31.12.2010 | 17:00
Við áramót 2010/2011
Land elds og ísa stóð undir nafni árið 2010. Huggulegt túrhestagos á Fimmvörðuhálsi breyttist í náttúruhamfarir, þegar gos hófst undir Eyjafjallajökli, sem varð um hríð alræmdur í Evrópu, og þó að víðar væri leitað. Bændur og búalið undir Eyjafjöllum sýndu aðdáunarvert æðruleysi við aðstæður, sem voru erfiðari en orð fá lýst. Minnisstæð er myndin af gröfu Suðurverks og stjórnanda hennar, þar sem hann rauf þjóðveg 1 og bjargaði þar með túnum á stóru svæði ásamt Suðurlandsvegi. Þessi maður ætti skilinn titilinn hetja ársins 2010.
Stóriðjan varð líka fyrir búsifjum á árinu 2010. Í öllum iðjuverunum 4, sem framleiða málma eða melmi, kom upp eldur, þó að af ólíkum toga væri. Leiðir þetta hugann að þeirri staðreynd, að á þessum vinnustöðum er fengizt við feiknaafl. Losni það úr læðingi, er voðinn vís. Þetta fékk ISAL að reyna 19. júní 2006, er spennumælaspennar sprungu af völdum afar sjaldgæfs fyrirbrigðis, er járnherma ("Ferroresonance") nefnist. Spennarnir voru þurrir, þ.e. innihéldu enga olíu, svo að enginn eldur hlauzt af. Þeir sáu hins vegar týristorafriðlum verksmiðjunnar fyrir nauðsynlegum mælimerkjum, og af þeim sökum stöðvaðist rekstur þessara afriðla. Fræðileg greining á orsökum fór fram strax í kjölfarið, og var hönnun breytt með ýmsum hætti til að draga úr líkum á sams konar atburði og til að draga úr afleiðingunum, ef skilyrði járnhermu mynduðust aftur.
Líklegt er, að svipaðri aðferðarfræði sé nú beitt hjá Fjarðaáli í Reyðarfirði eftir hrikalegan bruna, sem þar kom upp í stórskornum og flóknum spenni nú í desember. Augljóslega verður rekstur þessarar Alcoa verksmiðju viðkvæmur, þar sem ein afriðladeildin verður ótiltæk mánuðum saman, en hinar væntanlega undir meira álagi en áður.
Hjá Norðuráli losnaði mikið afl einnig úr læðingi, þegar skammhlaup urðu í rofabúnaði. Þegar slíkt gerist, verður spennufall svo mikið á stofnkerfi Landsnets, að margir notendur verða varir við.
Hjá ISAL í Straumsvík kviknaði í rafstrengjum í lagnakjallara steypuskálans við álleka ofan í kjallarann. Atburðurinn lamaði steypuskálann um tíma og varð að draga úr framleiðslu kerskálanna um hríð fyrir vikið. Engu að síður verður árið 2010 metframleiðsluár í sögu verksmiðjunnar. Má merkilegt heita, hverju unnt er að ná út úr gamalli verksmiðju. Það er þó ekki tilviljun, því að beitt er beztu tækni við rekstur og viðhald undir kjörorði stöðugrar þróunar og umbóta. Má segja, að góður árangur sé afrakstur mikillar reynslu, staðgóðrar þekkingar og frjósams samstarfs við aðrar deildir móðurfyrirtækisins.
Ljóst er, að móðurfyrirtæki ISAL í Straumsvík, Rio Tinto Alcan, hefur fullan hug á að treysta starfsemi sína á Íslandi. Fyrirtækið braut ísinn á árinu og ákvað miklar fjárfestingar (um MUSD 500 eða ISK 60 milljarðar) í Straumsvík, sem miða að bættu afhendingaröryggi jafnstraums til allra kerskálanna þriggja, framleiðsluaukningu í þeim um 40 kt/a og nýrri afurð steypuskálans, sem á að tryggja markaðsstöðu samsteypunnar í Evrópu til framtíðar litið. Þessi fjárfestingarákvörðun kom á góðum tíma fyrir hagkerfi Íslands, sem er í fjárfestingarsvelti. Landsvirkjun fékk tryggingu fyrir orkukaupum frá Búðarhálsvirkjun til langs tíma, svo að hverfandi lítil áhætta fylgir lánveitingu til verkefnisins eða skuldabréfakaupum af fyrirtækinu, enda mun Deutsche Bank hafa riðið á vaðið og gert nýjan viðskiptasamning við fyrirtækið á viðunandi kjörum m.v. orkuverðið, svo að arðsemi Búðarháls er tryggð.
Um þjóðhagslega arðsemi stóriðjuframkvæmda og virkjana þeirra vegna þarf enginn að efast. Það er auðvelt að sýna fram á, að betri kostir eru ekki í boði. "Eitthvað annað" er tómt mál að tala um, enda standa þessar eða aðrar stóriðjuframkvæmdir ekki í vegi fyrir neinum. Hins vegar blómstrar margháttuð starfsemi í skjóli orkuvinnslu og orkunýtingar. Er nauðsynlegt á nýju ári að nýta öll möguleg tækifæri á þessu sviði sem vogarstöng upp úr stöðnun, sem grefur um sig og veldur hrörnun á öllum sviðum.
Til slíkrar framfarasóknar þarf stjórnmálalega forystu. Það er útséð um, að slíka er ekki að finna innanborðs hjá núverandi stjórnarflokkum. Nauðsyn ber til að stokka sem fyrst upp á löggjafarsamkundunni og kalla fersk öfl upp í brúna og niður í vélarrúm til að ausa og síðan að ræsa öfluga vél, setja á fullt afl, rykkja fleyinu af strandstað og taka stefnuna út úr brimgarðinum.
Það má engan tíma missa úr þessu. Það sýnir "The Global Debt Clock", sem skoða má á vefsetri "The Economist". Samkvæmt þessari skuldaklukku nema opinberar skuldir Íslands 14 milljörðum bandaríkjadala (USD) eða um 43 þúsund bandaríkjadölum á íbúa (kUSD 43/íb). Þessar skuldir eru 129 % af þjóðarframleiðslunni, og jukust skuldirnar um 2,3 % árið 2010. Þetta eru allt mjög háar tölur og meðal þess hæsta, sem gerist. Við svo búið má alls ekki standa. Ljóst er, að núverandi stjórnvöld ráða engan veginn við þennan vanda. Þau virðast ekki skilja vandamálið, og lausnirnar eru þess vegna hvorki fugl né fiskur. Ríkisstjórninni má líkja við fjörulús á tjöruspæni. Hún kemst ekki spönn frá rassi. Svo nefnd félagshyggja er gjaldþrota og algerlega gagnslaus, þegar vandi steðjar að.
Til samanburðar við ofangreindar tölur má taka annað land í vanda, Írland. Þar námu opinberar skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu (GDP) "aðeins" 79 %, og þessar skuldir minnkuðu um 0,9 % árið 2010. Aðild Írlands að ESB hefur ekki hjálpað Írum neitt. Þvert á móti urðu þeir að hlíta ákvörðun ESB um að styrkja einkabanka með gríðarlegum upphæðum frá skattborgurunum. Evran er þeim til trafala nú, því að hagbólan á Írlandi leiddi til kostnaðarhækkana, sem voru miklu meiri en í Þýzkalandi, forystulandi ESB, en gengi evrunnar hangir núna alfarið á góðu gengi þýzku útflutningsvélarinnar.
Þjóðverjar eru vel að árangri sínum komnir. Þeir eru farnir að bera úr býtum eftir endursameiningu landsins og endurreisn austurhluta landsins og eftir að hafa hert sultarólina 1999-2009. Hin mikla breyting í stjórnmálum Evrópu árið 2010 er sú, að Þýzkaland hefur nú stigið fram sem forystuland ESB og álfunnar allrar. Þetta gerist vegna yfirburðastöðu hagkerfis þeirra og vegna traustvekjandi stefnumörkunar innanlands og utan. Menningarþjóð með mikla sögu blómstrar nú undir merkjum lýðræðis.
Gleðilegt nýár.
Bloggar | Breytt 4.1.2011 kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2010 | 10:36
Er evran svarið ?
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að evran er nú í svo miklu hafróti, að seinna mun segja af því, hvort hún nær landi. Nái hún landi, er vafa undirorpið, hvort hún verði þá ólöskuð. Margt bendir nú til, að hvorki evran né ESB verði söm eftir þann hildarleik, sem fram fer á fjármálamörkuðum heimsins um þessar mundir. Þetta gæti leitt til þess, að kvarnist úr myntbandalaginu og/eða ESB breyti um eðli og taki upp miðstýrða fjárlagastefnu, sem færir það skrefi nær sambandsríki en áður. Óvissan um framtíð evru og ESB óx til muna árið 2010.
Við þessar aðstæður hefur efnahags-og viðskiptaráðherra Íslands kallað eftir greiningu á kostum þess og göllum að taka upp evru. Hann gerir þetta reyndar í kindugu ljósi. Árni Páll Árnason hefur sjálfur marglýst yfir þeirri skoðun sinni, að evran eigi að leysa íslenzku krónuna af hólmi sem fyrst, og hið sama er stefna flokks hans, Samfylkingarinnar. Hvernig gátu þessir aðilar myndað sér stefnu án undanfarandi greiningar ? Hvernig geta þessir sömu aðilar ríghaldið í stefnu sína, þó að umhverfið, þ.e. staða evrunnar, sé gjörbreytt ? Það er margt, sem bendir til þess, að þessi stefnumörkun sé illa ígrunduð fyrir hagsmuni almennings á Íslandi og íslenzka hagkerfisins í heild sinni, eins og hér verður fjallað um.
Það er mála sannast, að til að geta tekið upp evru, að reglum ESB og Evrópubankans, ECB, og án þess að hér fari samstundis allt á hvolf, þarf að hafa náðst viss stöðugleiki í efnahagsmálum. Þar er um að ræða ríkisbúskap, ríkisskuldir og peningamál hins opinbera hagkerfis. Þessum tilskilda stöðugleika er unnt að ná, eins og sýnt var fram á í vetrarhefti ársfjórðungsritsins Þjóðmála, sem kom út í desember 2010, og enn styrkari stoðum er unnt að skjóta undir stöðugleika hagkerfisins með stjórnkerfisbreytingum á grundvelli nýrrar Stjórnarskráar, sem drægi dám af stjórnarskrám þeirra, sem beztum árangri hafa náð í efnahagsmálum. Upptaka erlends gjaldmiðils verður þá valkostur, en ekki þvingaður kostur.
Þegar þessum stöðugleika verður náð, þá reka okkur Íslendinga engar nauðir til að taka upp evru eða annan erlendan gjaldmiðil. Þá verður enginn ávinningur við erlenda mynt hér, en hins vegar talsvert óhagræði. Óhagræðið felst í því, að um fastgengi verður þá að ræða án tillits til afkomu og samkeppnihæfni útflutningsatvinnuveganna. Raungengið getur þá skekkzt mjög, eins og sýnt er á súluritinu hér að ofan af myntsvæði ESB. Þessi ólíka þróun raungengis evrulandanna er sterk vísbending um, að evran eigi sér ekki viðreisnar von að óbreyttu skipulagi ESB.
Til að jafna metin og draga úr verðbólgu þurfa ríki með of hátt gengi að lækka tilkostnað atvinnuveganna eða að auka framleiðnina í meiri mæli en gerist í samkeppnihæfari ríkjunum. Þetta er erfitt í rígbundnum hagkerfum Evrópu og reynist mörgum um megn. Það er t.d. ákaflega erfitt að lækka fólk í launum í kjarasamningum. Raunlaunalækkun er það, sem gerist við gengisfellingar. Slík raunlaunalækkun er óhjákvæmileg, þar sem halli er á utanríkisviðskiptum.
Téður ráðherra birti grein um efnið mánudaginn 27.12.2010. Blaðagrein þessi er furðulega vanburðug. Hann lætur líta þannig út, að val Íslendinga standi á milli fjármálahafta (Capital Control) og upptöku evru. Þetta er tóm vitleysa, því að ríkisstjórnin getur afnumið gjaldeyrishöftin með lagabreytingu og ætti að manna sig strax til framlagningar slíks frumvarps á Alþingi. Gengið mundi fljótlega leita eðlilegs jafnvægis fyrir utanríkisviðskipti og skuldastöðu landsins. Ríkisstjórnin, trú úreltum hagstjórnarkenningum hafta og forræðishyggju, heldur hins vegar dauðahaldi í forarvilpu spillingar, sem úthlutun hins opinbera á takmörkuðum verðmætum, t.d. undanþágum frá höftum, jafnan hefur í för með sér. Höftin halda aftur af hagkerfinu, grafa um sig, og valda sóun og spillingu. Ráðherra snýr orsakasamhengi á haus. Til að ná stöðugleika verða höftin fyrst að hverfa, en ekki öfugt.
Hin furðurök efnahagsráðherra Samfylkingar snúa að því, að krónan standi í vegi erlendra fjárfestinga á Íslandi. Ráðherrann vísar til þess, að Írar setji nú traust sitt á erlendar fjárfestingar að draga þá upp úr argvítugri skuldasúpu, sem ábyrgð ríkisins á einkabönkum leiddi til þar í landi. Hér liggur sannleikurinn óbættur hjá garði ráðherrans. Fjárfestar hafa aðallega áhuga fyrir Írlandi vegna þess, að þar er lægstur tekjuskattur á fyrirtæki innan ESB, þó að Brüssel hafi beitt þvingunarúrræðum á Íra án árangurs til að fá þá til að hækka tekjuskattinn. Ráðherrann skilur ekki þennan hvata, enda stendur hann að hækkun þessa og annarra skatta með hverjum fjárlögum ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri grænna.
Fyrirtækjum í erlendri eigu (og öðrum) er í lófa lagið að færa bókhald sitt í erlendri mynt. Íslenzki markaðurinn er svo lítill, að erlend fyrirtæki hafa sjaldnast áhuga á honum til fjárfestinga. Þau hafa hins vegar mörg hver áhuga á að nýta innlendar auðlindir til útflutnings. Til þess verða þau að fjárfesta í landinu. Tekjur þeirra eru þá í erlendri mynt, og gengi íslenzku krónunnar skiptir þau harla litlu máli. Þau hafa þannig komið sér upp öflugum gengisvörnum. Hvernig getur téður ráðherra verið þekktur fyrir að halda uppi svo einfeldningslegum rökum, sem hér hafa verið gerð að umræðuefni ? Fyrir umrædda Fréttablaðsritgerð sína fær hann 2,5 af 10,0 fyrir viðleitni. Er allt á sömu bókina lært hjá Árna Páli Árnasyni ?
Spyrja má, hvað valdi hrikalegri vantrú Samfylkingarinnar á, að Íslendingar geti spjarað sig sjálfir, og oftrú þeirra á að færa mikilvæga ákvarðanatöku um hagsmunamál Íslendinga til Brüssel. Getur verið, að ráðherrann dreymi um að sitja veizlur, stórar, með höfðingjum í Brüssel ? Hætt er við, að slíkar draumfarir verði endasleppar, því að lítil spurn er eftir jafnyfirgripsmikilli vanþekkingu og getuleysi og hér um ræðir á meðal nokkurra hópa manna, utan Samfylkingarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.12.2010 | 14:11
Harmsaga fjárhirðis
Rök hafa verið leidd að því, að engin dæmi finnist um jafnhrikalegt vanmat á eigin stjórnmálalegu stöðu á seinni tímum og hjá Steingrími Jóhanni Sigfússyni (SJS), þegar hann gekk til samstarfs við Samfylkinguna 2009, sbr Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, dags. 17.12.2010. Hann gat haft tögl og hagldir við stjórnarmyndanirnar þá, en glutraði niður tækifærinu.
Fyrir vikið lét hann Samfylkinguna leggja upp í sig og síðan teyma þægan við einteyming til samstarfs við AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinn) og til forkastanlegra samninga um mjög þungbærar klyfjar á íslenzka skattgreiðendur vegna gjaldþrots einkabanka í útlöndum, sem voru svo herfileg mistök, að varða hiklaust Landsdómi, og síðast en ekki sízt sveik hann flokksmenn sína og kjósendur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og varðaði leiðina til inngöngu í ESB (Evrópusambandið).
Þessum fjárhirði íslenzka ríkiskassans hefur nú enn orðið á í messunni. Hann lagði fyrir Alþingi hrákasmíði í gervi fjárlagafrumvarps, sem gekk fram af almenningi og ofbauð eigin flokksmönnum. Þrír þingmenn VG helltust úr lestinni við lokaatkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið, og eftir það munu vinstri grænir ekki bera sitt barr. Ríkisstjórn Jóhönnu hefur aldrei borið neitt barr, svo að þar á verður engin breyting. Hún skilur alls staðar eftir sig sviðna jörð.
Fjármálaráðherrann er þannig orðinn ber að algeru dómgreindarleysi. Honum er ekki hægt að treysta fyrir horn. Allt, sem frá honum kemur, ber að sæta mikilli tortryggni, og vísast er það almannahag stórskaðlegt.
Það sætir þess vegna furðu, að fúsk á borð við fjárlagafrumvarp SJS skuli ekkert mótatkvæði hljóta. Fjárlögin eru reist á blekkingum og röngum hagspám. Hagspá SJS miðar við hagvöxt, en stefna ríkisstjórnarinnar leggur stein í götu framkvæmda, sem hérlendis eru forsenda hagvaxtar. Ofurskattlagning lamar hagkerfið, og fjandskapur ríkisstjórnarinnar í garð athafnalífsins heftir vilja til fjárfestinga í gjaldeyrisskapandi starfsemi, t.d. í sjávarútvegi.
Samkomulagið við AGS átti að renna út í nóvember 2010, en ríkisstjórnin er látin sitja eftir eins og hverjir aðrir tossar. Hún hefur auðvitað staðið sig illa, en kominn er tími til að losna úr viðjum AGS. Eins og myndin hér til hliðar sýnir, er fjármagnsflæði til hagkerfa á uppbyggingarskeiði mjög tekið að glæðast eftir síðasta hrun fjármálakerfis heimsins, og virðist engin þörf fyrir íslenzka ríkið lengur að vera undir handarjaðri AGS. Íslendingar standa í þakkarskuld við AGS fyrir að veita tryggingar á válegum tíma, en hegðun hans síðan er ekki alls kostar ásættanleg, og lítillækkandi er, að hann verði hér eilífur augnakarl.
Velferðarstjórn fjármálakerfisins á Íslandi er ekki á þeim buxunum að afnema fjármálahöftin í bráð. Bankarnir græða á þeim, og skömmtunarstjórarnir halda dauðahaldi í skömmtunaraðstöðuna. Skrýtni karlinn í Seðlabankanum, gamli Marx-Lenínistinn, er yfirskömmtunarstjórinn. Hann er jafnframt eini seðlabankastjórinn í heiminum, nema vera skyldi í Zimbabwe, sem rekur jafnframt tryggingafélag. Hann setti löpp á milli stafs og hurðar og kom þannig í veg fyrir endureinkavæðingu þess, trúr fornum átrúnaði sínum. Störf þessa handbendis velferðarstjórnar bankanna eru orðin að lélegum brandara.
Tveir góðkunnir hagfræðiprófessorar, Jón Daníelsson og Ragnar Árnason, rituðu haglega hugvekju í Morgunblaðið 17.12.2010 undir fyrirsögninni: "Gjaldeyrishöftunum þarf að aflétta sem fyrst". Þeir fullyrða, að efnhagsstefna ríkisstjórnarinnar sé reist á gjaldeyrishöftum. Þetta eitt og sér er nóg til að gefa stjórnarómyndinni falleinkunn, því að ríki með gjaldeyrishöft getur ekki staðizt öðrum snúning í keppninni um erlent áhættufé, getur ekki búið frumkvöðlum eðlilegt umhverfi og er dæmt til að verða undir í keppninni um að búa þegnum sínum fyrirmyndar lífskjör.
Prófessorarnir segja þegar vera kominn upp þjóðhagslega óarðbæran atvinnuveg við að framfylgja höftunum hjá hinu opinbera og hjá fyrirtækjum við að komast fram hjá þeim. Spilling grasserar og forsjárhyggjan dillir sér. Að skammta verðmæti til gullrassa og gæludýra eru hennar ær og kýr.
Téðir höfundar leiða rök að stórfelldri skaðsemi gjaldeyrishaftanna fyrir efnahagslífið, sem dragi úr samkeppnihæfni þess og rýri þannig lífskjör almennings: "Með því að viðhalda gjaldeyrishöftunum erum við í raun að tilkynna, að íslenzk stjórnvöld annaðhvort geti ekki eða vilji ekki reka hagkerfi samkvæmt þeim leikreglum, sem tíðkast í þróuðum ríkjum. Þar með er verið að lýsa því yfir, að Ísland sé þriðja heims efnahagssvæði, þar sem búast megi við, að stjórnvöld skelli á og viðhaldi beinum gjaldeyrishöftum og öðrum takmörkunum langtímum saman." (Stafsetning og ritháttur prófessoranna færð til betri vegar.)
Með vísun til ofangreindrar niðurstöðu virtra fræðimanna á hagfræðisviðinu gegnir furðu, að ríkisstjórnin skuli vera með landsmenn á vegferð inn í ESB án þess að fjarlægja þessi höft, sem klárlega eru brot á fjórfrelsinu, sem kveður á um frjálsa fjármagnsflutninga á Innri markaðinum.
Ánægjuegt er á aðventunni að sjá virta hagfræðiprófessora taka þannig til orða í téðri Morgunblaðsgrein: "Við Íslendingar, eins og svo margar aðrar þjóðir, höfum lært af biturri reynslu, að ríkisforsjá efnahagslífsins er ekki til velsældar fallin. Hún leiðir jafnan af sér óhagkvæmni og sóun og hneigist gjarnan til pólitískrar fyrirgreiðslu og mismununar."
Að fernu ber nú að vinda bráðan bug :
- Að afnema gjaldeyrishöftin með vönduðum undirbúningi, er feli í sér samstarf við erlenda seðlabanka og varaáætlun
- Að binda endi á samstarfið við AGS í núverandi mynd
- Að stöðva inngönguferlið í ESB og biðja stækkunarstjóra þess afsökunar á frumhlaupi gálausra og bernskra hérlendra stjórnvalda
- Að liðka fyrir erlendum fjárfestingum í hvívetna og greiða veg fjárfesta til nýtingar auðlinda í lögsögu landsmanna.
Með þessum hætti, og skipulegri einföldun og uppstokkun skattkerfisins, mun takast að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju og öllu vinnufúsu fólki, innanlands og brottfluttu, til arðsamra starfa hér á ný. Jafnframt ber stöðugt að minnast þess, að vítin eru til að varast þau. Það má sízt fyrnast á næsta velmegunarskeiði.
Bloggar | Breytt 19.12.2010 kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2010 | 13:55
Umbúðastjórnin
Fyrir nokkrum árum kom út bókin Umbúðaþjóðfélagið. Var þar bent á bruðl í óþarfa, sem einkennandi væri fyrir nútímaþjóðfélagið. Þá þekkjum við einnig fornt og fallegt ævintýri um barnið og keisarann klæðlausa og heimska, en vefarar og klæðskerar ríkisins töldu honum trú um, að nektin væri dýrasta hýjalín, en svo vel ofið, að það dyldist sjónum.
Nú hefur afkvæmi Samfylkingar og vinstri grænna, ríkisstjórnin Steingrímur Jóhanna, í vesældómi sínum sameinað þetta tvennt. Öll hennar verk eru einvörðungu innihaldslausar umbúðir. Stjórnin sjálf er ekki sveipuð dýrmætu hýjalíni, heldur viðbjóðslegum, endurunnum, gatslitnum umbúðum. Þetta eru marxista-kenningar um forræði ríkisvalds yfir atvinnulífinu og ofurskattlagningu alls fjár, lauss og fasts, sem umfram er brýnustu lífsnauðsynjar. Skvaldur um lýðræðisást, ákvörðunarvald fólksins, brjóstvörn alþýðu og opna stjórnsýslu eru umbúðir spunahvolpa utan um ekki neitt.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður villuráfandi vinstri snata, hefur með purkunarlausum hætti, með Hrunið að yfirvarpi, hækkað alla skatta upp úr öllu valdi. Hann greip tækifærið í kjölfar Hruns og gerði úr sér gengna marxistahrollvekju sína að veruleika. Fyrir þetta situr hann í ríkisstjórn, og fyrir þetta mun hann lenda á ruslahaugum sögunnar sem hvert annað marxistagóss.
Fyrir vikið hefur hagkerfi Íslands skroppið saman allan hans tíma í fjármálaráðuneytinu og getur ekki annað. Það var fyrirsjáanlegt, og stjórnarandstæðingar létu þá skoðun í ljós strax, þegar þessi hagstjórnarheimska var viðruð. Hvergi annars staðar á Vesturlöndum dettur ríkisstjórn í hug að fara Steingrímsleiðina við að jafna ríkissjóðshalla. Niðurskurður ríkisútgjalda sem hlutfall af lækkun hallans er yfirleitt á bilinu 60 %-90 %, en hér er hann 20 % -40 %.
Allar vinstri stjórnir á Íslandi, og reyndar víðast hvar í heiminum, hafa safnað skuldum, og núverandi hörmung er þar engin undantekning. Samkvæmt Hagstofunni voru þær 30.9.2010 1676 milljarðar kr, þar af 378 milljarðar kr (23 %) erlendar skuldir, og höfðu þá á 12 mánaða skeiði aukizt um 258 milljarða kr eða um 18 %. Þessi þróun er stórhættuleg og hana verður að stöðva strax, því að skuldir ríkissjóðs nema nú 109 % af landsframleiðslu, sem stöðugt skreppur saman að raungildi. Ríkisstjórnin hefur enga stjórn á málum, hún veltur áfram, og stefnir fram af hengiflugi þjóðargjaldþrots.
Við þessar ömurlegu aðstæður fréttist, að ríkisstjórnin Steingrímur Jóhanna hafi með samninganefnd sinni náð enn einu samkomulaginu við Breta og Hollendinga um að bæta eftirstöðvum úr gjaldþroti óreiðumanna á erlendri grundu ofan á skuldahrúguna. Helztu rökin eru þau, að í þetta sinn muni vextir og afborganir nema 430 milljörðum kr lægri upphæð en þeirri, sem þjóðin hafnaði 6. marz 2010. Steingrímur Jóhanna fullyrti þá, að hagstæðari samningum væri ekki unnt að ná og að hvorki fengjust lán né fjárfestingar til landsins, nema samkomulag hennar við Breta og Hollendinga yrði staðfest af þingi og þjóð. Allt reyndist þetta vera tóm vitleysa algerra ómerkinga, sem þó sitja enn að völdum í skömm sinni.
Enn fara þessir sömu ómerkingar á flot með löglausar kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum. Það er með öllu óþarfi að samþykkja löglausar kröfur á hendur ríkissjóði Íslands, sem er á gjaldþrotsbarmi nú þegar. Þetta deilumál á heima fyrir dómsstólum. Ef við vinnum málið, sem mestar líkur eru á, þá höfum við bjargað ríkissjóði. Ef við töpum, þá getur dómurinn ekki hljóðað upp á hærri upphæð en samkvæmt þessu síðasta samkomulagi.
Það er deginum ljósara, þótt óljós sé um þessar mundir, hvað knýr fyrirbrigðið, sem kallar sig Samfylkingu, áfram. Það er þýlyndi við skrifræðisseggi ESB í Brüssel. Steingrímur Jóhanna þjösnast áfram á grilluvegferð sinni með Ísland inn í ríkjasamband á brauðfótum. Það er búið að gera Steingrími Jóhönnu skiljanlegt, að ekkert geti orðið af innreið í Brüssel, nema "Icesave" deilunni verði rutt úr vegi. Forystusauðir Samfylkingar vaða eld og brennistein til að koma landinu inn í samfélag skrifræðisbáknsins, og gildir einu fyrir þá, hvort landið kemst í greiðsluþrot fyrir vikið. Þá gildir einu, þótt evran sé fallin, eins og sjá má á grafi hér fyrir ofan (brattur hnigull). Hún var alla tíð yfirskin. Hið kratíska samfélag skrifræðis, og löngunin til að verða hluti af stærri heild, yfirskyggir gjörsamlega heilbrigða skynsemi og sjálfstæðisvilja. "Miklir menn erum við, Hrólfur minn."
Það má geta sér til um, hvað býr að baki sjúklegri áráttu Steingríms Jóhönnu að koma löglausum skuldaklafa á þjóðina. Steingrími og vinstri grænum gengur það eitt til að geta eftir á haldið því fram, að hvort sem banki er í einkaeigu eða í ríkiseign, þá lendi gjaldþrotið á ríkinu. Þetta telur hann muni skjóta stoðum undir ríkisrekstur á fjármálasviðinu í framtíðinni og þar með sem víðast í atvinnulífinu. Þessi stefna er við lýði hjá Evrópusambandinu, ESB, og er að ganga af því dauðu. Írar fóru flatt á að ríkistryggja alla banka tröllvaxins bankakerfis síns, sem reyndar var hlutfallslega helmingi minna en hið íslenzka, sem var krabbamein á þjóðarlíkamunum og skorið burt af Geir Haarde og ríkisstjórn hans. Steingrímur Jóhanna klúðraði hins vegar gjörsamlega eftirmeðferðinni, eins og öllu öðru, sem hún hefur komið nálægt. Bandaríkjamenn settu óhemju fé í bankakerfið, en leyfðu sumum að rúlla, t.d. Lehman Brothers. Ríkisábyrgð er skaðvaldur, því að hún ýtir undir áhættufíkn og ábyrgðarleysi.
Íslenzka leiðin er hins vegar sú, að ríkið ábyrgist einvörðungu bankainnistæður innanlands, en taki enga ábyrgð á lántökum fjármálastofnana né bankainnistæðum erlendis. Með þessari ráðstöfun í Neyðarlögum ríkisstjórnar Geirs Haarde var ríkið að vernda hagsmuni þegna sinna, en lét einkafyrirtæki sigla sinn sjó. Vilji erlendar ríkisstjórnir láta reyna á lagalegt réttmæti þessa gjörnings, þá höfða þær mál gegn ríkissjóði Íslands. Þetta hafa þær hingað til forðazt, og það er ekki af tillitssemi við íslenzka hagsmuni; svo mikið er víst. Allar þeirra ráðstafanir eru reistar á eigingirni og ótta við áhlaup á eigið bankakerfi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.12.2010 | 14:01
Evrópuhugsjónin fer halloka
Örlagatímar eru nú í Evrópu vegna bresta sameiginlegu myntarinnar á evrusvæðinu. Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), Herman van Rompuy, hefur lýst því yfir, að hrynji evran, þá líði ESB undir lok. Þessi ummæli vitna um sálarháska þeirra, sem telja Evrópumenn aðeins verða sáluhólpna, lúti þeir stjórnun og reglugerðasetningu miðlægs og sjálflægs skrifræðisbákns, sem lýtur takmörkuðu eða engu lýðræðislegu aðhaldi almennings í Evrópu. Þetta er ókræsileg Evrópuhugsjón, enda nær hún vart eyrum annarra en opinberra starfsmanna.
Þekktur hagfræðingur, Willem Buiter, sem í skýrslu, saminni fyrir íslenzku bankana sumarið 2008, taldi innviði þeirra vera svo fúna, að þeir væru þá komnir að fótum fram, hefur nú spáð falli evrunnar. Hann telur hagkerfi Spánar vera mun veikara en bókhaldsbækur sýna og gerir ráð fyrir því, að Evrópubankinn, ECB, sem gárungarnir kalla EBB (European Bad Bank í stað - Central Bank), muni hefja stórfellda prentun peninga í örvæntingarfullri tilraun miðstýringarmanna í Frankfurt og Brüssel til bjargar Spáni.
Á talsmönnum þýzkra viðhorfa í þessum efnum er hins vegar ekki að heyra, að gripið verði til þess óyndisúrræðis, og tónninn í Berlín er tekinn að draga dám af rómi þýzks almennings, sem líkir opinberum stuðningi við nauðstadda banka við það að reyna að fylla baðker án tappa í niðurfallinu. Yrði prentun peninga hafin, mundi það leiða til mikillar verðbólgu, og til þess er reyndar leikurinn gerður að grynnka á skuldum evruríkjanna með greiðslum með verðminni mynt.
Þjóðverjar mega hins vegar ekki til slíks óstöðugleika hugsa, sem af slíku kynni að leiða, í ljósi sögunnar. Weimar lýðveldið féll 1933 vegna ráðleysis ríkisstjórna, fjöldaatvinnuleysis, óðaverðbólgu og auðmýkingar að hálfu Vesturveldanna með Versalasamningunum 1919. Þýzkur almenningur hefur nú fengið það á tilfinninguna, að ætlunin sé að láta hann greiða skuldir allra evruríkjanna, sem á þurfa að halda. Þetta er nú að renna upp fyrir stjórnendum við Potzdamer Platz, sem standa andspænis stjórnmálalegum rústum, eða að láta Spán róa og þar með evruna. Því skal spá hér, að lýðræðið verði ofan á við ákvarðanatöku í Berlín og dálæti Þjóðverja, Deutsche Mark, sjái dagsins ljós að nýju.
Við þessar aðstæður líður Alþingi Íslendinga s.k. félagshyggjustjórn, ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna, að halda út í aðlögunarferli stjórnkerfis landsins að kröfum ESB á röngum forsendum með miklum peningalegum útlátum úr ríkissjóði, beinum og óbeinum.
Ríkisstjórnin er í óleyfi við þetta ferli vegna þess, að reginmunur er á samningaviðræðum, sem Alþingi samþykkti með semingi 16. júlí 2009, svo að vægt sé til orða tekið, og aðlögunarferli. Þá var aldrei minnzt á aðlögun, heldur viðræður, jafnvel könnunarviðræður, með það að markmiði að athuga, hvað byðist í Brüssel. Grátleg grautargerð það. Gagnaðilinn, ESB, hefur hins vegar ekki farið í launkofa með eðli málsins og að í boði væri aðeins ein með öllu, Evrópuhugsjón,stofnsáttmálar, lög og tilskipanir ESB, án nokkurra varanlegra undanþága.
Því má svo bæta við þessar hugleiðingar, að jafnvel þótt undanþágur fengjust við lok aðlögunarferlisins, sem auðvitað væru ætlaðar sem agn fyrir þing og þjóð, þá yrðu þær haldlausar síðar meir, ef einhver aðildarþjóðanna mundi kæra þær til Evrópudómstólsins, sem dæmir jafnan stranglega eftir stofnsáttmálum ESB. Þar með væri fjöregg þjóðarinnar dæmt í útlegð til Brüssel, og Alþingi og ríkisstjórn í Reykjavík yrðu að lúta boðvaldi þaðan, t.d. varðandi nýtingu lands og sjávar.
Af þessum sökum öllum leggst Alþingi með eindæmum lágt nú að láta bjóða sér framhald þessa ólýðræðislega ferlis, sem Samfylkingin keyrir nú fram af offorsi gegn vilja allra hinna stjórnmálaflokkanna. Það er skammarlegt út á við og slæm framkoma við ESB að halda því uppi á snakki af algjörri sýndarmennsku og bruðla þannig með fé skattborgaranna, sem í þokkabót er tekið að láni. Sannast þar enn, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er siðlítil og ábyrgðarlaus.
Það virðist bera brýna nauðsyn til að auka veg Alþingis og sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu. Almennara má orða þetta svo, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir í Stjórnarskrá til eflingar þrígreiningar ríkisvaldsins og til eflingar gagnkvæmu aðhaldi.
Aukin valddreifing og gagnkvæmt aðhald allra þriggja greina ríkisvaldsins er nauðsyn í okkar fámenna þjóðfélagi, þar sem tilhneiging er til valdsamþjöppunar, klíkuskapar og annarra meinsemda lítils kunningjasamfélags. Þá er alkunna, að staða forsetaembættisins er óljós og hálfutanveltu í fámennu íslenzku þjóðfélagi.
Til mótvægis þessum veikleikum og áhættuþáttum mætti slá tvær flugur í einu höggi og sameina embætti forseta lýðveldisins og forseta Alþingis. Forseti Alþingis yrði með öðrum orðum kosinn beint af þjóðinni samhliða Alþingiskosningum og mundi við það öðlast visst sjálfstæði frá stjórnmálaflokkunum, og hann mundi veita Alþingi forystu um aðhald að ríkisstjórn, þar sem ráðherrar gegndu ekki þingmennsku og hann hefði ekki atkvæðisrétt. Til að lög öðluðust gildi yrði forsetinn að undirrita þau, og hann gæti synjað lögum staðfestingar þar til þjóðin hefði greitt um þau atkvæði. Viðbótarleiðir til að framkalla þjóðaratkvæði væru tilmæli 20 þingmanna til forseta um slíkt, sem hann féllist á, eða undirskriftir 20 % atkvæðisbærra manna, sem skilmálalaust gætu framkallað þjóðaratkvæði.
Til greina kemur að fækka þingmönnum um 14, að ráðherrarnir verði 7 og að komið yrði upp Stjórnlagadómstóli 7 manna. Þangað yrði hægt að vísa til úrskurðar deilum um það, hvort samningar ríkisstjórnar, lög þingsins eða dómar Hæstaréttar brytu í bága við Stjórnarskrá landsins. Forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar mundu skipa þessa 7 dómara. Í Hæstarétt mundi Forseti Alþingis skipa að fengnum tillögum innanríkisráðherra og Hæstaréttar.
Nýkjörið stjórnlagaþing þarf að leggjast undir feld og velta fyrir sér fjölmörgum öðrum mikilvægum málum, er varða stjórnun ríkisins, kjördæmaskipan, kosningafyrirkomulag, og rétt minnihluta. Eitt af þessu er að móta reglur um með hvaða hætti Stjórnarskrá verður breytt í framtíðinni. Það má hugsa sér, að frumkvæðið gæti komið frá forseta Alþingis eða Alþingi, sem mundu senda tillögu Stjórnlagadómstóli til umsagnar og síðan þjóðinni til staðfestingar eða synjunar.
Eitt er þó víst, að núverandi Stjórnarskrá verður ekki breytt með öðrum reglum en þeim, sem hún sjálf mælir fyrir um. Það er ótrúleg hegðun að hálfu þess stjórnlagaþingmanns, sem myndin hér til hliðar er af, að hreyta því í Alþingismenn, að þeir skuli senda tillögur stjórnlagaþings óbreyttar og umsvifalaust í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mega Alþingismenn ekki gera, því að Stjórnarskráin kveður á um, að tvö Alþingi þurfi til að samþykkja Stjórnarskrárbreytingu og Alþingiskosningar á milli. Var þetta alveg ótrúlegt frumhlaup að hálfu prófessorsins og lofar ekki góðu um framhaldið.
Þetta var með eindæmum hrokafull hegðun í ljósi þess, að líta má svo á, að meirihluti þjóðarinnar sé á móti því að setja þetta stjórnlagaþing á laggirnar nú, þar sem hann hunzaði kosningarnar. Úr því að stjórnlagaþing er nú samt að taka til starfa ber að brýna fyrir því auðmýkt gagnvart því mikilvæga starfi, sem fulltrúarnir 25 eru nú að takast á herðar, og það verður að vona, að lýðskrum víki fyrir íhygli og vönduðum vinnubrögðum. Niðurstaðan verði innviðum lýðveldisins til eflingar að beztu manna yfirsýn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)