Eiginn afli og annarra

Ein hjákátlegasta gagnrýni stjórnarandstöðunnar á núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluta hennar er, að hún hafi "afsalað ríkissjóði tekjum" með því að draga úr skattheimtu, sem vinstri stjórnin lagði á, oft á tíðum með ósvífnum hætti með vísun til réttlætis að hætti sameignarsinna.

Þessi afstaða virðist vera reist á því viðhorfi, að skattborgarar og lögaðilar séu í ánauð ríkisins við að afla því fjár í þeim mæli, sem valdhöfunum þóknast hverju sinni. Svipaðs sjónarmiðs gætti í hinu undirfurðulega Fréttablaði nýlega, þar sem forsíðufyrirsögn var á þá leið, að upphæð arðgreiðslu útgerðarfyrirtækja væri hærri en næmi veiðigjöldum sömu fyrirtækja !  Hvers eiga fjárfestar í útgerðarfélögum eiginlega að gjalda ? Halda menn, að þeir hafi fjárfest í útgerðinni til að hún geti greitt sem allra hæst veiðigjöld, svo að þeir fái sáralítinn arð af fjárfestingu sinni ? Fíflagangur blaðamanna ríður ekki við einteyming. Mál er, að mismunun heiðarlegra atvinnugreina í landinu linni.  

Téð sjónarmið vinstri manna og latte lepjandi listafígúra í R-101, þ.e. í sumum tilvikum hinna steingeldu "skapandi stétta", sem vart vita, hvað sköpun er, er í algerri andstöðu við sjónarmið hægri manna, sem sumum finnst nú reyndar kaffisopinn góður, sem er önnur saga, um, að hvati einstaklinga og lögaðila til tekjuöflunar sé ráðstöfunarréttur þeirra sjálfra á sem mestu af þessum tekjum, og þess vegna verði að gæta mikils hófs við tekjuöflun hins opinbera, ef heimtufrekja stjórnmálamanna í nafni hins opinbera ekki á að skrúfa fyrir verðmætasköpunina.    

Kenningar hægri manna í þessum efnum hafa reyndar verið margsannaðar. Á vinstri stjórnar árunum ríkti gegndarlaus skattheimta, og gekk á með stöðugum skattahækkunum, en tekjur ríkissjóðs jukust samt sáralítið, og staðnað hagkerfið komst ekkert upp úr kreppuhjólförunum, af því að raunverulega hvata skorti til fjárfestinga og meiri tekjuöflunar. Ær og kýr jafnaðarmannanna eru að sníða af tekjuöfluninni allt, sem forræðishyggjunni þykir umfram marka, og færa það til "samneyzlunnar", sem er gegndarlaus og botnlaus hít, af því að þar er féð án hirðis. Þessu má líkja við löglegan en siðlausan þjófnað. 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs árið 2013 var kveðið á um skattalækkanir, og strax sumarið 2013 var dregið úr stórskaðlegri skattheimtu fyrri stjórnvalda á sumum sviðum.  Það var eins og við manninn mælt; þessi stefnubreyting hafði strax jákvæð áhrif á fjárfestingar og neyzlu, og hagkerfið hrökk í gír, hagvöxtur er nú 3-4 %, og tekjur ríkissjóðs árið 2014 stefna í að verða tugum milljarða kr yfir áætlun í fjárlögum ársins, sem er ótrúlega hraður viðsnúningur. Með öðrum orðum voru vinstri stjórnar árin ár hinna glötuðu tækifæra, en blómatími stórkarlalegra hrossakaupa og sóunar með rándýrum  gæluverkefnum, svo að ekki sé nú minnzt á dekrið við kröfuhafa föllnu bankanna, hvort sem skósólar þeirra voru sleiktir í Berlaymont eða í höfuðstöðvum Landsbankans.

Staðreyndin er þess vegna sú, að minni skattheimta felur ekki í sér "afsal tekna ríkissjóðs", heldur aukningu skatttekna vegna aukinna umsvifa borgaranna, fjárfestinga og neyzlu í samfélaginu. Auðvitað er borin von, að vinstri menn átti sig á henni, enda er hluti af möntrunni þeirra að beita skuli skattkerfinu til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu í nafni réttlætis.  Sú stefna jafngildir stefnu riddarans hugumprúða, sem barðist við vindmyllur.

Hér sannast enn sem oftar, hversu skaðlega þröngt sjónarhorn vinstri manna á hagræn málefni er, enda á það ekki upp á pallborðið hjá kjósendum að öðru jöfnu. Jafnaðarmenn einblína á það, að þeir, sem afla teknanna, halda meiru eftir af þeim en þeir, forræðishyggjumennirnir, telja góðu hófi gegna, og ala síðan á stanzlausri öfund annarra í framhaldi af því, en gæta ekki að því að horfa á heildarmyndina, sem er vöxtur hagkerfisins, knúinn áfram af hvatanum um hærri tekjur, þegar upp er staðið, og bætta þjóðfélagsstöðu fyrir sig og fjölskyldu sína. 

Þetta er gamla sagan um að lýsa öllum fílnum með því að einblína á löppina á honum. Að taka úr vasa eins og setja í vasa annars, sem í mörgum tilvikum nennir ekki að leggja sig jafnmikið fram og hinn, er argasta óréttlæti.  Jafnaðarmenn stunda hins vegar endalausan öfugmælakveðskap, að hætti forvera sinna, kommúnistanna, og nefna þetta athæfi öfugmælinu "samfélagslegt réttlæti í anda jafnaðar". "Hvílíkur Jón í Hvammi" var haft á orði á Héraðinu, þegar fólki blöskraði atferli.   

Eitt harðasta deilumál síðari tíma hérlendis er fiskveiðistjórnunarkerfið. Fræðimenn, innlendir sem erlendir, láta nú hver um annan þveran í ljós þá skoðun, að íslenzka kerfið sameini betur en nokkurt annað fiskveiðistjórnunarkerfi hagsmuni umhverfisverndar, þ.e. sjálfbærrar nýtingar, og hagkvæma nýtingu, enda er íslenzkur sjávarútvegur sá arðsamasti í heimi, að talið er. 

Að sjálfsögðu spretta þá upp heimaalningar af ýmsu tagi, sjálfskipaðir spekingar og beturvitar, sem finna kerfinu allt til foráttu og gagnrýna það með ljótu orðbragði og réttlæti á vörunum.  Hvaða atvinnugrein er sniðin til að fullnægja réttlætiskennd sérvitringa og sjálflægra nöldurseggja ?

Þessi velgengni fiskveiðistjórnunarkerfisins íslenzka leiddi til þess á árum "fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar" (hún var reyndar glær í gegn), að farin var skattheimtuherferð gegn sjávarútveginum í anda sjúklegrar öfundar í garð velgengni og andúðar á útgerð, sem líkja má við eignaupptöku eða hægfara þjóðnýtingu að hætti sameignarsinna. Þessi aðför jafnaðarmanna leiddi til þess, að lítil útgerðarfyrirtæki voru tekin að leggja upp laupana, er núverandi ríkisstjórn tók við valdataumunum, kippti í taumana og lagfærði verstu agnúa ofurhás veiðigjalds, þó að enn sé langt í land með, að sjávarútvegurinn sitji við sama borð og aðrir atvinnuvegir í skattalegum efnum. Hér sem endranær gildir Laffler-lögmálið, að lækkun ofurhárrar skattheimtu eykur skatttekjurnar. Þetta lögmál hentar "hugsjónum" villta vinstrisins (eða er það vinstursins, sem er meltingarfæri jórturdýra-stutt á milli). 

Aðstöðugjald á formi veiðileyfagjalds er fásinna að leggja á atvinnugrein í alþjóðlegri samkeppni við niðurgreiddar greinar. Þetta verða stjórnvöld að bera gæfu til að skilja, annars beita þau greinina órétti og stórskaða hagsmuni þjóðarinnar. Síðan veiðileyfagjaldið var hækkað upp úr öllu valdi, hefur hægt á vexti íslenzka sjávarútvegsins í samanburði við þann norska og færeyska, enda þora útgerðarmenn ekki lengur að fjárfesta í greininni, eins og eðlilegt væri. Hvernig stjórnarandstaðan ræðir um minnkun skattbyrðar á útveginn sem glataðar skatttekjur er reginhneyksli og sýnir í hnotskurn algert skilningsleysi viðkomandi þingmanna á hagsmunum atvinnuveganna og efnahagskerfinu. Þar kemur enn við sögu hin fyrr nefnda og alræmda þrönga sýn á fílinn.   

Á meðan almennt auðlindagjald er ekki lagt á landnytjar, er ekki hægt að fallast á réttmæti auðlindagjalds af sjávarnytjum, en í staðinn kæmi til greina t.d. 5 % hærri tekjuskattur af greininni en af öðrum atvinnugreinum, enda verði  umframskattheimtunni einvörðungu varið að hálfu ríkisins til að þjónusta  sjávarútveginn; t.d. færu þessi framlög til Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og Stýrimannaskólans. Tæplega væri þó réttlætanlegt að verja þessu fé til vopnakaupa, enda varða þau þjóðaröryggi.

Þá verður ekki séð, að neina nauðsyn beri til að veikja greinina með aukinni óvissu um framtíðina með því að rífa af henni eign hennar, þjóðnýta hana, og leigja aftur út afnotarétt þessarar eignar til tiltekins og tiltölulega stutts tíma m.v. afskriftatíma fjárfestinga. Slíkar æfingar í jafnaðarmennsku eru þjóðfélagstilraunir, sem skaða sjávarútveginn og sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar, enda eru slíkar aðfarir fordæmalausar og kokkaðar upp í einhverju stjórnmálaeldhúsi vinstra megin við miðju. 

Hætt er við, að slík tilraunastarfsemi muni fæla fjármagn út úr greininni og þangað, sem arðsemi eigin fjár er hærri en í sjávarútvegi.  Auðlindarenta í sjávarútvegi er tómur hugarburður draumóramanna, enda hefur hún aldrei fundizt. Er kominn tími til að slá striki yfir vitleysuna, sem ættuð er frá fólki, sem ekkert skynbragð ber á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, en er uppfullt af þvættingi um þjóðareign á auðlindinni og ruglar henni saman við ríkiseign fiskistofnanna.   

Í Viðskiptablaðinu 6. nóvember 2014 birtist viðtal við Birgi Þór Runólfsson, dósent í hagfræði við HÍ, sem hélt erindi í húsakynnum Gamma nýlega í tilefni af útgáfu bókarinnar, "Heimur batnandi fer", eftir Matt Ridley:

"Sá árangur, sem náðst hefur í fiskveiðistjórnun hér á landi, er að mestu leyti til kominn vegna þess, að fiskveiðiheimildir, eða kvóti, fela í sér varanlegan nýtingarrétt. Þessi varanleiki hefur fellt saman hagsmuni útgerða af því að hámarka arðsemi sína og þau umhverfissjónarmið, sem snúa að viðhaldi fiskistofna."

"Segja má, að mitt erindi hafi verið framhald af erindi Ridleys", segir Birgir Þór. "Ridley færir rök fyrir því, að eignarrétturinn stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlinda, einkum út frá umhverfissjónarmiðum og vísar þar til fiskveiða við Ísland."

Íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið hefur öðlazt sess sem fyrirmynd annarra þjóða á þessu sviði.  Hérlendis eru þó hjáróma raddir um, að það sé ekki nógu "réttlátt", og er þá oftast vísað til upphaflegrar úthlutunar á kvótanum. Um það segir Birgir Þór, "að þegar svona kerfi sé komið á, sé einmitt mikilvægt að úthluta kvóta til þeirra, sem stunda veiðarnar á þessum tíma.  Það leiðir til þess, að hagkvæmnin og uppstokkunin komi fram fyrr.  Hlutverk þeirra, sem halda áfram í geiranum er svo að bæta þeim upp tapið, sem hverfa úr greininni.  Með því að úthluta kvótanum ókeypis í upphafi er verið að viðhalda fjármagni, svo að hægt sé að fara strax í nauðsynlegar fjárfestingar."

Niðurstaða rannsókna Birgis Þórs Runólfssonar er ennfremur, að grundvallaratriði vel heppnaðs fiskveiðistjórnunarkerfis sé ótímabundinn nýtingarréttur og að útgerðarmenn og fjárfestar geti treyst á stöðugleika í þeim efnum.  Það er mjög margt, sem bendir til, að þetta sé hárrétt niðurstaða.

Núverandi stjórnvöld verða að setja vísindalegar niðurstöður á borð við þessa á oddinn við mótun væntanlegs frumvarps um stjórnun fiskveiða, en mega ekki láta undan tilfinningaþrungnu væli fákunnandi og ofstækisfulls fólks um að koma verði nýtingarréttinum í "félagslega eign" og að hann skuli leigja til tiltekins tíma, svona 15-25 ára. Til þess standa engin hagfræðileg né siðferðileg rök, og þar með mundu stjórnvöld grafa undan arðsemi fiskveiðistjórnunarkerfisins og letja til beztu umgengni við auðlindina vegna þess, að ákvarðanir útgerðarmanna verða þá í meira mæli reistar á skammtíma sjónarmiðum en langtíma mati á því, hvað komi fyrirtækjum þeirra bezt. 

 Eigandi gengur betur um eign sínaLogandi heit Fernanda í drætti   

 

            

 

 

 


Komin að fótum fram

Óveðursský hrannast upp á Evrópuhimninum.  Vandamálin steðja alls staðar að.  Rússneski björninn öskrar í austri, og margir glúpna þá í vestri, því að orkumál Evrópumanna, flestra, eru í ólestri, á sama tíma og björninn gerir sig líklegan til að draga úr gasflæði til Evrópu á kaldasta tímanum í vetur.  Viðskiptahindranir Evrópusambandsins, ESB, á Rússland, hafa dregið máttinn úr útflutningseimreið Evrópu, Þýzkalandi, með þeim afleiðingum, að samdráttarskeið er að hefjast þar í hagkerfinu og ginnungagap verðhjöðnunar blasir við Þjóðverjum undir stjórn Bæjarans aðhaldssama, Wolfgang Schäuble. 

Samskipti Rússlands og Vesturveldanna kólna stöðugt, og Gorbachev, gamli, er farinn að tala um nýtt "kalt stríð" þarna á milli.  Mikil tíðindi urðu á G-20 fundi í Brisbane í Ástralíu 15. nóvember 2014, er Vladimir Pútín, útþenslukeisarinn í Kreml, flúði af fundinum eftir hörð átök við David Cameron, forsætisráðherra Breta, vegna framferðis Rússa í Úkraínu, og almennrar gagnrýni á Pútín á þessum vettvangi í Ástralíu.  Eru þessi tíðindi til vitnis um, að Vesturveldin ætla að láta Pútín heldur betur finna til tevatnsins, og má hann þá fara að biðja fyrir sér að hætti grísk katólskra, því að ríki hans stendur á brauðfótum þrátt fyrir gorgeirinn í Kremlverjum.   

Ofan á efnahagsvandamál Vesturlanda bætast reyndar vandamál varnarbandalagsins, NATO. Það blasir við, að NATO-ríkin verða að auka framlög sín til hermála, því að rússneski björninn hefur verið að vígbúast grimmilega og varið til þess um 10 % af landsframleiðslu.  Það mundi styrkja varnir Evrópu, ef Svíar og Finnar gengju í NATO, en þeir gáfu í reynd hlutleysi sitt upp á bátinn fyrir löngu.  Um inngöngu eru umræður í löndunum tveimur, en jafnaðarmennirnir þar setja sig upp á móti því og vilja ekki stugga við Rússum frekar en fyrri daginn.  Jafnaðarmenn skilja ekki sinn vitjunartíma, heldur ríghalda í fortíðina.  Friðþæging gagnvart áreitni hefur alltaf jafnast á við að míga í skóinn sinn í frosti.  Sannast jafnan, hversu litlir bógar jafnaðarmenn eru, þó að orðháka vanti ei í þeirra raðir. Að bíta í skjaldarrendur er hið eina, sem dugar, eins og Cameron gerði í Brisbane.  Þar urðu vatnskil, og er nú birninum nær að skríða í hýði sitt.

Það, sem nú veldur því, að Evrópa er helzti dragbíturinn á hagvöxt í heiminum, sem allir, nema jafnaðarmenn viðurkenna, að er grundvöllur þess að minnka fátækt í heiminum, er verðhjöðnun.  Í jaðarríkjum evru-svæðisins er nú þegar verðhjöðnun, og hin ríki evrunnar ramba á barmi verðhjöðnunar. Jafnvel Grikkir eru sagðir hættir að mestu að drekka, og er þá stutt í, að frjósi í helvíti. Hafði engan órað fyrir því í upphafi, að evran gæti haft svo gagnger áhrif á líf fólks.

Allur kostnaður lækkar í verðhjöðnun, nema afborganir skulda.  Það verður erfiðara að borga vexti og greiða afborganir af lánum í verðhjöðnun, af því að þetta tvennt lækkar ekki, en tekjurnar lækka.  Skuldir evru-ríkjanna flestra hafa vaxið undanfarin ár. 

Skuldir Þjóðverja hafa þó lækkað aðeins, og nema ríkisskuldir þó um 80 % af VLF, sem er langt yfir Maastricht-mörkunum, 60 %.  Skuldir heimila og fyrirtækja utan fjármálageirans nema 120 % af VLF, svo að heildarskuldir Þjóðverja nema um 200 % af VLF.  Þetta dugar þeim til að standa bezt að vígi og njóta beztu vaxtakjara á skuldabréfum eða aðeins um 2-3 %.  Hér að neðan eru upplýsingar um grafalvarlega skuldastöðu, sem hlýtur að framkalla greiðsluþrot í verðhjöðnun.  Nú þegar berast fregnir af óeirðum á Ítalíu, sem beinast að Þjóðverjum og sýna, hvert stefnir með evruna.  Þó að hún hafi gefið eftir á þessu ári, er hún einfaldlega of sterkur gjaldmiðill fyrir þjóðir með morkna innviði:

  

    

  1. Írar skulda mest evruríkjanna eða alls 430 % af VLF og vaxandi, þar af ríkið 120 %.
  2. Portúgalir skulda næstmest eða alls 390 % og minnkandi, þar af ríkið 130 %.
  3. Grikkir eru í heildina í 3. sæti með 300 % af VLF, en þar eru ríkisskuldir mestar eða 175 % af VLF.  Þeir geta ekki staðið undir þessu skuldafargi hjálparlaust, og vextir af grískum ríkisskuldabréfum eru nú 9 %, sem er óbærilegt.  Þar styttist nú í uppgjörið.
  4. Spánverjar skulda í heildina 300 % af VLF, eins og Grikkir, en ríkið er hins vegar betur statt með "aðeins" 100 % skuldabagga. 
  5. Á Ítalíu skulda heimilin tiltölulega lítið, en ríkið mikið, þ.e.a.s. heildarskuldir nema um 270 %, en skuldir ríkisins nema 130 % og eru vaxandi. 

Ef einhverju þessara 5 ríkja mistekst að endurfjármagna skuldir sínar, þá verður fjandinn laus.  Ítalir þurfa á hverju ári að endurfjármagna mestan hluta ríkisskuldanna, og þurfa þeir árið 2015 að útvega um 470 milljarða evra eða um þriðjung landsframleiðslu sinnar.  Það má ganga kraftaverki næst, ef þetta gengur snurðulaust.  Ef eitt ríki á evru-svæðinu lendir í vanskilum, mun það hafa keðjuverkandi áhrif.  Þjóðverjar hvorki geta né vilja setja fé skattborgaranna til svo stórfelldrar björgunarstarfsemi sem hér um ræðir, og þess vegna eru meira en 50 % líkindi á nokkrum ríkisgjaldþrotum á evru-svæðinu á næsta ári, sem munu þá ganga af evrunni dauðri. Hvað verður um einsmálsflokkinn á Íslandi, Samfylkinguna, þegar þetta verður um garð gengið ?

Í Þýzkalandi vex nú stjórnmálaflokki ásmegin, sem er á öndverðum meiði við núverandi stjórnarflokka hinnar stóru samsteypu í Berlín.  Alternative für Deutschland, AfD, hamrar á því við kjósendur, að evrustefna stjórnarflokkanna sé nauðhyggja og að við Þjóðverjum blasi sá kostur að afleggja evruna og taka upp sitt dáða DEM - Deutsche Mark.  AfD heldur því fram, að Þjóðverjum með Bundesbank í stafni mundi vegna betur með DEM en evru, og það er margt, sem bendir til þess.  Þeir væru þá lausir við eilíf vandamál með veik hagkerfi í EMU-myntbandalaginu, og óvinsældir evrunnar mundu þá ekki bitna á þeim.  Skörin er tekin að færast upp í bekkinn, þegar æstur Rómarlýður ræðst á þýzka sendiráðið í Róm og atar það út í rauðri málningu. Menningarmunurinn í Evrópu lætur ekki að sér hæða.

Evran án Þýzkalands væri auðvitað allt önnur Ella en nú, þó að vafi leiki á, að hún stæðist tímans tönn.  Líklegast er, að tími sameiginlegrar myntar sé liðinn í bili í Evrópu.  Þar af leiðandi mun eðli Evrópusambandsins gjörbreytast, og það verða, eins og Bretar hafa barizt fyrir, meira tolla- og viðskiptabandalag en ríkjasamband.

Er viturlegt að láta umsókn Íslands um aðild að ESB hvíla öllu lengur í skúffu í Brüssel ? Það er erfitt að koma auga á röksemdirnar fyrir því miðað við þróun mála síðan umsóknin var send inn.  Með því að láta umsóknina rykfalla í skúffunni gefa íslenzk stjórnvöld til kynna, að þau vilji taka upp þráðinn, þegar ESB gefur merki um, að ríkjasambandið sé tilbúið til að stækka á ný.  Þetta atferli er afar ólýðræðislegt gagnvart Íslendingum, sem aldrei voru spurðir um, hvort þeir vildu sækja um þessa aðild, og allar skoðanakannanir benda til, að meirihluti þjóðarinnar kæri sig ekki um að ganga í þetta ógæfulega ríkjasamband.  

Hitt er annað mál, að Ísland er hluti af Innri markaði ESB, og þar sem landið er í EES, ber okkur að taka upp margar tilskipanir EES, þó að ýmislegt bendi til, að Alþingi hafi þar verið full auðsveipt.  Þá væri ekki úr vegi, að nýr ráðuneytisstjóri Utanríkisráðuneytisins, sem er gagnkunnugur embættismannakerfi ESB, beitti sér fyrir því, að íslenzkum hagsmunum verði haldið á lofti við undirbúning tilskipana og reglugerða frá Berlaymont.     

   Tifandi tímasprengja

 

  


Skaðlegar kröfur

Mikil óþreyja virðist hafa gripið um sig á meðal þeirra, sem móta kröfugerð verkalýðsfélaga. Þetta er gjörsamlega úrelt nálgun á viðfangsefninu, sem er að auka ráðstöfunartekjur félagsmannanna og að lækka verðlag í landinu.

Sú nálgun á þessu viðfangsefni að hækka taxta um meira en nemur framleiðniaukningu er gjörsamlega vonlaus og leiðir ekki til annars en verðbólgu og hræðilegrar kjararýrnunar í kjölfarið. 

Launasamanburður við aðrar þjóðir missir algerlega marks, því að þá verður vitaskuld að taka tillit til landsframleiðslu á íbúa viðkomandi lands, VLF/íb.  Ofspenntar launahækkanir leiða ekki til annars en lækkunar á þessu hlutfalli, því að samkeppnistaða viðkomandi greinar og jafnvel landsins alls versnar, og þar með minnka tekjurnar. Hér að neðan gefur að líta verga landsframleiðslu í kEUR (EUR 000) á íbúa 2012 ásamt meðalhagvexti 2003-2013 og hagvexti 2013 (í sviga er hlutfall framleiðsluverðmætis m.v. Ísland) á  Norðurlöndunum, nema Færeyjum, og að meðaltali í Evrópusambandinu : 

   Land   kEUR/íb Hagvöxtur                  

  • Noregur: 49,9 :1,5 % og 0,6 % (1,74)
  • Svíþjóð: 32,8 :2,1 % og 1,5 % (1,14)
  • Danmörk: 32,0 :0,6 % og 0,4 % (1,11)
  • Finnland:29,1 :1,3 % & -1,4 % (1,01)
  • Ísland:  28,7 :2,4 % og 3,3 % (1,00)
  • ESB 27:  25,6 :2,2 % og 1,5 % (0,89)

Þessi tafla gefur til kynna, hvílíka sérstöðu Noregur hefur varðandi landsframleiðsluverðmæti á íbúa, sem er t.d. 74 % hærri en á Íslandi.  Tekjudreifingin í Noregi væri einkennileg, ef allar stéttir væru ekki mun launahærri þar en á Íslandi. Af þessum ástæðum er algerlega út í hött í launabaráttunni hérlendis að bera laun hérlendis saman við laun í Noregi. Miklu nær er að ræða leiðir og aðferðir til auka landsframleiðslu Íslendinga.

Annað mál er, að í Noregi eru beinir skattar hærri en hérlendis, og eftir að núverandi fjárlagafrumvarp hefur hlotið gildistöku með þeim endurbótum á óbeina skattkerfinu, sem þar er að finna, þá verða óbeinu skattarnir á Íslandi svipaðir og í Noregi. 

Orka af öllu tagi er mun dýrari í Noregi en á Íslandi, húsnæðisverð hefur í Noregi hækkað upp úr öllu valdi og er komið að þanmörkum, og t.d. bílar eru þar mun dýrari en á Íslandi. Norska hagkerfið stendur frammi fyrir vandræðum, því að hagkerfi Noregs er ósamkeppnihæft vegna hás kostnaðar, þ.m.t. olíuiðnaðurinn m.v. markaðsverðið 80 USD/tunna. Kaupmáttur á Íslandi getur orðið hærri en í Noregi á næsta áratug, ef hér verður rétt haldið á spilunum í anda stöðugleika og engar kollsteypur teknar. 

Hagvexti á Íslandi árið 2014 er spáð verða 3,5 %, en í hinum löndunum í töflunni verður hann líklega á bilinu -1,0 % til +1,0 %.  Ef áætlaðar fjárfestingar næstu ára ganga eftir, gæti hagvöxtur á Íslandi orðið 3,0 % hærri að jafnaði á ári en í hinum löndunum í töflunni.  Þá náum við öllum, nema Noregi, á 5 árum í VLF/íb.

Þetta þýðir þó ekki, að laun hér geti almennt náð sænskum launum á 5 árum.  Það er vegna þess, að ríkissjóður, sveitarfélög og fyrirtæki hérlendis, eru skuldsettari en í Svíþjóð, og vaxtastigið hérlendis er hærra en annars staðar í Evrópu, og þar af leiðandi er fjármagnskostnaður mun meiri á Íslandi en í Svíþjóð. Nú hillir undir snögglega minnkun skuldsetningar almennings, og er vonandi, að hún minnki áfram hægt og bítandi, þó að vextir fari nú lækkandi. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs, aðallega í gjaldeyri, er t.d. um ISK 70 mia/ár, og gefur auga leið, hvílíkur léttir það verður fyrir þjóðfélagið að t.d. helminga skuldirnar. Slíkt tekur a.m.k. 5 ár,þó að hagkerfið fái frið og jafnvægi.

Á þessu ári verður kaupmáttaraukning á Íslandi að jafnaði um 4 %, og eftir síðustu vaxtalækkun Seðlabankans stefnir í lækkun fjármagnskostnaðar um 4 % hjá skuldugu fólki. 

Líklega þekkjast hvergi á byggðu bóli aðrar eins almennar kjarabætur um þessar mundir og á Íslandi.  Allan þennan mikla ávinning er þó í sviphendingu hægt að eyðileggja með offorsi og óhóflegri kröfugerð um launahækkanir. Seðlabankastjóri hefur t.d. lýst því yfir, að verði launahækkanir almennt yfir þeim mörkum, sem hann telji hagkerfið ráða við, þá verði Seðlabankanum beitt til hækkunar vaxta, og þeir geta þá hæglega hækkað yfir þau 6,0 %, sem þeir voru í fyrir síðustu lækkun.  Þar með stæðu flestar fjölskyldur uppi með lækkaðan kaupmátt, þegar fjármagnskostnaður hefur verið greiddur. Öllum launþegum má ljóst vera, að þróun hagkerfisins er lykilstærð fyrir hag almennings í landinu.

Læknastéttin er nú í verkfallsbaráttu fyrir hækkun launa langt umfram það, sem aðrar stéttir hafa samið um frá 2006. Læknar hafa um tvöföld laun á við hjúkrunarfræðinga og um tvöföld meðallaun á Íslandi. Hér skal ekki leggja dóm á það, hvort þetta hlutfall er eðlilegt eður ei, né gera því skóna, að læknar séu ofsælir af sínum launum. Þvert á móti hafa þeir aflað sér þjóðfélagslega mikilvægrar þekkingar, og margir þeirra hafa náð mikilli færni á sínu sviði, þó að innan um séu svartir sauðir, eins og í öllum stéttum.  Nægir þar að nefna, að Íslendingar eru sagðir mestu lyfjaætur í heimi, og eru þó flest þessi lyf lyfseðilsskyld. Læknar eiga þess vegna skyldar háar tekjur, enda er starfsævi þeirra í styttra lagi.

Það er röskun á téðu hlutfalli launa, sem er hins vegar vandamálið hér og nú. Að ganga að kröfum lækna í yfirstandandi vinnudeilu hefði í fyrsta lagi í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, sem nemur yfir 1 % af veltu hans, og til þess er enn ekki svigrúm, þó að það muni koma, og hins vegar mundu samningar á þessum nótum þrýsta sér niður allan launastigann og sprengja hagkerfið í loft upp með útgjaldauka launagreiðenda um allt að 50 %.  Verðstöðugleikinn hyrfi þá upp í gasbláma, fjármagnskostnaður skuldara ryki upp í himinhæðir, krónan félli býsna djúpt og ráðstöfunartekjur almennings mundu í raun lækka mikið, svo að hagur allra mundi versna hræðilega.

Það verður að vona í lengstu lög, að læknar láti strax af vinnustöðvunum sínum, sem eru fordæmalausar, enda verður ekki séð, hvernig þær samrýmast Hippokratesareið lækna. Fórnarlömbin í þessari kjaradeilu er fólk í nauðum statt, fólk, sem ekki hefur valið sér það hlutskipti að þurfa að leita á náðir lækna, fólk, sem ekki getur borið hönd yfir höfuð sér.

Samfélagslega eru slíkar kjaradeilur í raun óviðunandi.  Þess vegna væri bezt, að aðilar þessarar deilu samþykktu að vísa henni til úrskurðar Kjaradóms. Hann mundi líklega taka tillit til þess, að læknar á launaskrá ríkisins hafa dregizt aftur úr öðrum ríkisstarfsmönnum og dæma þeim kjarabætur samkvæmt því í einhverjum áföngum. 

Annað mál er aðbúnaður á ríkissjúkrahúsinu við Barónsstíg að starfsfólkinu þar og skjólstæðingum þess.  Það er brýn þörf á byltingu í þeim efnum, og að færa Háskólasjúkrahúsið inn í nútímann, og er þá engri rýrð kastað á færni þess fólks, sem þar starfar nú. Líklega vinnur það kraftaverk á hverjum degi við misjafnar, og í sumum tilvikum, dapurlegar aðstæður. Það ber að selja ríkiseignir til að afla fjár til þessa verkefnis. Er þá litlum vafa undirorpið, að sjúklingar munu senn njóta sambærilegs atlætis og á hinum Norðurlöndunum og íslenzkir læknar sjá hag sínum vel borgið við störf hérlendis, ef hagkerfið fær að vaxa og dafna, eins og efni standa til.          

 Rikshospitalet 

        

    

  

 

 


Samband Íslands við Evrópusambandið

Hagsmunatengsl og menningartengsl á milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) eru mikil og meiri en á milli Íslands og annarra landsvæða, eins og nú standa sakir.

Þess vegna er hætt við, að slæmt efnahagsástand í ESB á næstu misserum, einkum á evru-svæðinu, muni hafa neikvæð áhrif á viðskiptakjör Íslands í Evrópu.  Lítið framboð fiskimjöls vegna brests í ansjósunni frá Perú og minna framboð þorsks frá Rússum og Norðmönnum kann þó að bæta úr skák, en ládeyða og jafnvel verðhjöðnun í Evrópu mun tefja viðreisn álmarkaðarins.  Hvað verður um kísilmarkaðinn, ef áherzlan flyzt frá vindrafstöðvum og sólarhlöðum til Þóríum-kjarnorkuvera og jarðvarma er ekki gott að segja. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vandi evru-svæðisins er misgengi hagkerfa aðildarlanda myntbandalagsins.  Þjóðverjar hertu sultarólina upp úr aldamótunum síðustu, þegar þenslan í kjölfar endursameiningar Þýzkalands var tekin að grafa undan samkeppnihæfni þeirra eftir upptöku evrunnar.  Á meðan gömnuðu aðrir sér við innistæðulausar launahækkanir og hafa nú fengið þær margfaldar í hausinn sem bjúgverpil, því að evran er miskunnarlaus húsbóndi, sem refsar fyrir slíkt ábyrgðarleysi með því að gera viðkomandi þjóðfélög ósamkeppnihæf.

Aðhaldsaðgerðir Þjóðverja hrifu að sjálfsögðu, svo að verðlag hjá þeim hækkaði minna en annars staðar á evru-svæðinu.  Afleiðingin varð sú, að ríki með minni aga í ríkisfjármálum og í samningum um kaup og kjör fengu yfir sig hærri verðbólgu og verri viðskiptakjör við útlönd, sem þau geta ekki staðið undir, atvinnuleysið hefur þar orðið geigvænlegt, jafnvel yfir 20 %, og lífskjaraskerðing, þegar veizlunni lauk.  Sígandi lukka er bezt.

 Þessi óþolinmóðu ríki hafa ekki upp á nægilega mikið af vörum og þjónustu að bjóða, sem þau geta selt á hærra verði en keppinautarnir.  Þessi ríki stefna nú til efnahagslegrar Heljar og eru öðrum víti til varnaðar um það, sem gerist, þegar veikt hagkerfi gengur í myntbandalag við sterkt hagkerfi.  Mikil efnahagsleg vá steðjar nú að þessu myntsamstarfi vegna lítils hagvaxtar alls staðar á myntsvæðinu og verðhjöðnunar víða.  Fyrir myntsamstarf þjóða er ástand af þessu tagi eins og krabbamein í líkama. 

Um myntsamstarf fóru fram fróðlegar umræður á Bretlandi í aðdraganda atkvæðagreiðslu Skota um sjálfstæði.  Aðskilnaðarsinnar sögðust ætla að halda áfram með sterlingspundið, hvað sem tautaði og raulaði.  Það þótti sambandssinnum afleit hugmynd, og bankastjóri Englandsbanka, Mark Carney, kvað aðild Skota að sterlingspundinu vera ósamrýmanlega við fullveldi (e."incompatible with sovereignty").  Þessu lýsti seðlabankastjórinn yfir að vel yfirlögðu ráði.  Þetta var niðurstaða rannsókna Englandsbanka. 

Menn gæti að því, að yfirlýsing bankastjórans var ekki stjórnmálalegs eðlis, heldur niðurstaða hagfræðilegra rannsókna, sem saga evrunnar staðfestir. 

Þegar kemur að peningum og bankastarfsemi, á engin þjóð merkilegri sögu en Skotar, nema vera skyldi Gyðingaþjóðin.  David Hume var Skoti, sem árið 1748 setti fram fræðikenningu um samband peninga, verðbólgu og vaxtar. 

Myntbandalaginu, sem SNP, skozki þjóðarflokkurinn, sá fyrir sér um sterlingspundið að fullveldi fengnu, hefði svipað mjög til EMU, þ.e. evrópska myntbandalagsins um evruna.  Pundið héldi áfram sem mynt Skota, og Englandsbanki mundi ákvarða peningamagn í umferð og eitt vaxtastig fyrir bæði löndin og verða til þrautavara á krepputímum.  Slíkt myntbandalag mundi vissulega eyða skiptigengisáhættu og myntkostnaði í viðskiptum á milli landanna, sem virkar viðskiptaörvandi.  Viðskipti Skota við hin lönd Bretlands námu um 2/3 af VLF Skotlands árið 2013 eða GBP 110 milljörðum, svo að miklir hagsmunir eru í húfi.

Viðskipti eru þó ekki hið eina, sem þarf að beina sjónum að, þegar um myntsamstarf er að ræða.  Í þekktri ritgerð setti Robert Mundell við Columbia-háskólann árið 1961 fram próf fyrir vel heppnaðan samruna mynta.  Á kjörsvæði sameiginlegrar myntar verða framleiðsla - fjármagn og vinnuafl - að geta flutzt frjálst á milli án tillits til landamæra.  Núverandi sterlingsvæði fullnægir þessu vegna sameiginlegrar tungu og margra, sem flytjast á milli.  Fjármagn flyzt líka óheft á milli, svo að sparendur og lántakendur tengjast yfir landamæri um bankakerfið. 

Myntbandalag sterlings, án sambandsríkis, mundi hins vegar standa frammi fyrir mörgum vandamálum.  Hagsveiflur ríkjanna eru þokkalega vel samstiga, en ekki þó í fasa.  Það hefur óhjákvæmilega í för með sér, að peningamálastjórnunin er oft of strekkt öðrum megin við landamærin og of slök hinum megin við.  Þessi misleitni mundi líklega fara vaxandi, því að fjárstreymi inn og út úr sameiginlegum ríkissjóði hættir við upplausn ríkisins.  SNP flokkurinn í Skotlandi ætlar að auka útgjöld skozks ríkissjóðs um 3 % á ári, en Íhaldsstjórn Bretlands ætlar að ná jöfnuði á rekstri ríkissjóðs árið 2019.  Samt er hallinn á rekstri skozka ríkissjóðsins núna meiri en þess brezka, og tekjustofninn minnkar með hækkandi meðalaldri Skota og minna streymi úr eldsneytislindum Norðursjávar. 

Ef sameiginlega stefnu vantar varðandi ríkissjóðina, getur sterling-svæði hæglega orðið smá evru-svæði með Skotland í hlutverki Grikklands.  Þetta er ógæfulegt og útskýrir, hvers vegna allir sambandsflokkarnir eru andvígir myntbandalagi, ef til sambandsslita kæmi, og hvers vegna bankastjóri Englandsbanka, Mark Carney, kallaði myntbandalag "ósamrýmanlegt fullveldi" eða "incompatible with sovereignty" í ræðu 9. september 2014. 

Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga.  Bankastjóri Englandsbanka segir fullum fetum, að þátttaka ríkis í myntbandalagi og fullveldi þess sama ríkis fari engan veginn saman. 

Þó að núverandi stefna í ríkisfjármálum á Íslandi sé mun ábyrgari en sú skozka er um þessar mundir, er auðvelt að setja sér fyrir hugskotssjónir, að um Ísland mundu svipuð rök gilda og fyrir sjálfstætt Skotland innan sterlingsvæðis.  Íslendingar yrðu með öðrum orðum að vera viðbúnir því að leggja sig í framkróka við að líkja eftir hagsveiflu, sem ríkjandi er á myntsvæði, sem þeir hygðust fá aðild að, en slíkt tækist aldrei almennilega, af því að samsetning íslenzka hagkerfisins er einstök.  Við yrðum dæmd til að vera nánast aldrei í fasa við ástand, sem viðkomandi seðlabanki tæki mið af við sínar ákvarðanir, hvort sem það væri evrubankinn, Englandsbanki, Seðlabanki BNA eða einhver annar.  Afleiðingin yrði sú, að hagkerfið á Íslandi mundi sveiflast á milli þenslu með töluverðri verðbólgu og samdráttar með töluverðu atvinnuleysi.  Það er þá vissulega hætt við, að gjaldeyrishagræðið yrði of dýru verði keypt, eins og nú er að koma á daginn á evru-svæðinu.  Eru ekki vítin til að varast þau ?  Samt ber möntrufólk hausnum við steininn, og batnar sá haus ekki við það.  Hann mun aldrei láta sér segjast, af því að jafnaðarmennirnir á Íslandi hafa alltaf talið Ísland of litla einingu til að standa sjálfstæða.  Það er engin ástæða fyrir kjósendur á Íslandi að velja slíkt fólk til valda, sem hefur slíka vantrú á þjóðinni, að hún geti ekki staðið á eigin fótum, og þess vegna verði að afhenda ríkjasambandi stjórnartaumana.

SNP-aðskilnaðarflokkur Skota lýsti því yfir í kosningabaráttunni fyrir 18. september 2014, að samþykktu Skotar aðskilnað, mundi SNP beita sér fyrir því, að Skotar héldu áfram að nota sterlingspundið.  Þessi valkostur - sterlingvæðing - er vissulega möguleg:  samkvæmt nýlegri rannsókn AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins nota 11 ríki annarra þjóða mynt óformlega.  Kiribati, eyjaklasi í Kyrrahafinu, hefur notað ástralska dalinn síðan 1979.  Svartfjallaland, Kosovo og Andorra nota öll evruna án þess að vera í ESB eða EES.  Ekvador og El Salvador nota bandaríkjadal.  

Það eru hins vegar tvö stór vandamál tengd þessari sterlingvæðingu Skota.  Ef Englandsbanki mundi ekki lengur bera neina ábyrgð á peningamálum Skotlands, þá verður peningamálastefna hans ákveðin alfarið á grundvelli hagsmuna ríkjanna, sem eftir verða í Sameinaða konungdæminu, þ.e. Englands, Wales og Norður-Írlands. 

Sem dæmi er núverandi munur á vaxtastigi Seðlabanka Íslands og Seðlabanka evrunnar um 5 %.  Hefði Seðlabanki Íslands verið með vexti niðri við 0 í meira en eitt ár, þá er anzi hætt við, að verðbólgan væri hér ríflega yfir viðmiðun Seðlabankans, 2,5 %, en hún er nú undir 2,0 %, enda var Peningastefnunefnd að lækka vextina um 0,25 %. 

Ef þensla eða samdráttur hæfist á Skotlandi, en Bretland sigldi lygnan sjó, þá mundi Englandsbanki ekkert aðhafast.  Áhrifin á skozkt fjármálakerfi gætu varla orðið verri.  Skotland hýsir stórt fjármálakerfi, sem stendur undir 12,5 % af þjóðarframleiðslu Skotlands.  Ef enginn seðlabanki styddi við bakið á þessum fjármálageira, mundi verða litið á hann sem áhættusamari fjárfestingarkost, og lántökukostnaður hans mundi hækka.  Mörg þessara fjármálafyrirtækja mundu flytja höfuðstöðvar sínar til Englands og taka hálaunafólk og feita skattstofna með sér þangað.  Af þessum sökum er ekki raunhæfur kostur að fara leið Svartfjallalands o.fl. og evru-, pund- eða dollarvæða peningakerfið á Íslandi í blóra við viðkomandi seðlabanka eða án hans sem bakhjarls.  

Bezti valkostur Skotlands eftir aðskilnað samkvæmt greiningu vikuritsins The Economist  hljómar róttækastur: nýr gjaldmiðill og nýr seðlabanki.  Þetta er reyndar afar algengt skref: 28 nýir seðlabankar hafa verið stofnsettir á síðasta aldarfjórðungi. 

Greining Bretanna á því, hvað sjálfstæðu Skotlandi væri fyrir beztu í peningalegum efnum fer ekkert á milli mála.  Íslendingar geta nýtt sér greiningar af þessu tagi, því að sambærileg greining virðist ekki hafa farið fram fyrir Ísland, þó að Seðlabanki Íslands hafi reyndar gefið út greiningu um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum.

Þess vegna yfirgnæfa flautaþyrlar umræðuna hérlendis með gildishlöðnum fullyrðingum, sem eiga sér engan stuðning í rannsóknum.  Það er heimskulega áhættusöm stefnumótun að taka upp mynt annarrar þjóðar eða ríkjasambands, eins og ofangreind rannsókn Bretanna sýnir og dæmin frá evru-svæðinu sanna. 

Það er raunar dýrt fyrir fámenna þjóð að halda úti eigin gjaldmiðli, en séu réttar forsendur ekki fyrir hendi, verður að öllum líkindum mun dýrara að fórna eigin gjaldmiðli og taka upp erlenda mynt.  Hvernig sem við snúum okkur, með eigin mynt eða aðra, komumst við aldrei framhjá lögmálum peningalegs stöðugleika og sjálfbærs hagvaxtar, sem í stuttu máli felst í ströngum aga ríkisrekstrar, peningamagns í umferð og í samningum aðila vinnumarkaðarins.  Ef launþegar ríkis, sveitarfélaga eða einkageirans þvinga með einhverjum ráðum viðsemjendur sína til snöggrar hækkunar launa, sem engin innistæða er fyrir, þá fer stöðugleikinn veg allrar veraldar, og versti óvinur allra launþega, verðbólgan, veður fram og gleypir allar heimskulegar prósentuhækkanir launa.  Menn verða að sýna biðlund og þolinmæði og leyfa hagkerfinu að vaxa fiskur um hrygg áður en tekið er út úr "Gleðibankanum".    

Það er meiri fylgni á milli hagsveiflna Skotlands og Englands en á milli hagsveiflna Íslands og Englands, Þýzkalands, Bandaríkjanna eða Kanada.  Vegna smæðar íslenzka hagkerfisins mundu seðlabankar þessara myntsvæða ekki taka minnsta tillit til þarfa og hugsanlegra vandræða íslenzka hagkerfisins, þó að við værum í myntbandalagi undir þeirra stjórn. 

Gjörðir viðkomandi seðlabanka mundu þess vegna ekki einasta verða gagnslausar á Íslandi, heldur gætu þær hæglega orðið stórskaðlegar íslenzka hagkerfinu.  Það liggur í augum uppi, að íslenzka hagkerfið yrði eins og bátskæna í stórsjó, sem ræki stjórnlaus fyrir veðri og vindum, ef enginn væri seðlabankinn til að lægja öldurnar.

Það vekur samt athygli við málatilbúnað ótrúlega margra hérlendis, sem tjá sig opinberlega, að þeir eru í hlutverki námuhestsins, sem var með blöðkur við augun, svo að sjónarhornið varð þröngt til að hann fældist síður.  Menn tala um eða rita um stórt viðfangsefni, sem þeir reyna að lýsa, en þeir einblína á einn þátt aðeins, t.d. eina löpp á fíl, og lýsa fílnum út frá löppinni.  Þeir bíta í sig, að þeirra lýsing sé sú rétta og verða hinir verstu, ef þeim er andmælt og bent á villur síns vegar. 

Þetta er engan veginn bundið við Ísland eða okkar tíma og nægir í því sambandi að minna á meðferð páfastóls á Galileo Galilei, sem hélt því fram, að jörðin væri hnöttótt og snerist um sólina, en kirkjan, að jörðin væri flöt og miðdepill alheims.  Í öllum málum er affarasælla að rannsaka og draga síðan ályktanir en að sleppa hinu fyrr nefnda og halda sig við sleggjudóma í stað hins síðar nefnda. 

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, að þröngsýni er ljóður á ráði vinstri manna, en þeim virðist fyrirmunað að meta málefni heildstætt, heldur einblína á afmarkaða þætti í stað heildarmyndarinnar og fimbulfamba út frá því endalaust út í loftið.

Það er því miður að koma í ljós núna, að evran var reist á sandi.  Hún hefur hangið uppi á styrk Þýzkalands, en nú er komið í ljós, að ójafnræðið er of mikið á milli ríkjanna í EMU-evrópska myntbandalaginu, ríkisbúskapur þeirra er of ólíkur og hagsveiflur þeirra of fjarri því að vera í takti.  Vinnuaflið á evru-svæðinu er ekki nógu hreyfanlegt á milli landanna, m.a. vegna tungumálaerfiðleika, svo að kostir Innri markaðarins nýtast ekki fullkomnlega til að jafna atvinnustigið. Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, hefur sagt við landsmenn sína, að Þýzkaland ætti sér enga aðra kosti en að hlaupa undir bagga með bágstöddum evruþjóðum.  Þetta hefur fallið í grýttan jarðveg hjá þjóð, sem þykir þrengt að sér úr öllum áttum, og ekki í fyrsta skipti.

Það hefur nú runnið upp fyrir æ fleiri landsmönnum hennar, að þessi svo kallaði efnahagsstuðningur við bágstaddar evru-þjóðir gerir aðeins illt verra, og almannarómur í þessum bágstöddu löndum úthúðar Þjóðverjum fyrir aðhaldsstefnu sína í fjármálum heima og hjá ECB-seðlabanka evrunnar,  sem er í raun og veru stefna hinnar hagsýnu húsmóður, sem veit, að peningamál eru ekki vúdú, peningar vaxa ekki á trjánum, og það mun koma niður á börnunum að eyða um efni fram. 

Jafnaðarmenn í mörgum löndum eru þessu marki brenndir í ríkisfjármálum að slá lán og senda næstu kynslóð reikninginn.  Það tekur Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýzkalands, ekki í mál.  Hann vill heldur ekki prenta peninga, sem engin verðmætasköpun er að baki, því að hann veit, að versti óvinur fátækra fjölskyldna er verðbólgan.  

Nú er kominn fram stjórnmálaflokkur í Þýzkalandi, sem andmælir viðteknum viðhorfum til ESB og evrunnar þar í landi og nýtur 10 % og vaxandi fylgis.  Með skírskotun til orðanotkunar frú Merkel kallar þessi stjórnmálaflokkur sig einmitt Alternative für Deutschland - AfD - valkostir fyrir Þýzkaland.  Boðskapurinn er sjálfstætt Þýzkaland, sem kasti evrunni og taki upp þýzka markið að nýju - DEM.  Merkel, kanzlari, hefur aftur á móti sagt við þýzka þingið, að Þjóðverjar eigi ekki annarra kosta völ en að styðja evruna og ESB með ráðum og dáð. 

Það er að renna upp fyrir mörgum, að slík stefna mun verða Þýzkalandi æ dýrkeyptari í tímans ráð, og mun örugglega hamla hagvexti og lífskjörum þar í landi hjá þjóð, þar sem meðalaldur íbúanna hækkar ískyggilega vegna viðkomu, sem er svo lítil, að íbúafjöldinn mun hrapa um tugi milljóna á fyrri hluta þessarar 21. aldar, nema Þjóðverjar taki aftur að fjölga sér, hraustlega.

Þessum flokki, AfD, vex nú fiskur um hrygg í fylkiskosningum og þrengir hann að kanzlaranum.  Hún mun þess vegna ekki geta beitt sér fyrir björgun evrunnar í sama mæli og áður, af ótta við kjósendur, sem mun hafa grafalvarlegar afleiðingar í yfirvofandi evrukrísu á hagsvæði í bullandi vandræðum með verðhjöðnun og samdrátt hagkerfis.  Hillir nú undir stórtíðindi af Evrópuvígstöðvunum, og er þá léttir fyrir Ísland að hafa ekki rígbundið trúss sitt við þessa truntu, heldur hafa fleiri valkosti.  Við þurfum sem betur fer ekki að leyfa þessari truntu að rótnaga heimatúnið, en getum notað hana sem fuglahræðu, og munum þá gauka að henni tuggu og brynna eftir þörfum.            

Mario DraghiMarine Le Pen 2014   

           

      

 

  

 


Jarðhiti í þróun

Hlutdeild jarðvarma í heildarorkunotkun Íslendinga er 68 % og jafngildir 4,1 Mt (milljónum tonna) af jarðolíu á ári eða 171 PJ (PetaJoule) af orku.  Jarðvarminn er hagkvæmari en rafmagnið til upphitunar, sparar gjaldeyri og hefur mikla þjóðhagslega þýðingu.  Hagkvæmar vatnsaflsvirkjanir er þá hægt að nýta til iðnaðar í meiri mæli. 

Í Noregi, sem einnig þarf mikla orku til upphitunar húsnæðis, er megnið af húsnæðinu rafhitað, og Norðmenn eru farnir að draga úr raforkusölu til iðnaðar vegna skorts á orku frá vatnsaflsvirkjunum Noregs.  Fremur vilja þeir flytja inn orku um sæstreng en reisa gasaflsvirkjanir vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, og er auðvitað tvískinnungur fólginn í þessari afstöðu þeirra. Afleiðing þessarar strútsstefnu norsku jafnaðarmannanna, sem lengst af hafa setið þar við stjórnvölinn, er, að raforkuverðið hefur þar rokið upp úr öllu valdi, fátækt og gamalt fólk hefur króknað úr kulda í jafnaðarbælinu, og aðrir hafa bjargað sér með ófullkominni viðarkyndingu í kamínum, sem hefur gjörsamlega eyðilagt loftgæðin bæði innan húss og utan í þéttbýli.  Jafnaðarmennskan er eins og engisprettufaraldur, skilur eftir sig eyðimörk, þar sem hún fær að grassera, og kjaftaskarnir vegsama svo herlegheitin sem fyrirmyndarríkið.  Sannleikurinn er allur annar.  Nú þegar er tekið að flæða undan norsku athafnalífi vegna mikils tilkostnaðar, sem gerir Norðmenn senn ósamkeppnifæra, enda eykst nú atvinnuleysið þar.  Samt vantar þar í stöður, sem Norðmenn sjálfir nenna ekki að sinna.  Olíuauðurinn er tvíbent vopn, og með núverandi olíuverði, 85 USD/tunna, er mikið af olíuvinnslu í norskri lögsögu rekið með tapi.  Á því verður varla lát á næstunni.   

Hin háa hlutdeild jarðvarma á Íslandi er einstæð í heiminum aðallega vegna þess, hversu útbreiddar hitaveitur eru í landinu, en um 95 % af upphituðu húsnæði (í m2) í landinu nýtur hitaveitu frá borholum.  Annað húsnæði er hitað með rafmagnsofnum eða fjarvarmaveitum, sem ekki tengjast borholum. Það er mikil hitunarþörf í landinu, jarðhiti ótrúlega víða og fer slíkum stöðum fjölgandi, þar sem jarðhiti 60°C eða hærri finnst á innan við 1 km dýpi.  Nú hefur verið þróuð tækni til þess að auka afl í gufuborholum án djúpborana, og er sú þróun m.a. efni þessarar greinar.  Djúpboranir eftir háhita með mjög mikinn orkuþéttleika, allt að tífalt afl per holu eða 50 MW, eru í þróun, en hafa enn ekki tekizt.

Hlutdeild jarðgufu í raforkuvinnslu á Íslandi er mun lægri en hlutdeild jarðvarmans í heildinni hér að ofan.  Í landinu er uppsett afl jarðgufuvirkjana 0,67 GW, og er hlutdeild þeirra 29 % af raforkumarkaðinum á Íslandi.  Þessi háa hlutdeild jarðgufu í raforkuvinnslu er samt einsdæmi í heiminum og er t.d. aðeins 0,4 % í Bandaríkjunum, BNA.  Í Afríku er nú verið að virkja mikið af jarðgufu og vatnsafli til raforkuvinnslu, og þar eru líka reist kolakynt raforkuver, enda stendur raforkuskortur hagvexti í álfunni og loftgæðum í þéttbýli fyrir þrifum.  Íslendingar eru aðeins nr 7 í röðinni, þegar talið er eftir uppsettu rafafli í jarðgufuvirkjunum, en þar er röð 8 efstu svona um þessar mundir:

  1. BNA: 3,4 GW eða 5,5 falt á við Ísland
  2. Filippseyjar: 2,0 GW eða þrefalt á við Ísland
  3. Indónesía: 1,4 GW eða tvöfalt á við Ísland
  4. Mexíkó: 1,0 GW eða 1,5 falt á við Ísland
  5. Ítalía: 0,95 GW eða 1,4 falt á við Ísland
  6. Nýja-Sjáland: 0,9 GW eða 1,3 falt á við Ísland
  7. Ísland: 0,67 GW
  8. Japan: 0,6 GW 

Þróun jarðhitamála er hröðust í BNA um þessar mundir, þar sem nú er verið að innleiða tækni setlagasundrunar (Shale fracturing-fracking) við borun eftir jarðhita.  Þar er þó aðeins borað lóðrétt, enn sem komið er, en gasvinnsla með setlagasundrun er reist á bæði lóðréttri og láréttri borun.  Þúsundum tonna af blöndu vatns, sands og ýmissa efna er dælt niður í holu, sem er 1,0-4,0 km á dýpt,  undir miklum þrýstingi, og síðan er vatni dælt niður, þar sem það hitnar og kemur sem aukin gufa upp um holuna, og getur slíkt margfaldað afl holunnar.  Þetta er kallað "Enhanced Geothermal Systems" á ensku og skammstafað EGS.

Það er skrýtið, að ekki skuli enn fjallað um þessa aðferð að ráði opinberlega á Íslandi, af því að EGS virðist geta gert jarðgufuvirkjanir mjög samkeppnihæfar og geti jafnvel skákað vatnsaflsvirkjunum í framtíðinni.  Ef HS Orka og Orka Náttúrunnar mundu fara þessa leið við orkuöflun upp í  undirskrifaða samninga sína við Norðurál í Helguvík, mundi svo mikil og hagstæð orka losna úr læðingi, að engum vandkvæðum yrði bundið að uppfylla samningana við Norðurál, öllum til hagsbóta.  Hver vinnsluhola kostar að jafnaði um MUSD 5,0 eða um MISK 570, og um helmingur þeirra misheppnast, sem þýðir, að kostnaður við hverja nýtanlega holu er um ISK 1,0 milljarður. 

EGS fækkar misheppnuðum holum og stækkar vinnslusvæði hverrar holu.  Í Nevada í BNA hefur EGS aukið aflgetu á tilraunasvæði um 38 % með kostnaði, sem nemur 25 USD/MWh raforku, sem er svipað og jaðarkostnaður íslenzkra fallvatna um þessar mundir.  Til samanburðar er vinnslukostnaður í nýjum gasorkuverum 67 USD/MWh um þessar mundir í BNA.  Bandaríska orkuráðuneytið áætlar, að með EGS megi auka hlutdeild jarðgufu í rafmagnsvinnslu í BNA upp í 10 %, sem þýðir fertugföldun á hlutdeild.  Hér er þess vegna um að ræða byltingarkennda þróun í raforkuvinnslu með bættri nýtingu jarðhitasvæða.

Í Oregon ætla fjárfestar að gera tilraun með EGS og búast við að geta náð 6-10 faldri orku upp um hverja holu á við eldri EGS-tækni. 

Fjárfestar á jarðhitasvæðum BNA hafa nú þegar meiri áhuga fyrir EGS en sólarhlöðum og vindrafstöðvum, af því að orkuþéttleiki á nýtingarsvæði er hár og stöðugleiki vinnslunnar mikill og miklu meiri en með sól eða vindi.  EGS er talið munu verða afar arðsamt þegar á næsta ári, 2015, og Þjóðverjar, Frakkar og Bretar eru nú þegar teknir til við að semja rannsóknaráætlanir. 

Nýting þessarar tækni verður mikilvæg fyrir Vestur-Evrópu til að auka orkuöryggi landanna þar, draga úr orkukostnaði og að bjarga þessum löndum undan hrömmum rússneska bjarnarins, sem tekinn er að hóta öllu illu og er þess albúinn að kúga Evrópulöndin með því að skrúfa fyrir gasleiðslur þangað.  Hegðun hans mun þó að sjálfsögðu verða honum afar dýrkeypt.

Þessi aðferð til afkastaukningar jarðhitasvæða, sem á íslenzku mætti skammstafa AJH, gefur mikið í aðra hönd, en hún er ekki áhættulaus.  Niðurdælingin getur valdið minni háttar jarðskjálftum, og fólki er illa við slíkt. Hætt var við eitt verkefni af þessu tagi í grennd við Basel í Sviss vegna mótmæla.  Það er einnig möguleiki á "vökvaleka" út í jarðveg, stöðuvötn og grunnvatn.  Mótvægisaðgerðir hafa verið þróaðar fyrir þessa tækni til að draga úr áhættunni, en það á eftir að koma í ljós, hvort umhvefisverndarsinnar meta þær fullnægjandi.       

 Jarðgasvinnsla úr setlögumVarmaorka 

   

  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband