27.11.2010 | 19:03
Gauf og fum
Illa er högum komið einnar þjóðar, þegar stjórnarháttum forystu ríkisins verður helzt lýst sem gaufi og fumi. Einmitt þannig háttar þó til um hina voluðu vinstri stjórn, sem nú grefur sína eigin gröf. Er þá vonlegt, að hún efni til stjórnlagaþings til að færa athyglina af sér og sínum 150 nefndum (1,6 nefnd á viku að meðaltali), en nefndaskipanir í stað stefnumörkunar, skattahækkanir og daður við fullveldisframsal eru kennimörk ríkisstjórnarinnar. Leiðir þar blindur haltan.
Trúmenn á vinstri væng stjórnmálanna kynnu að spyrja, hvort seinlætið gæti verið birtingarmynd vandvirkni. Það er nú öðru nær. Önnur eins hrákasmíði við lagasetningu og stjórnvaldsákvarðanir og fum við framkvæmdina hefur aldrei sézt áður hjá nokkurri ríkisstjórn hérlendis. Hefur ríkisstjórnin verið gerð afturreka með hvern gjörninginn á fætur öðrum, fyrir dómstólum og eftirlitsstofnunum, og eru dæmin um hroðvirknina legíó. Ríkisstjórnin nær ekki máli.
Nýjasta dæmið er héraðsdómur, sem sýndi fram á, að ársgömul lagasetning um ábyrgðarmenn lántakenda var gjörsamlega haldlaus, enda stríddi hún gegn Stjórnarskrá.
Hvernig halda menn, að farið hefði fyrir Íslandi haustið 2008, þegar hrun varð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum við gjaldþrot Lehman Brothers, hefði vinstri stjórn þá verið við völd ? Því er fljótsvarað. Landið væri gjaldþrota nú.
Eitt þessu til sannindamerkis er gauf og fum núverandi stjórnvalda við allt, sem máli skiptir. Hitt er, að langlíklegast er, að vinstri stjórn í Hruni hefði farið sömu leið og sú írska, þ.e. að láta ríkið ábyrgjast allar skuldbindingar bankanna. Þá væru skuldir ríkisins nú 8000 milljörðum meiri en raunin er, sem útilokað væri fyrir þjóðina að rísa undir. "Icesave-samningur" Svavars Gestssonar og Steingríms Jóhanns sýndi, að vinstri forystan, "nómenklatúran", svífst einskis í viðleitni sinni við að bregða á Íslendinga fátæktarhlekkjum alræðis öreiganna.
Afstaða vinstri stjórnarinnar til krafna erlendra kröfuhafa og samningar hennar um "Icesave" sýna fram á hug hennar til ríkisábyrgða á skuldbindingum einkabanka. Ríkisstjórn félagshyggjunnar hefði í Hruni umsvifalaust flaðrað upp um framkvæmdastjórn ESB og fórnað Íslandi á altari Evrópuhugsjónar kratanna. Við værum nú jafnvel öreigar með beiningastaf í Brüssel undir "verndarvæng" hrægammanna, sem Írar eru að fá smjörþefinn af nú.
Málflutningur beturvitanna í hópi hagfræðinga hérlendra, ýmissa, og háskólaprófessora úr mörgum hornum, fyrir og eftir Hrun, sýnir ennfremur, að þeir hefðu kynt undir feigðarflaninu, kinnroðalaust, þó að leið þeirra leiddi augljóslega til glötunar sjálfstæðis.
Moldvörpur höfðu þá ekki erindi sem erfiði, en skriðu fram úr fylgsnum sínum í búsáhaldabyltingunni. Íslendingar mega þakka sínum sæla fyrir að hafa haustið 2008 búið við stjórnvöld, sem gátu tekið fjöldann allan af erfiðum ákvörðunum á skömmum tíma undir miklum þrýstingi; ákvarðanir, sem nú í írsku ljósi virðast, á heildina litið, hafa verið þær beztu á peningamálasviðnu fyrir hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, sem völ var á. Þar stóðu í stafni forsætisráðherra og formaður seðlabankastjórnar. Þó að núverandi ríkisstjórn taki sér óendanlegan tíma, getur hún samt enga óvitlausa ákvörðun tekið.
Stjórnendur landsins á Hrunstímanum sættu eftir á óvæginni og ósvífinni gagnrýni, lygamyllur niðurrifsaflanna möluðu stanzlaust, og með makalausri skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var höfuðið bitið af skömminni. Nefndin hengdi sig í tittlingaskít, formsatriði um fundargerðir á ögurstundu, en horfði fram hjá því, að þjóðarafrek voru unnin við afar erfiðar aðstæður, nánast stríðsástand. Þetta lýkst upp fyrir mönnum nú á dögum írska hrunsins, sem er miklu svakalegra en hið íslenzka, þó að stærð íslenzku bankanna hafi líklega verið meiri í hlutfalli við landsframleiðslu móðurlandsins. Fyrir vikið sóttu félagshyggjuöflin hérlendis, blinduð af hatri lítilmenna "með skítlegt eðli", að fyrrverandi forsætisráðherra og eru nú búin að breyta þeirri lögsókn í réttarfarslegan óskapnað. Grundvallarreglur nútíma réttarríkis eru fótum troðnar af einræðisöflum, sem hunza þrígreiningu ríkisvaldsins og eru landinu til mikillar minnkunar. Sómi landsins liggur við að hætta þessum skrípaleik stjórnmálalegra ofsókna á formi réttarhalda.
Auðvitað verður þessi mynd skýrari, þegar frammistaða Hrunsstjórnar og þáverandi Seðlabankastjórnar er borin saman við núverandi hörmung í Stjórnarráði Lísu í Undralandi og í Svörtuloftum skömmtunarstjórans skrýtna, þar sem axarsköpt, fáránleiki og doði ráða nú húsum. Það er ýmislegt fleira en þessi samanburður stjórnvalda, sem bendir til, að dómur sögunnar verði Hrunsstjórninni hagfelldur, þegar öllu er á botninn hvolft, og auðvitað allt annar og betri en dómurinn yfir ríkisstjórnum Lísu í Undralandi. Þær eru hver annarri lakari og munu verða taldar hinar verstu frá upphafi Heimastjórnar. Hvernig á annað að vera ?
Þekktur hagfræðingur, Paul Krugman, hefur lýst því yfir, að íslenzka leiðin, úrlausn á neyðarástandi á kostnað erlendra lánadrottna, innlendum sparifjáreigendum í vil, hafi verið lögleg og hagfræðilega mun affarasælli en sú írska haustið 2008 gagnvart almenningi í þessum löndum, svo að hann er þar á sama báti og núverandi stjórnarandstæðingar á Íslandi. Grunnur var þarna lagður að skjótri viðreisn hagkerfisins, en hin "norræna velferðarstjórn" klúðraði því gullna tækifæri.
Með verstu ríkisstjórn sögunnar hérlendis nú í tæp 2 ár hafa ofangreindar staðreyndir Hrunsins legið í láginni þar til Írland féll. Aðdáendur ESB og evru ættu nú að beina sjónum að örlögum Portúgals, sem verður næsta fórnardýr evrunnar. Það gengur hratt á neyðarsjóðinn, sem þýzkir skattborgarar voru látnir fjármagna að mestum hluta, og Evrópa logar nú frá Atlantshafi til Eyjahafs vegna evrunnar. Pýreneaskaginn verður sviðin jörð og hagkerfi Ítalíu er helsjúkt. Meira að segja heimaland Brüssel, Belgía, hefur sýkzt. Evran, sem var gjald Þjóðverja fyrir endursameiningu lands síns, er ekki á vetur setjandi, og Deutsche Mark, dálæti þýzku þjóðarinnar, mun koma til skjalanna. Stjórnmálahamur (evrugalli) Össurar, garmsins, og hans sálufélaga, mun fuðra upp í þeim hildarleik. Að Ragnarökum loknum verður spurt um framleiðslugetu og útflutningsverðmæti hagkerfis að baki myntar, en ekki froðu á borð við stærð fjármálakerfis eða fullnustu uppátækja eins og Maastrichtssamnings.
Það er ekki nokkrum vafa undirorpið, að með borgaralega ríkisstjórn við völd undanfarin 2 ár mundum við nú búa við myndarlegan hagvöxt, þ.e. vaxandi landsframleiðslu, en ekki stöðugt minnkandi, eins og nýjustu gögn Hagstofunnar sýna. Atvinnuleysi færi minnkandi og fólk væri á leið heim á ný (heim in das Reich, eins og sagt var) að taka þátt í uppbyggingu útflutningsdrifins framleiðslusamfélags, þar sem kraftur auðvaldsskipulagsins er virkjaður öllu vinnandi fólki til hagsbóta og tekjur hins opinbera fara vaxandi þrátt fyrir lækkandi skattheimtu. Þetta verður að gerast til að losna undan þrúgandi klafa erlendra skulda ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja.
Til að svo verði þarf ekkert bóluhagkerfi, eins og bankarnir skópu hér og víðar í byrjun 21. aldarinnar, og óorði komu á alþjóðlegt markaðshagkerfi.
Stjórnmálaflokkarnir tveir, sem nú ráða ríkisstjórn, eru fullkomlega ófærir um að leiða nokkurt mál til lykta með heilbrigðum og affarasælum hætti fyrir land og þjóð. Ráðherrar þeirra vinna allt með öfugum klónum. Hver og ein þeirra gjörð keyrir þjóðina dýpra ofan í svaðið, eins og nýjustu samdráttartölur Hagstofunnar vitna um. Það er engin furða, þegar afturhaldssjónarmið ráða afstöðu til allra framfaramála og framkvæmda, og ráðherrar afturhaldsins, t.d. Svandís Svavarsdóttir, lýsa beinlínis yfir andstöðu sinni við hagvöxt. Með slíkt fólk í forystu verður aldrei hagvöxtur, sem neinu nemur. Slíkt fólk leiðir almenning í algerar ógöngur, og breyta leiktjöld, leikbrögð og látalæti, svo að ekki sé minnzt á mannalæti, þar engu um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2010 | 18:23
Finnsku hrossin og markaðirnir
Á fjölum Þjóðleikhússins er nú finnska verkið, "Finnski hesturinn". Þar greinir frá örlögum finnskrar bændafjölskyldu eftir inngöngu Finnlands í Evrópusambandið, ESB. Er þar skemmst frá að segja, að allri framleiðslu á búinu hefur verið hætt, en gert er út á styrkveitingar ESB til finnskra bænda til aðgerðarleysis. Þetta leiðir auðvitað til siðferðisupplausnar í rótgrónu bændasamfélagi og endar með gjaldþroti og því, að bændurnir flosna upp af jörðum sínum.
Kveður hér við töluvert annan tón en Finnar láta uppi opinberlega, en þó er þetta í samræmi við málflutning íslenzku bændasamtakanna, sem kynnt hafa sér stöðu landbúnaðar á Norðurlöndum út í hörgul. Er einboðið, að innganga Íslands í ESB væri líkleg til að leiða svipuð örlög yfir íslenzka bændur og þá finnsku. Slíkt viljum við alls ekki hafa, heldur kaupa innlendar landbúnaðarafurðir sem einhverja þá mestu gæðavöru á sviði matvæla, sem fáanleg er. Með útflutningi til þjóða, sem komnar eru í álnir, en anna þörf sinni á sviði matvæla ekki lengur, má auka framleiðni og lækka framleiðslukostnað íslenzks landbúnaðar á hverja framleidda einingu.
Feðgarnir í téðu leikverki reyna fyrir sér með hrossaprangi innan Evrópu, langt suður í álfu, með hrapallegum afleiðingum. Nú hefur forstjóri Landsvirkjunar tjáð áhuga sinn á, að Landsvirkjun reyni fyrir sér með orkuviðskiptum á meginlandi Evrópu eða á Stóra-Bretlandi. Hér verður sýnt fram á, að sæstrengur þangað yrði skelfilegt útrásarævintýri, þ.e. þetta er hugmynd, sem tiltölulega auðvelt er að reikna út, að hæglega getur orðið að martröð gríðarlegs taps, verði hún að veruleika. Er ömurlegt til þess að vita, að Landsvirkjun skuli nú vera á braut spákaupmennsku með orkulindir landsins í stað þess að nýta þær með öruggum og traustum hætti innanlands til framleiðslu á útflutningsvörum eða gjaldeyrissparandi vörum til eflingar íslenzku athafnalífi og hagkerfi.
Af þessu tilefni er rétt að rifja upp, það sem ritað var um þennan forstjóra í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 19.11.2010, "Draugurinn vakinn upp": "Steingrímur J. er aftur tekinn til við að panta yfirlýsingar frá stórforstjórum, þ.á.m. frá ríkisforstjóranum í Landsvirkjun. Sá setti ofan með undirlægjuhætti sínum. Forstjórinn vildi, að þjóðin tæki á sig tugi eða hundruð milljarða, svo að hann gæti átt þægilegra spjall við erlenda bankamenn. Yfirlæti stórforstjóra í garð íslensku þjóðarinnar hefur lítið breyst frá 2007. Og kanski hafa slíkir ekki áttað sig á, að virðing hennar fyrir slíkum er minni en hún var."
Hér er vitaskuld Icesave umræðuefnið, en það er margt fleira skrýtið í kýrhausnum. Eitt er undirbúningur Landsvirkjunar að uppsetningu vindmylla á Íslandi, en hitt eru gælur forstjórans við hugmyndina um sæstreng til meginlands Evrópu eða Stóra-Bretlands. Það skýtur skökku við, að ríkisfyrirtæki á Íslandi sé að eyða fé í andvana fæddar hugmyndir fyrir íslenzkt umhverfi.
Engin þjóð, með alla sína raforkuvinnslu úr afar samkeppnihæfum og sjálfbærum orkulindum, lætur sér til hugar koma að setja upp vindmyllur, sem eru svo óhagkvæmar, að orkan frá þeim er alls staðar niðurgreidd, þó að þar sé að stofni til um að ræða eldsneytisknúin raforkuver og þar af leiðandi hærra raforkuverð en á Íslandi. Vindmyllur á Íslandi, þar sem raforkuverð er nú einna lægst í heiminum, mundu einvörðungu leiða til hækkunar raforkuverðs til notenda eða útgjalda úr ríkissjóði. Rætt er um, að vindmyllur gætu sparað vatn í miðlunarlónum, en þá er hinn kosturinn ólíkt hagkvæmari og umhverfisvænni að auka miðlunargetu safnlónanna. Vindmyllur mundu verða til mikilla lýta, þær valda fugladauða og eru hávaðasamar í grennd. Fyrir ferðamennskuna væru þær fráhrindandi, en ekki aðdráttarafl, eins og vatnsafls-og jarðvarmavirkjanir þó klárlega eru.
Á vegum Pöyry Management Consulting (Norway) AS og Thema Consulting Group í Noregi hefur verið gerð mjög ítarleg skýrsla um viðskipti á milli norræna og evrópska raforkumarkaðarins á meginlandinu, sem heitir: Challenges for Nordic Power: How to handle the renewable electricity surplus.
Þar eru leidd rök að því, að 20-20-20 markmið ESB, þ.e. lækkun orkunotkunar um 20 %, aukning orkunýtni um 20 % og minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu um 20 %, allt á árinu 2020, muni leiða til virkjunarátaks á Norðurlöndunum og umframorku þar af þeim sökum um allt að 46 TWh/a, sem er 2,7 sinnum núverandi raforkuvinnsla Íslands. Verðið, sem skýrsluhöfundar telja, að fengist á hinum evrópska markaði meginlandsins árið 2020 er afar breytilegt eða á bilinu 29 evrur/MWh - 76 evrur/MWh, allt eftir árferði.
Við þessar markaðsaðstæður mundi Landsvirkjun þurfa að keppa, ef hún sendir orku um sæstreng niður til Evrópu. Sæstrengur er feiknadýr, á öðrum enda hans þarf að reisa afriðlavirki og á hinum áriðlavirki. Auk virkjana að afli á borð við Kárahnjúkavirkjun þarf að styrkja stofnkerfið, þ.e. meginflutningskerfi raforkunnar, umtalsvert. Gríðarleg orkutöp, í heild e.t.v. um 20 %, verða í öllum þessum mannvirkjum. Bilunum má búast við í búnaði, sem er í raun í þróun og á mörkum tæknigetunnar. Af öllum þessum ástæðum mundi Landsvirkjun þurfa 130 - 150 evrur/MWh, eða tvöfalt til fimmfalt verðið, sem í boði verður.
Landsvirkjun hefur gert ofurbjartsýnilega frumkostnaðaráætlun um sæstreng til Skotlands, 1170 km að lengd. Við gerð þessarar áætlunar er teflt á tæpasta vað, reiknað með 700 MW flutningsgetu og orkusölu 5200 GWh/a, sem jafngildir 7430 klst (85 %) nýtingartíma á ári, töpum í streng 6 %, strengendingu 30 árum og raforkuverði 60 EUR/MWh. Telja verður hæpið að reisa arðsemiútreikninga á rauðlituðu tölunum. Jafnvel að þeim forsendum gefnum fær höfundur þessa pistils, að verð raforkunnar við móttökuenda verði að ná 130 EUR/MWh. Græna talan hér að ofan, sem Landsvirkjun gefur sér sem fáanlegt verð, er alveg út í hött árið 2020 m.v. niðurstöður téðrar norsku skýrslu um fáanlegt orkuverð á meginlandinu 2020, sem er þó mun hærra en verðlag orku á Skotlandi.
Það er erfiðleikum háð að senda orkuna áfram suður frá Skotlandi vegna takmarkaðrar flutningsgetu. Landsvirkjun virðist ekki hafa reiknað með neinum kostnaði við styrkingu flutningskerfisins á Skotlandi vegna þessara 700 MW. Einfaldir útreikningar sýna, að enginn viðskiptalegur grundvöllur er fyrir sæstreng frá Íslandi, hvorki til Noregs, Skotlands né meginlands Evrópu. Norska skýrslan gerir ráð fyrir orkuverði 60-89 EUR/MWh á meginlandinu árið 2030, og það er langt undir lágmarksverðinu, sem Landsvirkjun þyrfti. Landsvirkjun undir nýrri stjórn virðist ekki þekkja sinn vitjunartíma.
Ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á aðeins að fást við þjóðhagslega hagkvæm verkefni. Það gefur t.d. auga leið, að miklu hagkvæmara er að framleiða ál á Íslandi og að flytja það með skipi til meginlandsins en að flytja orku um streng til Evrópu og framleiða þar ál með "sömu" orku. Ástæðan er sú, að flutningskostnaður raforku um sæstreng er margfaldur á við flutningskostnað áls með skipi.
Hér hefur verið sýnt fram á, að stórkostlegt þjóðhagslegt tap yrði af raforkuútflutningi um sæstreng, en að sama skapi er verulegur þjóðhagslegur gróði af sölu raforku til álvera og af starfsemi þessara sömu álvera á Íslandi. Ástæðan er sú, að féð, sem eftir verður af veltu álvers innanlands, nemur a.m.k. tvöföldun þess fjár, sem einvörðungu fæst fyrir orkuna. Frá sjónarmiði samfélagshagkvæmni er þess vegna einboðið, að Landsvirkjun á að einhenda sér í að virkja og selja meiri orku til álvera, og landsmenn að styrkja viðskiptastöðu sína gagnvart Evrópu með því að selja þangað meira af áli í takti við samdrátt álframleiðslu annars staðar í Evrópu vegna skorts þar á sjálfbærum og hagkvæmum orkulindum.
Landsvirkjun virðist nú um stundir vera sama markinu brennd og ríkisstjórnin. Forgangsröðunin er óskiljanleg og áherzlurnar virðast vera á gæluverkefnum, sem eiga hvergi annars staðar heima en í ruslafötunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2010 | 21:12
Þrákelkni, þýlyndi og þekkingarskortur
Það furðufyrirbæri Íslandssögunnar, sem kallar sig nú Norræna velferðarstjórn, er ekki af baki dottið við að ganga fram af landslýð. Nú er það að verða uppvíst að þvílíkri þráhyggju og undirferli, að með ólíkindum má telja, jafnvel þó að siðleysingjar eigi í hlut. Í fullkomnu umboðsleysi rembist fjármálaráðherranefnan við samninga við erlend ríki á forsendum, sem íslenzka þjóðin hafnaði rækilega í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. marz 2010.
Á tyllidögum kallar þessi vinstri sveit fordæmdra sig stundum Fyrstu vinstri stjórnina á Íslandi, og er það einkar lærdómsríkt fyrir alþýðu manna að komast að því í eitt skipti fyrir öll, hvers konar óáran fylgir slíku fyrirbæri. Aldrei aftur vinstri stjórn !
Það ætlar sem sagt að verða landsmönnum dýrkeypt lexía að kalla félagshyggjuöflin til valda. Þjóðin gat þó ekki vitað fyrirfram, hvað slíkt bæri í skauti sér. Hún gat ekki vitað það, að félagshyggjuöflin væru algerlega óstarfhæf saman í ríkisstjórn. Nú veit hún það, og vonandi verður dregin af þessari reynslu rétt ályktun næstu tvo áratugina eða svo. Loddarar og lýðskrumarar 'félagshyggjunnar' eru landslýð óskaplega dýrir á fóðrum.
Þar er um að ræða hundruði milljarða króna í glötuðum tækifærum, bæði í erlendum fjárfestingum og innlendum, sem kyrktar hafa verið af þessari vinstri stjórn, þannig að í hagkerfinu hefur ríkt stöðugur samdráttur frá Hruni, og engar horfur á hagvexti með sömu stjórnarherra hangandi við stjórnvölinn. Verstar eru þó þær raunir og ógæfa, sem ríkisstjórn vinstri aflanna hefur leitt yfir fjölda manns, algerlega að þarflausu, með atvinnuleysisböli, "skjaldborg um heimilin", sem að engu gagni hefur komið, og skemmdarverk á heilbrigðisgeiranum með fjandskap við einkaframtak, kaldrifjaðri forsjárhyggju og þekkingarleysi á hlutverki heilbrigðisþjónustu fyrir dreifbýli landsins. Fordómarnir tröllríða fávísinni.
Ríkisstjórnin er svo heillum horfin, að öllum hennar verkum má lýsa með einhverju þeirra orða, sem fyrirsögn þessa pistils hefur að geyma, eða jafnvel öllum í senn.
Öll orðin, og miklu fleiri einkunnir, eiga við hið dæmalausa sukk og svínarí ríkisstjórnarinnar, t.d. það framferði að leggja sig í líma við að skuldbinda íslenzka skattborgara til að greiða erlendum innlánshöfum í Landsbankanum, gamla, sem nemur um MISK 1 (einni milljón króna) á hverja launþegafjölskyldu í landinu. Samt höfðu þessar sömu fjölskyldur, og allar hinar, hafnað ábyrgð á þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu, og þess vegna er ríkisstjórnin umboðslaus að pukrast við þessi myrkraverk, sem hún hefur aldrei ráðið við. Gumar lítilla sanda og lítilla sæva verða þjóðhættulegir, þegar þeir fara að fást við erlenda menn. Sukkurum er ekki stætt á, eina ferðina enn, að bjóða upp á þessa moðsuðu sína.
Af fréttum að dæma er verið að semja um skuldaklafa um háls íslenzkra skattborgara á svipuðum forsendum og landsmenn höfnuðu 6 .marz 2010. Breytingin, sem orðið hefur, er einvörðungu meiri heimtur í þrotabú Landsbankans en áður var búizt við og lægri vaxtaprósenta núna, enda eru t.d. seðlabankavextir víða nú undir 1,0 %. Hvers vegna í ósköpunum á að láta íslenzka ríkið borga mun hærri vexti en þetta af fé, sem hollenzka og brezka ríkisstjórnin lögðu fram til uppgreiðslu innlána án þess að íslenzka ríkið færi fram á slíkt, svo að vitað sé ? Þessar vaxtagreiðslur eru fáránlegar og alger afleikur í samningaviðræðum að fallast á slíkt.
Eftir höfnun forseta lýðveldisins og þjóðarinnar er einungis unnt að ganga frá þessu máli lagalega við andstæðinga okkar, þ.e. fyrir dómstólum, eða á alveg nýjum forsendum við samningaborðið, t.d. vaxtaleysi og skiptri ábyrgð þjóðanna þriggja, þar sem tekið er tillit til jöfnunar byrða á skattborgara landanna þriggja.
Til hvers eru refirnir þá skornir ? Þar kemur að þýlyndinu í fyrirsögninni. Vitað er, að samningar, að skapi Breta og Hollendinga, eru skilyrði inngöngu í Evrópusambandið, ESB. Það er verið að selja afkomu næstu kynslóða Íslands fyrir baunadisk í Brüssel, sem fólginn er í forréttindum embættismanna, góðum stöðum í Brüssel og miklum hlunnindum, og að tryggja forræðishyggjunni, sem jafnaðarstefnan snýst um, sess á Íslandi. Það hefur alltaf verið skoðun íslenzkra jafnaðarmanna, að íslenzka ríkið stæðist ekki sem sjálfstæð eining, heldur yrði að vera hluti af stærri heild. Þetta kom t.d. í ljós við lýðveldisstofnunina og kemur hvað eftir annað upp á yfirborðið. Jafnaðarmenn eru afætur í eðli sínu.
Það er að koma í ljós, að málflutningur efasemdarmanna og andstæðinga aðildar Íslands að ESB á undan og eftir 16. júlí 2009, er Alþingismenn ýmsir voru beittir annarlegum þrýstingi til að samþykkja umsókn, átti við full rök að styðjast. Það, sem í boði er í Brüssel, er ESB, með kostum þess og göllum og án nokkurra varanlegra undanþága. Sérréttir eru einfaldlega ekki á þessum matseðli, og að velja þennan matseðil mun leiða til alvarlegra meltingatruflana þjóðarlíkamans.
Að ráðið til að tryggja sjálfstæðið sé að fórna því eru landsfjandsamleg öfugmæli. Í hverju dæminu á fætur öðru kemur í ljós, að við höfum mun meiri áhrif til eflingar eiginn hags utan en innan við "Festung Europa". Má þar nefna makríl, síld, hval, Icesave, skatta til ESB, viðskiptasamninga við Kínverja o.fl., svo að ekki sé minnzt á stórveldisdraumana með stofnun Evrópuhers með herskyldu til að berja ungviðið undir hollustu við Evrópufánann.
Ekki er unnt að skilja við ESB án þess að nefna evruna. Hún á nú í svo miklum þrengingum, að forseti leiðtogaráðsins, Herman van Rompuy, hefur opinberlega nú í viku 46/2010, séð ástæðu til að lýsa því yfir, að framtíð ESB sé stefnt í hættu, ef evran fellur. Hvort Þýzkaland muni berjast fyrir evruna, er alls óvíst um, eins og nú er komið málum. Þjóðverjar eru tilbúnir með Deutsche Mark, ef evran sekkur. Þýzkaland ætlar ekki að fórna sér endalaust fyrir önnur lönd Evrópu með slaka hagstjórn. Þeir, sem allt vilja í sölurnar leggja fyrir öflugan gjaldmiðil, ættu að sækja um aðild að Sambandslýðveldinu Þýzkalandi.
Írar eru að falli komnir vegna evrunnar, Grikkir á framfæri ESB vegna hennar, Portúgalir afar tæpir og Spánverjar og Ítalir kunna að fylgja í kjölfarið. Mynt án ríkisvalds og ríkissjóðs að bakhjarli virðist ekki ganga upp. Fyrir íslenzka hagkerfið er þá ekki eftir neinu að slæðast með inngöngu. Við yrðum alltaf minnipokamenn innan þessa ríkjasambands eða sambandsríkis. Auðlindastjórnun yrði í uppnámi, hvað sem belgingi kerfiskrata líður. Við mundum ekki hafa bolmagn til að standa gegn þrýstingi annarra ESB ríkja, ef við höfnum innanborðs. Slíkt bolmagn höfum við hins vegar nú í krafti fullveldis. Að deila því með öðrum jafngildir óhjákvæmilega útvötnun á áhrifum okkar sjálfra og höftum á svigrúmi okkar. Við yrðum sem hross í hafti algerlega upp á náð og miskunn annarra ESB-ríkja komin.
Loddarar ríkisstjórnarinnar eru að vinna þjóðinni stórtjón með bjölluati í Brüssel. Það býr engin alvara að baki umsókninni vegna klofnings ríkisstjórnarinnar. Forkólfar og samningamenn ESB eru hafðir að ginningarfíflum, og þetta mun valda okkur miklum álitshnekki. Því fyrr sem snúið er af þessari óheillabraut, þeim mun betra. Ríkisstjórninni ber að láta fullveldi landsins njóta vafans. Þar sem þess sjást engin merki, ber Alþingi nú þegar á haustþingi að kippa í taumana, stöðva rándýrt aðlögunarferlið og vísa þessu ólánsmáli til úrskurðar þjóðarinnar.
Myndin hér að neðan ber með sér staðreyndir, sem höfundum evrunnar kom ekki til hugar. Mismunandi vexti á langtíma skuldabréfum ríkissjóða evru-landa. Þetta er að ganga af evrunni dauðri og ætti að sýna Íslendingum svart á hvítu, að hérlendis gætu hæglega ríkt háir vextir eftir upptöku evru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2010 | 18:57
Eitthvað annað en Suðurnesin
Ríkisstjórnin er svo ósvífin og siðblind, að hún leyfir sér að gera lítið úr vanda Suðurnesjamanna, sem búið hafa við fjandsamlegt ríkisvald undanfarin tæp 2 ár og mesta atvinnuleysisböl á landinu. Það er sem blaut tuska í andlit tekjulágra og atvinnulausra Suðurnesjamanna og helber móðgun við þá alla að kasta því fram sem lausn á atvinnuleysinu, að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir stofnun herminjasafns og rétt einnar Parkinsons-nefndarinnar til að fjalla um úrlausn vandans. Þetta er hráskinnaleikur valds án jarðsambands, fullkomlega óboðleg framkoma og hreinn dónaskapur, enda hreinræktaður afturúrkreistingur vinstri flokkanna.
Nú er loksins að koma í ljós, hvað "eitthvað annað" en álver þýðir í raun. Það er eitthvað svo lítilmótlegt, gagnslaust og innihaldslaust, að meintur geimveruborgarstjóri (fulltrúi geimvera á Íslandi hefur afneitað honum, hvað þá aðrir), leikarinn og leikhöfundurinn Jón Gnarr, sem reyndar þekkir ekki muninn á debet og kredit frekar en ísbjörn í Húsdýragarði, hefði tæpast náð slíkum hæðum í sýndarveruleika sínum. Til að bæta stjórnun höfuðborgarinnar væri reynandi fyrir borgarstjórn að fá loðinn ísbjörn á borgarstjóraskrifstofuna og senda þann snoðna til vistar í Húsdýragarðinum. Sá loðni kæmi margfalt betur út í sjónvarpi en hinn, sem þó virðist lifa í gegnum einhverjar hetjur hvíta tjaldsins, og af þessu yrði mörgum hinn mesti léttir.
Afmán Stjórnarráðsins er þyngri en tárum taki. Fordómar ríkisstjórnarinnar í garð vissrar atvinnustarfsemi eru, eins og margir aðrir fordómar, reistir á þekkingarleysi, skilningsleysi og þröngsýni og lélegu uppeldi. Lausnir þessa vesalings fólks, sem skolað hefur upp í ábyrgðarstöður án meiri verðleika en búast má við af úthýstri geimveru, eru út í hött rugguhesta embættismennskunnar, annaðhvort skaðlegar hagkerfi landsins eða vita gagnslausar, en allar afspyrnu kjánalegar.
Þann 9. nóvember 2010 birtist merk grein í Morgunblaðinu eftir fyrrverandi þingmann, Kristin H. Gunnarsson, undir heitinu: "Stóriðjan styrkir Ísland og Austurland". Þar ritar maður, sem hvorki verður vændur um að ganga erinda alþjóðlegs auðvalds né að draga taum frjálshyggjuafla samfélagsins, heldur er hann þekktur af gagnrýninni og málefnalegri umfjöllun, enda vel að sér á marga lund. Hann fjallar í téðri grein um skýrslu á vegum stjórnvalda um áhrif framkvæmdanna miklu á Austurlandi, er Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaálsverksmiðjan voru reist. Kristinn rekur á hnitmiðaðan hátt hina þjóðhagslegu hagkvæmni orkusölunnar, sem veiti arðsemi eigin fjár Landsvirkjunar 13,4 %. Þessi arðsemi mun fara vaxandi á næstu árum vegna aukinna orkukaupa Fjarðaáls við hækkandi orkuverði vegna tengingarinnar við álverðið. Mat flestra er, að orkuverð og álverð muni hækka meira á næstu 30 árum en vísitala neyzluverðs, t.d. í BNA. Þá hafa skýrsluhöfundar leitt í ljós, að 40% af söluandvirði álsins verði eftir í íslenzku efnahagslífi. Í lok greinar sinnar ritar Kristinn:
"Kárahnjúkavirkjunin og álverið í Reyðarfirði hafa sannað gildi arðbærs atvinnureksturs í stóriðju fyrir land og þjóð. Vatnsaflið og jarðhitinn eru auðlindir vegna þess að það er hægt að breyta þeim í verðmæti; það er aðeins hægt með arðbærum atvinnurekstri. Stóriðja er komin til að vera, líka á landsbyggðinni, vegna þess að hún bætir hag landsmanna. Umhverfis-og náttúruverndarsjónarmið eru þörf og eiga fullan rétt á sér, en þau eiga að stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar, en ekki að koma í veg fyrir hana. Það er ekkert annað, sem kemur í stað glataðra verðmæta ónotaðrar auðlindar."
Mæli Kristinn hér manna heilastur, enda er hér á ferð rödd heilbrigðrar skynsemi. Kristinn H. Gunnarsson hefur vegið og metið staðreyndir um stóriðjuna og komizt að rökréttri niðurstöðu, eins og hans var von og vísa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.11.2010 | 15:01
Ný stefna á gömlum mergi
Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn boðíð þjóðinni skýran valkost við eymd þá og volæði, sem hringl, ráðleysi og beinn fjandskapur ríkisstjórnarinnar við atvinnulífið hefur og mun í æ ríkari mæli leiða yfir þjóðina.
Í fáum orðum sagt snýst þessi stefna um, að ríkisvaldið vendi nú sínu kvæði í kross og leiti allra leiða til að laða að landinu fjárfesta, sem stofna vilja til framkvæmda og atvinnurekstrar í landinu. Með útrýmingu langtímaatvinnuleysis, lækkun allra skatta, lengingu lána og skattlagningu inngreiðslna í lífeyrissjóði, mun hagur heimila, fyrirtækja og hins opinbera vænkast.
Þessu til viðbótar þarf að greina afleiðingar þess að aflétta öllum höftum á fjármálalífið á einu bretti, þar með að afnema allar vísitölutengingar með ákveðnum skilgreindum fyrirvara. Ákvörðun af þessu tagi tók hin þýzka ríkisstjórn Dr Konrads Adenauers að ráði efnahagsráðherrans, Dr Ludwigs Erhards, um 10 árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Flestir efnahagsspekingar þess tíma, m.a. í röðum hernámsveldanna, voru á móti þessu og töldu gjörninginn mundu leiða til hruns efnahagskerfis nýstofnaðs Sambandslýðveldis, en það var öðru nær. Á svipstundu hvarf svartamarkaðsbrask, viðskipti og athafnalíf döfnuðu.
Hin lamandi hönd ofsköttunar og ríkisforsjár hefur tafið viðreisnina og valdið heimilum og fyrirtækjm ómældu tjóni. Nú þarf að leysa einstaklingsfamtakið úr læðingi. Stjórnvöld geta það, en þau geta ekki reist landið við með ríkisrekstri.
Hér til vinstri er mynd af veginum til ánauðar. Hann er varðaður grímulausum svikum við þing og þjóð. Nægir í því efni að nefna umsóknina um aðild að Evrópusambandinu, ESB, og ríkisstjórnarsáttmálann, en þar segir, að ríkisstjórnin ætli "að stuðla að beinum erlendum fjárfestingum" til að hægt verði að ná góðum og jöfnum hagvexti, sem sé forsenda þess að afnema gjaldeyrishöft og lækka vexti, verja störf og fjölga þeim á ný, ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um jafnvægi í ríkisfjármálum og verja velferðarkerfið.
Um þetta var ríkisstjórnin mynduð, en hún hefur svikið hvert einasta atriði, sem þarna er talið upp. Hún hefur leynt og ljóst unnið gegn erlendum fjárfestingum, valdið samdrætti í stað hagvaxtar, hækkað raunvexti, þó að nafnvextir hafi lækkað, eytt störfum og hindrað nýja atvinnustarfsemi, aukið skuldasöfnun ríkissjóðs erlendis og ráðizt að grundvelli velferðarkerfisins.
Með vinstri stjórn við völd er ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að gæla við þá fáránlegu viðskiptahugmynd að leggja eða leigja afnot af sæstreng til að flytja raforku um til og frá Íslandi, aðallega frá. Beitt er þeirri rökleysu, þegar talað er fyrir þessu, að sæstrengur til útlanda gefi færi á bættri nýtingu raforkukerfisins. Þeir, sem þessu halda fram, afneita staðreyndum málsins og lifa í heimi Lísu í Undralandi. Sæstrengur krefst bindingar á óhemju miklu fjármagni, og eina ráðið til að hann geti skilað arði er að hann sé rekinn á fullum afköstum allan sólarhringinn, flesta daga ársins. Afgangsaflið, sem í þetta þarf, er ekki til og verður aldrei til; hvað þá afgangsorkan. Hins vegar er stórhætta á því, að hið sama mundi gerast hér og í Noregi, að orkufyrirtækin mundu hillast til að tæma lónin, þannig að orkuskortur yrði í landinu, og engin önnur ráð til en að flytja inn rándýra orku frá útlöndum á margföldu verði á við það, sem íslenzkir raforkunotendur, þ.á.m. heimilin, eiga að venjast.
Sæstrengur fyrir slíka vegalengd og dýpi, sem hér um ræðir, hefur aldrei verið hannaður. Af slíkum er þess vegna alls engin reynsla. Hann yrði þess vegna tilraunaverkefni með þeirri rekstraráhættu, sem slíku fylgir. Það verður þess vegna að búast við bilunum og talsverðu viðhaldi. Með bjartsýni mætti að óreyndu búast við 300 rekstrardögum að jafnaði á ári, sem hleypir flutningskostnaðinum verulega upp. Í stað gæluverkefna af þessu tagi er ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun nær að fást við undirbúning raunhæfari verkefna en þessara sæstrengsdrauma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)