Einföld spurning - eindrægt svar

Það er stórfurðulegt, að landsmenn þurfi nú að tjá sig í þjóðaratkvæðagreiðslu öðru sinni um hið alræmda "Icesave-mál".  Það hefðu þeir ekki þurft að gera, ef allt væri með felldu með stjórnarhætti í landinu.  Því er hins vegar engan veginn að heilsa.

Eftir afhroð ríkisstjórnar félagshyggjunnar, 6. marz 2010, í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave#2, átti ríkisstjórnin að segja af sér samkvæmt lýðræðisreglum.  Mikill ágreiningur var þá uppi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málið, og forseti lýðveldisins vantreysti ríkisstjórninni, sem lagði fyrir hann málið í Ríkisráði.  Þjóðin hafnaði síðan með yfirgnæicesave_svidsmyndir_gamma1fandi meirihluta greiddra atkvæða að greiða skuldir óreiðumanna.  Ríkisstjórnin hlaut þannig tvöfalda hirtingu, en lafði áfram, löskuð, gegn viðteknum reglum lýðræðis. 

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa engan skilning á milliríkjasamskiptum og hafa látið áróðursvélar fjármálageirans, ESB (Evrópusambandsins) og landanna tveggja, sem hlut eiga að máli, Bretlands og Hollands, telja sér trú um, að íslenzka ríkinu beri skylda til að ábyrgjast skuldir þrotabús Landsbankans, gamla, að svo miklu leyti sem eignir Innistæðutryggingasjóðs hrökkva ekki til. 

Ráðherrarnir hafa reynzt algerar rolur í viðureigninni við ofangreind auðvaldsöfl og ekki beitt sér nokkurn skapaðan hlut, heldur látið embættismönnum og stjórnmálalega skipuðum nefndum um að bera hita og þunga leiksins.  Ráðherrarnir eru heimóttarlegir, skortir reynslu í samskiptum við útlendinga og málakunnáttu þeirra flestra er ábótavant.  Óbeysnastur að þessu leyti er þó forsætisráðherrann, sem ekki getur haldið uppi samræðum á erlendri tungu um einföldustu málefni, hvað þá rammflókin úrlausnaratriði.

Ef Íslendingar hefðu á undangengnun tveimur árum átt forsætisráðherra með bein í nefinu, sem ekki væri hækja Brüsselvaldsins, mundi sá hinn sami hafa tekið þetta stórmál á sitt eigið forræði og leitt það til lykta með starfsbræðrum sínum í Bretlandi og Hollandi.  Núverandi forsætisráðherra neitaði þjóðinni um rétt sinn til að kjósa nýtt Alþingi, sem hefði vafalaust orðið skömminni skárra en núverandi Alþingi, og lélegasti forsætisráðherra lýðveldissögunnar hefði þá verið leystur af hólmi. 

Samsæri auðvaldsins snýst um það að brjóta Íslendinga á bak aftur, svo að ekki verði til fordæmi skuldugra þjóða um að neita að hengja um háls sér óréttmæta skuldaklafa úr þrotabúum þessa sama auðvalds.  Bankaauðvaldið vill fyrir enga muni missa sitt öryggisnet.  Það heldur þess vegna uppi linnulausum hræðsluáróðri og beitir fyrir sig matsfyrirtækjum, AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) og öðrum liðléttingum. 

Ekki eru þó allir jafnlítilla sanda og sæva og þessir aðilar.  Ritstjórar tveggja virtustu blaða, sem um fjármál heimsins rita, "The Financial Times" og "The Wall Street Journal", hafa tekið upp hanzkann fyrir heilbrigða skynsemi og málstað íslenzkra skattborgara.  Þá hafa N-amerísk iðnfyrirtæki fjárfest hér, og síðustu fréttir herma, að Century Aluminium sé tilbúið að festa hér stórfé í nýju álveri, sem stjórnvöld þvælast hins vegar fyrir, t.d. varðandi orkuöflun.  Að halda því fram, að orkufyrirtæki landsins með samning upp á vasann um 20-30 ára trygga orkusölu fái hvergi í heiminum lán fyrr en ríkið gengst í ábyrgð fyrir fallin bankaútibú á Bretlandi og í Hollandi, er fjarstæðukennt.  Því verður með engu móti trúað, að hræðsluáróður peningavaldsins nái að grípa svo um sig, að þjóðin samþykki að taka á sig feikna viðbót við erlendar skuldir, sem nú þegar sliga hagkerfið, svo að innviðir samfélagsins líða mjög fyrir. 

Ef þjóðin hafnar "Icesave#3", hvers skuldabaggi getur hlaupið á bilinu ISK 50 - 250 mia., mun nákvæmlega ekkert gerast, sem einhverju máli skiptir fyrir hagkerfi Íslands.  ESA, úrskurðaraðili EFTA, og EFTA-dómstóllinn, kunna að góla eitthvað, en slíkt hefur ekkert lögformlegt gildi og verður aldrei annað en stormur í vatnsglasi.  Höfði andstæðingarnir mál fyrir aðfararhæfum dómstóli, verður að sækja málið í varnarþingi ríkissjóðs Íslands, sem dæma mun eftir íslenzkum lögum. 

Ríkisstjórnin hlýtur að berjast fyrir máli sínu, "Icesave#3".  Fái hún höfnun, verður henni engan veginn sætt lengur, nema hún ætli að fótumtroða allar lýðræðislegar hefðir.  Hún traðkar reyndar á dómsvaldinu og sýnir löggjafarvaldinu lítilsvirðingu.  "Alræði öreiganna", sem er einræði "nómenklatúrunnar" eða útvalinna flokkshesta, stendur hjarta ríkisstjórnarinnar næst.  Hún vanvirðir þrígreiningu ríkisvaldsins og sýnir Stjórnarskránni lítilsvirðingu. 

Með höfnun "Icesave#3" verður ríkisstjórn norrænnar helreiðar komin á leiðarenda, og þar af leiðandi verða Alþingiskosningar óumflýjanlegar fyrir alla stjórnmálaflokka.  Stund hefndarinnar mun þá renna upp og mikið blóð renna.  Upp úr þeim hildarleik hljóta að rísa bæði karlmenn og konur, sem meiri veigur er í en nú er að sjá í flestum sætum hinna 63 við Austurvöll.

Nei við löglausum drápsklyfjum nýlenduveldanna er heiðarlegt og eindrægt svar við óréttlæti erlendis frá og við innlendu hæfileikaleysi, getuleysi og einræðistilburðum.

 

Erlendar fjárfestingar í þróunarlöndum  

 

 

      

   

 


Hræðsluáróður ESB-áhangenda

Undirlægjuháttur margra landsmanna gagnvart ósvífinni kröfugerð Breta og Hollendinga, hvort tveggja gamalla nýlenduvelda, á hendur íslenzkum skattborgurum hefur ekki verið einleikinn.  Augljóslega er hræðsluáróðurinn ættaður frá Brüssel, enda hafa "kommissarar" þar einskis látið ófreistað að koma þumalskrúfu á Íslendinga í hinni bölvuðu Icesave-deilu.  Er skemmst að minnast framgöngu þeirra í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, en þar brutu Kínverjar að lokum ofríki Vesturveldanna á bak aftur.

Icesave-málið er grundvallarmál fyrir ESB og Íslendinga sitt með hvorum hætti.  Fjármálakerfi ESB stóð á brauðfótum um þær mundir, sem Hrunið varð hér.  Allmargir bankar Evrópu hefðu fallið, ef ríkisstjórnir í Evrópulöndunum hefðu ekki ausið úr kistlum ríkissjóðanna til stuðnings bönkunum.  Hefðu þær ekki gert þetta, er næsta víst, að sparifjáreigendur hefðu gert áhlaup á bankana, og margir þeirra hefðu fallið við það.  Þess vegna greiddu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands innistæðueigendum Icesave inneignir sínar.  Þetta gerðu þeir hins vegar án nokkurs samráðs við íslenzku ríkisstjórnina, og þess vegna er með öllu óskiljanlegt, hvernig þeim datt í hug að heimta íslenzka ríkisábyrgð á skuldbindingum Innlánstryggingasjóðs.  Sérstaklega er þetta ósanngjarnt í ljósi bágrar stöðu íslenzka ríkisins eftir Hrunið og í ljósi þess, að allir viðurkenna, að tilskipun ESB um Innlánstryggingasjóð tók hvergi fram, að ríkisábyrgð væri á þessum sjóði, og núverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, ECB, hefur lýst því yfir, að slíkt geti með engu móti átt við, ef um hrun heils bankakerfis sé að ræða, eins og segja má, að hérlendis hafi orðið í október 2008. 

Fimmta herdeild ESB á Íslandi hefur bergmálað söng ESB um "skuldbindingar" Íslendinga í þessu efni.  Þessi áróður er þjóðfjandsamlegur og er í raun stefnt gegn fullveldi landsins, þegar horft er til þess, hversu mjög þessar Icesave-byrðar munu vega að innviðum þjóðfélagsins og beinlínis stefna fjárhagslegu sjálfstæði landsins í þrot.  Þá hefur legið í landi, að Icesave-deilan væri hindrun á leið Íslands inn í ESB.  Þetta er meginástæða hinnar öfugsnúnu höfuðáherzlu, sem ríkisstjórnarflokkarnir, undirlægjur ESB, hafa lagt á að ná samningum um þetta mál. 

 Unnur Brá Konráðsdóttir

 

 

 

Innistæðulausum hræðsluáróðri hefur ótæpilega verið beitt af ESB-áhangendum og fylgifiskum þeirra til að fá þjóðina til að fallast á afarkostina, en án árangurs, nema á Alþingi, þar sem stór hluti þingheims missti niður um sig og  mun þannig neyðast til að horfast í augu við grasrót flokka sinna í fyllingu tímans.  Heiðarlegar undantekningar voru þó frá þessu, og verður ekki betur séð en nýr þingskörungur hafi komið fram á sjónarsviðið, þar sem er Unnur Brá Konráðsdóttir, og birtist mynd af henni hér að ofan. 

Eitt hálmstrá undirlægjanna hefur verið, að engar fjárfestingar í fyrirtækjum hérlendis muni fást fyrr en gengið væri endanlega að afarkostunum Breta og Hollendinga í nafni ESB.  Þetta var afsannað með MUSD 500 fjárfestingu Rio Tinto Alcan í Straumsvík, sem ákveðin var árið 2010, og nú í viku 07/2011, þegar tilkynnt var um væna fjárfestingu í nýju fyrirtæki, sem starfrækja á kísilverksmiðju í Helguvík.  Það er hins vegar athyglivert, að evrópsk fyrirtæki leggja ekki í neina meiriháttar fjárfestingu hérlendis, ef álþynnuverksmiðjan á Akureyri er undanskilin.  Allar helztu erlendu fjárfestingarnar í gjaldeyrisskapandi framleiðslufyrirtækjum hérlendis eiga rætur að rekja til Norður-Ameríku.  Samt erum við á Innri markaði Evrópu, þannig að frelsin fjögur eiga að vera við lýði í samskiptum Íslands og ESB.  Það er sláandi, hversu lítið hefur verið um beinar evrópskar fjárfestingar hér, og er fátt, sem bendir til breytinga á því, þó að af inngöngu Íslands í ESB yrði.  Þrátt fyrir orkuskort í Evrópu og þar af leiðandi hátt orkuverð hafa Evrópumenn ekki sýnt nægan áhuga fyrir stofnsetningu orkukræfra fyrirtækja hérlendis.  Málpípur þeirra hafa hins vegar rekið áróður fyrir andvana fæddum hugmyndum um sæstreng frá Íslandi til Evrópu, sem flutt gæti afl á borð við allt núverandi virkjað afl í landinu til raforkuvinnslu.  Samhliða minnkandi framleiðslu áls á meginlandi Evrópu, hafa kaup Evrópumanna á áli frá Íslandi aukizt, og það hentar Íslendingum ágætlega, að Norður-Ameríka fjárfesti hér til að anna eftirspurn í Evrópu.  Til þess þurfum við ekki að ganga ESB á hönd, heldur aðeins að hafa við það viðskiptasamninga eða að vera á Innri markaði þeirra.

Samsæri hins vestræna fjármálageira er vissulega fyrir hendi gegn Íslendingum.  Það kom margoft fram í kjölfar Hruns og helgast af því, að það er að sjálfsögðu í hag fjármálastofnana að hafa um sig öryggisnet ríkisábyrgðar.  Alla andstæðinga slíkrar ríkisábyrgðar á bankastarfsemi er reynt að kúga til hlýðni.  Þetta kemur berlega fram í yfirlýsingum svo kallaðra matsfyrirtækja á lánshæfni íslenzka ríkissjóðsins.  Það nær auðvitað engri átt, að lánshæfni hans aukist við að taka á sig skuldbindingar á bilinu ISK 50-250 mia.  Þetta er áróðursbragð fjármálageirans, og þessu gleypa undirlægjur ríkisstjórnarinnar við.  Öðru vísi mér áður brá, þegar félagshyggjuflokkarnir reistu jafnan burst gegn ásókn alþjóðlegs auðvalds.  Nú liggja væsklar einir þar á fleti fyrir og sýna af sér algert manndómsleysi.

Því er einnig haldið fram, að íslenzk fyrirtæki fái verri lánafyrirgreiðslu, ef ríkið ekki ábyrgist Icesave.  Þetta stríðir gegn venjulegum viðskiptalögmálum.  Fjármagn leitar einfaldlega þangað, sem ávöxtunin er öruggust og bezt.  Það eru aðrir þættir í íslenzku efnahagsumhverfi, sem mjög hafa dregið úr arðsemi fjárfestinga á Íslandi, og það eru allt handaverk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Til að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju þarf að kveða niður draug sameignarstefnunnar, þjóðnýtingu auðlindanna og ofurskattlagningu á einkaframtakið, fyrirtæki og heimili.  

    

   

  


Orð eru dýr

Í nauðvörn ringulreiðar eftir Hrun lýstu ráðherrar í ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde yfir vilja til samninga um bætur úr ríkissjóði Íslands til innlánseigenda Icesave til að tryggja þeim EUR 20000 í hlut.  Síðar var dregið í land og lýst yfir, að ekki væri um skuldbindingu að hálfu íslenzka ríkisins að ræða.

Mikill tími hefur farið í samningaviðræður, svo að ríkisstjórn landsins hefur staðið við upphafleg orð Geirsstjórnarinnar um vilja til samninga.  Því var hins vegar aldrei lofað að semja skilyrðislaust, enda var um algera afarkosti að ræða, sem landsmenn aldrei hefðu getað staðið undir með góðu móti.    Hörmungarframmistaða fulltrúa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er öllum kunn, enda verður ekki lægra lotið. 

Það var ekki fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn kom að samningunum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. marz 2010, þar sem algjöru vantrausti var lýst á ríkisstjórn norrænnar helreiðar, að eitthvert vit varð í þeim.  Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skipaði hæfan og mætan lögmann, sem á opinberum vettvangi hafði, ásamt lagaprófessor við Háskóla Íslands, verið rödd heilbrigðrar skynsemi og góðrar lögfræði í umræðum um hörmungina, sem ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna tróð gegnum þingið og ætlaði að reka með valdi ofan í kok þjóðarinnar.  

Engu að síður er niðurstaðan enn ósamþykkjanleg fyrir skattborgara þessa lands.  Vaxtagreiðslur og afborganir á bilinu 50-250 milljarðar ofan á núverandi skuldasúpu ríkissjóðs getur hæglega riðið honum að fullu.  Það yrði reiðarslag, efnahagsáfall og mikill álitshnekkir fyrir Íslendinga, ef ríkissjóður þeirra kæmist í greiðsluþrot.  Slíkt mundi þýða torfengin og dýr lán frá útlöndum vegna tortryggni lánadrottna í áratug á eftir.  Þetta mundi leiða til hækkunar vaxta og ládeyðu í hagkerfinu, jafnvel samdráttar og þar af leiðandi rýrnandi kaupmáttar ár eftir ár.  Hagkerfið yrði fársjúkt, eins og í alþýðulýðveldi, nema vaxandi atvinnuleysi og landflótti mundi engum dyljast. Á þetta er engan veginn hættandi.  Líkindi á lögsókn að hálfu Breta og Hollendinga eru minni en 50 %, og lakari útkoma en samningunum nemur vart hugsanleg.  Slíkt yrði saga til næsta bæjar og einsdæmi í sögunni á friðartímum.   Hvers vegna hafa þeir ekki farið þá leið enn ?  Staðan er einfaldlega þannig, að lög standa ekki að baki kröfunni, og efnahagsástand Íslands er með þeim hætti eftir Hrun nánast alls fjármálakerfis landsins, að landið getur ekki bætt á sig meiri erlendum skuldbindingum.  Þetta er nauðvörn. 

Þar að auki brýtur það gegn Stjórnlögum landsins að skuldbinda ríkissjóð fyrir óvissri upphæð, eins og prófessor emerítus, Sigurður Líndal, hefur bent á.  Þennan samning, sem reistur er á löglausum kröfum Breta og Hollendinga, má af efnahagslegum, lögfræðilegum, sanngirnis- og stjórnmálalegum ástæðum alls ekki samþykkja.  Við slíkt hæfist útstreymi úr gjaldeyrisvarasjóðinum, sem leiða mun til enn meira falls krónunnar, ef að líkum lætur, sem leitt getur til óðaverðbólgu, eins og í Weimarlýðveldinu, og langrar frestunar á afnámi gjaldeyrishaftanna.  Allt mundi þetta leiða til þess, að þjóðin drægist mjög afur úr öðrum vestrænum þjóðum í lífskjörum.

Líta má svo á, að örlög Icesave-málsins séu enn hjá þjóðinni.  Það eru grundvallarmannréttindi að fá að tjá sig í leynilegum kosningum um svo miklar álögur, sem hér er um að tefla, og um svo örlagaríkt mál.  Gildir þá einu, hversu stór meirihluti á Alþingi verður fyrir málinu.  Vegna stefnumarkandi afstöðu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins er þingmönnum flokksins ekki stætt á að veita þessu máli brautargengi.  Fylgismenn samningsins, sem er miklu betri en þeir fyrri, eiga að sitja hjá, en þingflokkurinn ætti að sameinast um kröfuna um þjóðaratkvæði.  Annað yrði stjórnmálalegt glapræði.

Hér skal fullyrða, að engin þjóð í Evrópu léti bjóða sér aðra eins afarkosti ótilneydd og að greiða í erlendum gjaldeyri til útlanda vegna falls einkabanka USD 1360 - USD 7000 á hvert mannsbarn.  Þetta er þó það, sem Íslendingum er boðið upp á þessa dagana.  Þeir eiga að halda sig við lagalegan rétt sinn og hina íslenzku leið, sem er fólgin í því að hafna hengingaról um háls skattborgara til stuðnings fjármálakerfis í einkaeigu, umfram það, sem rétt stofnaður tryggingasjóður annar.

 

 D2409TQ37

 

 

Í ríkisstjórn Jóhönnu er umhverfisráðherra, sem hraut ofan á skýrsluhaugum í ráðuneyti sínu um díoxín útblástur ofan leyfilegra marka frá sorpeyðingarstðvum í landinu.  Sami ráðherra hefur staðið fyrir eitrunarherferðum á hendur gróðri, en eitrið endar skiljanlega að lokum ofan í fólki.  Allt er þetta óafturkræft, sem í fólk kemst, því að eitrið festist í vefjum líkamans.  Svandís Svavarsdóttir rumskaði ekki fyrr en díoxínmálið komst í hámæli.  Fyrir stórfellda vanrækslu í starfi ber þess vegna þinginu að ákæra hana og senda hana fyrir Landsdóm fyrir vikið.

Málsmeðferð þessa dæmalausa ráðherra ber merki siðblindu ráðstjórnar, og hún er löglaus.  Ráðherrann hefur á öllum stigum þvælzt fyrir staðfestingu á skipulagi Flóahrepps og haldið honum í gíslingu eigin stjórnmálakredda í tvö ár.  Skipulag Skeiða-og Gnúpverjahrepps hefur af sömu ástæðum verið í uppnámi.  Um hag almennings skeytir ráðherrann engu.  Hún er í stjórnmálum til að vinna þröngsýnum sjónarmiðum ofstækis brautargengi, þó að slíkt jafngildi skemmdarverkastarfsemi á hagkerfi landsins.

Áðfarir hennar voru löglausar dæmdar í héraði, en ráðherrann hékk eins og hundur á roði á ógildingu skipulagsins með þeim öfugsnúnu ráðstjórnarrökum, að fyrirtækjum væri ekki í lögum leyft að greiða fyrir vinnu vegna undirbúnings mikilla framkvæmda í litlum sveitarfélögum.  Það er ekki heil brú í þessum ráðherra, enda var úrskurður Héraðsdóms nú í viku 6/2011 staðfestur af Hæstarétti.  Orðhengilsháttur, mismunun og hrein valdníðsla þessa afturhaldsstjórnmálamanns hefur valdið íbúm Flóahrepps miklu tjóni og kann vel að hafa tafið viðreisn hagkerfis landsins, því að málið snerist um Urriðafossvirkjun og þar með allar virkjanirnar í Neðri-Þjórsá.  Díoxínráðherrann fékk á snúðinn, en eins og vænta mátti er siðblinda ráðstjórnarinnar og valdagræðgi næg til að spýja yfir landslýð orðhengilshætti og algerum þvættingi í kjölfar Hæstaréttardóms, sem á að réttlæta áframhaldandi setu í ráðherrastóli.  Þessi ráðherra er óhæfur til að gegna hlutverki handhafa framkvæmdavalds í lýðræðisríki.   

  

  

 

falkinn1_444247


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband