Þrákelkni, þýlyndi og þekkingarskortur

Það furðufyrirbæri Íslandssögunnar, sem kallar sig nú Norræna velferðarstjórn, er ekki af baki dottið við að ganga fram af landslýð.  Nú er það að verða uppvíst að þvílíkri þráhyggju og undirferli, að með ólíkindum má telja, jafnvel þó að siðleysingjar eigi í hlut.  Í fullkomnu umboðsleysi rembist fjármálaráðherranefnan við samninga við erlend ríki á forsendum, sem íslenzka þjóðin hafnaði rækilega í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. marz 2010. 

Á tyllidögum kallar þessi vinstri sveit fordæmdra sig stundum Fyrstu vinstri stjórnina á Íslandi, og er það einkar lærdómsríkt fyrir alþýðu manna að komast að því í eitt skipti fyrir öll, hvers konar óáran fylgir slíku fyrirbæri.  Aldrei aftur vinstri stjórn !

Það ætlar sem sagt að verða landsmönnum dýrkeypt lexía að kalla félagshyggjuöflin til valda.  Þjóðin gat þó ekki vitað fyrirfram, hvað slíkt bæri í skauti sér. Hún gat ekki vitað það, að félagshyggjuöflin væru algerlega óstarfhæf saman í ríkisstjórn.  Nú veit hún það, og vonandi verður dregin af þessari reynslu rétt ályktun næstu tvo áratugina eða svo.  Loddarar og lýðskrumarar 'félagshyggjunnar' eru landslýð óskaplega dýrir á fóðrum.  

Þar er um að ræða hundruði milljarða króna í glötuðum tækifærum, bæði í erlendum fjárfestingum og innlendum, sem kyrktar hafa verið af þessari vinstri stjórn, þannig að í hagkerfinu hefur ríkt stöðugur samdráttur frá Hruni, og engar horfur á hagvexti með sömu stjórnarherra hangandi við stjórnvölinn.   Verstar eru þó þær raunir og ógæfa, sem ríkisstjórn vinstri aflanna hefur leitt yfir fjölda manns, algerlega að þarflausu, með atvinnuleysisböli, "skjaldborg um heimilin", sem að engu gagni hefur komið, og skemmdarverk á heilbrigðisgeiranum með fjandskap við einkaframtak, kaldrifjaðri forsjárhyggju og þekkingarleysi á hlutverki heilbrigðisþjónustu fyrir dreifbýli landsins. Fordómarnir tröllríða fávísinni.

Ríkisstjórnin er svo heillum horfin, að öllum hennar verkum má lýsa með einhverju þeirra orða, sem fyrirsögn þessa pistils hefur að geyma, eða jafnvel öllum í senn.

Öll orðin, og miklu fleiri einkunnir, eiga við hið dæmalausa sukk og svínarí ríkisstjórnarinnar, t.d. það framferði að leggja sig í líma við að skuldbinda íslenzka skattborgara til að greiða erlendum innlánshöfum í Landsbankanum, gamla, sem nemur um MISK 1 (einni milljón króna) á hverja launþegafjölskyldu í landinu.  Samt höfðu þessar sömu fjölskyldur, og allar hinar, hafnað ábyrgð á þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu, og þess vegna er ríkisstjórnin umboðslaus að pukrast við þessi myrkraverk, sem hún hefur aldrei ráðið við.  Gumar lítilla sanda og lítilla sæva verða þjóðhættulegir, þegar þeir fara að fást við erlenda menn.  Sukkurum er ekki stætt á, eina ferðina enn, að bjóða upp á þessa moðsuðu sína. 

20100923rikisstjornadstandasigAf fréttum að dæma er verið að semja um skuldaklafa um háls íslenzkra skattborgara á svipuðum forsendum og landsmenn höfnuðu 6 .marz 2010.  Breytingin, sem orðið hefur, er einvörðungu meiri heimtur í þrotabú Landsbankans en áður var búizt við og lægri vaxtaprósenta núna, enda eru t.d. seðlabankavextir víða nú undir 1,0 %.  Hvers vegna í ósköpunum á að láta íslenzka ríkið borga mun hærri vexti en þetta af fé, sem hollenzka og brezka ríkisstjórnin lögðu fram til uppgreiðslu innlána án þess að íslenzka ríkið færi fram á slíkt, svo að vitað sé ? Þessar vaxtagreiðslur eru fáránlegar og alger afleikur í samningaviðræðum að fallast á slíkt.  

Eftir höfnun forseta lýðveldisins og þjóðarinnar er einungis unnt að ganga frá þessu máli lagalega við andstæðinga okkar, þ.e. fyrir dómstólum, eða á alveg nýjum forsendum við samningaborðið, t.d. vaxtaleysi og skiptri ábyrgð þjóðanna þriggja, þar sem tekið er tillit til jöfnunar byrða á skattborgara landanna þriggja.  

20100930kosningarTil hvers eru refirnir þá skornir ?  Þar kemur að þýlyndinu í fyrirsögninni.  Vitað er, að samningar, að skapi Breta og Hollendinga, eru skilyrði inngöngu í Evrópusambandið, ESB.  Það er verið að selja afkomu næstu kynslóða Íslands fyrir baunadisk í Brüssel, sem fólginn er í forréttindum embættismanna, góðum stöðum í Brüssel og miklum hlunnindum, og að tryggja forræðishyggjunni, sem jafnaðarstefnan snýst um, sess á Íslandi.  Það hefur alltaf verið skoðun íslenzkra jafnaðarmanna, að íslenzka ríkið stæðist ekki sem sjálfstæð eining, heldur yrði að vera hluti af stærri heild.  Þetta kom t.d. í ljós við lýðveldisstofnunina og kemur hvað eftir annað upp á yfirborðið. Jafnaðarmenn eru afætur í eðli sínu. 

heimssyn1 Það er að koma í ljós, að málflutningur efasemdarmanna og andstæðinga aðildar Íslands að ESB á undan og eftir 16. júlí 2009, er Alþingismenn ýmsir voru beittir annarlegum þrýstingi til að samþykkja umsókn, átti við full rök að styðjast.  Það, sem í boði er í Brüssel, er ESB, með kostum þess og göllum og án nokkurra varanlegra undanþága.  Sérréttir eru einfaldlega ekki á þessum matseðli, og að velja þennan matseðil mun leiða til alvarlegra meltingatruflana þjóðarlíkamans.  

Að ráðið til að tryggja sjálfstæðið sé að fórna því eru landsfjandsamleg öfugmæli.  Í hverju dæminu á fætur öðru kemur í ljós, að við höfum mun meiri áhrif til eflingar eiginn hags utan en innan við "Festung Europa".  Má þar nefna makríl, síld, hval, Icesave, skatta til ESB, viðskiptasamninga við Kínverja o.fl., svo að ekki sé minnzt á stórveldisdraumana með stofnun Evrópuhers með herskyldu til að berja ungviðið undir hollustu við Evrópufánann. 

Ekki er unnt að skilja við ESB án þess að nefna evruna.  Hún á nú í svo miklum þrengingum, að forseti leiðtogaráðsins, Herman van Rompuy, hefur opinberlega nú í viku 46/2010, séð ástæðu til að lýsa því yfir, að framtíð ESB sé stefnt í hættu, ef evran fellur.  Hvort Þýzkaland muni berjast fyrir evruna, er alls óvíst um, eins og nú er komið málum.  Þjóðverjar eru tilbúnir með Deutsche Mark, ef evran sekkur.  Þýzkaland ætlar ekki að fórna sér endalaust fyrir önnur lönd Evrópu með slaka hagstjórn.  Þeir, sem allt vilja í sölurnar leggja fyrir öflugan gjaldmiðil, ættu að sækja um aðild að Sambandslýðveldinu Þýzkalandi.  

Írar eru að falli komnir vegna evrunnar, Grikkir á framfæri ESB vegna hennar, Portúgalir afar tæpir og Spánverjar og Ítalir kunna að fylgja í kjölfarið.  Mynt án ríkisvalds og ríkissjóðs að bakhjarli virðist ekki ganga upp. Fyrir íslenzka hagkerfið er þá ekki eftir neinu að slæðast með inngöngu.  Við yrðum alltaf minnipokamenn innan þessa ríkjasambands eða sambandsríkis.  Auðlindastjórnun yrði í uppnámi, hvað sem belgingi kerfiskrata líður.  Við mundum ekki hafa bolmagn til að standa gegn þrýstingi annarra ESB ríkja, ef við höfnum innanborðs.  Slíkt bolmagn höfum við hins vegar nú í krafti fullveldis.  Að deila því með öðrum jafngildir óhjákvæmilega útvötnun á áhrifum okkar sjálfra og höftum á svigrúmi okkar.  Við yrðum sem hross í hafti algerlega upp á náð og miskunn annarra ESB-ríkja komin. 

Loddarar ríkisstjórnarinnar eru að vinna þjóðinni stórtjón með bjölluati í Brüssel.  Það býr engin alvara að baki umsókninni vegna klofnings ríkisstjórnarinnar.  Forkólfar og samningamenn ESB eru hafðir að ginningarfíflum, og þetta mun valda okkur miklum álitshnekki.  Því fyrr sem snúið er af þessari óheillabraut, þeim mun betra.  Ríkisstjórninni ber að láta fullveldi landsins njóta vafans.  Þar sem þess sjást engin merki, ber Alþingi nú þegar á haustþingi að kippa í taumana, stöðva rándýrt aðlögunarferlið og vísa þessu ólánsmáli til úrskurðar þjóðarinnar.

Myndin hér að neðan ber með sér staðreyndir, sem höfundum evrunnar kom ekki til hugar.  Mismunandi vexti á langtíma skuldabréfum ríkissjóða evru-landaÞetta er að ganga af evrunni dauðri og ætti að sýna Íslendingum svart á hvítu, að hérlendis gætu hæglega ríkt háir vextir eftir upptöku evru.

Ríkisskuldabréfavextir 2010

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband