekki á réttum forsendum og almennilegt verkefnisstjórnunarskipulag er ekki fyrir hendi hjá "Betri samgöngum". Sú ökuferð mun þess vegna óhjákvæmilega lenda úti í skurði.
Morgunblaðið hefur ekki látið deigan síga við gagnrýni sína á þá, sem ábyrgðina bera á leikskólum, grunnskóla og framhaldsskólum. Forystugrein blaðsins 4. september 2024 bar lýsandi ástandi vitni, ástandi, sem lýsir alvarlegri þjóðfélagsmeinsemd, en er með algerum ólíkindum árið 2024:
"Menntamál í ólestri"
og undirfyrirsögnin lýsti örvæntingu ritstjórnarinnar með stöðu, sem er samfélagsógn: "Tómlæti stjórnvalda um uppfræðslu grunnskólabarna er óþolandi".
"Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað mikið um menntamál og þá fyrst og fremst málefni grunnskólans. Þar hefur námsárangri hrakað ár frá ári í nær aldarfjórðung, og reglulegum viðvörunum þar um hefur annaðhvort ekki verið sinnt eða með augljóslega röngum aðferðum. Með hverjum deginum hafa svo birzt verri fréttir, nú síðast, að læsi barna hraki stöðugt og að hluti barna þekki ekki einu sinni stafrófið í lok 1. bekkjar."
Þögn kennara og kennaraforystunnar um þessa uggvænlegu þróun veldur ugg. Kennaraforystan gerir lítið úr gagnsemi samræmdra prófa, en þau geta þó verið afar gagnleg fyrir nemendur og kennara og foreldra. Kennaraforystan virðist ekki vilja sjá neinn samanburð á milli skóla, og það torveldar auðvitað umbætur á náminu. Hún virðist neita því, að draga megi lærdóma af PISA, en hangir á, að íslenzkum nemendum líði tiltölulega vel í skóla. Metnaðarleysið keyrir um þverbak.
"Ekki er þó unnt að bera við fjársvelti, en kennurum og öðru starfsliði hefur á þessum tíma fjölgað mun örar en nemendum. Sérstaklega er þó kvartað undan því, að stjórnvöld hafa afnumið nær allar samræmdar mælingar á námsgetunni, en vilja hafa leynd um þær mælingar á frammistöðu nemenda og skóla, sem þó fara fram undir merkjum PISA og OECD."
Það er óvitaháttur af stjórnvöldum að gera sig sek um þetta, því að þar með taka þau sitt aðalstjórn- og eftirlitstæki með skólastarfinu og fleygja því út í hafsauga. Það er ekki kyn, þótt keraldið leki. Kenneraforystan er metnaðarlaus fyrir hönd nemendanna og vill hafa skólana á sjálfstýringu, þar sem þekkingarlegur árangur þeirra er aukaatriði, og menntamálaráðuneytið er gagnslaust í mótunar- og eftirlitshlutverki sínu, enda er íslenzki grunnskólinn ekki nema svipur hjá sjón frá því, sem áður var. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, kippti stoðunum undan honum með metnaðarlausri og skaðlegri námskrá.
"Aftur á móti hefur tómlæti menntamálaráðherra vakið nokkra furðu; grunnskólarnir hafa tekið til starfa á ný, en ekkert bólar á viðbrögðum. Eða jú, í gær kvaðst ráðherrann reikna með því, að senn yrði sent út fundarboð fyrir stóran vinnufund."
Þessi ráðherra er hugmyndasnauður og villuráfandi sauður, sem sýnir ekki einu sinni viðleitni til að snúa málum til betri vegar innan grunnskólans, enda skilur hann ekki, hvar skórinn kreppir.
"Hér duga augljóslega engin vettlingatök. Hér ræðir um uppsafnaðan og vanræktan vanda grunnskólans, sem kallar á grundvallarendurskoðun hans. En það er merkilegt, að í þeirri umræðu, sem þó hefur átt sér stað, hefur lítið borið á spurningum um ýmsa grunnþætti, s.s. skipan grunnskólans, námskrá, aðferðir eða annað af því taginu.
Var til heilla að færa grunnskólann til sveitarfélaga ? Var hringlið með námskrána til bóta ? Gætu nýjar, en óreyndar kennsluaðferðir, eins og "byrjendalæsi", hafa valdið einhverju um vandræðin ?"
Núna eru viðhöfð einskær vettlingatök, og menntamálaráðuneytið er ófært um að veita leiðsögn um "grundvallarendurskoðun" á grunnskólanum. Þótt ætlunin með færslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga kunni að hafa verið að ýta undir fjölbreytileika, hefur lítið verið um samninga við einkafyrirtæki um að taka að sér kennsluna í verktöku fyrir sveitarfélögin með eða án aukakostnaðar fyrir foreldra. Það þarf að koma á heilbrigðri samkeppni á milli skóla, og þá er frumskilyrði að hafa raunveruleg samræmd próf og niðurstaða þeirra niður á bekkjardeildir (ekki nemendur) ásamt PISA-niðurstöðum verði gerðar opinberar. Um þetta þarf að kveða á um í lögum, því að menntamálaráðuneytið hefur tekið sér vald til að hindra þetta, og kennaraforystan er þversum í málinu, en á meðan "grundvallarendurskoðun" með nýrri lagasetningu og nýrri alvöru námskrá er ekki gerð, mun allt hjakka í sama farinu og Ísland jafnvel lenda á botninum í PISA. Það yrði mesta þjóðaráfall frá hruni fjármálakerfisins 2008.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2024 | 18:23
Ræður hann við starfið ?
Það er ekki góð latína, að ráðherrar verði uppvísir að lögbrotum og haldi samt ráðherrastarfi. Þetta á þó við um matvælaráðherra vinstri grænna, bæði fyrrverandi og núverandi. Morgunblaðið hefur í sumar haldið uppi lofsverðri gagnrýni á vinnubrögð barnamálaráðherrans, sem einnig er lögbrjótur vegna ótrúlegs sleifarlags í embætti. Hann hefur enga burði haft til að veita neina forystu í uppbyggilegum viðbrögðum við svo hræðilegum niðurstöðum samræmds menntamálamats OECD, s.k. PISA-prófum, að íslenzka grunnskólakerfið virðist hafa hrapað niður í ruslflokk. Hann hefur ekki beitt sér fyrir endurskoðun námskrárinnar, sem er hluti vandamálsins, ekki slakað á kreddunni um skóla án aðgreiningar, sem allt er að drepa í dróma, en hann hefur hins vegar beitt sér fyrir afnámi samræmdra prófa í landinu, sem er til bölvunar.
Allt traust er lagt á fyrirbærið matsferil, sem fáir skilja til hlítar, en gæti verið hugbúnaðarkerfi eða gervigreind, sem er í þróun, en verklokin eru í þoku, eins og margt hjá þessum ráðherra. Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur ítrekað kvartað undan sleifarlagi ráðherra, og hann er brotlegur gagnvart Alþingi með skýrslugjöf um starfsemi þriggja skólastiga. Margir kjósendur draga líklega þá ályktun af störfum þessa ráðherra, að hann valdi ekki embætti sínu, en hann virðist munu sitja svo lengi sem þessi ríkisstjórn er við völd, svo misheppnaður sem hann er.
Hólmfríður María Ragnhildardóttir birti 9. september 2024 frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Áform ráðherrans enn óskýr":
"Salvör Nordal, umboðsmaður barna, telur, að áform mennta- og barnamálaráðherra um tímasetningu innleiðingar á nýju námsmati og útfærslu þess séu ekki nógu skýr. Ráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, vill afnema endanlega samræmdu könnunarprófin með lagasetningu í haust.
Nýja námsmatið, s.k. matsferill, á að leysa könnunarprófin af hólmi, en sérfræðingar í menntamálum eru ekki á einu máli um, hvort námsmatið verði samræmt, eins og því er þó lýst í áformum ráðherra. Salvör segir áhyggjuefni, að sérfræðingar túlki á mismunandi vegu, hversu samræmt hið nýja námsmat muni verða.
Óvissa hefur einnig ríkt um, hvenær matsferillinn í íslenzku og stærðfræði verði innleiddur, en stjórnvöld segjast nú áforma, að hann verði gerður skyldubundinn í þessum tveimur fögum skólaárið 2025-2026. Ekki liggur þó fyrir, hvenær matsferill í fögum á borð við ensku og náttúrufræði verði tilbúinn til notkunar."
Það er búið að fara illa með nemendur grunnskólans með alls konar illa ígrundaðri tilraunastarfsemi, og ekkert lát er á óreiðunni. Það er þess vegna ekki kyn, þótt umboðsmaður barna hafi áhyggjur og reyni að halda ráðherra við efnið, en hann virðist falla á hverju prófinu á fætur öðru. Honum hefur mistekizt að kynna þetta nýja tól kennaranna, matsferil, almennilega, og þess vegna er erfitt að gera sér grein fyrir, hvort hann komi í stað samræmdra prófa. Hvernig er þessu háttað á meðal þeirra þjóða, sem eru í efsta fjórðungi árangurs á PISA ? Aðalatriðið er þó, að staðreynd er, að íslenzka skólakerfinu hefur hrakað hrikalega, og núverandi árangur þess er fyrir neðan allar hellur m.v. fjármunina, sem hellt er í grunnskólann. Þessi staða er örlagarík fyrir þjóðfélagið, og felur í sér sóun hæfileika ungviðisins og framleiðslu á of fáu afburðafólki til að bera uppi samfélagið.
"Í lögum um grunnskóla er kveðið á um, að ráðherra menntamála skili skýrslu um framkvæmd grunnskólastarfs á þriggja ára fresti. Ásmundi Einari bar að leggja slíka skýrslu fyrir þingið í byrjun árs 2022, en það gerði hann ekki, eins og Morgunblaðið hefur áður fjallað um. Salvör hefur tvívegis minnt ráðherra á að sinna þessu lögbundna hlutverki sínu, fyrst árið 2022 og svo nú í sumar [2024]. Í svari við fyrirspurn mbl.is kvaðst Ásmundur Einar mundu leggja skýrsluna fyrir þingið í haust [2024]. Í samtali við Morgunblaðið bendir Salvör á, að fyrirlagning skýrslunnar hafi einnig verið á síðustu þingmálaskrá, en ekkert hafi orðið af því. "Ég á von á, að skýrslan verði lögð fram í haust, eins og ráðherra hefur boðað.""
Hvað má segja um þessa frammistöðu ráðherrans ? Hún lýsir slóðahætti, og sleifarlag virðist fylgja ferli hans. Slíkir menn eru yfirleitt ófærir um að veita nokkru máli skelegga forystu, hvað þá stórum málaflokki. Það sætir furðu að dubba slíkan einstakling upp í ráðherraembætti.
"Ráðherrann hefur einnig ekki virt lögbundinn skilafrest á skýrslu um framkvæmd framhaldsskólastarfs. Ekki heldur skýrslu um framkvæmd leikskólastarfs, en frá því hefur ekki verið greint áður. Spurð, hvort það rýri traust til ráðuneytisins, að það vanvirði ítrekað skilafresti, segir Salvör, að vitaskuld sé það mikilvægt, að ráðuneytið standi við það, sem lög kveði á um. "Þetta er sett í lög og er liður í eftirliti Alþingis með þessum mikilvæga hornsteini í okkar samfélagi, sem menntakerfið er."
Spyrja má, hvort þessi ráðherra falli um hverja þúfu, sem í vegi hans verður. Kemst hann ekki skammlaust frá neinu máli ?
Umboðsmaður barna talar um menntakerfið sem hornstein í samfélaginu, en í stað þessa hornsteins er komin froða vegna vegna ónýtrar námskrár Katrínar Jakobsdóttur frá 2009, sem henti ágætri námskrá frá 1999, skaðlegrar stefnumörkunar um skóla án aðgreiningar og metnaðarlauss afnáms samræmdra prófa. Fyrir vikið er grunnskólakerfið ekki nema svipur hjá sjón, sem lýsir sér í mjög gloppóttri þekkingu nemandanna m.v. við jafnaldra þeirra t.d. á 7. áratugi 20. aldarinnar.
Bloggar | Breytt 20.9.2024 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)